17.02.1961
Neðri deild: 65. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 114 í C-deild Alþingistíðinda. (1823)

38. mál, loðdýrarækt

Jón Pálmason:

Herra forseti. Ég kvaddi mér nú aðeins hljóðs til þess að sýna fram á það betur en ég gerði í gær, að till. hv. landbn. gefur ekkert tilefni til þess að fara að þræta hér um minka og minkarækt, og það, sem hv. samþingismaður minn, 1. þm. Norðurl. v., sagði hér í gær, sýndi það, að hann veður í því efni í villu og svíma, og er þó undarlegt með svo þingvanan mann. Hann talaði um hugleiðingar landbn., eins og það væri tillaga. Till. hennar er ekkert annað en það að vísa málinu til ríkisstj., og ef hv. 1. þm. Norðurl. v. og aðrir, sem eru svipaðs sinnis, vilja tryggja sig gegn því, að þeir verði ekki bendlaðir við það, sem landbn. er að mæla með, minkaeldi, þá er það ákaflega auðveldur leikur, sem sé sá að biðja um nafnakall og lýsa því yfir, að þeir greiði því atkv. að vísa málinu til ríkisstj. í því trausti, að stjórnin geri ekki neitt í því. Þess vegna er það svo, að ég tel, að við þurfum ekki að vera að þræta hér um minkaeldi, og geti bæði þeir, sem eru á móti því og með, greitt því atkv. að vísa þessu máli til ríkisstj., því að það er engin önnur till. frá hv. nefnd.