17.02.1961
Neðri deild: 65. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 117 í C-deild Alþingistíðinda. (1827)

38. mál, loðdýrarækt

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Ég hafði orð á því hér í gær, að ég vildi taka til athugunar, hvort ekki væri ástæða til að flytja till. til rökstuddrar dagskrár í málinu, vegna þess að ég var óánægður með orðalag á niðurlagi nál. frá hv. landbn., þar sem hún vill leggja það fyrir ríkisstj. að semja frv. í ákveðna stefnu í þessu máli. En eftir það, sem síðan hefur fram komið, sé ég ekki ástæðu til þess að flytja sérstaka till. um málið. Hv. formaður og frsm. landbn. hefur látið það uppi nú í ræðu, að það væri hans skoðun og mér skilst reyndar n. allrar, að ríkisstj. eigi, ef hún fær málið, að athuga það í heild gaumgæfilega. Ég skildi hann þannig, að hann teldi, að stjórnin ætti að athuga málið í heild og þá fyrst og fremst höfuðatriði málsins, hvort eigi að leyfa innflutning á minkum og minkaeldi hér eða ekki, — þetta er aðalatriði í málinu, — og síðan mundi ríkisstj. skila áliti og tillögum til Alþingis í samræmi við þær niðurstöður, sem hún kæmist að eftir athugun á málinu og aðalatriði þess. Þetta get ég vel fellt mig við, þegar þessi skilningur er fram komin. Þetta kom í raun og veru líka fram í ræðu hæstv. landbrh. í gær, að hann var með nál. í höndunum og sagðist skilja það þannig, að til þess væri ætlazt, að ríkisstj. athugaði málið gaumgæfilega í heild og þá að sjálfsögðu þetta aðalatriði þess, sem ég nefndi. Hann sagðist að vísu vera gleraugnalaus, og við sáum, að hann var það, og ég held líka, að það sé eina skýringin, sem hægt er að gefa á þessari túlkun hæstv. ráðh. á álitinu. En ég vil vænta þess samt, að hann haldi við þennan skilning sinn og breyti samkv. því, og ef hann fer að lesa nál. einhvern tíma aftur yfir, þá vona ég, að hann verði þá einnig gleraugnalaus, til þess að hann skipti ekki um skoðun á þessu. En það kom fram nú í dag, að það hafa fleiri gleymt þessum nauðsynlegu tækjum heima hjá sér en ráðh., því að hv. 4. þm. Norðurl. v. hefur líka gert það.

Sem sagt, ég tel, að það sé komið fram hér, bæði frá hæstv. ráðh. og ýmsum fleiri, þ. á m. nefndarmönnum, að til þess sá ætlazt af stjórninni, ef hún fær málið, að þá athugi hún það allt gaumgæfilega og þá auðvitað fyrst og fremst aðalatriði málsins, hvort eigi að leyfa þetta eða ekki, og skili svo tillögum í samræmi við þær niðurstöður, sem hún kemst að. Þess vegna get ég, að fengnum þessum skýringum öllum, greitt atkv. með því að vísa frv. til stjórnarinnar.