21.02.1961
Neðri deild: 67. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 126 í C-deild Alþingistíðinda. (1835)

49. mál, jarðræktar- og húsagerðarsamþykktir í sveitum

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Í þeirri mþn., sem fram hefur komið í umr. að hafi undirbúið frv. um starfsemi ræktunarsambandanna, átti sæti einn af varaþm. Alþfl., Pétur Pétursson. Hann lét þar í ljós nokkuð sérstæða skoðun á því máli, sem mér þykir rétt að skýra hér frá í mjög stuttu máli.

Hann benti á það höfuðatriði í sambandi við skipulagningu ræktunarsambandanna, að þau eru hér á landi ákaflega misjafnlega stór og að rannsókn á starfsemi þeirra sýnir, að þau eru ákaflega misjöfn að öllum rekstri, þ. á m. að hagkvæmni í rekstri, reglusemi um innheimtu og góðan fjárhag. Þarna er allt að finna frá stórum og hentugum samböndum, sem eru mjög vel rekin, til hreinnar fyrirmyndar, og niður í sambönd, sem hafa vafasaman starfsgrundvöll og ýmislegt er hægt út á að setja hvað rekstur snertir. Það var hugmynd Péturs í n., að tekið væri til athugunar, hvort ekki væri rétt að reyna að endurskipuleggja ræktunarsamböndin, sem starfa með svo dýrum vélum sem raun ber vitni, þurfa mikla fjárfestingu og gegna ákaflega mikilvægu hlutverki, þannig að samböndin væru færri og stærri, hefðu þar af leiðandi meira vélaval, meira starfsmannaval hvert — og það, sem skiptir höfuðmáli, hefðu sæmilega skynsamlegar aðstæður til þess að hagnýta til fullnustu vélar, geyma þær og halda þeim við yfir veturinn. Í sambandi við þetta er mjög mikið vandamál víða í sveitum, hvernig hægt er að koma viðhaldi og viðgerð vélanna fyrir, og ýmis dæmi eru um það, að einstakir menn, sem eru að reyna að setja sig niður, eiga í erfiðleikum með afkomu, vegna þess að þetta skipulag á notkun véla, sem í heild eru að verðmætum margir tugir milljóna, er eins og það er.

Sjálfsagt er að viðurkenna, að það er auðveldera að setja svona hluti niður á pappír heldur en í raunveruleikanum, og hér kemur vissulega til greina ýmis sérstaða, sérstaklega landfræðilegar aðstæður, í sambandi við hagnýtingu á þessum vélum. En ég vildi benda á, að uppi voru í n. hugmyndir, sem vissulega eru þess virði, að þær væru athugaðar nánar, og frá mínum bæjardyrum, séð tel ég þess vegna æskilegt, að nánari umhugsun um þetta frv. eigi sér stað og fleiri aðilar fjalli um það en hingað til hefur verið. Þegar starfsemi eins og ræktunarsambanda er í litlu héraði, verður að leggja alvarleg trúnaðarstörf á einhverja þeirra fáu manna, sem þar eiga hlut að máli. Þar á meðal eru þau trúnaðarstörf að skammta vinnu véla yfir bezta vinnutímann og innheimta og vinna bókhaldsstörf, sem oft geta verið ærið viðkvæm á milli nágranna. Allt þetta eru gallar, sem hafa komið fram og benda til þess, að ástæða sé til fyrir okkur að athuga, hvort við getum ekki með endurskipulagningu á ræktunarsamböndunum skipulagt ræktunarstarfið í þessu litla landi okkar þannig, að við fáum út úr því eins hagkvæman rekstur sambandanna og framast er unnt, eins mikla, nýtingu á þessum dýru vélum og framast er unnt, — en á því hefur mikill skortur verið, — og að við getum komið upp um allt land góðri viðgerðarþjónustu með fasta menn í þjónustu þessarar starfsemi allt árið, í staðinn fyrir það að láta menn, sem eru ráðnir nokkrar vikur, fá í hendur þessi dýru tæki. Allir vita, að slíkar mannaráðningar verða ekki til að gera meðferð tækjanna eins góða og hún þyrfti að vera. Ég vildi aðeins skjóta þessu atriði hér inn sem einu dæmi um það, að það er ýmislegt fleira en fjárhagslegur styrkur, sem felst í þessu máli, og það er ýmislegt í þessu, sem gefur tilefni til að hugsa málið vel, áður en löggjöf er sett.

Ég hygg, að það sé í einhverju sambandi við tillögur Péturs Péturssonar í n., að n. gerir ráð fyrir auknu eftirliti vélanefndar með starfsemi ræktunarsambandanna. En hún gerir till. um ráðningu á nýjum eftirlitsmanni, sem sjálfsagt kostar sína peninga og ætti svo að ferðast á milli. Ég tel, að íhuga ætti það mál mjög vandlega, áður en fjölgað er starfsmönnum til slíks eftirlits, og kanna, hvort menn eru á einu máli um, að slíkt eftirlit sé líklegt til þess að svara kostnaði.

Ég vil að lokum segja það í sambandi við sjálfan styrkinn, að ég hef fengið svipaðar upplýsingar og landbrh. gat hér um áðan hjá öðrum aðila en hann tilgreindi, að nú séu einmitt komnar á markaðinn vélar frá Englandi og Þýzkalandi, sem séu miklum mun ódýrari en þær, sem hingað til hefur verið talað um. Það hefur verið talað um við landbn. þessarar hv. d., að vélarnar kosti með nauðsynlegustu tækjum rúmlega milljón króna. En viðhorfið er töluvert annað, þegar sú upphæð er komin niður fyrir hálfa milljón. Mér sýnist með tilliti til þeirra upplýsinga svo og þeir raunhæfu eftirspurnar, sem virðist vera á vélakaupum á þessu vori, að áframhaldandi kaup og þar með áframhaldandi ræktun sé ekki í neinni hættu, þó að þetta mál fengi nánari umhugsun og nánari athugun. Af þessum sökum hef ég með tveimur öðrum nm. skrifað undir þá till., að þessu máli verði að sinni vísað til ríkisstjórnarinnar.