21.02.1961
Neðri deild: 67. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 128 í C-deild Alþingistíðinda. (1836)

49. mál, jarðræktar- og húsagerðarsamþykktir í sveitum

Frsm. minni hl. (Ágúst Þorvaldsson):

Herra forseti. Hv. 5. þm. Vesturl. ræddi um það, hversu mikið nauðsyn væri á því að bæta sem mest umhirðu um vélarnar og reyna að koma á nýju skipulagi í þessum málum um landið allt. Ég vil taka undir þetta. Þetta er vissulega alltaf nauðsynlegt að reyna, að bæta rekstur fyrirtækja og fara sem bezt með þau tæki, er menn hafa með höndum, og gildir það vitanlega ekki síður um þessar ræktunarvélar en aðrar vélar. Og vissulega er það rétt, að ræktunarsamböndin eru mjög misstór. Hvernig það kann að takast að steypa þeim saman í stórar heildir, það er aftur annað mál og veldur þar um, að ég hygg, mjög landslag og aðstæður, landfræðilegar aðstæður hjá okkur, að það mun verða erfitt að steypa mörgum smáum ræktunarsamböndum saman í stórar heildir, því að víða er það svo í landi okkar enn þá, að ekki er nú betur vegað og brúað víða um landið en svo, að það er ekki hægt að koma þessum tækjum á milli enn þá, svo að ég geri ráð fyrir því, að það geti orðið nokkur dráttur á því enn, að hægt verði að breyta þessu skipulagi nokkuð, svo að teljandi sé.

Þá talaði hann eins og hæstv. landbrh. um það, að nú væru að koma á markaðinn vélar af sömu stærð og ég var að tala hér um, á miklu lægra verði en gert var ráð fyrir. Og það er sannarlega gott að vita til þess, að það muni vera hægt að fá slíkar vélar. En hitt er annað mál, að ræktunarmennirnir og ræktunarsamböndin yfirleitt hafa óskað eftir að stækka sínar vélar frá því, sem þær voru. Vélar af þessari miðlungsstærð hafa ekki þótt henta upp á síðkastið og það hefur verið mikil ásókn í það að fá stærri vélar. Á s.l. ári hygg ég, að tvö ræktunarsambönd hafi keypt vélar af stærri gerðinni, sem kostuðu á aðra milljón.

Í sambandi við það, sem hæstv. landbrh. var að segja hér áðan, að hann hefði spurnir af því eða vissu fyrir því, að ýmsir forustumenn ræktunarsambanda teldu lánaleiðina eðlilega og ágæta og teldu þetta, eins og það er núna, í allgóðu lagi, þá vil ég segja það, að einn formaður ræktunarsambands, sem fékk aðra þessa vél á s.l. ári, hringdi til mín í morgun og sagði frá því, að hann væri búinn að fá 200 þús. kr. styrk út á þessa vél, sem kostaði rúma milljón, og var að furða sig á því, hvernig stjórnarvöldum dytti í hug að styrkja þetta svona lítið, í svona smáum stíl. Hann hafði heyrt minnzt á lánaleiðina, en hann spurði mig, hvar peningar mundu þá vera, hvort það væri séð fyrir því, að peningar yrðu til, til þess að lána í þetta. Um það vissi ég ekki, og vitaskuld reynir á það innan skamms, hvort hæstv. landbrh. sér fyrir því, að ræktunarsjóður hafi fé til þess að lána út á þessar vélar. Ég get vel viðurkennt, að það kunni að mega leysa þetta spursmál að töluverðu leyti, ef fengjust hagkvæm lán, lán til langs tíma með lágum vöxtum. Þá mundi það bæta mjög úr fyrir ræktunarsamböndunum, ef hægt yrði að fara inn á þá leið.

Hæstv. landbrh. fann það helzt til foráttu þessu frv., sem ég og við nokkrir alþm. höfum flutt hér um þessi mál, að það sé í sama formi og áður. En sannleikurinn er sá, að það er einmitt það, sem bændur og ræktunarmenn um land allt hafa talið fullnægja sér, að fá helmingsstyrk út á vélarnar, og ég hygg, að bændur almennt geri ekki hærri kröfur en svo, að ef þeir gætu fengið helmingsstyrk út á þessar vélar, þá létu þeir sér það lynda, þrátt fyrir það þó að þær hafi nú stigið mjög í verði frá því, sem áður var.

Landbrh. hæstv. vefengdi, að ég hefði farið rétt með, að um 20 sambönd þyrftu nú eða vildu kaupa vélar. Ég held, að þetta fari ekki á milli mála, því að hjá vélanefnd ríkisins liggja fyrir umsóknir frá um 20 ræktunarsamböndum, — ég man ekki alveg, hvort þau eru 19 eða 20, — liggja fyrir umsóknir og meðmæli um styrkveitingu, svo að ég fer þar ekki með rangt mál.

Hæstv. landbrh. taldi leiðinlegt að heyra það, að ég væri að tala um vonleysi hjá bændum og að þeir væru farnir að draga úr sinum framkvæmdum. En þetta er ekki neinn uppspuni úr mér. Þetta er þannig. Það liggja fyrir tölur um það, hve mikið dróst saman á s.l. ári gröfturinn hjá vélum vélasjóðs, en það er um rúm 20%, sem skurðagröfturinn minnkaði, og ég hef talið það bera vott um, að bændur væru að draga saman seglin í framkvæmdum. Mér er fullkunnugt um það sem bónda og allkunnugum manni í sveitum, a.m.k. hér sunnanlands, að samdráttur í verklegum framkvæmdum hjá bændum var gífurlega mikill á s.l. ári, og vitaskuld er þessi samdráttur af því, að þeir hafa ekki haft fé til framkvæmdanna, en ekki af því, að verkefnin séu ekki fyrir hendi, því að þau eru svo mikil, að fram úr því verður ekki séð að leysa þau.

Þá spurði hæstv. landbrh., hver ég héldi að hlutur bænda væri nú, ef stefna vinstri stjórnarinnar hefði ráðið og réði enn í landinu. Ég er sannfærður um það, ef sú stjórnarstefna hefði fengið að ráða og þær ráðstafanir, sem búið var að gera, hefðu fengið að njóta sín, að nú væri blómlegt atvinnulíf í landinu og fólkinu liði vel, í staðinn fyrir að nú logar hér allt í ófriði og vinnudeilum og ekki annað fyrirsjáanlegt en að stórkostlega þrengist hagur þessarar þjóðar nú á næstu mánuðum. Og ef það væri rétt, sem hæstv. landbrh. vill vera láta, að viðreisnin hafi reynzt þjóðinni svona vel, af hverju eru þá þessar vinnudeilur og ófriður í landinu núna? Af hverju lætur fólkið sér ekki líka vel þessa viðreisn og þessa góðu stjórnarstefnu, sem hann er að lofa? Nei, sannleikurinn er sá, að fólkið finnur, að það hefur verið þrengt mjög að þess kjörum, og það eru ekki sízt bændurnir. Þeir finna, hversu þrengt hefur að þeim. Ég þykist geta úr flokki talað, þar sem ég er einn úr þeirri stétt og veit vel um það, að mjög hefur þrengt að efnahag bænda á síðastliðnum missirum.