21.02.1961
Neðri deild: 67. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 130 í C-deild Alþingistíðinda. (1837)

49. mál, jarðræktar- og húsagerðarsamþykktir í sveitum

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð. Ræða hv. síðasta ræðumanns gefur ekkert tilefni til þess að halda hér langa ræðu um þetta mál. Hann segir, að annar forustumaður þess ræktunarsambands, sem keypti stóra vél í fyrra, hafi talið, að 200 þús. kr. styrkur væri alls ekki fullnægjandi fyrir sitt samband. Ég get vel trúað því, að hann hafi sagt það,enda er hér boðið upp á allt annað og meira en aðeins 20% styrk af kaupverði einnar vélar. Þau ræktunarsambönd, sem keyptu vélar í fyrra, hafa ekki fengið nein lán, og þess vegna er ekkert óeðlilegt, þótt þessi vélakaup hvíli nokkuð þungt á þeim. En eins og hv. 2. þm. Sunnl. veit, þá er gert ráð fyrir, að lán og styrkur verði nú 50–60% samanlagt af kaupverði vélanna. Ef þessi tvö ræktunarsambönd væru þegar búin að fá það, þá er ég viss um, að þau teldu hag sínum sæmilega borgið. Annar þessara manna hef ég rætt við, og hann hefur fullyrt, að ef ræktunarsambandið ætti kost á 50–60% í lánum og styrk, þá væri þessu sæmilega borgið. Og það er það, sem hér er verið að tala um að gera.

Hv. 2. þm. Sunnl. sagðist ekki hafa vitað um, hvort peningar yrðu útvegaðir til þessara hluta. Það verður vitanlega að reikna með því, að þegar talað er um að veita lán og styrk, þá verði peningar til þessara hluta. Það verður að reikna með því. Og ég veit, að hv. 2. þm. Sunnl. reiknar með því.

Þá talar hv. þm. um það, að 20 sambönd hafi þegar lagt inn umsóknir sínar, 19 eða 20. Það mun vera rétt, að þau hafa látið um það vita, að þau hafi áhuga fyrir að endurnýja vélakostinn, en ekki á þessu ári öll, — ekki nema aðeins nokkur á þessu ári, en hin á næsta og næstu árum. Og það gerir vitanlega meginmuninn í þessu. Ef þetta kæmi allt yfir á eitt ár, þyrfti vitanlega mikla fjármuni bæði í styrk og lán.

Um það, að hér væri allt í blóma, ef vinstri stjórnin og vinstri stefnan hefði verið ráðandi enn í dag, ætla ég ekki að ræða. Ég veit, að hv. þm. gera sér ljóst, að þessi fullyrðing hv. 2. þm. Sunnl. stenzt ekki, og ég segi það, að ég ann þessum hv. þm. betri hlutar en að koma hér upp í ræðustólinn með slíka fullyrðingu, sem allir hv. þm. hlæja að í hjarta sínu, hvaða svip sem þeir kunna að setja upp, þegar orðin eru sögð. Og þegar svo sanngjarn maður eins og þessi hv. þm. kemur hér með slíkar fullyrðingar í fullu tilgangsleysi, þá vil ég segja það, að ég vil unna honum betri hlutar.

Það má vel vera, að það verði einhver samdráttur í framkvæmdum, og það þarf ekki að vera vegna peningaleysis. Við vitum það, að um mörg undanfarin ár hafa bændur ekki átt kost á því að hafa vinnufólk, hvorki karla né konur, og þetta hefur gert búreksturinn mjög erfiðan oft og tíðum og síður eftirsóknarverðan en í gamla daga, þegar hægt var að hafa vinnukonur og vinnumenn, eins og hver vildi, fyrir lítið kaup. Þess vegna er það, að þegar bændur hafa ræktað svo mikið, að ræktunin ber stórt bú, sem hjónin og skyldulið getur hugsað um, þá hugsar sá bóndi: Ja, það þýðir ekki fyrir mig að rækta öllu meira í bili, vegna þess að ég með því vinnuafli, sem ég hef yfir að ráða, ræð ekki við meira. — Þess vegna er hætt við því, að það geti borið á því, að einstöku bændur, sem lengst eru komnir, dragi nokkuð úr framkvæmdum í bili, þangað til farið er að hugsa um að skipta jörðinni á milli barnanna í tvíbýli, þegar börnin eru komin á þann aldur. Og það hefur einmitt gerzt í nokkuð stórum stíl hér á Suðurlandi og víðar um land, og það má segja að það sé rétt og að það sé holl stefna.

En við skulum vera bjartsýn á það, að ræktuninni verði haldið áfram á Íslandi og landbúnaður megi eflast á Íslandi. Og við skulum ekki vera að deila lengi um það, hv. 2. þm. Sunnl. og ég, hverjum er bezt trúandi til þess að stuðla að því, að nú og í framtíðinni megi landbúnaður eflast. Ég fullyrði það og ég vil viðurkenna það, að þessi hv. þm., 2. þm. Sunnl., vill ljá því máli lið heils hugar, sem má verða landbúnaðinum til góðs. En um leið og ég gef honum þessa viðurkenningu, þessa kvittun, þá verður að ætlast til þess, að hann einnig, a.m.k. þegar hann sér engan stundarávinning í öðru, gefi öðrum sams konar kvittun, ef hann vill líta hlutlausum augum á starf þeirra, sem vitanlega hafa stuðlað að framförum í sveitum ekkert síður en hann eða hans flokkur.

Ég þarf svo ekki að eyða fleiri orðum um þetta. Ég endurtek það, að nál. meiri hl. er eðlilegt að samþykkja og með því þjónum við þeirri stefnu, sem má verða landbúnaðinum til framfara.