21.02.1961
Neðri deild: 67. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 131 í C-deild Alþingistíðinda. (1838)

49. mál, jarðræktar- og húsagerðarsamþykktir í sveitum

Frsm. meiri hl. (Jónas Pétursson):

Herra forseti. Það var í raun og veru aðeins eitt atriði, sem kom fram í ræðu hv. 2. þm. Sunnl. (ÁÞ), frsm. minni hl., sem ég finn ástæðu til að fara nokkrum orðum um, og það var það, sem hann sagði, að við héldum því fram í meirihlutaáliti okkar, að með þeirri einu milljón, sem veitt hefði verið á fjárlögum 1961, væri vandamál ræktunarsambandanna leyst. Og hann sagðist vilja mótmæla þessu. En ég vil alveg eins segja, að ég mótmæli alveg þessum skilningi. Það, sem við bendum á, og það, sem er ómótmælanlegt, er það, að með afgreiðslu fjárlaga fyrir 1961 er skorið úr um það, hvað mikið fé verði til ráðstöfunar í þessu skyni á því ári. Og þó að Alþingi samþykkti hér einhver lög síðar um eitthvað anað, þá breyttu þau engu um þessa staðreynd. Þetta vil ég alveg sérstaklega benda á og taka fram.

Það segir þannig í áliti meiri hl., með leyfi hæstv. forseta:

„Í fjárlögum fyrir árið 1961 er veitt 1 millj. kr. framlag til kaupa á jarðræktarvélum ræktunarsambandanna. Í því er fólgin viðurkenning Alþingis á nauðsyn málsins og leystur að þessu sinni sá þátturinn, sem mikilvægastur er.“

Þetta vil ég alveg sérstaklega undirstrika og endurtaka, að það mundi engu breyta, þó að einhver lög væru samþykkt nú, sem fælu eitthvað annað í sér, — fjárlagaákvæðið hlyti að vera það, sem gildir, og skera úr um það, hve mikið fé er til ráðstöfunar í þessu skyni.

En það var þó eitt annað atriði, sem mig langaði aðeins til að víkja hér að.

Hv. frsm. minni hl. komst að orði eitthvað á þá leið, að bændur hefðu fengið helmingsstyrk út á vélarnar og mundu þurfa þess áfram. Ég vil vekja athygli á því, að þegar talað er um styrk í þessu sambandi, og þá er átt við það framlag, sem veitt hefur verið úr ríkissjóði til kaupa á þessum vélum, að á þessu framlagi og láni er í raun og veru enginn eðlismunur. Þessi aðstoð, sem þannig hefur verið veitt til ræktunarsambandanna, hefur í raun og veru alltaf verið í lánaformi, að vísu mjög hagkvæmu. Það ber að athuga, að í gegnum fyrningarákvæði ræktunarsambandanna, þar sem ákveðið er, að vélarnar séu fyrntar á rösklega 6 árum, endurgreiða samböndin þetta framlag til fyrningarsjóðanna. Það kemur þess vegna mjög svipað út og ef þau hefðu fengið þetta fé að láni í lánsstofnun. Það hefðu þau líka orðið að endurgreiða lánsstofnuninni, en þá hefðu þau ekki lagt tilsvarandi upphæð í fyrningarsjóðina. Sá eini munur, sem á þessu er, og hann er að vísu nokkurs virði, er sá, að yfirleitt hefur þetta fyrirkomulag verið nokkru hagstæðara, því að í byrjun hefur þetta framlag verið vaxtalaust, sem hefði vitanlega orðið að greiða af vexti, ef það hefði verið beinlínis sem lán í upphafi.

Þetta vildi ég gjarnan að kæmi hér fram, til þess að menn áttuðu sig á því almennt, hvað hér er um að ræða, þegar talað er um styrk til ræktunarsambandanna í þessu formi. Ég er ekki með þessu að draga neitt úr því mikilvægi, sem í þessari aðstoð hefur verið fólgið, en ég vil bara benda á það, að í raun og veru er hún miklu skyldari því að vera lán heldur en styrkur.