21.02.1961
Neðri deild: 67. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 132 í C-deild Alþingistíðinda. (1839)

49. mál, jarðræktar- og húsagerðarsamþykktir í sveitum

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Í nál. meiri hl. landbn. á þskj. 384 er á það bent, að ræktunarsjóður hafi heimild til að lána fé til vélakaupa ræktunarsambandanna. Þetta var mönnum kunnugt áður. En það er þýðingarlítið að vísa á stofnun til að fá þar lán, ef hún hefur ekki peninga til að lána. Það segir í þessu nál., að landbrh. hafi tilkynnt þeim nm., að hann muni beita sér fyrir því, að ræktunarsamböndin geti fengið lán í þessum sjóði til greiðslu á nokkrum hluta af kaupverði vélanna. En ég vil spyrja: Hvenær fást slík lán úr ræktunarsjóði? Hér er kunnugt um það, að ræktunarsjóð vantar nú fé til annarra lánveitinga einnig. Það liggja óafgreiddar nú hjá ræktunarsjóði lánaumsóknir frá allmörgum bændum, sem þeir sendu sjóðnum fyrir síðustu áramót, en hafa ekki fengið afgr. enn. Mér er kunnugt um þetta, því að ég hef umboð til lántöku, og þar var það þannig, að umsóknir voru sendar sjóðnum fyrir síðustu áramót, en lán fékkst ekki afgreitt þá. Og þegar ég hef spurt um það í Búnaðarbankanum og það nú nýverið, þá er mér sagt, að það sé allt í óvissu um, hvenær lán fáist, því að þar séu ekki peningar til og ekki kunnugt forráðamönnum bankans, hvenær sjóðurinn fái peninga til útlána.

Það hefur verið venja á undanförnum árum, að ræktunarsjóður hefur veitt nokkur lán snemma á árinu til þeirra, sem höfðu sent lánaumsóknir um áramótin, en af ýmsum ástæðum ekki fengið afgreiðslu sinna mála fyrir nýár. Þetta hefur verið venja, að slíkar umsóknir hafa verið afgreiddar snemma á árinu. Og nú vil ég spyrja hæstv. landbrh.: Hvenær verður ræktunarsjóði útvegað fé til þess að afgreiða þær lánaumsóknir frá fyrra ári, sem þar liggja fyrir frá bændum, vegna framkvæmda, sem þeir stóðu í árið sem leið, og þá jafnframt til þess að lána ræktunarsamböndum samkvæmt þeirri ávísun, sem hér er á sjóðinn gefin í þessu nál.? Hvenær koma þessir peningar í sjóðinn? Það er ekki útlit fyrir, að hann geti sinnt þessum lánbeiðnum, nema ríkisstj. eigi hér hlut að máli. Þannig hefur þetta oft verið áður. Ég vildi óska eftir svari frá hæstv. ráðh. um þetta, svo að bæði ég og aðrir, sem þarna erum að leita eftir lánum, fái vitneskju um það, hvenær peningar koma í sjóðinn og hvenær við getum fengið afgreiðslu á þessum málum.