21.02.1961
Neðri deild: 67. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 133 í C-deild Alþingistíðinda. (1840)

49. mál, jarðræktar- og húsagerðarsamþykktir í sveitum

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Hv. 1. þm. Norðurl. v. (SkG) spurði hér ákveðið um það, hvenær ræktunarsamböndin gætu vænzt þess að fá lán úr ræktunarsjóði samkvæmt þeirri ávísun, sem gefin er í nál., eins og hann orðaði það. Ræktunarsamböndin hafa ekki enn sótt um lán úr ræktunarsjóði og væntanlega verður það tekið fyrst til athugunar, þegar umsókn liggur fyrir eða umsóknir.

En í sambandi við peningaleysi ræktunarsjóðs, sem hv. þm. gerði mikið úr áðan, þá vil ég gleðja þá hv. þm., sem bera hag ræktunarsjóðsins mest fyrir brjósti, og segja þeim, að nú eru aðeins 6 millj. kr. óafgreiddar frá fyrra ári, en hefur verið undanfarin ár ekki minna, stundum meira. Síðan ég gerðist milligöngumaður um lán úr ræktunarsjóði, — en síðan eru 26 ár, að ég fór að taka umboð fyrir ýmsa bændur og taka lán fyrir þá úr ræktunarsjóði, — hafa þau lán, sem ekki fengu afgreiðslu fyrir áramót, vegna þess að lánaumsóknirnar komu of seint, aldrei verið afgreidd fyrr en í marz og stundum ekki fyrr en í apríl. Og ég get upplýst það, að þessar 6 millj. kr., sem nú bíða frá fyrra ári, munu verða afgreiddar í marz eða apríl í ár. Um það hef ég rætt við bankastjóra Búnaðarbankans. Og ég geri ekki ráð fyrir, að ríkisstj. þurfi sérstaklega að útvega það fé, því að það vill nú svo til, að það er svo mikið útistandandi hjá ræktunarsjóði af lánum, sem hafa verið lánuð á undanförnum árum, að vaxta- og afborgunartekjur sjóðsins, sem komu inn í desember og koma inn þessa mánuði, munu samsvara þessari upphæð, þannig að við þurfum ekki út af fyrir sig að hafa áhyggjur af þessum 6 millj. Þeir, sem lögðu inn lánabeiðnir fyrir áramótin og fengu ekki afgreiðslu þá, munu verða afgreiddir á þessum vetri.

En hvenær verður ræktunarsjóði úthlutað fé? spyr hv. þm. Hafið þið heyrt þessa spurningu áður frá hv. 1. þm. Norðurl. v.? Það er eins og þessir menn haldi, að ræktunarsjóður fái aldrei fé. Hvenær fær hann fé? Ræktunarsjóður fær vanalega fé til útlána á haustin, og fé, sem ræktunarsjóði þarf að útvega og verður að útvega með einhverju móti á þessu ári, þarf hann að fá til ráðstöfunar á næsta hausti út á framkvæmdir, sem unnar verða á þessu ári, næsta sumar. Og það er vitanlega verkefni núv. ríkisstj. að útvega þetta. En það er ekki létt verk, og það ætti hv. 1. þm. Norðurl. v. að vita, að það er ekkert létt verk að gera lánasjóði landbúnaðarins starfhæfa eftir þá meðferð, sem þessir sjóðir hafa fengið, og þá ráðstöfun, sem gerð hefur verið undanfarin ár með því að láta þessa sjóði hafa mest af útlendu fé til ráðstöfunar og taka á sig alla áhættu, sem því fylgir að nota útlent fé.

Ef sjóðir Búnaðarbankans hefðu á undanförnum árum fengið fé til ráðstöfunar á sama hátt og á s.l. ári, sem núv. ríkisstj. útvegaði, þá væri hagur þessara sjóða okkur ekkert áhyggjuefni í dag. Þá væri grundvöllur fyrir starfsemi þessara sjóða. Og þá þyrfti ekki að eyða orku í það að útvega fé, ekki til þess að lána út á framkvæmdir, heldur til þess að borga vaxtatapið og gengistapið. En framsóknarmenn kunna eitt ráð við því að losna við það, það er bara að samþykkja frv. upp á 160 millj. kr. eftirgjöf. Var það ekki til umræðu hér í Ed. í vetur? Það er enginn annar vandi en bara að samþykkja 160 millj. kr. eftirgjöf í einu lagi, þá er fjárhagur þessara sjóða tryggður. En þeir minnast þess nú ekki, að formaður Framsfl., þegar hann veitti vinstri stjórninni forstöðu, hafði vilja til þess, því að hann sá hvað leið, að reyna að koma fótum undir þessa sjóði, en hann gat ekki fengið þá eftirgefnar 30–40 millj. En það er mikið traust, sem hv. framsóknarmenn hafa á núv. ríkisstj., að hún geti tekið í einu 160 millj. kr. bagga, þegar vinstri stjórnin gat ekki tekið 30–40 millj. En þetta er alvörumál, og ríkisstj. hefur gert sér grein fyrir þeim vanda, sem þessari alvöru fylgir, og hefur hug á að leysa hann.

Ég held, að ég hafi svarað fsp. hv. þm., og vænti, að þetta nægi.