14.02.1961
Neðri deild: 63. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 139 í C-deild Alþingistíðinda. (1851)

100. mál, fæðingarorlof

Frsm. meiri hl. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. Hv. heilbr.- og félmn. hefur ekki orðið sammála um afgreiðslu þessa frv., sem hér liggur fyrir til umr. Leggur meiri hl. til, að frv. verði vísað til hæstv. ríkisstj. til frekari athugunar, eins og tekið er fram á þskj. 292, en minni hl. vill hins vegar, að frv. verði samþ. óbreytt, sbr. nál. á þskj. 318. Sem rök fyrir tillögu meiri hl. vil ég leyfa mér að segja nokkur orð.

Meginefni frv. þess, sem hér er til umr., er sem hér segir:

1) Að allar konur, sem taka laun fyrir vinnu sína, skuli eiga rétt á orlofi vegna barnsburðar í 90 daga með fullum launum í þeirri atvinnugrein, sem konan vinnur við, sé hún fastráðin, en annars sem svarar ¼ af launum hennar samkv. skattaframtali s.l. árs.

2) Að þær konur, sem tryggt hafi sér betri kjör um fæðingarorlof með lögum eða með samningum, haldi þeim réttindum óskertum.

3) Að kostnaðurinn við orlof þetta greiðist úr sameiginlegum sjóði, en tekjur sjóðsins verði iðgjöld frá öllum þeim aðilum í landinu, sem hafa launþega í þjónustu sinni, og jafnhátt framlag úr ríkissjóði, en upphæðin ákveðist árlega með reglugerð, og framkvæmdin sé í höndum Tryggingastofnunar ríkisins.

Skal ég ræða þessi atriði nokkru nánar. Grundvallarreglan með breytingum á lagaframkvæmdum ætti jafnan að vera sú, að allir væru jafnir fyrir lögunum. Sé þeirri reglu ekki fylgt, er mikil hætta á því, að allt verði gert til þess að sniðganga þau og lama þannig tilgang þeirra og áhrif. Eins og þetta frv. ber með sér, er hér nokkurt ósamræmi á milli mæðra, sem sinna þeirri þjóðfélagslegu nauðsyn að ala börn, annast þau og veita þeim uppeldi. Og þetta ósamræmi er svo stórkostlegt, að það vekur undrun, a.m.k. mína, að félagsskapur eins og Kvenréttindafélag Íslands, sem maður skyldi ætla að væri jafnan vel á verði fyrir rétti allra kvenna og þó einkum á verði fyrir rétti allra mæðra, skuli ekki hafa séð þessa augljósu staðreynd og bent á hana í umsögn sinni, sem félagið sendi n. um frv. það, sem hér liggur fyrir. Mætti segja mér, að einhver þeirra mæðra, sem með þessu frv. fær engan rétt, þótt að lögum yrði, ætti til þann þótta að taka slíku ekki þegjandi.

Verði frv. samþykkt óbreytt, gefur það hverri konu, sem laun tekur fyrir vinnu sína, rétt til orlofs vegna barnsburðar, sem svarar 25% af launum þann starfstíma, sem hún hefur unnið, og með þeim launum, sem hún hefur, ef hún er fastráðin. En annars skal þetta miðað við laun, sem hún kann að hafa haft árið áður og þá telið fram. Nú gæti það t.d. komið fyrir konu, sem legið hefði á sjúkrahúsi í heilt ár, m.a. vegna þess að hún hefði misst fóstur eða afleiðingar þess valdið langvarandi heilsuleysi, eða af einhverjum öðrum ástæðum, að á næsta ári byði hún sig í vinnu og á því ári yrði hún barnshafandi og fæddi barnið áður en árið er á enda. Samkv. frv. óbreyttu fengi þessi kona ekkert fæðingarorlof. Ég veit ekki, hvort hv. flm. hefur ætlazt til þess, að þannig skyldi það vera, eða hér er um flaustursverk að ræða í samningu frv., sem svo hefur smitað bæði kvenfélagsstjórnina og aðra þá, sem mæla með því, að frv. verði gert að lögum þannig.

Þá vil ég einnig benda á, að kona, sem hefur fasta stöðu með fullum launum, t.d. hjá ríki eða bæ, en vinnur auk þess hjá öðrum aðila fyrir e.t.v. jafnháum launum, ætti rétt á tvöföldu fæðingarorlofi að 1. gr. frv. óbreyttri. Nú getur vel verið, að flm. frv. hafi ekki hugsað sér þetta, en eins og frv. er nú, verður ekki annað séð en sá réttur sé óskertur, að kona ætti bæði kröfu á launum samkvæmt samningum eða öðrum lögum og einnig fæðingarorlof úr sjóðnum. Sé hins vegar til þess ætlazt, að sú kona, sem tryggt hefur sér 90 daga fæðingarorlof með fullum launum, annaðhvort með öðrum lögum eða samningum, njóti aðeins þessa orlofs, en fengi ekki neinn orlofsrétt vegna annarrar vinnu, þarf að gera þau ákvæði miklu skýrari í löggjöfinni.

Þá hygg ég rétt að benda á, að konur, sem vinna að framleiðslustörfum án þess að taka laun hjá öðrum, og það gerir mikill meiri fjöldi kvenna í landinu en hinar, sem vinna fyrir launum frá öðrum, svo sem allar sveitakonur, auk þeirra kvenna, sem reka sjálfstæðan iðnað, verzlun og alls konar þjónustu, og hinar allar, sem stunda húsmóðurstörf, sem beinlínis eru einn meginþátturinn í þjóðfélagsbyggingunni og gera það yfirleitt kleift að halda uppi framleiðslu 3 landinu og sæmilegum lífskjörum, þær eiga einskis góðs að njóta af þessum nýju fríðindum, ef frv. verður að lögum óbreytt. Það mundi, þegar svo er komið, ekki verða undantekning, heldur miklu fremur aðalregla, að kona, sem þannig stundar framleiðslu á einn eða annan hátt, tekur þar í sinn hluta tap og gróða eftir því, hvernig heppni og aðstæður bjóða, og stendur í barneignum á hverju ári, á einnig að greiða skatt í orlofssjóð fyrir þá, sem hún kynni að greiða laun, hvort sem væri um að ræða karla eða konur og hvort sem hún greiðir það ein eða í félagi við maka sinn, — hún á einskis að njóta úr sjóðnum um barnsburð, en þjónustustúlka hennar, ein eða fleiri eftir ástæðum, hefur rétt til að taka sér orlof í 3 mánuði, þegar svo stendur á, og skilja húsmóðurina eftir undir sömu kringumstæðum með enn meira álag hvað snertir störf og rekstur heimilisins og framleiðslu fyrirtækisins. Ég fæ ekki séð, að hér sé um þau kvenréttindi að ræða, sem Kvenréttindafélaginu ber að bera fram til sigurs, eða hv. deild eigi að skapa með samþykkt þessa frv. slíkt misrétti milli mæðra í landinu, sem allar, hver á sinn hátt, gegna þeirri þjóðfélagsnauðsyn að ala börn og fóstra þau.

Það þykir einnig rétt að benda á, að sá möguleiki er opinn upp á gátt, að konur, sem eru ekki í fastri atvinnu, ráði sig þannig, jafnskjótt og þær verða þungaðar, aðeins til málamynda, gegn launum, sem aldrei væru greidd, en gæfu fullan rétt til greiðslu úr orlofssjóði. Hefur Tryggingastofnun ríkisins, sem ætlað er það hlutverk að hafa á hendi framkvæmd laganna, bent á, að hér þurfi miklu betur um að búa, ef ekki á að vera mjög auðvelt að misnota þetta ákvæði, svo að tryggt verði, að framkvæmdin verði ekki allt önnur en til er ætlazt.

Það skal enn fremur bent, á, að fjárframlögin til þess að standast útgjöldin eiga samkv. frv. að leggjast sem beinn skattur á alla þá, sem laun greiða, en hinn helmingurinn greiðist úr ríkissjóði. Hér er ekki ætlazt til þess, að þiggjandi greiði neinn hluta kostnaðar. Hér er því um beinan, nýjan skatt að ræða á atvinnuvegi landsmanna, sem þó aðeins veitir fríðindi litlum hluta þeirra kvenna, sem börn ala.

Það skal einnig bent á, að í gildi eru lög um orlof almennt og auk þess lög um orlof húsmæðra, sem samþykkt voru á síðasta þingi, auk þess sem orlofsákvæði kvenna eru tekin upp í einstöku samninga, svo sem bent hefur verið á. Er ekki eðlilegt, ef lögbjóða á orlof kvenna almennt, að þá verði ákvæði um það sett í eina heildarlöggjöf, en ekki sett um það sérlög fyrir hvern einstakan atvinnuflokk kvenna, eins og hér er stefnt að?

Eins og frv. er byggt upp, er það raunverulega hvort tveggja í senn: orlof og atvinnutrygging, en þetta tvennt eru gerólík atriði. Ef tryggja á konum almennt að halda launatekjum sínum, þótt þær verði að láta af störfum vegna barnsburðar um ákveðinn tíma, þá er hér um að ræða ákvæði, sem eiginlega eiga beinlínis heima í tryggingalöggjöfinni, og kæmi þá til athugunar, hvort ekki ætti að hækka svo fæðingarstyrkinn, að hann samsvari þeim fríðindum, sem hér er farið fram á, en eftir því sem forstjóri Tryggingastofnunar ríkisins gaf upplýsingar um, mundi hann þá verða að hækka um sem svarar allt að sexfaldri þeirri upphæð, sem hann er nú.

Með tilvísun til þessa, sem ég hef hér sagt, telur meiri hl. n., að málið hafi ekki fengið nægilegan undirbúning og það þurfi því að athuga það miklu betur en gert hefur verið. En vegna þess að fæðingarorlof snertir allar mæður í landinu, en ekki neina einstaka flokka mæðra, og hér er um hið merkasta mál að ræða, þykir meiri hluta nefndarinnar rétt að leggja til, að málinu verði vísað til frekari undirbúnings til hæstv. ríkisstj., sem hefur öll skilyrði til þess að láta vinna að því, að þeir aðilar, sem mál þetta snertir, ræði þau atriði öll, sem ágreiningur er um. Fyrir hönd meiri hl. n. legg ég því til, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til hæstv. ríkisstj. og að hæstv. ríkisstj. láti þá athuga þetta mál, hvernig mætti koma því fyrir, svo að allir aðilar gætu vel við unað, og meira réttlæti kæmi fram í löggjöfinni en virðist vera í því frv., sem hér liggur fyrir.