28.02.1961
Neðri deild: 70. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 158 í C-deild Alþingistíðinda. (1862)

100. mál, fæðingarorlof

Margrét Sigurðardóttir:

Herra forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir til umræðu, frv. til laga um fæðingarorlof, hefur, eins og hv. þdm. er kunnugt, verið til athugunar hjá heilbr.- og félmn. þessarar hv. deildar. Við höfum fyrir nokkrum dögum hlýtt á ræður frsm. meiri og minni hl. þeirrar nefndar um frv. og á framsöguræðu hv. 1. þm. Norðurl. v. fyrir þeim breytingum, sem hann flytur á þskj. 361 við frv.

Ég hef hér fyrir framan mig nefndarálit hv. meiri hl. heilbr.- og félmn. Þar er frv. flest til foráttu fundið. Er þar svo að orði komizt og haft eftir forstjóra Tryggingastofnunar ríkisins, að frá tæknilegu sjónarmiði sé svo að segja ómögulegt að framkvæma lögin, ef frv. væri samþykkt óbreytt. Fyrir svo þungum dómi mætti ætla að full rök væru færð. Svo er þó ekki. Fullyrðingin ein er látin duga. Hins vegar er dregin skýr ályktun af þessum dómi, þar sem niðurstaða hv. meiri hl. n. er sú, að hér sé um svo umfangsmikið mál að ræða, að vísa beri því til ríkisstj., sem hafi alla möguleika á því að undirbúa frv. um þetta efni, svo að viðunandi sé.

Ég mun nú ræða nokkuð þá gagnrýni, sem fram kemur í nál. hv. meiri hl. heilbr.- og félmn., svo og þá gagnrýni, sem kom fram í tveim ræðum hv. frsm. meiri hl., Gísla Jónssonar, eftir því sem ég get ráðið í, hvað fyrir hv. meiri hl. heilbr.- og félmn. vakir.

Hv. 1. þm. Vestf., frsm. meiri hl., hefur atlögu sína að frv. á þeim grundvelli, að hér sé framið slíkt ranglæti gagnvart þeim konum, sem mundu ekki njóta þeirra hlunninda, sem frv. gerir ráð fyrir, að furðu sæti, að Kvenréttindafélag Íslands skuli bregðast svo skyldum við íslenzkar konur að mæla með frv. Brýnir hv. þm. konur að muna kinnhest þennan að dæmi formóður okkar, Hallgerðar langbrókar, eða eins og hv. þm. kemst að orði, með leyfi hæstv. forseta: „Mætti segja mér, að einhver kona, sem með þessu frv. fær engan rétt, ætti til þann þótta að taka slíku ekki alveg þegjandi.“

Ég verð því miður að hryggja þennan hv. þm. með því að upplýsa, að sök Kvenréttindafélags Íslands er ekki aðeins sú að mæla með frv. og senda rökstudda umsögn um það, heldur var á landsfundi kvenna á s.l. sumri gerð ályktun þess efnis, að fundurinn teldi eðlilegt, að allar konur í atvinnustéttunum nytu sömu réttinda til óskertra launa, þótt þær forfölluðust frá vinnu vegna barnsburðar, eins og þær konur hefðu, sem væru starfsmenn ríkisins, en það eru, svo sem kunnugt er, þriggja mánaða laun, ef þær eru fjarverandi vegna barnsburðar, eins og farið er fram á í þessu frv. Var stjórn Kvenréttindafélagsins falið að vinna að lausn þessa máls. Ég hygg, að ég megi fullyrða, að meiri hl. fulltrúanna á landsfundi Kvenréttindafélagsins hafi alls ekki verið launþegar og hafi þannig ekki getað vænzt þess að njóta góðs af slíkum réttindum, þó að þau kæmu til framkvæmda, heldur hafi þarna flest verið konur, sem algerlega helga heimilunum starfskrafta sína og sennilega margar fætt sín börn án nokkurs fæðingarstyrks. Þó virtist þessum konum ekki meina á rétt sinn gengið en svo, að þær gera ályktun um það, ég má segja: einróma, að eðlilegt sé, að allar konur, sem í atvinnustéttum landsins vinna, þ.e. allar konur, sem eru launþegar, njóti þessara réttinda.

Nú skal ég ekki segja um það, hvort einhverjar konur verða til þess að bregðast við frv. eins og hv. 1. þm. Vestf. væntir af þeim. En fjöldi kvenna hefur nú þegar sýnt, að þær gera sér fyllilega ljóst að hér er um nauðsynja- og réttlætismál að ræða. Hér er um að ræða að láta þau réttindi, sem nú þegar hafa verið veitt af hendi löggjafans þeim hópi kvenna, sem vinnur í þjónustu ríkisins, láta sams konar réttindi öðlast gildi gagnvart öllum konum, sem taka laun fyrir vinnu sína. Hér er um það að ræða, hvort sú sérstaða konunnar að ganga með og ala þjóðfélaginu nýja þegna á að teljast eðlileg og fullnægjandi ástæða fyrir fjarvist úr vinnu, á sama hátt og fótbrot og lungnabólga eru fullgildar ástæður til fjarvistar, því að ef svo er ástatt, þá nýtur konan fulls kaups — og ef ekki kaups, þá sjúkradagpeninga.

Hv. 1. þm. Vestf. tók það fram, að hann teldi ekki, að hér væri um slíkt kvenréttindamál að ræða, að það væri ástæða til fyrir Kvenréttindafélagið að ljá þessu máli fylgi sitt. Það gleður mig vissulega, að svo virðist sem hv. þm. meti kvenréttindi mikils og vilji ekki, að frá þeim sé brugðið á nokkurn hátt. En ég vil halda því fram, og ég vænti þess, að hv. þm. geti orðið mér sammála um það, þegar hann athugar málið nánar, að þetta atriði sé einmitt kvenréttindamál. Þetta er raunverulegt kvenréttindamál. Hér er um það að ræða að fá viðurkennda sérstöðu konunnar í lífsbaráttunni og brauðstritinu, viðurkenna sérstöðu hennar sem móður og tryggja, að hún verði ekki látin gjalda þess, að hún fæðir börn til lífsins. Hins vegar treysti ég víðsýni kvenna svo, að ég þykist þess fullviss, að þær muni meta það, sem til framfara horfir í þessum málum sem öðrum, jafnvel þó að ekki sé beinn hagnaður fyrir hverja einstaka konu persónulega.

Annars er hneykslunin yfir því, að frv. þetta skuli ekki ná til allra kvenna, sem kemur fram bæði hjá hv. 1. þm. Vestf. og sömuleiðis hjá hv. 1. þm. Norðurl. v., slík, að maður gæti haldið, að hér á hv. Alþingi hefðu aldrei verið samþykkt lög nema þau, sem næðu til allra hugsanlegra aðila, og yfirleitt að hér væru aldrei samþykkt lög, nema þau fullnægðu öllu réttlæti. En ég vil í þessu sambandi benda á hin almennu orlofslög, svo að við höldum okkur við orlof. Þau taka einungis til launþega, en þeir, sem atvinnurekstur reka, njóta þeirra ekki, — og jafnvel að viðbættum öðrum orlofslögum, lögunum um orlof húsmæðra, er ekki algerlega náð til allra íslenzkra kvenna. Konur, sem sjálfstæðan atvinnurekstur reka, en eru ekki húsmæður, njóta þeirra ekki. Þar er því hópur kvenna, sem er afskiptur í þessum efnum. Sjálfsagt er sá hópur tiltölulega fámennur, og þær konur, sem hann fylla, virðast a.m.k. skorta þann þótta, sem hv. 1. þm. Vestf. væntir svo mjög að íslenzkar konur eigi í fórum sínum, því að þær virðast hafa tekið þegjandi þessu misrétti löggjafarinnar.

Ég hygg, að hv. 1. þm. Vestf. og hv. 1. þm. Norðurl. v. hafi báðir átt sæti á Alþingi, þegar hvor tveggja þessi lög voru samþykkt, og hafi þeir ekki þá komið fram með þetta jafnréttissjónarmið sitt, þá virðist mér dálítið erfitt og misjafnlega erfitt að fullnægja réttlætiskennd þessara hv. þm.

Þá er því haldið fram, að kona geti eftir frv. tekið tvöfalt fæðingarorlof, eða réttara sagt fengið þann tíma, sem orlofið varir, borgaðan tvöföldum launum. Í framsöguræðu sinni leggur hv. 1. þm. Vestf. dæmið þannig, að konan sé fastráðin og taki 3 mánaða laun sín sem slík, en auk þess hafi hún unnið annars staðar fyrir talsverðum tekjum og jafnvel jafnmiklum og fastalaunin nema, og þar sem hún hafi að sjálfsögðu gefið þessar tekjur sínar upp til skatts, þá bæri henni einnig ¼ hluti af slíkum árslaunum í fæðingarorlof. Þetta virtist þm. finnast mjög óheppilegt og eins konar misnotkun á þessum lögum. Þetta er vissulega hugsanlegur möguleiki, en þetta er bara alls ekki tvöfalt fæðingarorlof. Konan á samkv. frv. rétt á fjórðungi árstekna sinna í fæðingarorlof, og hafi hún unnið tvöfalt starf, þá gerist ekkert annað en það, að hún nýtur dugnaðar síns, og ég hélt satt að segja, að hv. 1. þm. Vestf. mundi meta svo mikið persónulegan dugnað og framtak, að hann mundi ekki finna að þessu atriði. Aftur á móti er það ekki rétt skilið, sem hv. þm. kemur að í seinni ræðu sinni um þetta mál, þar sem hann óttast, að kona geti bæði notið orlofsfjár úr fæðingarorlofssjóðnum, sem frv. gerir ráð fyrir, og auk þess frá vinnuveitanda sínum, hafi hún við hann sérsamning um þetta efni. Í frv. er ráð fyrir gert, að þær konur, sem hafi sérsamning við vinnuveitendur sína eða samkv. öðrum lögum hafi jafngóð eða betri ákvæði um þetta efni, falli undir þau lög framvegis og njóti þeirra samninga, en hafa þá auðvitað ekki rétt til orlofsfjár samkv. þessu frv., ef að lögum yrði.

Þá virðist hv. þm. ekki ánægður með það, að þeim, sem þessa orlofs ættu að njóta, sé ekki gert að greiða neinn kostnað eða iðgjöld til orlofssjóðs. Ég vil endurtaka það, sem ég sagði í framsöguræðu minni í haust, að þar var farið eftir fordæmi, sem hið háa Alþ. hafði gefið. Í fyrra, þegar samþ. voru orlofslög húsmæðra, var niður fellt það tillag, sem frv. hafði upphaflega lagt til að húsmæður legðu fram. Það fordæmi gerði það að verkum, að ég taldi tilgangslaust að setja í þetta frv. svipað ákvæði eða ákvæði um framlag frá þeim, sem orlofsins ættu að njóta, enda þótt mér væri ljóst, að slíkt gat vel komið til greina. Ég leyfi mér líka að vitna til laganna um orlof húsmæðra til andmæla þeirri viðbáru hv. 1. þm. Vestf., að þar sem tvenn orlofslög séu fyrir, sé eðlilegra, að ný orlofslög falli inn í eldri lögin. Tilgangur hinna eldri orlofslaga er talsvert annar en þessa frv. En mér er spurn: Hvers vegna var ekki orlof húsmæðra fellt inn í hin almennu orlofslög, ef óheppilegt er, að fleiri en ein lög séu kennd við orlof?

Það er að því fundið, að í frv. vanti öryggisákvæði um, að orlofsþegi megi ekki vinna launuð störf, á meðan orlofstíminn varir. Segir svo um þetta atriði í nál. hv. meiri hl. heilbr.- og félmn., með leyfi hæstv. forseta:

„Þá taldi bann og“ — og hér er átt við forstjóra Tryggingastofnunar ríkisins, — „að ef hér ætti að vera um orlof að ræða í sömu merkingu og það er notað í öðrum lögum um orlof, þá væri eðlilegt, að kveðið væri svo á í lögunum, að orlofsþegi hefði eigi launuð störf á hendi á orlofstímanum, svo sem fyrir er mælt í orlofslögum, en það mundi verða margvíslegum erfiðleikum bundið að tryggja, að slíkt yrði ekki gert.“

Ég hef vissulega ekkert við það að athuga, að sett væri inn í frv. ákvæði um, að orlofsþegi megi ekki vinna launuð störf í orlofstímanum. Mér virðist, að það sé smávægileg breyting. Hins vegar fæ ég ekki skilið þá fullyrðingu, að það yrði margvíslegum erfiðleikum bundið að tryggja, að slíku banni yrði framfylgt. Í hinum almennu orlofslögum er ákvæði um þetta efni orðað eitthvað á þá leið, að óheimilt sé orlofsþega að vinna í starfsgrein sinni eða skyldri starfsgrein, á meðan orlofið varir, og það eru um þetta frekari ákvæði í reglugerð, en það er einungis skilgreining á því, hvað teljast skyldar starfsgreinar. En ég verð að segja það, að ef slík ákvæði eru fullnægjandi fyrir fullhraust og vinnandi fólk, til þess að það taki ekki upp starf og noti ekki orlofstíma sinn til að vinna sér inn tekjur, þá fæ ég ekki skilið, að slíkt ákvæði ætti ekki að hrökkva fyrir konu, sem er á síðustu mánuðum meðgöngutímans eða fyrstu vikurnar eftir að hún elur barn.

Þá kemur næsta málsgrein í nál. hv. meiri hl., sem ég ætla, með leyfi hæstv. forseta, einnig að lesa, en þar segir svo: „Væri það hins vegar tilgangur frv. að tryggja það, að aðili tapaði ekki tekjum við barnsfæðingu, og bendir allt til, að það sé megintilgangurinn, þyrfti frv. einnig að taka allverulegum breytingum.“

Ekki er haft fyrir því að skýra, á hvern hátt frv. þyrfti að breytast til að fullnægja tilgangi sínum, en ég vænti þess, að hv. alþm. lesi frv. og hafi þegar gert það, svo að þeir geti gert sér hver fyrir sig grein fyrir því, hvort mikill vafi getur leikið á um tilgang þess. En annars er þetta svo ógreinilega orðað, að ég get ekki fyllilega ráðið í, hvað hér er átt við. Ef til vill er hér aðeins verið að víta ógætilega meðferð á orðinu orlof. Ég veit það ekki. Það mætti vafalaust fá skilgreiningu á því ágæta orði hjá lærðum málvísindamönnum, en minn skilningur á orðinu er sá, að það merki heimila fjarvist úr starfi án launamissis. Samkv. þeim skilningi hef ég leyft mér að nota orðið yfir leyfi frá störfum með fullum launum vegna barnsburðar og kalla það fæðingarorlof.

Þá kem ég að tveim atriðum, sem nefnd voru í nál. hv. meiri hl. heilbr.- og félmn. og í framsöguræðu hv. 1. þm. Vestf. og mér virðist að hafi nokkuð til síns máls. Það er fyrst það atriði, að ekki sé fyrir það girt í frv., að óráðvant fólk geti misnotað ákvæði frv., ef að lögum yrði, á þann veg, að kona telji sig vera fastráðna í starfi, sem hún alls ekki gegnir. Vitaskuld yrði það að vera með aðstoð annars aðila, sem gæfi henni vottorð um fastráðningu, og vitaskuld yrði þessi málamyndavinnuveitandi að greiða iðgjald af vinnuvikum þessa málamyndastarfsmanns síns til fæðingarorlofssjóðs og auk þess bæði til slysatryggingasjóðs og atvinnuleysistryggingasjóðs. En segjum, að einnig þann greiða vildi þessi málamyndavinnuveitandi gera viðkomandi konu. Ég hef ekki trú á, að mikil brögð yrðu að slíkri sviksemi, en það má vel vera, að það stafi fyrst og fremst af vanþekkingu minni á því, hve heiðarleikinn reynist léttvægur, ef um einhverja tekjuöflun er að ræða. Ég hef sem sagt ekki mikla trú á því, að þessi smuga yrði notuð til þess að misnota ákvæði eða réttindi frv., ef að lögum yrði. En ég vil taka það fram, að mér hefði þótt eðlilegt og sjálfsagt, ef mér hefði dottið þessi möguleiki í hug, að fyrirbyggja hann með því að setja inn í frv. einhver ákvæði, t.d. vissar fjársektir gegn slíkri misnotkun.

Þá er það hitt atriðið, sem hv. 1. þm. Vestf. drepur á. Hann dregur upp átakanlega mynd af konu, sem er við rúmið í um það bil ár, e.t.v. vegna fósturláts, en næsta ár vinnur hún lausavinnu, en á barn á því ári, en fær þá ekki fæðingarorlof, vegna þess að skattaframtal síðasta árs sýnir engar tekjur. Ég vil fyrst taka það fram, að minn skilningur á þessu vissa tilfelli, sem hv. 1. þm. Vestf. dró þarna fram, er sá, að kona, sem fyrir því verður, að henni leysist höfn, eigi rétt á fæðingarorlofi eftir þessu frv., ef hún á annað borð er launþegi. En hins vegar er það sennilegt, að kona, sem hefur ekki talið fram tekjur á næstliðnu ári á undan fæðingu, mundi ekki njóta fæðingarorlofs. Mér var þetta ljóst við samningu frv. og reyndi að finna viðunandi lausn, en gat ekki fundið aðra öruggari leið en skattframtalið til tryggingar því, að hér væri um raunverulegar launatekjur að ræða. Hins vegar hefði mér verið mikil þökk að því, ef hv. heilbr.- og félmn. eða einstakir þm. hefðu fundið betri lausn á þessum vanda.

Ég hef nú rætt þá gagnrýni, sem fram hefur komið á frv. Ég hef reynt að skýra málin eftir því sem mér hefur verið unnt, leiðrétt það, sem ég hef talið mig vita betur, og viðurkennt, ef mér virðist gagnrýnin á rökum reist. Ég vænti þess, að hv. alþm. vilji athuga nákvæmlega, hvort frv. sé svo gallað, að það mundi lítt framkvæmanlegt, ef að lögum yrði. Ég tel mig hafa hrakið gagnrýni hv. meiri hl. heilbr.- og félmn. í flestum greinum. Það er hér um að ræða tvö atriði, sem ég viðurkenni, að æskilegt hefði verið, að betur hefði verið um hnútana búið. Hvorugt skiptir meginmáli, jafnvel ekkí miklu máli, en auk þess var vitaskuld opin leið til úrbóta, ef hv. alþm. sýndist svo.

Hv. 1. þm. Vestf. kom mjög inn á það í sinni framsöguræðu, að frv. væri flausturslegt og illa undirbúið. Mér er það vissulega fyllilega ljóst, að ég er viðvaningur í því að búa til frv. í hendur löggjafans. Ég vænti mér því góðs af vinsamlegri og nákvæmri athugun n. á frv., eins og ég tók fram í minni framsöguræðu. Ég var reiðubúin að taka heilbrigðri gagnrýni, og mér hefði verið mikil þökk að breytingum, sem til úrbóta hefðu horft. En ég get ekki neitað því, að ég varð fyrir dálitlum vonbrigðum, strax er ég las nál. hv. meiri hl., og ég vænti þess, að þm. geti sannfærzt um það sjálfir, ef þeir lesa það plagg, að þar úir og grúir af fullyrðingum, svo mjög, að jaðrar við sleggjudóma. Ég satt að segja vænti þess ekki, að reyndir og vísir þm. viðhefðu slíka málsmeðferð á löggjafarþingi þjóðarinnar. Hitt finnst mér full ástæða til að lýsa ánægju minni með, að fram kom bæði í nál. og í ræðu hv. frsm. meiri hl., að hér væri um merkilegt mál að ræða, sem full ástæða væri til, að löggjafinn tæki til athugunar. Þetta gleður mig, því að ég vænti þess, að það sýni, að efni þessa frv. eigi skilningi að fagna hjá hv. alþm. Enda þótt þeir þm., sem að umræddu nál. stóðu, sjái sér ekki af einhverjum ástæðum fært að fylgja því frv., sem hér liggur fyrir, þá treysti ég því, að þessum málum muni fljótlega verða farsællega skipað, ef ekki á þessu þingi, þá e.t.v. því næsta.

Mér virðist, að sá grundvöllur, sem þetta frv. byggist á, og sá háttur, sem þar er ætlazt til, að viðhafður sé í þessum efnum, sé eðlilegt spor í þessum málum, eins og þau liggja fyrir hér á landi. Löggjafinn hefur þegar viðurkennt réttmæti þess, að fjarvist vegna barnsburðar skuli ekki valda launamissi, og ég tel, að þar hafi löggjafinn sýnt réttan og lofsverðan skilning á þessum málum. En ég vil mótmæla þeirri skoðun, sem fram kom hjá hv. 1. þm. Vestf., að á þetta bæri að líta sem launauppbót til viðkomandi konu. Fæðingarorlof ber að skoða sem viðurkenningu á því, að barnsburður er eðlileg og heimil fjarvist úr starfi og skuli ekki valda launamissi, og ég vil segja: sú eðlilegasta og þjóðfélagslega séð sú jákvæðasta fjarveruorsök, sem yfirleitt getur komið til greina. Á það má einnig benda, að framkvæmd þessa frv., ef að lögum yrði, mundi ekki skapa ríkissjóði stórkostleg útgjöld, a.m.k. ekki fyrst í stað.

En þó að því frv. um fæðingarorlof, sem hér liggur fyrir, auðnist e.t.v. ekki að fá staðfestingu hv. Alþ., þá vildi ég sérstaklega vekja athygli á því ákvæði frv., sem kveður á um það, að þær konur, sem eru ekki fastráðnar, en vinna lausavinnu ýmiss konar, fái aðild að þeim réttindum, sem um er að ræða í frv. Ég tel, að þessi ákvæði séu athyglisverð, ekki einungis vegna þess, að margar konur, sem taka tímakaup og vinna lausavinnu, vinna bæði hin erfiðustu og jafnframt nytsömustu störf, svo sem margs konar framleiðslustörf og ýmiss konar mikilsverða þjónustu, og út frá því væri það eðlilegt og sjálfsagt, að þessar konur nytu þeirra ráðstafana, sem gerðar eru í þjóðfélaginu til að bæta kjör kvenna. En þarna kemur fleira til. Það er vitanlegt, að konur, sem hafa heimili og börn að annast, eiga örðugt með að hafa á hendi fulla vinnu utan heimilisins, en hafa hins vegar margar þörf fyrir auknar tekjur og oft bæði tíma og starfskrafta til að bæta við sig vinnu, ef það getur samrýmzt heimilishaldinu. Þær taka því oft ígripavinnu þá tíma, sem þær eiga þægilegast með að hverfa frá heimili sínu, eða þær taka vinnu heim til sín. Enginn vafi er á því, að þetta er oftast heppilegasti hátturinn á vinnu húsmæðra, sem vilja og geta bætt við sig störfum. Það er því nauðsynlegt, að frekar verði stutt að þessum vinnuháttum, og það er óneitanlega gert með því að veita þeim konum, sem slíka vinnu stunda, hlutdeild í þeim hlunnindum, sem annars hafa einungis staðið þeim til boða, sem fastráðnar eru.

Hv. 1. þm. Norðurl. v. (SkG) hefur flutt allróttæka breyt. á þessu frv., þar sem segja má, að þar komi fram nýtt frv., nefnilega að fæðingarstyrkurinn verði þrefaldaður og greiddur öllum konum, sem börn fæða hér á landi. Það mundi þýða, að í hendur kvenna kæmu rúmlega 6 þús. kr. við hverja fæðingu, því að menn skyldu athuga, að núverandi fæðingarstyrkur hrekkur rétt aðeins sem greiðsla til fæðingarheimilanna eða ljósmæðranna og gengur í langflestum tilfellum beint til þess. Fæðing er nefnilega ekki skoðuð sem sjúkdómur eftir íslenzkum lögum og fellur ekki undir sjúkratryggingar, eins og flest önnur sjúkrahúsvist er greidd. En þessi fæðingarstyrkur er rétt rúmlega það, sem greitt er á fæðingadeild landsspítalans, en hrekkur t.d. tæplega fyrir því, sem konan þarf að greiða á hinu nýja fæðingarheimili Reykjavíkurbæjar.

Þá er gert ráð fyrir því í þessari breyt. hv. 1. þm. Norðurl. v., að því er mér skildist af framsöguræðu hans, að þær konur, sem þegar hafa samkv. öðrum lögum eða samkv. samningum víð vinnuveitendur sína rétt á fullum launum í þrjá mánuði, ættu að njóta þess áfram. Þær ættu að vísu að fá sinn skerf úr sjóðnum, en vinnuveitandi þeirra ætti að bæta við því, sem vantaði á full laun.

Er því ljóst, að þó að þessi breyting yrði gerð á frv. og næði fram að ganga, yrði ekki fullum jöfnuði náð milli allra kvenna, og reynist erfitt að elta uppi réttlætið eins og fyrri daginn. Mér er hins vegar ljúft að viðurkenna, að í þessum till. hv. 1. þm. Norðurl. v. kemur fram lofsverður skilningur á hinni þjóðfélagslegu þýðingu barnsfæðinga, og jafnframt, að slíkt er ekki algert einkamál foreldranna, heldur mál, sem þjóðfélagið varðar í mesta máta. Má benda á það, að í svo fámennu samfélagi sem okkar væri það mjög örlagaríkt, ef málin snerust á þann veg, að verulega drægi úr barnsfæðingum. Það er því fyllilega þjóðhagslega réttmætt að búa vel og rausnarlega að mæðrum við hverja fæðingu. Að því leyti er ég hv. flm. þessarar breyt. algerlega sammála.

Ég hefði þó frekar kosið, að frv. í sinni upphaflegu mynd eða sá grundvöllur, sem það er byggt á, hefði orðið að veruleika, vegna þess að ég tel litlar líkur til þess, að svo rausnarlega yrði að farið í greiðslu fæðingarstyrks, að það mundi vera fullnægjandi fyrir þær konur, sem ég tel að mesta þörf hefðu fyrir hann. Mér er fyllilega ljóst og ég viðurkenni, að 6 þús. kr. mundu vera ákaflega góður skildingur og notadrjúgur fyrir fjölda kvenna, en hins vegar virðist mér, að ekki sé hægt að ganga fram hjá þeirri staðreynd, og það er sennilega þar, sem okkur greinir á, mig og hv. 1. þm. Norðurl. v., að ég tel, að hvorki sé rétt né hyggilegt að ganga fram hjá þeirri staðreynd, að okkar þjóðfélag, svo sem flest nútímaþjóðfélög, er þannig upp byggt, að fjöldi kvenna vinnur fyrir brauði sínu, eru launþegar, og það verður að líta á það, að það eru grundvallarréttindi fyrir þessar konur og þar með konur yfirleitt, að til þess sé tekið tillit og þær séu ekki látnar beinlínis líða fyrir það, að þær fæða börn til lífsins. Fjöldi kvenna hefur á engu að byggja nema atvinnutekjum sínum. Missi konan þær, getum við öll séð það í hendi okkar, að hún framfærir sig ekki á 6 þús. kr. þann tíma, sem nauðsynlegt er að hún sé frá starfi vegna barnsfæðingar. Og það blasa þá við henni mjög örðug kjör einmitt á þeim tíma, sem hún má sízt við að mæta erfiðleikum. Það má reyndar segja, að það sé jöfnuður, að allar konur fái jafnan fæðingarstyrk, en það er ekki þjóðfélagslegt réttlæti.

Yrði það frv., sem hér um ræðir, lögfest, þá efa ég ekki, að næsta sporið yrði að tryggja þeim konum, sem njóta ekki sambærilegra réttinda, ríflegan fæðingarstyrk, og ég tel það vissulega orðið tímabært að taka til athugunar, hvernig því yrði réttlátlegast fyrir komið, eins og ég tók fram í minni framsöguræðu fyrir þessu frv. Að því leyti gleður mig þessi till. hv. þm., því að hún gengur greinilega í þessa átt, að því er varðar konur, sem eru ekki launþegar. En yrði hins vegar að því ráði horfið að veita öllum konum fæðingarstyrk, margfaldan frá því, sem nú er, þá tel ég nauðsynlegt, að hann verði svo ríflegur, að hann hrökkvi til lífsframfæris þeim konum, sem mesta þörf hafa fyrir hann.