02.03.1961
Neðri deild: 71. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 175 í C-deild Alþingistíðinda. (1875)

7. mál, löggilding bifreiðaverkstæða

Frsm. minni hl. (Gunnar Jóhannesson):

Herra forseti. Frv. til laga um löggildingu bifreiðaverkstæða er að mörgu leyti sérkennilegt og að mörgu leyti einstakt í sinni röð. 1. gr. frv. kveður svo á um, að dómsmrn. sé heimilt að ákveða, að á tilteknum stöðum á landinu eða á landinu öllu megi ekki inna af hendi viðgerðir eða viðhaldsstörf á bifreiðum eða bifhjólum gegn greiðslu, nema á verkstæðum, sem öðlazt hafa til þess löggildingu bifreiðaeftirlits ríkisins. Aðrar greinar frv. eru svo beint framhald af 1. grein. Svo er um 5. gr., en hún kveður á um breytingu eða setningu reglugerðar, sem ráðherra setur. Þar skal kveða á um, hvaða skilyrði löggilt bifreiðaverkstæði skuli uppfylla, og eru nokkur þeirra upp talin í 5. gr.

Við lestur frv. sést, að undanþegnir lögunum skuli þeir aðilar vera, sem reka verkstæði fyrir eigin bifreiðar. Gildir það jafnt um félög sem einstaklinga. Orðin „gegn greiðslu“ í 1. gr. taka af allan vafa, hvað við er átt. Ég tel rétt að athuga, hvaða fyrirtæki það muni vera, sem ekki eiga að falla undir lögin. Það eru m.a. Strætisvagnar Reykjavíkur, Landleiðir h/f, Norðurleiðir h/f, Olíufélagið Skeljungur h/f, Olíufélag Íslands, vegagerð ríkisins og fleiri slíkir aðilar og yfirleitt allir, sem hafa sjálfir verkstæði eða koma til með að hafa verkstæði til viðgerðar eigin bifreiðum. Allshn. hafa borizt rökstudd mótmæli frá Félagi bifvélavirkja, Iðnaðarmálastofnun Íslands og samtökum bifreiðaverkstæðaeigenda á móti þessu ákvæði 1. gr.

Í aths. við frv. er sagt, að frv. sé samið í iðnmrn. að fengnum tillögum Iðnaðarmálastofnunar Íslands, Félags bifreiðaverkstæðaeigenda og Félags bifvélavirkja. Ekki virðist nú samt hið háa ráðuneyti hafa farið í öllu eftir till. nefndra aðila. A.m.k. hafa þessir aðilar mótmælt því ákvæði 1. gr. að undanskilja þau viðgerðaverkstæði, sem vinna að viðgerðum eigin bifreiða.

Í grg. er þess getið, að framangreind samtök hafi notið tæknilegra upplýsinga og leiðbeininga norska verkfræðingsins Johans Meyers, sem dvalizt hafi hér á landi s. I. vetur á vegum Iðnaðarmálastofnunar Íslands. Ég vil geta þess hér, að það var fyrst núna rétt áðan, sem ég fékk að sjá skýrslu frá þessum norska vélaverkfræðingi. Hvernig sem á því stóð, lá þessi skýrsla ekki fyrir hjá allshn. Það var fyrst nú í dag, að einn þm. afhenti mér skýrsluna og sagði, að þessi skýrsla hefði verið send sér, og gaf engar skýringar á því, hvernig á hefði staðið, að þessi skýrsla hefði ekki verið send allshn. Nd., sem hafði málið til meðferðar. Vitanlega hefur mér ekki gefizt tækifæri til þess að lesa þessa skýrslu, en ég sé þó þar ýmislegt á annan veg en frv. gerir ráð fyrir. — Annars er rétt að benda á það að það hefur færzt mjög í vöxt á Íslandi nú á síðustu tímum að fá til landsins alls konar sérfræðinga, og það má segja, að það virðist vera einhvers konar tízkufyrirbrigði að fá sérfræðinga til að kenna Íslendingum hitt og annað eða leggja þeim réttara sagt lífsreglurnar. Sumir af slíkum sérfræðingum koma beinlínis óbeðnir og telja sig ráða yfir alls konar vísdómi og þekkingu, sem þeir vilja af hjartans lítillæti, ef svo mætti að orði komast, láta hinum fáfróðu Íslendingum í té. Náttúrlega ætlast þeir til þess að fá hæfilega þóknun þar fyrir. En dvöl sumra þessara sérfræðinga hefur endað með sérkennilegum hætti, sem ég mun ekki fara hér inn á.

Því fer víðs fjarri, að ég vilji amast við því, að hingað til lands séu fengnir menn með sérþekkingu. Það er svo allt annað mál, að hve miklu leyti rétt er að fara í einu og öllu eftir tillögum hinna erlendu sérfræðinga. Ég held t.d., að hinn norski sérfræðingur — með fullri virðingu fyrir hans miklu þekkingu á þessum málum — hafi bent á yfirleitt mjög fátt í þessu máli, sem hér liggur fyrir, sem Íslendingar hafa ekki sjálfir verið búnir að sjá og vitað um. Það má vel vera, að bifreiðaverkstæðaeigendum hafi þótt það betra að fá erlenda sérfræðinginn til að mæla með löggildingu bifreiðaverkstæðanna og skammta sér þar með betri aðstöðu til þess að fá komið á nokkurs konar einokunaraðstöðu, jafnvel í blóra við hinn erlenda sérfræðing. Það ætti að geta orðið mjög góður árangur af því fyrir hin stóru bifreiðaverkstæði í landinu að fá slíka einokunaraðstöðu til viðgerðar yfir 20 þúsund bila, sem að sjálfsögðu á eftir að fjölga stórlega á komandi tímum. Í kjölfar þessarar aðstöðu mundu svo að sjálfsögðu koma háværar kröfur um hækkun á viðgerðartöxtum undir því yfirskini, að hin löggildu verkstæði þyrftu svo miklu til að kosta vegna innkaupa á nýjum verkfærum, vélum, stærra og betra húsnæði og fleira þess háttar.

Mér er nær að halda, að þeir menn, sem nú beita sér fyrir samþykkt þessa frv., þar með meiri hl. hv. allshn., hafi ekki gert sér fyllilega grein fyrir, hvert er stefnt með frv. Annars er það mála sannast, að meiri hl. n. er mjög hikandi í stuðningi við frv. Það sést bezt á því, að a.m.k. 2 af 3, sem skipa meiri hl., hafa áskilið sér rétt til að fylgja eða vera með brtt., sem fram kynnu að koma við frv.

Menn ræða mikið um skúraverkstæði og finna þeim flest til foráttu. Sannleikurinn í því máli mun nú samt vera sá, að bifreiðaeigendur telja sig í mörgum tilfellum fá þar ágæta þjónustu og fyrirgreiðslu. Í bréfi frá Félagi íslenzkra bifreiðaeigenda er því t.d. haldið fram, að við lauslega rannsókn, sem félagið hafi látið gera á þessum málum, hafi komið í ljós, að bifreiðaeigendur telji sig fá góða fyrirgreiðslu á hinum smáu verkstæðum og allt að því 50% ódýrari viðgerðir en á hinum stóru verkstæðum. Að sjálfsögðu hef ég ekki haft aðstöðu til að rannsaka, hvað hæft er í þessum upplýsingum frá Félagi íslenzkra bifreiðaeigenda, en ýmislegt bendir þó til þess, að hér sé farið allnærri sannleikanum. Mér er t.d. vel kunnugt um það, að úti um allt land eru mörg smáviðgerðaverkstæði, sem veita ágæta þjónustu með viðgerð á bifreiðum og öðrum vélknúnum tækjum. Þessi litlu verkstæði eru beinlínis undirstaða þess, að hægt sé að eiga bifreiðar og önnur vélknúin tæki í strjálbýlinu. Það gæti orðið alldýrt fyrir eigendur slíkra tækja að þurfa að fara með bílana sína eða bilaðar landbúnaðarvélar langan veg, máske í aðra sýslu, til viðgerðar, en á því væri beinlínis hætta, ef frv. þetta verður að lögum og ákvæðum þess vel að merkja beitt á þjösnalegan hátt. Ég er ekki með þessu að halda því fram, að l. yrði beitt þannig, en ég bendi á þetta sem hugsanlegan möguleika, sem vert er að hafa í huga, þegar málið er rætt.

Viðgerð á bifreiðum og öðrum vélknúnum tækjum er orðin mjög stór atvinnurekstur og á sjálfsagt fyrir sér að vaxa stórlega frá því, sem nú er. Það er því ekki óeðlilegt, þó að þetta mál allt í heild verði vandlega athugað og um það yrðu allmiklar umr. Hitt er svo allt annað mál, hvort það frv., sem hér liggur fyrir, leysir þann vanda, sem fyrir hendi er. Mitt álit er, að málið þurfi miklu meiri og betri undirbúning en nú er fyrir hendi. Í þessu sambandi vil ég leyfa mér að benda á, að það frv., sem hér liggur fyrir, hefur ekki verið sent til umsagnar neinum aðila utan Reykjavíkur. Það má máske segja og það með töluverðum rétti, að allshn. eigi þar á mesta sök. Hvað sem annars má um það segja, er það staðreynd, að frv. hefur ekki verið sent út á land til umsagnar til þeirra aðila, sem koma til með að falla undir lögin. Ég tel því algerlega óforsvaranlegt að afgr. frv. nú á þessu þingi. Mönnum verður að gefast kostur á að kynna sér efni þess og láta í ljós skoðanir sinar á málinu.

Í bréfi frá Landssambandi vörubifreiðastjóra er því haldið fram, að flestri þjónustu varðandi þann rekstur, sem framkvæmdur er á bifreiðaverkstæðunum, sé mjög ábótavant. Talið er, að aðalorsök þessa sé fyrst og fremst, að verkstæðin hafi yfir mjög lélegum verkfærakosti að ráða, og svo hitt, sem sé enn alvarlegra, að vinnukraftur sá, sem verkstæðin hafi upp á að bjóða, sé mjög misjafn og í mörgum tilfellum illa hæfur til þeirra verka, sem ætlazt er til að fagmenn leysi vel af hendi, enda sé það ljóst mál, að kennslu í bifvélavirkjun á verkstæðunum sjálfum sé mjög ábótavant, auk þess sem kennslu í iðnskólunum í því fagi þurfi að taka fastari og betri tökum en nú sé gert. Í sambandi við þessi ummæli sambandsins má geta þess, að í þeirri skýrslu, sem ég gat um hér áðan og hinn norski verkfræðingur samdi, kemur hann einmitt inn á þetta atriði, að kennsla í bifvélavirkjun sé á mjög lágu stigi hér og þurfi stórkostlega úr að bæta frá því, sem nú er. Hins vegar vil ég taka það fram, að ég tel mig ekki dómbæran á það, hvort hér sé rétt með farið. En þess má þó vænta, að menn, sem mikið hafa þurft að sækja til bifreiðaverkstæðanna, þekki allvel til slíkra hluta og sé því byggt á reynslu.

Í frv. er gert ráð fyrir, að bifreiðaeftirliti ríkisins verði veitt vald til löggildingar bifreiðaverkstæða. Með tilkomu bifreiðalaganna hafa skapazt mjög mörg ný viðhorf í sambandi við umferðarmál og útgerð bifreiða almennt. Við það hefur starf bifreiðaeftirlitsins aukizt stórlega frá því, sem áður var. Spurningin er þá sú, hvort bifreiðaeftirliti ríkisins hafi verið sköpuð skilyrði í samræmi við breyttar aðstæður. Ég dreg mjög í vafa, að svo hafi verið gert. Að minnsta kosti er það álit margra, sem til þekkja, að bifreiðaeftirlitið vanti menn með fullkomna þekkingu, svo að það geti orðið þeim vanda vaxið, sem því er ætlað að framkvæma og sjá um. Ég vil á engan hátt gera lítið úr viðleitni þess opinbera til að auka öryggi í sambandi við viðgerð bifreiða. Aukið öryggi á vegum úti byggist fyrst og fremst á því, að farartækin séu í öruggu og góðu ásigkomulagi og sá, sem farartækinu stjórnar, sé allsgáður og kunni allar umferðarreglur og fari eftir þeim í einu og öllu. Það er eitt aðalverkefni bifreiðaeftirlitsins og vegalögreglunnar að sjá um, að svo sé. Það veltur því á miklu, að þeir menn, sem valdir eru til slíkra starfa, séu vandanum vaxnir.

Margir eru þeirrar skoðunar, að aðalupphafsmenn þessa frv. séu eigendur hinna stóru verkstæða og það sé undan þeirra rót runnið, að þetta frv. sé flutt. Ég gat þess áðan og skal samt ekkert fullyrða um, hvað rétt er í því efni, en ýmislegt bendir þó til þess, að ef slík aðstaða skapast sem frv. gerir ráð fyrir, þá mundi ekki líða á löngu, þar til fram kæmi krafa um það, að bifreiðaverkstæðunum yrði heimiluð meiri álagning á viðgerðir en nú er. Með hinum mikla innflutningi bifreiða til landsins hafa vissulega skapazt vandamál varðandi viðgerðir bifreiða. Þessi vandamál munu stórlega aukast, ef hin smærri verkstæði eru látin hætta starfsemi sinni og aukið á einokunarhættuna. Landssamband vörubifreiðastjóra hefur í bréfi til allshn. bent á það sem sína skoðun, að það telji eðlilegt og jafnvel æskilegt, að verkstæði, sem eingöngu væru starfrækt í sambandi við eftirlit á aðalöryggistækjum bifreiða, svo sem bremsum og stýrisgangi, væru löggilt og þá af öryggiseftirliti ríkisins, sem áður hefði fengið í þjónustu sína sérfróða menn í meðferð og viðgerð bifreiðanna, og að slíku verkstæði eða verkstæðum væri heimiluð aukaálagning frá því, sem nú á sér stað.

Ég hef nú að nokkru rætt þetta frv. og komizt að þeirri niðurstöðu, að það sé ekki tímabært að samþykkja það á þessu þingi. Aðalágallann á frv. tel ég vera í fyrsta lagi, að frv. er ekki ætlað að ná til nema nokkurs hluta viðgerðarverkstæðanna. Undanskilin skulu vera öll þau verkstæði, sem aðeins eru rekin fyrir eigin bifreiðar fyrirtækja og einstaklinga og selja því ekki út vinnu. Þessir aðilar eiga og gera við stærstu og fyrirferðarmestu bifreiðarnar. Er mest í húfi, að þær séu í góðu og fullkomnu legi. Hér er því um mikið öryggismál að ræða, og svo framarlega sem löggilda á bifreiðaverkstæðin, þá á vitanlega að löggilda þau verkstæði, sem koma til með að hafa á hendi viðgerðir á stærstu og um leið hættulegustu farartækjunum. Þetta atriði var mikið rætt í allshn., en svo einkennilegt sem það kann að virðast, var meiri hl. n. ófáanlegur til þess að fallast á breytingu á 1. gr. frv. um þetta efni. En ég verð að segja það, að mér er slíkt algerlega hulið, af hverju það getur verið, að meðlimir allshn. skyldu ekki vilja fallast á, að frv., svo framarlega sem það yrði að lögum, næði yfir þá, sem eiga stærstu bifreiðarnar og þurfa að láta gera við þær. Fyrir því komu engin rök fram. Í framsöguræðu hv. frsm. hér áðan kom hann ekki með nokkur rök, sem mæltu á móti því, að frv., svo framarlega sem það yrði að lögum, næði jafnt til þeirra, sem eiga hin stóru tæki, sem hinna. Frv. veitir þeim verkstæðum, sem verða löggilt, einokunaraðstöðu, útilokar alla samkeppni á milli verkstæðanna og stefnir því að stórhækkun á öllum viðgerðartöxtum. Ekkert atriði er í frv., er tryggi frekar nú en áður aukna og betri fagþekkingu bifvélavirkja, og engar nýjar kröfur eru gerðar til þeirra verkstæða, sem taka iðnnema í læri, sem tryggi betur nú en áður lærdóm iðnnemanna. Engin hliðstæða er til í íslenzkum lögum, þar sem atvinnurekendum er veitt slík aðstaða og gert er ráð fyrir að bifreiðaverkstæðin fái, ef frv. verður gert að lögum. Ýmislegt fleira mætti benda á, sem mælir á móti því, að frv. verði samþykkt á þessu þingi. Ég vil því leggja eindregið til, að því verði vísað til hæstv. ríkisstj. til frekari athugunar.