02.03.1961
Neðri deild: 71. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 179 í C-deild Alþingistíðinda. (1876)

7. mál, löggilding bifreiðaverkstæða

Björn Fr. Björnsson:

Herra forseti. Ég var ekki viðstaddur á þeim fundi í allshn. d., sem afgreiddi endanlega þetta mál. En ég hafði sótt alla aðra fundi, sem margir voru með n. um það, og fylgdist því vel með. Í þessu máli, sem er ákaflega viðurhlutamikið, er margs að gæta. Það eru aðeins örfá atriði, sem ég ætla hér að minnast á. Framsögumenn, bæði meiri hl. og minni hl., hafa farið inn á nokkur þessara atriða, en þó ekki öll.

Mér skilst í fljótu bragði, þar sem hér er um algert nýmæli að ræða, að þetta mál þarfnist meiri undirbúnings en fram kemur. Ég skal ekki lasta þann undirbúning, sem þegar hefur átt sér stað, hann hefur nokkur farið fram. En vegna þess, hversu málið er mikilsvarðandi, sé ég ekki og hef ekki séð ástæðu til þess að flýta því svo sem meiri hl. allshn. sýnist vilja og ætlar sér. Að slíkri löggjöf sem þessari mun lengi verða búið, þegar hún kemst á. Hins vegar ætti ekki mikið tjón að verða, þó að eitt, jafnvel tvö ár féllu úr, áður en löggjöf, sem væri þá eins fullkomin og auðið er að koma á laggirnar, væri komin í framkvæmd.

Það eru ýmiss konar umsagnir, sem hafa borizt nefndinni, og mér sýnist, að það megi mjög líta til umsagna þeirra aðila, sem eiga að njóta þjónustunnar, sem er mikilvæg og á að búa svo vel um. Við skulum taka t.d. umsögn frá Fél. ísl. bifreiðaeigenda. Í niðurlagi hennar, — hún er nokkuð löng, og ég tel ekki ástæðu til að lesa hana alla, — segir: „Lögin (það er að segja frv.) teljum við því sennilega óþörf, áreiðanlega ótímabær og gildi þeirra takmarkað. Við álítum það tæplega verjandi fyrir hið háa Alþingi að samþ. lögin eins og sakir standa. Við mælum því gegn því, að frv. verði samþ.“ Þetta er afar stór hópur manna, sem hefur hér uppi umsögn, sem fer alls ekki á milli mála og er auðskiljanleg hverjum sem les eða heyrir. Þegar svo er komið, að slíkur félagsskapur í landi hér hefur þessa umsögn uppi um þetta frv., sem hér er um að ræða, þá tel ég það ekki vera réttlætanlegt að staldra ekki lítillega við og athuga betur málið, er þannig er í pottinn búið.

Þá er annar hópur manna í þessu landi, sem þjónustu á að njóta í sambandi við viðgerðir á bílum. Það eru vörubifreiðastjórar. Landssamband þeirra hefur sent sína umsögn, og hún er mjög á sömu leið og ég las upp áðan frá Félagi íslenzkra bifreiðaeigenda, að stjórn þessa landssambands, Landssambands vörubifreiðastjóra, getur með engu móti fallizt á, að slíkt frv. sem þetta verði samþ. í því formi, sem það nú er. Hvor tveggja þessi félagsskapur hefur ekki á móti löggjöf um þetta efni að sjálfsögðu, síður en svo, en hann vill forma hana betur og sem tryggilegast. Þessar og slíkar athugasemdir frá þeim mönnum, sem njóta þjónustunnar, tel ég að beri að staldra við og athuga nánar.

Þá er eitt atriði enn, sem ekki hefur verið drepið á í þessum umr. Það er ekki endilega víst, að það gildi hið sama í þessu efni um sveitir og þéttbýli. Ég skal taka til dæmis, að það eru í mörgum sveitum, einstökum hreppum, verkstæði, sem fjalla um viðgerðir á bifreiðum og enn fremur og kannske öllu fremur fjalla um nauðsynlegar viðgerðir á landbúnaðarvélum. Þessi litlu verkstæði í sveitum úti eru þess eðlis, að mér finnst, að það beri að vernda þau að nokkru og láta þau ekki gjalda þeirrar spennu, sem kann að vera á milli stærri verkstæða í þéttbýlinu og hinna minni. Þetta er eitt atriði, sem athuga þarf og við höfum ekki nægilega gert okkur ljóst.

Þá má minnast á eitt. Það er ekki endilega víst, að það sé fulltryggilegt varðandi þjónustuna og verkstæðin sérstaklega, að ákveða með reglugerð nauðsynleg lágmarksskilyrði þess að mega reka verkstæði. Það getur verið gott og gilt að hafa slíkt í reglugerð, en alla vega munum við á einu máli um, að það þarf ekki að vera eins tryggt og ef lögfest væri.

Þá má enn fremur geta þess, að það er ekki síður viðurhlutamikið mál, sem snertir varahluti bifreiða og annarra véla. Ég tel einmitt, að það málsefni sé alveg við hliðina á máli eins og þessu, sem við nú ræðum. Mér er vel kunnugt um það, að bifreiðaverkstæði, sem inna af hendi ágæta þjónustu að öðru leyti, eiga ákaflega erfitt með það vegna skorts á varahlutum. Hefur svo lengi verið, og ég er ekki fjarri því að álíta, að hið opinbera eigi með löggjöf eða reglum að reka á eftir að því er varðar varahluti og vera nokkuð kröfuhart. Við vitum, að með nýrri bifreiðalöggjöf er mjög gengið eftir því, að ástand bifreiða í öryggisefnum sé sem tryggilegast og bezt, og þarf þannig að vera. Til þess að fylgja slíkum fyrirmælum bifreiðalaga sem bezt fram þarf að vera séð svo um, að varahlutir séu til staðar og svo að hinu leyti öll vinna við bifreiðar sé í sem fullkomnustu lagi. Og ég er alveg viss um, að í sambandi við það mál, sem hér um fjallar, eigi löggjafinn að láta sig verulega skipta varahlutamálin.

Þessi atriði, sem ég hef dregið hér fram og ekki hafa verið svo mjög til umræðu hér í hv. deild, taldi ég rétt að leggja nokkra áherzlu á, og ekki sízt þegar ég í upphafi máls míns hafði haldið því fram, að ég teldi ekki ástæðu til þess að hraða þessu máli sérstaklega og alls ekki ástæðu til þess að afgreiða það á þessu þingi. Við vitum um, að það er veruleg samkeppni og hún er mjög hörð á milli minni verkstæða og stærri, aðallega í Reykjavík, og ég skil ákaflega vel afstöðu hinna stóru verkstæða, sem verða að bera þungan kostnað, þó að minna sé um þjónustubrögð hjá þeim heldur en öðrum minni. Þessi spenna er eðlileg og öll hófleg samkeppni, bæði á þessu sviði og mörgum öðrum. En öllu verður að skapa fast og tryggilegt horf, og í þessu efni er það einmitt á öryggisleiðum, sem við viljum halda okkur, og þess vegna verðum við að vanda hér allt sem allra bezt má verða og rasa ekki um ráð fram.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að lengja mál mitt öllu fremur, en ég vil fylgja þeirri till., sem uppi er, að málinu verði skotið til hæstv. ríkisstj. til nánari athugunar og umsagnar þeirra manna, sem eiga að njóta þjónustunnar, og leita enn fremur út fyrir þéttbýlið til umsagnar. Og ég tel, að af þeirri afgreiðslu, að skjóta málinu til ríkisstj., mundi ekkert tjón hljótast, en verða til góðs fyrir málið, og það er fyrir mestu, að málið leysist í sem beztu og öruggustu horfi.