02.03.1961
Neðri deild: 71. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 181 í C-deild Alþingistíðinda. (1877)

7. mál, löggilding bifreiðaverkstæða

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Það dylst víst engum, sem hafa kynnt sér þau gögn, sem hér liggja fyrir, að hér er um allmikið vandamál að ræða. Í allri minni þingtíð hef ég ekki orðið var við, að nokkur nefnd hafi verið í jafnmiklum vanda að skila máli og hv. allshn. þessarar deildar, því að það má segja, að meiri hluti hafi verið í vandræðum með að skila málinu, eftir þó að hafa haldið marga fundi um það, eins og segir í nál. Og það voru einmitt nokkur atriði í framsöguræðu hv. frsm. meiri hl., sem gáfu mér tilefni til þess alveg sérstaklega að ræða þetta mál nú við þessa umr., því að mér skilst á þeim orðum, að hv. meiri hl. skilji alls ekki málið eins og það liggur fyrir, ef taka má mark á því, sem hann sagði hér í sinni framsöguræðu. En áður en ég kem að því, vildi ég mega benda á, að við 1. umr. þessa máls minntist ég á það, hvort hæstv. dómsmrh., sem flytur málið, hefði nokkuð á móti því, að hv. nefnd, sem fengi þetta mál til athugunar, tæki til gaumgæfilegrar athugunar, hvort ekki væri hægt að tengja betur saman hin væntanlegu löggiltu verkstæði og bifreiðaeftirlitið sjálft, til þess m.a. að gera hvort tveggja í senn, að skapa miklu meira öryggi í sambandi við bifreiðaeftirlitið og miklu minni útgjöld í sambandi við bifreiðaeftirlitið. Hæstv. ráðh. svaraði því þannig, að hann hafði ekkert við það að athuga, að nefndin tæki þetta mál til athugunar og bryti það til mergjar. Ég sé nú hvorki í framsöguræðu hv. meiri hl. né minni hl. eða í nál., að minnzt hafi verið á þetta atriði í nefndinni. Þrátt fyrir það að um málið hafi verið haldnir margir fundir, þá kemur ekkert fram um það, að þetta atriði, sem vakið er máls á hér í upphafi, hafi yfirleitt verið athugað á einn eða annan hátt. Nú er það svo, að bifreiðaeftirlitið kostar í dag yfir 2½ millj. kr., og okkur er það ljóst, sem látum skoða bifreiðar okkar þar, að það er hvergi nægjanlegt eftirlit til þess að fullnægja öryggi í akstri bifreiða. Þangað koma bifreiðar ef til vill ekki nema einu sinni á ári, en það þarf ekki 12 mánuði til þess að koma bifreið úr ökufæru ástandi, og það var vegna þess, sem ég einmitt lagði til, að þau verkstæði, sem kynnu að verða löggilt, fengju umboð til að yfirfara bifreiðarnar, skoða ástand þeirra og gefa skoðunarvottorð um bifreiðarnar og létta þannig á störfum bifreiðaeftirlitsins sjálfs, minnka kostnaðinn og auka öryggið. Þessu sýnist hv. nefnd alveg hafa gengið fram hjá. Ég vil í sambandi við þetta benda á, að slíkt fyrirkomulag á sér stað m.a. í Bandaríkjunum. Þar eru það bifreiðaverkstæðin sjálf, sem gefa út skoðunarskírteinin á sína ábyrgð, enda hafa þau fengið löggildingu um að skoða bifreiðar.

Þegar við komum að hinu atriðinu, hvort það sé rétt að samþ. þetta frv., eins og það liggur fyrir, þá vildi ég mega spyrja hv. frsm. meiri hlutans, hvað hann meinti með þeim orðum, sem hann sagði hér í sinni ræðu, að ekki hefði verið ætlazt til þess að banna öðrum að gera við bifreiðar. Mér sýnist, að frv. þurfi að taka allverulegum breytingum, ef ekki einmitt er með frv. ætlazt til þess að banna öðrum verkstæðum að gera við bifreiðar en þeim, sem eru löggilt. Þau mega að vísu gera það án greiðslu, þ.e.a.s. gera við sínar eigin bifreiðar, en fyrir almenning mega þau ekki gera við bifreiðar. Og það veltur sannarlega á fylgi mínu við frv., hvernig þetta er skýrt við þessa umr. Verði frv. að lögum og heimildin notuð, er það minn skilningur, að ég sem þjóðfélagsþegn geti ekki fengið gert við mína bifreið, hvað sem mér liggur á, nema á löggiltu verkstæði, nema því aðeins að einhver vilji vera svo velviljaður að gefa mér viðgerð. Þetta sýnist vera alveg augljóst. Og ef þessi skilningur er rangur, þá óska ég að fá skýringu á því frá hv. frsm., sem sagði beinlínis þessi orð, að ekki væri ætlazt til þess að banna öðrum að gera við bifreiðar, þó að þetta væri samþykkt. En mér sýnist, að ákvæði 1. gr. frv. kveði alveg á um það, að það megi ekki aðrir en löggilt verkstæði, eftir að lögin hafa náð gildi, gera við bifreiðar gegn greiðslu, og ef það er réttur skilningur á málinu, þá vildi ég mega spyrja: Er það hugsað að löggilda bifreiðaverkstæði m.a. í öllum kaupstöðum og þorpum landsins og þá kannske fleira en eitt og á öðrum stöðum eða á leiðum, þar sem vel geta komið fyrir slys? Sé minn skilningur réttur, að það megi ekki fá viðgerð á bifreið nema hjá löggiltu verkstæði og svo sé t.d. ekki nema eitt eða tvö verkstæði löggilt, svo að ég taki t.d. Vesturland, þar sem ég á að gæta hagsmuna minna umbjóðenda, þá mundi ég spyrja: Er það til öryggis í akstri, ef ég er staddur vestur í Tálknafirði, þar sem ekki væri löggilt verkstæði, og fyndi sjálfur út eða með mönnum, sem ég leitaði til, að stýrisgangur bifreiðarinnar væri í ólagi, þyrfti viðgerðar og það væri mjög hættulegt fyrir mig og þá farþega, sem ég væri með, að fara yfir heiðarnar til næsta verkstæðis, sem væri löggilt, — er þetta til öryggis eða á ég þá að brjóta lögin og fá einhvern til þess að gera við það, sem þarf að gera við, sem ég kannske ekki get gert, af því að hann vill ekki vera mér sammála um að brjóta lögin til þess að tryggja öryggi minnar bifreiðar? Þetta er ákaflega mikið atriði í þessum málum. En sé þessí skoðun rétt hjá hv. frsm., eins og hann sagði áðan, að það sé ekki verið að banna öðrum að gera við bifreiðar, þá þarf að breyta 1. gr. áreiðanlega til þess að taka af öll tvímæli.

Þá vil ég aðeins benda á, að mér hefði þótt mjög eðlilegt, áður en þetta frv. væri samþ. að það lægi nokkurn veginn fyrir, hvernig væri hugsuð reglugerðin í sambandi við frv. Er reglugerðin hugsuð þannig, að hvert eitt einasta bifreiðaverkstæði, sem hefur að forstjóra mann með fulla þekkingu, eigi kröfu á að vera löggilt? Þetta er stórt atriði. Eða á það aðeins að vera á valdi hæstv. dómsmrh. hverju sinni, hvort löggilt sé eitt verkstæði, en neitað öðru, sem hefur sömu aðstöðu eða meiri? Og það er einmitt þetta, sem hv. meiri hl. n. finnur, þegar hann segir í sínu nál., að þessu megi misbeita. Það er það, sem hann finnur, því að hann segir hér ákveðið í nál., með leyfi hæstv. forseta:

„Félag íslenzkra bifreiðaeigenda og Landssamband vörubifreiðastjóra mæla gegn því, að frv. nái fram að ganga, og færa ýmis rök máli sínu til stuðnings. Láta þeir í ljós ótta um það, að af samþykkt þess muni leiða einokunaraðstöðu vissra stórra verkstæða og á einstökum stöðum.“

Svo segir meiri hl. nefndarinnar:

„Þetta er hugsanlegt, en þarf alls ekki að verða.“ En það er þó möguleiki. Svo er sagt síðar: „Það fer allt eftir því, hvernig framkvæmdin verður á þeirri heimild, sem frv. gerir ráð fyrir. Þessu væri hægt að beita harkalega, en það er hægt að beita því frjálslega, svo að ekki verði ofvaxið eigendum verkstæðanna að fylgja kröfunum.“

Að síðustu segir meiri hlutinn:

„Við, sem mælum með því, að frv. verði samþ., treystum því, að dómsmrn. beiti heimild sinni frjálslega, svo að engin hætta sé á, að um einokun eða okur vissra aðila verði að ræða á viðgerðum bifreiða og annarra aflvéla.“

Þeir mæla með því í því trausti, að ávallt, ekki einungis nú, heldur ávallt um allan tíma, sem lögin gilda, sitji frjálslyndir, heiðvirðir, sanngjarnir menn í dómsmálaráðherrastöðunni. Ég held, að þessi afstaða meiri hl. n. hafi markazt af því, að í henni situr í dag slíkur maður. Ég held, að þessi afstaða hv. meiri hl. hafi markazt beinlínis af því og það hefði ekki verið sagt, ef í henni hefði setið maður, sem ekki væri búinn slíkum eiginleikum. Ég segi fyrir mína parta, að ég læt ekki afstöðu mína til mála, sem eiga að gilda um langan tíma og varða alla þjóðina, markast af því hvort með þau mál fara góðir og heiðvirðir og réttlátir menn á þeim tíma, sem lögin eru samþ. Það geta vel komið hér aðrir menn, sem hafa allt aðra eiginleika, allt aðra skapgerð og allt annan skilning á réttu og röngu heldur en þessi ágæti dómsmrh. sem nú situr hér, svo að mér sýnist, að þetta bendi til þess, að hv. meiri hl. hafi verið í hreinustu vandræðum að afgreiða málið og hann geri þetta af því, að hann treysti svo vel hæstv. dómsmrh., sem ég einnig geri, en læt það bara ekki vera nægilegt til þess að fylgja málinu án þess að hafa bent á þessa ágalla.

Ég vildi gjarnan spyrja hv. frsm. meiri hl., sem ber ábyrgð á till. sinni til okkar, sem eigum að greiða atkv., hvað er hugsað um þá landshluta, sem ef til vill fá engin löggilt verkstæði. Hvað er hugsað um þá? Hvernig hugsa þeir sér þjónustuna þarf? Er hugsað, að þeir verði allir saman að leita til þéttbýlisins, þar sem sjálfsagt miklu fleiri en eitt verkstæði fengju löggildingu? Eða er hugsað, að þeir eigi bara að draslast á sínum bifreiðum, þangað til þeir geti komizt þangað, sem löggilt verkstæði eru fyrir, eða senda bifreiðarnar til viðgerðar með annaðhvort skipum eða með öðrum bifreiðum? Samkvæmt 1. gr. mega ekki aðrir gera við bifreiðar, nema því aðeins að þeir vilji gera það án endurgjalds, og það vitum við að er ekki almennt nú á tímum. Og ef það er ætlunin, þá er bezt að setja ákvæði um það inn í frv., hvernig skuli fara með, þegar svo stendur á, svo að enginn vafi sé um það, að þeir þegnar,sem búa í þeim héruðum, viti, hvernig þeir eigi að haga sér hér að lútandi. Og hvað er svo um þá aðila, sem flytja inn bifreiðar? Nú er það svo, að svo að segja hver einasti bifreiðaframleiðandi gerir það að ófrávíkjanlegri kröfu, að hans umboðsmaður hafi þjónustu á bifreiðunum, þeim sem hann flytur inn, og að sú þjónusta sé látin ganga fyrir öðrum bifreiðum. Ég þekki töluvert þetta mál, því að ég hef dálítið sjálfur verið í þessum viðskiptum. Hvað er um þá aðila? Eiga þeir kröfu á að fá löggildingu, jafnvel þótt viðgerðir séu ekki framkvæmdar í neinum stórum höllum, heldur í einhverjum smærri húsakynnum?. Eiga þeir að fá löggildingu, eða eiga þeir að sækja viðgerðirnar undir samkeppnisinnflytjendur sína? Þetta er stórt atriði. Og það þarf sannarlega að taka miklu nánar fram um það í lögunum sjálfum. En það get ég upplýst hv. nefnd um, að það er ekkert létt fyrir innflytjanda, sem flytur inn ákveðna bifreið, að eiga að sækja til annarra innflytjenda bæði að stilla bifreiðarnar og gera við þær, hafa í þær varahluti o.s.frv.; innflytjenda, sem eru hans samkeppnismenn. Það er síður en svo, að það sé létt. Og það verður að vera lágmarkskrafa, að hver og einn einasti innflytjandi, sem hefur leyfi til að flytja inn bíla, fái löggildingu fyrir þær bifreiðar. Og þá er bezt að setja það inn í lögin.

Þá vil ég mega spyrja hv. frsm. meiri hl.: Er gert ráð fyrir, að þessi löggjöf auki kostnaðinn við bifreiðaeftirlit? Um það er ekkert sagt, hvorki í nefndarálitunum né í framsöguræðu. En þó er minnzt á það hér á einum stað, að að sjálfsögðu verði bifreiðaeftirlitið að hafa sérfræðinga til þess að líta eftir bifreiðaverkstæðunum, sem búið er að löggilda. Og hvað er sá kostnaður þá mikill? Hvaða hringrás er raunverulega verið að skapa með þessu: fyrst að löggilda verkstæðin og svo að setja aðra löggæzlumenn yfir þá til þess að sjá um, að þeir geri verkin eins og þeir eiga að gera? Allt þetta finnst mér að þurfi miklu nánari athugunar við og það svo miklu meiri, að ég treysti mér ekki til þess hér við 2. umr. að koma með brtt. við frv. Ég vildi því mega mælast til þess, að hæstv. forseti frestaði þessari umr. og málið yrði aftur tekið til nánari athugunar í nefndinni, hún héldi um það enn nokkra fundi, m.a. til að athuga þau atriði, sem ég hef hér bent á og ég benti á í upphafi, og ef ekki nefndin fengist til þess að breyta neitt frv. frá því, sem það nú er, þá að tími gæfist til þess á milli 2. og 3. umr. að semja brtt. við frv.

Hv. 4. þm. Sunnl., sem talaði hér síðast, minntist nokkuð á varahlutaspursmálið. Í því sambandi þykir mér rétt að upplýsa hér, að það er verið að reyra þetta atriði í hreinan dróma og það er vegna hámarksálagningarákvæðisins. Það er komið svo nú í sambandi við álagningu á bifreiðavarahluti, að það vill enginn bifreiðainnflytjandi liggja með slíka varahluti, og þess vegna tekur það orðið nú oft og tíðum marga mánuði fyrir menn að fá varahluti. Þá er reglan þessi: maður verður fyrst að panta varahlutina og senda pöntunina út, svo þegar varan kemur inn, verður að leggja inn ákveðinn hluta af greiðslunni í banka og halda honum þar geymdum í 1–2 mánuði, eftir því sem bankinn óskar, — á meðan getur eigandi bifreiðarinnar ekki ekið henni, — og svo þegar loksins er búið að greiða þetta út og borga alla tolla, sem tekur kannske fimm, sex, sjö mánuði, er varan fyrst laus til afhendingar. Ég veit um tilfelli, þar sem viðkomandi maður hefur þurft að bíða nærri heilt ár eftir slíkum hlutum, af því að fyrirkomulagið er eins og það er í dag, því að það er ekkert létt atriði fyrir menn að hafa miklar birgðir bifreiðavarahluta og greiða af þeim upphæðum 10–12% vexti og taka áhættuna um að þurfa að kasta eftir nokkurn tíma kannske helmingnum af því, sem inn er keypt. Menn breyta um bifreiðar og breyta um módel, svo að engin trygging er fyrir sölu allra varahluta. Vegna hámarksákvæðis er útilokað, að innflytjendur eða verkstæði geti haldið miklum varahlutaforða, eins og nauðsynlegt er til þess að veita þá þjónustu, sem allir þurfa að hafa, bifreiðaframleiðendur gera kröfur um í öllum hinum menntaða heimi að menn hafi og ekki er hægt að gera í þessu landi, vegna verðlagsákvæðisins. Þess er náttúrlega ekki að vænta, að neinn innflytjandi taki það á sig að panta vöru og taka áhættuna um það að verða að sitja uppi með hana eða selja fyrir sama sem ekki neitt, einhvern hluta hennar kannske eftir fimm, sex eða tíu ár, og greiða síðan 12% í vexti af þeim hluta, sem ekki er hægt að selja. Ég vildi mega endurtaka það til hv. frsm., hvort hann vildi fallast á að taka málið aftur til frekari athugunar í nefndinni, og ef ekki, þá til hæstv. forseta að fresta þessari umr. og gefa tækifæri til þess að gera brtt.