02.03.1961
Neðri deild: 71. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 185 í C-deild Alþingistíðinda. (1878)

7. mál, löggilding bifreiðaverkstæða

Halldór E. Sigurðsson:

Herra forseti. Ég vil taka undir það með hv. 1. þm. Vestf., að hvorki þetta frv. né annað getum við afgr. með það fyrir augum, að okkur geðjist vel að þeim hæstv. ráðh., sem með málin kann að fara á hverjum tíma. Ég vil ekki heldur ætla hv. meiri hl. það, að afstaða hans hafi verið slík, þó að það megi að nokkru ráða af því, sem kemur fram í áliti meiri hl. allshn. á þskj. 424. Ég vil segja það, að ég er ekki að lýsa neitt áliti mínu á hæstv. núverandi dómsmrh., þó að ég haldi því fram með fullum rökum, að hann hafi enga sérþekkingu á viðgerðum bifreiða. Þannig mun verða um fleiri dómsmrh., þó að þeir séu vel hæfir til þess að gegna því embætti, þá er sérþekking þeirra á þessu ekki til staðar, og verða þeir þess vegna að fara eftir till. bifreiðaeftirlitsins, en ekki sínu eigin áliti.

Eins og fram hefur komið í þessum umr., hefur bifreiðum fjölgað mjög á síðari árum. Þetta veldur því, að bifreiðaverkstæðum hefur einnig fjölgað. Það veldur því einnig, að slysin í umferðinni hafa líka farið vaxandi. Það er því fullkomin ástæða til að gefa þessu gaum, gera allt það, sem verða má, til þess að auka öryggið í umferðinni. Sum af þeim slysum, sem átt hafa sér stað í sambandi við bifreiðar, eiga rót sína að rekja til bifreiðaverkstæðanna, vegna þess að sú vinna, sem þar hefur verið framkvæmd, hefur ekki verið nógu vel unnin og samvizkusamlega, og slys hefur hlotizt af. Ekki mun það þó alltaf hafa átt sér stað hjá þeim smærri verkstæðum, að þannig hafi til tekizt. Þess vegna er ekki nema eðlilegt, að það komi fram hér á hv. Alþ. frv. um að hafa eftirlit með bifreiðaverkstæðum. Hér eru stofnanir, sem vegna þeirra verka, sem þær inna af hendi, geta valdið slysum og dauða á mönnum, og við eigum að sjálfsögðu að gera allt til þess að koma í veg fyrir það.

En ég er ekki sannfærður um, að með þessu frv., eins og það liggur fyrir nú, sé nógu mikið öryggi skapað í þessum málum eða það sé búið að leggja nóg niður fyrir sér, hvernig hægt er að koma fyrir í löggjöf eftirliti með bifreiðaverkstæðum, sem til öryggis mætti verða. Þegar ég las 1. gr. og sá orðin „gegn greiðslu“, þá leit ég svo á, að það væri átt við það, að mér væri sem bifreiðareiganda heimilt að gera við mína bifreið. En eins og þetta er túlkað í nál., að undanþegin þessu ákvæði væru t.d. bifreiðar Landleiða, strætisvagnar Reykjavíkur, bifreiðar vegagerðarinnar, olíufélaganna, þá finnst mér vera komið langt út fyrir það, sem ég get sætt mig við. Og ef höfuðtilgangur frv. á að vera sá — sem ég hélt vera — að skapa öryggi fyrir líf og limi þeirra manna, sem með bifreiðum ferðast, þá finnst mér hér skorta mikið á, enda get ég ekki skilið, að það sé með rökum hægt að halda því fram, að verkstæði, sem rekin eru af vegagerð ríkisins, Landleiðum eða strætisvögnum, vinni ekki verk sín gegn greiðslu. Þó að þau geri aðeins við bifreiðar þess fyrirtækis, sem rekur verkstæðið, þá er auðvitað í reikningshaldi fyrirtækisins færð fram greiðsla fyrir viðgerð. á þeim bifreiðum, sem þar eru til viðgerðar í það og það skiptið. Þess vegna vil ég segja það, að ég get ekki skilið, að þessi skilningur sé réttur. En það yrði að vera fullkomlega ljóst, áður en slík löggjöf yrði sett, hvort aðalfyrirtæki, sem farþega flytja út um landið, eins og langferðabifreiðarnar, mættu gera við þær á verkstæðum, sem ekki væru löggilt. Það væri að fara mjög aftan að siðunum, ef þannig væri hægt að túlka orðin „gegn greiðslu“. Það væri því með öllu óverjandi fyrir Alþingi að ganga þannig frá þessu atriði. Og ef slíku væri ekki mótmælt hér á hv. Alþingi við afgreiðslu málsins, þá mætti ætla, að sá skilningur yrði látinn ráða. Þess vegna vil ég taka skýrt fram, að það kemur ekki til greina, að slíkur skilningur geti verið réttur í sambandi við þetta frv. Því er þá ætlað annað hlutverk en ég hafði hugsað mér, þegar það var lagt fram hér á hv. Alþingi. Ég leit svo á, að það væri fyrst og fremst öryggi, sem ætti að tryggja, en ekki að skapa einu eða öðru verkstæði einhverja sérstaka aðstöðu. Þetta vil ég láta koma fram hér í þessum umræðum og legg á það mikla áherzlu, að Alþingi getur ekki gengið svo frá málinu, að sá skilningur sé ríkjandi gagnvart þessu atriði, að þar sé átt við heil verkstæði, að þau séu undanþegin bara vegna þess, að þau gera ekki við aðrar bifreiðar en eigin bifreiðar. Hitt álít ég, að með ákvæðinu „gegn greiðslu“ væri átt við það, að einstaklingur mætti gera við sína einkabifreið. Hins vegar, ef hann fer að reka bifreiðar, t.d. sérleyfisbifreiðar, þá yrði hann auðvitað að láta gera við þær á slíkum verkstæðum.

Þá verð ég að segja það út af því atriði, sem hv. 1. þm. Vestf. drap hér á um 1. gr., að það hefur dómsmrh. á valdi sínu, þannig að hann gæti kveðið svo á um, að það væri aðeins eitt verkstæði á þessum stað, við skulum segja í Borgarnesi eða Stykkishólmi eða eitt verkstæði í Mýrasýslu, sem mætti gera við bifreiðar eftir venjunni. Hins vegar sýnist mér að hann þyrfti ekki að segja, að það mætti ekki gera við bifreiðar nema á þessu eina löggilta verkstæði, en það leiðir af sjálfu sér, að framkvæmdin hlyti að verða á þá leið, að þetta löggilta verkstæði sæti fyrir um allar viðgerðir.

Það þarf ekki orðum að því að eyða, að á síðari árum hefur dreifing á vélknúnum ökutækjum orðið geysileg um landið allt, og þeirra vegna hafa viðgerðarverkstæði dreifzt um allt land. Þess vegna, þegar farið væri að hafa eftirlit með þessum verkstæðum og skapa þar meira öryggi, þá yrði að gera það með verulegri varúð og án þess að um nokkra stökkbreytingu væri að ræða til þess að komast hjá auknum kostnaði og gera það að verkum, að margir þeir, sem til slíkra verkstæða hefðu stofnað, yrðu fyrir verulegu tjóni.

Ég lít því svo á, að þetta mál, sem er lagt hér fyrir Alþingi í fyrsta sinn í vetur, sé svo umfangsmikið, að það sé rétt að láta það fara aftur til hæstv. ríkisstj. og leita umsagnar hjá fleiri aðilum en enn hefur verið gert, kynna málið betur og reyna að samræma þau sjónarmið, sem hér hafa komið fram, og gera málið þannig betur úr garði. Ef ég man rétt, þá skildist mér það á hæstv. dómsmrh., þegar hann flutti framsögu fyrir þessu máli hér í hv. deild, að þá væri það ekkert kappsmál frá hans hendi, að þetta mál yrði afgreitt í vetur, en umfram allt, að það yrði athugað vel og reynt að ná um það samstöðu. Ég held, að við getum ekki afgreitt þetta frv. frá hv. Alþingi í vetur eða gert það að lögum, svo að vel fari. T.d. vil ég benda á það, sem hv. 1. þm. Vestf. drap hér á áðan um þau bifreiðaverkstæði, sem fengju þau réttindi að verða löggilt, að eðlilegt væri, að lagðar væru þær skyldur á þau að hafa eftirlit með bifreiðum og létta bifreiðaeftirlitinu að nokkru af bifreiðaeftirliti ríkisins. Ef það ætti að gera, þá yrðu að koma hér inn líka sektarákvæði gagnvart þessum bifreiðaverkstæðum, ef þau brytu skyldu sína. Ef inn á slíka leið ætti að fara, þarf að undirbúa það betur en hægt væri að gera hér á milli umræðnanna. Þess vegna vildi ég nú mega vænta þess, að hv. allshn. tæki þetta mál aftur og sameinaðist um þá till., sem hv. 11. landsk. flytur hér, að fresta þessu máli og vísa því til hæstv. ríkisstj., enda sýnist mér á þeim rökum, sem hv. meiri hluti beitir í málinu, að þau séu það veik, að hann sé það mikið í vafa, að skynsamlegri leið væri að láta málið bíða afgreiðslu til næsta þings, enda yrði það þá betur búið og hægt að sameina þau sjónarmið, sem eiga að vera höfuðtilgangur frv., að auka öryggi í umferðinni án þess þó að gera um of erfitt fyrir um framkvæmdirnar. Og ég vildi mjög mælast til þess við hv. n., að hún tæki þetta til athugunar á nýjan leik.