18.10.1960
Neðri deild: 6. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 192 í C-deild Alþingistíðinda. (1884)

8. mál, Iðnaðarmálastofnun Íslands

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Iðnaðarmálastofnun Íslands hefur nú starfað í nokkur ár, og er þegar komin raun á, að hún hefur komið að margvíslegu gagni. Ég hygg þess vegna, að tímabært sé að lögbinda starf hennar eða setja nýjar reglur um tilvist hennar og starfshætti. Frumvörp hafa að vísu verið fyrir Alþingi um þetta áður, en þá ekki þótt tímabært að afgreiða málið. En mér sýnist sem sagt, að nú sé rétt að setja slík fyrirmæli. Í þessu frumvarpi er þó vikið frá því, sem ráðgert hefur verið áður, að telja upp í einstökum atriðum í frv. sjálfu meginþætti starfsemi stofnunarinnar. Mér sýnist, að sú ýtarlega sundurliðun, sem áður hefur verið í frumvörpum, sem lögð hafa verið fram, sé óþörf og ekki allsendis heppileg, vegna þess að hér kemur margt til greina, og hlýtur raunar að breytast ár frá ári, hvert viðfangsefni slíkrar stofnunar er í einstökum þáttum, þess vegna sé hitt heppilegra, eins og gert er í 4. gr. þessa frv., að kveða aðeins á um markmiðið og aðalstarf með almennum orðum, en ákveða síðan í reglugerð um einstaka starfsþætti.

Aðalbreytingin, sem fólgin er í þessu frv. frá því, sem verið hefur, er, að ætlazt er til að fjölga um 2 menn í stjórn stofnunarinnar, að þar fái sæti fulltrúi Alþýðusambands Íslands og Vinnuveitendasambands Íslands. Þetta er tvö stærstu allsherjarsamtök þeirra aðila, sem þetta mál varðar mestu, og mér hefur fundizt óeðlilegt og í vaxandi mæli, eftir því sem ég kynntist starfsemi stofnunarinnar, óeðlilegra, að þessir aðilar ættu ekki fulltrúa í stjórn hennar.

Að þessu slepptu má segja, að lögin fari einungis fram á að lögfesta það, sem nú þegar er í framkvæmd og mönnum í meginatriðum kunnugt, og skal ég ekki fjölyrða um það. Breytingin hygg ég að sé ótvírætt til bóta.

Ég leyfi mér svo að leggja til, að málið gangi að þessari umr. lokinni til 2. umr. og hv. iðnaðarnefndar.