23.02.1961
Neðri deild: 68. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 197 í C-deild Alþingistíðinda. (1888)

8. mál, Iðnaðarmálastofnun Íslands

Þórarinn Þórarinsson:

Herra forseti. Eins og kemur fram í nál., mæli ég með þessu frv. í trausti þess, að frv. það, sem atvinnumálanefnd ríkisins hefur samið um rannsóknarstofnun atvinnuveganna, verði lagt fyrir Alþ. og þingið geti því athugað bæði frumvörpin samhliða, þ.e.a.s. það frv., sem hér liggur fyrir, og frv., sem atvinnumálanefndin hefur samið um rannsóknarstofnun ríkisins. Þessi afstaða mín er byggð á því, að í bréfi, sem iðnn. barst frá atvinnumálanefnd ríkisins, bendir n. á, að það sé æskilegt, að þingið fjalli um þessi bæði frumvörp samtímis, vegna þess að þau fjalli um svipað efni, a.m.k. að vissu marki.

Ég vildi í framhaldi af þessu spyrjast fyrir um það hjá hæstv. ríkisstj., hvort þetta frv., sem atvinnumálanefndin hefur samið um rannsóknarstofnun atvinnuveganna, verði ekki lagt fram nú á þessu þingi, svo að þm. geti fjallað um þessi bæði mál nokkurn veginn samhliða. Ég teldi, að það væri ávinningur að því, að frv. um rannsóknarstofnun atvinnuveganna yrði lagt fram á þessu þingi, jafnvel þó að það yrði ekki samþykkt nú, vegna þess að hér er um mjög margþætt og mikilvægt málefni að ræða, og getur þess vegna verið, að það sé ekkert óeðlilegt, að um það sé fjallað á tveimur þingum og þm. geti á þann hátt fengið sem bezta aðstöðu til að kynnast efni þess. Ég spyrst með öðrum orðum fyrir um það, hvort þess megi ekki vænta, að hæstv. ríkisstj. leggi þetta frv. fram á þessu þingi.