07.12.1960
Sameinað þing: 22. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 129 í B-deild Alþingistíðinda. (189)

1. mál, fjárlög 1961

Frsm. meiri hl. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Svo sem nál. meiri hl. fjvn. á þskj. 171 ber með sér, hefur ekki náðst samkomulag í n. um afstöðu til fjárlagafrv. Öll n, stendur að vísu að brtt. þeim við gjaldabálk frv., sem fluttar eru á þskj. 162, en fulltrúar Framsfl. og Alþb, í n. lýstu sig andvíga brtt. við tekjubálk frv., sem fluttar eru af meiri hl. n. á þskj. 170. Enn fremur gerðu þeir fyrirvara um afstöðu til einstakra brtt. í hinum sameiginlegu tillögum n., að þeir áskildu sér rétt til að flytja eða fylgja brtt. við þær, sem kynnu fram að koma. Gera fulltrúar þessara flokka í n. grein fyrir sérsjónarmiðum sínum í sérstökum nefndarálitum.

Svo sem í nál. meiri hl. segir, hófst athugun frv. í n. nokkru áður en frv. var formlega til hennar vísað. Hefur n. síðan 19. okt. samfellt starfað að athugun málsins, og hefur því mætt æði mikið á nm. undanfarnar vikur. Vil ég nota þetta tækifæri til þess að þakka meðnm. mínum öllum fyrir ágæta samvinnu og umburðarlyndi við mig sem formann n. Vona ég, að fulltrúar stjórnarandstöðunnar í n. telji sig ekki hafa verið beitta neinum órétti í sambandi við vinnubrögð innan n., enda þótt að sjálfsögðu hefðu þeir viljað hafa hagað afgreiðslu einstakra mála nokkuð á annan veg.

Í nál. meiri hl. fjvn, við 2. umr. fjárl. fyrir árið 1960 var lögð áherzla á það breytta viðhorf, sem hlyti að verða við fjárlagaafgreiðslu næstu árin, ef efnahagsaðgerðir ríkisstj, bæru þann árangur, sem til væri ætlazt. Meðan verðbólguþróunin og víxlhækkanir kaupgjalds og verðlags voru í algleymingi og innflutningur miklu meiri en gjaldgeta þjóðarinnar leyfði, uxu tekjur ríkissjóðs eðlilega mikið ár frá ári. Afleiðingin varð sú, að aðhaldið um gjaldaaukningu var lítið og jafnan eytt öllum þeim tekjum, sem inn komu. Meginhluta þessa fjár var að vísu varið til þarflegra hluta, en það breytir ekki þeirri staðreynd, að heppilegt hefði verið að geta lagt nokkurt fé til hliðar til þess að mæta áföllum á erfiðum árum, sem koma kynnu, því að alltaf má. við því búast, að aflabrestur eða önnur óáran geti haft í för með sér verulegan greiðsluhalla hjá ríkissjóði. Er að sjálfsögðu heppilegra að eiga einhvern varasjóð til þess að mæta áföllum einstakra ára heldur en þurfa þá að grípa til skattlagningar, því að ætla má, að þá sé heldur ekki heppilegur tími til þess að auka álögur á þjóðina. Sem betur fer, hafa engin slík óvænt óhöpp hent þjóðarbúskapinn undanfarin ár, enda þótt verðbólguþróunin hafi smám saman leitt til þess alvarlega öngþveitis, sem ekki var auðið að komast út úr nema með hinum róttæku efnahagsaðgerðum á s.l. vetri. Þessar aðgerðir hafa m.a. þær afleiðingar, að í þjóðarbúskapnum jafnt sem búskap einstakra borgara verður að sýna meiri hagsýni og aðgæzlu um ráðstöfun fjármuna. Það verður að gæta þess vandlega að eyða ekki umfram það, sem efnahagurinn leyfir, og nú kemur ekki til mála að mæta auknum útgjöldum ríkissjóðs með nýjum álögum á þjóðina. Tími skatta- og tollahækkana er að baki, nema af skammsýni verði stefnt út í nýja ófæru. Stefnt er nú inn á nýjar og farsælli brautir í skattamálum og unnið að víðtækri athugun á tollalöggjöfinni, en á því sviði er þörf margvíslegra úrbóta, sem yfirleitt munu stefna í lækkunarátt. Jafnvægi í efnahagskerfinu innanlands og viðskipti við útlönd munu skerða mjög hina óeðlilegu árlegu aukningu ríkistekna undanfarin ár, og tekjuaukning ríkissjóðs hlýtur því á næstunni að ákvarðast af aukningu þjóðartekna og þjóðarframleiðslu.

Þetta eru þau fjármálalegu viðhorf, sem hafa verður í huga við afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 1961. Vegna skipulagsbreytinga og sem bein afleiðing af gengisbreytingunni hlutu fjárlög ársins 1960 að hækka mjög verulega frá fjárlögum fyrri ára. Þar sem gengisbreytingin gilti ekki allt árið 1960, koma öll áhrif hennar til aukinna útgjalda ríkissjóðs ekki fram fyrr en á árinu 1961. Telja má víst, að útgjöld ríkissjóðs beinlínis vegna áhrifa efnahagsaðgerðanna á s.l. vetri muni aukast um a.m.k. 55 millj. kr. á árinu 1961. Er bróðurpartur þeirrar upphæðar aukin útgjöld almannatrygginga, fyrst og fremst vegna fjölskyldubóta, sem gilda nú allt næsta fjárhagsár. Hefði ekki verið um þessar sérstöku hækkanir að ræða, hefði fjárlagafrv. nú beinlínis verið lægra en fjárlög ársins 1960.

Í nál. meiri hl. fjvn. við afgreiðslu síðustu fjárlaga var lögð á það rík áherzla, að nú yrði hafizt handa um allsherjarathugun á öllum þáttum ríkisútgjalda með það fyrir augum að takmarka þau, svo sem auðið væri. Og jafnframt benti ég í framsöguræðu á nauðsyn þess, að gerð yrði á því athugun, hve mikið ríkisútgjöld mættu aukast árlega, eftir að jafnvægi væri komið á í efnahagsmálum, án þess að afkomu ríkissjóðs væri teflt í hættu. Athugun á aukningu ríkisútgjalda miðað við stöðugt verðlag var gerð fyrir tveimur árum fyrir nokkur næstu ár þar á undan, og reyndist þá árleg útgjaldaaukning rúmlega 9%. Hygg ég, að sú aukning sé mun meiri en fær staðizt á jafnvægistímum, nema um mjög verulega aukningu þjóðartekna sé að ræða.

Við undirbúning þessa fjárlagafrv. hefur fullkomlega verið unnið í þeim anda, sem bent var á við afgreiðslu síðustu fjárlaga að ríkja þyrfti. Í mörgum greinum hafa verið gerðar ráðstafanir til þess beinlínis að draga úr útgjöldum ríkissjóðs, og staðið hefur verið gegn allri útþenslu í ríkiskerfinu. Svo sem hæstv. fjmrh. lýsti í framsöguræðu sinni með fjárlagafrv., er nú unnið að kerfisbundinni athugun á vinnubrögðum í ýmsum ríkisstofnunum og athuguð úrræði til meiri hagsýni og betra skipulags í ýmsum greinum ríkiskerfisins. Birtist árangur ýmissa þessara aðgerða í fjárlagafrv., en ýmis önnur atriði eru í undirbúningi.

Gera má ráð fyrir, að fjárlög ársins 1961 verði 85–90 millj. kr. hærri en fjárlög yfirstandandi árs. Ef frá eru taldar þær um það bil 55 millj. kr., sem eru óhjákvæmileg hækkun á framlögum til tryggingabóta og hlutatryggingasjóðs, sem eru sérstaks eðlis og leiða ekki til samsvarandi hækkunar 1962, þá er ekki um að ræða nema um það bil 2% útgjaldahækkun, miðað við fjárlög ársins 1960. Verður að telja, að sú hækkun, sé mjög hófsamleg og vel innan þeirra takmarka, sem eðlileg mættu teljast á tímum efnahagslegs jafnvægis í þjóðfélaginu.

Fjvn. hefur ekki nema að mjög litlu leyti tekið tillit til þeirra margvíslegu óska, sem henni bárust um hækkun framlaga til margra mála. Er það raunar óskemmtilegt hlutverk að verða að neita um fé til margra nauðsynlegra verkefna, sem mikilvægt er að vinna að. En því miður verður margt að bíða í litlu þjóðfélagi, sem hefur takmörkuð fjárráð og hefur í mörgum efnum reist sér hurðarás um öxl. Það getur verið fróðlegt að vita, hve miklu aðrar þjóðir verja til ýmissa mála. En því miður er fjárhagsgeta okkar litlu þjóðar ærið miklu minni en flestra annarra þjóða, og við verðum því nauðugir, viljugir að bíta í það súra epli að geta ekki haft allt jafnfullkomið hjá okkur og er hjá þeim. Þetta breytir auðvitað ekki þeirri staðreynd, að við verðum að stefna fram á við til aukinna framkvæmda og framfara, en verðum ætíð að gæta þess að fara ekki hraðar en svo, að við kollsiglum okkur ekki.

Þótt mörgum muni vafalaust finnast sinn hlutur lítill eða jafnvel fyrir borð borinn í tillögum fjvn., þá er engu að síður staðreyndin sú, að fremur má með réttu saka n. um að ganga of langt í útgjaldahækkunartillögum sínum en hið gagnstæða, þannig að teflt sé í hættu því grundvallaratriði að hafa hallalausan ríkisbúskap, svo sem ég mun síðar víkja að. Það er höfuðnauðsyn að leita nú allra úrræða til sparnaðar og hagsýni í hinni fjölþættu starfsemi ríkisins. Þjóðin hefur orðið að taka á sig allþungar kvaðir og kjaraskerðingu um sinn, meðan hún er að koma efnahagsmálum sínum í eðlilegan farveg. Og það er sjálfsögð sanngirniskrafa þjóðarinnar til ríkisvaldsins, að þeir fjármunir, sem þjóðin verður að greiða til opinberra og sameiginlegra þarfa, séu notaðir af svo mikilli fyrirhyggju og hagsýni sem við verður komið og öll ónauðsynleg útgjöld skorin niður. Því miður er þó hægara sagt en gert að skera niður útgjöld ríkissjóðs og kröfur almennings um það efni oft harla óraunsæjar. Þau útgjöld, sem mest vega, snerta líka flest hagsmuni stórs hluta þjóðfélagsborgaranna, og því næsta vafasamt, að niðurskurður ríkisútgjalda í stórum stíl mundi valda nokkurri almennri ánægju. Engu að síður má þó án efa draga úr útgjöldum á ýmsum sviðum og koma á skynsamlegri starfsháttum, þótt flestar slíkar skipulagsbreytingar kosti áreiðanlega verulega mótspyrnu. En ekki tjóar annað en að brjóta slíka mótspyrnu á bak aftur, ef menn að athuguðu máli eru sannfærðir um, að breyting sé skynsamleg og nauðsynleg.

Fjvn. gerir ekki tillögur um niðurskurð ríkisútgjalda umfram þær lækkanir á ýmsum liðum rekstrarútgjalda ríkissjóðs, sem gert er ráð fyrir í fjárlagafrv., og ber vissulega að fagna þeirri stefnubreytingu, sem þar birtist. Svo sem fjmrh. réttilega tók fram við fjárlagaumræður við afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 1960, hefur undirbúningslaus niðurskurður einstakra útgjaldaliða enga raunhæfa þýðingu, því að lækkun ríkisframlaga krefst í flestum greinum annaðhvort skipulagsbreytinga eða beinna löggjafarbreytinga, sem vel þarf að undirbúa, svo að niðurstaðan verði sú, sem að er stefnt. Fjmrh. hefur skýrt frá því, að ríkisstj. hafi ýmis slík mál til athugunar. En um leið og meiri hl. n. lýsir eindregnum stuðningi sinum víð þessar ráðstafanir ríkisstj. til aukins sparnaðar og hagsýni í ríkisrekstrinum, höfum við talið rétt að benda í nál. okkar á allmörg atriði, sem við teljum nauðsynlegt að tekin verði til sérstakrar athugunar, að svo miklu leyti sem athugun sumra þeirra atriða er ekki þegar hafin, og að lagt verði kapp á að hraða þeim athugunum svo, að niðurstaða geti legið fyrir við undirbúning næsta fjárlagafrv. Sjálf hefur n. enga aðstöðu til að rannsaka þessi mál á viðhlítandi hátt á þeim skamma tíma, sem hún hefur til ráðstöfunar. Tilgreinir meiri hl. í nál. sínu 23 atriði, sem óskað er eftir að ríkisstj. taki til athugunar og rannsóknar, en jafnframt tekið fram, að ekki sé um tæmandi upptalningu að ræða á þeim málum, sem komið geti til greina að endurskoða með sparnað fyrir augum. Þessi atriði eru þó eigi valin af handahófi, heldur er í senn stuðzt við þá reynslu, sem menn hafa öðlazt við athugun einstakra fjárlagaliða, og enn fremur er stuðzt við álit og greinargerðir sparnaðarnefnda, sem skipaðar hafa verið á ýmsum tímum til þess að gera tillögur um sparnað og bætt vinnubrögð í ríkisrekstrinum, en því miður til þessa ekki verið framkvæmdar nema að mjög óverulegu leyti.

Um það skal ekkert fullyrt á þessu stigi málsins, hvort framkvæmanlegar eru allar þær breytingar, sem á er bent, né heldur, hvort af þeim öllum leiði sparnað. En það er þó engum efa bundið, að framkvæmd ýmissa þessara ábendinga mundi draga verulega úr kostnaði við þá tilteknu starfsemi. Ég mun ræða þessi atriði nokkru nánar, ýmist í sambandi við grg. mína fyrir öðrum tillögum n. í viðkomandi málum eða þá sérstaklega.

Ég vík þá að einstökum brtt. og mun jafnframt ræða nokkur sérstök atriði, sem ég tel miklu máli skipta að gefa gaum að. Þar sem í nál. er gerð allrækileg grein fyrir orsökum hinna einstöku brtt. n., þá mun ég ekki hirða um að gera þær allar að umtalsefni, heldur aðeins þær, sem ástæða er til að skýra nánar.

Brtt. fjvn. við gjaldabálk frv. leiða af sér rúml. 34 millj. kr. hækkun. Er verulegur hluti þessarar upphæðar nánast leiðréttingar á frv., byggðar á upplýsingum, sem ekki lágu nægilega ljóst fyrir, þegar frv. var samið í haust. Hæsta útgjaldatill. er 7 millj. kr. hækkun á áætluðum útgjöldum ríkissjóðs vegna uppbóta á útfluttar landbúnaðarafurðir. Samkv. lögum hvílir sú skylda á ríkissjóði að greiða uppbætur á útfluttar landbúnaðarafurðir, þannig að söluverð, þeirra verði jafnhátt því verði, sem bændur fá fyrir sölu sömu afurða á innanlandsmarkaði. Fyrir fram gerðar áætlanir um þessi útgjöld hljóta að verða harla ónákvæmar, enda hefur reyndin orðið sú, að munað hefur mörgum millj. kr. á þeim áætlunum, sem ýmsir þeir aðilar, er þessi mál þekkja gerst, hafa gert. Þótt áætluð útgjöld ríkissjóðs vegna þessara uppbóta verði hækkuð í 12 millj. kr., má gera ráð fyrir því, að sú tala sé fremur of lág en of há. Þess ber að gæta í því sambandi, að uppbæturnar á útfluttu landbúnaðarafurðirnar munu vera sízt hærri en niðurgreiðslur á sömu vörum á innlendum markaði, þannig að ef útflutningurinn ykist verulega umfram það, sem hér er gert ráð fyrir, ætti að verða hliðstæð lækkun á útgjöldum ríkissjóðs vegna niðurgreiðslna á landbúnaðarvörum. seldum á innlendum markaði.

Áð sjálfsögðu hefur sú skipan mála ýmsar hættur í för með sér, þegar ríkissjóður greiðir skilyrðislaust verðmismun vara, svo sem hér er gert. Virðist það því bæði eðlilegt og nauðsynlegt, að ríkisstj. fylgist vandlega með því, hvernig útflutningi landbúnaðarvara er hagað, þannig að tryggt sé, að allir markaðsmöguleikar séu notaðir til hins ýtrasta til þess að fá svo hátt verð sem mögulegt er og varan tilreidd á þann heppilegasta hátt til sölu á hinum erlendu mörkuðum. En ástæða er til að halda, að nokkuð skorti á, að þess sé gætt sem skyldi.

Svo sem kunnugt er, hafa vatnavextir .tvívegis með stuttu millibili valdið stórskemmdum á þjóðveginum austur yfir Mýrdalssand. Var í fyrra varið um 4 millj. kr. til þess að bæta úr þeim skemmdum, sem þá höfðu orðið á veginum. En skömmu eftir þá viðgerð rauf vatnsflaumurinn aftur varnargarðana og færði jafnframt í kaf brú, sem gerð hafði verið þá um sumarið. Var þá enn hafizt handa um athugun tiltækilegra úrræða til þess að tryggja vegasamgöngur yfir Mýrdalssand. Gerði vegamálastjóri áætlun um lagfæringu á veginum og brúargerð, sem talið var að mundi kosta samtals um 6 millj. kr. Þegar mál þetta var til athugunar við afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 1960, þótti ekki einsýnt, hvort rétt væri að ráðast í framkvæmdir þessar í sumar eða bíða til næsta árs, ef þá kynni að sjást betur, hvernig vatnsrennslið hagaði sér. Var því tekin í 22. gr. fjárl. heimild til ríkisstj. til að verja þar 6 millj. kr. til samgöngubóta á Mýrdalssandi. Niðurstaðan varð sú, að ráðizt var í framkvæmdir þessar á s.l. sumri, og nemur kostnaðurinn við þær framkvæmdir 4.3 millj. kr. Þar sem engin bein. fjárveiting er í fjárlögum yfirstandandi árs og litlar líkur til, að afkoma ríkissjóðs verði slík, að afgangur verði til að greiða svo háa umframgreiðslu, hefur fjmrn. óskað eftir því, að fjárveiting til þessara framkvæmda verði í fjárlögum ársins 1961. Hefur n. eftir atvikum talið rétt að mæla með því, að svo verði gert.

Þriðja stærsta útgjaldatillaga n. er 4 millj. kr. hækkun á áætluðu framlagi ríkissjóðs til hlutatryggingasjóðs. Framlag þetta miðast við hið skráða gengi á hverjum tíma, og varð því ekki á þessu framlagi nein hækkun við þá gengislækkun, sem framkvæmd var 1958 í formi yfirfærslugjalds, og verður hækkunin því meiri nú. Við undirbúning fjárlagafrv. höfðu ekki borizt réttar tölur um þennan útgjaldalið, en nánari athugun hefur leitt í ljós, að gera má ráð fyrir, að framlag ríkissjóðs til hlutatryggingasjóðs á næsta ári, miðað við svipaðan útflutning og á þessu ári, muni naumast vera innan við 8.5 millj. kr., og verður því að hækka þennan gjaldalið um 4 millj. kr. Samtals valda þá þessir þrír liðir 15.3 millj. kr. útgjaldahækkun.

Tvær hækkunartillögur n. leiðir af væntanlegri samþykkt tveggja frumvarpa, sem nú eru til meðferðar í Alþ. Frv. ríkisstj. um ríkisfangelsi og vinnuhæli mælir svo fyrir, að árlega skuli varið 1 millj. kr. til þess að koma upp stofnunum þessum. Mun ætlunin að afgreiða það mál endanlega á þessu þingi, og verður því að gera ráð fyrir þessum útgjaldalið á fjárlögum næsta árs. Er ástandið í fangelsismálunum algerlega óviðunandi og brýn þörf úrbóta á því sviði.

Í öðru lagi er svo frv. ríkisstj. um breyt. á l. um bjargráðasjóð. Er þar gert ráð fyrir, að framlag ríkissjóðs hækki úr 2 kr. í 5 kr. fyrir hvern mann, og leiðir þessi breyt. af sér, að framlag ríkissjóðs hækkar úr 360 þús. kr. í 900 þús. kr. á ári. Þar sem ráðgert er að lögfesta nú einnig þetta frv., er ekki um annað að ræða en hækka þennan fjárlagalið um 540 þús. kr.

Nokkrar breytingar eru gerðar á ýmsum útgjaldaliðum í sambandi við utanríkisþjónustuna. Nokkrir útgjaldaliðir þar hafa verið vanáætlaðir í fjárlagafrv., en þar er þó um óverulegar fjárhæðir að ræða. Vegna tilfærslu manna milli sendiráða í Stokkhólmi og París verður nokkur hækkun á launalið við sendiráðið í Stokkhólmi, en aftur á móti lækkun á launalið sendiráðsins í París. Veigamesta breyt. er sú, að lagt er til að taka upp aftur laun til sendiráðsritara við sendiráðið í London, sem í frv. var gert ráð fyrir að fella niður, þar eð ætlunin var að fækka í því sendiráði um einn sendiráðsritara. Telur utanrrn. ekki auðið að gera þessa breyt. nú um næstu áramót, þar eð ekki séu önnur störf laus, þá fyrir umræddan sendiráðsritara. Ætlunin mun þó vera að gera breyt. í sendiráðinu í London, strax og tækifæri býðst. Væntir n. þess fastlega, að svo verði gert, en telur ekki verða hjá því komizt að ætla fé til greiðslu launa umrædds sendiráðsritara á næsta ári, svo að ekki verði um umframgreiðslu að ræða á þessum lið. Hins vegar hefur utanrrn. þegar gert ráðstafanir til þess að framkvæma þá fyrirætlun að leggja niður annað sendiráðið í París.

Í ábendingum meiri hl. fjvn. er lagt til, að athugað verði, hvort ekki sé auðið að fækka enn frekar sendiráðum Íslands erlendis, og þá bent m.a. á þá hugmynd, sem er ekki ný, að fækka um tvö sendiráð á Norðurlöndum. Við höfum nú sendiráð og sendiherra í þremur Norðurlandanna, en í hinu fjórða, Finnlandi, er þarlendur kjörræðismaður fulltrúi Íslands, og mun það mál manna, að hagsmuna Íslands yrði þar ekki betur gætt, þótt þar væri íslenzkt sendiráð. Með þessum orðum er þó engum aðfinnslum varpað að sendiráðum okkar á hinum Norðurlöndunum, því að ekki er að efa, að þau gæta skyldu sinnar. Það er hins vegar eðlilegt, þegar rætt er um hugsanlegan sparnað í utanríkisþjónustunni, að sú spurning vakni, hvort ekki sé nokkur ofrausn að hafa sendiráð bæði í Danmörku, Noregi og Svíþjóð. Ekki aðeins hér á landi, heldur einnig á hinum Norðurlöndunum hafa verið allmiklar umr. um það, hvort hin nána samvinna þessara landa á öllum sviðum minnki ekki beinlínis nauðsynina á föstum sendiráðum í löndunum. Á þessu eru þó vafalaust ýmsir annmarkar, og þegar þetta mál var rætt á þingi Norðurlandaráðs hér í Reykjavík í sumar, þótti ekki tímabært að gera neina ályktun um málið. Engu að síður er nauðsynlegt að athuga nánar hugmyndina um fækkun sendiráða á Norðurlöndum. Þótt nauðsynlegt sé að athuga öll hugsanleg úrræði til sparnaðar í utanríkisþjónustunni og mönnum vaxi mjög í augum kostnaður við hana, þá verðum við þó að gera okkur ljóst, að utanríkisþjónustan er okkur óhjákvæmileg nauðsyn, enda þótt hún hljóti að sjálfsögðu að vera lítilli þjóð hlutfallslega þyngri byrði en stórþjóð. Einkum verðum við að gæta þess að hafa virka utanríkisþjónustu í þeim löndum, þar sem við höfum viðskiptalegra hagsmuna að gæta, og þegar athuguð er sú mikla breyt., sem nú er að verða í heiminum með tilkomu fjölmargra nýrra sjálfstæðra ríkja, einkum í Afríku, vaknar eðlilega sú spurning, hvort ekki sé nauðsynlegt að taka upp beint stjórnmálasamband við þessar þjóðir og þá jafnvel setja upp eitt sendiráð í Afríku, sem gætti hagsmuna Íslands í hinum nýju lýðveldum þar. Höfum við þegar allmikil viðskipti við fjölmennasta ríkið þar, Nígeríu. En þótt þetta yrði talið nauðsynlegt, þá er full ástæða til að halda, að koma mætti við þeim sparnaði í utanríkisþjónustunni annars staðar, að ekki þyrfti að verða um neinn útgjaldaauka að ræða.

Nátengd utanríkisþjónustunni er þátttaka Íslands í margvíslegum alþjóðlegum samtökum og þingum og ráðstefnum á vegum þessara samtaka og enn fremur viðskiptasamningar Íslands við aðrar þjóðir. Viðskiptasambönd okkar verðum við að sjálfsögðu að rækja af kostgæfni, og það er okkur mikil nauðsyn að eiga aðild að margvíslegum alþjóðlegum samtökum. En kostnaður við slíkt getur orðið ærið þungbær; ef ekki er gætt ýtrasta hófs í sambandi við fulltrúasendingar á hinar ýmsu ráðstefnur og tölu sendimanna í viðskiptasendinefndum. Mér er kunnugt um, að ríkisstj. hefur fullan vilja á að takmarka þessar ferðir, svo sem auðið er, en ásóknin er mikil úr ýmsum áttum, og telur því meiri hl. n. ábendingu sína um þetta efni geta orðið ríkisstj. til stuðnings við takmörkun slíkra ferðalaga, enda við þátttöku í alþjóðlegum ráðstefnum og viðskiptasamningum sjálfsagt að nota fyrst og fremst sendiráð Íslands í viðkomandi löndum.

Óhjákvæmilegt þykir að fallast á ósk Vestmannaeyjakaupstaðar um nokkuð hækkað ríkisframlag til löggæzlu á vetrarvertíð. Á síðasta þingi var samþ. þál. um endurskoðun laga um lögreglumenn, og var þar gert ráð fyrir, að settar yrðu m.a. fastar reglur um kostnaðarhlutdeild ríkissjóðs í löggæzlu á hinum ýmsu stöðum, þar sem um sérstök útgjöld væri að ræða vegna aðkomufólks, einkum á vertíðum, í stað harla handahófslegra fjárveitinga til einstakra staða í fjárlögum. Dómsmrn, mun hafa falið ákveðnum mönnum að framkvæma þessa endurskoðun laganna, og er þess að vænta, að þeirri endurskoðun verði hraðað svo, að ákveðin niðurstaða verði fengin fyrir afgreiðslu næstu fjárlaga.

Lagt er til að hækka rekstrarfjárveitingar til Landsspítalans og Vífilsstaðahælis um 629 þús. kr. Er þessi hækkun óumflýjanleg vegna vanáætlunar í launagreiðslum á Landsspítalanum og til greiðslu á eftirstöðvum af kaupverði röntgentækja og framköllunartækja fyrir Vífilsstaðahæli. Í fjárlagafrv. er ráð fyrir því gert, að tengiálma hinnar miklu viðbyggingar Landsspítalans verði tekin í notkun seint á næsta ári. Mun sú viðbót valda mjög verulegri hækkun á rekstrarhalla Landsspítalans. M.a. er gert ráð fyrir, að ráða þurfi 40 nýja starfsmenn. Nauðsyn þessarar aukningar við húsnæði Landsspítalans er hins vegar hin brýnasta. Ljóst er þó, að þessum áfanga verður ekki náð með þeirri fjárveitingu til byggingar við ríkisspítalana, sem gert er ráð fyrir í fjárlagafrv. Jafnframt er unnið að óhjákvæmilegum byggingarframkvæmdum við Kleppsspítala, m.a. byggingu ketilhúss, sem verður að ljúka. Þykir af þessum sökum ekki verða hjá því komizt að leggja til að hækka fjárveitingu til bygginga ríkisspítalanna um 2 millj. kr. Þykir ekki fært að leggja til meiri hækkun fjárveitingarinnar, þótt þess væri auðvitað mikil nauðsyn.

Fjárveiting til greiðslu kostnaðarhluta ríkissjóðs til byggingar héraðssjúkrahúsa, fjórðungssjúkrahúsa og heilbrigðisstofnana í Reykjavík hefur hækkað mjög lítið undanfarin ár, og hefur því afleiðingin orðið sú, að vangoldinn hluti ríkissjóðs í stofnkostnaði þessara mannvirkja eykst ár frá ári. Er nú svo komið, að vangreiddur hluti ríkissjóðs til heilbrigðisstofnana í Reykjavík mun nema um 10 millj. kr. og til annarra heilbrigðisstofnana, sjúkrahúsa og sjúkraskýla og læknisbústaða, um 5 millj. kr. Þykir af þessum sökum með engu móti verða hjá því komizt að hækka fjárveitingu til þessara framkvæmda um eina millj. kr., og hrekkur þó sú hækkun skammt til að greiða hinn áfallna kostnað. Er jafnframt lagt til að sameina þessa tvo fjárlagaliði.

Í fjárlögum yfirstandandi árs er veittur 100 þús. kr. byggingarstyrkur Náttúrulækningafélagi Íslands til byggingar heilsuhælis félagsins í Hveragerði. N. leggur til, að þessi styrkur verði einnig veittur á næsta ári, þar sem hér er um mjög myndarlega og nauðsynlega stofnun að ræða, sem hlotið hefur viðurkenningu heilbrigðismálastjórnarinnar, en byggingarframkvæmdir þessar hvíla þungt á félaginu.

Ekki hefur þótt fært í þetta sinn að hækka framlög til svokallaðra verklegra framkvæmda, þ.e. til vegagerða, brúa, hafna og flugvalla, og væri þó mikil nauðsyn að fá aukið fé til þessara mikilvægu framkvæmda. Enn vantar mikið á, að vegasamband sé viðunandi um allt land, en vegirnir eru lífæðar strjálbýlisins og þá einkum sveitanna. Með skilningi á þessari staðreynd var á yfirstandandi ári hækkuð fjárveiting til vegagerða um 4 millj. kr., auk þeirrar hækkunar, sem varð á fé til millibyggðavega af benzínskatti, og varð með þeirri hækkun komið í veg fyrir, að gengisbreytingin ylli samdrætti í þessum framkvæmdum. Mjög er mikilvægt að geta á næstu árum gert verulegt átak í vegamálum, en það verður naumast gert nema með sérstökum ráðstöfunum til fjáröflunar.

Fyrir nokkru samþ. Alþ. að tillögu fjvn. að fela ríkisstj. að láta gera framkvæmdaáætlun um vegagerð til nokkurra ára, einmitt með það fyrir augum, að hægt væri á skipulegan hátt að vinna að því að bæta og auka vegakerfið, þar sem þörfin er brýnust. Nýlega var tilkynnt, að hafinn væri undirbúningur að lagningu steinsteypts vegar milli Reykjavíkur og Keflavíkur. Er þar um mjög dýra vegagerð að ræða, sem mun ekki verða auðið að hrinda í framkvæmd nema með lánsfé. Það er vafalaust rétt, að hvergi hafi verið meiri nauðsyn að hefjast handa um lagningu slíks vegar, miðað við þá geysílegu umferð, sem er milli Reykjavíkur og Suðurnesja, sem hefur valdið því, að núverandi vegur þessa leið, ef veg skyldi kalla, er raunverulega ónýtur. Þótt lántaka til þessarar vegagerðar sé mikil nauðsyn, er því þó ekki að leyna, að hætt er við, að afleiðinein verði óskir og kröfur viðar að um lántökur til þess að ljúka brýnum vegaframkvæmdum. Af þessum sökum er enn brýnni þörf á að gera áætlun um vegaframkvæmdir í landinu næstu árin og fjáröflun til þeirra.

Við skiptingu vegafjár í fjárlögum yfirstandandi árs var fækkað mjög verulega þeim vegum, sem fjárveitingar voru veittar til. Í framsöguræðu sinni við 1. umr. fjárlaga nú gerði fjmrh. grein fyrir því, að þessi fækkun vega hefði leitt til verulegs sparnaðar fyrir vegagerðina. Þessar upplýsingar sanna ótvírætt, að hér hefur verið rétt stefnt, og þar sem brýn nauðsyn er að hagnýta sem bezt hið takmarkaða vegafé, er nú í till. fjvn. gert ráð fyrir að fækka enn frekar fjárveitingum til nýbyggingar vega, og hefur í meginatriðum verið fallizt á till. vegamálastjóra um skiptingu vegafjárins. Þessi nýskipan leiðir að sjálfsögðu ekki af sér neinn samdrátt í vegaframkvæmdum, nema síður sé, heldur verður varið fé í hina ýmsu vegi til skiptis og unnið í stærri áföngum í einu. Þegar til lengdar lætur, mun því þessi tilhögun verða öllum til góðs.

Reynt er nú eins og í fyrra að haga fjárveitingum til brúagerða þannig, að fjárveitingarnar séu nægilega háar til þess að ljúka þeim brúm, sem fé er veitt til. Þessi tilhögun leiðir hins vegar það af sér, að fjárveitingunum fækkar, og er nú að verða illmögulegt að skipta því fé, sem varið er til brúagerðar. Einkum verða á næsta ári miklir erfiðleikar með byggingu smábrúa, ef draga þarf frá smábrúafénu þær umframgreiðslur, sem orðið hafa á þessum lið í fyrra og á þessu ári, sem mun vera um 900 þús. kr. Er nauðsynlegt að taka það mál til sérstákrar athugunar, því að ella er hætta á því, að ýmsir vegir, sem byggðir verða á næsta ári, komi ekki að fullum notum, vegna þess að brýr vanti á smáár. Talið er, að enn séu óbrúaðar 200 smáár á þjóðvegum og um 100 á sýsluvegum. Fjárveitingum til endurbyggingar gamalla brúa er ráðgert að verja þannig á næsta ári, að byggð verði brú á Kotá í Norðurárdal, sem kosta mun rúma eina millj. kr., og enn fremur verði varið 400 þús. kr. af þessum fjárlagalið, til þess að auðið verði að ljúka endurbyggingu brúar á Sandá í Þistilfirði. Er af öryggisástæðum fyrir umferðina brýn nauðsyn að endurbyggja báðar þessar brýr.

Þegar rætt er um framkvæmdir í vegagerð, og raunar á það sama við einnig um hafnir og flugvelli, þá verður ekki hjá því komizt að gera sér grein fyrir því, hvílíkt undirstöðuatriði vélakosturinn er fyrir allar framkvæmdir á þessu sviði. Því miður hefur þeim þætti málsins jafnan verið allt of lítill gaumur gefinn. Allar þessar framkvæmdastofnanir ríkisins eru allt of illa búnar að vélakosti til framkvæmda, því að nægilegur vélakostur er bæði forsenda nýbygginga og viðhalds, svo sem málum er nú háttað. Ef vel hefði verið, hefði raunverulega þurft að verja ársfjárveitingum til nýbyggingar vega, hafnargerða og flugvallagerða eingöngu til vélakaupa fyrir þessar stofnanir. En því miður hefur reyndin jafnan orðið sú, að fjárveitingar til vélakaupa hafa orðið út undan í kappinu að fá sem mest fé til hinna einstöku framkvæmda. Vegamálastjóri hefur látið fjvn. í té mjög fróðlega greinargerð um, hve alvarlega horfi um vélakost vegamálastjórnarinnar, og er fróðlegt að athuga þá greinargerð, ekki hvað sízt með hliðsjón af þeim kvörtunum, sem víða heyrast um ónógan vélakost til viðunandi viðhalds á vegakerfinu. Vegagerð ríkisins á nú 133 stórar vinnuvélar. og var verulegur hluti þessa vélakosts í fyrstu keyptur notaður af sölunefnd varnarliðseigna í lok stríðsins. Síðan hafa árlega verið keyptar nýjar vélar fyrir fjárveitingar í fjárlögum og fyrir það fé, sem fengizt hefur við eðlilegar afskriftir vélanna. Sú aukning vélakostsins hefur þó verið algerlega ófullnægjandi, enda ekki við öðru að búast, þar sem á 10 ára tímabilinu 1951–60 var aðeins varið 6.8 millj. samtals til kaupa á vegavinnuvélum. Og til þess að skerða ekki um of framkvæmdafé brúa- og vegagerða hefur leigugjaldinu verið stillt svo í hóf, að eingöngu hefur verið miðað við, að reksturinn bæri sig með lægstu hugsanlegum afskriftum. Í fjárlagafrv. nú er lagt til að hækka fjárveitingu til kaupa á vegavinnuvélum um 1/2 millj., eða í 1450 þús. kr., en sú upphæð hrekkur þó skammt, þegar þess er gætt, að t.d. veghefill kostar nú rúmar 800 þús. kr. Meðalaldur hinna 133 stóru vinnuvéla, sem vegagerðin á nú, er um 14 ár, og telur vegamálastjóri, að endurnýjunarverð þessara véla með núverandi verðlagi sé áreiðanlega yfir 100 millj. kr. Miðað við eðlilegan rekstur þyrfti því að vera hægt að verja 7–10 millj. kr. árlega til endurnýjunar eldri véla auk kaupa á vélum til viðbótar. Sé miðað við óbreyttar fjárveitingar til kaupa á vegavinnuvélum, yrði endurnýjunartími hverrar vélar a.m.k. 70–80 ár. Er af þessu ljóst, hve alvarlegt ástandið er á þessu sviði, og enn alvarlegra er það fyrir þá sök, að sum af tækjum vegagerðarinnar eru orðin svo gömul, að hætt er að framleiða þau og varahlutir því ófáanlegir. Það getur því hvenær sem er að því komið, að ógerlegt reynist að halda vegakerfinit við eða vinna að nýbyggingu vega vegna skorts á vinnuvélum. Komið mun hafa til greina, að vegagerðin fengi allmikið af vinnuvélum frá varnarliðinu, og er það vel. En hvernig sem málið verður leyst, þá er það ljóst, að einhver lausn verður að fást á þessu mikla vandamáli, og er þetta ástand orsök þess, að ein af sparnaðarábendingum meiri hl. n. til ríkisstj. er þess efnis, að leitað verði úrræða til þess að bæta vélakost framkvæmdastofnana ríkisins. Auðvitað er þar í bili um útgjöld að ræða, en einnig um leið óhjákvæmileg forsenda þess, að hægt sé af einhverju víti og hagsýni að leysa af hendi hið mikilvæga hlutverk þessara stofnana. Er brýn nauðsyn að gera um það ákveðna áætlun, hvernig koma megi þessum málum í viðunandi horf. Það hefnir sín að sjálfsögðu siðar, ef vanrækt er eðlileg endurnýjun vélanna, sem sýnilega hefur veríð gert um langt árabil.

Þótt ég ræði hér sérstaklega um vegagerðina vegna þeirrar grg., sem vegamálastjóri hefur gert um vélakost þeirrar stofnunar, þá mun vélaskortur einnig vera tilfinnanlegur bæði hjá flugmálastjórninni og vitamálastjórninni þannig að athugun málsins þarf að ná til allra þessara stofnana.

Ekki er lagt til að hækka fjárveitingu til hafnargerða og lendingarbóta, og er orsökin sú sama og um vegina, að fjárráð ríkisins leyfa ekki hækkun í þetta sinn, þó að þörfin sé einnig mjög brýn á þessu sviði. Viðhlítandi hafnir eru óhjákvæmileg forsenda útgerðar, og hinn stóraukni bátafloti landsmanna krefst að sjálfsögðu aukins hafnarýmis, og eru því hafnarframkvæmdir viða óumflýjanlegar. Fjvn. leggur til, að sama aukafjárveiting sé veitt hafnarbótasjóði vegna Akraneshafnar og á s.l. ári. Er hér um að ræða aukagreiðslu upp í vangoldið framlag ríkissjóðs til þessarar hafnargerðar, en Akraneshöfn varð fyrir þungum búsifjum vegna gengisbreyt. og fær með engu móti risið undir greiðslu afborgana og vaxta af skuldum hafnargerðarinnar nema með þessu viðbótarframlagi. Stendur hér alveg sérstaklega á um þessa höfn vegna hinna miklu skulda hennar í erlendri mynt. 28 millj. kr. lán það til hafnarframkvæmda, sem tekið var árið 1959, hefur bætt nokkuð úr fjárþörfinni, þó að sú aðstoð hrökkvi að vísu skammt, þegar þess er gætt, að allar meiri háttar hafnarframkvæmdir kosta nú milljónir kr. og jafnvel milljónatugi. Gert mun vera ráð fyrir því að veita nú nokkurt viðbótarlán til hafnargerða, en skipting þess fjár mun ekki vera ákveðin. Til þess að gera sér nokkra grein fyrir, hve stórt viðfangsefni sé hér um að ræða, má geta þess; að heildaráætlun vitamálastjóra um hafnarframkvæmdir á næstu árum nemur 222 millj. kr., og er áætlaður heildarkostnaður við hafnargerðir, sem nauðsynlegt er talið að framkvæma á árinu 1961, 87 millj. kr. Áðurgreint 28 millj. kr. hafnarlán hefur að sjálfsögðu þær afleiðingar að hækka framlög ríkissjóðs til hafnargerðanna, og mun vangreitt framlag ríkissjóðs um næstu áramót sennilega verða um 20 millj. kr. En þess ber þó að gæta til frádráttar, að ríkissjóður hefur gert betur en greiða sinn hluta til sumra hafna, og koma því til frádráttar, þegar á heildarupphæðina er litið, um 8 millj. kr. Gera má ráð fyrir, að hlutföllin verði ríkissjóði enn óhagstæðari um áramótin 1961–62. Fé er nú veitt til töluvert færri hafna en í ár, en upphæðir hlutfallslega stærri. Er þetta gert með það í huga, að fjárveitingarnar komi að meira gagni.

Þriðji liður framkvæmda, sem verður óbreyttur, eru fjárveitingar til flugvallagerðar, en einnig á því sviði er þörf mikilla nýrra framkvæmda. Flugið á við þá sérstöku erfiðleika að stríða, að það kemur síðar til sögu en bæði vegir og hafnir og hefur því átt erfiðara með að vinna sig upp í þær fjárveitingar, sem vegagerðir og hafnargerðir hafa náð á löngu tímabili. Mjög veruleg hækkun varð þó á fjárveitingu til flugvallagerða á árinu 1959 og 1960. Flugvallagerðir eru þess eðlis, að brýn nauðsyn er að geta unnið á hverjum stað í sem stærstum áföngum, og hefur því n. talið rétt að mæla með till. meiri hl. flugráðs um skiptingu framkvæmdafjárins til flugvallagerða, en samkvæmt þeirri till. er fjárveitingunni nú skipt niður á mjög fáa flugvelli. Nokkur brýn verkefni önnur bíða úrlausnar, en til þess að geta sinnt þeim, hefði þurft að hækka fjárveitinguna um a.m.k. 2 millj. kr. Hér svo sem á öðrum sviðum verklegra framkvæmda var skortur á greiðslugetu ríkissjóðs sá þröskuldur, sem eigi varð yfir komizt, en ýmis þessara verkefna eru svo brýn, að þeim verður ekki lengi skotið á frest:

Þótt ég hafi hér talað um þá miklu þörf þess að verja meira fé til verklegra framkvæmda en talið hefur verið auðið að gera í þetta sinn, þá vil ég taka það skýrt fram, að fjárþörfin stafar ekki sérstaklega af afleiðingum gengisbreyt., því að betur var gert við þessa framkvæmdaliði nú en bæði við gengisbreyt. 1950 og 1958. Orsökin er blátt áfram sú, sem allir vita, að kröfurnar og þarfirnar fyrir nýja og fullkomna vegi, öruggar hafnir og flugvelli fyrir stórar flugvélar víðs vegar um landið hafa vaxið svo stórkostlega að undanförnu, að enginn kostur er að leysa úr þeim þörfum með hinum lágu árlegu fjárveitingum til þessara framkvæmda.

Ýmsir gera sér það til gamans að reikna út, hversu framlög til verklegra framkvæmda verði sífellt mínni hlutfallslega af heildarútgjöldum ríkissjóðs. Hafa hv. framsóknarmenn verið sérstaklega áhugasamir um þennan hlutfallaútreikning á þessu ári, en vegna þeirra verulegu hækkana á framkvæmdafé, sem samþ. voru í síðustu fjárlögum og stinga mjög í stúf við afstöðu sömu manna við gengisbreyt. 1950 og 1958, þegar þeir réðu fjármálunum, þá þykir ekki henta að nefna krónutöluna. Vitanlega er hlutfallareikningur þessi gersamlega út í hött, vegna þess að skipulagsbreyt. var meginorsök þeirra hækkana, sem urðu á fjárlögum 1960, miðað við árið 1959, auk hinna félagslegu kjarabóta, sem ætlað var að mæta hinum óhagstæðari áhrifum gengisbreyt. Allir skynibornir menn sjá auðvitað, að það er með öllu fjarstætt, að eðlilegt hefði verið eða framkvæmanlegt að hækka aðra útgjaldaliði ríkissjóðs hlutfallslega. Hitt er svo aftur á móti alvörumál, sem vert er að gefa gaum að að árleg hækkun ríkisútgjalda til ýmissa rekstrarliða og þjónustu, og ber þar fyrst og fremst að nefna bæði tryggingamál og fræðslumál, sem árlega vega þyngst í hækkunum, er svo mikil, að lítið verður afgangs til hækkana á framkvæmdaliðum. Jafnvel þótt verðlag sé stöðugt, virðist mér sú hætta vera yfirvofandi, að bróðurpartur árlegrar tekjuaukningar hjá ríkissjóði gangi til þess að mæta hækkunum á rekstrarliðum fjárlaga, þannig að framlög til verklegra framkvæmda verði hlutfallslega stöðugt minni að óbreyttum tekjustofnum. Um þetta er þó ekki hægt að fullyrða á þessu stigi málsins, og vonandi er þessi kviði ástáeðulaus. En ætla má, að það liggi ljóst fyrir við undirbúning næstu fjárlaga, hversu horfir í þessum efnum.

Áður en ég hverf frá samgöngumálunum, vil ég minnast örfáum orðum á tvær brtt., sem snerta samgöngumálagreinina. Endanlegar niðurstöðutölur á kostnaðaráætlun alþjóðaflugþjónustunnar urðu töluvert hærri en gert er ráð fyrir í fjárlagafrv., en sú tala er miðuð við bráðabirgðaáætlun, sem þá var gerð. Megin hluta þessa kostnaðarauka greiðir Alþjóðaflugmálastofnunin, en kostnaðarhluti Íslands af hækkuninni nemur samt 438 þús. kr., og verður að hækka fjárveitingu til alþjóðaflugþjónustunnar um þessa upphæð. Þá er einnig óhjákvæmilegt að hækka mjög verulega fjárveitingu til kostnaðarhluta Íslands við veðurþjónustu á Grænlandi. Nemur sú hækkun 666 þús. kr. Er Ísland samningsbundið til þess að greiða ákveðinn hluta af þessum kostnaði. Hækkanir þessar munu aðallega stafa af sæsímaleigum, en að auki má geta þess, að hlutfallstala hvers lands í greiðslu kostnaðar er miðuð við flug viðkomandi þjóðar yfir Atlantshafið, og endurskoðun hefur leitt í ljós, að hlutur Íslands í flugi yfir Norður-Atlantshaf hefur

aukizt. Hækkar þá hlutur Íslands í heildarkostnaðinum samsvarandi.

Hin till. er um að veita sérstaklega 200 þús. kr. til Ferðaskrifstofu ríkisins vegna aðildar hennar að norrænum ferðaskrifstofum í Mið og Suður-Evrópu.

Nokkuð er síðan vákið var máls á því innan Norðurlandaráðs og þá fyrst í áliti íslenzk-skandinavisku samgöngumálan., hvort ekki gæti verið hagkvæmt fyrir Ísland að gerást aðili að sameiginlegum landkynningarskrifstofum hinna Norðurlandanna í ýmsum löndum. Er ljóst, að Íslandi er það óviðráðanlegt að setja upp sjálfstæðar landkynningarstöðvar erlendis, og því sjálfsagt að íhuga þennan möguleika, úr því að hinar Norðurlandaþjóðirnar voru svo velviljaðar að vilja veita Íslandi aðgang að þessu sameiginlega útbreiðslukerfi þeirra.

Á þingi Norðurlandaráðs í Reykjavík s.1. sumar var svo loks samþ. þál. um þátttöku Íslands í sameiginlegri upplýsingaþjónustu Norðurlandanna fyrir ferðamenn, sem flutt var af fulltrúum allra Norðurlandaþjóðanna, m.a. Íslands. Viðræður hafa síðan farið fram milli forstjóra Ferðaskrifstofu ríkisins og Nordisk Turist Trafikkomité, sem er félag opinberra ferðaskrifstofa Norðurlanda. Hefur af Íslands hálfu verið talið heppilegast að fá aðild áð landkynningarskrifstofum Norðurlanda, sem starfandi eru í Frankfurt, Zürich og Róm. Hefur forstjóri Ferðaskrifstofu ríkisins heimsótt allar þessar landkynningarskrifstofur og látið í ljós þá skoðun, að hér muni vera um mjög góðar stofnanir að ræða og með aðild að þeim gefist tækifæri til mjög víðtækrar landkynningar, ekki aðeins kynningar á landinu sem ferðamannalandi, heldur einnig á framleiðslu og menningu þjóðarinnar. Gert mun ráð fyrir, að Ísland greiði 5% af rekstrarkostnaði þessara skrifstofa. En að auki eru óhjákvæmileg ýmis útgjöld vegna aukinnar bæklingaútgáfu, kaupa á kvikmyndum, ljósmyndagerðar og uppsetningar og undirbúnings á gluggasýningum. Er því lagt til, að veittar verði 200 þús. kr. í þessu skyni.

Loks vil ég í sambandi við samgöngumálin nefna brtt. n. um 250 þús. kr. fjárveitingu vegna greiðslu kostnaðar við að setja olíukynditæki í dýpkunarskip vitamálastjórnarinnar, Gretti. Vitamálastjórnin hefur nokkrum sinnum áður beðið um fé til þessara framkvæmda, en án árangurs. Nú hefur engu að síður olíukynding verið sett í skipið, m.a. vegna þess, að á ýmsum stöðum var orðið ógerlegt að fá kol, auk þess að víst þykir, að hin nýja kynding geri rekstur skipsins mun hagstæðari. Ætlunin var sú að reyna að greiða kostnað við þessa breyt. af venjulegum rekstrartekjum skipsins, en þegar til kom, var breyt. dýrari en gert hafði verið ráð fyrir, og skipið varð þar að auki fyrir miklum tekjumissi, meðan á breyt. stóð. Þykir því ekki vera um annað að ræða en veita sérstaka fjárveitingu til greiðslu þessa kostnaðar. Er lágt til að veita nú 250 þús. kr. og að jafnhá upphæð verði veítt í næstu tvennum fjárlögum. Vegna minni rekstrarkostnaðar skipsins verður þá um leið að leggja á það ríka áherzlu, að skipið verði rekið hallalaust.

Á þessu ári er lokið fyrsta 5 ára greiðslutímabili skólabygginga samkv. lögunum um fjármál skóla frá 1955. Hefði þá átt að vera lokið framlögum ríkissjóðs til 50 stærri og minni skólabygginga barnaskóla- og gagnfræðaskólastigsins, sem fyrsta fjárveiting var veitt til 1956. Því fer þó mjög fjarri, því að vegna breyt. á upphaflegum kostnaðaráætlunum og vegna verðhækkana á ríkissjóður enn ógreiddar um 18 millj. kr. til þessara skóla. Við afgreiðslu síðustu fjárlaga var af hálfu fjvn. bent á, að setja þyrfti einhverjar reglur um, hversu slíkar eftirstöðvar yrðu greiddar. Er nú gert ráð fyrir, að þessum eftirstöðvum ríkisframlaga verði skipt á 3 ár. Afleiðingin er sú, að í stað þess að framlög til skólabygginga hefðu nú lækkað verulega, ef allt hefði verið sem upphaflega var gert ráð fyrir, verður beinlínis að hækka fjárveitingar til byggingar barnaskóla og gagnfræðaskóla um rúmar 3.3 millj. kr. til þess að greiða hin lögboðnu framlög til þeirra skóla, sem nú eru í smíðum.

Þar sem reynslan af þessu fyrsta 5 ára tímabili er sú, að stofnkostnaður umræddra skóla hefur farið svo mjög fram úr áætlun, að eftir standa um 18 millj. kr. af hluta ríkissjóðs, þótti fjvn. brýna nauðsyn bera til að reyna að kanna eftir föngum, hversu ástatt væri um byggingarkostnað þeirra skóla, sem Alþ. hefur síðustu 5 árin samþ. að hefja mætti byggingu á. Óskaði því n. eftir því við fjármálaeftirlitsmann skóla, að hann reyndi að kanna þetta mál, svo sem kostur væri, í samráði við húsameistara ríkisins. Var af hálfu n. lögð áherzla á, að rannsakað yrði, hvort byggt hefði verið í samræmi við þær áætlanir, sem fyrir fjvn. voru lagðar, þegar byggingin var samþ., og ef svo væri ekki, hverjar breyt. hefðu verið gerðar og hvern kostnaðarauka hefði af þeim leitt. Enn fremur yrðu kannaðar aðrar orsakir til hækkunar byggingarkostnaðar umfram áætlun. Skólabyggingarnar eru svo þungur og síhækkandi útgjaldaliður fyrir ríkissjóð, að n. taldi sér skylt að kanna, hverra útgjalda væri að vænta næstu árin á þessum lið Fjármálaeftirlitið hefur ekki enn lokið athugun málsins, sem ekki er von, því að til þess að hún komi að tilætluðum notum, þarf að athuga hverja einstaka byggingu. Þegar er þó athugun svo langt komin, að augljóst er, að þetta vandamál þarf að taka mjög föstum tökum og setja nýjar og strangari reglur um bæði undirbúningsáætlanir og síðan framkvæmd bygginganna.

Gera má ráð fyrir, að heildarkostnaður skólabygginga, þ.e. barnaskóla og gagnfræðaskóla, sem samþ. hafa verið síðustu 5 árin, sé um 540 millj. kr. Kostnaðaráætlanir, sem samþykkt bygginganna hefur verið miðuð við, nema um 263 millj. kr. og sýnist þá byggingarkostnaður umfram þessar áætlanir ætla að verða um 280 millj. kr. Tölur þessar geta að vísu breytzt nokkuð, þegar öll atriði hafa verið endanlega rannsökuð, en ekki getur það numið mörgum milljónatugum. Rétt er að taka það fram til skýringar, að um 105 millj. af mismuninum stafa af skólabyggingum í Reykjavík, þar eð samþykktir ýmissa skóla þar hafa verið miðaðar við áfanga, en ekki heildarkostnað, en misskilningur orðið við áætlanagerð milli fræðsluyfirvalda ríkis og bæjar, sem ég hirði ekki að rekja nánar, enda sá misskilningur úr sögunni. Til þessara skólabygginga hefur ríkissjóður þegar greitt um 80.7 millj. kr. af kostnaðarhluta sínum, sem virðist muni verða um 303 millj. kr., og á þá eftir að greiða um 223 millj. samkv. þessum bráðabirgðatölum. Er þá að vísu reiknað með heildarkostnaðarverði skólanna í Reykjavík, en lögskylda er ekki að greiða til þeirra áfanga í þeim byggingum, sem enn hafa ekki verið samþ., en framhald þeirra bygginga verður þó naumast stöðvað er þar að kemur.

Ekki verður hjá því komizt að benda á, að athugunin hefur leitt í ljós, að margir skólar hafa alls ekki verið reistir í samræmi við þær áætlanir, sem fyrir fjvn. voru lagðar, þegar bygging viðkomandi skóla var samþ. Skal ég ekki bera neinn af þeim embættismönnum, sem um þetta eiga að fjalla, sökum í því sambandi, en að sjálfsögðu verður að tryggja, að slíkt komi ekki fyrir.

Ég skal ekki ræða málið nánar á þessu stigi. En nauðsynlegt er að kryfja orsakir vandans til mergjar, þegar endanleg athugun fjármálaeftirlitsins liggur fyrir. Er sú athugun gerð í samráði við hæstv. menntmrh., sem hefur mikinn hug á að lagfæra það í skipulagi undirbúnings og framkvæmda skólabygginga, sem aflaga kann að fara. Er nú eftir till. hans einnig lagt til að ráða sérstakan eftirlitsmann með skólabyggingum, sem er óhjákvæmileg nauðsyn.

Í þessu sambandi verður að leggja á það áherzlu, að betri og nákvæmari samvinna komist á milli þeirra þriggja aðila, sem að áætlanagerð og eftirliti með framkvæmdum eiga að vinna. þ.e. fræðslumálastjórans, húsameistara og eftirlitsmanns skóla.

Ég skal í sambandi við þessa gagnrýni ekki láta hjá liða að játa þá sök fjvn., að hún hefur oft við samþykkt nýrrar skólabyggingar haft þann hátt á að samþ. bygginguna með mjög litlu tillagi á fyrsta greiðsluári. Er nauðsynlegt að hverfa frá þeirri venju, því að á þann hátt eru samþ. fleiri skólabyggingar en ella hefði verið og fjárveitingar til bygginganna fjögur síðari greiðsluárin verða óeðlilega háar.

N. fer nú mjög varlega í að mæla með samþykkt nýrra bygginga. Er lagt til að verja samtals til nýbygginga skóla 1650 þús. kr., en af þeirri upphæð gangi 450 þús. til bygginga á Eiðum, til endurbyggingar vegna brunatjóns, og 300 þús. kr. hækkun verði á fjárveitingu til byggingar iðnskólanna í Reykjavík og á Akureyri, hinn hlutinn gangi til nýbygginga barnaskóla, en engar nýjar gagnfræðaskólabyggingar eru samþ.

N. beinir þeim tilmælum til hæstv. menntmrh., að jafnhliða athugun á niðurstöðum rannsóknar fjármálaeftírlits skóla, er þær liggja endanlega fyrir, beiti ráðh. sér fyrir athugunum og áætlunum um skólabyggingaþörfina, t.d. næstu 5 árin, svo að hægt sé að gera sér grein fyrir, hversu stórt viðfangsefnið sé, og meta, hvað viðráðanlegt sé í því sambandi. Skólamálin eru sá af hinum föstu rekstrarliðum ríkissjóðs, sem mest hækkar ár frá ári. Vafalaust er mjög erfitt að draga úr þeim útgjöldum, en meiri hl. n. telur þó rétt að beina þeirri áskorun til ríkisstj., að könnuð verði til hlítar öll úrræði í því efni.

Allmargar tillögur eru að venju gerðar um breytingar á 14. gr. B, en flestar eru þær tillögur smávægilegar og gefa ekki tilefni til sérstakrar greinargerðar.

Teknar eru upp fjárveitingar til tónlistarskóla og nokkurra leikfélaga, sem hafa ekki áður fengið styrki, og eru þær tillögur í samræmi við styrkveitingar til hliðstæðra aðila í fjárlögum áður. Styrkir á þessari grein til leikstarfsemi, tónlistarskólahalds og lúðrasveita eru meðal þeirra styrkja á greininni, sem eiga mestan rétt á sér. Styrkir þessir eru það litlir, að þeir skipta engu máli fyrir afkomu ríkissjóðs, en hér er hins vegar um mjög merkilega menningarstarfsemi að ræða, sem sjálfsagt er að reyna að örva. Sé hægt að stuðla að því, að hin glæsilegu félagsheimili víðs vegar um landið séu meira notuð til leik og tónlistarstarfsemi heldur en til vafasamra dansleikja, þá er vissulega stefnt í rétta átt með notkun þeirra.

Veigamesta brtt. við þessa grein er um að veita 100 þús. kr. til þess að standa straum af kostnaði við fyrirhugaða listsýningu norræna listabandalagsins í Reykjavík haustið 1961. Sýningar þessar eru haldnar til skiptis á Norðurlöndum, og verður þessi sýning hin tíunda í röðinni. Síðast var sýningin haldin í Reykjavík haustið 1948. Er sjálfsagt, að Ísland eigi áfram aðild að þessum þætti norrænnar menningarsamvinnu.

Jafnframt því að leggja til að veita 70 þús. kr. til varðveizlu og geymslu hinnar miklu listaverkagjafar Ásgríms Jónssonar listmálara til íslenzka ríkisins er ástæða til að þakka alveg sérstaklega þessa höfðinglegu og dýrmætu gjöf. Hér er um að ræða yfir 420 fullgerð olíumálverk og vatnslitamyndir auk margra teikninga og á þriðja hundrað mynda, sem listamaðurinn hefur eigi talið fullgerðar. En það voru ekki aðeins listaverkin, sem Ásgrímur Jónsson arfleiddi íslenzka ríkið að, heldur einnig húseignin Bergstaðastræti 74, húsmunir þar og um 240 þús. kr. í peningum. Samkv. erfðaskránni skal því fé varið til viðhalds safninu og til sýninga á því í húsi Ásgríms, Bergstaðastræti 74. Ásgrími var það svo mikið kappsmál, að málverkasafnið yrði ekki ríkinu til fjárhagslegrar byrði, að hann heimilaði í erfðaskrá sinni, að selt yrði eitthvað af myndunum til þess að standast kostnað við sýningu þeirra og vörzlu. Auðvitað kemur ekki til mála að nota þessa heimild, því að það yrði ríkinu til hins mesta vansa, ef grípa þyrfti til slíkra úrræða. Hér er um verðmæti að ræða, sem eigi verða metin til fjár, og minnsti þakklætisvottur, sem þjóðin getur sýnt þessum stórbrotna og göfuga listamanni, er að reyna að tryggja það, að ekkert af þessari dýrmætu listaverkagjöf fari forgörðum. Vill enda svo vel til, að gæzla safnsins er í góðum höndum.

Í 14. gr. B fjárlaga kennir margra grasa, og hafa þar á liðnum árum smám saman verið teknir upp styrkir til hinna margvíslegustu verkefna og þar á meðal fjölmargir persónulegir styrkir. Flestir eru styrkir þessir til gagnlegra hluta og njótendur þeirra styrks maklegir. En rökin fyrir ýmsum þessum styrkjum eru þó harla vafasöm. Reyndin hefur orðið sú, að þegar einu sinni er byrjað að veita manni styrk á þessari grein, hefur verið erfitt eða jafnvel ómögulegt að losna aftur við styrkveitinguna. Þótt hér sé ekki um háar fjárhæðir að ræða, þá er mikil nauðsyn að reyna að stefna að því að þurrka út hinar persónulegu styrkveitingar á þessari grein, því að styrkveitingar sem þessar geta ekki fylgt neinum föstum reglum og verða því ætíð tilviljanakenndar. Menn kunna nú að spyrja, hvers vegna fjvn. geri þá ekki till. um að fella niður þessa styrki, heldur leggi nú jafnvel til að bæta við styrkjum til tveggja nafngreindra manna. Er því þar til að svara, að fjvn. hefur stundum gert tilraun til að fella niður styrki á þessari grein, en ég held, að það séu einu tillögur nefndarinnar, sem hafa verið felldar í þinginu. Og meðan hliðstæðir styrkir eru í fjárlögum, er ekki ástæða til að synja þeim tveimur efnilegu listamönnum um styrk, sem n. leggur til að teknir verði inn í 14. gr.

Af hálfu fjvn. hafa verið gerðar ákveðnar tilraunir til að forðast hina persónulegu styrki í fjárlögum. Má þar m.a. nefna, að n. tók upp í einu lagi fjárveitingu til tónlistarnáms erlendis og enn fremur til tónleikahalds erlendis og lagði til, að menntamálaráði væri falin úthlutun þess fjár, svo sem annarra námsstyrkja. Er þá hægt að fylgjast með því og meta það hverju sinni, hvort umsækjendur um styrk þennan eru raunverulega við nám. Því miður hefur þó þessi viðleitni n. ekki að fullu borið árangur, því að við undirbúning fjárlagafrv. hafa stundum verið teknir upp styrkir til nafngreindra manna, sem hefðu að réttu lagi átt að falla undir þennan heildarlið. Einmitt vegna þess, hve hér er oft um viðkvæm persónuleg mál að ræða, er ekki heppilegt að þurfa að ræða þau opinberlega í þingi, og því er það ein af ábendingum meiri hluta n. til ríkisstj., að allar núverandi styrkveitingar í 14. gr. B verði teknar til rækilegrar athugunar. Verði þá m.a. kannað, hvernig eru á vegi stödd þau verkefni, sem styrkir hafa verið veittir til, jafnvel um allmargra ára bil, og jafnframt er rétt að athuga, hvort ekki er hægt að losna algerlega við af greininni alla námsstyrki, ekki á þann hátt að fella þessa styrki niður, heldur með því að fella þá inn í heildarfjárveitingu, sem siðar yrði úthlutað af einhverjum tilteknum aðila, t.d. menntamálaráði, þannig að ekki verði um eilífðarstyrki að ræða. Ég veit, að viðfangsefni þetta er ekki auðvelt. En það er þó vert að kanna öll úrræði til þess að koma betri skipan á fjárveitingar á þessari grein.

Í lögum um jarðræktar- og húsagerðarsamþykktir í sveitum frá 1945 var ákveðið, að ríkið skyldi leggja fram allt að helmingi kostnaðarverðs þeirra véla og verkfæra, sem vélanefnd ríkisins teldi þörf á til ræktunarframkvæmda samkv. þeim lögum. Var upphaflega ákveðið að leggja fram úr framkvæmdasjóði ríkisins 3 millj. kr. í þessu skyni. Með lagabreytingu árið 1950 var upphæðin hækkuð í 6 millj. kr. Og með lögum nr. 26 frá 1955 var ákveðið, að næstu 6 ár skyldi varið allt að 6 millj. kr. til kaupa á jarðræktarvélum í samræmi við helmingaskiptareglu laganna um jarðræktar- og húsagerðarsamþykktir. Þessi fjárveiting hafði verið greidd að fullu árið 1959 og var þá felld niður af fjárlögum, og hefur ekki verið veitt sérstök fjárveiting til kaupa á ræktunarvélum síðustu tvö árin, enda lagaskylda ekki til þess. Ástæðan til þess, að í umræddum lögum var ætíð miðað við tilteknar fjárveitingar, en ekki, svo sem t.d. um jarðræktarstyrkinn, aðeins tilgreint ákveðið hlutfall í greiðslu kostnaðarins, er sú, að í hinum upphaflegu lögum og síðari breytingum við þau hefur ætíð verið lögð á það rík áherzla, að söluverð vinnu ræktunarvélanna væri við það miðað, að hægt væri að fyrna þær með eðlilegu móti, og svo langt gengið í þessu fyrningarákvæði, að stjórn Búnaðarfélagsins var heimilað að halda eftir af jarðræktarstyrk til hlutaðeigandi ræktunarsambands þeirri upphæð, sem vangreidd væri í fyrningarsjóðinn. Hið stórhækkaða verðlag af völdum verðbólguþróunarinnar hefur hins vegar valdið því, að ógerlegt hefur reynzt að fyrna vélarnar með eðlilegu móti, og því var bætt við fjárveitingar úr ríkissjóði með lagabreytingu þeirri; sem ég hef nefnt. Með gengisbreyt. 1958 og 1960 hefur verð ræktunarvéla enn stórhækkað. Hæstv. núv. landbrh. skipaði á s.l. vetri nefnd til þess að athuga vélakost ræktunarsambandanna og hvort nauðsyn væri frekari aðstoðar af ríkisins hálfu um kaup ræktunarvéla. Það var einróma álit þessarar nefndar, að nauðsynlegt væri enn um sinn að veita slíka aðstoð. Í samræmi við þá niðurstöðu er nú lagt til að veita á næsta ári 1 millj. kr. til kaupa á ræktunarvélum, og er þá jafnframt gert ráð fyrir, að landbrn. setji um það reglur, hvernig þeim styrkveitingum verði hagað. Kemur einnig mjög til álita í þessu sambandi, hvort ekki á að leysa þetta vandamál að einhverju leyti með stofnlánum til vélakaupanna úr ræktunarsjóði, og er þess að vænta, að sú hlið málsins verði einnig athuguð. Á það verður einnig að leggja áherzlu, að fyrningarreglum laganna um húsagerðarsamþykktir sé fylgt til hins ýtrasta, og er þá auðvitað eðlilegt, að fyrningargjaldið sé hækkað, ef hækkanir verða á stofnverði vélanna.

Vegna mjög brýnnar fjárþarfar sandgræðslunnar er lagt til að hækka fjárveitingu til hennar um 1/2 millj. kr. Þótt með þessari hækkun sé sandgræðslunni gert mögulegt að sinna þeim verkefnum, sem sízt mega bíða, þá fer því þó fjarri, að sandgræðslan hafi yfir nægilegu fé að ráða til þess að sinna sínu mikilvæga hlutverki. Varnir gegn uppblæstri lands getur verið dýrt fyrir þjóðfélagið að draga á langinn, því að uppblásturinn biður þess ekki, að mönnunum þóknist að gera sínar varnarráðstafanir. Öll hækkunin er færð á liðinn til nýrra sandgræðslugirðinga, því að þar mun þörfin brýnust, en ekki ber þó að skilja það svo, að eigi megi nota einhvern hluta þessarar fjárhæðar til annarra brýnni verkefna, svo sem sandgræðslustöðvanna. Höfuðatriðið er, að fjárveitingin verði notuð á hinn hagfelldasta hátt.

Að tillögu fjvn. hefur í sumar verið unnið að samningu framkvæmdaáætlunar um skógrækt næstu árin. Miðað við gróðursetningu einnar milljónar trjáplantna á ári, mun þurfa að hækka töluvert fjárveitingu til skógræktarinnar. Í ár var allmikið hækkuð fjárveiting til skógræktarinnar með hækkun á álagi á vindlinga, og er því ekki auðið að hækka aftur þessa fjárveitingu nú, þótt víssulega væri æskilegt að geta gert það. Skógrækt og sandgræðsla eru greinar á sama stofni og vinna báðar að því að græða upp landið. Skógræktin er stóri bróðirinn, bæði vegna þess, að hún hefur miklu meira starfslíði á að skipa, og þó ekki síður vegna hins, að henni hefur tekizt að fá þúsundir einstaklinga um allt land til þess að taka virkan þátt í skógræktarstarfinu. Slíkt áhugalið þyrfti einnig að fá við alhliða uppgræðslu landsins. Fyrsta stigið er að sjálfsögðu það að hefta alla frekari eyðingu gróðurlendisins. En við það má ekki láta staðar numið, heldur þarf einnig að sækja fram og vinna nýtt gróðurlendi með uppgræðslu sanda og fleiri gróðurlausra svæða á landinu. Þjóðinni fjölgar ört, og samhliða þarf búpeningi landsmanna að fjölga. En nú þegar er á ýmsum stöðum á landinu svo ástatt, að haglendi er fullbeitt, og jafnvel talið, að um ofbeit geti verið að ræða. Það þarf því að vinna að landgræðslumálunum, bæði í skógrækt og sandgræðslu, á skipulagsbundinn hátt, þannig að sem bezt nýtist það takmarkaða fjármagn, sem til ráðstöfunar er á hverjum tíma. Ekkert sýnist eðlilegra en að sameina þessar tvær stofnanir, því að sérfræðingar skógræktarinnar munu einnig hafa þá menntun, er nauðsynleg er við sandgræðslustörf, og starfsmenn sandgræðslunnar geta vafalaust einnig sinnt skógræktarmálum. Það er því ein af ábendingum fjvn., að gerðar verði ráðstafanir til þess að sameina þessar tvær stofnanir. Tel ég ástæðulaust að færa fram fleiri rök fyrir þeirri tillögu.

Í landinu er margvísleg starfsemi að tilraunum í ýmsum greinum landbúnaðar, og er tilraunastarfsemi þessi í höndum ýmissa aðila. Á vegum tilraunaráðs jarðræktar eru tilraunabúin á Sámsstöðum, Reykhólum, Akureyri og Skriðuklaustri. Á vegum tilraunaráðs búfjárræktar er fjárræktarbúið að Hesti. Á vegum búnaðardeildar atvinnudeildar háskólans er margvísleg tilraunastarfsemi, m.a. tilraunastöðin að Varmá. Þá er unnið að ýmsum tilraunum í jarðrækt og búfjárrækt á búnaðarskólunum. Garðyrkjuskóli ríkisins á Reykjum hefur tilraunagróðurhúsarækt. Á vegum Búnaðarfélags Íslands eru svokallaðir sýnisreitir í jarðrækt og ýmis önnur tilrauna- og leiðbeiningastarfsemi, og á fleiri sviðum mun að þessum málum unnið. Öll er þessi starfsemi vafalaust gagnleg og nauðsynleg. En ástæða sýnist vera til að athuga, hvort eigi muni hægt að ná tilætluðum árangri, þótt tilraunastöðvum þessum verði eitthvað fækkað. Jafnframt virðist ástæða til að athuga, hvort samræmd sé sem skyldi starfsemi þeirra mörgu sérfræðinga, sem vinna að athugunum og rannsóknum á ýmsum þáttum landbúnaðar og jarðræktar. Um þetta skal ekkert fullyrt án nánari athugunar, en meiri hl. n. hefur þótt ástæða til að beina þeirri ábendingu til ríkisstj., að athugað verði, hvort eigi sé hægt að koma þessari starfsemi fyrir á hagkvæmari hátt, þannig að hún verði kostnaðarminni fyrir ríkið. Er með þeirri tillögu ekki til þess ætlizt, að dregið verði úr nauðsynlegri rannsókna- og tilraunastarfsemi í þágu landbúnaðarins, því að áreiðanlega er með meiri og almennari þekkingu í þeim efnum hægt að bæta mjög afkomu landbúnaðarins.

Lagt er til að hækka fjárveitingu til sjóvarnargarða um 100 þús. kr., og er fjárveitingunni skipt niður á 11 staði. Þrátt fyrir þessa hækkun er fjárveiting til sjóvarnargarða töluvert lægri,nú en í fjárlögum yfirstandandi árs.

Í fjárlögum þessa árs voru veittar 50 þús. kr. til athugunar og vinnslu kísilleirs við Mývatn. Sú athugun hófst þó nokkru áður, og hefur að þessari rannsókn verið unnið af rannsóknaráði ríkisins og jarðhitadeild raforkumálaskrifstofunnar. En að auki hefur fyrir milligöngu tækniaðstoðar Sambandslýðveldisins Þýzkalands fengizt hingað þýzkur sérfræðingur, sem mikla reynslu hefur í þessari grein, og benda bráðabirgðaniðurstöður hans til þess, að mjög geti verið um álitlega framleiðslu að ræða á kísilgúr við Mývatn og hægt sé að framleiða þar kísilgúr í mjög háum gæðaflokki. Skýrt hefur verið opinberlega frá meginatriðum í skýrslu hins þýzka sérfræðings, og sé ég því ekki ástæðu til að rekja þau nánar. En þótt kostnaðaráætlun hans sé í sumum atriðum vafasöm, þá eru niðurstöður hans þó svo jákvæðar, að óafsakanlegt væri að leggja ekki allt kapp á að fá gerða fullnaðarrannsókn á öllum þeim atriðum málsins, sem athuga þarf. Atvinnumálanefnd ríkisins hefur athugað rækilega niðurstöður hins þýzka sérfræðings og hefur mælt mjög eindregið með því, að nægilegt fé verði veitt til að ljúka rannsókn málsins sem fyrst. Rannsóknaráð ríkisins áætlar, að til framhaldsrannsóknarinnar þurfi 100 þús. kr., og leggur fjvn. til, að sú upphæð verði veitt í fjárlögum næsta árs.

Rannsóknir á hagnýtingu náttúruauðlinda og til eflingar atvinnuvegum þjóðarinnar er meðal mikilvægustu viðfangsefna okkar í dag. Flestar þjóðir leggja nú hið mesta kapp á fjölþættar vísindalegar rannsóknir, og verja margar þjóðir geysimiklu fé til slíkra rannsókna. Á þessu sviði sem mörgum öðrum eru hin takmörkuðu fjárráð Íslendingum mikill fjötur um fót: Þar sem hér er um undirstöðuatriði að ræða til eflingar atvinnulífi þjóðarinnar, verður samt að gæta þess, að rannsóknarstarfsemin verði ekki út undan. Atvinnumálanefnd ríkisins mun hafa samið mikinn lagabálk um skipun rannsóknarmála, og er það frv. nú til athugunar hjá ríkisstj. Hvort sem það frv. verður lögfest eða ekki, þá verður ekki hjá því komizt að gefa. rannsóknarstarfseminni meiri gaum á næstu árum. Samkv. lögum um happdrætti Háskóla Íslands skal happdrættið greiða til ríkissjóðs 20% af nettó-ársarði í einkaleyfisgjald. Með lögum um náttúrurannsóknir frá 1940 er svo ákveðið, að fé þetta skuli renna til atvinnudeildar háskólans. Þótt það sé ekki beint fram tekið í l., þá mun hafa verið til þess ætlazt, að þetta fé gengi fyrst og fremst til þess að byggja upp atvinnudeildina og rannsóknastarfsemina. Í framkvæmd hefur þetta hins vegar orðið þannig, að um allmargra ára skeið hefur tekjuliður þessi verið færður atvinnudeildinni til frádráttar í fjárveitingu til atvinnudeildarinnar í fjárlögum: Með því er þó ekki öll sagan sögð, því að hafi einkaleyfisgjaldið verið hærra en nemur þeirri upphæð, sem færð hefur verið til frádráttar í fjárlögum, hefur mismunurinn runnið beint í ríkissjóð. Er það auðvitað fráleitt og beinlínis andstætt fyrirmælum laganna. Erfitt er að hverfa frá núverandi tilhögun í einu átaki, því að happdrættistekjurnar eru í fjárlagafrv. nú taldar munu nema 450 þús. kr. Hins vegar þykir sjálfsagt að stefna að því, að einkaleyfisgjaldið verði ekki fært til frádráttar fjárveitingu ríkissjóðs til atvinnudeildarinnar. Er lagt til, að frádráttarliðurinn verði nú lækkaður um 250 þús. kr., sem þýðir raunverulega 250 þús. kr. hækkun fjárveitingar til atvinnudeildarinnar, og er þá jafnframt gengið út frá því, að frádráttarliðurinn verði lækkaður um sömu upphæð næstu 2 ár, þannig að hann verði horfinn alveg í fjárlögum ársins 1963. Á næsta ári verða þá 500 þús. kr. af einkaleyfisgjaldinu teknar til frádráttar fjárveitingu ríkissjóðs, en ætlunin er, að það, sem umfram er af gjaldinu, renni allt til þarfa atvinnudeildarinnar skv. nánari ákvörðun viðkomandi ráðuneytis um ráðstöfun þess fjár.

Í fjárlögum yfirstandandi árs voru 135 þús. kr. veittar til tækninýjunga. Þessi fjárveiting er felld niður í fjárlagafrv. Nefndinni hafa hins vegar borizt nokkrar umsóknir þessa efnis, sem hún telur rétt að sinna að einhverju leyti, og leggur því til, að veittar verði í næstu fjárlögum 125 þús. kr. til tækninýjunga skv. nánari ákvörðun atvmrn.

Nefndin gerir ekki tillögur um neinar hækkanir á fjárveitingu til raforkumála. Í framsöguræðu sinni skýrði hæstv. fjmrh. frá því, að fjárveiting til jarðborana hefði verið lækkuð allmikið, og vantar mikið á, að sú fjárveiting nægi til þess að standa undir kostnaði við rekstur gufuborsins stóra og hins nýja jarðbors fyrir Norðurland auk kostnaðar við aðrar jarðboranir eftir heitu vatni, en áformað væri að leysa þessa fjárþörf eftir öðrum leiðum. Má vafalaust vænta þess, að löggjöf um þetta efni verði sett á yfirstandandi þingi, því að að sjálfsögðu er ekki ætlunin að draga úr þessum þýðingarmiklu framkvæmdum. Telja má því vafalaust, að það vandamál verði leyst á viðhlítandi hátt. En raforkumálastjórnin hefur hins vegar gert tillögur um mjög mikla hækkun fjárveitinga, bæði til nýrra raforkuframkvæmda, raforkusjóðs og þá ekki sízt til virkjunarrannsókna í stórám landsins. Þótt þess hafi ekki verið neinn kostur nú að hækka þessar fjárveitingar, þá er ljóst, að hér er um vandamál að ræða, sem taka verður til gaumgæfilegrar athugunar.

Skýrt hefur verið frá því opinberlega, að rannsóknir á vatnasvæði Hvítár og Þjórsár muni kosta um 40 millj. kr., og gefur það nokkra hugmynd um, hvílík geysileg viðfangsefni er hér við að fást. Fullnaðarrannsókn á Jökulsá á Fjöllum mun einnig vafalaust kosta milljónir króna, þótt bráðabirgðaathuganir séu þar ekki eins kostnaðarsamar. Gera má ráð fyrir, að takist að ljúka framkvæmd 10 ára rafvæðingaráætlunarinnar, svo sem ráð var fyrir gert. En dreifing raforkunnar er ekki nema önnur hlið málsins, því að hin aukna raforkunotkun veldur því, að stöðugt þurfa að vera í gangi nýjar virkjanir. Fjárfestingarþörfin í nýjum orkuverum er svo mikil og vaxandi, að lauslega hefur verið áætlað, að næsta áratug, 1960–70, tvöfaldist fjárfestingarþörfin, þ.e. að hin árlega fjárfestingarþörf hækki úr 90 millj. kr. fyrsta ár áratugsins í 180 millj. kr. árið 1970. Er hér um algerar lágmarkstölur að ræða. Útgjaldaþörfin skiptist auðvitað ekki nákvæmlega á einstök ár sem hér segir, heldur er þar um meðaltalstölur að ræða. Fjárþörfin verður þó að sjálfsögðu miklu meiri, ef til sögunnar kemur á þessu tímabili nýr mjög orkufrekur stóriðnaður. Þetta mikla viðfangsefni hlýtur að verða að taka í heild til athugunar og gera sér grein fyrir því, að hve miklu leyti þarf eða er auðið að leysa úr fjárþörf raforkuframkvæmdanna með beinum fjárveitingum í fjárlögum.

Auk tillagna nefndarinnar um fjárveitingu til bjargráðasjóðs, sem ég hef áður gert grein fyrir, gerir nefndin allmargar aðrar tillögur um breytingar á 17. gr. frv. Skv. lögum um vatnsveitur er ríkisstj. heimilað að veita sveitarfélögum eða vatnsveitufélögum aðstoð til vatnsveitugerðar með ríkisstyrk og ríkisábyrgð, sem má nema allt að 85% af stofnkostnaði veitunnar. Styrkur er þó bundinn því skilyrði, að fyrirsjáanlegt sé, að sveitarfélag eða vatnsveitufélag geti ekki með hæfilegum vatnsskatti staðið straum af stofn- og rekstrarkostnaði veitunnar. Fjárveitingar til styrktar vatnsveitum hafa á undanförnum árum verið alls ófullnægjandi til þess að greiða styrki til vatnsveitna, sem skv. vatnsveitulögum hefur verið talið óhjákvæmilegt að veita. Hefur þetta valdið miklum erfiðleikum, því að styrkir þessir renna einmitt fyrst og fremst til aðila, sem hafa litla fjárhagsgetu. Ógreiddar munu nú vera samþykktar styrkveitingar, er nema 1.4 millj. kr., og vitað er um dýrar vatnsveituframkvæmdir, sem fram undan eru. Lagt er því til að hækka fjárveitingu til vatnsveitna um 600 þús. kr., og er það um það bil tvöföldun fjárveitingar þeirrar, sem nú er í fjárlögum.

Má þá ætla, að sæmileg lausn sé fengin á þessu vandamáli.

Undanfarin tvö ár hafa verið veittar í fjárlögum 150 þús. kr. hvort ár til vatnsöflunar í Vestmannaeyjum. Vestmanneyingar eiga við mikinn vatnsskort að stríða, og vatnsboranir þar hafa reynzt árangurslausar. Hefur því orðið að leggja út í dýrar framkvæmdir til söfnunar vatni, og hefur bæjarsjóður Vestmannaeyja lagt fram á aðra millj. kr. í þessu skyni. Lagt er til, að veittar verði 150 þús. kr. til vatnsöflunar í Vestmannaeyjum og þá sem lokafjárveiting, og nemur þá heildarfjárveitingin 450 þús. kr.

Í sumar hefur verið unnið að mjög kostnaðarsömum jarðborunum eftir neyzluvatni á mörgum bæjum í Kelduhverfi. Þar hagar svo til í stórum hluta sveitarinnar, að ekki er um annað vatn en úrkomuvatn að ræða, og er þetta ástand því algerlega til hindrunar, að hægt sé að reka kúabúskap á þessum jörðum. Vatnsboranir þessar hafa tekizt vel, en sums staðar hefur orðið að bora allt að 60 metra djúpar holur. Endanlega er ekki vitað um kostnaðinn, en fullvíst þykir þó, að heildarborkostnaður og dælur í borholurnar kosti hátt í 600 þús. kr. Kostnaður á hvern bæ er mjög mismunandi. Þótt heildarkostnaðinum yrði jafnt deilt niður á bændur þá, sem hlut eiga að máli, yrði hann lítt viðráðanlegur. Þar sem hér er um stóran hluta sveitar að ræða, virðist ekki óeðlilegt, að ríkissjóður hlaupi eitthvað undir bagga, svo sem ráð er fyrir gert í lögum um vatnsveitur, en þar er gert ráð fyrir, að styrkveitingar ríkissjóðs nái m.a. til vatnsgeyma, dæla og jarðborana. Er lagt til að veita nú 125 þús. kr. styrk til umræddra framkvæmda, en nauðsynlegt er, að félmrn. athugi nánar allar aðstæður og leiti samkomulags við aðila málsins um það, eftir hvaða reglu styrkurinn verði greiddur. Þegar endanlegar upplýsingar eru fyrir hendi um kostnað, verður að meta það, hvern viðbótarstyrk sé eðlilegt að veita til þessara vatnsborana, en eðlilegt sýnist vera að gera ráð fyrir því, miðað við þær upplýsingar, sem nú þegar liggja fyrir, að einhver viðbótarstyrkur verði veittur til þessara framkvæmda í næstu fjárlögum.

Þegar áætlun var gerð um greiðslu með börnum erlendra manna við undirbúning fjárlagafrv., mun hafa láðst að reikna með þeirri hækkun á barnalífeyri, sem lögfest var með breytingu á almannatryggingalögunum á þessu ári. Reynist af þessum sökum óhjákvæmilegt að hækka þennan fjárlagalið um 700 þús. kr., eða í 3 millj. kr.

Slysavarnafélag Íslands hefur gert nefndinni grein fyrir því, að með sívaxandi verkefnum og auknum tilkostnaði, m.a. vegna aðildar að kaupum nýrrar sjúkraflugvélar, sé félaginu algerlega um megn að standa undir nauðsynlegum útgjöldum til slysavarna með núverandi fjárveitingu. Að athuguðu máli telur því nefndin rétt að leggja til, að fjárveiting til almennra slysavarna verði hækkuð um 250 þús. kr.

Í gildandi fjárlögum eru Birni Pálssyni veittar 125 þús. kr. til að halda uppi sjúkraflugi.

Mun enginn telja þá fjárveitingu eftir, og óþarft er að ræða hin mörgu afrek Björns Pálssonar á þessu sviði. Nú er komin til sögunnar önnur sjúkraflugvél, sem staðsett verður á Akureyri. Á Tryggvi Helgason flugmaður þá vél að hálfu á móti Rauðakrossdeild Akureyrar og slysavarnadeild kvenna á Akureyri. Vélin kom til landsins 1. nóv. s.l. og hafði um miðjan ágústmánuð, þegar nefndinni var gerð grein fyrir starfsemi vélarinnar, farið í 40 lengri eða skemmri ferðir með sjúklinga. Mun tilkoma þessarar nýju sjúkraflugvélar og staðsetning hennar norðanlands bæta aðstöðu til sjúkraflugs og vera til mikils aukins öryggis. Er lagt til að veita Tryggva Helgasyni 75 þús. kr. styrk til að halda uppi sjúkraflugi. Þykir ekki ástæða til að ganga lengra í styrkveitingu, fyrr en betur verður séð, hvernig rekstrarafkoma og starfsemi flugsins verður.

Flugbjörgunarsveitin í Reykjavík hefur um nokkurt árabil haft fastan styrk í fjárlögum, og var upphaflega ætlunin, að sá styrkur yrði notaður til tækjakaupa fyrir sveitina. Um alllangt skeið hefur einnig verið starfandi flugbjörgunarsveit á Akureyri, sem starfar á svipuðum grundvelli og flugbjörgunarsveitin í Reykjavík. Eru í sveitinni um 70 menn, sem allir vinna kauplaust að þeim verkefnum, sem þeir kunna að verða kvaddir til. Hefur flugbjörgunarsveit þessi oft komið til sögu, bæði þegar slys hafa orðið á flugvélum á undanförnum árum eða óttazt hefur verið um fólk í illviðrum, og hefur sveitin stundum orðið að leggja í leitir um hrikalegasta hálendi Norðurlands, þótt hún væri illa búin að öllum tækjum. Á þessu ári hefur sveitin ráðizt í kaup á ýmsum nauðsynlegum tækjum, svo sem sjúkrabíl, litlum fjallabil, hjúkrunargögnum, talstöð o.fl., og hefur meginhlutinn af þessu verið fenginn hjá sölunefnd varnarliðseigna. Sveitinni er algerlega um megn að greiða af eigin rammleik þessi tæki nema að takmörkuðu leyti, og með hliðsjón af hinu mikilvæga starfi sveitarinnar á undanförnum árum þykir sanngjarnt að leggja til, að henni verði nú veittur 75 þús. kr. styrkur til tækjakaupa.

Hæstv. fjmrh. gerði í framsöguræðu sinni með fjárlagafrv. grein fyrir því, að felldir hefðu verið niður nokkrir byggingarstyrkir í 17. gr. fjárlaga, m. a. vegna þess, að engar umsóknir eða grg. hefðu legið fyrir frá viðkomandi aðilum. Fjvn. hafa borizt styrkbeiðnir ásamt fullnægjandi grg. frá öllum þessum aðilum og hefur lagt til, að svipaðir styrkir séu teknir upp til þeirra í fjárlögum næsta árs og þeir, sem eru veittir á þessu ári. Hæst þessara fjárveitinga er 150 þús. kr. styrkur til Blindrafélagsins í Reykjavík, sem nú vinnur að því að ljúka fyrsta áfanga byggingar félagsins við Hamrahlíð. Er áætlað, að kosta muni um 800–900 þús. kr. að ljúka þessum áfanga. Horfur eru á því, að erfðafjársjóður hlaupi undir bagga með láni og styrk allt að 600 þús. kr., og ætti því að mega takast að ljúka þessum áfanga. Allir eru styrkir þessir aðeins litill hluti af byggingarkostnaði umræddra stofnana og eru nánast veittir sem viðurkenning fyrir það mikla framtak og fórnfýsi, sem viðkomandi aðilar sýna.

17. og 19. gr. fjárlagafrv. eru langhæstu útgjaldagreinar þess. Nema útgjöld á þessum tveimur gr. um 700 millj. kr. á næsta fjárhagsári, og af 85–90 millj. kr. heildarhækkun fjárlaga nú nemur hækkun á framlagi til almannatrygginga einna 58 millj. kr. Tryggingamálin sem slík ætla ég ekki að gera hér að umtalsefni, en aðeins benda á, að líklega má telja, að árleg hækkun útgjalda til almannatrygginga að óbreyttum tryggingalögum verði 10–12 millj. kr. á ári næstu árin.

Gert er ráð fyrir, að kostnaðurinn við niðurgreiðslu á vöruverði verði um 303 millj. kr. á næsta ári. Í sparnaðarábendingu meiri hl. n. er beint þeim tilmælum til ríkisstj., að hún athugi, hvernig hægt muni vera í áföngum að losna við niðurgreiðslurnar. Niðurgreiðslurnar eru mikilvæg aðstoð við neytendur, sem ekki er hægt að hverfa frá nema á löngu tímabili. Miðað við það, að jafnvægi komist á í efnahagsmálum, hlýtur hins vegar að verða að stefna að afnámi niðurgreiðslna í áföngum og reyna þá jafnframt að létta tollabyrðina. Ýmsar aðrar þjóðir, sem langt voru komnar á þessari braut, hafa síðustu árin verið smám saman að hverfa frá niðurgreiðslunum og er vert að kynna sér, hvernig að hefur verið farið í þessum löndum.

Athugun á eftirlaunagreiðslum í 18. gr. bíður að venju 3. umr. fjárlaga. Það má nú teljast vera orðin föst venja að veita opinberum starfsmönnum, sem láta af embætti fyrir aldurs sakir, einhver viðbótareftirlaun á 18. gr. fjárlaga. Þessi aukaeftirlaun hafa jafnan verið hálfgert vandræðafyrirbrigði, ekki vegna þess, að það fólk, sem þar á hlut að máli, sé ekki maklegt þeirra eftirlauna, sem því eru veitt, heldur vegna hins, að erfiðlega hefur gengið að setja fastar reglur um ákvörðun þessara viðbótareftirlauna og oftast verið einhver leiðindi af þeim sökum. Um allmargra ára bil hefur fjvn. þó reynt að mynda sér ákveðnar reglur, a.m.k. varðandi það hámark eftirlauna, sem skuli ekki farið yfir, og hefur nefndin staðið fast á þeirri reglu. Framlag ríkissjóðs til þessara viðbótareftirlauna er áætlað í fjárlagafrv, rúmar 5.6 millj. kr. Úr því að það er orðin almenn regla að veita einhver viðbótareftirlaun í 18. gr., sýnist langeðlilegast að endurskoða gildandi lög um lifeyrissjóð opinberra starfsmanna með það fyrir augum að koma eftirlaunamálunum í það horf, að ekki þurfi að koma til viðbótareftirlauna í 18. gr. fjárlaga. Þá er hægt að framkvæma eftirlaunagreiðslurnar eftir fyrir fram ákveðnum reglum, þannig að eftirlaunaþegar vita nákvæmlega, hvers þeir eiga að vænta, og mætti þá smám saman fella viðbótarframlögin í 18. gr. niður. Þetta leggur meiri hl. n. áherzlu á að ríkisstj, taki til sérstakrar athugunar.

Einn er sá útgjaldaliður ríkissjóðs, sem hlýtur að valda miklum áhyggjum, og það eru hin stöðugt hækkandi útgjöld vegna greiðslna á ríkisábyrgðarlánum, sem eru í vanskilum. Vissulega þjóna ríkisábyrgðirnar góðum tilgangi, og á þennan hátt hefur verið hægt að veita mikilsverða aðstoð til atvinnuuppbyggingar viða um landið. En fyrir því þýðir ekki að loka augum, að gálaus veiting ríkisábyrgða getur skapað geigvænlega hættu, því að einhvern tíma kemur að skuldadögum. Ég hef oft áður vakið máls á því, hversu alvarleg hætta hér væri á ferðum, því að hér er um útgjöld að ræða, sem enginn getur vitað, hversu mörgum milljónatugum kunni að skipta árlega. Umreiknað eftir gengisbreytingunum munu ríkisábyrgðalán nú nema rúmum 2300 millj. kr., og gefur auga leið, hversu alvarleg áföll kunna að verða af því fyrir ríkissjóðinn, ef mikil vanskil verða á greiðslu þessara lána. Ríkisstj. hefur nú lagt fyrir Alþingi frv. um ríkisábyrgðir, og gefst tækifæri til þess að ræða þær nánar við meðferð þess frv., en ég taldi þó rétt í sambandi við afgreiðslu fjárlaga að vekja athygli á því, hversu hér er um alvarlegan og síhækkandi útgjaldalið að ræða.

Fjvn. leggur til að veita ríkisstj. nokkrar heimildir í 22. gr. Skal ég fara nokkrum orðum um þær þessara tillagna, sem helzt gefa tilefni til frekari skýringa en felast í nefndaráliti meiri hl. nefndarinnar.

Í tilefni heimildartillögu um það að heimila ríkissjóði að ábyrgjast vörukaupalán það, PL-480, sem tekið verður á þessu ári, skal það tekið fram, að þótt ekki hafi verið leitað heimildar í fjárlögum til ríkisábyrgðar á þeim vörukaupalánum, sem tekin hafa verið á undanförnum árum, þá er hér ekki um að ræða neina breytingu frá fyrri venju í þessu efni. Sá háttur hefur undanfarin ár verið á hafður, að Framkvæmdabanki Íslands hefur tekið lán þau, er Íslandi hafa verið veitt skv. hinum svonefndu PL-480 vörukaupasamningum við Bandaríkin, en á hinn bóginn hefur verið ríkisábyrgð á lánunum. Hefur sú ríkisábyrgð verið veitt með heimild í lögum um Framkvæmdabanka Íslands. En ekki er nú eftir það stór upphæð af ábyrgðarheimild í þeim lögum, að hún nægi fyrir því vörukaupaláni, sem hér er um að ræða, og verður því aflað sérstakrar heimildar til ríkisábyrgðarinnar.

Vegna aflabrestsins á síldveiðum á s.l. sumri varð að greiða síldveiðiflotanum bætur úr síldveiðideild hlutatryggingasjóðs, sem nemur 9 millj. kr. Tekjur síldveiðideildar á yfirstandandi ári munu hins vegar ekki vera nema um 5 millj. kr., og varð því að grípa til þess úrræðis, sem áður hefur verið gert, að fá það, sem á vantaði, 4 millj. kr., að láni í hinni almennu deild sjóðsins. Lagt er til, að ríkisstj. verði heimilað að ábyrgjast umrætt lán, og jafnframt, að ríkissjóður taki að sér að greiða vexti af láninu, sem frá 1, okt. 1960 til 31, des. 1961 nema 350 þús. kr. Er þetta í samræmi við þær reglur, sem fylgt hefur verið áður við hliðstæða lántöku síldveiðideildar hjá hinni almennu deild hlutatryggingasjóðs.

Á s.l. þingi var samþ. þál. þess efnis að skora á ríkisstj. að koma upp klak- og eldisstöð fyrir lax og silung á hentugum stað á landinu, svo fljótt sem við verði komið. Voru í fjárl. þessa árs veittar 100 þús. kr. til undirbúnings þessum framkvæmdum. Viðurkennt er af öllum, sem til þekkja, að hér sé um hið mesta nauðsynjamál að ræða, sem geti lagt grundvöll að stóraukinni lax- og silungsveiði í ám og vötnum og beinlínis nýrri búgrein, sem ætti með litlum erlendum tilkostnaði að, geta framleitt verulegt magn af verðmætri útflutningsvöru, er tímar líða. Lagt er til að veita í fjárlfrv. aftur 100 þús. kr. á næsta ári til undirbúnings eldisstöðinni. En sú fjárveiting hrekkur skammt, ef á að vera hægt að þoka málinu það áleiðis, sem nauðsyn krefur. Áætlað er, að 800 þús. kr. þurfi til þess að ljúka fyrsta áfanga verksins, sem ætlað er að ljúka á næsta ári, en siðan þurfi helming eftirstöðvanna hvort árið 1962 og 1963. Má gera ráð fyrir, að heildarkostnaðurinn við stöðina verði á fimmtu millj. kr. Þar sem ætla má, að stöð þessi geti haft verulegar tekjur, sýnist eðlilegt að freista þess að fá verulegan hluta stofnkostnaðarins að láni, og er því lagt til að veita ríkisstj. heimild til allt að 4 millj. kr. lántöku til byggingar eldisstöðvarinnar. Á þessu ári hefur töluvert verið unnið að undirbúningi að byggingu stöðvarinnar, þótt endanlegar áætlanir hafi ekki verið gerðar. Nákvæmlega hefur verið athugað, hvar heppilegast mundi að staðsetja stöðina, og virðist Kollafjörður líklegur staður, þótt ekki sé það kannað alveg til hlítar, og geta einnig fleiri staðir komið til greina. Nauðsynlegt er að veita ríkisstj. heimild til kaupa á landi fyrir stöðina, og er Kollafjörður sérstaklega nefndur í því sambandi, en heimildin þó ekki takmörkuð við þann stað. Mjög stórstígar framkvæmdir hafa á síðustu árum verið á þessu sviði, og dvelst veiðimálastjóri nú í Bandaríkjunum til að kynna sér helztu nýjungar í fiskeldi. Þar sem ætla má, að hér geti orðið um mjög arðvænlega atvinnugrein að ræða, virðist ekki ósennilegt, að einkaaðilar kunni einnig að vilja vinna að þessum málum og leggja fram fé til tilrauna í því skyni, og er þrátt fyrir heimild þessa sjálfsagt, að öll slik úrræði séu könnuð til hlítar: En höfuðatriðið er, að framkvæmdir mega ekki dragast óeðlilega.

Í fjárl. þessa árs var ríkisstj. veitt heimild til þess að ábyrgjast allt að 500 þús. kr. lán fyrir síldarverksmiðjurnar í Krossanesi og á Hjalteyri til þess að gera tilraunir með síldarflutninga frá fjarlægum síldarmiðum. Til flutninga þessara leigðu verksmiðjurnar tvö norsk skip, sem báru hvort um sig 5 þús. hektólítra síldar. Fluttu skip þessi nokkra farma frá síldarmiðum fyrir Austurlandi til verksmiðjanna við Eyjafjörð, og var landað í flutningaskipin beint úr veiðiskipunum. Tilraun þessi bar svo góðan árangur, að ljóst sýnist vera, að mjög auðvelt sé að flytja síldina á þennan hátt frá síldarskipunum, og hefur það að sjálfsögðu, bæði þegar langt þarf að sækja síldina og síldveiði er mikil, hina mestu þýðingu fyrir síldveiðiskipin að geta losnað við síldina á þennan hátt. Því miður hvarf þó síldin svo stuttu eftir að skipin hófu flutninga sína, að leiga skipanna varð þungt áfall fyrir þessar tvær verksmiðjur, enda þótti ekki annað fært en kaupa síldina fullu verði af síldveiðiskipunum, þar sem hér var um fyrstu tilraun að ræða. Þar eð kostnaðurinn við tilraunina skall með fullum þunga á verksmiðjunum, en tilraunin hefur hins vegar almenna þýðingu í sambandi við flutning síldar á þennan hátt í framtíðinni, þykir sanngjarnt, að ríkið taki á sig umræddar 50 þús. kr. í þetta sinn. N. hefur jafnframt fallizt á að mæla með sams konar ríkisábyrgð fyrir verksmiðjur þessar á næsta ári, en þó með því fororði, að um frekari ríkisstyrk verði ekki að ræða og verksmiðjurnar verði því að greiða þá fjárhæð að fullu. Þar eð flutningur síldarinnar á þennan hátt getur sparað nýja fjárfestingu í síldarverksmiðjum, þótt síldin leggist fjarri núverandi,verksmiðjum, þá virðist þjóðhagslega skynsamlegt að greiða fyrir því, að hægt sé að koma við slíkum flutningum.

Ég hef þá rakið þær brtt. n. við gjaldabálk frv., sem virðast gefa sérstakt tilefni til frekari skýringa, og jafnframt vikið að ýmsum atriðum, sem mér sýnast máli skipta í sambandi við fjárlagaafgreiðsluna almennt. Þar sem það hefur átt við, hef ég jafnhliða vikið að þeim sparnaðarábendingum, sem fram eru settar í nál. meiri hl. fjvn., en allmörg þeirra atriða eru þó enn ótalin, og mun ég víkja að þeim í sem stytztu máli.

Bent er á, að spara beri eftir föngum útgjöld við veizluhöld á vegum ríkis og ríkisstofnana. Með þeirri ábendingu er ekki verið að gagnrýna sérstaklega núverandi eða fyrrverandi ríkisstj. í því efni, því að kunnugt er, að einmitt að undanförnu hefur verið reynt að spyrna hér við fótum. Ber víssulega að virða alla viðleitni í þá átt. En ýmsar venjur hafa skapazt í þessu efni, sem erfitt kann að vera að breyta. Auðvitað er ekki hægt að komast hjá ýmiss konar veizluhöldum á vegum ríkisins, einkum fyrir útlenda gesti, því að gestrisnir viljum við Íslendingar vera. En nokkur ástæða virðist þó vera til að álita, að enn meira hófs og eftirlits mætti hér gæta, og virðist það m.a. vafasöm nauðsyn að hafa jafnan opinber boð fyrir fulltrúa á landsfundum og stéttaþingum, sem jafnvel koma árlega saman.

36 menn munu nú vera í lögregluliði Keflavíkurflugvallar. Að sjálfsögðu er nauðsynlegt að halda þar uppi góðri löggæzlu. En með hliðsjón af því, hversu starfsliði þar hefur mjög fækkað, sýnist full ástæða til að athuga, hvort ekki megi einnig fækka í löggæzluliðinu.

Eftirlit með sparisjóðum og opinberum sjóðum eru ekki stórir kostnaðarliðir, en auðvelt ætti að vera að koma við því eftirliti án sérstakra útgjalda fyrir ríkissjóð. Er því æskilegt, að þeirri breytingu verði komið á, strax og fært þykir af öðrum ástæðum.

Safnað hefur verið að undanförnu nákvæmum skýrslum um bifreiðaeign ríkisins, og ýmsar athuganir hafa farið fram á heppilegri skipan þessara mála. Ríkið verður að sjálfsögðu að eiga margar bifreiðar, bæði vörubifreiðar og fólksbifreiðar, til afnota fyrir víssar ríkisstofnanir, svo sem framkvæmdastofnanir ríkisins og lögregluna og ýmiss konar eftirlit. En þörf ríkisstofnana og embættismanna fyrir bifreið er mjög mismunandi, og sýnist full ástæða til að taka það til gaumgæfilegrar athugunar, hvort ekki sé rétt og hagkvæmt fyrir ríkið að fara meira inn á þá braut að láta starfsmennina eiga sínar bifreiðar, en greiða í þess stað bifreiðastyrki. Málið er þó svo margþætt, að ekki er auðvelt að gera um það ákveðnar tillögur án rækilegrar athugunar í hverju einstöku tilfelli. Mjög mikilli gagnrýni sætir það, hversu ríkisbifreiðar séu notaðar mikið til einkaþarfa viðkomandi starfsmanna. Er hér að sjálfsögðu um misnotkun að ræða, sem í mörgum löndum er tekið mjög hart á. Reykjavíkurbær hefur til aðhalds í þessu efni merkt allar bifreiðar bæjarins, og virðist ástæða til að athuga, hvort hið sama eigi ekki að gera við bifreiðar í eigu ríkisins.

Bent er á, að athugað verði, hvort ekki sé yfirleitt rétt að fylgja þeirri reglu að leita tilboða í öll þau verk, sem ríkið þarf að láta vinna, verði því við komið. Fyrir þinginu liggur nú sérstök þáltill. um þetta efni, og gefst þinginu tækifæri til. að marka skoðun sína á málinu í sambandi við afgreiðslu þeirrar till.

Skipulag tollgæzlu utan Reykjavíkur er með þeim hætti, að þar er á ýmsum sviðum breytinga þörf. Kemur þar bæði til greina breyting á staðsetningu tollvarða, og enn fremur sýnist rétt að athuga til hlítar, hvort ekki sé hægt að koma við meiri sameiningu tollgæzlu og löggæzlu, því að tollverðirnir eru í raun og veru ekki annað en löggæzlumenn. Ýmsir tollvarðanna utan Reykjavíkur hafa mjög lítil verkefni, og sýnist hinum almenna borgara það ekki bera vott um neina sérstaka ráðdeild, þegar vitað er, að opinberir starfsmenn hafa ekkert fyrir stafni dögum og jafnvel vikum saman. Á framkvæmd sameiningar eru vafalaust margvíslegir annmarkar, en rétt sýnist að athuga alla slíka möguleika til hlítar.

Bent er á, hvort ekki muni auðið að leggja matvælaeftirlitið niður sem sjálfstæða stofnun og fela eftirlit þetta, sem mun fyrst og fremst vera mjólkureftirlit, iðnaðardeild atvinnudeildar háskólans. Tel ég ekki ástæðu til að ræða þá ábendingu nánar, en ég hygg, að hæglega sé auðið að gera þessa skipulagsbreytingu og hún geti leitt til nokkurs sparnaðar.

Meginhluti tekna flugmálastjórnarinnar er af Keflavíkurflugvelli, og eru áætlaðar tekjur hans á næsta ári 16.4 millj. kr. Þessar tekjur eru eingöngu af millilandaflugi, og þar sem breytingar og framfarir í flugtækni og flugvélagerð eru mjög örar, þarf að hafa vakandi auga með því, að þessar tekjur gufi ekki upp einhvern góðan veðurdag. Vitað er, að ýmsir millilandaflugvellir hafa háð harða baráttu til þess að tryggja sér viðkomu flugvéla, svo sem Shannonflugvöllur á Írlandi, sem hefur gert margvíslegar ráðstafanir í þessa átt. Þótt engin ástæða sé til að halda, að utanrrn., sem er yfirstjórn flugvallarins, hafi ekki jafnan opin augun fyrir þessari hættu, og þegar hafa verið gerðar ýmsar ráðstafanir til þess að tryggja viðkomu flugvéla, svo sem með stofnun fríhafnarinnar, þá þykir þó meiri hl. n. rétt að benda á nauðsyn þess, að öll úrræði í þessu sambandi séu athuguð gaumgæfilega, því að hér er um mikið fjárhagsatriði að ræða. Rekstrarkostnaður Keflavíkurflugvallar, sem nemur rúmlega 10 millj. kr., er miðaður við mjög mikla starfsemi á flugvellinum, sem sjá má með samanburði við Reykjavíkurflugvöll, en rekstur hans kostar aðeins 5.8 millj. kr. og verður ríkið þó að kosta viðhald þess flugvallar, en ekki Keflavíkurflugvallar. Er því ljós nauðsyn þess að athuga rækilega, hvort eðlilegt samræmi sé milli tilkostnaðar við flugvöllinn og tekna hans á hverjum tíma.

Full ástæða virðist vera til að athuga, hvort ekki sé auðið að fækka prestaköllum í landinu. Gera má að vísu ráð fyrir, að slíkar breytingar muni víða mæta mótspyrnu, enda varð sú raunin, þegar nokkrar tilraunir voru gerðar í þessa átt, er prestakallaskipunin var endurskoðuð síðast. Engu að síður er ekki hægt að loka augunum fyrir þeirri staðreynd, að víða eru prestaköllin of lítil, og miðað við núverandi starfshætti hafa viðkomandi prestar sáralitið að gera. Samgöngur eru nú viðast hvar orðnar svo góðar, að þær eru því ekki til hindrunar, að prestaköllin séu stækkuð, og mér er nær að halda, að það geti beinlínis orðið prestunum uppörvun í starfi þeirra að fá stærri viðfangsefni og þurfa ekki að nota meginhluta starfstíma síns til veraldlegra starfa. Víða um land verða prestar að sitja stórar og erfiðar jarðir, enda þótt þeir séu alls óvanir búskap, og meginhluti tíma þeirra fer í búskaparamstur. Hin andlegu viðfangsefni prestanna ættu að vera það mikil, að þeir gætu algerlega beitt huga sínum og starfskröftum að prestsstarfinu, og mætti vel hugsa sér launahækkanir þeim til handa við stækkun prestakallanna.

Sumir kunna að segja, að hér sé vegið að kirkjunni, en því fer víðs fjarri. Einmitt vegna sjálfrar kirkjunnar og álits hennar í landinu er það hin mesta nauðsyn að leita nýrra úrræða til þess að gera starf kirkjunnar lífrænna og reyna að vekja áhuga almennings, því að til lengdar hlýtur það að lama áhuga hvers prests að prédika yfir auðum kirkjubekkjum. Er því ekki einmitt full ástæða til að gefa því gaum, hvort ekki eigi að losa prestana við hið margvíslega veraldlega vafstur, sem þeir hafa með höndum víða um land, með því að veita þeim víðara starfssvið? Ekki er víst, að af þessum breytingum leiddi mikla fækkun presta, því að senn kemur að því, að fjölga verður prestum, þar sem þéttbýlið er mest. En fyrir ríkið mundi þó margvíslegur sparnaður af þessu verða, m.a. vegna fækkunar prestssetursjarða og embættisbústaða. Þetta mál ætti því að athuga rækilega og að sjálfsögðu hafa um það samráð við biskup landsins.

Ýmis sérþing eru nú haldin, sum árlega, sem algerlega eru kostuð af ríkissjóði. Má í því sambandi nefná búnaðarþingi, fiskiþing og kirkjuþing. Vafalaust gegna þing þessi þýðingarmiklu og nytsömu hlutverki. En hætt er þó við, að ýmsar aðrar ráðstefnur telji sig engu ómerkari og njóta þó ekki slíkra fríðinda. Full ástæða virðist vera til að athuga, að hve miklu leyti eðlilegt sé, að ríkissjóður beri kostnað af þingum þessum, eða a.m.k. sé athugað, hvort ekki sé þá rétt að setja starfstíma þessara þinga ákveðin mörk, svo sem t.d. er um kirkjuþing.

Árlega verður ríkið að leggja fram mikið fé til bygginga og viðhalds á ríkisjörðum, en ekki er sjáanlegt, að neinar tekjur séu af þessum jarðeignum. Sjálfsagt virðist vera að reyna að selja þær þessara jarða, sem þarf ekki að nota sem embættisbústaði eða eru sérstaklega verðmætar vegna einhverra hlunninda, sem telja má mikilvægt fyrir ríkið að eiga.

Loks bendir n. á nauðsyn þess að endurskoða gildandi ákvæði um embættisbústaði og verði í því sambandi sérstaklega athugað, hvort ekki sé hægt að komast af án sérstakra embættisbústaða í stærstu kaupstöðum landsins, þar sem húseignir eru í fullu verði. Embættisbústaðir eru víða um land óhjákvæmilegir. En sannleikurinn er hins vegar sá, að embættisbústaðir eru embættismönnum hálfgerð hefndargjöf, og ég hygg, að margir embættismenn mundu fremur kjósa það að fá aðstoð í lánaformi til þess að koma yfir sig húsi, heldur en að fá embættisbústað, sem þeir verða að hrökklast úr, er þeir hafa náð aldurshámarki embættismanna. Fækkun embættisbústaða mundi hins vegar spara ríkinu verulegt fé.

Ég mun þá gera grein fyrir þeim meginatriðum, sem tekjuáætlun frv. er byggð á, og brtt. n. í sambandi við hana.

Þegar fjárl. fyrir 1960 voru endanlega afgr. var að vísu komið alllangt fram á fjárhagsárið, en engu að síður var mjög mikil óvíssa um tekjuhorfur á árinu vegna gengisbreytingarinnar og þeirra áhrifa, sem hún hlaut að hafa, fyrst og fremst á innflutninginn. Af hálfu stjórnarandstæðinga var því þá haldið fram, að tekjuáætlun fjárl. væri allt of lág, og fluttu fulltrúar Framsfl. þá till. um stórfellda útgjaldahækkun með þeirri röksemd, að tekjur ríkissjóðs hlytu að verða 100–200 millj. kr. hærri en fjárl. áætluðu. Fjárlagaárið er að vísu enn ekki liðið, en allar líkur benda til, að eigi aðeins reynist fullyrðingar stjórnarandstöðunnar um of lága tekjuáætlun fjárl. rangar, heldur verði tekjur ríkissjóðs einnig beinlínis lægri en fjárl. gera ráð fyrir. Þegar þess er gætt, að tekjuáætlunin var við það miðuð, að gengisbreytingin hefði gilt allt árið, lætur þó nærri, að áætlunin standist. Hér kemur og á móti, að útgjaldahækkanir á ýmsum liðum voru einnig við það miðaðar, að gengisbreytingin gilti allt árið. Eru því allar líkur til, að bæði tekjur og útgjöld ríkissjóðs verði undir áætlun fjárl. En hvort greiðslujöfnuður næst, er enn vafasamt, og það virðist a.m.k. ljóst, að um greiðsluafgang verði ekki að ræða.

Þegar tekjuáætlun fjárl. fyrir yfirstandandi ár var gerð, var byggt á greiðslujafnaðaráætlun, sem gerði ráð fyrir 225 millj. kr. innflutningi á árinu á nýja genginu, að frátöldum innflutningi skipa og flugvéla. Var það um 20% lækkun innflutnings frá árinu 1959. Að því er tekjur af þessum innflutningi snerti, var fylgt áætlun um samsetningu hans, er hagstofan hafði gert. Sú áætlun var byggð á reynslu ársins 1958, þar sem sundurliðun innflutningsins 1959 lá ekki fyrir, þegar áætlanirnar upphaflega voru gerðar, og síðan valdar ákveðnar forsendur um það, hver áhrif efnahagsráðstafanirnar mundu hafa á samsetningu innflutningsins.

Eins og fram var tekið í nál. meiri hl. fjvn. þá, voru allar þessar áætlanir háðar mikilli óvissu, þar sem ekki var hægt að vita nema með ágizkunum, hver áhrif efnahagsráðstafananna á heildarverðmæti og samsetningu innflutningsins mundu verða.

Á grundvelli ýtarlegrar athugunar, sem gerð var nú í nóvembermánuði, er áætlað, að innflutningur ársins 1960 verði um 2513 millj. kr., en það er um 10% meiri innflutningur en fyrri áætlun gerði ráð fyrir. Stafar þetta eingöngu af miklum innflutningi á fyrsta ársfjórðungi, þ.e.a.s. rétt á undan og rétt á eftir að efnahagsráðstafanirnar komu til framkvæmda. Aftur á móti reyndist innflutningurinn í mánuðunum apríl-október 20% lægri en á sömu mánuðum ársins 1959, og er það sami samdráttur innflutningsins og áætlanir höfðu gert ráð fyrir á öllu árinu.

Þrátt fyrir þessa aukningu innflutningsmagnsins verða tolltekjurnar mínni en gert var ráð fyrir. Er orsökin fyrst og fremst sú, að mun meira hefur dregið úr innflutningi hátollavara en áætlað var, þannig að hverjar 100 kr. innflutnings gefa af sér 10% mínna í vörumagnstolli og verðtolli og 7,7% mínna í söluskatti en reiknað hafði verið með:

Þar sem upplýsingar liggja enn ekki fyrir um tvo síðustu mánuði yfirstandandi árs, verður auðvitað að áætla innflutning og tolltekjur þeirra. Hefur í þeirri áætlun verið gert ráð fyrir, að innflutningurinn þessa mánuði verði 16% lægri en í sömu mánuðum ársins 1959, og er það í samræmi við lækkun innflutningsins í mánuðunum ágúst—október. Að því er tolltekjur þessa innflutnings snertir, hafa verið valdar tvær mismunandi forsendur. Önnur er sú, að hverjar 100 kr. innflutnings í mánuðunum nóvember-desember gefi af sér sömu tolltekjur og í mánuðunum janúar-október 1960, en hin, að hverjar 100 kr. innflutnings í mánuðunum nóvember og desember gefi af sér hlutfallslega jafnmiklu hærri tolltekjur en í mánuðunum janúar-október og þær gerðu á árinu 1959. Er hér um að ræða hinn hagstæðasta og óhagstæðasta möguleika um innflutning á þessum mánuðum, og hefur verið tekið meðaltal þessara áætlana. Er líklegt, að sú tala sé raunhæf.

Þessi áætlun um innflutninginn 1960 og tolltekjur ríkissjóðs á honum hefur verið lögð til grundvallar við áætlun tollteknanna á næsta ári. Hefur efnahagsmrn. gert áætlun fyrir 1961, þar sem gert er ráð fyrir, að innflutningurinn það ár verði 2400 millj. kr., þ.e.a.s. 16% minni en innflutningur ársins 1959 og 4.5% minni en hinn áætlaði innflutningur ársins 1960. Er jafnframt gert ráð fyrir sömu samsetningu innflutningsins og á yfirstandandi ári, þannig að hverjar 100 kr. í innflutningi gefi af sér sömu tekjur í aðflutningsgjöldum og áætlað er að þær gefi á árinu 1960.

Áætlun hefur einnig verið gerð um alla aðra tekjuliði ríkissjóðs á yfirstandandi ári. Virðast þeir ætla að standast áætlun fjárlaga, nema hvað einn liður bregzt verulega, og er það leyfisgjaldið, sem gert er ráð fyrir að gefi í ár aðeins 16.5 millj. kr., en áætlun fjárl. er 53 millj. Er orsökin mikill samdráttur í innflutningi bifreiða, sem m.a. stafar af því, að af viðskiptaástæðum hefur orðið að takmarka bílainnflutninginn við rússneskar bifreiðar.

Tekju- og eignarskattur mun í ár væntanlega gefa töluvert meira en fjárl. gerðu ráð fyrir, en ástæðan er eingöngu sú, að innheimtan hefur gengið betur vegna skattalagabreytingarinnar á þessu ári og veruleg upphæð komið inn af vangoldnum skatti frá fyrra ári. Getur því eigi orðið um slíkar viðbótartekjur að ræða á þessum lið á næsta ári, auk þess sem hætta er á enn frekari skerðingu vegna fyrirhugaðrar skattalagabreytingar á þessu þingi.

Í tillögum meiri hl. fjvn. er lagt til að hækka ýmsa liði aðflutningsgjalda um samtals 35.8 millj. kr. Er þá þanþol tekjumöguleikanna teygt til hins ýtrasta á öllum liðum, og verður innflutningur þó raunar að verða nokkru meiri en áætlun efnahagsmrn..gerir ráð fyrir, ef áætlunin um tekjur af aðflutningsgjöldum á að standast. Er því ljóst, að hér er teflt á svo tæpt vað, að ekki er hægt að gera ráð fyrir nokkrum tekjum til þess að mæta umframgreiðslum á fjárl. og verður því að forðast þær, svo sem raunar hefur verið gert á yfirstandandi ári. Verði því útgjöld ríkissjóðs aukin umfram það, sem till. fjvn. gera ráð fyrir, er næstum algerlega öruggt, að um greiðsluhalla verður að ræða á næsta ári.

Samkvæmt tillögum fjvn. hækka útgjöld frá fjárlfrv. um 34184944 kr., og samkvæmt till. meiri hl. n. hækka tekjuliðir frv. um 35.8 millj. Verður þá greiðsluafgangur á frv. samtals 2431797 kr.

Nokkur erindi bíða enn óafgreidd hjá n. til 3. umr. auk endurskoðunar á 18. gr. frv., sem að venju biður 3. umr. Till. um styrki til flóabáta og vöruflutninga munu gerðar af samvinnunefnd samgöngumála.

Herra forseti. Ég hef þá rætt þau atriði í sambandi við athugun fjvn. á fjárlfrv., sem ég tel mestu máli skipta. Tillögur meiri hl. n. byggjast í grundvallaratriðum á því, að auðið sé að afgreiða greiðsluhallalaus fjárl., en greiðsluhallalaus ríkisbúskapur er ein af þeim óhjákvæmilegu forsendum þessar efnahagslegu viðreisnar þjóðfélagsins, sem nú er unnið að.

Ég vænti þess, að þrátt fyrir ágreining um einstök atriði séu allir hv. þm. sammála um mikilvægi þess að hafa greiðsluhallalausan ríkisbúskap og afstaða þeirra til .afgreiðslu fjárl. nú miðist við það. Því miður er ekki auðið að fella niður neinn af núverandi tekjustofnum ríkissjóðs, ef auðið á að vera að hafa hallalausan ríkisbúskap á næsta ári, en að sjálfsögðu ber að stefna að því að framkvæma tollalækkanir, strax og fjárhagsafkoma ríkissjóðs leyfir.