07.12.1960
Sameinað þing: 22. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 162 í B-deild Alþingistíðinda. (190)

1. mál, fjárlög 1961

Frsm. 1. minni hl. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Eins og hv. form. fjvn. tók fram, þá skildi leiðir í n., þegar kom að því að afgr. málið til 2. umr. Svo mun og vera venja um störf fjvn., og er ekki nema eðlilegt, að svo sé. Ástæðan til þess, að fjvn. klofnar um afstöðu til fjárlagafrv., er ekki sú, að störf n. sem slíkrar gangi með vandræðum, meðan þar er starfað saman. Nm. hafa yfirleitt þann hátt á að geyma deiluatriði sín, þangað til kemur út í þingsalina, og gera þar grein fyrir mismunandi skoðunum. Mér er það því ljúft að endurgjalda formanni þakklæti fyrir störf í n. svo og öllum öðrum nm. fyrir hönd okkar framsóknarmanna.

Eins og venja er til, gerði frsm. meiri hl. grein fyrir þeim till., sem talið er að n. standi sameiginlega að. Þessar till. eru, eins og venja er til, flestar bornar fram af meiri hl., ýmist erum við þeim fylgjandi eða látum þær afskiptalausar, þó að við höfum líka óbundnar hendur um að vera í andstöðu við sumar þeirra. Þannig er aðild okkar einnig að þeim till., sem frsm. meiri hl. hefur gert grein fyrir nú. Sumar þessar till. eru þó okkar till. ekki síður en hinna. Vil ég geta þess í sambandi við till. um skólamálin, að það eru sameiginlegar till. Það var aðeins einn skóli, sem við höfðum óbundnar hendur um afgreiðslu á hér í þinginu. Það var Eiðaskólinn. Ekki var það vegna þess, að ekki væri vilji í n. fyrir að leysa hans mál líka, en möguleikar voru ekki, og eru því nm. í minni hl. óbundnir af afgreiðslu þess máls.

Ýmsar fleiri till. eru hér nefndar, sem meiri hl. gerði grein fyrir, sem eru einnig okkar till.

Í fyrra gerðum við tilraun til þess að fá hækkað framlag til nýbyggingar Landsspítalans. Við gerðum þá einnig till. um að fá fjárveitingu til ræktunarvélanna og fleiri till. án árangurs. Nú hefur n. öll tekið þessar till. upp, og ber að fagna því, að svo skuli vera. Að vísu er þar að sumu leyti of skammt gengið, en viðleitnin er það, sem metið verður í þessu sambandi.

Um þær till. aðrar, sem á þessu þskj. eru, ætla ég ekki sérstaklega að ræða, heldur vitna til þeirrar grg., sem við höfum gert fyrir afstöðu okkar til þeirra.

Það vakti athygli mína nú um síðustu helgi, að Morgunblaðið minntist þess einu sinni enn með nokkrum söknuði, að tvö ár væru þá liðin frá því, að hin ágæta ríkisstj. fór frá völdum, vinstri stjórnin. Það er í sjálfu sér ekki nýtt að heyra úr herbúðum þeirra sjálfstæðismanna mikið talað um það, að slík stjórn skyldi hætta að starfa hér á Íslandi, og ef maður fer að skoða þetta betur, þá er hægt að lesa á milli lína mikinn söknuð yfir því, að þessi ágæta stjórn skyldi þurfa að hætta sínu starfi. Svo gengur þetta langt, er þeir Morgunblaðsmenn minnast vinstri stjórnarinnar, að þeir gleyma alveg sínum eigin afrekum, og er það lengra gengið en venja er í stjórnmálunum yfirleitt.

Í sambandi við þetta er rétt að minnast á það, hvernig stjórnarandstaðan starfaði á þeim árum, sem þessi stjórn sat í landinu. Við heyrum stundum talað um það nú, að hér sé óábyrg stjórnarandstaða. En hvernig var nú stjórnarandstaðan þá, og hvernig er hún nú? Ég mun síðar koma að stjórnarandstöðunni nú. En ég vil minna á það, að 1958 voru gerðar hér ráðstafanir í efnahagsmálum þjóðarinnar. Þær voru gerðar af knýjandi nauðsyn, og þær voru gerðar til þess að leysa málefni þjóðarinnar á farsælan hátt. Það er hægt að leiða rök að því, að ef þær aðgerðir hefðu fengið að njóta sín, þá hefðu þær orðið þjóðinni til mikillar gæfu. En þá var það stjórnarandstaðan á Íslandi, sem vildi ekki una þeim aðgerðum, heldur gekk þá mjög fram í því að reyna að eyða þeim og fékk til þess stuðning frá nokkrum hluta stjórnarliðsins.

Þetta vildi ég minna á nú í sambandi við þessar hugleiðingar Morgunblaðsins og söknuðinn yfir vinstri stjórninni, þ.e.a.s. falli hennar.

Þá er líka rétt að athuga það, hvenær ríkisstj. á að hætta að starfa. Auðvitað verður hún að hætta að starfa, ef hún hefur ekki þingfylgi. En hún á líka að hætta að starfa, leggja niður völd sín, ef hún gerir sér það sjálf ljóst, að hún getur ekki leyst þau verkefni, sem hún ætlaði að leysa. Þjóðarinnar vegna á hún þá að leggja niður völd til þess að gefa öðrum kost á að leysa þau mál, sem hún ætlaði sér að leysa, en tókst ekki.

En hvernig stendur nú á því, að það er alltaf að skjóta upp þessum sorgartón yfir fráfalli vinstri stjórnarinnar? Þegar við lítum á fjárl: frv. það, sem nú er til afgreiðslu, þá er ástæðan skýrð. Frá því að vinstri stjórnin fór frá fyrir tveim árum, hafa fjárl. hækkað um 700 millj. kr., ef tekin er niðurstaða þess fjárlfrv., sem hér er til 2. umr. Því var þó haldið fram, þegar fjárl. ársins 1958 voru lögð fyrir, að fjárl. væru þá orðin uggvænleg vegna þess, hve þau væru há. Síðan hafa þau hækkað yfir 80%, um 700 millj, kr. Það er ekki undarlegt, þó að það kenni víða saknaðar, þegar þess er minnzt, að einmitt fráfall vinstri stjórnarinnar er tildrögin til þess, að þróun fjármálanna hefur orðið svo óheillavænleg sem raun ber vitni um.

Í sambandi við fjármál vinstri stjórnarinnar og þeirra ríkisstj., sem voru hér á undan þeirri valdasamsteypu, sem nú fer með völdin í landinu, og í tilefni af því, sem hv. form. fjvn. drap hér á í upphafi máls síns, þá vil ég minna á það, að á árunum 1950–58, þau ár, þegar fjmrh. var úr hópi Framsfl., lækkuðu skuldir ríkissjóðs um yfir 76 millj, kr., að frádregnum sjóðum. Greiðsluafgangur þeirra ára var nettó 239 millj. kr. Honum var ekki eytt, eins og form. fjvn. gat um áðan. 133 millj. var úthlutað hér á Alþingi til nytsamra verka í landinu. Þar fengu sjóðir Búnaðarbankans til uppbyggingar í landbúnaði 52 millj. Þar fengu húsnæðismál, fiskveiðasjóður og verkamannabústaðasjóður og fleiri slíkar stofnanir í kaupstöðunum aðrar 52 millj., bjargráðasjóður 10 millj. og ýmsar framkvæmdir, svo sem hafnarframkvæmdir, skólaframkvæmdir og slíkar, til þeirra var varið 18 millj. kr. Greiðsluafganginum 1958 var hins vegar varið í rekstrargjöld ríkissjóðs, eins og kunnugt er í sambandi við fjárlagaafgreiðslu og fjármálastjórn 1959. Eignaaukning ríkissjóðs mun hafa verið þetta tímabil um 1000 millj. kr. Beinir skattar voru stórlækkaðir frá því, sem þeir voru, þegar fjármálaráðherra Sjálfstfl. fór með þá, en svo vill til, að flestar skattahækkanir í þessu landi eru frá þeim tíma, þegar Sjálfstfl. átti fjmrh. Einmitt voru það skattarnir af lágtekjunum, sem fyrst voru lækkaðir, og það, sem mest er um vert um þetta tímabil, er það, að afkoma þjóðarinnar í heild batnaði jafnt og þétt eins og afkoma ríkissjóðs. Það hélzt í hendur, og það er hið ánægjulegasta við þetta tímabil. Það er því ekki að undra, þó að enn þá heyrist harmagrátur jafnvel í hinum mestu andstæðingum vinstri stjórnarinnar yfir falli hennar, enda hefur sýnt sig, hvað það hefur kostað þjóðina.

Þennan inngang mun ég láta nægja um fjármál þjóðarinnar almennt á fyrri árum, en snúa mér að því að ræða þau viðfangsefni, sem nú er við að etja, og þá ætla ég að víkja fyrst að fjárlögum þeim, er nú eru í gildi, fjárl. fyrir árið 1960.

Eins og fram kom í ræðu hv. form., er nokkuð óljóst enn þá, hver afkoma ríkissjóðs kann að verða á þessu ári, enda er það ekki nema eðlilegt, þar sem það er ekki enn liðið. Þegar tekjuáætlun var hér til umr. fyrir fjárlög 1960, þá gerðum við ráð fyrir því, framsóknarmenn, að afkoma ríkissjóðs á þessu ári yrði verulega góð, og það var líka skoðun stjórnarsinna, að þannig mundi verða. Hins vegar var um það deilt, hvort ætti með afgreiðslu fjárlaga að ákveða, hvernig nota skyldi þann væntanlega greiðsluafgang, sem reiknað var með, eða geyma sér það þar til síðar og hann að vera í umsjá ríkisstj.

Ástæðan til þess, að við álítum, að greiðsluafgangur hlyti að verða verulegur á þessu ári, var í fyrsta lagi sú, að vitað var, að innflutningur í janúar og marzmánuði var geysilega mikill, meiri en venja hafði verið. Okkur taldist því til, að samdrátturinn yrði óeðlilega mikill seinni hluta ársins og meiri en hægt væri með nokkru skynsamlegu móti að gera ráð fyrir, ef tekjuáætlun ríkissjóðs ætti ekki að skila afgangi. Þá var á það bent, að gert væri ráð fyrir því, að meira frelsi yrði gefið í viðskiptum þjóðarinnar en áður. Ef þessi staðreynd hafði við rök að styðjast, hlaut hún einnig að leiða til þess, ef ekki kæmi annað til, að viðskiptin yrðu örari og meiri. Í öllum umr. stjórnarsinna um kjaramálin var því haldið fram, að kjaraskerðingin mundi ekki fara fram úr 3%. Ef þetta fékk staðizt, var vitanlegt, að það var óhugsandi, að innflutningurinn drægist saman um 20%, jafnhliða því sem meira frjálsræði væri gefið í viðskiptunum. Þessu til viðbótar vil ég geta þess, að í ræðu, sem hæstv. fjmrh. flutti í útvarpið í vor í sambandi við eldhúsdagsumræður, benti hann á það, að staða ríkissjóðs hjá Seðlabankanum væri þá betri en verið hafði áður, svo að tugum milljóna nam. Það sýndi, að hann gerði sér einnig vonir um að fá góða afkomu hjá ríkissjóði á þessu ári. Nú skal ég að vísu ekkert um það segja, hvort niðurstaðan verður önnur en reiknað var með, en það er farið að tala um það, að jafnvel geti orðið halli eða a.m.k. minni tekjur hjá ríkissjóði en gert var ráð fyrir. Það sýnir því, ef svo verður, að samdrátturinn er fyrr á ferð og getuleysið meir ráðandi en jafnvel við gerðum ráð fyrir.

Um tekjuáætlun fjárlaganna fyrir árið 1961 er það fyrst að segja, að þar er í fullum blóma bráðabirgðasöluskatturinn, sem varð hér til á útmánuðum í fyrravetur. Eins og hv. þm. rekur minni til, var það sérstaklega tekið fram í grg. fyrir fjárlagafrv. árið 1960, að ekki væri gert ráð fyrir því að hækka söluskatt í innflutningi. Það þótti vissara, til þess að menn væru ekki í vafa, að taka þetta nú alveg af og sverja nú algerlega fyrir það. Þegar kom fram á góu, birtist frv. um söluskattinn, og þá var hann meira en tvöfaldaður. Þá var tekið fram, að þessi skattur ætti alls ekki að gilda nema árið 1960, og til þess að taka af öll tvímæli, var ákveðið, að hann skyldi heita bráðabirgðasöluskattur. Nú er hins vegar ekki talað um það í grg. fjárlagafrv., hvað tilvera hans er hugsuð langt fram í tímann. Að vísu er ekki farið að birtast hér á hv. Alþingi enn þá frv. um framlengingu hans, en gera má ráð fyrir, að það skjóti upp kollinum á jólaföstunni, svo að ríkissjóður njóti tekna hans, þó að áramótin komi.

Í sambandi við tekjuskattinn vil ég segja það, að eins og formaður lýsti í ræðu sinni áðan, munu tekjur hans reynast meiri á yfirstandandi ári en gert var ráð fyrir. Nú hefur það heyrzt hér meðal þm., að gert sé ráð fyrir, að breyting verði á lögunum um tekjuskatt á þessu ári. Ekki veít ég, hvað sú breyting kann að hafa í för með sér, en á það var bent af ráðuneytisstjóranum í efnahagsmrn. í fjvn., að meiri óvíssa væri um tekjur af þessum skatti í ár en verið hefði, m.a. vegna þess, að meiri hluti hans væri nú á félögum, en afkoma fyrirtækja mundi ekki vera góð á þessu ári. Og það verður að segjast eins og er, að þessi ábending hefur við nokkur rök að styðjast. Þegar fjvn. fór að gera sér grein fyrir tekjuáætlun 1961, þurfti hún auðvitað að leita gagna til þess að geta byggt þessa áætlun sína á, og hún fór að spyrjast fyrir um það, hvernig áætlunin á fjárlagafrv. væri upphaflega gerð, og fékk svo vitneskju um það, að endurskoðuð tekjuáætlun mundi birtast nefndinni. Og það gerðist, hún birtist, og ráðuneytisstjórinn í efnahagmrn. gerði grein fyrir henni. Ekki var talið, að gert væri ráð fyrir því að þessu sinni að gera neina innflutningsáætlun, sundurgreinda eftir vöruflokkum. Þess háttar undirbúningur hefur þó verið gerður undanfarin ár, en ráðuneytisstjórinn taldi, að það mundi ekki verða gert að þessu sinni: Áætlunin, sem tekjurnar eru byggðar á, er innflutningur upp á 2.4 milljarða, og gert er ráð fyrir því, að samsetningurinn verði svipaður og hann er á yfirstandandi ári. Þó er það tekið fram í grg. ráðuneytisstjórans, að það sé fullmikil bjartsýni að gera ráð fyrir því, að svo verði, að fyrir ríkissjóð verði samsetningur innflutningsins eins hagstæður og hann er á þessu ári.

Engin áætlun lá fyrir fjvn. um gjaldeyristekjur á næsta ári. Það var heldur engin áætlun um notkun erlends lánsfjár. Það var ekki talin þörf að sýna nú. Hins vegar var nefndin upplýst um það, að tekjur af Keflavíkurflugvelli hefðu farið vaxandi á yfirstandandi ári og mætti gera ráð fyrir því, að sú búbót héldist.

Það, sem mér kemur á óvart í nál. meiri hl., er það, þegar talað er um ýtarlegar gjaldeyrisáætlanir, sem legið hafi fyrir og meiri hlutinn hafi getað ákveðið sig eftir í sambandi við sína tekjuáætlun. Mér er ekki kunnugt um, að þessi ýtarlega áætlun hafi legið fyrir nefndinni. Það lá fyrir, sem ég hef lýst, og ég hef ekki trú á því, að formaður hafi leynt okkur nefndarmenn því, ef hann hefði fengið ýtarlega grg. frá ráðuneytinu. Ég lít hins vegar svo á, að hér sé verið að reyna að berja í brestina vegna þess, hvað þær áætlanir, sem ráðuneytið lét n. í té, voru ófullkomnar.

Um áætlanir, sem við höfðum við að styðjast í fjvn. um tekjur ársins 1961, mætti í stuttu máli orða á þessa leið, að grg. þeirra hefði verið svona:

Tekjuáætlunin er byggð á sennilegum innflutningi og rekstri ríkisstofnana á yfirstandandi ári, sem líklega breytist annaðhvort til hins betra eða verra. Gert er ráð fyrir meiri samdrætti, þ.e. minni neyzlu, á næsta ári. Gert er ráð fyrir, að samsetningur innflutningsins verði þannig, að hann gefi ríkissjóði sömu tekjur og þetta ár. Alvarlegt er þó að treysta því.

Ef grg., sem svona er úr garði gerð, er ýtarleg, þá verð ég að segja það, að hér er fyndni uppi í meira lagi, og ber að virða það, þegar menn hafa hana til að bera, þegar annað skortir.

Þessu til viðbótar má þó geta þess, að tekjuáætlunin var gefin út í þremur mismunandi útgáfum: Í fyrsta lagi í fjárlagafrv. Í öðru lagi endurskoðuð áætlunin, sem ráðuneytisstjórinn lagði fyrir nefndina 24. nóv. Þessar áætlanir eru að vísu ekki mjög frábrugðnar, þar sem heildarniðurstaðan er hér um bil sú sama, en einstaka liðir tekjuáætlunarinnar eru þó nokkuð breytilegir. Í þriðja lagi er svo sú áætlun, sem meiri hl. fjvn. gerir viku seinna og er 30–36 millj. kr. hærri en ráðuneytisstjórinn taldi að nokkur tök væru að teygja tekjuáætlunina.

Ef það er rétt, að tekjuáætlunin 1960 muni ekki standast, og þó hefur það sýnt sig, að innflutningurinn á því ári mun verða meiri en gert er ráð fyrir að innflutningurinn verði á árinu 1961, þar við bætist svo, að gert er ráð fyrir, að samsetningurinn verði óhagstæðari til ríkistekna á næsta ári en hann er á yfirstandandi ári, þá fæ ég ekki skilið, að það sé hægt að hækka tekjuáætlunina um rúmlega 100 millj. kr., eins og gert er. Þess vegna sýnist mér, að tekjuáætlun fjárlaganna muni vera nokkuð laus í reipunum og hæpið, að allir þeir baggar, er þar eru bundnir, komi í garð.

Það, sem vekur svo athygli í sambandi við tekjuáætlunina, er það, að gert er ráð fyrir enn þá meiri samdrætti. Og þá er ástæða til að spyrja: Má gera ráð fyrir því, að samdráttur aukist á næsta ári, getuleysi fólksins verði meira en er á þessu ári? Þar koma þær skýringar, að fram eftir öllu þessu ári og jafnvel enn þá hefur fólkið í landinu búið við vöruverð að nokkru leyti, sem var hér ríkjandi, áður en viðreisninni var komið á. Það má því gera ráð fyrir meiri kjaraskerðingu hjá almenningi í landinu á næsta ári vegna þessa, sem ég hef nú skýrt. Enn fremur er nú þegar að byrja að bera á því, að samdráttur er að verða í atvinnulífinu.

Í byggingariðnaðinum er nú farið að bera á atvinnuleysi, og jafnvel víðar er það farið að stinga upp kollinum. Stjórnarliðar hafa þó til þessa lagt á það ríka áherzlu, að ekki væri nú komið atvinnuleysi, svo að ekki hefði sá spádómur rætzt enn þá. En það er nú ekki langt síðan viðreisnin fór að hafa áhrif hér á landi og þessi þáttur einnig að segja til sín. Það má gera ráð fyrir því einmitt á næsta ári, eins og formaður gat um, að tekjuáætlunin sé spennt til hins ýtrasta, ef þær niðurstöður af árinu í ár eru líklegar, sem nú þykja einna líklegastar.

Þetta mun ég láta nægja um tekjuhlið frv. og snúa mér þá að gjaldahliðinni.

Þegar komið er að gjaldahlið þessa fjárlagafrv., rekur mann minni til þess, þegar fjárlagaræða fyrir 1960 var flutt hér á hv. Alþingi. Þá tilkynnti hæstv. fjmrh. nokkra sparnaðarliði, sem hann mundi beita sér fyrir og ríkisstj, að koma í framkvæmd. Hann gat þess þá, hæstv. ráðh., að vegna þess, hve stutt væri nú síðan hann settist í valdastólinn, hefði ekki tími unnizt til að koma sparnaði við, en áður en næstu fjárlög yrðu afgreidd, mundi sparnaðurinn verða sýnilegur. Og í áliti meiri hl. fjvn. var mjög að þessu vikið og talað um að taka þessi mál föstum og raunhæfum tökum, svo að sparnaðarráðstafanirnar yrðu raunhæfar á næsta fjárlagafrv. Og meiri hl. fjvn. hét því að styðja ráðh. vel og drengilega í sparnaðarfyrirætlununum. Það var því ekki laust við, að bæði ég og aðrir biðum þess með nokkurri eftirvæntingu að sjá fjárlagafrv. fyrir árið 1981, þar sem heildarendurskoðun á öllu útgjaldabákni ríkisins hafði farið fram með sparnað fyrir augum. En hvað skeður? Fjárlagafrv., sem við erum með til afgreiðslu hér í dag, er upp á 1588 millj. kr., það er um 87 millj. hærra en fjárlög yfirstandandi árs, og höfðu þau þó tekið verulegan kipp, svo sem kunnugt er. Þessu til viðbótar vil ég svo geta þess, að það er ekki vegna þess, að framlög til uppbyggingarinnar í landinu hafi verið aukin, nema síður sé, og það var auðfundið á ræðu hv. formanns hér áðan, að hann fann sárt til þess, að í fjárl., sem eru jafnhá og þessi, skuli ekki vera meira rúm handa uppbyggingunni í landinu en raun ber vitni um. Stephan G. talar um að „alheimta ei daglaun að kvöldum, því svo lengist mannsævin mest“. Fjárlög íslenzka ríkisins eru við það miðuð að éta allt upp að kvöldum. Sú stefna hefði ekki verið heilladrjúg, ef henni hefði verið fylgt fram til þessa.

Þá vil ég næst víkja að því, hvort það hafi verið ástæða til, að fjárlög hækkuðu nú. Ég hef getið um sparnaðaráhugann, sem lýsti sér, þegar fjárlög voru lögð fyrir 1960, og átti að koma í framkvæmd við fjárlagaafgreiðslu 1961. En þessu til viðbótar vil ég leiða nokkur fleiri atriði fram, sem eru sönnun þess, að það var ekki ástæða til þess, að fjárlög hækkuðu nú. Þegar fjárlög fyrir árið 1960 voru undirbúin, var komið fram í janúarmánuð 1960, þess vegna er nú skemmra á milli en venja er til um fjár. lagaafgreiðslu. Það hefur líka komið fram við fjárlagaafgreiðsluna nú, að þau fjárlög voru undirbúin með þeim hætti, að gert var ráð fyrir því, að gengisfallið hefði staðið frá upphafi ársins. Þess vegna voru rekstrarliðir fjárlaganna hærri en var reiknað með að þeir komi til með að verða á þessu árl. Eins og kom fram í ræðu hæstv. fjmrh. við 1. umr. fjárlaga nú, gerði hann ráð fyrir því, að rekstrarútgjöld væru viða lægri en reiknað væri með á fjárlögum, og taldi það nýtt í sögunni. Það er ekki af því, að betur hafi verið á þeim málum haldið nú, heldur af hinu, að það var reiknað með hærri rekstrarútgjöldum en ætlazt var til að þau yrðu. Af þessari ástæðu áttu fjárlög þessa árs ekki að hækka, þar sem búið var að gera ráð fyrir áhrifum gengisbreytingarinnar að mestu. Þegar það er svo haft í huga, að fjárlög ársins 1960 hækkuðu hvorki meira né minna en um 356 millj. kr., þegar gerður er sambærilegur samanburður á þeim og næstu fjárlögum á undan, þá var nokkur ástæða til að álíta, að nú yrði spyrnt við fótum og menn færu sér hægt í að hækka fjárlög í næstu lotu. Svo kemur þar ofan á, að yfir var lýst, að fjárlögin yrðu tekin til heildarendurskoðunar með sparnað fyrir augum. Það var því ekki að undra, þó að mörgum hnykkti við, þegar fjárlagafrv. kom með 50 millj. kr. hækkun og nú við 2. umr. með 80–90 millj. kr. hækkun, eins og er líklegt að það verði, þegar það verður afgreitt hér á hv. Alþingi.

Þá munu menn spyrja: En hvernig var með sparnaðargreinarnar 10? Gera þær ekki sitt til þess að draga úr þessum háu fjárlögum? Og nú ber að virða það, sem vel er gert, og þá einnig að athuga tilraunina, sem gerð er á sparnaðargreinunum 10. Hæstv. fjmrh. gerði grein fyrir þessum 10 greinum sérstaklega í fjárlagaræðu sinni á mjög myndarlegan og skemmtilegan hátt, eins og hans var von og vísa. (Forseti: Má ég biðja ræðumann að gera hlé á máli sínu?) Sjálfsagt. — (Fundarhlé.]

Herra forseti. Ég var þar kominn í ræðu minni, er fundarhlé var gert, að víkja að sparnaðartillögunum tíu, er hæstv. fjmrh. lýsti í fjárlagaræðunni í haust.

Er þar fyrst sparnaður á „æðstu stjórn landsins“, og hefur engin breyting orðið á því.

Þá er gert ráð fyrir, að vaxtalækkun verði hjá ríkissjóði, 96 þús. kr. Í nál. okkar er gerð grein fyrir því og ég gerði það fyrr í ræðu minni, að þegar Eysteinn Jónsson, hv. 1. þm. Austf., fór með fjármál ríkisins, lækkuðu skuldir ríkissjóðs verulega, og vaxtalækkun er eðlilegt framhald af því, en er hins vegar ekki neitt afrek hjá núverandi valdhöfum.

Þá er gert ráð fyrir, að alþingiskostnaður lækki um eina millj. kr., og segir í grg. frv., að gert sé ráð fyrir styttra þinghaldi. Um alþingiskostnað er það að segja, að hann er jafnan áætlaður, því að ekki er vitað, hver hann kann að verða, og er það greitt, sem hann kostar, hvort sem það er mikið eða lítið. Störf Alþingis metur þjóðin ekki eftir kostnaði, heldur eftir þýðingu þeirra mála, er þaðan eru afgr., fyrir þjóðina. Þetta Alþingi, sem nú situr, hefur verið aðgerðalítið, svo sem kunnugt er. Það mun nú vera búið að afgreiða tvö lagafrv, og eina þáltill. auk nokkurra fyrirspurna. Ríkisstj. hefur ekki gert mikið að því að leggja mál fyrir hér á hv. Alþingi, en hins vegar hafa stjórnarliðar setið á þeim málum, er við í stjórnarandstöðunni höfum flutt, og eru mál okkar nú öll í nefndum. Á fyrstu dögum þingsins var vísað til fjhn. frv. um vaxtalækkunina, sem hefur ekki fengizt afgr. þaðan, og svo er um fleiri mál, að þau eru yfirleitt í meðferð þingnefnda, án þess að nokkuð sé hugsað um að koma þeim áfram til afgreiðslu. Ef þannig er á þingmálum haldið og þinghaldið jafnforustulaust og það er hjá núv. hæstv: ríkisstj., þá má segja með réttu, að það sé ekki þörf á því, að Alþingi starfi lengi. En fyrir íslenzku þjóðina skiptir það mestu máli, eins og ég tók fram áðan, að málefnin, sem það afgreiðir, séu henni giftudrjúg, og það mun hún meta að verðleikum. Eins og forustu Alþingis hefur verið háttað hjá hæstv. ríkisstj., það sem af er þessu þingi, þá mun a.m.k. ekki vegur þess vaxa. Hvort milljónin sparist, það skal ég ekkert um segja.

Þá kem ég þar næst að stjórnarráðinu og utanríkisþjónustunni. Hæstv. fjmrh. lýsti því hér í fyrra, og að vísu hafði fyrirrennari hans í fjmrh: embættinu lýst því við fjárlagaafgreiðslu 1959, að í utanríkisþjónustunni mætti mikið spara, og var vikið að því í nál. og framsögu meiri hl. fjvn. á síðasta þingi. Það átti í heildarendurskoðuninni, sem fjárl. áttu að fara í gegnum hjá hæstv. ríkisstjórn, sérstaklega að skoða þetta atriði. Og nú sjáum við árangurinn af því við fjárlagaafgreiðsluna hér í dag. Sú breyting, sem hefur verið gerð á utanríkisþjónustunni, er að annað sendiherraembættið í París er lagt niður: Við þetta sparast laun sendiherrans eða réttara sagt staðaruppbótin, sem honum var greidd þar, því að einn sendiherra er tekinn til starfa í utanrrn., svo að launagreiðslur falla ekki niður. En það, sem gerist hins vegar, er það, að kostnaður við önnur sendiráð og utanríkisþjónustuna hækkar meira en þessum sparnaði nemur, svo að til utanríkisþjónustunnar er hærri fjárveiting nú við 2. umr. þessara fjárl. en var á fjárl. yfirstandandi árs. T.d. hækka launagreiðslur við sendiráðið í Kaupmannahöfn yfir 300 þús. kr.

Á Alþingi í fyrra lögðum við Framsóknarflokksmenn fram till, til þál. um endurskoðun á utanríkisþjónustunni. Í þeirri till. var gert ráð fyrir því að endurskoða löggjöfina um utanríkisþjónustuna með það fyrir augum að gera hana ódýrari en raun ber vitni um. Þessi till. var ekki útrædd hér á þinginu, en komin var fram till. frá stjórnarliðinu um að vísa henni til hæstv. ríkisstj. og þá gert ráð fyrir því, að hún hefði þessi mál til sérstakrar athugunar.

Í einni ábendingunni, sem núv. meiri hl. fjvn. gaf ríkisstj. til sparnaðar, er bent á það, að meira megi að gera í utanríkisþjónustunni til sparnaðar, og í tillögum okkar framsóknarmanna er lagt til að gera á þessu nokkrar breytingar, og er það eðlilegt framhald af því, sem við höfum áður gert, bæði með því að flytja þáltill. í fyrra, og einnig kom það fram í framsöguræðu frá okkar hendi við afgreiðslu fjárlaga þá, að stefna bæri að því að hafa eitt sendiráð á Norðurlöndum, og ég hygg, að það sé mál manna, að sú stefna nái fram að ganga á Alþingi, þótt siðar verði.

Nú munu þeir stjórnarliðar e.t.v. halda því fram, að þetta mál sé ekki nógu vel undirbúið til þess, að af því geti orðið sparnaður úr þessu á næsta ári. En þá er því til að svara, að þeir hafa tvö undanfarin ár rætt um það að vinna að samdrætti í utanríkisþjónustunni og m.a. drepið á það að sameina sendiráð á Norðurlöndum.

Sparnaðurinn, sem við gerum ráð fyrir að verði af þessu í ár, er ekki meiri en svo, að það má reikna með því, að hann geti orðið, þótt málið sé ekki meira undirbúið en enn er, þar sem gert er ráð fyrir, að launaliðirnir haldi sér, en annar kostnaður verði til sex mánaða. Okkar till. er um það, að eitt sendiráð verði og ríkisstj. ákveði staðsetningu þess. Frekari aðgerðir og athugun á utanríkisþjónustunni á að gera, eins og við lögðum til með þáltill. í fyrra, og í því sambandi getur það líka komið til athugunar, hvort einhvers staðar á ekki að taka upp ný sendiráð vegna hagsmuna okkar. Við eigum að miða utanríkisþjónustuna við hagsmuni okkar, en ekki við það form, sem við féllum í, þegar við tókum þessi mál í upphafi og var þá miðað við þau kynni, sem við höfðum haft af þjóðunum áður.

Lítils háttar lækkun er á greininni í heild til stjórnarráðsins og utanríkisþjónustunnar. Greinin er um 42 millj. samtals, en lækkunin er nú við 2. umr. 230 þús., og er það nánast tilviljun, þar sem gert er ráð fyrir, að „annar kostnaður“ ráðuneytanna lækki, og getur vel verið, að svo fari, þótt engin vissa sé fyrir því.

Við leggjum einnig til í okkar tillögum, að dregið verði úr sendiferðum og utanförum, svo að kostnaður við utanríkisþjónustuna á þeim lið lækki líka.

Fimmta sparnaðartillagan, sem hæstv. ráðh. talaði um við 1. umr. fjárl. í haust, voru skattanefndirnar, sem eru mikill þyrnir í hans augum. Eins og kunnugt er, hafa undir- og yfirskattanefndir farið með skattamál úti um landið, en skattstofur aðeins verið á hinum stærri stöðum. Tala þessara skattanefnda er, eins og að líkum lætur, nokkuð há, þar sem ein skattanefnd er í hverjum hreppi, og er hér um að ræða 219 nefndir með 657 mönnum. En ef á það er litið, hver kostnaðurinn af þessum skattanefndum hefur verið, þá er það svo, að yfir- og undirskattanefndir kostuðu samkvæmt yfirstandandi fjárl. 2.1 millj. kr., en skattstofurnar 6 millj. Það mun þó hafa verið reyndin, að frekar hafi kostnaður við skattstofur orðið meiri en áætlað hafi verið, en öfugt með skattanefndirnar. Hæstv. ráðh. tilkynnti, að hann mundi leggja til breytingu á þessum málum og væri þar miðað við sparnað. Nú er allt í óvissu um það, hvernig framkvæmdin kann að verða, þar sem ekkert frv. liggur fyrir hér á hv. Alþingi um breytingu á meðferð skattamála, eins og boðað hefur verið. Heyrzt hefur, að hugmyndin sé að láta bæjar- og sveitarsjóði annast kostnaðinn af framtölum, og er það út af fyrir sig ekki sparnaður, þó að gjaldaliðir séu færðir yfir til annarra aðila og látnir auka þeirra útgjöld, en þannig mundi það verða, ef þessi breyting yrði á gerð. Það er ekki heldur séð, hvað væntanlegar skattstofur kunna að kosta, en eins og áður er fram tekið, hafa störf skattanefndarmanna aldrei orðið ríkissjóði dýr. Hins vegar er hér um nokkuð háa tölu nefnda að ræða, og ef hæstv. fjmrh. hefði sérstakan áhuga fyrir því að geta sagt, að hann hefði lagt niður margar nefndir, þá er þarna æskilegt verk að vinna frá hans bæjardyrum séð. En lítil áhrif mundi það hafa til þess að draga úr kostnaði hjá ríkissjóði, þó að þetta yrði framkvæmt.

Sá sparnaður, sem áætlaður er af þessari breytingu, er að mestu leyti étinn upp á greininni, því að hún lækkar aðeins um 270 þús. frá því, sem hún er á gildandi fjárl.

Sjötta sparnaðartillagan var á samgöngumálum. Þar hafði hæstv. ráðh. hugsað sér að spara allverulega. Sparnaður hans átti að vera fólginn í því að lækka til Skipaútgerðar ríkisins um 5 millj. kr. frá því, sem framlag til hennar var í fyrra. Að vísu var þetta ekki nema 3,3 millj. kr. sparnaður fyrir þessi fjárl., þar sem forstjóri Skipaútgerðarinnar hafði gert ráð fyrir minni halla en yfirstandandi ár, þar sem á þessu ári er óvenjumikill kostnaður hjá Skipaútgerðinni vegna flokkunarviðgerða á skipunum.

Á s.l. sumri fékk hæstv. ríkisstj. hingað norskan sérfræðing, sem dvaldist hér í 10–14 daga, og samdi hann áætlun um strandferðir við Ísland. M.a. er í till. þessa sérfræðings lagt til að selja Esjuna eða að öðrum kosti að láta hana liggja í höfn, en nota hana ekki til strandferða. Taldi sérfræðingurinn, að það mundi verða ódýrara að láta skipið liggja í höfn sem varaskip heldur en að nota það til strandferða. Var þá gert ráð fyrir, að Hekla ein annaðist hringferðir í kringum landið, og reiknað með, að hún yrði í fimm daga í ferðinni með því að lesta og losa. Mun það álit sjómanna, að ekki hafi verið reiknað með því, að vetrarveður yrði henni til tafar. Það vakti eftirtekt í þessum tillögum, að Heklan átti aðeins að koma við á þrem höfnum frá Reykjavík austur um land til Akureyrar. Hins vegar voru litlar breytingar gerðar á viðkomustöðum á Vestfjörðum.

Sparnaðartillögur hæstv. ráðh. munu a.m.k. að nokkru leyti eða jafnvel verulegu leyti hafa verið byggðar á tillögum þessa norska sérfræðings. Þetta álit hans mun þó ekki alls kostar hafa verið álitið æskilegt hér heima fyrir, því að önnur nefnd íslenzkra manna var þá sett í málið til þess að skoða það á nýjan leik. Að vísu hefur fjvn. ekki fengið að sjá það álit, er hún hefur skilað, en það mun þó mál manna, að tillögur norska sérfræðingsins séu að hennar dómi ekki nothæfar. Eins og málið stendur því nú, er það í sjálfheldu, en ekki reiknað með því, að hæstv. ríkisstj. hverfi að því ráði að nota tillögur norska sérfræðingsins, jafnvel þótt hún héldi sig fá þann sparnað, er ráð var fyrir gert, heldur er það von, að starfsemi útgerðarinnar verði með það eðlilegum hætti, að landslýður geti notið þeirrar þjónustu, sem hann þar hefur notið og hefur þörf fyrir. En ef svo á að verða, þá verður ekki hjá því komizt að hækka aftur þennan útgjaldalið í samræmi við það, sem forstjórinn lagði til, og gerum við, 1. minni hl., till. um, að svo verði gert.

Á þessari grein var einnig gert ráð fyrir því að fella niður framlag til Akraneshafnar, sem hún fékk á s.l. ári, aukaframlag þá. En sú fjárveiting hefur verið tekin upp á nýjan leik, því að ekki þótti álitlegt að athuguðu máli að fella hana niður, enda höfðu aðstæður hafnarinnar á engan veg breytzt til batnaðar.

Til kirkjumála er lækkað um 109 þús. kr. Framlagið til Skálholts var lækkað heldur meira en þetta, en aðrir liðir hækkuðu þá lítið eitt. Ekki hefði þótt að ástæðulausu, þó að þessi fjárhæð hefði verið notuð til þess að bæta hag kirkjubyggingasjóðs, en sá sjóður er mjög fjárvana, svo sem kunnugt er, en hefur mörg knýjandi verkefni. Hins vegar hefur það verið skoðun hæstv. ríkisstj., að ríkið munaði meira um þessa fjárhæð en fátæka söfnuði, sem mun þó ekki vera skoðun almennings í landinu.

Áttunda sparnaðartillaga hæstv. ráðh. var að lækka framlag til atvinnumála. Sú grein hefur nú hækkað aftur í meðförum fjvn., svo að hún er nú hærri en fjárl. eru.

Þeir liðir, sem hæstv. ráðh. ætlaði að spara á, voru fyrst og fremst refa- og minkaveiðar. Talaði ráðh. mjög vel fyrir þessari till. og ætlaði að spara þarna um 11/2 millj. Eins og kunnugt er, hafa þessi meindýr verið mjög skaðvæn, bæði bændum landsins og eins þeim, sem eiga veiðivötn og stunda fuglarækt. Minkurinn hefur gert hér stórkostlegt tjón, svo að Alþingi taldi, að ekki væri hægt slíku að una, og voru sett hér lög um það árið 1957, hvernig farið skyldi að því að eyða þessum meindýrum. Ekki orkar það tvímælis, að mikill árangur hefur náðst af þessum lögum, og vænta má þess, ef áfram verður haldið við eyðingarstarfið, eins og gert hefur verið, að þá muni takast að eyða þessum meinvættum og draga úr kostnaði, þegar fram liða stundir. Í sambandi við sparnaðartill. ráðh. vil ég líka benda á það, að þannig mun þessum málum hagað, að greiðsla kemur árið eftir; svo að kostnaður við að eyða þessum meindýrum á árinu 1960 verður greiddur með fjárveitingunni 1961. Ef þarna ætti að verða breyting á, yrði að byrja á því að breyta lögunum, áður en fjárveitingin er lækkuð. Þess vegna mun það einu gilda, hver fjárveitingin er áætluð í fjárl. Það verður að greiða það, sem lögin segja til og áfallið er, eins og nú er um minka- og refaveiðar á árinu 1960, sem koma til útgjalda 1961. Hér er því ekki um sparnað að ræða, heldur er aðeins verið að blekkja með því að gera of lága áætlun.

Annar liður var á þessari grein, sem lækkaður var líka, og það var liðurinn til rekstrar jarðboranna. Lækkunin frá núgildandi fjárl. var 3.6 millj. kr. Raforkumálastjóri hefur þó gert mun hærri till. um fjárveitingu á næsta ári vegna tilkomu borsins til Norðurlands. Þessi liður er, sem kunnugt er, helmingi lægri eða rúmlega það heldur en till. raforkumálastjóra um fjárveitingu. Í því sambandi er talað um að stofna sjóð, sem verði stofnaður með lántöku, og að hann verði látinn bera þann kostnað, sem ríkissjóður greiðir ekki. Þá er talað um, að þegar jarðboranirnar fari að gefa af sér tekjur síðar meir, verði þessi lán endurgreidd til sjóðsins. Ekki er neitt uppvíst um það á þessu stigi málsins, hvort möguleikar eru til þess að koma málinu fyrir á þennan veg, sem lagt er til, eða hvort hér er aðeins um áætlaða tölu að ræða til þess að gera niðurstöðutölu fjárl. lægri. En ekki mundi það vera talin góð búmennska, ef þessi tæki, sem við höfum sótzt svo mjög eftir að fá og það ekki að ástæðulausu, yrðu látin ónotuð, þegar þau eru komin.

Níunda sparnaðartill. er á 19. gr. fjárl., en sú gr. lækkaði um 500 þús. kr., og er það hald manna, að sú lækkun hafi fyrst og fremst verið gerð til þess, að sparnaðargreinarnar yrðu tíu. Í sambandi við þessa grein og það, sem segir í nál. meiri hl. og kom fram í ræðu hv. formanns, vil ég ræða nokkuð frekar um greiðslurnar vegna útflutnings á landbúnaðarvörum.

Í nál. segir frá því, að erfitt hafi verið að fá frá framleiðsluráði áætlun um þann kostnað, sem yrði af þessum útflutningi. Í sambandi við það vil ég leyfa mér að benda á, að fyrir fjvn. lá bréf frá framkvæmdastjóra framleiðsluráðs, sem er frá 26. okt. s.l. Þar skýrir hann frá því, að til útflutningsuppbóta þurfi að ætla á næsta ári 21 millj. 250 þús. kr. Þegar framleiðsluráðinu fóru að berast skýrslur um kjötmagnið frá slátruninni í haust, endurskoðaði framkvæmdastjórinn þessa áætlun sína og sendi þann 1. þ. m. inn til þingsins endurskoðaða áætlun og sýnir hún, að þörfin er 19.8 millj. kr., en áætlun fjárlfrv. 12 millj. Þegar er búið að flytja út 6/7 hluta af landbúnaðarafurðunum, sem út verða fluttar samkvæmt þessari áætlun, svo að hér er því um þekkta tölu að ræða, en ekki tölu áætlaða út í loftið, og engum vandkvæðum bundið að fá þessa tölu örugga. Svo segir í grg. og kom einnig fram hér í ræðu formanns, að ef meira yrði flutt út en formaðurinn gerir ráð fyrir, þ.e. meira en fyrir þessar 12 millj., þá mundi sparast fé á niðurgreiðslum innanlands. Það mun hins vegar ekki vera, því að það er ekki gert ráð fyrir að flytja út meira af dilkakjöti en svo, að nóg verði eftir til neyzlu hér innanlands. Það hefur einnig verið áætlað og er þekkt tala, hvað gert er ráð fyrir að verði til sölu á innlendum markaði, og er þessi áætlun um útflutningsuppbæturnar umfram það. Hér er því um það að ræða, að það, sem þarf til þess, að við þetta lagaákvæði verði staðið, eru 19.8 millj. kr., en ekki 12, eins og gert er ráð fyrir í fjárlfrv. Þetta er eins greinilegt og vera má og liggur ljóst fyrir frá hendi framleiðsluráðs. Þess vegna hefði mátt spara sér að lækka um 500 þús. á 19. gr., því að það var nokkurn veginn vitað, að 5 millj. mundu ekki nægja til útflutningsuppbóta.

Framkvæmdafé á 20. gr. er lækkað. Þar er landssíminn látinn bera uppi kostnað við uppbyggingu símakerfisins og greiðslu á afborgunum af lánum, en áður fyrr hefur á þessari gr. fjárl. honum verið lagt fé, og á yfirstandandi fjárl. eru þetta 5.5 millj. kr. Á s.l. vetri voru þjónustugjöld landssímans hækkuð svo gífurlega, að gert er nú ráð fyrir, að hann geti staðið undir þessum kostnaði.

Þá er einnig önnur sparnaðartillaga á 20. gr. fjárlfrv. Hún er á þann veg að breyta lánum vegna varðskipsins Óðins, og er talið, að ef sú breyting fæst, þá megi lækka liðinn um 3 millj. og 750 þús. kr. Ekki er skýrt frá því í greinargerð frv., hvort þetta muni takast, heldur eru það líkur, og finnst mörgum, að það sé varla ástæða til að draga úr framkvæmdafé 20. gr. frá því, sem er á yfirstandandi fjárlögum, þegar fjárlögin hækka þrátt fyrir það um 90 millj. kr. eins og þau koma til með að gera við fjárlagaafgreiðslu fyrir árið 1961.

Þegar þessar sparnaðartill. eru endurskoðaðar, skoðaðar í þeirri staðreynd, sem þær nú eru, og litið er á rekstrarliðina, þá mun sparnaðurinn eða lækkanirnar alls vera 1.8 millj. kr. Og ef betur er að gáð, þá eru flestar lækkunartillögurnar áætlaðar till., svo að mér segir nú hugur um, að það gæti farið svo, að þegar væri búið að gera dæmið upp raunverulega, þá stæðu tvær eftir, það væru vextirnir, sem lækkuðu um 96 þús., og kirkjumálin, sem lækkuðu um 109 þús. Og það má þó segja með réttu, að það munar um minna en 200 þús. kr. sparnað á fjárlögum, sem eru upp á 1600 milljónir.

Það gegnir nokkurri furðu, þegar fjárlögin eru skoðuð í ljósi staðreyndanna, að það skyldi ske við 1. umr. þeirra, að þá eyddi hæstv. fjmrh. megninu af ræðu sinni til þess að tala um sparnað. En staðreyndin er hins vegar sú, að fjárlögin hafa hækkað sem svarar 10 millj. kr. á hverjum mánuði, frá því að afgreiðslu fjárl. 1960 lauk og þar til þessi verða afgreidd. Það er því ekki undarlegt, þó að Morgunblaðið tali um, að það sé dregið úr útgjöldum, og tali svo mikið um sparnaðartill. meiri hl. fjvn., sem enga sparnaðartillögu hefur flutt. Þetta er árangurinn af heildarendurskoðuninni, þar sem „raunhæfum sparnaði“ er við komið. Meiri hlutinn fylgir svo stefnu ráðherrans og þylur í nokkrum liðum ábendingar um sparnað. En því er ekki að neita, að manni kemur til hugar, að hann telji, að það sé líklegt, að hæstv. núv. ríkisstjórn verði ekki langlíf og þess vegna geti komið til með, að aðrir framkvæmi sparnaðartill. Og verð ég að segja, að það er von þjóðarinnar, að þar muni hann reynast sannspár.

Þegar hér er komið sögu, er kannske ástæða til að athuga það nokkru nánar, hvort gjaldaliðir fjárlaganna eru ekki þannig áætlaðir, að gera megi ráð fyrir því, að þeir reynist lægri en þau reikna með, og þar muni leynast greiðsluafgangur í verulegum mæli. Nú ætla ég ekki að fara langt út í það, en ég vil þó leyfa mér að benda á nokkra útgjaldaliði, sem áætlun liggur fyrir um að þyrftu að vera hærri en fjárlfrv. gerir ráð fyrir.

Ég drap á það hér áðan, að útflutningsuppbæturnar eru vanáætlaðar um 7.8 millj. Það er tala, sem verður ekki vefengd. Ég drap líka á það, að forstjóri Skipaútgerðar ríkisins hefur bent á, að það sé ekki hægt að gera ráð fyrir því, að minni halli verði á rekstri Skipaútgerðarinnar en 13.3 millj. kr., þ.e. 3.3 millj. kr. hærri fjárhæð en fjárlfrv. gerir ráð fyrir.

Um refi og minka er það að segja, að greiða verður þann kostnað; sem áfallinn er, því að kostnaðinn 1960 á ríkið að greiða 1961 og verður að greiða hann, hvað sem áætlað er í fjárlögunum um heildarkostnaðinn. Þó að lögum yrði breytt á þessu þingi, þá er samt ekki hægt að láta þau verka aftur fyrir sig. Til þess að draga úr þessum kostnaði yrði því að byrja á lagabreytingunni, en ekki að byrja á því að áætla lágar tölur.

Jarðboranirnar eru 3.6 millj. miðað við núverandi fjárlög, en yfir 7 millj., miðað við áætlun raforkumálastjóra. Vel má vera, að hæstv. ríkisstj. takist að finna leið til þess að koma þessum málum fyrir á annan veg, en það liggur ekkert fyrir um það nú.

Þá eru í till. raforkumálastjóra 2–3 millj., sem hann telur of lágt áætlað og engar líkur eru til að verði hægt að komast fram hjá:

Landhelgisgæzluna drap ég á áðan. Ekki er heldur vitað um, hvernig með þá greiðslu verður farið.

Á síðasta Alþingi var gerð hér breyting á lögum um landnám ríkisins, þ.e. um styrk vegna húsbygginga í sveitum landsins. Það er engin fjárveiting til þess að framkvæma þetta lagaákvæði Það mun þó þurfa, ef það á að framkvæmast. Vel má með réttu segja, að ríkið geti komið sér hjá því nú, en þá er lítið gagn að lagabreytingunni.

Þegar þessar greiðslur eru teknar saman, þá munu vera hér fjárhæðir upp á 25 millj. kr. Þessu til viðbótar vil ég svo geta þess, að hæstv. ríkisstj. hefur lofað að greiða tryggingagjöldin af fiskiskipaflota landsmanna, frá því að gengislögin gengu í gildi. Því er að vísu haldið fram, að útflutningssjóður eigi peninga í sínum fórum, sem geti a.m.k. að einhverju leyti komið til nota við þessa greiðslu á tryggingafénu. Um þann ágæta sjóð er það að segja, að það er svo sem ekki í fyrsta sinn, sem erfitt er að fá upp tölur um, hvernig fjárhag hans sé komið. Það bar oft hér á góma í fyrravetur um fjárhag útflutningssjóðs, og virtist vera nokkuð á reiki. En hvernig sem því er velt fyrir sér, þar sem þetta mál er enn þá allt óljóst, þar sem ekki liggur fyrir, hvað fjárhæðin er mikil, sem tryggingagjöldin kosta, og ekki heldur, hvað útflutningssjóður hefur til þess að greiða þau, þá er ekki gott að segja, hvað ríkissjóður kann að þurfa að kosta þarna til, en litlar líkur eru til þess, að hann komist hjá því að hafa nokkurn kostnað af þeirri ákvörðun hæstv. ríkisstj. að taka upp uppbótakerfið á nýjan leik. Þess vegna sýnist mér, að fjárlagaafgreiðslan sé ekki svo traust sem æskilegt væri, ef upplýsingar um afkomu ársins 1960 eða líkur fyrir afkomu ársins 1960 eru nokkurn veginn réttar.

Ég mun þessu næst snúa mér að því að ræða þær till., sem við gerum, framsóknarmenn, í sambandi við afgreiðslu fjárlaga nú.

Á síðastliðnu ári gerðum við nokkra tilraun til þess að fá verulega hækkun á fjárveitingum til verklegra framkvæmda og sýndum fram á það með ljósum rökum, að fjárveiting til þessara mála gæti ekki um langan tíma staðið svo sem þá var. Hv. formaður fjvn. ræddi þetta allýtarlega hér áðan, og var ljóst af máli hans, að hann hefur áttað sig á því, að hér þarf að gera breytingu á. Hins vegar fékkst enginn hljómgrunnur fyrir því í fjvn. í fyrra að hækka þessi framlög, þó að nauðsyn bæri til. Að þessu sinni leggjum við ekki fram tillögur til breytingar fjárveitinga til þessara framkvæmda, m. a: vegna þess, að allt er á reiki um tekjuáætlunina og óvíst, hverju má treysta um niðurstöður fjárlaga. Þá var það líka, að á síðasta þingi kynntumst við það vel viðhorfi stjórnarliða til þessara mála, að það var óþarfi að þreyta kapp um að kynnast því á nýjan leik. Við höfum og á þessu þingi lagt fram frv, til breytinga á fjárveitingum til brúa og vega, og það er von okkar, að fyrr en seinna verði það mál að lögum, og ég verð að álíta, að formaður n. hafi átt við það, þegar hann ræddi um það hér áðan, að það yrði að endurskoða þessi mál og gera breytingu á um fjárveitingar til þeirra.

Við mundum hafa beitt okkur fyrir að hækka fjárframlög til ýmissa fleiri málaflokka, ef við hefðum mátt ráða fjárlagaafgreiðslunni og móta hana að okkar skapi. Þær till., sem við berum fram að þessu sinni, eru aðeins miðaðar við það eitt að bæta úr brýnustu nauðsynjum og fjárþörf, til þess að reyna að koma í veg fyrir, að fjárskorturinn verði til þess, að beinlínis sú starfsemi, sem þar um ræðir, bíði tjón af.

Ég vil byrja á því að ræða nokkuð um till. þær, sem við gerum til lækkunar á útgjaldahlið fjárl.

Í fyrsta lagi leggjum við til, að efnahagsmrn. verði lagt niður. Við teljum, að sú reynsla, sem af því ráðuneyti hefur fengizt, gefi ekki ástæðu til, að því sé við haldið, — hér er um aukið skrifstofubákn að ræða, — og það fari illa á því að vera að setja það upp samhliða því, sem talað er um sparnað og samdrátt í ríkisrekstrinum. Það er líka skoðun okkar, að það fari bezt á því, að hver ríkisstj, kveðji sér til ráðuneytis um efnahagsmál þá menn, sem hún treystir til, en þurfi ekki að leita til embættismanna, sem ef til vill eru henni mjög andstæðir í skoðunum um lausn þeirra. Og ég hygg, að sú muni verða reynslan í framtíðinni, að það þyki ekki heppilegt. Þess vegna leggjum við til, að þetta ráðuneyti verði nú þegar lagt niður. Ég get endurtekið það, að við teljum ekki, að þau gögn, sem frá því komu í okkar hendur við þessa fjárlagaafgreiðslu, hafi borið af því, sem áður hefur verið, nema síður sé.

Um utanríkisþjónustuna hef ég rætt áður og þarf því ekki að endurtaka það, en þar leggjum við til, að eitt sendiráð verði á Norðurlöndum og eitt sendiráð verði í París, en ekki aðeins lagður niður sendiherrann, eins og gert er ráð fyrir í till. ríkisstj.

Þá leggjum við til, að dregið verði mjög úr sendiferðum og sendinefndum til annarra landa. Hér er um sparnað að ræða, sem við teljum að þurfi engan undirbúning til að koma við. Það getur ríkisstj. ákveðið á hverjum tíma, hvað hún vill leggja í mikinn kostnað við utanfarir á ráðstefnur, og þess vegna þarf það mál ekki að vera til langrar afgreiðslu. Sama er að segja um till. okkar um að draga úr ýmsum kostnaði hjá ríkisstj. og ráðuneytunum og á 19. gr. fjárlaga. Við erum þar sama sinnis og meiri hl. fjvn., að við viljum láta draga úr veizlum og öðrum óþarfakostnaði, sem hægt er að komast hjá. Og það er alveg ástæðulaust að vera að flytja slíka till. í ábendingarformi, því að hver ríkisstj. getur framkvæmt hana þegar í stað, ef hún hefur vilja til. Þess vegna sé ég ekki ástæðu til annars en að hv. stjórnarliðar geti lagzt á eina sveif með okkur um að lækka útgjaldaliðina á fjárl. sem öryggi fyrir því, að ekki verði of mikið í þessa liði eytt.

Það má vel vera, að menn telji, að við göngum of langt í að draga úr ýmsum kostnaði. En þá er því til að svara, að hæstv. ríkisstj. gengur að hvers manns dyrum og herðir að fjárhag þeirra, og þá er ekki nema eðlilegt, að þangað sé einnig komið. Við gefum sem sagt hæstv. ríkisstj. hér kost á að sýna sparnaðinn í verki, og við vonum, að hún taki því boði.

Þá leggjum við til, að okkar ágæta Kvíabryggja verði lögð niður á nýjan leik. Okkur finnst það satt að segja of mikil rausn að ætla að leggja 900 þús. kr. í að halda þarna 4–6 mönnum, sem er nú líklegt eftir fyrri reynslu að verði, og teljum, að það sé betur farið að nota þetta fé til annarra hluta.

Þá leggjum við einnig til að fella niður endurnýjun á bifreiðaeign ríkisins, sem talað er um á 20. gr. fjárlagafrv., og teljum, að sá liður eigi að vera hjá viðkomandi stofnunum. — Og sömuleiðis gerum við till. um að fella niður fyrningaliðinn.

Þessar lækkunartill. okkar eru um 13.7 millj. kr.

Útgjaldatill. þær, sem við leggjum til, eru eins og ég áður sagði, aðeins til þess að bæta úr brýnustu þörf, en ekki að öðru leyti miðaðar við það, sem við vildum að svipmynd fjárlfrv. væri.

Í fyrsta lagi leggjum við til, að hækkað verði til Skipaútgerðar ríkisins í þá fjárhæð, sem forstjórinn leggur til í sínum till. Hér er um þessa till. að segja, að ef ekki verður breytt eða dregið úr þjónustu útgerðarinnar, þá er hér bara um raunhæfari áætlun að ræða, því að ríkið kemst ekki hjá að greiða þann kostnað, sem af útgerðinni kann að vera, og þess vegna er það betra fyrir hæstv. ríkisstj. að fá þennan lið hækkaðan nú þegar heldur en þurfa að greiða fé umfram fjárveitingu á fjárlögum.

Við leggjum einnig til að hækka framlag til íslenzkra námsmanna erlendis, og er það út frá þeim vandræðum; sem þeir hafa átt við að búa vegna fjárskorts, og sumir hafa orðið að hætta námi, eftir að gengisbreytingin var gerð.

Við gerðum till. um það í fyrra, að veitt yrði fé vegna kaupa á jarðræktarvélum ræktunarsambandanna, sem fékkst ekki samþykkt þá. Nú er hins vegar gert ráð fyrir að veita 1 millj. kr. í því skyni. Vitað er, að búið er að kaupa til landsins tvær jarðýtur, og mun kostnaður þeirra vegna vera a.m.k. 800 þús. kr., svo að þessi fjárveiting, sem lagt er til — 1 millj. — er þá sama sem uppétin, þar sem vélasjóður þarf einnig að fá sérstakt tæki, sem hann þarf að nota við skurðgröft á Vestfjörðum, og gert er ráð fyrir að styrkur til hans muni vera um 200 þús. kr. Till. okkar er því miðuð við það, að hægt sé að kaupa inn aðrar tvær jarðýtur á næsta ári og eitthvað af smærri verkfærum. Hér er um að ræða það allra minnsta, sem við getum gert ráð fyrir að hægt sé að komast af með í sambandi við þetta mál. Það er, sem kunnugt er, þannig vaxið, að það má ekki láta það gerast, að hætt verði alveg að endurnýja þessi ágætu tæki, sem hafa verið svo mikil lyftistöng í okkar landbúnaði, vegagerð o.fl., svo sem kunnugt er.

Þá leggjum við til, að 100 þús. kr. fjárveiting verði til tilraunaráðs búfjárræktar, og er það hækkun vegna nauðsynjar við tilraun, sem búfjárræktarráðið er að gera.

Einnig leggjum við til, að hækkað verði til iðnaðar- og búnaðardeilda atvinnudeildar háskólans og Hestsbúsins um 500 þús. kr. samtals, og er hér líka um brýna nauðsyn að ræða vegna starfsemi þessara stofnana.

Þá leggjum við til, að hækkað verði framlag til fiskileitar um 1 millj. og til síldarleitar og fiskirannsókna um 1 millj. kr. Því verður ekki trúað, fyrr en á reynir, að hæstv. ríkisstj. sjái sér ekki fært að veita þessu máli lið. Í till. frá Fiskifélagi Íslands var farið fram á hærri upphæð en hér er lagt til til viðbótar því, sem er á frv. Þar var bent á það í sambandi við leit að nýjum fiskimiðum, að það væri ætlað að leita fyrir togarana, en afli þeirra hefur verið mjög rýr eins og kunnugt er. Og ég verð að segja það, að það er mjög skrýtin hugsun, sem liggur á bak við það, ef hægt er að veita álíka fjárhæð til vistheimilisins á Kvíabryggju eins og lagt er til að láta það ganga fyrir fiskileit. Þess vegna er það von okkar, að þessi till. nái fram að ganga og það verði hægt þá að jafna hana með því að fella Kvíabryggjuhælið niður.

Þá leggjum við einnig til að hækka atvinnuaukningarféð um 5 millj. kr. Ef sú till. verður samþykkt, þá verður til umráða álíka fjárhæð og var skipt á yfirstandandi ári. Eins og atvinnuhorfur eru nú í landinu, þá virðist það næsta ósennilegt, að minni þörf verði fyrir atvinnuaukningarfé en verið hefur, og ég held, að það verði að teljast hyggilegt að búa sig undir það að þurfa að leggja meira til atvinnumálanna en gert hefur verið og alls ekki minna. Þess vegna er það okkar till., að fjárveitingin verði sú sama sem hún var á yfirstandandi ári.

Þessar till. okkar til útgjalda eru þó aðeins lægri en till. okkar til lækkunar, svo að þær hafa ekki áhrif á niðurstöðutölur fjárlaga, nema 44 þús., sem væru þar til ágóða, og munum við ekkert sjá eftir því að leggja hæstv. ríkisstj. það til.

Ég vil svo segja það, að það er trú okkar og von, að hæstv. ríkisstj. og stjórnarliðar taki höndum saman við okkur um þessar sparnaðartillögur og að rétta hlut þeirra, sem við leggjum til og brýn nauðsyn ber til að hækka fjárveitingar til:

Þessi fjárlög, sem nú eru hér til afgreiðslu, eru fyrstu fjárlögin, þar sem áhrifa frá efnahagsaðgerðum ríkisstj., „viðreisninni“, gætir. Efnahagsviðreisnin svokallaða hefur nú staðið í 9 mánuði, og þess vegna er áhrifa hennar víða farið að gæta. Hún hefur notið þess — ja, velvilja, ef maður ætti svo að segja, — að það hefur engin tilraun verið gerð til að trufla þau áhrif, sem hún kynni að hafa. Kostir hennar hafa því fullkomlega getað notið sín, og hefur stjórnarandstaðan hagað sér þar á annan veg en gert var sumarið 1958 og ég vitnaði til í upphafi ræðu mínnar.

En hver eru áhrifin frá viðreisninni á afgreiðslu fjárlaga og afkomu þjóðarinnar? Það var talið í grg, fyrir efnahagsmálafrv. ríkisstj. í fyrravetur, að viðreisnin mundi skapa fjárhags-, viðskipta- og athafnalífinu traustari, varanlegri og heilbrigðari grundvöll. Eru áhrifin á þann veg, að atvinnu- og viðskiptalíf þjóðarinnar, grundvöllur þess sé traustari, varanlegri og heilbrigðari en verið hefur? Nei, áhrifin eru á allt annan veg. Fjármála- og viðskiptalíf íslenzku þjóðarinnar er nú keyrt í kút. Framundan er meiri óvissa en nokkru sinni fyrr og meira getuleysi í fjármálum ríkissjóðs og þjóðarinnar. Og ef við lítum út um landsbyggðina, þá blasa áhrif viðreisnarinnar við alls staðar á þennan hátt. Afkoma í sveitum landsins er nú þrátt fyrir góðæri alvarlegri en verið hefur um langt árabil. Atvinnutækin liggja bundin hér í höfn, og gömul atvinnufyrirtæki riða til falls. Minnkandi atvinna er víða að segja til sín og minnkandi viðskipti í viðskiptalífinu. Þetta eru áhrifin, sem blasa við frá viðreisninni, eftir að hún hefur staðið í nokkra mánuði. Og hvað segja stéttirnar í landinu um áhrif viðreisnarinnar? Bændurnir sögðu á sínu þingi: „Efnahagsmálaráðstafanir ríkisstj. koma hart niður á bændum“. Hvað sögðu útvegsmennirnir um efnahagsaðgerðir ríkisstj.? „Þær leiða af sér lömun þjóðarlíkamans“. Og hvað sögðu verkamennirnir á sínu þingi? „Fyrir hverja er stjórnað? Það er ekki fyrir okkur“, sögðu þeir. Þetta er vitnisburðurinn, sem viðreisnin fær eftir að hafa staðið í nokkra mánuði. Áhrifin eru óvissan og getuleysið. Það eru þessi einkenni og þau áhrif, sem viðreisnin hefur á fjárlagaafgreiðsluna í dag.

Og hvað hefur hæstv. ríkisstj. gert? Það, sem hún er að gera nú, það er það, að hún er að brjóta niður kerfið, sem hún setti í upphafi þessa árs og átti að vera varanlegt. Hún er að taka aftur upp uppbæturnar með því að borga tryggingagjöldin. Hún lýsti því yfir, að atvinnuvegirnir skyldu standa á eigin fótum. Nú er því hins vegar yfirlýst, að það eigi að gera sérstakar ráðstafanir fyrir atvinnuvegina, þegar þingið komi saman á nýjan leik eftir áramótin. Því var lýst yfir af hæstv. ríkisstj., að hún mundi engin afskipti hafa af vinnustöðvunum. Hún gaf út bráðabirgðalög, þegar átti að koma til fyrstu vinnustöðvunarinnar, og bannaði vinnustöðvunina. Því var lýst yfir, að aðgerðirnar ættu að vera til frambúðar, en þær hafa skapað glundroða, eins og ég hef þegar lýst. Því var lýst yfir, að það ætti að verða sparnaður í ríkisrekstrinum, en eyðslan stendur alls staðar upp úr, hæstu fjárlög, sem nokkurn tíma hafa verið afgreidd á Alþingi Íslendinga, minna varið til uppbyggingar en nokkru sinni fyrr. Þetta er árangurinn af viðreisninni. Þetta er árangurinn af samdráttarstefnu hæstv. ríkisstj.

Ég sagði það hér í upphafi máls míns, að ríkisstj. yrði að vera þess meðvitandi, hvenær hún ætti að hætta að vera ríkisstj. Þegar ríkisstj. er farin að brjóta niður sín eigin verk, þegar hún er búin að tapa traustinu hjá þjóðinni, eins og núverandi hæstv. ríkisstj. er búin að tapa og ég hef lýst með áliti stéttanna, þá á hún að biðjast lausnar. Þá á hún að biðjast lausnar, því að hún hefur glatað hvoru tveggja. sínum málefnum og trausti þjóðarinnar. Það, sem þjóðinni er nú ljóst, er það, að hún þarf að brjóta á bak aftur samdráttarstefnu ríkisstj., til þess að hún geti aukið framleiðslu sina, til þess að hún geti aukið uppbygginguna í landinu, til þess að þróttmikið framfaralíf geti hafizt á Íslandi á nýjan leik.