07.12.1960
Sameinað þing: 22. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 181 í B-deild Alþingistíðinda. (191)

1. mál, fjárlög 1961

Frsm. 2. minni hl. (Karl Guðjónsson):

Herra forseti. Ég vil í upphafi máls míns þakka formanni fjvn. og öðrum nm. fyrir ágætt samstarf við undirbúning þessara fjárlaga, og tel ég mér skylt að geta þess, að þrátt fyrir mikinn og djúpstæðan ágreining um málefni, þá hefur aldrei komið til neins ósamlyndis í störfum n. og þau hafa í alla staði gengið snurðulaust.

Á s.l. vetri fékk ríkisstj. meirihlutasamþykki Alþ. fyrir margháttuðum breyt. á efnahagskerfi þjóðarinnar. Þessar breyt. voru fyrst og fremst fólgnar í því, að gengi ísl. kr. var skráð niður, þannig að nú þurfti fleiri ísl. kr. á móti hverri einingu í mynt erlendra þjóða en áður hafði þurft. Á var lagður nýr söluskattur, almennur söluskattur, sem nam 3% á alla vörusölu og þjónustu í landinu, og einnig var lagður nýr skattur á innflutning, þótt það væri nú með nokkuð sérstökum hætti og öðruvísi en í upphafi stóð til, þegar þær ráðstafanir voru boðaðar, sem ríkisstj. beitti sér þá fyrir. Þá aflaði ríkisstj. sér í þriðja lagi heimildar til þess að breyta öllum vaxtagreiðslum af lánsfé á þann hátt að taka hærri vexti af lánsfénu en áður höfðu verið leyfðir í ísl. lögum.

Þessir 3 þættir eru aðaluppistaðan í því kerfi, sem ríkisstj. sjálf nefndi viðreisn og taldi að mundi stefna að því, að allt fjárhagslif Íslendinga kæmist í jafnvægi, framleiðsla mundi geta gengið snurðulaust og þjóðin mundi sigla inn í nýja velmegun.

Að vísu játaði stjórnin, að þessar ráðstafanir mundu ekki þýða blóma, alveg um leið og þær kæmust á. Þær höfðu margháttuð áhrif á greiðslur og tekjur ríkissjóðs. Fjárlög ríkissjóðs, sem áætluðu tekjur og gjöld á árinu 1959 1033 millj., hækkuðu við tilkomu viðreisnarinnar upp í rösklega 1500 millj., þ.e. um 45%, og þótt nokkur hluti af þeirri hækkun sé vissulega tilfærsla á milli útflutningssjóðs og ríkissjóðs, þá breytir það ekki því, að sá maður, sem áður þurfti að gjalda ríkinu 100 kr. í skatta og skyldur, þurfti nú fyrir hverjar 100 kr., sem hann áður varð að greiða, að borga ríkinu 145 kr. Þessi hækkun var svo geysileg, að Alþ. hafði ekki fyrr séð framan í neina slíka hækkun. En það vantaði ekki hjá ríkisstj. þá fremur en nú, að hún boðaði það, að í framtíðinni ætti allt að verða betra en það væri nú, og þess vegna var söluskatturinn á innflutning, sem ríkisstj. taldi nauðsynlegt að taka þá til bráðabirgða og nemur 8.8% af tollverði innflutnings, þ.e.a.s. í lögunum er svo skráð, að hann nemi 8%, en þar eð hann leggst einnig á áætlaða 10% álagningu, þá er hann raunverulega 8.8%, — þennan skatt taldi ríkisstj. ekki nauðsyn að hafa á þjóðinni nema til ársloka 1960. Það var að sjálfsögðu mikill léttir fyrir landsmenn, ef svo hefði verið í raun og veru, að þessi skattur gæti fallið niður, eins og áætlað var, um þau áramót, sem nú eru skammt undan. Efnahagsmrn. ríkisstj, hefur áætlað. að tekjur ríkissjóðs af þessum skatti muni á einu ári nema 175 millj., þ.e.a.s. álíka mörgum millj. kr. og margar þúsundir íbúa eru í landinu, en það þýðir að sjálfsögðu það, að að meðaltali verður hver þegn þjóðfélagsins, ungur sem gamall. að greiða 1000 kr. á ári upp í þennan skatt, og það skal vissulega viðurkennt, að það hefði verið mikil kjarabót, ef þessu hefði verið létt af þjóðinni, eins og lofað var.

Það var vitað í fyrra, áður en afgreiðslu viðreisnarfrv. var lokið, að í því leyndist a.m.k. 100 millj. kr. reikningsskekkja, að því er varðaði árið 1960. Hér er komin í ljós á þessum eina lið reikningsskekkja, sem nemur a.m.k. 175 millj. kr., og má segja, að framfarirnar í okkar þjóðfélagi séu allstórstígar á þessu sviði, enda þótt nú hafi um sinn kippt úr þeim á öðrum sviðum, því að nú er sem sagt áformað að hlaupa frá þessu loforði og leggja þennan söluskatt á að nýju á árinu 1961, og nú er ekki talað um það, að hann geti lagzt niður um þau árslok. En það er kannske ekki von á því, að um það sé enn talað, því að einhvern veginn hefur ríkisstj. enn ekki haft uppburði í sér til þess að leggja frv. til laga um þetta fyrir Alþ., og eru það vissulega vítaverð vinnubrögð að ætla sér að samþ. fjárlög, sem að svona geysilega miklu leyti eru byggð á tekjustofni, sem engin lög eru til um.

En auk loforðsins, sem af ríkisstj. hálfu var gefið um það í fyrra, að bráðabirgðasöluskatturinn ætti að falla niður við árslok 1960, þá gaf ríkisstj. einnig út langtum fleiri loforð. Ég hirði ekki að rekja þau öll, en vil þó aðeins minna á það, að eitt þeirra til viðbótar því, sem nefnt hefur verið, var loforðið um það, að upp skyldi tekin sérstök athugun á því, hvað væri hægt að spara á fjárlögum, og nú skyldi gangskör gerð að því, að fyrir næstu fjárlög, þ.e.a.s. þau fjárlög, sem við nú erum að fjalla um, yrðu gerðar till. um víðtækan sparnað á rekstrarliðum ríkissjóðs.

Það er kunnara en frá þurfi að segja hér á Alþ. nú, að úr þessu loforði hefur harla lítið orðið, og verð ég sannast að segja að láta í ljós nokkra undrun mína á því, að eftir að hafa hlaupið svo greinilega frá því loforði og raunar gengið þvert á móti því, skuli ríkisstj. enn og hennar fulltrúar í fjvn. hafa sig upp í það að leggja hér fram á Alþ. og ræða hér í ræðustólum Alþ. með alvörusvip um það, að í framtíðinni standi til að spara geysilega mikið. Eftir þá frammistöðu, sem sýnd hefur verið í því efni, hefði ég talið það sæmilegast, að menn hefðu verið sem allra fáorðastir um, hvað til stæði á næsta ári. En það hefur nú hver sinn smekk, og kann að vera, að það sé svo með ríkisstj. og hennar fylgismenn í fjvn., að þeir finni ekkert skoplegt við það að boða ofan á það, sem nú hefur skeð, sparnaðartill. í 23 liðum.

Hvað var það þá, sem gerðist í sparnaðarmálum ríkisstj.?

Hér hefur verið boðað, að samdráttur stæði fyrir dyrum á 10 af 14 útgjaldagreinum fjárlaga. Það skiptir ekki mjög miklu máli, á hvað mörgum greinum sparnaðurinn kemur fram. En hitt skiptir nokkru máíli, hver hann er. Það er ekki vert að draga fjöður yfir það, sem gert hefur verið í þessa átt. Þegar fjárlagafrv. var lagt fram, kom í ljós, að á því höfðu verið gerðar lækkunartill.; sem námu samtals eitthvað nálægt 20 millj. kr. En við hliðina á þeim sparnaðartill. fylgdu aðrar till., og þær voru ekki sparnaðartill. Þær voru til útgjalda, og þær námu 70 millj. kr., svo að hinn lofaði sparnaður varð því enginn. Þvert á móti, það varð 50 millj. kr. aukin eyðsla. Við það bætist svo, að nú í meðförum Alþ. á fjárlagafrv. hefur með samþykki ríkisstj., en mest þó fyrir kröfur ríkisstj. verið gerðar till. um 34 eða 35 millj. kr. aukningu enn við þær 50 millj., sem ríkisstj. hafði sjálf gert ráð fyrir að útgjöld ríkisins ættu að aukast á næsta ári. Það er þess vegna sýnilegt, eins og tekið hefur verið fram af báðum þeim frsm. fjvn., sem hér hafa talað á undan mér, að fyrirsjáanleg er hækkun fjárlaga a.m.k. um 85 millj., — um 85—90 millj. hefur hv. form. fjvn. sagt, — og er augljóst, að það muni láta nærri. Þegar þess er nú gætt, að þessi hækkun fjárlaga um 85 millj. fer fram án þess, að nokkur minnsta breyt. hafi nokkurs staðar verið gerð á kaupgreiðslum ríkissjóðs, og þar með liggur það hreint fyrir, að hækkanirnar liggja allar í einhverjum öðrum liðum en kaupgreiðsluliðunum, verður ljóst, að það hefur að vísu verið stöðvað, það sem hefur verið kallað kapphlaup kaupgjalds og verðlags. Það hefur verið stöðvað með þeim hætti, að annar keppandinn, þ.e.a.s. kaupgjaldið, það hefur verið bundið niður, en hinum aðilanum í kapphlaupinu hefur verið gefin frjáls braut til hlaupanna. Það er sjáanlega með þessum hætti, sem þeir hv. stuðningsmenn ríkisstj. hafa hugsað sér leikreglur í kapphlaupi, því að þeir virðast vera einkar ánægðir með þetta.

En hvað er þá að segja um þennan 20 millj. kr. sparnað, sem áformaður var og eitt sinn var að brjótast í höfðum þeirra, sem að samningu fjárlagafrv. stóðu? Þessi sparnaður var, eins og áður er sagt, dreifður á margar greinar, og skal ég ekki hirða um að ræða hvern einstakan lið hans. Stærsti sparnaðarliðurinn var þó 5 millj. kr. lækkað framlag til Skipaútgerðar ríkisins. Því hefur hér áður verið lýst, á hverju það byggðist. Það sparnaðaráform byggðist á því, að ríkisstj. fékk sér norskan sérfræðing til þess að gera nýja áætlun um starfsemi og siglingar strandferðaskipanna við Ísland. Þessi áætlun gerði ráð fyrir nokkrum meginbreyt. á starfseminni. Í fyrsta lagi var gerð þar till. um, að Esjan yrði ekki lengur notuð til strandferða. Þá var gert ráð fyrir því, að strandferðaskipið Hekla hætti Norðurlandasiglingum, en sigldi allt árið kringum land og sigldi með geysilegum hraða, færi hringferðina um landið á um það bil 5 sólarhringum, en hætti viðkomu á flestum höfnum. Að vísu átti hún að koma við á fáeinum höfnum, og þar átti að fara fram mikil umskipun á vörum. Og það var einn liðurinn í áætluninni, að vörur allar áttu að setjast í geysistóra kassa í Reykjavík og hífast um borð í skipin í fáum, en stórum slumpum og með sama hætti upp úr skipunum, og lítur þetta á pappír ekki illa út. Ekki varð þó hjá því komizt að bera þessar norskættuðu till. undir íslenzka menn, áður en til framkvæmdanna kom. Það fylgdi með í umsögninni um norsku till., og mig minnir, að hæstv. fjmrh. hafi ítrekað það hér í fjárlagaræðu sinni á þingi, að það stæði svo sem hreint ekki til að skerða neitt þjónustuna við landsmenn með þessari breyt. á tilhögun Skipaútgerðarinnar. En þeir Íslendingar, sem um þetta fjölluðu, sögðu einfaldlega, að til þess að skip eins og Hekla gæti komizt á 5 dögum kringum landið og skilað sínu ætlunarhlutverki, þá þyrfti helzt að haga eitthvað svipað til við Íslandsstrendur og við strendur Noregs, að það væri hægt að sigla innan skerja, en það hafði nú láðst að taka tillit til þess í útreikningunum og samningu hinnar nýju áætlunar, og er því ljóst, að skipið getur í mörgum tilfellum alls ekki komizt hringferð í kringum landið á svo skömmum tíma. Því veldur íslenzkt veðurfar og þau skilyrði, sem við íslenzku ströndina eru. Í öðru lagi er ekki hægt að nota þá aðferð að flytja vörur í stórum vöruflutningakössum nema á þær hafnir, þar sem einhver viðbúnaður er til þess að annast þess háttar uppskipun, sem þannig var áformuð, að enn fremur þurfa bryggjur að vera þannig, að skip geti komizt að þeim á þeim tímum, sem ætlað er, en á það skortir stórlega á flestum þeim höfnum, sem áætlað var. Þá þótti það einnig öllum auðsætt, að litill sparnaður væri að því að taka skip eins og strandferðaskipið Heklu úr sumarsiglingunum til Norðurlanda, sem gefa verulegan ágóða, og það, sem sparaðist með því, voru að vísu ekki útgjöld, heldur tekjur. Það er þess vegna sýnilegt, að af þessari áætlun getur ekki orðið. Þó að hún verði reynd, þá mun hún ekki spara það fé, sem menn hafa gert sér hugmyndir um. Og sömuleiðis er það á allra vitorði, að ef ætti að taka upp slíka áætlun, þá er það stórkostleg skerðing á samgönguþjónustunni við það fólk, sem nýtur þeirra samgangna, sem Skipaútgerð ríkisins veitir.

En það er vert að minnast á það í þessu sambandi, að þótt áformað hafi verið að þrengja kost Skipaútgerðar ríkisins, þá er raunar annar og hreint ekki svo lítilvægur liður varðandi samgöngur á sjó, sem ríkið veitir fé til, en það er styrkur til flóabáta; en með því að þeir eru allir í einkarekstri, hefur ríkisstj. ekki dottið í hug að reyna að spara neitt á þeim rekstri. Vil ég þó leyfa mér að halda því fram, að hann sé á mörgum sviðum ekki síður gagnrýnanlegur en rekstur Skipaútgerðar ríkisins.

Ég vék að því áðan, að sú hækkun, sem nú er áformuð á fjárl., komi til með að ske, án þess að nokkrar kaupbreytingar hafi þar verið að verki. Ríkisstj. kýs að auka eyðslu sína um 85 millj., en halda óbreyttu kaupi starfsmanna ríkisins. Ef hér væri farið öfugt að og ríkisstj. hefði haft vilja til hins gagnstæða, að stöðva eyðslu sína, en gjalda fólki það kaup, sem það mætti vera sæmilega haldið með, — því að það er á allra vitorði, að flestir ríkisstarfsmenn eru mjög illa haldnir um kaupgreiðslur, eins og raunar allur þorri landsmanna, sem af kaupgreiðslu þarf að draga fram sitt líf, — þá hefði verið hægt að hækka kaup ríkisstarfsmanna um því sem næst 21%, án þess að upphæð fjárlaga hefði þurft að breytast frá því, sem hún er nú áformuð. En það var reyndar það, sem ríkisstj. vildi forðast, þótt hún vildi auka eyðsluna að öðru leyti.

Fjárlagaafgreiðslan, sem fram fór í fyrra, var fyrst og fremst samkvæmt áætlunum um verkanir viðreisnarinnar. Sú fjárlagaafgreiðsla, sem nú fer fram, er sú fyrsta, sem fer fram í ljósi nokkurrar reynslu af viðreisninni. Og hver er nú reynslan, sem fengizt hefur? Er hún sú, sem boðuð var, eða er hún eitthvað á aðra leið? Ég vil leyfa mér að rekja það örlítið, hvernig tekjustofnar ríkisins standa, að því er upplýsingar liggja fyrir um, en eins og mönnum er kunnugt, þá hefur ríkissjóður mestan hluta af tekjum sínum í formi tolla eða skatta af innflutningi. Innflutningur til landsins er því nátengdur fjárhagsafkomu ríkissjóðs; og eins og hér hefur verið rakið, þá stóð innflutningur með miklum blóma á fyrstu mánuðum yfirstandandi árs. Þá var flutt inn geysimikið magn af vörum og reyndar nokkuð fram eftir árinu, en viðreisnin tók einmitt gildi í febrúarmánuði eða um mánaðamótin febrúar-marz, og litlu eftir að hún hafði tekið gildi, þá dró mjög úr innflutningi til landsins. Voru þar tvö öfl að verki: Annars vegar það, að kaupgeta landsmanna fór þá þegar nokkuð minnkandi, enda þótt samdráttar í kaupgetunni færi ekki að gæta verulega, fyrr en leið lengra fram á árið. En það, sem hélt þó innflutningi uppi nokkuð, var það, að ríkisstj. leyfði í samræmi við boðað verzlunarfrelsi í viðreisninni, að heimilt skyldi íslenzkum aðilum að taka hömlulítið viðskiptalán erlendis til skamms tíma, og það var í rauninni ekki fyrr en þau verzlunarlán fóru nokkuð að falla í gjalddaga, sem verulega kippti úr innflutningnum, með þeim afleiðingum, að hann hefur nú dregizt saman nokkru meira en áætlað hafði verið að hann gerði að meðaltali á árinu. Hefur efnahagsmrn. nú gert áætlun um það, hvernig tekjur ríkissjóðs muni standast á því ári, sem nú er að líða. Þegar rn. gerði þetta, hafði það fyrir sér niðurstöðutölur tíu mánaða ársins, en áætlaði, hverjar tekjurnar mundu verða á þeim tveim mánuðum, sem þá voru eftir af árinu eða upplýsingar lágu ekki fyrir um. Rn. áætlaði; að áætlaðar tekjur í fjárl. mundu ekki standast. Það sýndi fram á, að verulegur samdráttur væri í sumum tekjuliðunum af innflutningnum, og í staðinn fyrir það, að fjárlög áætluðu tekjurnar rúmlega 1500 millj., þá kvað rn. upp úr með það, að upp á þetta mundi koma til með að vanta svo sem eins og hálfan fjórða tug millj. Það gerði einnig áætlun að fenginni þessari reynslu um það, hverjar tekjur ríkissjóðs mundu verða á árinu 1961, þ.e.a.s. hvernig hægt væri að áætla tölur tekna á árinu 1961 í þeim fjárl., sem nú eru til afgreiðslu. Niðurstaða rn. varð sú, að í heild mætti svo til ekkert breyta áætlunartölum um tekjur ríkissjóðs frá því, sem þær eru áætlaðar í fjárlagafrv. Eftir þessum áætlunum telja stuðningsmenn ríkisstj. í fjvn, sig ekki þurfa að fara. Þeir hafa sjálfsagt lært það af nokkurri reynslu að taka ekki of alvarlega áætlunartölur úr því rn., og sýnist mér þó, að margt hafi það rn. áætlað ólíklegra en þær tölur, sem það gefur upp nú, og a.m.k. mundi ég ekki þora að halda því fram, að áætlunartölur þess um tekjur á árinu 1961 væru of lágar. Það hefur hins vegar meiri hl. fjvn. gert og byggir sínar tillögur á því. Þetta ósamræmi, sem þarna er á milli áætlana efnahagsmrn. og meiri hl. fjvn., er með öllu óútskýrt og órökstutt, á hverju það, raunverulega byggist, og er því greinilegt, að hér er annað tveggja stefnt að afgreiðslu fjárl., sem eru ekki raunhæf og halli kemur til með að verða á, eða þá að ríkisstj. telur sig eiga von einhverra þeirra tekna, sem hún leyfir ekki efnahagsmrn. sínu að gera áætlanir um opinberlega. (Forseti: Þar sem ég geri ráð fyrir, að hv. ræðumaður eigi enn eftir að flytja töluvert af sinni ræðu, vil ég biðja hann að láta það bíða, — við frestum fundi nú til klukkan hálf níu.) Jú, ég verð við því. — [Fundarhlé.]

Herra forseti. Þegar hlé var gert á fundi, hafði ég farið yfir nokkur þau atriði, sem lutu að almennum hugleiðingum mínum um undirbúning þeirra fjárlaga, sem nú er unnið að. Ég hafði farið nokkrum orðum um það, að þær vonir, sem þjóðinni voru gefnar við setningu fjárlaganna fyrir yfirstandandi ár, hafa nú brugðizt. Söluskatturinn af innflutningi er endurnýjaður, og sparnaður sá, sem lofað var, hefur ekki staðizt, heldur þvert á móti er nú efnt til nýrra aukinna útgjalda. Ég hafði einnig komið að því, að áætlanir meiri hl. fjvn. um tekjumöguleika ríkissjóðs eru í ósamræmi við áætlanir efnahagsmrn. og engar skýringar þar á gefnar, og leyfi ég mér þá að halda þar áfram, sem frá var horfið.

Í beinu samræmi við það, að hækkandi útgjöld á óbreytt kaup hljóta að þýða versnandi lífskjör hjá fólkinu í landinu, hljóta að þýða það, að á heimilum landsmanna verður að draga saman útgjaldaliði, verður að spara. Sú lagasetning, sem þessu veldur, hefur fyrir fram ekki verið borin undir neinn heimilisföður í landinu sérstaklega sem slíkan, heldur kemur það lagaboð beinlínis sem fyrirskipun til hans, og hann verður að haga rekstri síns heimilis í samræmi við það, sem orðið er. Og með því, sem ríkisstj. að sjálfsögðu gerir bæði með ráðstöfununum í fyrravetur, sem hún hefur nefnt viðreisn, og einnig með þeirri fjárlagahækkun, sem nú er unnið að, er alþýðuheimilunum í landinu beinlínis sagt að lifa í aukinni dýrtíð af óbreyttum tekjum. Maður skyldi nú ætla, .að sú ríkisstj., sem þennan boðskap flytur, vildi sýna einhvern lit á því sjálf að vera heimilum landsmanna fyrirmynd í því að draga saman kostnaðinn. Sá sorglegi sannleikur er þó augljós, að þetta vill ríkisstj. alls ekki. Allt hennar framferði sýnir það, að hún hefur ekki hug á því að draga saman í þeirri starfsemi, sem hún sjálf hefur með höndum. Hún lækkar ekki eyðslu ríkisins, hún lækkar ekki eyðslu ráðuneytanna að neinum teljandi hlut, og auðsætt er, að þar sem hún þó gerir till. í þá átt, er um sýndarmennsku eina og einskæra að ræða. Við skulum taka t.d. þá ráðstöfun, sem ríkisstj. telur vera eina af þeim, sem hún getur stært sig af, sparnað í utanríkisþjónustunni, lagt niður annað sendiráðið af tveimur, sem Ísland hefur til þessa rekið suður í París. Því hefur reyndar verið áður lýst hér, að það er eiginlega ekkert, sem lagt er þarna niður, annað en sendiherraembættið á þeim stað, en í staðinn fá Íslendingar nú þá nýbreytni í embættismannaskipan, að settur verður sérstakur sendiherra í stjórnarráði Íslands, sem sagt sá sendiherra, sem lætur af störfum í öðru sendiráðinu í París, á að verða sendiherra Íslands í stjórnarráði Íslands og taka laun sín þar sem slíkur. Það er sýnilegt, að sú ríkisstjórn, sem gerir till. um slíkan sparnað, hefur engan sparnað í huga. Þess vegna er komið að því, að Alþingi verður að gera það upp við sig, hvort ríkisstj. á að líðast það að leggja sífellt á aukin útgjöld, sem þjóðin á að borga af óbreyttum tekjum, — ég segi óbreyttum, þó að vitanlegt sé, að tekjur muni rýrna vegna þess, að atvinna dregst saman, — hvort sú sama ríkisstj. á að fá leyfi Alþingis til þess að halda öllum sínum eyðsluliðum óbreyttum. Ég held, að tími sé kominn til þess, að Alþingi fyrirskipi ríkisstj. örlitið af svipuðum ráðstöfunum og ríkisstj. með atbeina síns þingmeirihluta hefur á þessu yfirstandandi og síðasta ári fyrirskipað þjóðfélagsþegnunum, ýmist með beinum launalækkunum eða með því að stórauka dýrtíð, en gera jafnframt allar þær ráðstafanir, sem í stjórnarvaldanna hálfu standa, til þess að halda öllum kaupgreiðslum óbreyttum. Þess vegna hefur Alþb. gert um það sínar till., að Alþingi geri á fjárlögum ráðstafanir, sem jafngilda nokkurri fyrirskipun til ríkisstj. um það, að hún verði að draga saman sína eyðslu, og væri þó vert að gera það í stærri stíl en gert er í till. Alþb. Ég kem síðar að því, í hverju þessar till. sérstaklega liggja, um leið og ég fer yfir og útskýri nokkrar þær till., sem ég hef hér gert sem fulltrúi Alþb. í fjvn.

Varðandi þær till., sem fjvn ber fram sameiginlega, þá er vert að taka fram, að Alþb. styður flestar þeirra, þótt það sé óskuldbundið um stuðning við einstakar till. En nokkrum þeirra hefur Alþb. reyndar lýst andstöðu sinni við, svo sem eins og till. um hækkun til íslenzku sendiráðanna erlendis og hækkun á framlagi til skrifstofubyggingar Atlantshafsbandalagsins í París. Það skal tekið fram varðandi tekjuhlið frv., að eins og lýst hefur verið, þá dregur Alþb. það mjög í efa, að hér sé byggt á traustum grunni um þær. Á hinn bóginn verða ekki auðveldlega gerðar till. um það, að tekjuliðirnir verði hækkaðir, innan þess ramma, sem viðreisnin, sem ríkisstj. enn heldur dauðahaldi í þrátt fyrir reynsluna. Innan þess ramma verða tæplega gerðar till. um verulega hækkun. Upphæð fjárlaganna verður þess vegna að vera mál ríkisstj. og hennar fylgismanna við afgreiðslu þessa frv., óuppáskrifað af stjórnarandstöðunni. Hins vegar hef ég miðað till. mínar, sem fylgja nál. 2. minni hl. fjvn., við það, að ekki breyti þær jafnvægi gjalda og tekna í fjárlögunum, sízt til hækkunar.

Ég vil því næst leyfa mér að gera stuttlega grein fyrir þeim till., sem þessu nál. 2. minni hl. fylgja.

Í fyrsta lagi eru gerðar nokkrar brtt. við 10. gr. fjárlaganna. Þær till. miða að því, raunar eins og till. 1. minni hl. fjvn., að sendiráð Íslands á Norðurlöndum, sendiráðin í Kaupmannahöfn, Stokkhólmi og Osló, verði sameinuð í eitt sendiráð Íslands á Norðurlöndum og verði því valinn staður þar, sem stjórnarvöldunum þykir tiltækilegast. En það ber á milli till. Alþb. og fulltrúa Framsfl. um þetta atriði, að þeir ætla hinu nýja sendiráði nokkru meira fé til umráða en gert er í till. á þskj. 164. Ég hef ætlað, að það væri nægilegt fé fyrir hið nýja sendiráð að fá helminginn af fjárveitingunni til þriggja sendiráðanna og ætla því 1 880 200 kr., sem er nákvæmlega helmingurinn af því, sem sendiráðin þrjú hafa nú skv. fjárlagafrv. Við þessa ráðstöfun mundi ríkissjóði sparast nákvæmlega 1 880 200 kr.

Þá hef ég gert till. um, að niður verði fellt framlag Íslands til Atlantshafsbandalagsins og einnig sérstakt aukaframlag Íslands til skrifstofubyggingar þess bandalags suður í París, og er það í samræmi við till., sem allir þm. Alþb. hafa flutt hér í þinginu um, að Ísland taki upp hlutleysisstefnu í utanríkismálum og hætti þátttöku í hernaðarbandalagi því, sem nefnt hefur verið Atlantshafsbandalagið. Við þær till., ef samþykktar yrðu, mundi sparnaður ríkissjóðs nema rúmlega 1 millj. kr.

Við 11. gr. hef ég gert till. um, að framlag til ríkislögreglunnar á Keflavíkurflugvelli lækki um helming, og mundi ríkissjóði við það sparast útgjöld, sem nema 2 051 746 kr. Því hefur hér áður verið lýst mjög réttilega af hv. formanni fjvn. í framsöguræðu hans, að mjög er óeðlilegt, að þessi kostnaður sé svo hár sem fjárlagafrv. gerir ráð fyrir, þótt ekki væri nema af þeim sökum, að stórlega hefur nú verið fækkað í því erlenda herliði, sem þessi ríkislögregla á við að stríða, og ætti þess vegna að vera einnig hægt að fækka í þessu lögregluliði.

Ég hef einnig gert till. um það, að stofnun sú, sem í fjárlagafrv. er kölluð vinnuhæli að Kvíabryggju, verði felld niður. Þetta nafn, „vinnuhæli“, er í rauninni alrangt. Skuldafangelsi ætti þetta að heita, því að það er það, og ég leyfi mér að draga í efa, að það samræmist íslenzkum lögum, að mönnum sé haldið í skuldafangelsi. Ég vil með engu móti með þessum orðum réttlæta það, að menn svikist undan merkjum um það að greiða þau gjöld, sem þeim ber að greiða. En auk þess sem hér er um að ræða hlut, sem er ákaflega vafasamur gagnvart íslenzkum lögum, þá er einnig gömul reynsla af því, að á hæli þessu, sem svo er kallað í fjárlögum, hafa, meðan það var rekið, einkanlega verið innheimtar skuldir eins sveitarfélags, þ.e.a.s. Reykjavíkur, og er mjög óeðlilegt, að ríkissjóður borgi sérstaklega kostnað Reykjavíkur við að innheimta barnsmeðlög og að þetta nái að litlu eða engu leyti til annarra sveitarfélaga. En jafnvel þótt svo væri, að hér væri ekki sveitarfélögum landsins mismunað, þá hef ég þegar tilgreint ástæður fyrir því, að rekstur slíkrar stofnunar er í alla staði fráleitur. Með því að fella niður þennan lið mundi ríkissjóði sparast tæplega 1 millj. kr., þ.e.a.s. 900 þús., sem nú eru áætlaðar til rekstrar þessa skuldafangelsis.

Við 13. gr. fjárlaga hef ég leyft mér að gera nokkrar brtt. 13. gr. fjallar aðallega um samgöngumál. Því er raunar svo farið, að allar verklegar framkvæmdir þarfnast nú miklum mun fleiri króna til þess að geta haldið í horfinu heldur en áður var, þar sem kostnaður hefur mjög aukizt, bæði efniskostnaður og kostnaður við notkun véla. Það er vonlaust eftir þær ráðstafanir, sem gerðar hafa verið, að ríkið geti í rauninni haldið í horfinu frá því, sem var fyrir fáum árum, um vegagerð, brúagerð, framlag til hafnarframkvæmda og flugvallagerðar, sökum þess, hve dýrtíðin hefur vaxið. Í þeim efnum hlýtur hið sama að ske hjá ríkissjóði og hjá íslenzkum heimilum, að þar verður að draga saman seglin, einnig í þessum efnum. Þó er það mín skoðun, að með því að gæta hófsemdar á þeim sviðum, sem minna varða í þjóðarbúskap okkar en þessir höfuðþættir, þá væri hægt að afhenda nokkru rýmri fjárhag til vegagerðar, brúagerða, hafnarframkvæmda og flugvallagerðar. Þess vegna hef ég gert nokkrar till. um hækkanir til framlags í þessu efni.

Um nýbyggingu þjóðvega hef ég ekki gert neina brtt., með sérstöku tilliti til þess, að þær 4 millj. kr., sem áætlaðar eru á 20. gr. fjárlaga til samgöngubóta á landi, hafa skv. reynslunni frá s.l. ári að langmestu leyti eða öllu Leyti farið til vegagerðar. Þar með tel ég að til nýbyggingar þjóðvega sé ekki eins brýn þörf á framlagsaukningu og til nokkurra annarra þátta á 13. gr.

Ég hef gert till. um það, að framlag til endurbyggingar þjóðvega verði tvöfaldað, hækki úr 300 í 1600 þús. Þörfin í því efni kallar mjög að, enda eru nú fjölmargir þeir þjóðvegir, sem fyrst voru byggðir, orðnir allsendis ófullnægjandi og úr sér gengnir, enda byggðir fyrir allt önnur farartæki en nú tíðkast og með allt annarri og minni tækni. Þess vegna lít ég svo á, að mikil þörf sé á því að leggja fram aukið fé einmitt til. endurbyggingar á þjóðvegum.

Varðandi brúargerðirnar hef ég gert till. um hækkun, sem samtals á tveim till. nemur rétt rúmum 2 millj. kr. Á framlagi til nýrra brúa hef ég gert till. um 11/2 millj. kr. hækkun eða rúmlega það og til endurbyggingar brúa till. um hækkun, sem nemur 1/2 millj. kr. eða rétt rúmlega það.

Varðandi þessa liði skal það tekið fram, að að þeim samþykktum mundi ég að sjálfsögðu gera nýjar tillögur um skiptingu á einstakar framkvæmdir, en sé ekki ástæðu til þess að gera það að svo komnu, fyrr en séð verður, hvort Alþingi fæst til að hækka þessar upphæðir frá því, sem þær nú eru í tillögum fjvn., sem raunar eru svipaðar eða hinar sömu og í frv.

Þá hef ég gert tillögu um það, að framlag til vegagerðarinnar til kaupa á vinnuvélum verði tvöfaldað eða aðeins rúmlega það frá því, sem í frv. er, og er það í samræmi við tillögur vegamálastjóra, og vitna ég um nauðsyn þess til ræðu hv. formanns n., sem réttilega gat um það, að þörf vegagerðarinnar til endurnýjunar á verkfærum er í rauninni miklum mun meiri en hér er gert að tillögu og auðvitað margfalt meiri en framlagið, eins og það stendur í fjárlagafrv., gefur nokkrum möguleika til að framkvæma.

Lengi hefur staðið á fjárlögum liður einn til vegagerðar, þ.e.a.s. til styrktar steinsteypu eða malbikun á vegum í kaupstöðum. Þetta framlag nemur samkv. fjárlögum 95 þús. kr. og er svo sárlega lítið, að alveg eins væri hægt að fella það niður eins og láta það standa kyrrt, þar sem það er svo óverulegur þáttur í þessum kostnaði, að það getur engum orðið til hvatningar til framkvæmda í þessum efnum, hvað þá að það geti orðið nokkur stoð um greiðslu á framkvæmdum, ef unnar eru. Ég tel þess vegna nauðsynlegt að hækka þetta fjárframlag og hef lagt til, að það verði hækkað upp í eina millj. kr.

Varðandi framlag ríkissjóðs til hafnargerðanna, þá er það ákveðið í lögum, að ríkissjóður á að greiða víssan hluta af hafnargerðarkostnaði, ýmist helming eða 2/5 eftir stærð hafnanna, sem unnið er í. Við þetta framlag hefur ríkissjóður illa staðið á undanförnum árum og safnazt stöðugt hærri upphæð, sem ríkissjóður á vangoldið til hafnargerðanna. Það er í rauninni ekkert annað en afgreiða fjárlög með halla að ætlá ekki fyrir þessum greiðslum. Auk þess er þeim bæjar- eða sveitarfélögum, sem hafnargerðir hafa á prjónunum, sýnd ákaflega mikil ósanngirni með því að draga þau von úr viti á þeim greiðslum, sem þau eigi rétt á, ekki sízt með tilliti til þess, að öll munu þau annast slíkar framkvæmdir fyrir lánsfé, sem nú verður að gjalda af geysiháa vexti, en vextir af lánum til hafnargerða eru aldrei reiknaðir til kostnaðar við hafnargerðirnar að því er varðar framlagsskyldu ríkissjóðs, og kemur vaxtabyrðin — því eingöngu á þau hreppsfélög, sem hafnargerðir hafa á sínum snærum. Ég hef lagt til, þótt það engan veginn komi málunum á réttan kjöl. að hér verði rýmkað örlítið um framlag af hendi ríkissjóðs, þannig að ríkissjóðsframlagið verði hækkað um röskar 2 millj. kr. og verði 151/2 millj, í staðinn fyrir 131/2 millj. kr. eða um það bil., sem það nú er samkv. till. meiri hl. fjvn. eða till. fjvn.

Við 16. gr. fjárlaga hef ég leyft mér að gera örfáar brtt. Sú fyrsta er varðandi framlag til mjólkurbúa og smjörsamlaga. Um það framlag gegnir um ýmsa hluti svipuðu máli og um framlag til hafnargerða, að í lögum um framleiðsluráð er ákveðið að ríkissjóður skuli greiða vissan hluta af stofnkostnaði mjólkurbúa. Við þetta hefur ríkissjóður illa staðið og liggur fyrir nokkur skuld af hans hálfu til þeirra, sem mjólkurbú hafa reist, og sérstaklega er það mjög bagalegt fyrir þá, sem nú hafa í hyggju eða eru rétt að byrja á framkvæmdum í þessa átt. Nú er svo ástatt í þó nokkrum sveitum landsins, að þar verður beinlínis að stofna til mjólkurframleiðslu frekar en verið hefur og þar af leiðandi reisa ný mjólkurbú, en þeir, sem að þeim framkvæmdum standa, geta, eins og nú standa sakir, ekki gert sér vonir um að fá ríkissjóðsframlagið greitt fyrr en seint og síðar meir, og er það þess vegna mjög tilfinnanlegt og ekki sízt fyrir það, að í öllum tilfellum, þar sem þetta á við, eiga í hlut fátækir bændur, sem verða beinlínis að taka dráttinn á ríkisframlaginu sem beina kjaraskerðingu, annaðhvort með því að geta ekki komið við þeirri framleiðslu, sem þeim væri hagkvæmust, eða með því að borga óeðlilega hátt verð fyrir flutninga á sínum afurðum. Ég hef þess vegna lagt til, að framlagið til mjólkurbúa og smjörsamlaga verði hækkað úr 95 þús. í 2 millj., og er það í samræmi við útreikninga framleiðsluráðs á því, hver þörfin sé.

Þá hef ég gert tillögur um það, að liðirnir leit nýrra fiskimiða og tilraunir til nýrra síldveiðiaðferða verði styrktir af ríkissjóði með tvöföldu því framlagi, sem fjárlög gera ráð fyrir, eða rétt um það bil. Nemur þessi hækkun, sem ég hér hef gert, nokkuð á 4. millj. kr. Um nauðsynina á þeim hlutum þarf hér ekki langt að ræða. Hún er öllum landsmönnum kunnari en svo. Það hefur verið bent á það, að sérstaklega á togarafloti landsmanna nú í nokkrum örðugleikum, vegna þess að afli hefur ekki verið svo góður sem vænta hefði mátt. Svo var einnig komið á árinu 1957. En með því að þá var hafin mjög skipuleg og stórfelld leit nýrra fiskimiða, þá tókst að finna ný fiskimið, sem björguðu togaraflotanum, og ekki einasta togaraflotanum, heldur þjóðarbúinu að verulegu leyti, og færðu því mjög mikla björg í bú á árunum 1958 og 1959, og raunar hefur þess gætt fram á þetta ár, þótt nú sé tekið að daprast á þeim miðum og nauðsynin á því, að enn ný mið verði fundin, sé máske brýnni nú en nokkru sinni áður.

Á 17. gr. fjárlaga hef ég gert tillögu um, að framlagið til orlofsheimilis verkalýðssamtakanna verði hækkað úr 475 þús. í 1 millj. kr. Það er alkunna, að kaup manna er nú orðið svo lágt miðað við verðlag, að fjöldi manns hefur bjargað sér til þessa á því að leggja á sig aukna vinnu, vinna von úr viti, miklu lengur en venjulegan og lögákveðinn vinnudag. Þótt ýmsir séu nú þeir, sem ekki eiga þess lengur kost sökum rýrnandi atvinnu í landinu, má þó enn gera ráð fyrir því, að þetta verði helzta leið fjölda íslenzkra manna til þess að hafa í fjölskyldu sína og á. En að sjálfsögðu kallar það enn frekar en nokkuð annað á orlofs- og hvíldarheimili fyrir verkafólk, að svo langur vinnudagur skuli hér vera almennur sem raun ber vitni, og þess vegna tel ég, að þjóðfélag, sem stöðugt þrengir nú að hagsmunum sinna vinnandi manna og neyðir þá til þess að vinna óhóflega lengi, ætti þó að sýna þá litlu viðleitni í að koma til móts við þeirra þarfir að leggja fram sæmilega skammlaust framlag til orlofsheimilis þess, sem verkalýðsfélögin nú undirbúa að reist verði og rekið.

Ég er þá kominn að 19. gr. fjárlaga, og við hana hef ég gert aðeins eina brtt., en það er sú till., sem raunverulega er hugsuð sem fyrirskipun Alþingis til ríkisstjórnarinnar um, að hún skuli, eins og aðrir þegnar þessarar þjóðar, verða að sýna nokkurn sparnað. Till. er á þá lund, að þar verði ákveðið, að 10% lækkun skuli fram fara að meðaltali á öllum liðum 10. og 11. gr. fjárlaga, en það eru stjórnarráðið, utanríkisþjónustan, dómgæzlan, lögreglustjórnin, tolla- og skattastofnanir, að einum lið þó undanskildum, 19. lið 11. gr. A. landhelgisgæzlunni, hún megi haldast óbreytt, — en á öðrum liðum skuli að meðaltali spara 10%. Sá sparnaður, ef framkvæmdur yrði, mundi nema 11 237 525 kr. Ég hef áður farið nokkrum orðum um það, að ekkert er sanngjarnara en að Alþ. samþykki slíka till., eins og allt er í pottinn búið um fjárreiður þjóðarinnar, um fjárreiður ríkissjóðs og um fjárreiður almennings í landinu.

Þá hef ég að lokum á þskj. 164 gert till. til breyt. á 20. gr., um það, að flugvallagerð verði hækkuð um 2 millj. og fjórðung milljónar að auki og breytist úr 8 millj. 720 þús. í 11 millj. Það er sömuleiðis lítill vandi að rökstyðja það, að flugsamgöngurnar þurfa mjög á þessu að halda, og vitna ég enn til þess, sem hv. formaður fjvn. réttilega sagði um þær framkvæmdir, þar sem flugið er síðar til komið en aðrir þættir þeirra samgangna, sem við nú búum við, og mannvirki til flugvallagerða komu seinna til sögu en vegagerð, brúagerð og hafnagerð og þar af leiðandi kallar örar að, að fram sé lagt fé til flugvallagerðanna, heldur en nokkurra annarra samgangna á Íslandi, eins og þróunin hefur nú verið að undanförnu, og ekki er sýnilegt, að þar sé á nein breyting.

Ég vil svo að lokum geta þess í sambandi við Þær brtt., sem ég geri, að auk þeirra brtt., sem ég hef lagt fram á þskj. 164 sem fulltrúi Alþb. í fjvn., þá hef ég leyft mér að gera á öðru þskj., sem reyndar er ekki komið, ásamt fleiri þm., till. til breyt. á 22. gr., þess efnis, að ríkisstj. verði heimilað að taka allt að 25 millj. kr. lán til að ljúka undirbúningi og hefja framkvæmdir við brúargerð í Óseyrarnesi yfir Ölfusá. Sú brúargerð er hv. þm. ekki allsendis ókunnug, þar sem um það hafa verið bæði á síðasta þingi og einnig nú gerðar tillögur af hálfu nokkurra stuðningsmanna ríkisstj., að þeirri brúargerð verði hraðað. Hins vegar hefur af þeirra hálfu ekki verið gerð nein till. um það, að ríkisstj, fengi heimild til þess að afla sér fjár til þeirrar brúargerðar. Er þó augljóst mál, að fé til hennar verður ekki tekið, svo að að verulegu gagni sé, innan þess ramma, sem hin almenna brúagerð hefur yfir að ráða. Það hefur verið áætlað, að þessi brú mundi kosta um 50 millj. kr. og sjálfsagt ögninni meira með núgildandi verðlagi, og þykir því rétt, að ríkisstj. eigi þess kost, ef hún vill fara eftir þörfum þess fólks, sem mjög þarf á þessari brú að halda, en það eru aðallega þeir, sem búa á Stokkseyri og Eyrarbakka og í Þorlákshöfn, og enn fremur þeir, sem flytja vörur austur á bóginn um Suðurlandsundirlendið frá Þorlákshöfn, — ef ríkisstj. vildi koma til móts við þarfir þessa fólks og jafnframt uppfylla óskir þeirra stuðningsmanna sinna, sem hér hafa gert tillögur í þessa átt, þá leyfum við þm. Sunnl. í stjórnarandstöðunni okkur að lofa atfylgi okkar til þess, að slík heimild fáist og framkvæmd geti hafizt. En ekki breytir sú till. niðurstöðum fjárlagafrv., sem hér liggur fyrir.

Þær brtt., sem ég hef gert, eru bæði um sparnað og um aukin framlög. Sparnaðartillögurnar nema alls 18 700 181 kr. En þær tillögur, sem ég hef gert um aukin framlög, nema 18 060 200 kr. Ég hef því gert tillögur á þskj. 164, sem, ef samþykktar yrðu, mundu bæta fjárhag ríkissjóðs um 639 981 kr. Þykir mér rétt að gera grein fyrir heildarniðurstöðum tillagnanna.

Varðandi þær tillögur, sem sýnt er að samþykktar verða og upplýst er að muni valda 85–90 millj. kr. hækkun á fjárlögum ársins 1961 frá fjárlögum þessa árs, vil ég taka fram, að ef þeim væri jafnað niður sem nefskatti á þjóðina, þá þyrfti hvert mannsbarn að borga nú á næsta ári 500 kr. til að standa undir útgjaldaaukningu ríkissjóðs. Það eru 2500 kr. á hverja fimm manna fjölskyldu. Enginn skyldi ætla, að ekkert munaði um þessi nýju útgjöld. Ef við svo athugum, á hvers konar fólk þessi útgjöld eru lögð, þá er okkur vert að gera okkur grein fyrir því, að íslenzk alþýða, þ.e.a.s. þorrinn af íslenzku þjóðinni, er nú eftir nokkurra mánaða viðreisn komin niður á gamla fátæktarstigið og sér nú fram á rýrnandi atvinnu. Hér er þess vegna ekki um neitt hégómamál að ræða. Hér segir það lítið fyrir það fólk, sem af sinni fátækt á að greiða þessa gjaldaaukningu, þó að tillögunum um hana fylgi sparnaðaráætlun í 23 liðum um það, hvað gera á einhvern tíma í framtiðinni, ég tala nú ekki um, ef efndirnar á þeim sparnaði ættu að verða eitthvað í stíl við það, sem talað var um við afgreiðslu síðustu fjárlaga og allt gekk úrhendis. En þótt svo sé farið að sem hér er áætlað, þá er mikill vafi á því, að hér séu raunhæf fjárlög lögð fyrir. Ég fyrir mitt leyti hef mikinn grun um það, að ef ég og minn flokkur hefðum lagt fyrir svona fjárlög; þá hefðu þeir orðið ýmsir, sem staðið hefðu upp og talað um, að hér væri ekki með ábyrgum hætti staðið að málum. Þessu til sönnunar vil ég benda á það, að tekjuáætlun meiri hl. fjvn. er í ósamræmi við það, sem efnahagsmrn. áætlar, og skakkar þar nokkrum milljónatugum. Í öðru lagi er vitað, að ríkisstjórn Íslands hefur lofað að framkvæma útgjöld, sem hljóta að verulegu leyti að lenda á ríkissjóði. Á ég þar fyrst og fremst við loforð ríkisstj. um það að greiða að fullu öll vátryggingariðgjöld fiskiskipaflotans íslenzka fyrir árið 1960. Ég veit ekki, hversu hárri upphæð þessi iðgjöld nema, og á ég þar það sammerkt með ríkisstj. Íslands, hún veit það ekki heldur og vissi það ekki, þegar hún lofaði því. En það hafa fróðir menn áætlað, að þessi útgjöld mundu nema 90–100 millj. kr. Taldar eru miklar líkur til þess, að útflutningssjóður sá, sem ríkisstj. hingað til hefur talið að væri algerlega á hausnum og raunar réttlætt flestar sínar álögur á þjóðina með því, að útflutningssjóður væri með slíkum halla, nú eru taldar líkur til þess, að útflutningssjóður geti borgað eins og 40 millj. af þessari upphæð, sem ríkisstj. hefur lofað. Ekki hefur verið sýnt fram á það neins staðar mér vitanlega, að ríkissjóður geti komizt hjá því að lenda í ábyrgð fyrir þessu loforði ríkisstj., og verður það þá rétt ein ríkisábyrgðin, sem heldur hefur verið óvarlega tekin. Ég hefði talið, að óvarlegt væri að ætla, að ríkissjóður slyppi við að borga svo sem eins og 50 millj. kr. út á þetta loforð ríkisstj. En við það bætist, að þetta loforð var gefið útvegsmönnum í s.l. mánuði, vegna þess að þeir sáu ekki fram á, að það væri neinn rekstrargrundvöllur fyrir sjávarútveginn á næsta ári. Engan veginn getur þó þessi greiðsla af almannafé gert neitt annað en að stoppa dálítið í það gat, sem á rekstrarafkomu sjávarútvegsins varð á yfirstandandi ári. Enn er með öllu ófundinn rekstrargrundvöllur fyrir sjávarútveginn á næsta ári. Og hvað sem ríkisstj. kann að segja um það nú við afgreiðslu þessara fjárlaga, hvort hún hefur í hyggju að gefa út álíka víxilblöð og hún gerði, þegar hún lofaði greiðslu vátryggingariðgjaldanna, eða ekki, þá er næsta ólíklegt, að útgerð geti hafizt um næstu áramót, nema til komi veruleg framlög úr ríkissjóði til viðbótar því, sem þegar er á hann fallið. Ekkert er áætlað fyrir þessu í fjárlagafrv., sem hér liggur fyrir.

Hér hefur einnig verið upplýst, að verðbætur á útfluttar landbúnaðarafurðir eru vanreiknaðar í frv., svo að nemur fram undir einum tug milljóna.

Þá hefði ýmsum framsýnum ríkisstjórnum þótt vert, áður en þær afgreiddu fjárlög, að leiða hugann að því, að A.S.Í. og Bandalag starfsmanna ríkis og bæja eru bæði nýlega búin að halda þing sín. Á þingi Alþýðusambandsins var það staðfest, að verkalýðsfélögin mundu gera kaupkröfur á árinu, sem nema mundu 15–20% hækkun á almennu kaupgjaldi. Bandalag starfsmanna ríkis og bæja var nokkru róttækara og samþykkti á sínu þingi, að ríkisstarfsmönnum væri ólíft í starfi sínu, nema til kæmi a.m.k. 20–25% kauphækkanir. Ég veit ekki, hvað ríkisstj. Íslands hugsar um þessar kröfur, en óvarlegt mun það hverri ríkisstj. að gleyma því alveg, að það sé til fólk í landinu, en því virðist þessi ríkisstj. hafa gleymt. Hún man það hins vegar, að það eru til einhverjar krónur, og í þær ætlar hún að ná, á því byggir hún fjárlögin sín, og hún segist ekki ætla að hafa fjárlögin með halla. Eftir er að sjá, hver verður framkvæmdin. Það færi betur, að íslenzka þjóðarbúið slyppi óskaddað út úr þessari fjárlagaafgreiðslu og út úr þeirri fjárlagastjórn, sem fyrirhuguð er samkv. því, en því miður verð ég að játa það, að ég er uggandi um hag íslenzku þjóðarinnar, að því er þetta varðar.