10.03.1961
Efri deild: 70. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 199 í C-deild Alþingistíðinda. (1911)

22. mál, sveitarstjórnarkosningar

Ólafur Jóhannesson:

Herra forseti. Ég vildi leyfa mér að benda á það í sambandi við þetta mál, að þar er gert ráð fyrir breyt. á lögum um sveitarstjórnarkosningar, þ.e.a.s. lögum nr. 81 frá 1936. Þessi ákvæði, sem lagt er þarna til að breyta, eru nú tekin upp í sveitarstjórnarlagafrv., sem þessi hv. d. hefur þegar afgr. frá sér og er, að því er ég bezt veit, á síðasta stigi málsmeðferðar í Nd., þannig að mér virðist nokkuð seint að fara að breyta þessum lögum hér, þegar þau eru í þann veginn að falla niður með öðrum lögum.

Hitt er svo einnig annað mál, að þessi breyt., sem þetta frv. gerir ráð fyrir, gengur í þveröfuga átt við það, sem þessi hv. d. samþ. í sambandi við afgreiðslu sveitarstjórnarlagafrv., en það var samþ. hér í þessari hv. d. inn í frv., að eftir sem áður skyldi það vera skilyrði fyrir kosningarrétti og kjörgengi í málefnum sveitarfélaga, að menn skyldu hafa óflekkað mannorð. Að sjálfsögðu getur þessi hv. d. horfið frá sinni afstöðu í því efni. En ég taldi hins vegar rétt að benda á þetta, svo að það færi örugglega ekki fram hjá neinum, hvað hér væri að gerast, því að ég dreg í efa, að það yrði talið bera vott um vandleg vinnubrögð hjá þessari hv. d., ef hún léti þetta þannig frá sér fara, án þess að því fylgdi nokkur aths.

Um efnishlið þessa máls skal ég ekki fjölyrða. Það geta verið skiptar skoðanir um það, hvort það er heppilegt að hafa þetta skilyrði eða ekki. Um það má lengi deila. Ég heyrði þau rök, sem hv. frsm. benti á, sem voru efnislega á þá lund, að mér fannst, að það væri ekki svo hættulegt, þó að dómfelldir menn væru kjörgengir, því að kjósendum væri það þá fjandans mátulegt, ef þeir kysu slíka menn. Það má vel vera, að það sé ekki neitt hættulegt, þó að þeir standi á kjörskrá og væru kjörgengir, — ég skal ekkert segja um það, — en ég fyrir mitt leyti tel það ekki viðkunnanlegt. En aðalatriðið var þetta, að ég vildi benda á þessa formshlið málsins, sem mér finnst vera ábótavant og þyrfti að takast til athugunar fyrir 3. umr., hvort þetta frv. á að vera með. Mér skilst, að í öllu falli eigi þetta frv. niður að falla. En ef menn eru efnislega á þeirri línu, sem það er byggt á, þá á að breyta aftur ákvæðinu í frv. um sveitarstjórnarlög.

Það má segja, að ég hefði átt að benda á þetta í þeirri n., sem um þetta mál fjallaði, vegna þess að ég á þar sæti. En eins og nál. ber með sér, var ég ekki á þeim fundi, þar sem mál þetta og öll þessi mál, sem hér liggja fyrir, voru afgreidd. Mér þykir það miður. Ég veit ekki til þess, að mig hafi vantað yfirleitt á fundi allshn. hingað til, og ég man ekki til þess og kannast ekki við það að hafa fengið fundarboð um þennan fund, en þó vil ég ekki vefengja það, ef einhver, sem boðað hefur hann, segir það. En það er ástæðan fyrir því, að ég kom ekki fram með þessa aths. við þetta mál þar. Um leið vil ég láta þá aths. fylgja frá mér með öllum þessum frv., sem hér eru afgr., að þau hefðu þurft rækilegri athugunar við og ég tel ekki viðeigandi vinnubrögð hjá hv. Alþingi að afgr. svona mörg frv. með þeim hætti, sem hér er gert, með einu stuttu nál., sem segir ekki neitt og á að fjalla um þessi frv. öll. Hér er óneitanlega í mörgum tilfellum um talsvert þýðingarmikil mál að ræða, sem þurft hefði að mínu viti að athuga sérstaklega hvert út af fyrir sig, því þó að ég sé út af fyrir sig meðmæltur breyt. á hegningarlögunum, þá er síður en svo, að af henni þurfi nauðsynlega að leiða alla þessa fylgifiska.