17.10.1960
Neðri deild: 5. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 216 í C-deild Alþingistíðinda. (1921)

44. mál, áburðarverksmiðja

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Það er ýmislegt, sem hlýtur að koma til athugunar í sambandi við þetta stjórnarfrv., sem hér liggur fyrir. Í 1. gr. er gert ráð fyrir, að ríkisstj. fái heimild til að veita áburðarverksmiðjunni einkaleyfi til innflutnings á tilbúnum áburði. Og um leið er þá ráð fyrir því gert, að Áburðarsala ríkisins hætti störfum. Þetta mál var nokkuð rætt á síðasta þingi, og þá komu fram raddir um það, að ef Áburðarsala ríkisins yrði lögð niður, þá væri eðlilegt að gefa áburðarverzlunina frjálsa. Þetta er atriði, sem hlýtur því eð koma til álita nú í sambandi við þetta mál, ef á annað borð verður hnigið að því ráði að leggja niður þá einkasölu, sem nú er á áburði.

Í 2. gr. eru svo ákvæði um fyrningarafskriftir, og þar er alveg nýmæli á ferð, eins og þegar hefur verið bent á af öðrum, sem hlýtur að þurfa að athugast mjög vel, áður en í lög verður tekið.

En það er fleira, sem ástæða er til að athuga í sambandi við þetta mál. Það liggur fyrir, virðist mér, og var reyndar ljóst á síðasta þingi, þegar við fengum í hendur reikninga Áburðarverksmiðjunnar h/f fyrir næstliðið ár, að þeir, sem keyptu áburð hjá verksmiðjunni á því ári, árinu 1959, eiga raunverulega inni stórar fjárhæðir hjá fyrirtækinu, vegna þess að þeir hafa verið látnir greiða hærra verð fyrir áburðinn en rétt og löglegt var. Í l. um áburðarverksmiðju segir, að hún skuli selja áburðinn við kostnaðarverði, sem verksmiðjustjórn á að áætla og ákveða fyrir vissan tíma ár hvert. Og það eru fyrirmæli um það í lögunum, að í hinu áætlaða kostnaðarverði skuli reikna með nauðsynlegum og lögákveðnum tillögum í fyrningarsjóð og varasjóð verksmiðjunnar. Nú er það ljóst af þessum reikningum og hefur verið tekið fram hér af hv. síðasta ræðumanni, hv. 3. þm. Reykv., að við síðasta reikningsuppgjör hjá fyrirtækinu hafi verið reiknaðar miklu hærri fyrningarskriftir en löglegt er Mér sýnist því, að eðlilegast væri, að þess yrði krafizt, að fyrningarsjóður verksmiðjunnar endurgreiddi það, sem hann fékk umfram það, sem vera átti lögum samkv., og að þessu fé verði skilað til bænda og annarra viðskiptamanna verksmiðjunnar, sem greiddu hærra verð fyrir áburðinn en löglegt var. Það hefur verið tekið af þeim þarna fé, sem var ekki heimilt að taka lögum samkvæmt, og sett í fyrningarsjóðinn. Þetta er eitt atriði, sem hlýtur að koma til kasta þingsins að kveða á um einmitt í sambandi við þetta mál.