17.10.1960
Neðri deild: 5. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 217 í C-deild Alþingistíðinda. (1922)

44. mál, áburðarverksmiðja

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Hv. 3. þm. Reykv. flutti hér langa ræðu, sem var ósköp svipuð því, sem var á síðasta þingi. En hv. 1. þm. Norðurl. v. talaði nú öðruvísi en þá, þar sem hann fer nú að taka undir með hv. 3. þm. Reykv. um, að það hefði verið lögbrot að afskrifa í áburðarverksmiðjunni eins og gert var s.l. ár, að bændur eigi kröfurétt á áburðarverksmiðjuna um endurgreiðslu á því, sem þeir hafa ofborgað áburðinn. Það verður að ætlast til þess, að báðir þessir hv. þm. láti sér ekki nægja það að vera hér að tala um lögbrot, falsaða reikninga og annað þess konar. Það verður þá um leið að gera kröfur til þeirra, að þeir fylgi þessu fram utan þingsalanna og láti þá sæta ábyrgð, sem lögbrotin hafa framið. Mér finnst ekki óeðlilegt, að hv. 1. þm. Norðurl. v. haldi þessari kröfu til streitu fyrir bændanna hönd, ef brotin hafa verið lög á þeim og þeir látnir greiða of mikið. Og er þá rétt, að úr því verði skorið fyrir dómstólum, hvort hér er um lögbrot að ræða eða ekki. Það er dálítið alvarlegt, enda þótt maður sé nú farinn að venjast ýmsu, þegar hv. alþm. lýsa því yfir hér frá ræðustóli, að reikningar í opinberu fyrirtæki hafi verið falsaðir, að lögbrot hafi verið framin. Það er alvarleg ádeila á hendur stjórn fyrirtækisins að halda slíku fram. Vera má, að þessir menn séu orðnir svo vanir fullyrðingunum úr sínum eigin munni, að þeir geri sér ekki grein fyrir því, hvað þetta í rauninni gildir.

Hv. 3. þm. Reykv. sagði hér áðan, að hann vonaðist til, að ég gæfi skýringar á því, Hvernig reikningar áburðarverksmiðjunnar fyrir s.l. ár hefðu verið settir saman, að ég gerði svo vel að biðjast afsökunar á því, að reikningarnir hefðu verið falsaðir. Ég gaf skýringu á því, hversvegna þessar afskriftir voru látnar fram fara fyrir s.l. ár. Stjórn áburðarverksmiðju ríkisins leitaði til lögfræðings síns, sem er prófessor við Háskóla Íslands, bar það undir hann, hvort það rúmaðist innan laganna um Áburðarverksmiðjuna h/f að miða afskriftirnar ekki við upphaflegt kostnaðarverð, heldur við endurnýjunarverðið. Það var einnig borið undir ráðuneytisstjórann í atvmrn. Báðir þessir menn, sem eru lögfræðingar af fyrstu gráðu, fullyrtu, að þetta væri heimilt, fullyrtu, að andi laganna væri þannig, að túlkun þeirra samrýmdist þessu ákvæði, vegna þess að löggjafinn hefði ætlazt til, að áburðarverksmiðjan gæti endurnýjað sig, og þegar kostnaðarverð verksmiðjunnar er aðeins 130 millj., en endurnýjunarverðið 245 millj. eða sennilega meira, þá er ekki nægjanlegt að miða við upphaflega kostnaðarverðið, heldur verandi kostnaðarverð, ef Íslendingar ætla sér að hafa áburðarverksmiðju ekki aðeins í dag, heldur einnig eftirleiðis. Afskriftirnar fyrir s.l. ár voru ekki fullkomlega miðaðar við endurnýjunarverðið. Það hefði þurft að afskrifa meira til þess að miða við núverandi kostnaðarverð. Ég get ekki sagt annað í sambandi við það, þegar talað er um, að stjórn áburðarverksmiðjunnar hefi falsað reikningana, hafi framið lögbrot, ekki afsakað stjórn áburðarverksmiðjunnar með öðru en því, að hún leitaði til færustu lögfræðinga og hagaði sínum gerðum eftir því, sem þeir álitu vera löglegt. Þegar talað er um, að reikningarnir hafi verið falsaðir, þá er ekki um annað að ræða fyrir stjórn áburðarverksmiðjunnar en upplýsa, að það eru tveir kjörnir endurskoðendur fyrir fyrirtækið, sem endurskoða reikningana, og þar að auki mjög fær og viðurkenndur löggiltur endurskoðandi, sem einnig endurskoðaði reikningana. Stjórn áburðarverksmiðjunnar taldi þess vegna, að hún hefði tryggt, að allt færi vel og löglega fram, og ég er sannfærður um, að þessir tveir lögfræðingar, sem ég hef minnzt á, eru það vandir að virðingu sinni, að þeir fullyrða ekki það, sem kann að vera vafaatriði.

Hv. 3. þm. Reykv. mun hins vegar ekki taka sönsum. Hann talaði um það hér áðan, hvort ríkisstj, hafi athugað frv., sem hann flutti í fyrra og var vísað til ríkisstj. Vissulega hefur þetta frv. verið athugað. En það þarf ekki að spyrja að því, að ríkið á meiri hlutann í verksmiðjunni. Ríkið á 3/5 hluta af hlutabréfunum, og einstaklingar og fyrirtæki eiga ekki nema 2/5 af hlutabréfunum í verksmiðjunni. Um þetta þarf ekki að spyrja. Um það, hvort ríkið á alla verksmiðjuna eða ekki, getur hv. þm. spurt. En hvernig á að fara að því að gefa honum fullnægjandi svar? Við skulum segja, að ríkisstj. leitaði til lögfróðra manna, færustu manna, t.d. þessara tveggja, sem ég áðan nefndi, eða annarra, og þeir felldu úrskurð, sem stæði ekki heima við skoðanir hv. þm. Til hvers væri það? Hv.3. þm. Reykv. mundi ekki sætta sig við þann úrskurð.

Eigi að síður finnst mér koma vel til greina að gera það. En það hjálpar ekki þessum hv. þm. Ef sá úrskurður verður honum ekki í vil, þá mun hann segja: Þetta er alls ekki rétt. Það eru lögbrot að segja, að hluthafarnir eigi minni hl. í verksmiðjunni. — Því skyldi hann ekki geta sagt það, þó að færustu menn væru búnir að úrskurða í þessu máli, úr því að hann leyfir sér að fullyrða hér úr ræðustól, að stjórn áburðarverksmiðjunnar hafi falsað reikninga fyrirtækisins fyrir s.l. ár og hafi brotið lög, enda þótt hún hafi farið að ráðum færustu manna í þessum efnum, færustu lögfræðinga í landinu?

Í sjálfu sér er það tilgangslaust að vera að þrátta við menn, þegar þeir stilla sig á það stig, sem þessi hv. þm. gerir alltaf, þegar hann ræðir um áburðarverksmiðjuna. Mér leiðist það, vegna þess að þessi hv. þm. er almennileg heitamaður fyrir utan það, þegar hann er hér í pontunni með fullyrðingar. Þá er það leiðinlegt, að hann skuli hvað eftir annað vera að mannskemma sig á þessum stóru fullyrðingum. Hann talar um þjófnað, falsanir og lögbrot, sem á ekki við neitt að styðjast. Hann talar um, að með þessu frv., sem við erum nú að ræða hér um, sé verið að gera tilraun til þess að koma áburðarsölunni í hendur einstaklinga. Hvað er það, sem frv. fer fram á? Það er, að áburðareinkasalan verði lögð niður til þess að spara milliliði, til þess að spara kostnað, fer fram á að fela áburðarverksmiðjunni sölu á áburðinum, —áburðarverksmiðjunni, sem ríkið á þó alla vega meiri hluta í og hefur alltaf tögl og hagldir í því fyrirtæki.

Það er ástæðulaust fyrir hv. þm. að vera sí og æ að tala um áburðarverksmiðjuna sem eitthvert fjárplógsfyrirtæki til handa einhverjum einstaklingum. Hefur verið dregið fé út úr þessu fyrirtæki? Hafa þeir einstaklingar eða félög, sem hafa lagt fé í áburðarverksmiðjuna, hagnazt á því? Það er fyrst árið sem leið, sem hafa verið greiddir vextir af hlutabréfunum, 6% samkv. lögum. Öll þau ár, sem verksmiðjan hefur starfað, hafa hluthafarnir gert sér það að góðu að fá enga vexti af hlutafénu. Er þá fjárplógsstarfsemi að lána fyrirtækinu þannig fé án vaxta? Er það fjárplógsstarfsemi að gera ráðstafanir til þess, að jafngott fyrirtæki sem áburðarverksmiðjan er og nauðsynlegt fyrirtæki geti endurnýjað sig, geti keypt vélarnar, enda þótt þær hafi hækkað í verði? Væri það þjóðhollusta að reka fyrirtækið þannig, að við eftir nokkur ár vöknuðum við það, að við ættum ekki áburðarverksmiðju, sem væri nothæf ?

Mér finnst mál þetta liggja svo í augum uppi, að það er undarlegt, að skynsamir menn skuli taka slíka afstöðu sem hv. 3. þm. Reykv. hefur gert, að hann skuli ekki þreytast á því að stagast á þessum fullyrðingum sínum sí og æ og ár eftir ár, tala um það sem einhvern voða, ef áburðarverksmiðjan gæti byggt sig upp, gæti endurnýjað vélarnar, jafnóðum og þær bila. Ég skil ekki, hvað hann meinar. Hann þjónar ekki hagsmunum verkamannanna, sem vinna í áburðarverksmiðjunni, eða bændanna, sem kaupa áburðinn, með þessu tali. Það, sem bændurnir munu spyrja um, er það, hvort þeir geti fengið áburð með hagstæðu og góðu verði. Það hafa þeir fengið. Kjarnapokinn frá áburðarverksmiðjunni hækkaði að vísu um 10 kr. á s.l. vori frá því, sem hann var árið áður. Það má segja, að það hafi verið tilfinnanleg hækkun fyrir bændur, vegna þess að kaupgeta þeirra er takmörkuð, en það var ekki mikil hækkun miðað við það, sem hefði þurft, ef óskynsamlega hefði verið haldið á þessu máli. Og verkamennirnir við áburðarverksmiðjuna munu einnig spyrja að því: Verður haldið þannig á málum áburðarverksmiðjunnar, að það sé tryggt, að við höfum þarna stöðuga og góða atvinnu. Ég vænti þess, að sá andi ríki hjá starfsmönnum áburðarverksmiðjunnar, að þeir treysti því, að þeim sé atvinnulega séð borgið með því að hafa komizt í starf hjá áburðarverksmiðjunni. Sannarlega er það ekki nema ánægjulegt, ef það mætti takast að hækka kaup við þá, sem þar vinna, eins og aðra launþega í landinu, og bæta kjör bændanna. Ég skal fúslega, hvenær sem er, stuðla að því og þiggja aðstoð þessa hv. þm., ef heppilegt þykir. En við gerum það ekki, nema í landinu megi byggja upp heilbrigðan atvinnurekstur. Við bætum ekki kjör verkamannanna með því að láta þá fá fleiri krónur, nema þær geti haldið gildi sínu um leið.

Ég gæti nú, þar sem hv. þm. var áðan að tala um það, sem af verkamönnum og bændum var tekið á árinu 1959 og 1960, minnzt á, hvað af sömu aðilum var tekið á árinu 1958, og rökstutt það. Það, sem hefur verið gert á árunum 1959 og 1960 í kaupgjalds- og atvinnumálum til viðreisnar og viðréttingar, varð að gera vegna þess undirbúnings, sem hv. 3. þm. Reykv. var riðinn við á árunum 1957 og 1958. Bændur og verkamenn hafa oft spurt að því, hvernig hagur þeirra væri í dag, ef haldið hefði verið áfram á braut vinstri stjórnarinnar, — þeirri braut, sem var mörkuð og farin 1957 og 1958, þegar hv. 3. þm. Reykv. hafði tækifæri til þess að hafa áhrif á stjórn landsins og efnahagsmál. Bændur og verkamenn hafa oft spurt að því. Og svörin liggja skýrt fyrir. Þeir hafa spurt að því, hvort hagur þeirra hafi verið bættur á þessu tímabili? Svörin liggja skýrt fyrir, að á þessu tímabili var grafið undan heilbrigðu efnahagslífi, kjör verkamanna og bænda hafa aldrei versnað meira en á þessum árum, og þeir erfiðleikar, sem nú er við að stríða, eru arfur frá þessum tíma, sem núverandi stjórnarflokkar hafa tekið að sér að leysa, og munu leysa, vegna þess að þeir, sem mörkuðu óheillastefnuna, gáfust upp, stukku á flótta frá erfiðleikunum.