25.10.1960
Neðri deild: 10. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 246 í C-deild Alþingistíðinda. (1931)

50. mál, bann gegn vinnustöðvun íslenskra atvinnuflugmanna

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Hv. 1. þm. Austf. talaði um það, að þetta yrði sennilega eina umr. um málið hér í d. Það var nú tekið út af dagskrá í gær eftir hans beiðni, vegna þess að hann vildi hafa tækifæri til þess að flytja þá ræðu, sem hann flutti hér núna, og skal ég ekkert til þess taka, það var vitanlega sjálfsagt af hæstv. forseta að verða við þeirri beiðni. En út af þeirri fullyrðingu hans, að þessi lög, brbl., hafi ekki meiri hluta hér í hv. Alþ., vil ég benda á, að það eru enn 4 virkir dagar til 1. n. m., og það er enn tækifæri til þess að reyna á það hér í hv. Alþ., hvort meiri hluti er fyrir lögunum, ef hv. stjórnarandstaða vill takmarka ræðutímann.

Ég held, að það sé dálítið hæpið fyrir hv. þm. að koma með svona fullyrðingar, eins og hann gerði, fsp. um það, hvort ég hafi tryggt mér alla Alþýðuflokksmenn í þessu máli. Ég hef ekki annað að segja um það heldur en það, að ríkisstj. öll var samþykk því, að þessi lög yrðu gefin út, og ég hef þess vegna rökstudda ástæðu til þess að ætla, að það sé þingmeirihluti á bak við lögin.

Hv. 1. þm. Austf. var að tala um, að ég hefði verið með storkunaryrði í garð flugmanna. Ég geri ráð fyrir því, að aðeins hann einn hér í d. hafi skilið orð mín á þann veg. Ég fór þvert á móti miklu fremur viðurkenningarorðum um okkar ágætu flugmenn og hef ætíð gert, enda eiga þeir ekki annað skilið. Ég tók það skýrt fram, að það muni ekki hafa verið ætlun þeirra, að það kæmi til verkfalls, að þeir hafi boðað verkfallið í trausti þess, að það næðust samningar. En það náðust ekki samningar, og aðeins þegar það var ljóst, að ekki náðust samningar, gaf ríkisstj. út þessi lög.

Bæði hv. þm. Hannibal Valdimarsson og hv. 1. þm. Austf. fullyrða það hér áðan, að ríkisstj. hafi svikið stefnu sína, sem er sú, að launþegar og atvinnurekendur semji á frjálsum grundvelli sín á milli, að ríkisstj. hafi svikið það með þessum lögum. Það er alveg dæmalaus fullyrðing. Hún er svo vitlaus, að hún er alls ekki frambærileg hér í, þessum sal. En þessir hv. þm. leyfa sér ýmislegt, þegar þarf að grípa til þeirra vitlausu raka, sem þeir vilja fram halda, til þess að geta eitthvað sagt. Ríkisstj. gefur ekki þessi lög út, fyrr en útséð er um, að það náist ekki samningar, fyrr en það er útséð og þaulreynt, að vinnuveitendur og launþegar ná ekki samningum. Vissulega var þessi réttur fyrir hendi hjá flugfélögunum og hjá launþegunum. En samkomulag .náðist ekki, og lögin voru gefin út til þess að firra vandræðum.

Ég lét að því liggja hér áðan, að þessi lög hafi að því leyti ekki verið mikið á móti skapi flugmannanna, þar sem þeir vildu heldur vinna fyrir óbreytt kjör en láta flugfélögin stöðvast og sjá þau fara í rúst. Þannig hugsa íslenzkir flugmenn, enda þótt þeir að sjálfsögðu vilji fá bætt sín kjör, ef þeir geta það með lítilli fyrirhöfn. Það er ekki nema mannlegt.

Það stendur enn óhaggað, það sem er á stefnuskrá ríkisstj., að atvinnurekendur og launþegar semji sín á milli um þau deilumál, sem upp kunna að koma, í frjálsum samningum. Ef verkföll verða nú, sem hv. þm. Hannibal Valdimarsson er stundum að láta liggja að að muni koma og hann langar ákaflega mikið til að koma af stað, að manni sýnist, þá eru það atvinnurekendurnir, sem launþegarnir semja við. Og atvinnurekendurnir semja á sína ábyrgð um kaup, sem þeir sjálfir verða að greiða. Atvinnureksturinn sjálfur verður að greiða það kaup, sem þeir semja um. Það stendur ábyggilega óhaggað af hendi ríkisstj. Þetta frelsi er vissulega fyrir hendi enn á milli launþega og framleiðenda. Og það er alveg dæmalaus fullyrðing, þegar hv. þm. halda því fram, að ríkisstj. hafi með þessum lögum svikið þessa stefnu, alveg eins og það, að lögin hafi verið gefin út, meðan á samningunum stóð, til þess að koma í veg fyrir, að samningarnir gætu átt sér stað.

Reyndar mátti skilja svo fullyrðingu hv. þm. Hannibals. Valdimarssonar áðan, að það hefðu eiginlega alveg verið að komast á samningar, en ríkisstj. hafi bara komið í veg fyrir það.

Þetta er trúleg saga. Þetta er hans skoðun. En á hverju byggir hann þessa skoðun? Byggir hann þessa skoðun á sínu eigin eðli? Hyggur hann, að ef hann hefði verið í sporum ríkisstj., þá hefði hann viljað haga sér svona? Hv. þm. getur ekki dæmt aðra af sjálfum sér. Hann hefur enga tryggingu fyrir því, að núv. ríkisstj. hugsi á sama hátt og hann gerði. Hv. þm. skrifaði langa grein í Þjóðviljann, sem síðan var prentuð í systurblaðinu Tímanum, á s.l. sumri, langa grein, um verkfallið og um brbl. Og þessi grein var lesin með athygli, og ekki sízt þótti það skrýtið hjá þeim, sem lesa Tímann uppi í sveitum, að þessi grein skyldi vera prentuð orðrétt upp úr Þjóðviljanum, skrifuð af Hannibal Valdimarssyni, og þótti þetta vera ein sönnun fyrir því, hvað þessir flokkar væru nú farnir að nálgast mikið, hvað þeir væru nú orðnir skyldir, og hvort nú væri ekki eiginlega að því komið, að þeir gætu runnið saman og orðið einn flokkur. Ein setning í þessari grein var ákaflega merkileg. Hún var eitthvað á þá leið, að „núverandi ríkisstj. hagaði sér á allt annan hátt en fyrrv. ríkisstj. með því að gefa út þessi brbl.

Þegar vinstri stjórnin var, voru engin brbl. gefin út til þess að hefta verkfall. Ég geri ráð fyrir, að hv. þm. Hannibal Valdimarsson og hv. 1. þm. Austf. segi sem svo: Þess þurfti ekki með, vegna þess að samningar tókust. — En heyrzt hefur, að þeir hafi haft jafnvel löngun til þess að koma í veg fyrir það, að samningar tækjust, eins og þá var, af því að þeir hefðu verið hræddir við að byrja á því að hækka kaup og bæta kjör þeirra, sem voru bezt launaðir. Og einmitt vegna þessa þankagangs, sem var hjá þessum hv. þm. í vinstri stjórninni, kemur þessi fullyrðing þessara beggja manna nú, að núv. ríkisstj. hafi komið í veg fyrir verkalýðssamninga. Það var rökrétt hugsað hjá þeim, þegar þeir rifjuðu upp þeirra eigin afstöðu, því að þeir voru jafnvel búnir að skrifa frv., voru með þankagang um það að hefta flugmannaverkfallið í ársbyrjun 1957. En það verkfall leystist, og lögin komu ekki út. Það leystist, en á þann hátt, að kaup og kjör flugmanna voru stórlega hækkuð og bætt, og kannske er þar að finna orsökina að því, hversu kauphækkanir urðu miklar í tíð vinstri stjórnarinnar. Ekkert skal ég fullyrða um það, en ég gæti þó vel trúað því, að verkamaðurinn við höfnina og þeir, sem láglaunaðir eru, hafi hugsað eitthvað sem svo: Úr því að það var hægt að hækka svo mikið við flugmennina, sem vissulega eru miklu betur launaðir en við, kannske á tvöföldum eða þreföldum launum, þá hlýtur einnig að vera hægt að bæta kjör okkar.

Ég get unnt flugmönnum þess að hafa góð kjör. Ég er þó í miklum vafa um það, hvort það er fært fyrir okkur að borga þeim eins hátt kaup og gerist erlendis, hjá erlendum auðfélögum. Hv. þm. Hannibal Valdimarsson fullyrti það hér áðan, að íslenzkum flugmönnum bæri jafnhátt kaup og erlendum flugmönnum, þeim bæri að fá það. Nú vitum við, að það eru ekki aðeins íslenzkir flugmenn, sem hafa lægra kaup en erlendir stéttarbræður þeirra. Við vitum um íslenzka verkfræðinga, við vitum um íslenzka lækna, og við vitum um menn á Íslandi, sem eru taldir í hærri launaflokkunum, að þeir eru allir miklu verr launaðir en gerist hjá sambærilegum launaflokkum erlendis. Er það nú meining hv. þm., að laun allra hálaunamanna á Íslandi, sem svo eru kallaðir, eigi að færast til jafns og samræmis við laun annarra hálaunamanna erlendis, sem gegna sambærilegum störfum? Ég held, að það sé mjög hæpið að halda slíku fram, og ég er reyndar sannfærður um, að þetta er ekki rétt. Þetta er ranglátt, vegna þess að okkar þjóðfélagsbygging þolir þetta ekki. Og þeir, sem við köllum hálaunamenn á Íslandi, verða að sætta sig við það, þó að þeir geti ekki borið eins mikið úr býtum og stéttarbræður þeirra erlendis. Þeir verða að sætta sig við það, á meðan við erum að koma okkar atvinnulífi á það stig, að það geti skilað þeim arði, sem æskilegur er, eins og erlendis er víða, þar sem þróunin er komin á hærra stig.

Ég er hér um bil sannfærður um það, að hv. þm. Hannibal Valdimarsson meinar það, þegar hann er að ræða um, að nauðsyn sé á því að bæta kjör alþýðu manna í landinu, þeirra sem verst eru settir. Og við erum ábyggilega sammála um það báðir tveir. En við erum kannske ekki sammála um það, hvenær þetta er hægt, hvenær mögulegt er að gera þetta. Við ættum þó að vera það, vegna þess að það er augljóst, hvenær það er hægt og hvenær það er ekki hægt. Og ég man reyndar núna, að hv. þm. hugsaði rökrétt haustið 1958 og var reyndar minntur á það í gærkvöld, þegar hann talaði um það alveg réttilega, hvenær verkalýðurinn hefði tækifæri til þess að fá sín kjör bætt. Þá voru kjör verkalýðsins að dómi þessa hv. þm. alveg nátengd og bundin við það, að atvinnuvegirnir gætu greitt það, sem farið er fram á. Og þetta lögmál hefur ekki breytzt síðan, það er áreiðanlega óbreytt. Það, sem við Íslendingar þurfum að gera, er að styrkja og endurbæta okkar atvinnuvegi, til þess að afrakstur þeirra megi verða meiri, svo að verkalýðurinn og launþegar allir geti borið meira úr býtum. Og þegar við erum að tala um okkar unga og að sumu leyti frumstæða atvinnuveg, flugið, þá er það svo, að við verðum að viðurkenna, að flugfélögin eru í harðri samkeppni við erlend auðfélög og eru að byggja sig upp af vanefnum með allt of litið fjármagn. Þess vegna mátti flugið ekki stöðvast, því að það hefði orðið of þungbært fyrir flugfélögin. Þess vegna mátti það ekki koma fyrir, að þeir, sem höfðu pantað far hjá flugfélögunum yfir sumarið, afturkölluðu þessar pantanir og ferðuðust með erlendum auðfélögum í stað okkar félaga, vegna þess að það væri ekki aðeins þetta sumar, sem við hefðum misst með því, það hefði einnig haft stór áhrif á næsta og næstu sumur, því þó að hv. þm., sem talaði hér áðan, vildi ekki gera mun á erlendum mönnum og íslenzkum, þá verðum við þó að viðurkenna það, að við erum í samkeppni við erlend félög um það að fá erlenda farþega, en við erum ekki í samkeppni við crlend félög um að fá íslenzka farþega. Íslendingar hljóta að ferðast með íslenzkum farkosti, jafnvel þótt það sé dýrara og jafnvel þótt sá farkostur bjóði ekki eins mikil þægindi og erlendur farkostur. En útlendingarnir munu ekki vera við okkur bundnir, nema þeir telji öryggi í því að ferðast með okkur og þeir telji, að við séum svo traustir, að við getum haldið áætlunum og þeir verði ekki fyrir óþægindum af því að hafa keypt sér farmiða með íslenzkum vélum. Og það verður að taka tillit til þessa sjónarmiðs einmitt í þessu tilfelli, og þegar hv. þm. Hannibal Valdimarsson vildi ekkert gera úr því áðan, þá er það á miklum misskilningi byggt hjá honum.

Hv. þm. Hannibal Valdimarsson var að tala um það, að þessi brbl. væru árás á allan verkalýð í landinu, þetta væri árás á verkalýðinn í landinu. Ég held nú, að hv. þm. meini þetta ekki. Þetta er engin árás á verkalýðinn í landinu. Og verkalýðnum í landinu er vitanlega að engu ógnað með þessu. Þessi lög eru sett til þess að forða því, að íslenzk flugfélög stöðvist og missi beinlínis atvinnumöguleikana, missi alla farþegana, og það er ekki gert, fyrr en það er þrautreynt, að ekki takast frjálsir samningar á milli flugfélaganna og verkamannanna. Það er ekki gert fyrr. Það eru öfugmæli, þegar því er haldið fram, að þessi lög hafi verið sett til þess að koma í veg fyrir samninga. Það eru hrein öfugmæli, og ég vænti þess, að þessir hv. þm., sem töluðu hér áðan, ef þeir tala aftur, þá biðji þeir afsökunar á því að hafa farið með slíka fullyrðingu hér í þessum sal.

Ég veit ekki, hvort ástæða er til að vera að svara fleiru af því, sem kom fram í þessum ræðum. Það, sem sagt var af báðum þessum hv. þm., var þess eðlis, að það þarf ekki að svara því. Það voru fullyrðingar, sem eru út í hött (Gripið fram í: Það voru nokkrar spurningar.) Spurningar — ég held, að ég hafi svarað flestum spurningunum. Því, sem ég skrifaði upp, hef ég a.m.k svarað. Jú, hv. þm. Hannibal Valdimarsson spyr, hvað felist í þessum lögum. Það var ein spurningin, sem ég skrifaði upp. Hvað felst í lögunum? Hvernig stendur á, að hann þarf að vera að spyrja að því, hvað felst í l.? (EystJ: Það er um samningsréttinn.) Hvað segir í lögunum? Með leyfi hæstv. forseta, þá skal ég lesa lögin, vegna þess að það er ekki langt mál:

„l. gr. Óheimilt skal að hefja verkfall það, sem Félag ísl. atvinnuflugmanna hefur boðað til hjá íslenzkum atvinnuflugmönnum 6. júlí 1960, svo og aðrar slíkar vinnustöðvanir hjá íslenzkum atvinnuflugmönnum, fyrir 1. nóv. 1960.“

Held ég, að hvert barn í barnaskóla mundi skilja, hvað í þessu felst. Og 2. gr. er, með leyfi hæstv. forseta:

„Fara skal með mál út af brotum gegn lögum þessum að hætti opinberra mála, og varða brot sektum.“

Ég get ekki verið að gera svo lítið úr hv. fyrirspyrjanda að gefa skýringar á því, hvað í þessu felst, vegna þess að ég veit, að hann finnur það alveg sjálfur, enda þótt hann sé ekki löglærður frekar en ég.

Var það eitthvað annað, sem var ósvarað? Jú, hv. þm. spyr, hvað hafi unnizt með þessum lögum. Ég hélt, að það væri alveg augljóst, hvað hafi unnizt með þessum lögum. Það hefur unnizt með þessum lögum, að það varð ekkert úr vinnustöðvuninni. Það hefur unnizt með þessum lögum, að flugfélögin hafa hafið fulla starfsemi í sumar. Það hefur unnizt með þessum lögum, að tugir þúsunda erlendra og innlendra manna hafa ferðazt með þessum flugvélum. Hvers vegna að vera að spyrja svona? Er þetta ekki líka augljóst? Þarf að svara því frekar?

Var það fleira, sem spurt var um? Hafi það verið fleira og eitthvað í þessa átt, þá veit ég ekki, hvort þörf er á því að svara, og ég man ekki eftir því, að það væri nokkur spurning hjá hv. þm., sem var eitthvað öðruvísi en svona. T.d. spyr hann að því, hvers vegna ríkisstj. hafi svikið það loforð eða þá stefnu, að launþegar og atvinnurekendur semji í frjálsum samningum. Hann spyr, hvers vegna það hafi verið svikið. Ég held, að öllum hljóti að vera ljóst, að þetta hefur ekki verið svikið, eins og ég tók hér fram áðan. Þessi stefna stendur enn óhögguð, að ríkisstj. ætlast einmitt til, að deilur verði leystar með frjálsum samningum milli atvinnurekenda og launþega. Það er meginatriði og meginkjarni málsins.

Ég held, að ég hafi nú svarað öllum spurningum hv. ræðumanna og því, sem fram hefur komið í þeirra máli, sem nokkurs virði er. Þeir segjast vera á móti þessum lögum, þeir jafnvel fullyrða, að meiri hluti sé ekki fyrir þeim hér í d. eða hér á Alþingi. En ég segi þá: Er ekki rétt að reyna á það og flýta málinu í gegnum þingið? Og gæti þá ekki hv. 1. þm. Austf. og hv. 4. landsk. (HV), gætu þeir þá ekki lært eitthvað á því að fullyrða ekki eins og þeir gera og staðhæfa það, sem engin rök eru á bak við? Ég teldi þá, að það væri nokkuð unnið með því. Það gæti orðið lærdómur fyrir þá, kennslustund, sem væri þeim holl.

Ég segi svo aftur: Ég vænti þess, að tími gefist til að reyna á það, hvort þessi lög hafa meiri hl. hér í hv. þd. eða ekki.