27.10.1960
Neðri deild: 11. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 258 í C-deild Alþingistíðinda. (1935)

50. mál, bann gegn vinnustöðvun íslenskra atvinnuflugmanna

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Hér er um mál að ræða, sem er svo mikið prinsipmál, að það er nauðsynlegt að fá alveg ótvíræðar yfirlýsingar hæstv. ríkisstj. og það helzt hennar sem heildar, greinilega mæltar fyrir hennar munn allrar, um það, hver afstaða hennar er í þessum málum. Það er nú orðið alllangt síðan nokkur ríkisstjórn á Íslandi hefur grípið til þeirra aðgerða að banna verkföll, og það er svo hér á Alþingi, býst ég við, að það eru ekki margir þingmenn, sem áttu sæti á Alþingi, þegar það var síðast gert, af þeim, sem þar sitja núna. Það er hverfandi lítill minni hluti. Það hefur ekki gerzt, að þannig hafi verið gripið inn í, að verkfall hafi verið bannað. Það hefur að vísu aldrei gerzt í þessu formi. Það gerðist 1942 í janúarbyrjun undir öðru formi, þannig að það var settur gerðardómur, og það var bannað, að viðlögðu því, að sjóðir verkalýðsfélaganna skyldu upptækir og foringjar verkalýðsfélaganna fangelsaðir, svo fremi sem út af þeim lögum væri brugðið. Og það er rétt að rifja það upp fyrir hæstv. ríkisstj., ef hún skyldi ekki muna það lengur, eða hv. þingmenn stjórnarliðsins, að það hann var brotið á bak aftur, lögin voru að engu höfð og lögin voru brotin á bak aftur af verkalýðssamtökunum og fólkinu í landinu, og sú ríkisstjórn, sem setti þessi lög, sundraðist innan nokkurra mánaða, eftir að hún hafði sett þau, og Alþingi, sem saman kom eftir kosningarnar í ágúst 1942, afnam lögin. Þetta er rétt að menn muni, þegar lög eru sett eins og þau bráðabirgðalög, sem hér liggja fyrir, og þegar þau rök eru færð þar fyrir af hálfu hæstv. landbrh., sem greinir í fylgiskjalinu og þegar hafa verið lesin.

Fyrsta spurningin, sem er þess vegna eðlilegt að leggja fyrir hæstv. ríkisstj. í sambandi við afgreiðsluna á þessu máli, er: Er þetta aðeins skoðað sem sérstakt einkaáhugamál þessa ráðherra, sem hefur með flugmál að gera, af sérstakri ást hans á íslenzkum flugfélögum, þannig að hann geti aðeins hugsað sér að grípa til svona aðgerða, þegar flugfélög eiga í hlut, og vill hæstv. ríkisstj. gefa yfirlýsingu um það, að hún álíti svona nokkuð aðeins koma til mála, þegar flugfélög eiga í hlut, og aðeins að sumrinu til? Þetta væri ákaflega æskilegt að hæstv. ríkisstj. kæmi skýrt og ótvírætt með.

Ég heyrði það á ræðum hæstv. landbrh., að hann átti afskaplega erfitt með að verja þetta. Í raun og veru virtist hann vilja segja, að þetta væri ekki bara af ást hans á flugfélögunum, heldur einnig af sérstakri ást hans og umhyggju fyrir flugmönnunum, að hann hefði gripið til úrræða eins og þessara. Og það væri bezt að fá að vita það, hvort slíkt sé skoðun hæstv. ríkisstjórnar.

Þegar þetta mál er athugað út frá þeim röksemdum, sem fluttar hafa verið fyrir því, geta þær röksemdir átt við í öllum mögulegum tilfellum. Það fer allt eftir, — ja, á ég að segja ást ríkisstjórnarinnar á viðkomandi atvinnuvegi? Við skulum segja, að ríkisstjórnin elski flugmál og flugfélög svo mikið, að hún geti ómögulega hugsað til þess, að þau geti stöðvazt, en sé alveg sama t.d. um sjávarútveg eða skipaútgerð eða annað þess háttar, þá láti hún slíkt lönd og leið og skipti sér ekkert af slíku, það komi henni ekkert við, — það séu aðeins flugfélögin, sem hún elski og muni varðveita. Á að skilja það þannig? Nú er það svo viðvíkjandi flugfélögunum, að það er vitanlegt, að þessi félög hafa haft stórgróða, og það er réttmætt, að það komi hér fram, hve mikill slíkur gróði er. Er það sem sé prinsipmál hjá ríkisstjórninni, að það skuli svo til haga með löggjöf, ef ekki vill betur, að af flugmönnum skuli tekið það mikið fé með lagaboði, að það sé hægt að kaupa fyrir það nýja flugvél, a.m.k. að greiða útborgun í henni? Er m.ö.o. meiningin, að þeir menn, sem eiga að einhverju leyti flugfélög, skuli fá sérstaka aðstoð til þess að græða þannig á þeim með því að halda niðri kaupi flugmanna, að þeir geti þess vegna keypt sér ný framleiðslutæki? Og á þessi aðferð þá eingöngu að gilda um fjárfestingu viðvíkjandi flugvélum, eða á að taka þetta upp sem reglu í íslenzku atvinnulífi, að halda kaupi niðri, til þess að þeir, sem eiga viss atvinnufyrirtæki, geti grætt svo mikið, að þeir geti safnað auði, þeir geti keypt sér ný framleiðslutæki? Er m.ö.o. verið að skakka þarna leikinn til þess að tryggja auðsöfnun einstakra atvinnurekenda á kostnað þess fjölda, sem vinnur í landinu? Hér er varazt að koma með nokkrar raunverulegar upplýsingar af hálfu hæstv. ráðherra. Hann segir: Ég leit svo á, að það mundu ekki nást samningar, ef ég gripi ekki inn í með þessum bráðabirgðalögum. — En það er hægt að grípa inn í á annan máta, þegar vinnudeila er. Það er hægt að grípa inn í á þann hátt að taka stjórn flugfélaganna af þeim, sem hafa hana, — af flugfélögunum, og ríkisstj. gat sjálf rekið þetta og borgað það kaup, sem verkamennirnir höfðu farið fram á. Það var líka hægt. Þá þurfti ekkert að stöðva. Ríkisstj. gat gefið sjálfri sér bráðabirgðalög til að gera slíkt.

Af hverju fannst henni eðlilegt að grípa bara inn í einhliða á móti verkamönnunum og með eigendunum? Af hverju gat hún ekki hugsað sér að firra þjóðina þeim skakkaföllum, sem hún áleit að af því yrðu, ef flugvélarnar stöðvuðust, með því að sjá um sjálf að halda flugvélunum áfram, en greiða verkamönnum kaupið, sem þeir höfðu farið fram á eða hún gat samið við þá um, — láta flugvélarnar ganga af fullum krafti, láta útlenda ferðamenn ekki verða fyrir neinum óþægindum, íslenzka ekki heldur, flugfélögin ekki stöðvast, láta ekkert verða landinu til vansa, láta flugmennina fá það kaup, sem hægt hefði verið að semja við þá um af hálfu ríkisstj. og láta á meðan fara fram rannsókn á — því, hvað flugfélögin gátu borið? Hefur ekki hæstv. ríkisstj. áður gert allmikið fyrir þessi flugfélög? Þar með er ég ekki að eiga við gengislækkunina, því að ég veit ekki betur en í vetur, þegar það mál lá fyrir okkur hjá fjhn., hafi það verið upplýst, að það lægi við, að Flugfélag Íslands færi á hausinn fyrir aðgerðir ríkisstjórnarinnar, svo að hún virtist ekki hafa neitt sérstaklega mikla umhyggju fyrir íslenzkum flugfélögum í sambandi við þær ráðstafanir, sem hún var að gera þá. En hún hefur kannske séð, að það mundi vera fullmikil hneisa, ef það spyrðist út á eftir, að ríkisstj. hefði gert beinar ráðstafanir til að setja Flugfélagið á hausinn, og henni yrði kannske ekki þakkað það, svo að hún sá kannske að sér og reyndi máske þá á ýmsan annan hátt að sjá um, að Flugfélag Íslands gæti gengið. En það var þá sómasamlegra að gera það án þess að niðast á flugmönnunum þess vegna. Ég held þess vegna, að hæstv. ríkisstj. og helzt fleiri ráðh. en hæstv. landbrh. ættu að svara þessu, því að ég tek eftir því í öllum hans umræðum um þetta, að hann á ómögulegt með að verja þetta, að það kemur raunverulega ekkert fram af þeim rökum, sem ég geng út frá að búi á bak við hjá hæstv. ríkisstj. við þessa tilraun, sem gerð var í sumar. Ég vil um leið minna á það, að þegar ríkisstj. gripur inn í með svona bráðabirgðalögum og gerir það til þess að tryggja gróða einstakra manna, þá er það náttúrlega nokkuð ólíkur tilgangur eða ef ríkisstj. hefði verið að varðveita — við skulum segja eitthvert almenningsfyrirtæki í þessum efnum og hefði getað borið fyrir sig afkomu þjóðarinnar eða slíkt. Það var ólíkt frá siðferðilegu sjónarmiði, — nema hæstv. ríkisstj. líti svo á, að hún sé alveg sérstaklega til þess sett og það eigi eingöngu að vera hennar starf að reyna að sjá um að útvega gróða handa einstökum atvinnurekendum á kostnað þjóðarinnar, eins og hún þegar hefur útvegað stórgróða handa útlendum atvinnurekendum, útlendum lánardrottnum og öðrum á kostnað þjóðarinnar í heild.

Ég held, að það sé nauðsynlegt og væri heppilegt, að það væru umr. um þetta mál hér nú og sem flestir hæstv. ráðh. tækju þátt í þeim umr., vegna þess að þá ætti það nokkurn veginn að geta komið í ljós, — og það er það, sem Alþ. þarf að fá að vita, — hver sé stefna ríkisstj. í þessum málum og hvers megi vænta af henni í þeim átökum, sem fram undan eru. Hæstv. ríkisstj. hefur lýst því yfir, að hún ætli ekki að skipta sér af deilum atvinnurekenda og verkamanna. Hún hefur lýst þessu yfir. Þessi yfirlýsing hennar er ósannindi, helber opinber ósannindi, og hæstv. ríkisstj. ætti annaðhvort að gera, að hrekja þann áburð, sem við berum á hana, um, að hún fari þarna með ósannindi í sinni yfirlýsingu, eða þá að taka upp nýjan hátt, — og mér sýnist það nú þegar vera að brjótast um í ríkisstj. Þar eru kannske ekki allir eins gætnir og hafa kannske ekki eins mikið samviskubit og hæstv. landbrh. í þessum efnum, eins og bezt kemur fram í því, hve lélega honum gengur að verja þetta mál, sem hér liggur fyrir. Það er auðséð, að hann finnur til þess, að þetta er ekki réttlátt, sem þarna var gert. Ríkisstj. var búin að lýsa því yfir, að hún ætlaði ekki að skipta sér af samningum verkamanna og atvinnurekenda. Hvað gerir hún svo, þegar þessir samningar eiga sér stað? Hún skiptir sér af samningunum. Og á hvern máta? Á þann máta að fyrirskipa flugmönnunum að una við sitt, en tryggja flugfélögunum, að þau geti haldið áfram sínum rekstri og geti hætt samningum við flugmennina.

Þarna brýtur hún sína yfirlýsingu algerlega. Hæstv. ríkisstj. sýnir sig að vera handbendi fyrir einstaka auðmenn í landinu, þegar til kastanna kemur. Hún hafði lýst því yfir, að hún ætlaði að láta þetta sér óviðkomandi, og ég spurði að því, þegar það var gert, hvort hún mundi standa uppi og láta atvinnuvegi landsins stöðvast, þegar komið væri út í verkföll eða verkbönn. Ég spurði að því þá og fæ ekki enn neitt svar. Þarna er komið fyrsta svarið frá henni. M.ö.o.: Hún segir að hún ætli að grípa inn í á kostnað verkamanna, því að það er greinilega fram á það sýnt, að ef á að grípa inn í á þann máta að banna verkföll, þá verða þar með engir samningamöguleikar fyrir atvinnurekendur, það er sama sem að banna alla samninga við þá. Atvinnurekendur eru, a.m.k. þegar Vinnuveitendasambandið stendur á bak við þá, ekkert lamb að leika sér við, þannig að með þeirri yfirlýsingu, sem ríkisstj. gaf með útgáfu þessara brbl., er raunverulega verið að segja við atvinnurekendur og sérstaklega við Vinnuveitendasambandið: Þið megið vera vissir um, að alltaf, þegar á á að herða, þá grípum við inn í og bönnum verkföll. — Og þetta er bezt að fá yfirlýsingar um, og það væri alveg sérstaklega æskilegt, að hæstv. viðskmrh. gæfi fyrir hönd Alþfl. sem stjórnarflokks yfirlýsingu um þá afstöðu. Ætlar hæstv. ríkisstj. sér að dæma um, hvenær kauphækkun sé rétt eða ekki? Ætlar hún að hafa nokkra skoðun á því, og ætlar hún að skipta sér nokkuð af því? Það væri bezt, að hún léti það nú þegar í ljós, hvað hún ætlar að gera í þeim efnum. Hún er búin að gefa yfirlýsingu um, að hún ætli ekki að skipta sér af því, og hún er búin að brjóta þá yfirlýsingu. Hún er búin að fá einni harðsvíruðustu klíku auðmanna, sem til er í landinu, Vinnuveitendasambandinu, það vopn í hendur að banna verkfall, þegar á að gera það. Og vill hún hér gera svo vel að gefa þá yfirlýsingu, hvort hún ætlar að haga sér þannig áfram eða ekki, hvort hún ætlar að standa við það, sem hún lýsti upphaflega, eða ekki? Nú hef ég sett fram þessar kröfur hér um slíkar yfirlýsingar frá ríkisstj. hálfu af því, að Alþ. á rétt á að fá svar við því. Og ég hef innt eftir þessum svörum, og ég endurtek það enn þá, að ég skora á þá ráðh., sem hér eru, að svara því skýrt og ótvírætt. Ég ber ekki fram þessa fsp. vegna þess, að ég viti ekki, hvað ríkisstj. vilji í þessum efnum. Ég veit, hvað ríkisstj. vill. Og það veit öll þjóðin. Sá maður, sem virðist ráða mestu um stefnu ríkisstj., hefur þegar gefið yfirlýsingu um það efni. Það er hæstv. fjmrh., í þeirri ræðu, sem hann hélt nú við 1. umr. fjárl. Þar segir hann, með leyfi hæstv. forseta, — það er í lok ræðunnar, prentað í Morgunblaðinu á 13. síðu 25. okt.:

„Eigi fullur árangur að nást af efnahagsráðstöfununum, verður að sjálfsögðu að halda fast við þá stefnu, sem í upphafi var mörkuð. Bankaútlán mega ekki aukast umfram sparifjármyndun, ríkisbúskapurinn verður að vera rekinn hallalaust, og kaupgjald má ekki hækka, fyrr en gjaldeyrisstaðan er komin í eðlilegt horf, og þá ekki meir en svarar til aukinnar framleiðni.“

Ég leyfi mér að spyrja hæstvirta ráðherra: Talar fjmrh. eins og fífl, eins og óábyrgur orða sinna, eða er þetta skoðun ríkisstj.? Hvað þýðir þetta, ef þetta er skoðun ríkisstj.? Það þýðir, að ríkisstj. lýsi því yfir, að kaupgjald megi ekki hækka fyrr — og það náttúrlega að hennar áliti — en gjaldeyrisstaðan sé komin í eðlilegt horf og þá ekki meira en svarar til aukinnar framleiðslu. M.ö.o.: hér lýsir hæstv. fjmrh. því yfir, að það sé ríkisstjórnarinnar að dæma um það, hvort kaupgjald í landinu megi hækka eða ekki. Og ég spyr hæstvirta ráðh., ekki sízt ráðh. Alþfl., hæstv. viðskmrh.: Er þetta skoðun ríkisstj., að það sé hennar að dæma um það, hvort kaupgjald megi hækka eða ekki? Það stangast á við þá yfirlýsingu hennar, að hún ætli að láta það afskiptalaust, hversu verkamenn og atvinnurekendur semja.

Nú er hæstv. ríkisstj. búin einu sinni að gefa út lög, þar sem bannað er að gera verkfall. Ef það er skoðun ríkisstj., sem hæstv. fjmrh. lýsir í sinni ræðu, þá er hennar skoðun sú, að kaupgjald megi ekki hækka. Hver er afleiðingin af því? Afleiðingin af því er, að þegar kaupgjaldshækkun byrjar og verkamenn knýja það fram, þá mun ríkisstj. grípa til laga til þess að hindra slíkt. Er það hennar meining? Ég minni á, að það er ekki í fyrsta skiptið, sem fjmrh. kjaftar út því í óaðgætni, sem ríkisstj. er að hugsa um að framkvæma. Það sama kom fyrir í fyrra, þegar hann talaði eins og kjáni í sínum yfirlýsingum. En það sýnir sig hins vegar, að þegar fjmrh. talar þannig, leysir frá skjóðunni, þá er það ekki vegna þess, að þetta sé raunverulega á móti stefnu ríkisstj., heldur er hann þá að segja hluti, sem ríkisstj. kærir sig ekki um að séu sagðir á þeim tíma. Og það virðist vera þannig um þetta. Fjmrh., sem virðist vera aðalfulltrúi þess ameríska auðhringakapítals, sem á að fara að veita inn í landið núna, aðalerindreki fyrir útlent auðmagn til þess að leggja undir sig íslenzkt atvinnulíf, hann er svo áhugasamur í þessum erindrekstri sinum, að hann gætir sín ekki og segir það, sem inni fyrir býr, þegar klókari og kannske samvizkusamari ráðherrar þegja eða eiga erfitt með að standa fyrir málstað sínum, eins og hæstv. landbrh. nú. Sú yfirlýsing, sem hæstv. fjmrh. gefur, þýðir raunverulega, að því er lýst yfir, að það skuli halda kaupgjaldinu niðri, eins lengi og ríkisstj. álitur vera nauðsynlegt, og þá kannske með aðferðum eins og þeim lögum, sem við nú erum að ræða hér.

Í okkar þjóðfélagi berjast atvinnurekendur og verkamenn um það, hvernig arðurinn af vinnu verkamannanna skuli skiptast, hve mikið skuli fara til verkamannanna sjálfra, til þess að framfleyta þeirra lífi, og hve mikið skuli fara sem gróði til atvinnurekendanna. Atvinnurekendur hafa, almennt séð, nægilega sterka aðstöðu í þjóðfélaginu til þess að vernda sína hagsmuni. Það ætti ekki að þurfa að gera sérstakar kúgunarráðstafanir af hálfu ríkisvaldsins til þess að hjálpa þeim. Það er nógu sterk aðstaða fyrir þá að eiga framleiðslutækin. En hvað er það sem hefur gerzt með þeim brbl., sem nú er um að ræða, og þeirri hótun, sem liggur í ræðu fjmrh.? Það, sem hefur gerzt, er það, að hæstv. ríkisstj. lýsir því yfir, að hún muni beita ríkisvaldinu til þess að halda niðri kaupi verkamanna, af því að hún álíti, að það megi ekki hækka, svo að notuð séu orð fjmrh. Það er þetta, sem við spyrjum um, hvort hún ætli að gera. Og það er þetta, sem er viðkunnanlegra, að hún gefi Alþ. yfirlýsingar um, áður en hún leggur út í það, vegna þess að það sér enginn okkar fyrir endann á því, sem af því hlýzt, ef aftur er gripið til svipaðra aðferða og þeirra, sem beitt var 1942. Og þá er Sjálfstfl. orðinn gleyminn, ef hann man ekki, hvernig þá fór, — svo að ég tali nú ekki um Alþfl., ef hann ætlar inn á svipaða braut aftur. Hans ráðherrar fóru úr ríkisstj., þegar þau bráðabirgðalög voru sett. Ég spyr þess vegna að þessu, að ég heyri alveg greinilega í þeim ræðum, sem hér fara fram af hálfu hæstvirtra ráðherra, að þeir eru ósammála um þessi atriði. Þjóðin á kröfu á að fá að vita, hver sé stefna ríkisstj. Hæstv. fjmrh. segir á mánudagskvöld: Kaupið má ekki hækka. — Hæstv. landbrh. sagði í umr. hér, að atvinnurekendur eigi að greiða kaupið sjálfir. — Það er rétt, þeir eiga að greiða kaupið sjálfir. En af hverju grípur þá ríkisstj. inn í til þess að hindra atvinnurekendur í því að greiða kaupið sjálfir? Hvers konar ósvífni er það gagnvart verkamönnum í landinu að gera slíkt?

Hæstv. ríkisstj. segir sem sé: Atvinnurekendur eiga að greiða kaupið sjálfir. En með verkum sínum segir hún: Ef atvinnurekendur kæra sig ekki um að greiða þetta kaup, þá skulum við þrælbinda starfsmennina og verkamennina til þess að vinna hjá þeim án kauphækkunar. — Og fjmrh. segir: Kaupið má ekki hækka. — Ef atvinnurekendur eiga að greiða kaupið sjálfir, hvað vill þá einn fjmrh. vera að gefa slíkar yfirlýsingar sem hæstv. fjmrh., Gunnar Thoroddsen, gaf hér á mánudagskvöld? Hvað vill hann eins og bjáni vera að gefa slíkar yfirlýsingar? Hvað á þetta framferði að þýða? Eða er verið að reyna að sýna mönnum framan í þá brútölu mynd, að ríkisvaldið skuli skakka leikinn og því skuli beitt á móti verkamönnum? Það er ekki nóg að vera sléttmáll og fagurmáll og prúðmenni í framkomu, ef á bak við kemur svo hótunin um það, eins og hjá fjmrh., að það skuli sýndur hnefi ríkisvaldsins, svo framarlega sem verkamenn ætli að hækka kaupið. Það er viðkunnanlegast, að slíkur fjmrh. standi sjálfur fyrir svörum hér. Það er ekki gott fyrir okkur að tala við stjórnarlið, sem hefur tvær tungur og mælir sitt með hvorri. Önnur segir, að atvinnurekendur eigi að greiða kaupið sjálfir, og hin segir við atvinnurekendur: Þið megið ekki hækka kaupið. — Það er ekki óeðlilegt, þótt við viljum fá að vita, hver sé stefna ríkisstj. í þessu. Ég vil spyrja hæstv. landbrh. Hann segir, að atvinnurekendurnir eigi að greiða kaupið sjálfir. Svo eru atvinnurekendur og verkamenn að semja, og við skulum segja, að fjmrh. hafi skotizt til Vinnuveitendasambandsins og sagt við það: Verið þið ekkert að ganga inn á neinar kauphækkanir, við skulum hjálpa ykkur, ef í hart fer. — Og svo kemur að því, að atvinnuveitendur vilja ekki ganga að sjálfsögðustu og réttmætustu kröfum verkamanna, meira að segja þeim, sem Mogginn mundi kannske fara að mæla með, eftir honum að dæma í morgun, — og þá gerist það bara einfaldlega, að ríkisstj. grípur inn í og segir: Ja, það hafa ekki náðst samningar á milli atvinnurekenda og verkamanna. Það verður að firra vandræðum. Það verður að firra vandræðum. Það verður að banna verkfall. — M.ö.o.: það að verkamenn og atvinnurekendur eigi að tala saman, það er bara orðin tóm sýndarmennska, því að á bak við stendur ríkisvaldið og segir við atvinnurekendur: Þið þurfið ekki að vera að láta neitt undan, þið þurfið ekki að vera að hækka neitt kaup. Við skulum sjá fyrir því, að verkamennirnir verði að una við gamla kaupið.

Okkur, sem höfum um 30 ára skeið og lengur komið nokkuð nærri samningum og vinnudeilum á Íslandi, — okkur finnst bezt að fá að vita það, hvað við eigum þarna í vændum, hvort við eigum það í vændum að verða að grípa til þeirra aðferða, sem tíðkuðust hér fyrir 10–20 árum, — og ég vil, að hæstv. ríkisstj. geri sér það ljóst, hverjar afleiðingar eru af slíku, — eða hvort við megum nokkuð vonast eftir því, að samningar fari fram með eðlilegum hætti, eins og eðlilegir samningar á milli verkamanna og atvinnurekenda, þar sem hægt sé að ræða við atvinnurekendur og þeir hafi það í bakhöndinni, að gangi þeir ekki að þeim samningum, sem verkamannasamtökin álíta óhjákvæmilegt að ná, þá geti þeir horft á atvinnurekstur sinn stöðvaðan. Þeir verða að hafa jafnt hitann í haldinu og verkamennirnir hafa af því að verða að vera atvinnulausir, standa í verkfalli svo eða svo langan tíma. Það er nógu ójöfn aðstaða samt.

Við höfum orðið varir við einn hlut og það í allríkum mæli í sambandi við samninga nú undanfarið. Við höfum orðið varir við, að það er ekki bara hæstv. landbrh., sem segir: Atvinnurekendur eiga að greiða kaupið sjálfir, — segir það mjög sanngjarnt og rétt. Við höfum líka orðið varir við atvinnurekendur, sem segja: Jú, ég get gjarnan greitt hærra kaup. Mér líkar vel við mína verkamenn og mína starfsmenn, og ég vil gjarnan greiða þeim hærra kaup. En það er einn aðili, sem segir mér, að ég megi ekki greiða hærra kaup. — Það er einn aðili, segja þessir atvinnurekendur. Og hver er sá aðili? Það er Vinnuveitendasamband Íslands eða þess stjórn. Þar eru samankomnir helztu milljónamæringar landsins, nokkrir ríkustu mennirnir í landinu og harðsvíruðustu. Og hvað eftir annað hefur það verið þannig nú undanfarið, að þessi litla auðmannaklíka reynir að koma í veg fyrir, að samningar séu gerðir um hækkun á kaupi verkafólks í landinu. Og hvar kemur rödd þessara manna fram? Í pólitíkinni. Hún kemur fram í ræðum hæstv. fjmrh.: Kaupið má ekki hækka. — Það er sama klíkan, sem þarna er að verki. Hvort menn vilja kalla það „svörtu höndina“, eins og það hét einu sinni í róman, sem út kom í Reykjavík, — eða eitthvað annað, það sem þarna er á bak við, er hnefi auðmannastéttarinnar í Reykjavík. Og það, sem er að gerast, svo framarlega sem sú pólitík, sem fjmrh. hér lýsir og ég sé og heyri að hæstv. landbrh. kinokar sér við að fylgja í sínum málflutningi, — og þess vegna er hans málflutningur líka um leið svona veikur, af því að hann þjáist kannske ofur lítið af sanngirni undir niðri, — þessi málflutningur fjmrh. er málflutningur klíkunnar, sem þarna stendur á bak við, þeirrar klíku, sem vill láta sverfa til stáls, þeirrar klíku, sem olli því, að verkfallið 1955 varð 6 vikna verkfali, af því að hún hélt sig geta ráðið við verkalýðinn, og varð auðvitað að láta í minni pokann.

Það tíðkast oft í borgaralegum löndum, að það sé slíkt fámennisvald, slíkt einræði örfárra auðmanna, sem stjórnar einu þjóðfélagi á bak við tjöldin. Flugfélögin íslenzku hafa ekki verið neinn harðvítugur aðili í vinnudeilum við verkamenn. Þau hafa ekki sýnt sig í því að vera neinir sérstakir kaupkúgarar. Verkamenn hafa því síður sýnt sig í því að vera sérstaklega fjandsamlegir flugfélögunum. Loftleiðum hefur verið bjargað án þess að grípa til bráðabirgðalaga, eins og ríkisstj. gerði í sumar, þegar þær hafa staðið tæpt, með velvilja verkamanna. Það er ekki á milli þessara tveggja aðila, sem slagurinn hefur staðið. Ég býst ekki við, að svo að segja nokkur í þeim, sem flugfélaginu stjórna, sé svo skyni skroppinn, að hann skilji ekki, að íslenzku flugmönnunum ber þó að greiða eins hátt kaup og undir nokkrum kringumstæðum er mögulegt, því að það eru fáir flugmenn í veröldinni, sem fljúga við erfiðari skilyrði og er treyst til erfiðara flugs en þeim, a.m.k. civil-flugmönnum. Það er annað, sem stendur þarna á bak við. Það er harðvítugt fámennisvald, klíka milljónamæringa, örfárra manna, sem vill fá að ráða í okkar þjóðfélagi. Og það er fyrir hennar munn, sem hæstv. fjmrh. talar af þessum gorgeir: Kaupið má ekki hækka, — eins og það sé hans að ákveða það, — rétt þegar hæstv. landbrh. er búinn að sleppa orðinu um, að atvinnurekendur eigi að greiða kaupið sjálfir. Menn skyldu halda, að fjmrh. greiddi þetta úr eigin vasa. Hann ætti að greiða sína eigin skatta og skyldur, en tala ekki eins og kjáni um þessi mál.

Ég held þess vegna, að umr., sem fram fara um þetta mál, þurfi að sýna stefnu ríkisstj. í þessu, nema hún standi enn einu sinni í þeirri aðstöðu, að hún vilji fela stefnuna, að hún hrökkvi við, af því að fjmrh. sé búinn að tala allt of mikið, eins og hans er siður, segja það, sem ríkisstj. er að hugsa, á óhentugum tíma. Ég vil þess vegna skora á ríkisstj. að taka hér upp umr. um það, hvort kaupið megi hækka eða ekki, hvort atvinnurekendur geti greitt hækkað kaup eða ekki. Og ég skal leggja hér sannanir á borðið fyrir því, að atvinnurekendur geti greitt hærra kaup og að það sé hægt að standa undir því, að atvinnufyrirtækin í landinu geti hækkað kaup, og að það sé aðeins af yfirgengilegri frekju, óbilgirni og kúgunarlögum, ef það er látið koma til þess, að það þurfi að verða langvarandi verkföll og vinnudeilur á Íslandi nú.

Ég gæti byrjað á því dæminu, sem hæstv. landbrh. ætti að vera kunnugast. Getur kaupið hækkað í áburðarverksmiðjunni, eða getur það það ekki? Atvinnurekendur eiga sjálfir að greiða sitt kaup, eiga að greiða kaupið sjálfir, sagði hann.

Áburðarverksmiðjan með 11 millj. kr. gróða á síðasta ári, — verkakaupið í heild 5 millj., hún getur greitt þó nokkuð mikið hækkað kaup, haldið öllum löglegum fyrningarafskriftum og jafnvel lækkað áburðinn þar að auki. Ég man nú ekki, hvað Morgunblaðið reiknaði í morgun, ég held, að það hafi reiknað, að það væru 30–40%, sem Alþýðusambandið væri nú að heimta í hækkuðu kaupi. En þó að það væru 50%, gæti áburðarverksmiðjan greitt það. 50% ofan á 5 millj., það er þó ekki nema 2½ millj., og gróðinn er 11 millj. Ég skora á hæstv. ríkisstj. að koma hér með reikninga nokkurra stærstu fyrirtækja í landinu. Ef hún vill ekki leggja þá fram hér í þessum ræðustól, þá skulum við ræða það í fjhn., og við skulum fara í gegnum þá og sjá, hvort það getur hækkað eða ekki. Ég kann betur við að ganga í gegnum svona reikninga, áður en verkföll hefjast, heldur en þegar þau væru búin að standa í einn, tvo, þrjá eða fjóra mánuði. Og meðan svona ósvífnar yfirlýsingar koma úr ráðherrastól eins og hjá hæstv. fjmrh., að kaup megi ekki hækka, fyrr en honum þóknast, þá er eðlilegt, að við þm. heimtum að fá þessi plögg á borðið.

Ég hef spurt hérna seinast, — ég hef ekki fengið svar, — viðvíkjandi t.d. gróða Seðlabankans. Ég spurði hæstv. viðskmrh. Ég skal upplýsa það um leið, að gróði Seðlabankans hefur, það sem af er, hækkað um 50% frá því í fyrra. Og ég mundi gjarnan vilja hafa hér fund, t.d. í fjhn. þessarar d., með hæstv. ríkisstj. og með stærstu atvinnurekendum Sjálfstfl. hér úr d. og fá að taka reikningana fyrir þeirra fyrirtæki í gegn og fá að bera saman vextina, sem þeir greiða til bankanna núna, — það eru sums staðar nokkuð háar skuldirnar, sem þessir atvinnurekendur eru í við banka ríkisins, við ríkið, — og sjá, ef við lækkuðum þessa vexti við þá, ríkið lækkaði vextina við þá, hvað mikið þeir gætu hækkað kaupið. Ég skora á hæstv. ríkisstj. að kalla alla atvinnurekendur Sjálfstfl. í þessari hv. d. á fund með fjhn. og leggja þessa reikninga fyrir. Við getum gert það sem trúnaðarmál þar, eins og eðlilegt er, en þá höfum við einhvern grundvöll til þess að byggja á um, hvort kaupið í landinu megi hækka eða ekki.

Skiptingin milli fjármagns og vinnuafls er tilefni harðvítugustu átaka, sem gerast í okkar þjóðfélagi. Hér á Íslandi höfum við viljað reyna að afstýra, að slík átök yrðu stórhættuleg okkar þjóðlífi. Við getum það með því að ganga í gegnum þessa hluti, sjá staðreyndirnar. En ef á að hafa þá aðferð fyrst að dylja staðreyndirnar eins og hægt er, síðan neita að ræða þær, þó að maður upplýsi um þær, því næst að gefa ósannar yfirlýsingar, eins og fjmrh. gefur, og svo, þegar búið væri t.d. að senda þingið heim, þá að beita hnefavaldi ríkisvaldsins til þess að aðstoða harðvítugustu milljónamæringaklíkuna í landinu, sem væri um leið að reyna að kúga atvinnurekendur, sem kannske vildu hækka kaupið, til þess að neita um kauphækkun, — ef aðferðin er svona, sem á að hafa, þá sér hver maður fram á afleiðingarnar af því. Mér sýnist nokkurn veginn greinilegt, hvert stefnir, ef svona á að halda áfram.

Hæstv. landbrh. gerir frekar lélegar tilraunir til þess að reyna að verja slæman málstað. Hæstv. fjmrh. gefur harðvítugar yfirlýsingar í fjárlagaumr. um, að þetta sé nú ekki nema rétt byrjunin með að halda niðri kaupi flugmannanna með brbl., kaupið megi ekki hækka, segir hann, — víst fyrir munn sinna amerísku lánardrottna. Síðan kemur ríkisstj. sér undan því að ræða málið á Alþ. Hæstv. landbrh. sýnir einn þá kurteisi að sitja undir málinu. Ef einhverjum af ráðherrunum, eins og hæstv. viðskmrh., verður á af slysni að rekast inn í salinn og skorað er á hann að standa fyrir sínum málstað og sérstaklega síns flokks, þá hleypur hann brott eins og fætur toga, — og svo á á eftir, þegar vinnudeilur eru hafnar, að segja: Ótætis kommúnistarnir vilja bara koma af stað vinnudeilum og verkföllum. — Svo á kannske að skipuleggja nýnazistadeildina í Heimdalli, sem kosin var í gær, til þess að rifja upp gamlar endurminningar um hvítliða og slagsmál á götum Reykjavíkur.

Ég hef nú skorað á hæstv. ríkisstj. að leggja reikningana á borðið. Ég hef skorað á hana að þora að standa við fullyrðingar fjmrh. um, að kaupið megi ekki hækka, og sanna það með rökum, undirbyggja það. Ég hef sýnt fram á, að það er ekki um það að ræða, að það sé verið að berjast við meginið af atvinnurekendastétt landsins. Meginið af atvinnurekendastétt landsins mundi vera reiðubúið til að hækka kaup. En það er klíka hér í Reykjavík í stjórn Vinnuveitendasambandsins, sem bannar þeim að gera það. Og sú klíka er studd af því valdi útlendu, sem vissir menn í núverandi ríkisstj. eru að ánetjast, þeir sem voru í Bandaríkjunum nú fyrir skömmu. Þessir menn eru að skuldbinda sig til þess að viðhalda ákveðnu ástandi, ákveðnu arðráni hér á Íslandi til þess að plægja akurinn fyrir útlent auðmagn í landinu. Það er þetta, sem er að gerast. Það var engin tilviljun, að hæstv. fjmrh. segir það með tveggja daga millibili, að kaupið megi ekki hækka og að ríkisstj. sé að undirbúa stórlán til stórframkvæmda hér innanlands. Maður veit, að þau viðtöl, sem fóru fram í Washington nýlega, miðuðust við það, að amerískir auðkýfingar legðu fé í stórfyrirtæki hér á Íslandi með þeim skilyrðum, að hér yrði reynt að halda niðri öllu kaupgjaldi verkalýðsins. Og hæstv. fjmrh. sýnir sig í þeirri ræðu, sem hann hélt hér á mánudagskvöld, að vera sá þrælapískari, sem amerískt auðvald þurfi á að halda til þess að koma á sinni kúgun hér á Íslandi. Það er þess vegna bezt, að menn geri sér alveg ljóst, um hvað er verið að berjast. Ég efast um, að öllum hæstv. ráðherrum sé það ljóst. Ég efast um, að meira að segja þeim aðilum, sem að forminu til deilan hefur staðið við hér, flugfélögunum, sé það ljóst.

Það fer lítið fyrir efnahagslegu sjálfstæði íslenzkra atvinnurekenda, eftir að búið væri að kúga þannig niður kaup íslenzkra verkamanna, að amerísku auðvaldi þætti sér henta að koma hér inn. Það hefur hingað til ekki hvað sízt verið íslenzk verkalýðshreyfing, sem hefur gert íslenzkum atvinnurekendum mögulegt að vera efnahagslega sjálfstæðir. Íslenzk atvinnurekendastétt var uppgefin og vonlaus um framtíð efnahagslífs á Íslandi eftir krepputímabilið 1930–1940. Ég þekkti það bezt sjálfur, vegna þess að ég var m.a. fyrir hönd verkalýðshreyfingarinnar til þess að telja kjark í hana, íslenzku atvinnurekendastéttina, þannig að hún þyrði að leggja út í það 1944 að kaupa nýja togara, reisa ný hraðfrystihús og annað slíkt, og að sýna þeim, hvernig hægt væri að tryggja nægilega ódýrt fjármagn, til þess að sjálfstæður atvinnurekstur íslenzkra aðila gæti borið sig. Það hefur verið íslenzk verkalýðshreyfing, sem hefur hjálpað atvinnurekendastéttinni íslenzku á fæturna. Það hefur verið íslenzk verkalýðshreyfing, sem hefur haldið hlífiskildi yfir því, að sjávarútvegurinn væri ekki drepinn. Við höfum deilt við atvinnurekendur um, hvernig arðurinn ætti að skiptast af þeim auð, sem íslenzkir verkamenn, sjómenn og aðrir hafa skapað með sínum höndum. Okkur hefur ekki alltaf komið saman um þetta. Við höfum kannske annað hvert ár orðið að hafa einhver smáátök um, hvernig þetta skiptist. En íslenzk verkalýðshreyfing hefur haldið uppi og tryggt sjálfstæði íslenzkra atvinnurekenda. Það, sem nú er verið að undirbúa, er árás á efnahagslegt sjálfstæði íslenzku atvinnurekendanna og íslenzku þjóðarinnar, og það er eins og vant er, alltaf þegar verið er að brjóta lýðræði eða sjálfstæði niður, þá er byrjað með því að reyna að brjóta verkalýðshreyfinguna niður með kúgunaraðferðum, og þessi brbl. eru þáttur í slíkum kúgunaraðferðum. Þess vegna hefði það verið æskilegt, að um öll þessi mál færu fram umr. hér á Alþ., reikningarnir væru lagðir á borðið, plöggin væru lögð á borðið. Og það er það, sem ég hef óskað eftir, og það er það, sem ég hef skorað á hæstv. ríkisstj. að gera. En ég sé það á öllu, að hún vill reyna að forðast umr. um þessi mál. Hún vill reyna að forðast umr. um, hvort íslenzk atvinnufyrirtæki geti borið hærra kaup. Hún vill forðast umr. um, hvað það mundi þýða fyrir íslenzkan atvinnurekstur t.d., ef vextirnir væru lækkaðir um helming eða ¾, og hvað það mundi þýða fyrir íslenzka atvinnurekendur til að geta borgað hærra kaup. Og hún óttast umr. Hún óttast lýðræði og frelsi í þessum efnum, vegna þess að hún finnur það sjálf, að hún er meira og meira að fara inn á þá braut að beita einræði, að beita kúgun. Og það er það, sem ég vildi vara hana við, áður en það er orðið of seint. Mér þykir leitt, að sérstaklega hæstv. fjmrh. skuli ekki hafa verið hér inni, til þess að ég gæti lesið þetta, sem ég hef sagt, yfir hausamótunum á honum, en ég vona, að hæstv. landbrh. segi honum, að hann geti þá a.m.k. lesið í þingtíðindum, hvað um hann hafi verið sagt.