07.12.1960
Sameinað þing: 22. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 195 í B-deild Alþingistíðinda. (194)

1. mál, fjárlög 1961

Fjmrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. fjvn. fyrir afgreiðslu fjárlagafrv. Er þar fyrst þess, að geta, að hv. n. hefur orðið við óskum ríkisstj. um það að afgreiða frv. frá sér það tímanlega, að unnt væri að samþykkja fjárlögin endanlega um miðjan desember eða fyrir jólahlé. Í annan stað vil ég þakka n. og þá sérstaklega meiri hl. hennar og frsm. fyrst og fremst, sem um leið er formaður n., hversu vel hefur verið að unnið, farið vandlega í alla liði frv. ásamt erindum, og tillögur og nál. bera þess glöggt vitni, að hér hefur verið unnið af mikilli alúð og samvizkusemi. Ég vil sérstaklega þakka hv. frsm. og formanni fjvn. fyrir hans ýtarlegu og ágætu framsöguræðu, sem gerir það að verkum, að ég get haft mál mitt í styttra lagi, þar sem hann fór inn á svo mörg atriði, sem ég hefði ella hreyft, en hann gerði svo góð skil, að ég hef þar engu við að bæta.

Varðandi undirbúning fjárlaga hér á Íslandi held ég, að óhætt sé að fullyrða, að þar stendur margt til bóta. Ráðuneytin þurfa að leggja miklu meiri vinnu í undirbúning fjárlagafrv. en venja hefur verið hér hjá okkur. Ég hef að undanförnu nokkuð reynt að kynna mér undirbúning fjárlaga í sumum nágrannalöndum okkar, og er þar skemmst frá að segja, að þar virðast viðhöfð allt önnur og ólík handtök við slíkan undirbúning, auk þess sem meðferð fjárlagafrv., að ég tali ekki um eftirlit með því, að þeim sé framfylgt, er töluvert með öðrum hætti og að ýmsu leyti öruggara annars staðar. Ég skal ekki út í þetta mál fara lengra að sinni, en hér þarf vissulega að verða breyting á. Undirbúningur hinna einstöku ráðuneyta, sem skila sínum tillögum til fjmrn., þarf að byrja miklu fyrr en verið hefur, og það þarf að vanda hann miklu betur en áður. Því aðeins að fjárlög séu rækilega undirbúin af hinum einstöku ráðuneytum og þær tillögur síðan vandlega athugaðar af fjmrn. eða fulltrúum þess í samráði við hin ráðuneytin, því aðeins að þetta sé vel og vandlega unnið, geta fjárlögin orðið svo traustur grundvöllur undir fjárstjórn ríkisins sem vera þyrfti.

Þetta er eitt af þeim stóru verkefnum, sem fram undan eru varðandi fjármál ríkisins sjálfs. En í þessu sambandi vil ég einnig geta þess, að gerð og uppsetning fjárlaga og ríkisreiknings þarf einnig mjög að breytast. Á það hefur áður verið minnzt, að fjárlögin þurfa á marga lund að breyta um svip. Stundum er það nokkuð tilviljanakennt, hvort einstaka starfsgreinar ríkisins eru teknar með í fjárlögum eða ekki. Sumar stórar ríkisstofnanir, sem reka umfangsmikla starfsemi og velta milljónum, ef ekki tugum milljóna, eru alls ekki í fjárlögum. Í annan stað er það stundum svo, að starfsgreinar eða fyrirtæki eru sett inn í fjárlögin aðeins með niðurstöðutölum, þ.e.a.s. með mismun tekna og gjalda, en aðrar greinar teknar inn með öllum tekjum sínum og gjöldum sitt hvorum megin í frv. Þannig mætti lengi telja, auk þess sem vafalaust væri æskilegt að draga meira saman á sumum stöðum frv. það, sem saman á, en nú er dreift á fleiri greinar. En þó að þetta skipti nokkru máli, skiptir þó öllu meira máli að fá betra samræmi milli fjárlaga og ríkisreiknings heldur en nú er. Og sannleikurinn er sá, að í mörgum greinum er ákaflega erfitt fyrir þá, sem ekki eru þaulkunnugir rekstri ríkisins, að átta sig á ýmsum útgjöldum og tekjum ríkisins með samanburði milli fjárlaga og ríkisreiknings.

Eitt glöggt dæmi um þá óvissu, sem er, vil ég nefna. Og það er varðandi ákaflega þýðingarmikinn lið eða þýðingarmikla mynd af ríkisbúskapnum, en það er varðandi sjálfan greiðslujöfnuðinn, hvort hann er hagstæður eða óhagstæður og þá hversu mikið. Það er svo, að ýmsar skoðanir og túlkanir eru uppi um það, hvernig eigi að skýra greiðslujöfnuð og hvernig eigi að finna hann út. Ef við tökum t.d. síðasta ár, 1959, þá er hægt að fara eftir þremur mismunandi kenningum eða túlkunum um greiðslujöfnuð. Þá er hægt með góðum rökum að segja, að greiðsluafgangur síðasta árs hafi verið 2 millj., að hann hafi verið 12 millj. og hann hafi verið 25 millj. Allar þessar tölur hafa verið settar upp, og ég hef heyrt rökstuðning fyrir þeim öllum.

Hér er eitt dæmi þess, að það þurfa að koma ákveðnar reglur varðandi gerð og uppsetningu fjárlaga og ríkisreiknings til þess að fá samræmi, því að annars verður erfiður allur samanburður milli ára og erfitt að átta sig á raunverulegri afkomu ríkissjóðsins. Um þetta mál er ný löggjöf í undirbúningi. Ég get ekki sagt á þessu stigi, hvenær hún verður tilbúin og lögð fyrir Alþingi, en í það hefur þegar verið lögð nokkur vinna að afla gagna um, hvernig sumar aðrar þjóðir haga þessum málum, og verður síðan eftir föngum unnið úr því, eftir því sem bezt á við okkar þjóðarbúskap.

Varðandi undirbúning þessara fjárlaga, sem hér liggja fyrir, þá greindi ég nokkuð í fjárlagaræðu minni við 1. umr. frv., í hverju sú undirbúningsstarfsemi hefði verið fólgin, en m.a. hefur á þessu ári verið lögð í það mikil vinna að skipuleggja betur og koma á hagkvæmari grundvöll ýmiss konar starfsemi ríkisins. Ég taldi í fjárlagaræðunni upp 25 atriði, sem að hefði verið og væri unnið. Auk þeirra er auðvitað fjöldi annarra atriða, sem unnið er að því að rannsaka og reyna að finna, hvort unnt er að fá vinnubrögð, sem eru hagkvæmari og ódýrari fyrir ríkið, án þess þó að draga úr þeirri þjónustu, sem ríkið þarf og á að veita gagnvart fólkinu.

Ég skal ekki fara neitt að ráði út í þessi atriði hér, nema einstaka þeirra að gefnu tilefni. En ég vil sérstaklega beina þakklæti til meiri hl. fjvn. fyrir þær ábendingar, sem gerðar eru í nál. hans, í 23 liðum, sumir þeirra hafa verið í athugun, en sjálfsagt er að kanna eftir fremsta megni, hvort ekki megi gera þar umbætur á og spara fé og koma á bættum vinnubrögðum. Þessar ábendingar verða að sjálfsögðu teknar til greina, eftir því sem föng eru á.

Nú er það svo, að á þessu ári hafa verið tekin upp ný vinnubrögð að vissu leyti varðandi þessi atriði, en það er skipuleg starfsemi, þar sem hver starfsgrein er tekin fyrir sig af hinum fróðustu og færustu mönnum, sem á algerlega hlutlausan, óhlutdrægan og ópólitískan hátt reyna að finna hin beztu vinnubrögð og hagkvæmustu. Í þessu efni hefur verið reynt að nota aðstoð nokkurra erlendra sérfræðinga og fyrirtækja, sem hafa mjög mikla reynslu í þeim efnum og hafa á að skipa hinum reyndustu og færustu sérfræðingum. Ég skal ekki fara út í einstök atriði þessa, en ég er í engum vafa, að í mjög mörgum greinum munu þessar athuganir og ábendingar bera góðan ávöxt. Hitt er svo annað mál, að vitanlega getur það oft verið, að ábendingar hinna sérfróðu finni ekki náð fyrir augum ríkisstj. á sínum tíma og þykja af einhverjum ástæðum ekki heppilegar eða framkvæmanlegar, auk þess sem það verður öllum mönnum að vera ljóst, að það, sem kann að henta um þetta og þetta verkefni í öðrum löndum, á ekki alltaf við hjá okkur.

Í þessari starfsemi allri saman hefur verið gerbreytt um vinnubrögð. Áður fyrr var sá háttur á hafður, að flestar nýjar ríkisstjórnir skipuðu sparnaðarnefndir, sem áttu að rannsaka og spara allt milli himins og jarðar í ríkisrekstrinum. Oft komu ýmsar góðar ábendingar frá þessum sparnaðarnefndum. Því miður voru hins vegar ýmsar tillögur þeirra ekki nægilega grundaðar, málin höfðu ekki verið rannsökuð nægilega niður í kjölinn. Og sú sorglega staðreynd blasir við, að tiltölulega sáralítið af tillögum sparnaðarnefnda undanfarinn áratug hafa komið til framkvæmda.

Ríkisstj. væntir sér árangurs af þessum nýju vinnubrögðum, sem eru ekki neitt einsdæmi hér, heldur eru tekin upp eftir þeim starfsháttum, sem nágrannaþjóðir okkar hafa haft í þessum efnum nú um nokkurra ára skeið, og allir þar, sem um þessi mál fjalla, eru sammála um, að þessi vinnubrögð gefi betri árangur en hinar gömlu sparnaðarnefndir, sem venjulega voru þá skipaðar stjórnmálamönnum, þingmönnum eða öðrum slíkum ágætismönnum.

Í öllu þessu umtali um niðurskurð og sparnað og hagkvæmari vinnubrögð er eitt meginboðorð, sem verður að hafa í huga, og það er það, að sú forsenda sé fyrir hendi, ef á að lækka útgjöld hjá ríkinu, lækka þau í fjárlagafrv., að þá liggi raunhæf rannsókn fyrir, þannig að þetta sé ekki aðeins út í loftið, einhver sýndarmennska, heldur sé þarna um raunverulega framkvæmdamöguleika að ræða. Nú skal ég strax taka það fram, að vitanlega getur mönnum í slíkri starfsemi og slíkum undirbúningi missýnzt, og má vera, að menn hafi meiri trú í byrjun á því, að breytingar leiði til sparnaðar, heldur en raun verður á. Þetta er auðvitað algilt lögmál í öllu mannlegu samfélagi. En hitt nær náttúrlega engri átt, og ég hélt sannast sagna, að sá hugsunarháttur væri varla lengur til hér í Alþingi, að demba inn tillögum um ýmiss konar niðurskurð, jafnvel svo að milljónum skipti eða tugum milljóna, þó að allir viti, að það er gersamlega útilokað að framkvæma þær tillögur, og flm. sjálfir geta ekki bent á, hvernig eigi að framkvæma þær, og standa eins og þvörur, þegar þeir eru spurðir um það. Mjög glöggt dæmi og það gleggsta nú er að sjálfsögðu sú tillaga, sem hv. 2. minni hl. fjvn. ber hér fram á þskj. 164, nr. 20. Það er sams konar till. og hann flutti á síðasta þingi. Það er um 10% lækkun að meðaltali á öllum kostnaði hjá stjórnarráðinu, utanríkisþjónustunni, dómgæzlu, lögreglustjórn, tolla og skattstofum. Þegar hann flutti þessa till. hér í fyrra, þá lagði ég fyrir hann nokkrar spurningar: Í fyrsta lagi. Þýðir þessi tillaga það, að það eigi að lækka laun starfsmannanna, sem þarna vinna, um 10%? Í öðru lagi. Ef ekki er svo, þýðir þessi tillaga þá, að það eigi að segja upp tíunda hverjum starfsmanni? Eða eru það einhverjir sérstakir kostnaðarliðir, sem á að lækka, sem samtals nemi þessari upphæð? Engri þessara spurninga gat hv. flm. eða frsm. 2. minni hl. svarað. Ég veit, að hv. alþm. minnast þess, að við fengum engar skýringar á þessu. Hann sagði bara: Þetta er ríkisstjórnarinnar að framkvæma. Sem sagt, Alþ. á að fyrirskipa þetta, án þess að flm. hafi hugmynd um, hvernig eigi að framkvæma það, svo er það bara á valdi ríkisstj. og á hennar ábyrgð — og hennar skömm, ef ekki tekst að framkvæma þetta. Svona er ekki hægt að vinna að aukinni hagkvæmni, sparnaði eða niðurfærslu á útgjöldum, og þetta er til lítillar sæmdar fyrir þm., sem að slíkum tillögum standa.

Ég veit ekki, hvort það ber vott um meiri ábyrgðartilfinningu hv. 1. minni hl., Framsfl., að þeir hafa ekki viljað standa að þessari sýndartillögu. En þó að Framsfl. hafi ekki fengizt með í þetta sjónarspil, þá er hann ekki alveg sakiaus í þessu efni, og það þarf ekki að nefna mörg dæmi þessa til að sannfærast um, að hér er rétt með farið.

Hv. 1. minni hl., þ.e.a.s. framsóknarmenn, þeir bera fram tillögur um það að fella niður í fjárlögum fyrir 1961 með öllu fjárveitingu til sendiráðanna í Kaupmannahöfn, Stokkhólmi og Osló. Nú er þetta mál, sem oft hefur verið rætt og margir menn, bæði í stjórnarliðinu og stjórnarandstöðunni, hafa áhuga á, að sameina þessi sendiráð í eitt, eins og framsóknarmenn leggja til. Þetta mál hefur. verið mjög rætt á Norðurlöndum líka, hvort þau treystu sér til þess að fækka sínum sendiráðum og sameina. Nú er það ein af ábendingum hv. meiri hl. fjvn., að þetta mál verði kannað, og að sjálfsögðu verður það kannað eftir föngum. En þó að sú yrði niðurstaðan eftir athugun og rannsókn í þessu málí, að rétt þætti að sameina öll sendiráðin í eitt, þá er það gersamlega útilokað — og það ætti hv. 1. minni hl. n. að vera ljóst — að láta slíkt koma til framkvæmda 1. jan. næsta ár. Ég býst við, að allur undirbúningur undir slíkt mál, þó að fast væri fram gengið, mundi taka langan tíma, og allt þetta starfsfólk, sendiherrar og annað starfsfólk sendiráðanna, á auðvitað lagalegan rétt á sínum uppsagnarfresti, þannig að jafnvel þó að hægt yrði að framkvæma þetta, þá er það alveg út í bláinn að ætla að fella niður þessi framlög með öllu frá og með 1. jan. n.k.

Ég skal ekki nefna hér fleiri dæmi. Þó er ekki úr vegi að minnast hér á eitt atriði, sem báðum hv. minni hlutum og frsm. þeirra verður ákaflega tíðrætt um, og það er hin nafntogaða Kvíabryggja. Það er ein af sparnaðartillögum þeirra að fella niður fjárveitingu til vinnuhælisins á Kvíabryggju og þar með að leggja það hæli niður. Það er ekki úr vegi aðeins að rifja það upp, hvernig á þessum. lið stendur.

Svo er ákveðið í gildandi framfærslulögum, og það ákvæði hefur alilengi verið, að þeir styrkþegar, og þar á meðal barnsfeður, sem standa ekki skil á sínum barnsmeðlögum, þannig að sveitarfélögin verða að greiða fyrir þá þessar vanskilaskuldir, og þegar innheimtutilraunir hafa reynzt árangurslausar, þá er heimild til þess, að valdsmaður úrskurði, eins og það er orðað í l., þessa styrkþega eða þessa vanskilamenn, ef þeir hafa ekki fyrir heimili að sjá, til þess að vinna af sér þessar vanskilaskuldir á vinnuhæli. Nú hefur það reynzt í framkvæmd hjá mörgum sveitarfélögum, að áhrifaríkasta ráðið hefur verið það að hóta þessum vanskilamönnum með slíkri afplánun. Það var hins vegar komið þannig fyrir allmörgum árum, að ríkið, — en á ríkinu hvílir sú skylda að hafa hæli starfrækt, bæði fyrir dæmda afbrotamenn og fyrir þá, sem eiga að afplána þessar vanskilaskuldir, það er skylda ríkisins að hafa slík vinnuhæli, reisa þau og reka á sinn kostnað, — nú var svo komið, að ríkið gat ekki fullnægt þessari skyldu. Það var yfirfullt á vinnuhælinu á Litlahrauni, og ríkisstj. eða dómsmrn. neitaði að taka þessa menn til afplánunar, vegna þess að svo mikið væri af dæmdum mönnum, að það væri ærið nógur vandi að láta þá afplána, þó að hinir væru ekki teknir líka. Nú var það ljóst um leið, að ýmis sveitarfélög töpuðu stórkostlegu fé, vegna þess að þessir vanskilamenn hirtu ekki um að borga, vegna þess að þeir víssu; að þeir yrðu ekki látnir afplána, það væri ekkert vinnuhæli til. Ríkið hélt að sér höndum, neitaði að gegna sinni lagaskyldu í þessu efni. Þá gerðist það, að Reykjavíkurbær, sem þurfti að leggja á hverju ári út margar milljónir vegna þessara vanskilamanna og fékk það ekki endurgoldið, bauð ríkisstj. að byggja slíkt vinnuhæli á sinn kostnað, létta þeim kostnaði af ríkinu gegn því, að ríkið tæki svo að sér rekstur þessa hælis. Á þetta féllst þáv. ríkisstj. Þannig er þetta vinnuhæli til komið, og þann tíma, sem það var rekið, gerði það mjög mikið gagn, þannig að alger breyting varð á því, hvað miklu meira greiddist inn af þessum vanskilaskuldum heldur en áður. Hér var því um það að ræða, að Reykjavíkurbær hafði létt af ríkinu þessari skyldu og sparað því þannig stórkostlegt fé með byggingu nýs vinnuhælis.

Nú er það vitaskuld út í loftið að benda hér á rekstrarkostnað slíks hælis annars vegar og hins vegar, hvað margir vistmenn séu þar á hverjum tíma. Vitanlega er gildi svona hælis fyrst og fremst fólgið í því að knýja menn til greiðslu, þannig að þeir komi alls eigi á hælið, og sú hefur verið meginþýðing þessa vinnuhælis. Þó að aldrei hefði komið einn einasti vistmaður á þetta heimili, þá hefði það samt gert stórkostlegt gagn með því að knýja þessa menn til þess að borga samtals svo að mörgum milljónum skiptir til sveitarfélaganna. Vinstri stjórnin gerði svo það sér til sæmdar að ganga á gefin loforð og rifta samningum og leggja niður þetta hæli. Þegar núv. ríkisstj. taldi það sjálfsagt og skyldu sína að standa við fyrri samninga og að gegna þessari skyldu að reka slíkt vinnuhæli fyrir þessa vanskilamenn, þá rísa þeir hér upp, bæði í fyrra og eins nú, hv. fulltrúar Framsfl. og Alþb., berja sér á brjóst og eru afskaplega hneykslaðir yfir þessu, og ein aðalsparnaðartillaga þeirra í sambandi við fjárlögin er nú að leggja niður þetta vinnuhæli, til þess að þessir vanskilamenn geti hlakkað og hætt að borga, vegna þess að það er ekki hægt að hóta þeim með þessari afplánun.

Þetta vildi ég láta koma fram hér vegna þess, hve mikilla rangfærslna gætir í málflutningi þessara manna varðandi þetta mál.

Í rauninni hlýtur okkur að furða nokkuð á því, hverjar undirtektir og viðtökur hv. stjórnarandstöðu hér í umr. eru undir þær ýmsu tillögur og ábendingar, sem gerðar hafa verið til sparnaðar og aukinnar hagsýni, því að yfirleitt eru viðtökurnar þessar, að þessar tillögur til aukinnar hagsýni eða sparnaðar í ríkisrekstrinum, ýmist á þetta að vera árás á hinar dreifðu byggðir, fólkið úti á landsbyggðinni, eða reynt er að hafa það í fíflskaparmálum. Því miður eru þetta ákaflega neikvæð vinnubrögð. Um sumt er sagt: Þetta er ekki nema sjálfsagt, þessu höfum við alltaf verið að berjast fyrir, eins og t.d. að hafa ekki tvo sendiherra í París, heldur sameina sendiráðin. Nú segja þessir ágætu menn: Þetta er auðvitað sjálfsagður hlutur, og við erum búnir að berjast fyrir þessu lengi. — En sannleikurinn er bara sá, að þó að það sé sjálfsagt í munni framsóknarmanna og Alþb., þá kom vinstri stjórnin sæla því samt ekki í verk að gera þetta.

Hv. frsm. 2. minni hl., hv. 6. þm. Sunnl., fór hér með ýmsar fullyrðingar, sem ég skal aðeins rekja, beinar rangfærslur. Hann sagði í fyrsta lagi, að ríkisstj. hefði lofað miklum sparnaði, og lét svo orð falla um það, að ríkisstj. hefði lofað að lækka fjárlögin fyrir 1961 frá því, sem þau eru í ár. Þessi hv. þm. lét orð falla á þá leið, að hinn lofaði sparnaður hafi orðið stórfelld hækkun á útgjöldum þessa frv. frá því, sem er í ár. Mér er ekki kunnugt um það, að hvorki ég né neinn annar úr stjórnarflokkunum hafi nokkurn tíma lofað því eða gefið nokkurn ádrátt um það, að útgjöld fjárl. á árinu 1961 yrðu lægri en í ár. Það hefur okkur aldrei dottið í hug, vegna þess að vitanlega vissum við það, frá því að síðustu fjárlög voru afgreidd, að ýmsir stórir liðir fjárl. og þá sérstaklega tryggingarnar og fjölskyldubæturnar mundu stórhækka á árinu 1961 frá því, sem var á árinu 1960. Og um leið og báðir frsm. minni hl. töluðu um hinar miklu hækkanir á fjárlagafrv. frá því, sem er í ár, þá slá þeir því báðir föstu, að þetta beri vott um hina gífurlegu eyðslu. Sem sagt, útgjaldahækkunin er eyðslustefna.

Í hverju er nú þessi hækkun fólgin? Hv. frsm. meiri hl. lýsti því hér mjög skilmerkilega, í hverju eru fólgnar þær hækkanir, sem verða . nú í fjárlagafrv. frá gildandi fjárlögum. En langsamlega mesta hækkunin er auðvitað vegna almannatrygginganna. Hún er upp undir 60 millj. kr. Það er upp undir 60 millj. kr., sem fjölskyldubæturnar og hækkun almannatrygginganna útheimtir á árinu 1961 frá árinu 1960. Og það er alrangt, sem hv. frsm. 2. minni hl. hélt fram, að fjárlögin fyrir 1960 séu í einu og öllu eða útgjöld þeirra byggð á því, að þessi útgjöld, eins og þau urðu eftir gengisbreytinguna eða efnahagsaðgerðirnar, hefðu átt að gilda fyrir allt árið 1960, vegna þess að þessi stóri liður, tryggingarnar og fjölskyldubæturnar, var miðaður við 3/4 ársins í ár, en alls ekki allt árið. Í grg. frv. er þetta skýrt tekið fram, þar sem segir svo — með leyfi hæstv. forseta — á bls. 99 um 17. gr.: „Framlag til almannatrygginganna hækkar í heild um 57.3 millj. kr.“ Síðan segir, að hækkunin til lífeyristrygginganna stafi m.a. af hækkun þeirri, sem varð á bótagreiðslum á þessu ári, 1960, en nú muni gilda allt árið 1961 í stað hluta úr ári 1960. Þetta eitt veldur 34 millj. kr. hækkun. Í öðru lagi er svo nokkur hækkun í fjárlagafrv. vegna hins fyrirhugaða afnáms skerðingarákvæðisins. Nú vil ég spyrja þessa hv. frsm. Þegar þeir tala um, að öll hækkun fjárlaganna stafi af eyðslu og bruðli, er það skoðun þeirra, að almannatryggingarnar séu eyðsla? Er það skoðun þeirra, að 40 eða 44% hækkunin til gamla fólksins sé eyðsla og bruðl? Er það skoðun þeirra, að hækkun fjölskyldubótanna sé eyðsla? Eða hvað eiga mennirnir við með þessu? Í annan stað stafa svo hækkanir fjárlaga af auknum kostnaði við sjúkrahús og skólahald. Telja þessir hv. þm. það til eyðslu, sem á að saka stjórnina fyrir, að meiri kostnaður er við skólahald, vegna þess að Íslendingum fjölgar og þ. á. m. skólaskyldum börnum og unglingum. Þess vegna þarf fleiri skólahús, þess vegna þarf fleiri kennara. Telja þeir þetta bruðl og eyðslu? Nú eru í smíðum miklar nýjar spítalabyggingar og stækkanir þeirra, sem fyrir eru, og sjúkrarúmum mun stórfjölga á næsta ári, og þar með er hægt að greiða að nokkru úr þeim mikla vandræðum með sjúkrarúm, sem hér hafa verið. Þetta þýðir auðvitað mikinn aukinn kostnað. Telst þetta til eyðslu og bruðls? Nei, þessir hv. frsm. verða að gæta sín nokkuð, að þeir fái ekki þau skeyti, sem þeir beina að stjórnarflokkunum, sjálfir framan í sig.

Þá er hér mjög haft á orði, bæði í nál. og framsöguræðum þessara hv. þm., hversu gífurlega fjárlögin hækki. Eins og ég gat um, þá á þetta fyrst og fremst að stafa af eyðslu og bruðli og óhófi og sukki. En þegar maður fer svo að bera saman, hverju þeir halda fram um hækkun fjárl., þá er það næsta fróðlegt. Nú vil ég taka það fyrst fram, að það er ákaflega erfitt um allan samanburð í þessu efni, bæði af ástæðum, sem ég gat um í upphafi mínnar ræðu, en einnig af því að á undanförnum árum, áður en gengisbreytingin var gerð, var tekið upp á þeim kúnstum að skipta ríkissjóðnum upp og kalla annan partinn útflutningssjóð eða framleiðslusjóð og hinn partinn ríkissjóð. Þessi samanburður um núgildandi fjárlög og fjárlög áður og hversu mikið þetta hafi hækkað er í meginatriðum byggður á þeirri reginblekkingu, að útflutningssjóðnum er að verulegu leyti sleppt út úr þessu dæmi. Þetta er ekki aðeins fullyrðing, heldur sannar hv. frsm. 1. minni hl., Framsfl., þetta sjálfur, þar sem hann ruglast gersamlega í því, hvernig þessi samanburður á að vera. Hann segir í nál. á þskj. 172 á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta, það er á bls. 5:

„Fjárlög þessa árs hækkuðu um 356 millj. frá fjárlögum ársins 1959 með sambærilegum samanburði milli þessara tveggja ára.”

Nú munu fjárlögin fyrir 1961, eins og tekið er fram í nái. meiri hl., hækka um 85—90 millj., og þá ætti hækkunin frá 1959 að vera um 450 millj, kr. eftir þessum samanburði. Hvað segir svo þessi sami hv. frsm. í sinni framsöguræðu? Hann segir: „Fjárlögin hækka um 700 millj. eða 80%.“ Eftir hans eigin dómi ætti þessi tala, 700 millj., alls ekki að vera „sambærilegur samanburður“, svo að ég noti hans orð í nál., enda eru þetta ekki sambærilegar tölur. En svona er af hendi framsóknarmanna slegið út í loftið hinum og þessum tölum, án þess að nokkur grundvöllur eða eðlilegur samanburður sé þar hafður á milli. Í rauninni er það líka þannig, að þessi samanburður er, eins og ég tók fram, ákaflega örðugur, því að það er svo mikið matsatriði og getur verið eilíft deilumál, hvað af tekjum og hvað af gjöldum útflutningssjóðs á að taka með í samanburði við fjárlögin og hvað á undan að fella. Það er ekki hægt að fara þá einföldu leið að taka t.d. aðeins yfirfærslugjaldið, 55% yfirfærslugjaldið, eins og það var t.d. upp á síðkastið, vegna þess að tekjur útflutningssjóðs voru ýmsar fleiri, og við skulum taka t.d. innflutningsgjaldið. Innflutningsgjaldið, hvort á heldur að telja það með venjulegum tolltekjum eða aðflutningsgjaldatekjum ríkissjóðs eða telja það sambærilegt yfirfærslugjaldinu, sem sagt til þess, eins og yfirfærslugjaldið, að leiðrétta hina röngu gengisskráningu? Ég hef minnzt á það hér áður, hvað allur slíkur samanburður er erfiður. Og sannleikurinn er sá, að nú hefur Framsfl. alveg greinilega fallið í þessa gildru, þar sem hann í nál. og framsöguræðu notar tölur, sem gersamlega stangast á í þessu sambandi. Vitanlega þarf engan að undra, þegar gengisskráningu er breytt, þegar gengið er lækkað eða viðurkennd gengislækkun, svo að ég orði það nú rétt, þó að útgjöld ríkisins og þar með fjárlagafrv. hækki. Þetta gerðist vitaskuld 1950, þegar Framsfl. stóð ásamt Sjálfstfl. að gengislækkun. Þetta sama gerðist auðvitað 1958, þegar gengið var lækkað í dularbúningi. Það þarf auðvitað engan að undra.

En þegar talað er um þessi hæstu fjárlög og þessar stórkostlegu hækkanir, og eitt slagorðið er það, að nú séu enn lögð fram hæstu fjárlög á Íslandi, þá vil ég fyrst geta þess, að þessi staðhæfing er í hæsta máta barnaleg, því að hver maður, sem eitthvað þekkir til fjármála hér, veit það ósköp vel, að um leið og fólkinu fjölgar í landinu, þá aukast þjóðartekjurnar með bæði fólksfjölgun og aukinni starfsemi, auknum afla, aukinni framleiðslu. Að óbreyttum tekjustofnum öllum hljóta auðvitað tekjur ríkissjóðs að hækka, um leið og þjóðartekjurnar hækka, og um leið og fólkinu fjölgar, eru auðvitað fjöldamargir útgjaldaliðir, sem hækka af sjálfu sér. Þess vegna er það í rauninni það eðlilegasta, að fjárlög eins árs verði alltaf bæði um tekjur og gjöld nokkru hærri en árið á undan í þjóðfélagi, þó að væri fullt jafnvægi, ef þar er eðlileg fólksfjölgun og eðlileg þróun atvinnulífsins. Það er slagorð, sem mér finnst að þessir hv. þm. ættu að leggja niður, að vera að gaspra alltaf um þessi hæstu fjárlög frá ári til árs.

Þegar talað er nú um þessi hæstu fjárlög og þessa gífurlegu hækkun fjárlaga, sem hneykslazt er á, þá koma mér í hug orð hv. frsm. 1. minni hl., 3. þm. Vesturl., að hann talaði um þetta tímabil, þetta glæsilega og ánægjulega tímabil 1950–58. Mér skildist, að þetta væri ánægjulegasta og glæsilegasta tímabil í sögu þjóðarinnar. Það hafa líklega ekki verið neinar hækkanir á fjárlögum á þessum árum, þegar fjmrh. Framsfl. fór með ríkissjóðinn öll þessi ár.

Ég sé hér á tölum um rekstrartekjur og gjöld ríkisins, að á fyrsta ári þessa ánægjulega tímabils, 1950, voru tekjur samkv. fjárlögum 298 millj., en á síðasta ári þessarar glæsilegu fjármálastjórnar Framsfl. höfðu þessar tekjur og gjöldin tilsvarandi — hækkað úr 298 millj. upp í 805 millj. Þetta var nú hækkunin, tæpar 300 millj. upp í rúmar 800 millj., og þó er þess að gæta, að 1958 er búið að leika þann skollaleik að kljúfa í sundur ríkissjóðinn og fleygja parti af tekjum og gjöldum ríkisins yfir í útflutningssjóðinn, svo að ef ætti að hafa sambærilegar tölur, þá er þetta orðið miklu hærri upphæð en þessar 805 millj.

Þegar litið er á þennan samanburð frá 1950–58, þá hlýtur maður náttúrlega að dást að því, hversu Framsfl. hefur stjórnað fjármálum landsins á þessu tímabili bæði glæsilega og sérlega ánægjulega.

Ég held, að ef sú hækkun á fjárlögum, sem nú á sér stað, eins og segir í nái. hv. 1. minni hl., fari með þeim hraða, að helzt minni á kappakstur, að þessi hækkun frá 1950–58 undir hinni ánægjulegu handleiðslu Framsfl. minni á kappaksturshraða, sem fer langt fram yfir lögleyfðan aksturshraða hér á landi a.m.k.

Tekjuáætlun þessa fjárlagafrv. hefur orðið nokkuð að umræðuefni hér, og er því haldið fram, að tekjuáætlunin sé laus í reipunum, eins og hv. frsm. 2. minni hl. orðaði það, og í ósamræmi við áætlanir ráðuneytisstjóra efnahagsmrn. Ég vil nú fyrst taka það fram, að vitanlega gætir jafnan, ekki aðeins nú, heldur jafnan nokkurrar óvissu um áætlanir á tekjum ríkissjóðs. Þar eru svo mörg öfl og stundum gagnverkandi öfl, sem ráða, að ákaflega er erfitt að segja þar um fyrir fram. Og alveg sérstaklega þegar jafnmiklar breyt. verða í þjóðfélaginu og í sambandi við gengisbreyt., hinn frjálsa innflutning og yfirleitt viðreisnarráðstafanirnar, þá er að sjálfsögðu ákaflega erfitt að gera nákvæmar tekjuáætlanir fyrir næsta ár. Þannig hefur reynzt á þessu ári. Þegar fjárlög fyrir árið 1960 voru samin, var að sjálfsögðu reynt eftir föngum að gera sér grein fyrir, hver innflutningurinn mundi verða á þessu ári,. og svo í samræmi við það aðflutningsgjöldin, sem eru mikill meiri hluti tekna ríkissjóðs. Í þetta var lögð mikil vinna og reynt að gera sér sem gleggsta grein fyrir því. Var mönnum auðvitað ljóst, að þar tókust á ýmis öfl, sum, sem bentu til þess eða unnu að því að draga úr innflutningnum, og önnur til að auka hann. Á ég þar annars vegar við gengisbreyt. og þá kjaraskerðingu, sem af þessum ráðstöfunum hlyti að leiða í bili, og hins vegar afnám innflutningshafta og aukið innflutningsfrelsi. Það verður sú einkennilega niðurstaða á þessu ári, að innflutningurinn í heild verður nokkru meiri en áætlað var, en hins vegar verða tollatekjur ríkisins væntanlega nokkru minni en áætlað var. Þetta hefur verið skýrt hér rækilega, en stafar fyrst og fremst af því, að þó að innflutningsmagnið verði meira, þá dregst saman miklu meira innflutningur af hátollavörum en öðrum vörum. Í sambandi við samningu þessarar tekjuáætlunar fyrir 1961 er það í fyrsta lagi, að sú áætlun, sem efnahagsmálaráðunauturinn lagði fyrir fjvn., sú áætlun um tekjur er svo að segja sú sama og er í frv. Þar er ekkert misræmi á milli. Spurningin er þá, hvort rétt hafi verið að gera þær till. um hækkanir á tekjuáætlun, sem gerðar eru í till. meiri hl. n., og ég held, að það sé fullfast að orði kveðið að tala þar um verulegt ósamræmi, vegna þess að mörg af þessum atriðum eru algert matsatriði. Sýnist eitt þessum og annað hinum, og það, sem hér munar, er ekki meira en um 2%. Það, sem meiri hl. fjvn. leggur til að tekjuáætlunin í heild hækki, mun nema í kringum 2%. Þegar maður athugar, hvílíkt matsatriði er hér um að ræða og óvissu, eins og jafnan er í sambandi við innflutningsáætlun og tekjuáætlun fyrir næsta ár, þá held ég, að þetta sé hverfandi lítið og alls ekki réttmætt að tala um neitt ósamræmi þarna í milli.

Ég gat þess, að það væri ekki óvissa um tekjuáætlunina aðeins nú, heldur hefði oft verið áður; og ég held, að þegar maður lítur yfir t.d. undanfarinn áratug, annars vegar tekjuáætlanir fjárlaga og hins vegar ríkisreikninginn, og sér þar, hverjar tekjurnar urðu, þá sýnir það, að töluvert mikil óvissa hefur stundum verið.

Tökum t.d. tvö ár, árin 1950 og 1951. Árið 1950, snemma á árinu, var gerð gengisbreyting. Á því ári voru tekjur ríkisins áætlaðar 298 millj., og reynslan varð mjög nærri þeirri spá. Rekstrartekjurnar urðu um 306 millj., fóru aðeins lítillega fram úr áætlun. Á næsta ári eftir gengisbreytinguna, árið 1951, áætlaði Alþ. eða þáverandi fjmrh. og fjvn. tekjurnar 298 millj. Í það skipti urðu þær 414 millj. Þarna skakkaði af 298 millj. áætlunum hvorki meira né minna en 116 millj. kr. Þannig má lengi rekja. Stundum reynast tekjurnar mjög nærri áætlun. Stundum, sem betur fer sjaldan, hefur vantað upp á, að tekjurnar nái áætlun. Stundum eru þær langt fyrir ofan. Ég bendi aðeins á þessi dæmi til þess að sýna, hversu mikil óvissa hlýtur alltaf að ríkja um tekjuáætlun og innflutningsáætlun, og miðað við þá reynslu, sem við höfum haft, held ég, að ekki sé hægt með sanni að tala um neitt ósamræmi í till. meiri hl. fjvn. annars vegar og hins vegar áætlun efnahagsmrn.

Í sambandi við tekjuáætlunina vil ég minnast á eitt, og það er 8% innflutningssöluskatturinn, sem lögfestur var á þessu ári. Hv. frsm. 2. minni hl., 6. þm. Sunnl., fór þar með stórrangfærslu sína nr. 2 í sinni ræðu. Hann heldur því blákalt fram, að því hafi verið lofað, að þessi 8% innflutningssöluskattur yrði alls ekki framlengdur á árinu 1961. Þetta eru hrein ósannindi. Ég veit ekki til, að nokkur maður, hvorki úr ríkisstj, né stjórnarflokkunum, hafi gefið slíkar yfirlýsingar. Þvert á móti. Í umr. hér á Alþ. lýsti ég því yfir að gefnu tilefni hvað eftir annað, að um það væri ekkert hægt að segja, hvort þennan innflutningssöluskatt þyrfti að framlengja á árinu 1961. Ég tók það fram. Það, sem nú er verið að ákveða, er þetta: Hann er nauðsynlegur til að jafna halla á fjárlögum ársins 1960. Um það, hvort þarf að framlengja hann að einhverju leyti eða öllu leyti eða unnt verður að fella hann niður, er ekki unnt að segja fyrr en næsta haust, þegar fjárlögin fyrir 1961 koma til meðferðar. Þessu var lýst yfir af mér oftar en einu sinni hér í Alþ. Það eru því gersamlega staðlausir stafir, þegar er verið að búa til hér nú, að það hafi verið gefin einhver loforð um það, að þessi skattur yrði ekki framlengdur. Slíkt hefði manni náttúrlega aldrei dottið í hug, að fara að gefa slíkt loforð fram í framtíðina. Það má vera, að þessi hv. þm. ætli að byggja þessar staðhæfingar sínar á því, að á síðasta þingi var aðeins ákveðið um það, að hann skyldi gilda fyrir þetta ár, og að hann var nefndur bráðabirgðasöluskattur. Nú er vitað, að á annan áratug hafa á hverju einasta þingi verið íramlengdir frá ári til árs margir tekjustofnar, ekki einn, heldur margir. Þeir hafa verið kallaðir bráðabirgðaskattar, það hefur verið bráðabirgðaframlenging, sem átti aðeins að gilda fyrir það ár. Var þá Framsfl. í áratug á hverju einasta þingi að svíkja sín loforð, margsvíkja, með því að framlengja þessa skatta? Eða var þessi hv. þm., 6. þm. Sunnl., í tíð vinstri stjórnarinnar alltaf að svíkja einhver gefin loforð með því að greiða atkv. með því og berjast fyrir því, að þessir bráðabirgðaskattar allir saman yrðu framlengdir? Ef á að leggja þann skilning í orð þessara hv. frsm. tveggja, að ef skattur er aðeins ákveðinn til eins árs í senn, þá séu það einhver svik að framlengja hann næsta ár, þá eru þeir fyrst og fremst að saka sjálfa sig um svík árum saman. Vitanlega nær það engri átt að leggja slíkan skilning í gjöld eða tekjustofna, sem þannig eru íramlengdir frá ári til árs. Og ég tek það enn einu sinni fram, að það eru gersamlega staðlausir stafir, að nokkur loforð hafi verið gefin um það, að þessi skattur yrði ekki framlengdur á þessu ári, heldur skýrt tekið fram, að það yrði að meta við afgreiðslu fjárlaga fyrir 1961.

Nú er það öllum ljóst, sem hafa kynnt sér fjárlögin og horfurnar, áð ríkissjóður má ekki við því að missa á næsta ári þennan tekjustofn, ef á að afgr. fjárlög tekjuhallalaus, sem ég vona þó að allir séu sammála um, og ef ekki á að leggja á nýja skatta eða aðflutningsgjöld. Nú er það stefna ríkisstj. hvort tveggja að afgreiðs hallalaus fjárlög og að leggja ekki á nýja skatta eða aðflutningsgjöld.

Það er rétt, að ég komi hér að þriðja stóra ranghermi hv. 6. þm. Sunnl., og sannast sagna hélt ég, að sá reyndi þm., sem veitti fjvn. forstöðu um skeið og kynntist mjög fjármálum ríkisins, væri gætnari maður og orðvarari en fram kemur í hans ræðu hér, því að hann lýsir því yfir hreinlega, að ríkisstj. hafi gefið loforð um að greiða að fullu öli vátryggingargjöld íslenzka fiskiskipaflotans fyrir árið 1960 og þetta nemi hvorki meira né minna en 90—100 millj. kr., upp í það muni fást úr útflutningssjóði væntanlega um 40 millj. kr. Þetta eru staðlausir stafir algerlega. Það er ekki nokkur minnsti fótur fyrir þessu. Ríkisstj. hefur engin loforð, engar yfirlýsingar gefið í þessa átt. Ég get lýst því yfir líka hér, að úr ríkissjóði verður á næsta ári ekki greiddur einn einasti eyrir í þessu skyni. Ég býst við, að flestir hv. þm. viti mætavel, hvað hér er um að ræða. Það, sem útgerðarmönnum hefur verið sagt, er það, að ríkisstj. muni fallast á það og mæla með því, að þegar útflutningssjóður er endanlega upp gerður, verði það, sem eftir stendur í honum, notað til hagsmuna eða þarfa sjávarútvegsins.

Þegar hv. 6. þm. Sunnl. fer nú með svona ranghermi hér, þá getur það eiginlega ekki stafað af öðru en að annaðhvort hefur hv. þm. trúað Þjóðviljanum eða Þjóðviljinn hefur trúað honum, — ég veit ekki, hvort er það rétta. Út af þessari skáldsögu sinni finnur hann það svo, að það vanti m.a. í gjaldabálk þessa frv. hvorki meira né minna en líklega 50–60 millj., sem ríkisstj. sé búin að lofa að greiða af hendi á næsta ári, en alls ekki sé áætlað fyrir. Trúi því hver sem er og hver sem vill, að ríkisstj., hvort sem það er þessi eða önnur, mundi leyfa sér að afgreiða fjárlög með slíkum hætti.

Enn fremur segir hann, að útflutningsuppbætur á landbúnaðarafurðir séu vanreiknaðar sem nemi upp undir einum tug milljóna. og þetta sé gert vitandi vits. Hver er nú sannleikurinn í þessu? Sannleikurinn er sá, að þeir, sem kunnugastir eru þessum útflutningsmálum landbúnaðarafurða, eru ekki á einu máli um það, hverjar uppbæturnar muni verða á næsta árl. Það er mjög vægt til orða tekið að segja, að þeir séu ekki á einu máli, heldur greinir þá svo stórkostlega á, að þær áætlanir, sem ég hef heyrt frá ýmsum fróðum mönnum á þessu sviði, eru frá 10 millj. upp í 22 millj. kr. og svo ýmsar tölur þar á milli. Framleiðsluráðið sjálft hefur sent tvær áætlanir til fjvn., og skakkar þar nokkru, að vísu ekki mjög miklu, á milli, en sem sagt, það voru ekki liðnar margar vikur, þangað til framleiðsluráðið sjálft hélt því fram, að fyrri áætlunin væri röng og ætti að vera þó nokkuð miklu lægri. Ég skal ekkert fullyrða um það, hverjar útflutningsuppbæturnar verða, en eftir nákvæma athugun á þessu máli hefur það orðið niðurstaðan að áætla 12 millj. í fjárlögum næsta árs fyrir þessu. Í sambandi við það mál vil ég taka mjög undir það, sem hv. frsm. meiri hl. sagði hér, að þau mái þurfa gagngerðrar endurskoðunar við og sú skipan, sem höfð er á þessum útflutnings- og uppbótarmálum landbúnaðarins, hún getur ekki staðizt til lengdar. Kerfið allt saman þarfnast gagngerðrar endurskoðunar. Vitanlega getur það ekki staðizt, að ríkissjóður greiði uppbætur án þess að geta í rauninni nokkur áhrif haft á það, hvað þær verða miklar, m.a. vegna þess, að útflytjandinn hefur ekki nokkurra hagsmuna að gæta í því, hvaða verð fæst fyrir vöruna. Ríkissjóður skuldbindur sig til að borga það, sem á vantar, og í annan stað, að höfð skuli um meginhluta þessa útflutnings alger einokun. Ég efa ekki, að þeir, sem standa að þessum útflutningi, séu samviskusamir og góðir menn, en skipulagið sjálft verður auðvitað að taka til gagngerðrar endurskoðunar.

Ég skal, þótt af mörgu sé að taka og æskilegt hefði verið að svara ýmsu, sem fram hefur komið í ræðum og nál. minni hl., ekki fara út í öllu fleiri atriði að þessu sinni, en mun koma nánar síðar og þá einkum við 3. umr. að sumum þeirra atriða, sem hér hefur verið um rætt.