30.01.1961
Efri deild: 49. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 273 í C-deild Alþingistíðinda. (1949)

171. mál, réttindi og skyldur hjóna

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Frv. þetta fylgir, eins og það næsta á undan, frv. að nýjum erfðalögum, en þetta fjallar um breyt. á l. um réttindi og skyldur hjóna, og er aðalbreyt. í 1. gr., sú, að í kaupmála megi ákveða, að um séreign, sem annað hjóna hefur hlotið samkvæmt kaupmála, skuli fara sem hjúskapareign þess eftir lát þess hjóna, sem fyrr andast. Ætlunin er þá sú, að séreignin komi í raun og veru einungis til, meðan bæði hjónin eru á lífi, og hefur það fyrst og fremst áhrif, ef þau skilja, að þá komi eignin í hlut þess, sem kaupmálinn sagði, að þessi hlutur væri séreign þess, en með sérstöku ákvæði sé hægt að segja, að séreignin sé úr sögunni við dauða aðilans.

Þetta virðist ekki vera ósanngjarnt ákvæði, en gildir sem sagt ekki, nema það sé sérstaklega tekið fram og aðilar óski eftir því að hafa þann hátt á.

Í 2. gr. frv. er sú breyting einkanlega, að hvoru hjónanna um sig er heimilt, ef annað er dáið, þá því, sem eftir lifir, að taka af óskiptu muni, sem aðeins eru ætlaðir því til notkunar, enda sé verð þeirra eigi óhæfilega hátt, borið saman við efnahag hjónanna. Þessir hlutir, sem bundnir eru við persónu manns, koma í raun og veru ekki til skipta, heldur eiga að tilheyra þeim, sem þeir voru ætlaðir, og á þá ekki heldur samkvæmt 3. mgr. að taka þá með við ákvörðun bús og erfðahluta. Mér skilst, að þetta sé einnig nýtt ákvæði varðandi þá upptalningu, sem er í 2. mgr. 2. gr., sem þar fyrir utan er gamalt ákvæði, sem lengi hefur verið í gildi.

Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða meir um þetta, en legg til, að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. allshn.