18.10.1960
Neðri deild: 6. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 275 í C-deild Alþingistíðinda. (1956)

31. mál, efnahagsmál

Flm. (Eysteinn Jónsson):

Herra forseti. Áður en ég kem að meginefni frv., sem hér liggur fyrir, vildi ég leyfa mér að hafa dálítinn aðdraganda eða formála og minnast með nokkrum almennum orðum á ástæður í efnahagsmálum, eins og þær virðast nú, aðdraganda þess, sem gert var s.l. vetur í þeim málum, og einnig þær ráðstafanir, sem þá var gripið til. Ég mun stikla mjög á stóru í þessu, eins og gefur að skilja, og ég hef ekki hugsað mér að tala sérstaklega langt mál, en óhjákvæmilegt er að rifja upp fyrir sér nokkur höfuðatriði einmitt í sambandi við þetta frv., sem hér liggur fyrir.

Það má segja og var oft rifjað upp í fyrravetur, að núverandi valdasamsteypa tók við málum hér seint haustið 1958 eða nánast í árslok 1958. Áður hafði setið stjórn þriggja flokka, vinstri stjórnin, en á þessum tíma urðu alger tímamót í þessum málum, eins og stjórnarflokkarnir hafa sjálfir verið óþreytandi að leggja áherzlu á.

Núverandi stjórnarflokkar eða forráðamenn þeirra vilja ekki neita því, að þeir hafi lagt út í ýmsar ráðstafanir, sem hafa komið illa við margan. En þeir hafa sagt sem svo: Þetta er allt saman nauðsynlegt að gera, vegna þess að við tókum við stórkostlegum erfiðleikum. Málefni landsins voru hörmulega komin, þegar tími okkar kom. Það varð að gera ráðstafanir, sem hlutu að hafa þungar búsifjar í för með sér fyrir nær alla í landinu. — Þetta er viðlagið í því, sem forráðamenn stjórnarflokkanna hafa kveðið frá fyrstu tíð. Við skulum íhuga þetta eða minnast aðeins á þetta fyrst, aðeins örfáum orðum.

Þegar fyrrverandi stjórn, — ég nenni nú ekki einu sinni að vera að gera mun á stjórn Alþfl., sem Sjálfstfl. myndaði, og þessari, sem nú er, — ég orða þess vegna þannig þetta, að þegar fyrrverandi stjórn lét af völdum, þ.e.a.s. vinstri stjórnin, þá var í stuttu máli þannig ástatt: Það var um 60–70 millj. kr. greiðsluafgangur á ríkisbúskapnum árið 1958. Gjaldeyrisstaða bankanna var eftir síðustu skýrslum, sem Landsbankinn hefur látið frá sér fara í þeim efnum og ég var að lesa í gær, á þessum tíma hagstæð um á milli 80 og 90 millj. kr. Lánamál stóðu þannig og framkvæmdir og heildarblærinn á þjóðarbúskapnum var sá, að þótt Íslendingar hefðu tekið nokkuð af lánum erlendis þá undanfarið til að standa undir framkvæmdum, þá var það dómur þeirra, sem bezt þekkja til þessara mála, að þjóðin hefði aldrei verið betur fær um að standa við allar skuldbindingar sínar en einmitt þá, eins og málin stóðu, vegna þess að lánsfé hafði verið notað til að koma upp arðbærum framkvæmdum. Þjóðartekjurnar voru í örum vexti og framundan enn meiri vöxtur þeirra vegna ráðstafana, sem þá var verið að gera og nýbúið var að gera til þess að auka enn stórkostlega við framleiðslutækni. Þannig var ástatt í þessum efnum. En svo var einn vandi sérstaklega erfiður við að fást, og hann var sá, að stjórnarandstöðunni, sem þá var, Sjálfstfl., hafði tekizt með ýmiss konar skemmdarstarfsemi í stjórnarandstöðunni að reisa nýja dýrtíðaröldu í landinu. Þannig var því ástatt, að ef ekki var hægt að finna ráð til að bæta úr þessu, var augljóst, að mikill vöxtur dýrtíðarinnar var fram undan. En það lá líka fyrir, að þrátt fyrir þessi skemmdarverk stjórnarandstöðunnar var vel hægt að leysa þau mál með tiltölulega auðveldu móti og halda kaupmætti launanna í landinu eins og hann hafði verið Í október- og febrúarmánuði 1958. Þetta var hægt með því og var sýnt fram á, að það var hægt með því, að fallið yrði frá að láta koma inn í kaupgjaldið og afurðaverðið nokkur vísitölustig. Þannig var hægt að koma stöðvun á verðlagið í landinu og ná þannig jafnvægi, og þessi vísitölustig svöruðu nokkurn veginn til þeirrar dýrtíðaraukningar, sem hafði orðið vegna skemmdarverka stjórnarandstöðunnar.

Þetta er í örfáum orðum rétt mynd af því, hvernig ástatt var í landinu. Það var síður en svo, að hér væri nokkur neyð, eins og öll þjóðin veit. Málin stóðu svona. Það var afgangur í ríkisbúskapnum, og gjaldeyrisstaðan var jákvæð. En það var þessi vandi við að fást, sem hægt var að leysa. Því miður brugðust þar samtök um að leysa þennan vanda, og þess vegna var það, sem núverandi valdasamsteypa náði tökunum á málefnum þjóðarinnar.

Augljóst var strax 1959, að af því mundu verða óheppilegar afleiðingar á allan hátt. Það var á árinu 1959, sem fór að síga á ógæfuhlið í þessum málum. Það var látið reka á reiðanum. Það var reynt að drasla þessum málum áfram fram yfir tvennar kosningar, sem voru fyrst og fremst miðaðar við að styrkja valdaaðstöðu þessarar samsteypu með kjördæmabreytingunni. Það var látið reka á reiðanum um efnahagsmálin á meðan, með þeim afleiðingum, að greiðsluafgangurinn frá 1958 var étinn út, og var lifað á honum þennan tíma, með þeim afleiðingum líka, að afkoma þjóðarinnar út á við fór mjög versnandi frá því, sem hún hafði áður verið, þannig að gjaldeyrisstaða bankanna var orðin talsvert óhagstæð um áramótin 1959 og 1960, í stað þess að hún var hagstæð, þegar vinstri stjórnin skilaði af sér. Þannig seig á ógæfuhlið strax á fyrsta ári þessarar valdasamsteypu. Það var látið reka og unnið að því einu að reyna að undirbyggja völdin til þess síðan að geta tekið þeim tökum á málefnum landsins, sem komu svo fram eftir síðari kosningarnar.

Þessar kosningar tvennar voru háðar með slíkri ófyrirleitni, að þess munu vart dæmi áður hér á landi, þar sem því var, þrátt fyrir það, hvernig þessi mál stóðu, lýst hátíðlega yfir, að það væri búið að stöðva algerlega dýrtíðina, og menn skyldu trúa þessari valdasamsteypu fyrir því að sjá um áframhaldandi stöðvun hennar og batnandi lífskjörum, var bætt við. Þetta var sú kosningastefna, sem valdasamsteypan hélt fram. Allir vita, hvernig þetta var svikið. Það var ekki fyrr búið að kjósa, en þeir, sem stóðu fyrir þessum málum og þessum yfirlýsingum, fóru að undirbúa ráðstafanir til þess að magna dýrtíðina í landinu sem allra mest. Það voru þeirra úrræði, því að þeir vildu taka upp nýja efnahagsmálastefnu og mynda hér nýtt þjóðfélag, sem átti að byggjast á samdrætti. Það átti að ná jafnvægi með samdrætti og knýja þannig fram, að hér gæti orðið innleiddur kapítalismi, hreinn og ómengaður kapítalismi. M.ö.o.: undireins og búið var að kjósa, voru þessar yfirlýsingar gersamlega hafðar að engu og blaðinu snúið algerlega við, tekin upp samdráttarleiðin, sem var beinlínis fólgin í því að magna dýrtíðina sem allra mest og ná samdrættinum þannig og með öðrum ráðstöfunum í sömu stefnu, sem ég mun koma að örlítið.

Nú hefur stjórnarsamsteypan af og til verið að klifa á því, að það hafi ekki verið um gott að gera, því að málin hafi staðið svo illa. Ég hef nú lýst því, hvernig þessi mál stóðu, þegar vinstri stjórnin skilaði af sér, og sannarlega þurfti ekki til af því, hvernig málin stóðu þá, að grípa til neinna örþrifaráða í ætt við það, sem gert var eftir kosningarnar 1959. Ég hef líka lýst því, hvernig fór að halla á ógæfuhlið, eftir að núverandi valdasamsteypa náði tökum á þjóðarbúskapnum árið 1959.

En þá er spurningin: Var þá búið að fara þannig með þessi mál á því eina ári, að það gæfi ástæðu til þess að leggja út í það, sem gert var? Ég segi: Þó að þá hafi sigið mjög á ógæfuhlið frá því, sem áður var, var ástandið þó alls engan veginn þannig, að það réttlætti á nokkurn hátt það, sem gert var. Þó að þá væri orðinn gjaldeyrishalli og gjaldeyrisstaðan væri orðin óhagstæð, þá liggur það skýrt fyrir samkv. yfirlýsingum frá hæstv. ráðherrum sjálfum, bæði hæstv. forsrh. og hæstv. fjmrh., að skakkinn, sem þá var í efnahagskerfinu eða framleiðslukerfinu, var a.m.k. ekki yfir 250 millj. kr. Hæstv. forsrh. gaf yfirlýsingu um, að hann væri metinn á 150 millj. kr., og eitt er alveg augljóst, hæstv. ráðh. hefur ekki gert minna úr því en honum sýndist eða var, þegar þess er gætt, út í hvað hann ætlaði sér að fara alveg á næstunni. Þá var einmitt komin tilhneiging til að mála ástandið miklu dekkri litum en ástæða var til. Var raunar gripið til hinna furðulegustu blekkinga í því skyni og ekki skirrzt við að ófrægja ástandið í efnahagsmálum Íslands og það beinlínis út á við líka til þess að reyna að finna skálkaskjól fyrir þær ráðstafanir, sem í undirbúningi voru. Það er því alveg augljóst, að hæstv. forsrh. hefur ekki dregið úr þeim skakka, sem fyrir var, eða því viðfangsefni, sem við var að fást, þegar hann nefndi þessar 250 millj.

Af þessu leiðir því það, sem margsinnis hefur verið sýnt fram á og margsinnis var sýnt fram á í fyrravetur, að það var engin ástæða til og rak enga nauð til að leggja út í neitt líkt því, sem gert var í efnahagsmálum landsins. Það var hægt að leysa þau og ná jafnvægi eftir öðrum leiðum með margfalt umfangsminni og heppilegri ráðstöfunum en þeim, sem núverandi hæstv. ríkisstj. greip til. Þetta var þráfaldlega sýnt fram á í fyrravetur, þó að hæstv. ríkisstj. vildi ekki á það hlusta. En það var auðvitað vegna þess, að það, sem vakti fyrir hæstv. ríkisstj. og stjórnarflokkunum, var ekki bara að leysa efnahagsmál landsins, leysa þann vanda, sem fyrir lá. Það var allt annað, sem vakti fyrir þeim. Það var að skapa nýja þjóðfélagshætti, eins og hæstv. fjmrh. lýsti hér yfir með miklu yfirlæti í fyrravetur í sambandi við þessi efni. Það var það, sem vakti fyrir núverandi stjórnarflokkum: að gerbreyta um stefnu í málefnum þjóðarinnar og þá fyrst og fremst, eins og ég mun koma að síðar, með því að innleiða hér alveg ómengaðan kapítalisma, ómengaða auðvaldsstefnu, — stefnu, sem væri miðuð fyrst og fremst við fjármagnið. Þetta dylst engum manni í landinu nú lengur. Það var raunverulega þetta, það voru þessir nýju þjóðfélagshættir, sem núv. hæstv. fjmrh. gat um, sem voru allsráðandi í hugum þeirra, sem stóðu fyrir þessu.

Það var hægt að fara þær leiðir í þessu, sem Framsfl. þráfaldlega benti á í fyrravetur, en þær leiðir hefðu haft það í för með sér, að uppbyggingar- og framfarastefnunni hefði verið haldið áfram og höfuðáherzlan hefði verið lögð á það áfram að auka framleiðsluna og framleiðnina, auka þjóðartekjurnar og komast út úr þeim vanda, sem fyrir lá, fyrst og fremst á þann hátt, eins og Íslendingar hafa í raun og veru alltaf verið að gera í þrjátíu ár. Í þrjátíu ár, hefur rauði þráðurinn í starfsemi Íslendinga verið sá að leysa vandamálin með því að auka þjóðartekjurnar, með auknum framförum á öllum sviðum og rífa sig þannig úr kútnum, en ekki með hinu mótinu, að draga saman, eins og nú hefur verið efnt til.

Vanda þeim, sem fyrir lá, og skekkjunni í efnahagskerfinu var hægt að mæta með því m.a. að afla tekna upp í þann halla, sem þarna var til staðar, með álögum á eyðsluna, — ég segi eyðsluna, — gagnstætt því, sem núv. ríkisstj. hafði sem höfuðúrræði, sem var að leggja sem allra mesta skatta á neyzluna, þá daglegu neyzlu almennings. Hefur það aldrei komið fyrir áður og er einkennandi fyrir þá stefnu, sem ofan á varð, að það hefur verið lagður skattur á rafmagn, fisksoðningu og annað slíkt, sem menn þurfa á að halda daglega til að draga fram lífið. Það er einkennandi fyrir þessa stefnu, sem nú var tekin upp, að á þetta skyldu koma álögur í fyrsta skipti í sögu þjóðarinnar. Það var sem sé hægt að jafna þennan skakka með því að hyllast til að leggja fremur á eyðsluna. Það var einnig hægt að fikra sig áfram áleiðis og draga úr uppbótakerfinu í áframhaldi af því, sem gert var 1958, með því að hækka nokkuð yfirfærslugjaldið. Þannig hefði verið hægt að ná fullum jöfnuði í þjóðarbúskapnum og tryggja áfram kröftuga framfarastefnu.

Ef það dæmdist, að fjárfestingin væri of mikil í heild, þá benti Framsfl. kröftuglega á þá leið að velja úr þær fjárfestingarframkvæmdir, sem helzt máttu bíða, og láta þær bíða, en varaði á hinn bóginn alveg eindregið við þeirri stefnu, sem upp var tekin, en í því var fólgin að gera allar fjárfestingarframkvæmdir almennings í landinu svo dýrar, að menn treystu sér ekki til þess að halda þeim áfram eða ráðast í nýjar. En það er raunverulega sú stefna, sem hæstv. ríkisstj. tók upp. Það er einn liður í samdráttarbúskapnum. Það er einn liður í hugmyndum ríkisstj. um að ná því, sem hún kallar jafnvægi, eftir samdráttarleiðinni. Ríkisstjórnin virðist ekki geta hugsað sér neina aðra leið en þá að kýta búskap landsmanna meir og meir saman.

Þannig var hægt að fara allt aðrar leiðir til að leysa þann vanda, sem fyrir lá eftir árið 1959, eftir þær aðfarir, sem þá áttu sér stað, og því langt í frá, að nokkurn nauð ræki til að leggja út í þær panik-ráðstafanir, sem hæstv. ríkisstj. beitti sér fyrir. Það voru allt aðrar ástæður, sem þar lágu til grundvallar. Það voru hinir nýju þjóðfélagshættir, sem þar voru markmiðið.

Hvað var það svo, sem hæstv. ríkisstj. gerði? Hún lækkaði gengið verulega, lét þeirri gengislækkun fylgja stórkostlegar nýjar álögur til ríkissjóðs, og mun vera einsdæmi, að slíkur böggull hafi fylgt gengislækkun. En hún gerði meira: Hún óttaðist, eftir því sem fram kom, að áhrifin af þessum ráðstöfunum yrðu ekki nógu stórkostleg til samdráttar og þó alveg sérstaklega ekki nógu stórkostleg til þess að koma á hinu nýja þjóðskipulagi, sem verið var að vinna að. Þá var bætt við gífurlegri vaxtahækkun og stórfelldum samdrætti í útlánum. Af ótta við, að jafnvel þetta allt saman væri ekki nóg til þess að snúa hlutunum svo gersamlega við sem hún vildi, þá var tekin ákvörðun um, að til viðbótar þessu skyldi draga helminginn af öllu því, sem landsmenn legðu fyrir í sparisjóðum, bönkum og innlánsdeildum, inn í Seðlabankann og frysta það þar, sjá þannig um, að þessir peningar kæmu landsmönnum ekki að gagni, hvorki í framleiðslunni né til þess að halda áfram uppbyggingunni. Allar þessar ráðstafanir gerði ríkisstj. í senn og raunar miklu fleiri aðrar smærri ráðstafanir, en þetta eru aðalatriðin.

Nú var bent á það í fyrravetur, og það var ekki unnt að hrekja, enda ekki hægt að hrekja, að verðhækkunaráhrif þessara ráðstafana allra saman, þótt dregin séu frá áhrif þeirra skattalækkana, sem gerðar voru, og fjölskyldubóta, sem ákvarðaðar voru, — að verðhækkunaráhrif allra þessara ráðstafana í þjóðarbúskapnum gátu aldrei verið, undir einum milljarð og 100 milljónum, og voru þó ekki tekin til greina þau verðhækkunaráhrif, sem segja má að gengju út og inn í dæminu, þ.e.a.s. þau verðhækkunaráhrif, sem komu fram á rekstrarvörum framleiðendanna, vegna þess að þá stóðu menn í þeirri meiningu, að framleiðendur mundu fá það bætt upp aftur með hærra verði fyrir sínar framleiðsluvörur, sem ekki varð, því að ofan á allt annað bættist, að ríkisstj. hélt þannig á þessu máli, að framleiðendur til sjávar og sveita fengu alls ekki þær verðhækkanir, sem þeir áttu að fá til þess að mæta hækkuninni á rekstrarvörunum.

Þessi verðhækkunaráhrif gátu aldrei orðið minni en yfir einn milljarð, þ.e.a.s. sú hækkun, sem varð beinlínis á neyzlu- og framkvæmdavörum, allt miðað að vísu við þjóðarbúskapinn eins og hann var, þegar þetta var innleitt.

Hæstv. ríkisstj. var bent á það í fyrravetur, að ráðstafanir eins og þessar hlytu að leiða til stórkostlegra vandkvæða. Það væri ekki hugsanlegt að gera svona stórkostlegar ráðstafanir öðruvísi en það hefndi sín. Það gæti ekki einu sinni náð þeim tilgangi, sem hæstv. ríkisstj. ætlaðist til. Þessar ráðstafanir væru svo geigvænlegar og af þeim hlyti að verða stórkostleg verðbólgualda, af þeim hlytu að stafa svo stórkostleg vandræði fyrir framleiðsluna í landinu, að þær gætu ekki staðizt. Það væri skapað ástand, sem mundi leiða til þess, að það yrði enn á ný að gera stórfelldar nýjar ráðstafanir og svo koll af kolli, enda gefur alveg auga leið, að svona hlaut þetta að fara. Það var óhugsandi, eins og það var orðað í fyrravetur, að gera svona heljarstökk og koma standandi niður.

Til þess svo að gera langa sögu stutta, þá vil ég aðeins leyfa mér að benda á, hvernig nú er ástatt, aðeins nokkrum mánuðum eftir að núv. ríkisstj. kom þessum ráðstöfunum í gegnum þingið. Þó vil ég, áður en ég kem að þessu, lýsa ofur lítið nánar einum þætti í þessari stefnu. Það er vaxtaþátturinn og þátturinn í lánamálum.

Það var alveg sérstaklega sýnt fram á í fyrravetur, að fyrirætlanir ríkisstj. í þeim efnum væru hrein fásinna. Það var sýnt fram á, að þeir vextir, sem ríkisstj. hafði ákveðið að setja, væru hærri en svo, að nokkur atvinnurekstur á Íslandi gæti staðizt þá. Og fyrirætlanir þær, sem hæstv. ríkisstj. lét þá uppi varðandi lánastarfsemi í landinu, voru líka með öllu óframkvæmanlegar án þess að framkalla stöðvun og öngþveiti. En fyrirætlanir ríkisstj. voru þær, að Seðlabankinn mætti alls ekki og ætti ekki að fá leyfi til að lána meira út á afurðir framleiðendanna en áður. Þó að framleiðslukostnaðurinn ætti að hækka stórkostlega vegna gengisbreytingarinnar og þó að verðið á afurðunum ætti einnig að hækka vegna gengisbreytingarinnar, þá átti að leggja blátt bann við því, að Seðlabankinn lánaði einum eyri meira út á hverja vörueiningu en áður. Þetta mun í raun og veru þýða, að Seðlabankinn hafi dregið saman útlán sín til framleiðsluatvinnuveganna úr 67% niður í 53–55% a.m.k. Jafnhliða þessu var svo boðuð sú stefna í boðskap ríkisstj. í fyrravetur, að viðskiptabankarnir og sparisjóðirnir ættu að skila helmingnum af því, sem landsmenn lögðu til hliðar á árinu, — þeir ættu að skila því inn í Seðlabankann til frystingar þar til þess að tryggja, að þetta fjármagn gæti ekki komið framleiðslu landsins að notum, — gæti ekki komið landsmönnum að notum. En fram að þessu hefur því verið trúað, að sparnaðurinn í landinu væri of lítill og því væri of lítið fé til ráðstöfunar til að lána út bæði framleiðendum og þeim öðrum, sem mest þyrftu á lánsfé að halda. En hæstv. ríkisstj. boðaði þessa stefnu: að í viðbót við það, að Seðlabankanum skyldi bannað að lána einni krónu meira út í framleiðsluna en áður þrátt fyrir hinar stórkostlegu verðhækkanir, þá skyldu viðskiptabankarnir, sparisjóðirnir og innlánsdeildir kaupfélaganna verða að skila inn í Seðlabankann til frystingar og til að taka úr umferð helminginn af allri sparifjáraukningunni í landinu. Þá var landsmönnum ætlaður sá kostur að búa við það lánsfé í sínum rekstri og framkvæmdum, sem viðskiptabankarnir gætu látið í té, þegar búið væri að taka helminginn af því, sem við bættist, og draga inn í Seðlabankann.

Ég undrast, að nokkrum manni, sem þekkir til íslenzks atvinnulífs, skuli hafa dottið í hug að leggja út með aðra eins fásinnu og þetta, enda var kröftuglega varað við þessu í fyrravetur, að þetta gæti ekki með nokkru móti staðizt: að moka yfir framleiðendur og landsmenn yfirleitt þeim gífurlegu verðhækkunum, sem leiddi af gengislækkuninni og nýju tollunum, bæta þar á ofan þessari ósvífnu vaxtahækkun og gera síðan ráðstafanir til, að útlán til framleiðslunnar skyldu standa í stað í krónutölu, og loks, að helmingurinn af því sparifé, sem safnaðist í landinu, skyldi lagður dauður til að passa það, til að gæta þess vandlega, að það gæti ekki komið neinum að gagni, sem væri í vanda staddur vegna allra þessara ráðstafana.

Það hefur vitanlega einnig reynzt þannig, að þessi stefna hefur í reyndinni haft hin geigvænlegustu áhrif, sem þó eru ekki nema að litlu leyti komin fram enn þá. Framleiðendur í landinu hafa riðið á vaðið, sumir við sjávarsíðuna, og látið í ljós, hvernig þessum málum er komið. Þeir hafa fengið þær kveðjur frá aðalmálgagni stjórnarliðsins, að þeirra vitnisburðum um þessi efni mætti líkja við það, þegar saman kæmi „samsafn fífla“. Það væri engu líkara, sem frá þeim kæmi í þessu sambandi. En það voru hógværar bendingar um, hvaða afleiðingar af öllu þessu væru orðnar fyrir framleiðsluna í landinu.

En þó að ríkisstj. hafi með þessu viljað reyna að skapa hér í landinu eins konar „terror“ og viljað þagga niður í mönnum og héldi víst, að menn þyrðu ekki að láta í ljós skoðanir sínar, ef svona væri á því tekið, þá hefur það vitanlega alls ekki heppnazt. Fleiri og fleiri hafa látið í ljós skoðanir sínar á þessum efnum, og meðal þeirra, sem hafa kvatt sér hljóðs um þetta, er einn mikilsvirtur atvinnurekandi í landinu og útgerðarmaður, Haraldur Böðvarsson á Akranesi. Hann hefur lýst því með sterkum orðum, hvernig verðhækkanirnar, vaxtahækkanirnar og lánasamdrátturinn, þessi þrjú höfuðatriði í stefnu ríkisstj., þessi þrjú grundvallar- og meginatriði, sem allt hitt er byggt á, verðhækkanirnar, vaxtahækkanirnar og lánasamdrátturinn, hvernig þetta hafi nú þegar farið með sitt fyrirtæki. Og ef þetta hefur nú þegar farið svo sem þessi atvinnurekandi eða framleiðandi hefur lýst með hans fyrirtæki, þá má nærri geta, hvað muni vera orðið um marga aðra.

Ég sagði áðan, að ríkisstj. hefði byrjað með því að segja mönnum með vissu móti „að þegja“. Það var það, sem byrjað var með. Það er nú ekki hægt lengur.

Þá er farið að boða eða láta skína í úrræði, sem kæmu til greina í þessu efni, því að ekki er hægt að neita staðreyndum til lengdar. Eitt af úrræðunum, sem látið er skína í, er ekki það að lækka vextina, þó að það sé búið að sýna sig, að enginn atvinnurekstur á Íslandi getur staðið undir þessum vöxtum, og þó að það sé búið að sýna sig, hvernig þessir vextir hafa farið með fjöldann allan af landsmönnum, bæði einstaklingum og framleiðendum, — nei, það er ekki það — en það er látið í skína, að það þurfi sennilega að veita meiri lán. Það var út ef fyrir sig ákaflega merkilegt, að nú skyldi allt í einu verða uppgötvað, þegar búið er að bisa við það í allt sumar að koma í veg fyrir, að menn geti fengið meiri lán. Það er búið að loka spariféð inni og banna undir hart straff að lána það út. En nú allt í einu á stund neyðarinnar er það uppgötvað, eð eftir allt saman muni þurfa meiri lán. Og þá virðist hugsunin vera sú að veita einhverjum einhver kreppulán eða einhver slík lán til þess að greiða okurvextina!

Stundum er verið að minnast á, að þetta stafi allt af því, að það hefi verið lélegur afli og það hafi orðið verðfall á vissum afurðum. Var okkur ekki sagt í fyrravetur, að það væri verið að innleiða hér nýtt efnahagskerfi og nýja- þjóðféhagshætti, sem væru þannig vaxnir, að það þyrfti ekki neinar aukaráðstafanir í þeim efnum, þetta ætti að vega sig sjálft, það væri búið að finna kerfi, sem gerði það að verkum, að þetta vægi sig sjálft, og þyrfti ekki frekari afskipti af efnahagsmálunum?

Það kom í raun og veru ónotalega í ljós strax í vor sem leið, þegar síldarútvegurinn fór af stað, hvað þetta var allt illa í pottinn búið hjá hæstv. ríkisstj. og á hvílíkum brauðfótum þetta stóð, þegar varð að grípa til þess að greiða uppbætur á saltsíldina til að koma síldarútveginum af stað. En okkur var sagt í fyrravetur, að það væri verið að koma hér á efnahagskerfi, sem gerði allar uppbætur gersamlega óþarfar og öll ríkisafskipti í nokkuð líkri mynd og áður. En nú er verið að impra á því, að þetta nýja efnahagskerfi sé eftir allt saman ekki sterkara en það og ekki meiri trygging fyrir þjóðarbúskapinn og atvinnureksturinn í landinu en svo, að það þoli ekki verðfall á tveimur eða þremur vörutegundum af mörgum tugum vörutegunda, sem Íslendingar framleiða, enda er sannleikurinn sá, að þeim, sem fyrir þessu standa, var vel kunnugt um það í fyrravetur og var á það bent, að það hafði orðið verðfall á fiskimjöli og síldarmjöli og nokkuð á síldarolíu þá strax, og þeim var því skylt að taka það til greina. En ég býst við, að þeir hafi þá treyst mjög eindregið á, að kerfið mundi áreiðanlega þola það og meira til, án þess að upp á það þyrfti að lappa.

Um aflabrestinn er það að segja, að það var mjög léleg síldarvertíð, verri en síldarvertíðin í fyrra, en hún var ekki verri en verið hefur mörg undanfarin sumur. Ég veit ekki, hvað heildaraflinn á landinu er nú í dag, en ég veit, að miðað við 1. ágúst mun heildaraflinn vera um 30 þús. tonnum hærri en hann var á sama tíma að meðaltali síðustu 4 ár. Það er því náttúrlega þýðingarlaust fyrir núverandi ríkisstjórn að vera að flýja frá ósigri sínum í þessum efnum öllum saman, sem liggur opinn fyrir öllum, með því að skella skuldinni í því sambandi á óvænt verðfall eða stórkostlegan aflabrest.

Af þeim fáu dráttum, sem ég nú hef dregið og komið inn á, er auðsætt, að ráðstafanir þær, sem hæstv. ríkisstj. greip til í fyrravetur, hafa nú þegar leitt hið versta öngþveiti yfir þjóðina.

Er þó ekki nema sáralítið enn komið fram af því, sem af þessu hlýtur að leiða. Það liggur sem sé alveg ljóst fyrir af því, hvernig ástatt er með málefni framleiðslunnar, að það verður óhjákvæmilegt að gera margvíslegar nýjar ráðstafanir vegna hennar. Þessi mál standast alls ekki, eins og hæstv. ríkisstj. hefur frá þeim gengið. Þau standast alls ekki. Og ríkisstj. sjálf er nú þegar farin að sjá þetta. Eftir að hún hefur komið auga á, að fúkyrðin hrökkva skammt, þá er hún sjálf farin að impra á alls konar nýjum ráðstöfunum vegna framleiðslunnar. Hefur þó ekki verið imprað á nema litlu enn af því, sem hlýtur að koma til greina.

Ef við lítum svo á, hvernig ástatt er um verðlag í landinu og dýrtíðina yfirleitt, þá er deginum ljósara og var ljóst strax í fyrravetur og bent á það mjög greinilega þá, að svo stórkostleg dýrtíðaralda sem nú hefur verið reist í landinu hlýtur að hafa í för með sér hækkun á kaupgjaldi og hækkun á afurðaverði til landbúnaðarins. Ráðstöfunum eins og þeim, sem hæstv. ríkisstj. beitti sér fyrir, jafnstórkostlegum ráðstöfunum til þess að magna dýrtíðina, sem beinlínis voru miðaðar við að magna dýrtíðina í landinu, hljóta að fylgja kauphækkanir og hækkun á afurðaverði. Það eiga enn eftir að koma fram verðhækkunaráhrif af þessum ráðstöfunum í fyrstu umferð. T.d. er ekki að fullu komin fram verðhækkun á iðnaðarvarningi í landinu, ekki komin fram nándar nærri öll sú hækkun enn þá.

Það er því alveg augljóst mál, hvernig sem á þetta er lítið, að þetta gat aldrei staðizt, og kemur alltaf greinilegar og greinilegar í ljós, og afleiðingarnar af þessu eru ekki nema að litlu leyti komnar fram enn þá.

Ef við lítum svo aftur á framkvæmdamálin í landinu, þá er líka augljóst, að afleiðingarnar af stefnu ríkisstj. eru ekki nema að litlu leyti komnar fram á því sviði. Menn hafa á allar lundir reynt að halda áfram með þær framkvæmdir, sem þeir höfðu lagt í, t.d. íbúðabyggingar og margvíslegar aðrar framkvæmdir, öflun nýrra framleiðslutækja. Menn hafa reynt að halda áfram með þetta þrátt fyrir alla erfiðleika. Þrátt fyrir öll þau björg, sem ríkisstj. hefur raðað á götu þeirra, hafa menn reynt að brjótast áfram með þetta á þessu ári. En allir, sem nokkuð þekkja til í landinu, og það vona ég að flestir hv. þm. geri verulega, vita, að það er fram undan stórkostleg stöðvun á framkvæmdum, ef ekkert verður að gert.

En hvað leiðir svo af því, ef samdráttur nær að verða í þeim mæli, sem hæstv. ríkisstj. hefur hugsað sér? Það leiðir óhjákvæmilega af því, að á næstu missirum minnka þjóðartekjurnar. Sú framleiðsluaukning, sem eðlilega á að koma fram í þjóðarbúinu, verður ekki. Kyrrstaðan hefur, áður en nokkur veit, stórkostleg áhrif á atvinnu manna og tekjur þeirra og þar með á framleiðslu þjóðarinnar í heild og lífskjörin. M.ö.o.: ef þetta fær allt að halda áfram á þeirri braut, sem ríkisstj. hefur sett það inn á, má búast við verulegum samdrætti í þjóðarbúinu á öllum sviðum, sem verður til að rýra lífskjörin frá því, sem þau hefðu átt að vera og getað verið, alveg þveröfugt við þá stefnu, sem haldið hefur verið uppi oftast nær á undanförnum áratugum og hefur legið í því að reyna að nota það fjármagn, sem þjóðarbúið hefur haft yfir að ráða, til þess að halda uppi fullri atvinnu og auka framleiðsluna og þjóðartekjurnar. Nú er algerlega snúið við blaðinu og beinlínis gerðar ráðstafanir til þess, að það fjármagn, sem þjóðin sparar innanlands, verði ekki notað á sama hátt og verið hefur, til þess að greiða fyrir öflugri framleiðslustarfsemi og framkvæmdum manna. Og það er þetta, sem við flm. þessa frv. köllum hreina misnotkun á því ákvæði seðlabankalaganna, sem heimilar undir vissum kringumstæðum að fyrirskipa, að viðskiptabankar og sparisjóðir eigi einhverjar inneignir í Seðlabankanum. Það er hrein misnotkun á því ákvæði, sem hér hefur verið framkvæmt af hendi hæstv. ríkisstj., og þess vegna verður að afnema það ákvæði. Það er sýnilegt, að ríkisstj. misnotar þetta herfilega til þess beinlínis að framkalla í landinu þann samdrátt og stöðvun, sem hún telur nauðsynlegt að koma hér á, — ekki til þess að ná jafnvægi í viðskiptunum við útlönd eða leysa vandamál dagsins í efnahagsmálunum, heldur til þess að koma hér á nýjum þjóðfélagsháttum.

En hverjir eru þá þessir nýju þjóðfélagshættir, sem hæstv. fjmrh. boðaði í fyrravetur sem meginmarkmið? Það getur engum dulizt. Það á að herða þannig að þeim, sem sumpart eru að reyna að koma sér upp eigin íbúðum eða eignast þær, og sumpart þeim, sem hafa framleiðslustarfsemi með höndum, að þeir gefist hreinlega upp, að rekstur þeirra strandi og að hann geti orðið færður yfir á aðrar hendur, hann geti orðið færður yfir á hendur þeirra, sem hafa meira eigið fjármagn. Þetta er beinlínis prédikað af hæstv. ríkisstj. og málgögnum hennar. Því hefur blygðunarlaust verið haldið fram í aðalmálgagni ríkisstj., Morgunblaðinu, að ein höfuðvitleysan á undanförnum árum, sem Framsfl. hafi staðið fyrir, hafi verið sú, að það hafi verið greitt fyrir því með lánum og alls konar stuðningi, að hinir og aðrir menn gætu lagt út í útgerðarstarfsemi t.d., þó að þeir ættu ekki nógu mikið fjármagn sjálfir til þess að leggja í reksturinn. Því hefur blygðunarlaust verið haldið fram í þessu aðalmálgagni ríkisstj., að þetta væri höfuðsjúkdómseinkenni þess þjóðfélags, sem upp hefur verið byggt á síðustu áratugum.

Þetta þýðir, að höfuðsjúkdómseinkenni þjóðfélagsins sé það, að of mörgum þeim, sem hafa ekki fullar hendur fjár og ráða yfir verulegu auðmagni, of mörgum slíkum aðilum hafi verið hjálpað, of margir slíkir hafi verið studdir til að komast yfir framleiðslutæki og atvinnutæki, íbúðir og aðrar eignir. Þetta sé óheilbrigt. Það eina heilbrigða sé að breyta nú til og tryggja það, að meira eigið fjármagn, meira einkafjármagn sé í atvinnurekstrinum en verið hefur. En það þýðir, að þeir, sem byggja rekstur sinn að verulegu leyti á lánsfé, verði að stranda. Þeirra atvinnurekstur verði að stranda og þá í trausti þess, að þá komi hinir til, sem hafa meira af fjármagninu, og komi rekstrinum af stað aftur. Þetta eru hinir nýju þjóðfélagshættir, það markmið, sem núverandi stjórnarflokkar hafa sett sér. Til þess að ná jöfnuði í þjóðarbúskapnum var hægt að fara allt aðrar leiðir.

Eins og ég hef margsinnis minnt á, var því beinlínis lýst yfir á s.l. vetri, að það ætti að koma upp nýju efnahagskerfi og nýjum þjóðfélagsháttum. Og síðan er þetta prédikað nú, og þetta er að smáskýrast, því að nú, þegar komið er að örlagastundinni, sem sagt þeirri örlagastund, hvort á að stöðva meginhlutann af framleiðslunni og standa við það að láta þessa þjóðfélagsbyltingu verða, þá er það, sem aðalmálgagn ríkisstj. biður menn að skilja, að eitt höfuðvandamálið sé, að allt of margir hafi verið studdir til að eignast framleiðslutæki, sem hafi ekki nægilegt eigið fjármagn. Síðan er því hátíðlega lofað, að slíkt skuli ekki endurtaka sig, það þurfi að breytast. En náttúrlega veit það hver einasti maður, sem kemur nálægt framleiðslu á Íslandi, að þessi lánastefna, sem hæstv. ríkisstj. hefur verið að framkvæma, er hrein fásinna og gersamlega óframkvæmanleg nema með því að ganga strikið alveg til enda, stöðva alla þá eða meginþorra þeirra, sem að þessum málum hafa unnið, og bíða svo eftir því, að nýir komi í staðinn.

Það er bara um þetta að ræða annars vegar eða hitt að leka niður á þessu og breyta til. Og það er auðvitað það, sem á að gera. Það á að breyta til. Það á að hætta þessu og koma í veg fyrir, að þeir nýju þjóðfélagshættir nái að festa rætur, sem hæstv. ríkisstj. hefur hugsað sér, vegna þess að ég er alveg sannfærður um það, að mikill meiri hluti íslenzku þjóðarinnar ætlast alls ekki til þess. Hann ætlast alls ekki til þess, að meginhluti þeirra framleiðenda í landinu, sem hafa verið að brjótast í því á undanförnum árum að koma sér upp atvinnutækjum, verði skornir niður við trog, né þess, að meginþorri þeirra manna, sem hafa verið að koma sér upp eigin íbúðum, fari í raun og veru sömu leiðina. í staðinn komi svo þetta nýja dýrðarríki, sem aðalmálgagn Sjálfstfl. er að prédika, þar sem það megi ekki koma fyrir, að þeir, sem hafa ekki nógu mikið eigið fjármagn, fái að koma nálægt framleiðslu og íbúðabyggingum eða öðru slíku.

Hér er um algeran stefnumun að ræða, alger stefnuskil. Það er nefnilega hvorki um meira né minna að ræða en það, hvort á að halda áfram að byggja íslenzkt þjóðfélag upp svipað og gert hefur verið eða breyta í hið nýja horf. Við lifum ekki í því, sem hægt er að kalla hákapítalískt þjóðfélag. Það lýtur ekki þeim lögmálum, sem ríkisstj. kapítalismans og hennar ráðunautar vilja nú láta fylgja. Og höfuðkjarni málsins er einmitt þessi: hve margir einstaklingar, sem eru ekki ákaflega sterkir fjárhagslega til að byrja með, hafa verið studdir til þess að koma sér upp bæði atvinnurekstri og eignast íbúðir og annað, sem þarf til að vera efnahagslega sjálfstæðir.

Það hefur verið hafður allt annar háttur á þessu hér en í nálægum löndum. Hér hefur ekki verið útfærður hreinn kapítalismi. En það er einmitt það, sem aðalmálgagn ríkisstj. segir nú að verði og eigi að gera. En því mótmæli ég og áreiðanlega margir fleiri, þ. á m. áreiðanlega margar þúsundir þeirra manna, sem hafa kosið núverandi stjórnarflokka í þeirri trú, að það væri alls ekki meiningin að breyta svo gersamlega til sem nú virðist vera ætlunin, ef ekki verður þá á síðustu stundu horfið frá því að ganga línuna á enda.

Einn þáttur í þessum málum, sem mjög var hafður á oddi í fyrravetur, var sá, að hér ætti að breyta alveg um þjóðfélagshætti, breyta þjóðskipulaginu. Það sagði hæstv. fjmrh. hvað eftir annað. En þegar á leið og menn fóru að halda, að það væri ekki eins vinsælt og þeir höfðu álitið að breyta þjóðfélaginu í þessa stefnu, þá var talað um, að hér væri aðeins verið að leita jafnvægis í efnahagsmálunum. Það hefði verið svo mikill gjaldeyrishalli. Vitanlega þurfti að leita jafnvægis, og ég hef mjög ýtarlega bæði fyrr og síðar undirstrikað þær aðferðir, sem framsóknarmenn vildu viðhafa til þess. Þeir vildu ekki fórna framfarastefnunni fyrir það, enda þurfti þess ekki, eins og reynslan margfaldlega hefur sýnt. En ég veit, að þegar ríkisstj. í fyrravetur var að meta það, hve fast ætti að slá, þá var miðað við, hvað fast mundi þurfa að slá til að ná þessari þjóðfélagsbreytingu fram, — ekki ná jafnvæginu, heldur koma fram þjóðfélagsbreytingunni. Hugsunin var vafalaust: Við skulum gera þetta svo hressilega, að það muni um. Við skulum gera þetta svo hressilega að við fáum einnig í leiðinni nokkur hundruð milljón króna afgang á ríkisbúskapnum og að við fáum stórfelldan gjaldeyrisafgang. Ef okkur tekst að koma í veg fyrir, að framleiðslan stöðvist, fáum við stórkostlegan gjaldeyrisafgang og getum svo haft meira svigrúm á eftir. Þetta hlýtur einnig að hafa verið hugsunin. Nú er of snemmt að dæma um, hvernig þetta hefur tekizt, því þó að hæstv. viðskmrh. hafi undanfarið verið að fara hér í einhver félög og segja, að einhverjar skuldir hafi verið 7 millj. kr. lægri einhvern dag í ár en þær voru á þorranum eða góunni í fyrravetur, þá segir það afskaplega lítið um, hvernig farið hefur um þetta atriði. Ég býst við, að það sé of snemmt að fella dóm um það, hvernig farið hefur um þetta. Það hlýtur að verða einhver verulegur afgangur hjá ríkissjóði. Ég veit ekki hvort hann verður nokkur hundruð millj. eða 100–200 millj. Það kemur í ljós síðar. Og það hefði náttúrlega enginn undrast neitt á því, þótt afgangur yrði 300 millj. t.d. miðað við þær áætlanir, sem fyrir lágu um tekjurnar, því að þær voru áætlaðar minni en þær hefðu orðið af jafnháum innflutningi og var 1958, fyrir tveimur árum. Þær voru áætlaðar eitthvað um 200 millj. minni en þær hefðu orðið af jafnháum innflutningi og var 1958.

Þessi samdráttur allur hlýtur að hafa hitt þjóðina meira en lítið alvarlega, ef það verður ekki mörg hundruð millj. kr. afgangur á ríkisbúskapnum. Það sama er í raun og veru að segja um gjaldeyrisafkomuna. En eitt vil ég segja nú: Ef hér fer allt á aðra lund en hæstv. ríkisstj. ætlaðist til, þegar hún sló þetta þunga högg, þá er það ekki sízt fyrir það, hvað höggið var þungt, sem hún sló, og hvað þessar ráðstafanir voru fávíslegar. Og vitanlega voru þær svo stórkostlegar og svo fávíslegar, að þær hlutu að verka á móti sjálfum sér þegar á fyrsta ári. Þær hlutu að hafa áhrif strax á fyrsta ári til þess að draga úr þjóðarframleiðslunni, eins og nú er fram komið, þar sem sjávarútvegurinn er nú þegar lamaður út af þessum aðförum. Þetta á allt eftir að koma greinilega í ljós síðar og ekki ástæða til að ræða það meira í dag, a.m.k. ekki nema þá að sérstaklega gefnu tilefni.

Ég hef nú í þessum fáu orðum lagt mikla áherzlu á að benda á, að því miður er ekki nema lítið eitt fram komið af afleiðingum þess, sem gert var í fyrravetur, og mun þó flestum þykja nóg orðið. En því miður er það ekki nema lítið. En það mætti gera ráðstafanir að dómi okkar flm. nú strax til þess að draga úr því, að afleiðingarnar komi fram að fullu. Til þess höfum við flutt frv. það, sem hér liggur fyrir.

En frv. er um að gera nú þegar ráðstafanir til þess að færa vextina niður í það horf, sem þeir voru, áður en þessar ráðstafanir voru gerðar, þar sem það er augljóst, að enginn atvinnurekstur á Íslandi getur staðið undir þessum vöxtum, og þetta er hættulegt mál. Það er hættulegt ástand, sem hefur skapazt vegna þessarar ákvörðunar um vextina. Það var sagt, að þetta ætti að gera til að minnka eftirspurnina eftir lánsfé í landinu og skapa aukið jafnvægi þá leiðina. En sannleikurinn er sá, að það hefur víst aldrei vorið meiri eftirspurn eftir lánsfé í landinu en einmitt nú, vegna þess hvernig þjarmað hefur verið að mönnum, því að fjöldi manna reynir í örvæntingu sinni að leita sér að láni til þess að komast hjá því að þurfa að selja eigur sínar. Það er þannig ástand, sem hefur verið skapað. Og þegar þannig ástand er skapað í landinu með ýmsum ráðstöfunum og lánasamdrætti, þá er ekki hugsanlegt, að það verði til þess að draga úr eftirspurninni eftir lánsfé. Þetta sýnir einnig með öðru, að þessar ráðstafanir voru svo glæfralegar, að þær áttu enga stoð.

Það hefur verið talað nokkuð um, að sparifé hafi vaxið. Það gæti farið svo að lokum á þessu ári, að sparifé yrði eitthvað meira en í fyrra, um einhverjar fáeinar krónur. En lítið hrekkur það upp í allt það stórfellda tjón, sem allar þessar ráðstafanir hafa gert. Og hvers konar hringavitleysa er það að leggja slíka höfuðáherzlu á það atriði með ráðstöfunum, sem verða til stórtjóns fyrir allan þjóðarbúskapinn á aðra lund, loka síðan helminginn af því sparifé, sem safnast saman, inni í Seðlabankanum til þess að koma í veg fyrir, að það geti orðið að gagni? Hvaða hringavitleysa er þetta? — Hvaða tegund af hringavitleysu?

Ég hef ekki séð nýrri tölur um sparifjáraukningu í landinu en til 1. ágúst. Ég hef ekki plaggið með mér, það er í Hagtíðindunum. Og þó að það skipti ekki verulegu máli um smávægilegar fjárhæðir til eða frá, þá var þannig ástatt eftir þeim tölum, sem þá lágu fyrir, að ef maður tók saman hlaupareikningana og sparisjóðsreikningana, var vöxturinn á sparifénu í viðskiptabönkunum minni á þessu ári fram að þeim tíma en hann hafði verið á sama tíma í fyrra. Nú er ég ekki að segja, að það sé stórt atriði í þessu sambandi, hvort spariféð í landinu hefur vaxið um 10 millj. meira eða minna, því að hér er svo miklu meira í húfi, eins og ég hef lýst, þar sem eru þau geigvænlegu áhrif, sem ráðstafanirnar hafa haft á þjóðarbúskapinn til tjóns. En þessar tölur, sem ég gat fengið nýjastar í Hagtíðindunum, voru á þessa lund. Við, sem stöndum að þessu frv., teljum, að það ætti að mega draga nokkuð úr þeim hættulegu áhrifum, sem af þessu eru að verða, með því að breyta nú þegar vöxtunum og einnig með því að hætta nú þegar að draga inn í Seðlabankann helminginn af því, sem þjóðin leggur fyrir.

Þá ætti að rýmkast nokkuð um lánamöguleikana hjá bönkunum, ef þetta væri gert. Ef það er á hinn bóginn ætlun ríkisstj. að halda þessari samdráttarstefnu áfram svona, eins og hún er í framkvæmd nú fram á þennan dag, og jafnvel herða á, þá getur það ekki verið gert í öðru skyni en því að framkvæma nú strax þessa þjóðfélagsbyltingu, sem þeir virðast hafa haft í huga þ.e.a.s. innleiða hér nýja þjóðfélagshætti, koma þeim hreinlega í strand, sem nú eru að brjótast í því að hafa með höndum framleiðslurekstur og að eiga eigið þak yfir höfuðið, og þá í trausti þess, að þeir, sem hafa fjármagnið, komi og eignist þessi tæki: Þannig byggist hér upp alveg nýtt þjóðfélag, þar sem það ódæði verði ekki framið, sem Morgunblaðið kallar, að styðja þá, sem hafi tiltölulega lítið eigið fjármagn, til þess að eignast framleiðslutæki, því að eins og ég hef margtekið fram í þessum fáu orðum, þá virðist það vera aðalmergurinn í stjórnarstefnunni að bæta úr höfuðmeinsemdinni í okkar þjóðarbúskap, að of margir, sem kalla mætti bjargálna, hafi komizt yfir lánsfé, og að framvegis verði að koma í veg fyrir, að aðrir geti haft með höndum atvinnurekstur eða verulegar eignir undir höndum en þeir, sem eigi nógu mikið fjármagn sjálfir. Ef það er ætlun núv. hæstv. ríkisstj. að halda þessum samdrætti, eins og hann er nú og hefur verið, og jafnvel herða á, þá er það vottur þess, að hún ætlar að gera þetta strax, ætlar að hlaupa línuna á enda. En til þess hafa núverandi stjórnarflokkar ekkert umboð, vegna þess að þá stefnu hafa þeir aldrei undir þjóðina borið, aldrei. Þeir hafa aldrei borið þá stefnu undir þjóðina og hafa ekkert umboð til þess að framkvæma slíkan holskurð á íslenzku þjóðfélagi, ekkert umboð. Þeir fengu sitt umboð alveg þvert á móti út á yfirlýsingar sínar um það að halda áfram eins og gert var, áður en þeir gripu til þessara ráðstafana. Þeir marglýstu yfir, að þeir ætluðu að stöðva dýrtíðina og að engin gerbreyting ætti að eiga sér stað.

Ég vil leyfa mér að vonast eftir því, að það verði fallizt á að samþykkja þetta frv., sem hér liggur fyrir. En atriðin í því eru sem sé tvö, eins og ég hef bent á að breyta stefnunni í vaxtamálunum nú strax og hætta að draga hluta af sparifénu til frystingar inn í Seðlabankann. Að sjálfsögðu þyrfti líka að fylgja í framhaldi að auka endurkaup Seðlabankans frá því, sem þau hafa verið á þessu ári, því að vitanlega nær það engri átt að lána nákvæmlega sömu krónutölu af hendi Seðlabankans út á afurðirnar, þótt þær hafi hækkað stórkostlega í verði og allur tilkostnaður við framleiðsluna stórhækkað.