18.10.1960
Neðri deild: 6. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 288 í C-deild Alþingistíðinda. (1957)

31. mál, efnahagsmál

Forsrh. (Ólafur Thors):

Herra forseti. Ég verð að segja alveg eins og er, að það undrar mig fullkomlega að heyra mann, sem hefur verið fjmrh. jafnlengi og hv. 1. flm. þessa frv., flytja aðra eins ræðu og hann gerði nú. Hann endaði á því að segja, að það væri fullkomlega óheimilt þessari stjórn að gera nokkurn skapaðan hlut í stjórnarsessi, sem hún hefur ekki áður borið undir þjóðina við kosningar. Þessi maður felldi gengið 1939 með mér. Hann felldi það 1950 með mér. Hann felldi það 1956 án mín. Hann felldi það 1958 án mín. Og hér um bil öll árin þar á milli lagði hann hundruð millj. kr. nýja skatta á þjóðina, án þess að hann nokkurn tíma tilkynnti þjóðinni fyrir fram, að hann ætlaði að gera þetta, hvað þá að hann leitaði heimildar til þess. Svo kemur þessi maður, þessi syndaselur, og heldur aðra eins ræðu og hann flytur hérna. Ég held, að það hljóti að vera svartur blettur á tungunni á þessum gamla vini mínum eftir þennan málflutning. En þetta er aðeins litið sýnishorn af málflutningnum, eins og hann hefur allur verið. Ég hef unnið með þessum manni og þekki þar af leiðandi ágæta kosti hans. En ég hef líka heyrt hann í öðrum ham, en aldrei verri ham en núna, — aldrei. Við værum meira glæpahyskið, þessir gömlu samstarfsmenn hans, ef fyrir okkur vekti eitthvað af þessu, sem hann var að lýsa. Við erum ekki aðeins ótuktarmenni, heldur flón og það af verra taginu.

Hvaða ríkisstjórn sezt að völdum til að reyna að brjóta niður alla uppbyggingu í þjóðfélaginu, þá sem verið hefur á mesta framfaraskeiði þjóðarinnar? Dettur honum í hug í alvöru, að nokkur stjórn vilji þetta? En þannig var hann að lýsa okkur.

Ég hef fyrir mitt leyti átt talsverðan þátt í mörgum þeim ráðstöfunum, sem mest hafa verið til framfara, eins og ég ber líka mína ábyrgð á ýmsu því, sem miður hefur farið. Þetta á við okkur marga hér, því að auðvitað eru okkur mislagðar hendur. Ég hafði t.d. þann heiður að standa fyrir nýsköpunarstjórninni, sem lagði grundvöll að mörgu því, sem mest hefur verið til framfara fyrir þjóðina og við lifum af enn í dag. Og hann má nærri geta, hvort þeir menn, sem þar voru að verki, og auk þess menn, sem voru sumir samverkamenn hans við að byggja upp margt, sem mestri blessun hefur valdið, séu nú orðnir allt í einu þess sinnis að reyna að drepa allt niður. Hvaða umskiptingar erum við orðnir? Eða er það hann, sem er orðinn umskiptingur?

Hv. ræðumaður lýsti stefnu Framsfl. og núverandi ríkisstjórnar, og ég held, að hann hafi farið nærri því jafnranglega með hvort tveggja. Stefna núverandi ríkisstj. er að efla sem flesta einstaklinga til sjálfstæðs atvinnurekstrar og gera þeim kleift að standa á eigin fótum, — líka að hjálpa þeim efnalitlu til sjálfstæðs atvinnurekstrar. Ég tek þetta fram vegna þess, hve hann lagði mikla áherzlu á, að okkar tilgangur væri að drepa niður allan minni atvinnurekstur í landinu, svo að Sambandið gæti tekið allan atvinnurekstur í landinu, — hann var að tala um auðvaldið og þá stóru. Síðan leggjum við megináherzlu á að hindra, að ríkissjóður geti hirt allan afrakstur af annarra starfsemi. Það gerði ríkissjóður undir forustu hv. 1. þm. Austf. Það þýddi lítið fyrir menn að leggja mikið í hættu, að reyna að berjast við óblíða náttúru og örðugar kringumstæður, því að ef þeim lánaðist að bera eitthvað frá borði, þá var ríkisræninginn alltaf í vasa þeirra sýknt og heilagt.

Auðvitað verður núverandi ríkisstj. að reyna að lagfæra margar misfellur og gera ýmislegt, sem óvinsælt er. En það raskar ekki því, að það, sem fyrir okkur vakir, er að reyna að koma á sjálfstæðum atvinnurekstri sem allra flestra þegna þjóðfélagsins og halda yfir þeim hlífiskildi og greiða götu þeirra. Það er einmitt stefnan að reyna að lækna krabbameinið, sem komið var í þjóðfélagið og alla efnahagsstarfsemina, þannig, að þessi meginstefna megi blessast. Það er okkar stóra hugsjón. Það er ekki enn þá séð, hvort hún fær að lifa, það veltur á mörgu. En auðvitað er þetta hugsjónin.

Við skulum athuga, hvað mikið má marka af því, sem hv. þm. sagði um aðgerðir og hugarfar ríkisstj., á því, sem hann sagði um það, sem hann á að þekkja miklu betur, en það er sína eigin stefnu og sína eigin framkvæmd.

Hv. þm. hóf ræðu sína með því að lýsa, hversu allt stóð hér með blóma í árslok 1958, þegar hann fór frá völdum og hans flokkur, sem hafði stjórnarforustuna. Hann átti tæplega nógu fögur orð til þess að lýsa öllum þeim náðarsólum, sem forsjónin hafði látið skína á hann og hans starfsemi alla, og þeirri blessun, sem þessi starfsemi hafði fært yfir þjóðina. Það var eiginlega varla sá hlutur, skildist mér, sem betur varð á kosið, eins og þá stóð á. Hann sagði, að það hefðu aldrei verið betri aðstæður í íslenzku þjóðlífi. Hvað sagði Hermann Jónasson, þegar hann fór frá völdum 4. des. 1958. Þá sagði hann: Það er ný dýrtíðaralda skollin yfir þjóðina. Við erum alveg ráðlausir í stjórninni. Ég segi af mér. Hvað sagði efnahagsráðunautur þessa hv. fjmrh. þá? Hann var góður þá, var það ekki? Hann sagði: Við stöndum á gjaldþrotabarminum og riðum þar. Við verðum að gera tafarlausar ráðstafanir, því að ef við ekki gerum þær nú, þá er of seint að fást við þetta síðar. Þá missum við alveg tökin. — Er að furða, þó að þessi einn aðalráðamaður þeirrar stjórnar lýsti blessun sinni og aðdáun yfir því, hvernig komið var? En þannig lýsti hann sinum gerðum. Hann ætti ekki að vera að gera mér upp löngun til að rífa niður mitt ævistarf. Ég skal ekki gera honum þær getsakir sérstaklega, að hann vilji rífa niður hagsmuni almennings. En ég held, að honum hafi ekki síður en öðrum oft og einatt mistekizt.

Nú lýsti hann ákaflega glæsilega stefnu Framsfl. Það hefði eiginlega verið alveg óþarfi að hafast nokkuð að, ef þeir hefðu bara fengið að vera við völd og halda áfram að blessa þjóðina. Hann sagði, að ég hefði sagt eftir þeirra viðskilnað, að ekki þyrfti nema 250 millj., til þess að allt væri í bezta lagi hér. Ég sagði, að þá yrði valið um það að leggja á nýja skatta að upphæð 250 millj., sem yrði meiri kjararýrnun fyrir almenning í landinu heldur en þær ráðstafanir, sem nú eru gerðar. En fyrir það vildu menn ekki inn á þá leið, að hún leiddi áfram lengra og dýpra í kelduna, í fenið, sem við vorum að sökkva í. Það væri þess vegna að mínu viti og okkar ekki um annað að ræða en að reyna að snúa við, reyna að rétta okkur úr kútnum, reyna að leggja inn á nýjar brautir, reyna að komast út úr eyðimörkinni.

Þessi hæstv. ráðh. hafði lofað því, þegar hann settist í stjórnina 1956, að þá skyldu lækkaðir skattar og niður felldar allar uppbætur. En hvað var gert? Hann hafði lagt 1200 millj. kr. nýja skatta á þjóðina og uppbæturnar aldrei verið hærri. En ég segi: Ef stefnan var svona glæsileg, af hverju sagði þá Framsfl. af sér stjórnarforustunni og gafst alveg upp? Hvernig stóð á því? Af hverju framkvæmdi hann þá ekki þessa stefnu? Það er hægt að tala digurbarkalega, þegar maður er kominn í land úr skútunni, og láta aðra um að stýra henni. En af hverju reyndi þá ekki Framsfl. að bera fram á Alþingi þessar úrlausnir sínar? Jafnvel stjórnarsamstarfsmenn þeirra fengu aldrei neitt um þetta að vita, ef þá framsóknarmenn sjálfir hafa vitað það, sem ég veit að vísu ekki. Og hvernig blessuðust þessi handtök framsóknarmanna, meðan þeir réðu? Ég minni enn á, að þeir stórfelldu gengið sumarið 1958. 1200 millj. kr. nýir skattar voru lagðir á þjóðina. Og svo, þegar þessu var lokið, kom yfirlýsing stjórnarformannsins, sem ég áðan gat um, að það væri ekkert annað en strand framundan. Það er eitthvað annað en bjartsýnin, sem nú ríkir yfir ástandinu, sem þá átti að hafa verið. Ég trúi ekki, að jafnöflugur maður og hv. 1. þm. Austf. hefði hoppað í land af duggunni 4. des. 1958, ef ekki hefði verið alvarlegra umhorfs, ef einhverjar fleiri rottur hefðu ekki verið farnar að naga botninn á framsóknarduggunni um það leyti.

Og ef menn spyrja, hvert þessi stefna hefði leitt okkur, þá leiðist mér að vera að endurtaka það. En ég þarf ekki að vera feimnari en hv. 1. þm. Austf. Ég hef oft heyrt flest af því, sem hann sagði. Hann má þess vegna ekki láta sér verða óglatt, þó að ég segi eitthvað, sem hann hefur heyrt áður. Ég vissi ekki, þegar seinni kosningarnar haustið 1959 fóru fram, hversu illa var komið í okkar þjóðlífi, og ég vissi það raunar ekki heldur, þegar stjórnin var mynduð. Og sannleikurinn var sá, að umhorfið varð æ því svartara sem dýpra var kafað í lindir sannleikans og fleiri upplýsingar lagðar á borðið — tölulegar upplýsingar — um efnahagsafkomu þjóðarinnar. Við komumst þá að því, að við höfðum á 5 árum notað 1050 millj. kr. meira en við öfluðum, að meðaltali er það 210 millj. á ári. Við komumst að því, að af þessu leiddi, að greiðslubyrðin, þ.e.a.s. sá hluti af gjaldeyristekjum þjóðarinnar, sem nota þurfti til að greiða vexti og afborganir af því skuldafeni, sem við vorum að sökkva í, — greiðslubyrðin var orðin meira en helmingi hærri en hæst þykir fært í siðuðum þjóðfélögum. Hún var talin mundu komast í 12% árið 1961 af gjaldeyristekjunum í staðinn fyrir 5%, sem talið er hámark. Af þessu leiddi, að íslendingar gátu hvergi fengið lán. Þær stofnanir, eins og Alþjóðabankinn, gjaldeyrissjóðurinn, sem við eigum aðild að, neituðu algerlega að lána Íslendingum meira, af því að þær töldu, að það lægi fyrir utan ramma þeirra lagaheimilda, sem þessar stofnanir starfa eftir, að lána þjóð, sem þannig væri komin. Við vorum þess vegna dýpst sokknir í þessum efnum allra þjóða í veröldinni, sem ég veit um, nema ef til vill að einni þjóð undanskilinni. Þannig hafði sú stefna blessazt, sem hv. þm. var að miklast af. Við höfðum líka á fjórum árum þurft að horfa upp á gjaldeyrisaðstöðu þjóðarinnar versna um 300 millj. Við höfðum í árslok 1955 átt 220 millj. innistæður í frjálsum gjaldeyri, en í árslok 1959 er þannig komið, að þessar innstæður voru allar uppétnar og við höfðum fengið í staðinn skuld upp á 65 millj. Jafnframt hafði gjaldeyrisaðstaðan í jafnkeypislöndunum versnað um 15 millj. Þ.e.a.s.: gjaldeyrisaðstaðan hafði versnað á þessum 4 árum um 300 millj. Og það er satt, að við vorum þannig komnir, að í janúarmánuði 1960 vorum við með lífið í lúkunum á hverjum degi um, að öllum gáttum yrði lokað fyrir okkur og að Ísland kæmist í opinbert gjaldþrot eða greiðsluþrot út á við, sem hlaut að gereyðileggja áhrif þjóðar, sem þannig fór með sinn efnahag, án þess að illt árferði eða aðrar aðsteðjandi hættur eða voði hefði orðið á okkar vegi. Við vorum þannig komnir. Við vorum yfirleitt í flestum efnum þannig, að við höfðum yfirstigið það hámark, sem talið var fært nokkurri þeirri þjóð, sem vildi halda áliti umheimsins sem sjálfstæð þjóð í efnahagsmálum.

Svo kemur það til viðbótar, að kerfið, sem við byggðum á og urðum að breyta, — kerfið, sem þessir menn segja um: Það var hægt að lagfæra þetta smátt og smátt, — bar feigðina í skauti sér. Útflutningssjóðurinn, sem átti að standa undir uppbótunum, var allur byggður á því, að maður, sem flutti út fyrir 100 kr., átti kröfu að meðaltali upp á 87 kr. á sjóðinn. Þegar svo var flutt inn fyrir þessar 100 kr., fékk þessi sjóður ekki 87 kr. sínar til baka, heldur aðeins kr. 68.50. M.ö.o.: þarna hlaut að skapast geigvænlegur halli. Hvaða ráð voru til þess að bæta úr þessum halla? Annaðhvort hlaut útflutningssjóður að stöðvast og þar með kerfið að verða gjaldþrota eða við yrðum að finna ný úrræði til að bæta úr hallanum. Til þess voru tvö úrræði. Annað var að flytja inn meira af lúxusvörum, hátollavörum. Þetta úrræði reyndi bæði vinstri stjórnin og stjórn Emils Jónssonar til að reyna að halda sjóðnum fljótandi. En báðar ráku sig á, að það hámark, sem þær höfðu hugsað sér að flytja inn af lúxusvöru, stöðvaðist af því, að sjóðinn vantaði gjaldeyri. Hitt ráðið var svo að taka lán eða éta upp sjóði. Við vorum búin að éta upp alla sjóði, eins og ég var að lýsa, og lán fengum við hvergi. Og kerfi, sem lifir á lánum, er dautt, þegar enginn vill lána okkur lengur. Þó að menn að öðru leyti hefðu viljað flana út í þessa feigðargöngu, hafði vantraustið á þjóðina sett slagbrand við því, að við gætum álpazt þessar ógæfuleiðir lengur en gert var undir forustu Framsfl. Auk þess gaf auga leið um það, að ef við hefðum haldið lengra á þessari braut, þá var endirinn enginn annar en sá, að einhvern tíma kom að því, að við yrðum að gera það, sem við erum nú að reyna að gera, en því lengur sem það dróst, því örðugra hlaut það að verða.

Ég segi þess vegna, að því fer víðs fjarri, að það sé efnislega rétt, sem hv. ræðumaður sagði, að það hafi aldrei verið bjartara umhorfs í íslenzku þjóðlífi en þegar hann yfirgaf stjórnarskútuna. Það er miklu nær sanni, að þrátt fyrir einstakt góðæri höfum við aldrei verið komin nær því að glata efnahagslegu sjálfstæði en einmitt þá, og það er þess vegna, sem menn urðu að grípa til þeirra úrræða, sem auðvitað flestir hefðu viljað forðast.

Það er svo rétt, þó að hann deildi ekkert sérstaklega á það, að eitt af því, sem stjórnin gerði og ekki var gert áður, var að hindra kaupgreiðslur eftir vísitölu. Það er vegna þess, að reynsla þjóðarinnar hefur sannað, að þessi kaupskrúfa hefur reynzt öllum til bölvunar. Hv. 3. þm. Reykv. (EOl) hefur nú margbent á það hér, að afleiðing kaupskrúfunnar hafi verið launþegum til bölvunar. (EOl: Þetta er misskilningur hjá hæstv. ráðh. Ég hef margsannað, að verðbólgan hafi verið auðmönnum til góðs.) Þessi hv. þm. hefur margsagt hér, að kaupmáttur tímakaupsins hafi verið minni í fyrra en 1947, þó að krónutalan breyttist úr kr. 8.88 yfir í kr. 22.19, að mig minnir. (Gripið fram í.) Jæja, þá erum við sammála um það. Þetta eru náttúrlega hörð tök, en þetta er gert á grundvelli þeirrar reynslu, sem þjóðin hafði fengið, þeirrar illu reynslu. Hitt er líka rétt, að ein af ástæðunum fyrir því, að gengisfellingar okkar hv. 1. þm. Austf. fóru út um þúfur, var, að okkur láðist að gera ýmsar hliðarráðstafanir, sem eru óhjákvæmilegar, þótt harðar séu og bölvaðar. Það er ástæðan fyrir því, að þegar við felldum saman gengið 1950, þá vorum við svo illa komnir, hann og ég, að 1951 beittum við okkur saman fyrir bátagjaldeyrinum. Það var a.m.k. ein af ástæðunum fyrir því. Ég veit vel, að það er ekki vinsælt að skerða lánsfé manna. Ég veit vel, að það er afar óvinsælt að hækka vexti. En ég veit líka, að ef ekki eru gerðar ráðstafanir til að hindra verðbólguaukningu með starfsemi bankanna, þá er engin von að ná tökum á málinu.

Annars vil ég leyfa mér að segja það út af þessum vaxtahækkunum, að mér finnst Framsfl. og raunar aðrir vilja gleyma annarri hlið á málinu. Það er rétt eins og bankarnir tækju þetta fé allt til sín. Hver fær þessa vaxtahækkun? Er það ekki að langsamlega verulegasta leyti sparifjáreigandinn á Íslandi? Og hvernig hafa þeir mörgu tugir þúsunda, sem eiga sparifé, verið leiknir á undanförnum árum? Þeir hafa verið þannig leiknir, að vextirnir hafa verið svo lágir, að verðfall peninganna hefur verið meina en allir vextir til samans. Og nú er látið eins og það sé alveg goðgá, að þessir menn fái einhverja vexti, og ef þeir eiga að fá vexti, þá verða einhverjir að borga þá. Ég ætti ekki að vera formælandi þeirra, sem vilja þyngja bagga þeirra, sem eru skuldugir. Ég er það ekki heldur. En ég þori að horfast í augu við nauðsynlegt verk, þó að það sé óvinsælt, — það þori ég. Auðvitað er ég meðal þeirra, sem af skilningi á atvinnuháttum og atvinnulífi þjóðarinnar munu fagna þeirri fyrstu stund, sem auðið verður að lækka vextina, og mun sækjast eftir því, að hún renni upp sem allra fyrst, — ég fer ekkert leynt með það.

Við vitum sjálfir, að það er örðugt að lifa, þegar verið er að komast út úr verðbólguhugsunarhættinum og yfir í það, sem heilbrigt er. Það kostar fórnir, og það kostar að reyna að vekja skilning manna á því, að það er ekki alltaf hægt að segja: Mér gengur illa, ríkissjóður á að borga. — Það verður að reyna að koma þessu þannig fyrir, að atvinnurekendur, stórir og smáir, og ekki síður smáir en stórir, geti haldið uppi sínum rekstri, komið honum á heilbrigðan grundvöll, greiða fyrir þeim, eftir því sem hægt er, en að reyna að kenna mönnum, að þeir verða sjálfir að gæta fjár síns og láta nægja, að ríkisvaldið greiði fyrir í aðalefnum og a.m.k. drepi þá ekki niður með skattafarganinu, eins og var mjög gert undir forustu hv. 1. þm. Austf.

Það er eitt, sem mig langar til að benda hv. þm. á, eða spyrja hann um: Hefur hann hitt nokkurn sérfræðing í þessum efnum, — hann er það nú ekki, ég er það ekki heldur, — sem er ekki sammála um, að það hafi verið nauðsynlegt að gera þetta? Það hljóta að vera hagfræðingar, sem hann ber traust til, sem hann getur spurt um þetta. Ég hefði gaman af að heyra nöfn þeirra hagfræðinga, sem eru á því máli, að það hafi verið hægt að halda áfram á fyrri braut.

Það er nú að vísu orðinn háttur hér að nota það eiginlega sem skammaryrði að vera sérfræðingur. (Gripið fram í: Eða hagfræðingur.) Eða hagfræðingur, já, það er líka sérfræði. En hvernig stendur á því, að hásetinn á þilfarinu, sem er nú kannske kjarkkarl og tilþrifamaður og vanur sjómaður, er þó ekki látinn stýra skútunni, þegar siglt er yfir hafið, nema eftir fyrirmælum sérfræðingsins í skipstjórastöðu? Það er af því, að þekkingin hefur sína þýðingu. Við höfum auðvitað vissa þekkingu hér í þingsölunum. Mér dettur ekki í hug að falla fram og tilbiðja sérfræðingana almennt talað og þá ekki heldur hagfræðinga. En ég segi bara það, að ef allir þeir, sem hafa lagt æsku sína og manndómsár í að læra þessi fræði, eru sammála um það, sem gert er, þá er varla algerlega stýrt í öfuga átt. Ég held, að við verðum að gera okkur grein fyrir því.

Ég skal ekki fara að ræða hér um það, hvernig horfur eru í þessari baráttu okkar. Þær eru að sjálfsögðu örðugar. Sumt horfir vel, annað miður. Hv. þm. var að tala um, að það væri svo sem ekki mikið að marka, hvernig gjaldeyrisaðstaðan væri, hvort hún væri 7 millj. betri en á góunni. Það er nú talið, að við stöndum 95 millj. skár en við gerðum um áramótin.

Það hefur verið sagt, að við höfum tekið 800 millj. kr. lán og eytt því öllu. Ekki einum einasta eyri af þessum 800 millj., yfirdráttarheimild okkar, hefur verið varið til annars en að greiða óreiðuskuldirnar, sem við vorum í, þegar við tókum við völdum, óreiðuskuldir bankanna, vanskilaskuldirnar, og gjaldeyrisaðstaðan er 95 millj. kr. skárri en þegar við tókum við. Og eins er með sparifjáraukninguna. Ég hjó í það í Hagtíðindunum, að sparifjáraukningin hafði í apríl–september í ár verið 39 millj. kr. meiri en á sama tíma í fyrra. Það er gott merki, svo langt sem það nær. Og mér þykir ákaflega gleðilegt, að allir spádómar hagfræðinganna um vísitöluna virðast ætla að standast. Ef ekki koma einhver ófyrirsjáanleg óhöpp, þá verður vísitalan 104 stig. Það var það, sem við höfðum gert ráð fyrir.

Þá er það ekki heldur í samræmi við spádóma stjórnarandstöðunnar, að atvinnan í landinu hefur verið mjög blómleg, og meðan svo er, þá er miklu borgið.

Ég játa hins vegar, að það er náttúrlega marga örðugleika við að etja núna og suma, sem var ekki hægt að sjá fyrir. Það út af fyrir sig vissum við að mundi kosta vissar fórnir að eiga að hætta að éta árlega 200 millj. kr. af annarra fé, eins og við höfum gert, og fara í stað þess að borga skuldir.

Það er einnig staðreynd, að andvirði síldarafurða annars vegar og verðfall á lýsi og mjöli hins vegar umfram það, sem við áttum von á, munar hvorki meira né minna en 300 millj., eða 12% af andvirði útflutningsvörunnar. Svo kemur hv. 1. þm. Austf. og segir: Þetta er nú meira kerfið. Það þolir þá ekki verðfall og aflabrest og annað því um líkt. — Ég vil segja, að ég skammast mín fyrir margt meira en það, þótt mér hafi ekki tekizt að finna út kerfi, sem við getum blómgazt í, þó að aflabrögð séu afleit og verðfall enn þá verra. Ástandið er þannig núna, að fyrir utan, að við erum hættir að éta annarra fé og byrjaðir að borga, þá höfum við orðið fyrir aflabresti og verðfalli. Aflabresturinn á togurunum er svo mikill, að hann er alveg óþekktur í sögu þjóðarinnar. Ekki bætir lokun brezka markaðsins. Og það eru líka miklir örðugleikar, sem stafa af því, að útgerðarmenn hafa fjárfest allt of mikið. Ég veit ekki, nema sumir útgerðarmenn, sem nú kvarta sáran, gætu spurt sjálfa sig, hvað þeir hefðu fjárfest mikið á þessu ári, áður en þeir fara að skrifa meira í blöðin en búið er að gera.

Ég sé, að fundartími er liðinn, og skal ég þess vegna ekki orðlengja þetta meira. Það er náttúrlega afar margt, sem væri hægt að segja í sambandi við þetta, en það verður þá að gerast síðar af öðrum eða mér, eftir því sem atvik standa til.

Ég leyfi mér að enda þessi orð með því að segja, eð þetta böl, sem við erum að stríða við núna, er arfur eigin synda og áreiðanlega ekki sízt synda Framsfl. — og að því er varðar stjórnir ekki sízt að rekja til synda vinstri stjórnarinnar. Og ég segi enn þá, að menn munu fá að sjá, hvað af hlýzt, ef þeim tekst með rangfærslum og útúrsnúningum og öðru verra að brjóta niður viðreisnina, sem nú horfir sæmilega um, ef menn fást til að una henni enn um nokkurt skeið.