18.10.1960
Neðri deild: 6. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 295 í C-deild Alþingistíðinda. (1958)

31. mál, efnahagsmál

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Þótt hv. 1. þm. Austf. (EystJ) hafi gefið til þess ríkulegt tilefni í hinni löngu ræðu sinni að ræða efnahagsástandið almennt, mun ég ekki gera það nú, enda, eins og hv. forseti tók fram, venjulegum fundartíma lokið, en til þess mun áreiðanlega gefast tilefni mjög bráðlega að ræða þau mál ýtarlega við hv. þm.

En ég vildi aðeins segja örfáar setningar um þetta frv., fyrst og fremst vegna þess, að í hinni löngu ræðu sinni gat hv. þm. ekki um allt það, sem í frv. felst. Hann lýsti frv. sem frumvarpi um lækkun á útlánsvöxtum bankanna. En frv. er meira. Það er líka um lækkun á innlánsvöxtum af sparifé, en þetta láðist hv. þm., þótt hann talaði mjög lengi, að taka fram í ræðu sinni. En það er sannarlega ekki þýðingarminni þáttur málsins, að það fjallar um lækkun sparifjárvaxtanna, en hitt, að það fjallar um lækkun útlánsvaxtanna.

Það, sem mig langaði til þess að benda á, og það er hið eina, sem ég vildi segja við þessa umr., er, hverja þýðingu þessi þáttur frv. raunverulega hefur.

Meðalupphæð sparifjár í bönkum og sparisjóðum, síðan vaxtabreytingin kom til framkvæmda 22. febr. s.l., hefur numið 2070 millj. kr.

Á þeim tæpum 8 mánuðum, sem liðnir eru, síðan vaxtabreytingin kom til framkvæmda, hafa sparifjáreigendur eignazt rúmar 53 millj. kr. vegna vaxtahækkunarinnar. Eins og allir vita, er vöxtum bætt við sparifjárinneignir manna um áramót. Sparifjáreigendur í landinu munu um næstu áramót fá 67 millj. kr. meira en ella vegna vaxtahækkunarinnar, sem þetta frv. á nú að ógilda eða afturkalla. Á heilu ári græða sparifjáreigendur 80 millj. kr. á vaxtahækkuninni. Þetta frv. er um það að svipta sparifjáreigendur í landinu 80 millj. kr. á ári.

Það fæst ekki rétt mynd af frv., nema þetta sé einnig haft í huga.