20.10.1960
Neðri deild: 7. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 296 í C-deild Alþingistíðinda. (1960)

31. mál, efnahagsmál

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Hæstv. viðskmrh. gaf hér nokkrar upplýsingar síðastur ræðumanna í þessu máli um það, hvað sparifjáreigendur mundu fá í ár sakir hækkaðra vaxta.

Við fáum öðru hverju upplýsingar frá stjórnarvöldunum og þeirra hagfræðingum, en það vill svo undarlega til, að þessar upplýsingar eru ekki aðeins af skornum skammti, heldur beinlínis, að því er virðist, valdar úr sérstakar upplýsingar um þjóðfélagið og þess fyrirbrigði, en öðrum upplýsingum sleppt eða erfitt að fá þær.

Ég vil þess vegna einmitt í tilefni af þeim upplýsingum, sem hæstv. viðskmrh. gaf, beina þeirri fsp. til hans, hvort hann eða hagfræðingar ríkisstj. hafi reiknað út, hvað verkamenn og aðrir launþegar hafi misst í krónutölu, miðað við það, að þeirra samningar, frjálsir samningar, sem þeir gerðu við atvinnurekendur, hefðu staðið án afskipta ríkisvalds á síðasta ári og þessu ári, ef það hefði ekki verið gripið inn í ránshendi af hálfu ríkisvaldsins í þágu auðmannanna í landinu, — hvað verkamenn og launþegar hefðu þá fengið í sinn hlut. Og ég vildi mega mælast til þess, ef einhver snefill á að vera til af óhlutdrægni í sambandi við þær upplýsingar, sem Alþingi eru veittar, að þetta væri reiknað út og lagt fyrir okkur. Það er ein hlið að koma með myndir eins og þær, hvað sparifjáreigendur muni fá, en sleppa því aftur á móti, — og við skulum segja, að eitthvað af launþegum séu sparifjáreigendur, — hvað hinir sömu sparifjáreigendur hafi tapað í misstum launum vegna ráðstafana ríkisstj.

Það frv., sem hér liggur fyrir, fjallar alveg sérstaklega um breytingu á vaxtaákvæðunum í sambandi við lög ríkisstj. frá síðasta Alþingi um efnahagsmál. Ég vil leyfa mér í því sambandi, af því að þetta frv. mun fara til þeirrar nefndar, sem ég á sæti í, að óska eftir því, að ríkisstj. sé við því búin, ef hún getur það ekki nú þegar, að gefa okkur fullkomnar upplýsingar um, hverju nema allar vaxtagreiðslur í íslenzku þjóðfélagi, sem sé, hvað vaxtagreiðslur af fjármagni og til fjármagns séu mikill hluti af veltu hins íslenzka þjóðfélags, hve mikið af öllu því, sem verkamenn, bændur og aðrir vinna á Íslandi og afla, verður að fara til þess að greiða skatt af fjármagni. Ég hef óskað þess, að þetta liggi alveg ótvírætt fyrir og nákvæmlega útreiknað, og svo fremi sem það ekki gerir það, þá lít ég þannig á, að ríkisstj. hafi þarna hluti að dylja, sem hún vill ekki að komi fram, og það mun þá þýða, að launþegar í landinu almennt munu líta þannig á í sambandi við sínar ráðstafanir, að ríkisstj. kæri sig ekki um að upplýsa þetta, vegna þess að það sé henni óþægilegt í þeim átökum, sem fram fara.

Ég hef þegar upplýst hér á Alþingi ofur lítinn hluta af þessu. Ég hef þegar upplýst í sambandi við eitt einasta fyrirtæki, áburðarverksmiðjuna, þar sem vinnulaunin eru 5 millj., að gróði sé þar 11 millj., vaxtagreiðslur 5 millj., auk lögmætra afskrifta af eigninni.

Ég hef reynt að fá hið sama viðvíkjandi sementsverksmiðjunni, hvernig það stendur. Ég hef ekki fengið það enn þá. Ég mun gera ráðstafanir til þess að reyna að fá það.

Ég veit af reikningum síldarverksmiðja ríkisins, hvernig þetta hlutfall hefur verið þar mörg undanfarin ár. Það hefur mjög oft verið þannig, að vextir hafa verið 5 millj. og vinnulaunin hafa verið 5 millj., og mig langar til þess að fá það upplýst, hvort þetta sama eigi sér stað með allmikið af þeim fyrirtækjum, sem almennt eru rekin í þjóðfélaginu.

Einn af helztu atvinnurekendum landsins, einn af þeim, sem talinn hefur verið — ég held mér sé óhætt að segja með efnuðustu og áreiðanlegustu atvinnurekendum landsins, Haraldur Böðvarsson á Akranesi, gaf nýlega upplýsingar. Samkvæmt þeim upplýsingum áleit hann, að fjögur fyrirtæki á Akranesi hefðu þann part af árinu, sem nýju vaxtaákvæðin hafa verið í gildi, orðið að borga, ef ég man rétt, 8 millj. kr. í vexti, sem samsvara, að væri um heilt ár að ræða með slíkum vöxtum, hefðu þau orðið að borga um 12 millj. kr. í þennan skatt, vaxtaskatt. Hann upplýsti um leið, að hann og hans fyrirtæki, sem mér skildist að veittu ekki aðeins mesta atvinnu, heldur jafnvel kannske upp undir helming af öllum verkalýð í Akranesi atvinnu, hefðu borgað í vinnulaun á milli 20 og 30 millj. kr. Af því má nokkuð sjá, hvernig hlutfallið er þar á milli vinnulauna og vaxta. Og ég gæti trúað, að það væri ekki óalgengt, að áður en þessir okurvextir komu upp, hafi vextir móts við vinnulaun verið undir þriðjungi.

Ég veit, að það eru nokkur ár síðan og voru þá lágir vextir, 5% vextir, sem nú er kallað lágt, þá upplýsti Finnbogi í Gerðum, að það munaði sig meira að fá vextina minnkaða um helming í láni til síns hraðfrystihúss heldur en þó kaupið væri lækkað um 15% hjá verkalýðnum.

Ég hef séð útreikninga eftir menn, sem eru vel kunnugir byggingarmálum á Íslandi og hafa sérstaklega lagt sig eftir almennt að athuga, hvern þátt vextirnir hafa átt í dýrtíðaraukningu á Íslandi, áður en okurvextir núverandi ríkisstj. komu til greina. Þeir hafa haldið því fram, að þriðjungurinn af allri verðbólgu, þriðjungurinn af allri dýrtíð á Íslandi orsakaðist af hinum háu vöxtum, sem þá þóttu, þegar þeir voru á milli 5 og 8–9% .

Hér eru ýmsir hv. þm., ekki sízt í Sjálfstæðisflokknum, í þessari hv. deild, sem eru miklir athafnamenn og skulda vafalaust allmikið. Þeir gætu máske gefið okkur upplýsingar, ef þeir fengju að tala fyrir ríkisstj., um, hvað þeirra fyrirtæki þurfa að borga í vexti. Ég býst við, að megnið af þeim mönnum muni hafa þá sögu að segja, að þeir séu að sligast undir þessum vöxtum, og gott ef það er ekki svo, að ríkisstj. hafi með sinni okurpólitík þegar farið þannig með þessa menn, að það sé ekki búið að gera þá upp af því einu, að þeir eru þingmenn, eða þá að það hefur orðið að bæta við þá stórlánum, þegar öllum öðrum var bannað að fá lán, svo að þeir færu ekki á hausinn, þótt þeir væru stórríkir. M.ö.o.: þessi vaxtapólitík, sem ríkisstj. rekur, er svo fyrir neðan allar hellur, að það er ekki til það þjóðfélag í Evrópu, sem gæti staðizt með svona vaxtapólitík, og það er undarlegt að taka upp á því að reka slíka pólitík eins og þessa og láta hana viðgangast, þó að það sé ekki nú nema rúmt hálft ár. Þess vegna vil ég óska eftir því og mun leggja á það ríka áherzlu og mun draga þær ályktanir af því, ef ég fæ ekki þær upplýsingar, sem rétt er, að vaxtaupphæðin, sem íslenzkt þjóðfélag verður að borga innan okkar eigin þjóðfélags, sé orðin svo gífurleg, að ríkisstj. vilji dylja þetta fyrir almenningi. Það á að segja sparifjáreigendum og kasta því framan í þá, hvað þeir fái mikla vexti af fé. En því má ekki segja þjóðinni, hvað hún borgar í vexti?

Hverjir eru þeir sparifjáreigendur, sem hæstv. viðskmrh. átti við? Hefur hann nokkurn tíma sundurgreint, hvert vextirnir af öllu þessu fara? Það væri fróðlegt.

En einn aðila, sem er ekki inni í sparifjárvöxtunum, er rétt að minnast á í sambandi við þessar vaxtagreiðslur, Seðlabankann. Ég óska eftir því, að fá upplýsingar um, hve mikill gróði Seðlabankans er orðinn, það sem af er þessu ári. Ég hef getað fylgzt með á undanförnum árum, hver gróði bankanna hefur orðið. Sá gróði hefur verið eftir gömlu krónunni frá 70 upp undir 100 millj. kr. á ári, og þó hafa þeir reikningar verið þannig úr garði gerðir, að ég hef meira að segja séð ástæðu stundum til að greiða atkvæði á móti þeim í bankaráði Landsbankans. Bankarnir hafa ýmsir haft þann hátt á að fela í sínum svokölluðu afskriftum eða jafnvel láta aldrei koma inn í afskriftir svo og svo mikið af milljónaeignum, sem þeir kaupa, þannig að þeirra auðsöfnun í varasjóði og afskriftareikning sýnir alls ekki rétta mynd af þeirra ríkidæmi.

Nú á þessu síðasta ári hefur brugðið svo við, að jafnvel þótt bankarnir kunni eitthvað að græða, þá mun það verða minna en oft hefur verið undanfarið. En það er einn banki, sem hlýtur alveg sérstaklega að hafa verulega grætt, það er Seðlabankinn. Seðlabankinn hefur hækkað sína vexti meira að segja af afurðalánum upp í 9%, jafnvel við framlengingu 9½%, og var þó ósvífið, meðan hann hafði 4½% vexti, og engin ástæða til að greiða honum þá. Seðlabankinn hefur þar að auki tekið upp 16% vexti, — það er eitt heimsmetið enn, — ef einhverjir bankar hafa sýnt sig í því að vilja annaðhvort reyna að hjálpa mönnum til þess að halda sínum húsum undan okurklóm ríkisstj., bjarga sínum húsum frá ránsklóm hennar eða hafa sýnt sig í því að vilja halda útveginum gangandi. Og nú vil ég spyrja: Hver er gróði Seðlabankans? Og þá ætlast ég til þess, að það sé ekki búið að svindla neitt á afskriftum áður, það sé ekki búið að kaupa neinar eignir, sem búið sé að stinga undan og hvergi komi fram, sem sé að fá rétta reikninga. Við erum búnir að fá frá ríkisfyrirtækjum hérna nóga meira eða minna ranga og lögbrotareikninga. Ég vildi gjarnan fara að fá að sjá og það strax, hvernig Seðlabankinn kemur út þetta ár. Ég segi þetta vegna þess, að vaxtaupphæðin, sem íslenzkir þjóðfélagsþegnar greiða, hlýtur að nema mörg hundruð millj. kr., og það er nauðsynlegt, að þessi tala liggi fyrir, þegar við förum að gera upp efnahagsmálin. Þeir menn, sem skapa arðinn í þessu landi, verkamenn og aðrir, sem fá of lítið í sinn hlut, vilja fá að vita, hvert hitt rennur, og fá það sundurliðað. Og ef hæstv. ríkisstj. og allur hennar hagfræðingaskari útvega þetta ekki, þá er það vegna þess, að hún er að leyna þjóðina þessu, — og fyrir hverjum? Það er engin afsökun til fyrir að láta þetta ekki liggja á borðinu. Það er búið svo oft að tala um þessa hluti, að ein ríkisstj., sem er að skipta sér af efnahagsmálunum, ekki sízt á þennan hátt, getur gert svo vel að veita þessar upplýsingar, og ég er satt að segja orðinn þreyttur á því að ræða hér áratug eftir áratug efnahagsmál án þess að geta nokkurn tíma fengið yfirlit yfir, hvernig þjóðfélagið er skipulagt í þessum hlutum og hvernig arðurinn, sem sjómenn, verkamenn og aðrir skapa, skiptist.

Ég hef hvað eftir annað bent á það, að í Bandaríkjunum, því mikla kapítalíska landi, getum við flett þessu upp í opinberum skýrslum og aðgreint það nákvæmlega. Við getum séð hjá hverjum auðhring Bandaríkjanna, hve mikið hann greiðir í vinnulaun, hve mikið hann fær í gróða, hve mikið er greitt í vexti. Þetta álíta Bandaríki Norður-Ameríku sjálfsagða þjónustu við almenning í sínu landi. Ég er búinn að minna á þetta margoft hér og sérstaklega því meir sem amerískt hugsandi hagfræðingar hafa verið kvaddir til ráða af ríkisstj. En þetta hafa þeir aldrei viljað leggja fram. Af hverju ekki? Af hverju á að leyna þessu? Rannsókn á þessum hlutum þarf að fara fram. En það er ekki til neins fyrir neinn mann að koma með neinar ásakanir á hendur verkalýðnum, þegar hann kemur til með að gera sínar kröfur í þrotabú þessarar stjórnar, að það þurfi nú að fara að athuga, hvernig eignaskiptingin, arðskiptingin í þjóðfélaginu sé, það liggi ekki fyrir enn þá.

Viðvíkjandi því, sem farið er fram á í þessu frv., 1. gr., að vextir af afurðavíxlum megi ekki vera meiri en. 5½%, þá er þetta í raun og veru táknrænt. Þessir vextir eru nú 9 og 9½%. Það er farið þarna fram á, að þeir megi ekki vera meira en 5½%. Það er vissulega mikið stig í rétta átt. En sannleikurinn er, að það var alltaf hneyksli, meðan þessir vextir voru 50½%, meira að segja þegar þeir voru 4½%, vextirnir af afurðavíxlunum. Hvernig hefur það verið með þá? Viðskiptabankarnir, Landsbankinn og Útvegsbankinn, hafa fengið ½% fyrir alla áhættuna, og hún sýnir sig nú á tímum, á tímum þessarar ríkisstj., vera mikil. Þeir fá ½% fyrir sín lán til útgerðarmannanna eða hraðfrystihúsanna, og ef einhverjir svindla, kunna jafnvel bankarnir að tapa milljónum króna á því. Þá er ekki lengi að fara allt þetta ½%. En Seðlabankinn hefur fengið 4½% upp í 5%. Þetta hefur ekki náð nokkurri átt. Seðlabankinn hefur aldrei haft neina áhættu af þessu. Það hefur alltaf verið óréttlátt að skipta þessu svona. Eðlilegt hefði verið, að hann hefði fengið ½% eða 1%, eins og kostar fyrir hann kannske að sjá um seðlana og sinn rekstur í sambandi við það, og þannig mundi það vera, við skulum segja ef við lítum til Noregs. En hér á Íslandi viðgengst þetta, og síðan hverfur þessi gróði, sem Seðlabankinn fær, bókstaflega. Hann er einskis nýtur fyrir þjóðfélagið.

Seðlabankinn er ekki í neinum vandræðum með veltufé. Það mætti segja, að fyrir viðskiptabankana væri það kannske einhver munur, svo framarlega sem þeir græddu eitthvað. Seðlabankinn hefur ekkert með það að gera að græða, þannig að frá öllum venjulegum viðskiptasjónarmiðum er þetta hringavitlaus skipting, fyrir utan hve hún er óréttlát. Það er hægt að athuga þá hluti í nefnd. En þetta er þó aðeins eitt af því, sem verkalýðurinn þarf að fá upplýst og bezt væri, að hæstv. ríkisstj. sæi sóma sinn í að upplýsa sem fyrst, þegar verið er að ræða þessi mál.

Þá er rétt að koma með aðra spurningu, sem vaknar skjótt fyrir manni, þegar maður kynnist ofur lítið rekstri bankanna nú, eftir þessa nýju efnahagsstefnu ríkisstj., og heyrir hins vegar þau slagorð, sem hér eru höfð í frammi.

Það er sagt og hefur verið haldið hér fram, að útgerðarmenn og aðrir atvinnurekendur eigi að standa á eigin fótum og þeir verði að venja sig við þann hugsunarhátt. Ég veit nú ekki til þess, að atvinnurekendur á Íslandi hafi yfirleitt getað staðið á eigin fótum. Ég veit ekki til þess, að það sé til það einkaauðvald hér á Íslandi, að undanteknum kannske innan við 10 mönnum, sem nokkuð verulegt reka, þannig að þeir geti staðið á eigin fótum. Þessir menn eru allir meira og minna gerðir út af ríkinu og hefur verið dýr útgerðarkostnaður á því. Nú er sagt, að þeir eigi að standa á eigin fótum. Hvað þýðir það? Má ég spyrja hæstv. viðskmrh. Þegar nú tugir útgerðarmanna og annarra atvinnurekenda geta ekki staðið í skilum við ríkið, hverju á þá að slá af og eftir hvaða reglum? Það er sagt, að þeir, sem skulda svo mikið, að þeir geti ekki borgað það, að það eigi að láta þá fokka. Og sannleikurinn er sem sé, að frá sjónarmiði þeirrar stefnu, sem sérfræðingar ríkisstj. boða, er þetta rétt. Stefnan, sem liggur á bak við þetta allt saman, er, að það þurfi að skera niður millistéttina á Íslandi, þessa bjargálna, smáu atvinnurekendur, og láta framleiðslutækin og atvinnufyrirtækin safnast saman hjá einum eða tveimur stórum hringum, sem reki þau skynsamlega.

Þetta er sú stefna, sem vakir fyrir í þeim ráðleggingum, sem t.d. Jónas Haralz og aðrir slíkir gefa ríkisstj., og þetta er það, sem mundi verða sú eðlilega þróun, ef þetta væri látið viðgangast. En þetta er hins vegar sú stefna, sem ríkisstj. er dálítið hrædd við að viðurkenna, m.a. vegna þess, að það væru nokkuð margir af hennar eigin útgerðarmönnum og jafnvel stóratvinnurekendum, sem yrðu slegnir af, ef svona væri farið að.

Þess vegna vil ég spyrja: Nú reyna bankarnir það daglega, að maður, sem á íbúð, sem er 2–3–4 hundruð þús. kr. virði, að hann sé að missa hana, af því að hann vantar lán upp á 10, 20 eða 30 þús. Í venjulegu auðvaldslandi, við skulum segja Danmörku, getur maður, sem á slíka íbúð, gengið inn í næsta banka og fengið strax út á veðrétt slík lán. Það koma ekki fyrir þar hneyksli eins og þau, sem gerðust hérna, að maður varð að selja íbúð sína, varð að selja hús sitt inni á Hverfisgötu, sem var skuldlaust, af því að hann gat ekki fengið 10 þús. kr. lán til þess að borga skatta. Það gerðist fyrir 4–5 árum. Þeir menn eru margir, sem eru að missa sínar íbúðir, af því að bankarnir lána þeim ekki nokkra tugi þúsunda króna. Einstaka bjargast. Einstaka sinnum sjá bankastjórarnir í gegnum fingur, reyna að bjarga þessum mönnum, og eru kallaðir á fund Seðlabankans og ríkisstj. til þess að fá áminningar út af lánunum. Á sama tíma eru svo aðrir, sem eru stórskuldugir. Hvað er gert við þá? Eru þeir gerðir upp? Er bætt við lánið hjá þeim? Og eftir hvaða reglum? Er farið eftir því, hvort þeir séu þægir ríkisstj. eða ekki, hvort þeir séu hennar menn eða ekki? Hvaða reglur eiga þarna að gilda? Það er vert, að ríkisstj. geri sér það alveg ljóst, þegar hún ætlar að fara að framfylgja svona hlutum.

Í auðvaldslöndum eru bankarnir að mestu leyti einkaeign. Það þýðir, að þegar atvinnurekandi kemur og talar við bankastjóra, þá dæmir sá bankastjóri fyrst og fremst út frá fjármálalegum forsendum, og hvort þessi fer á hausinn eða ekki, fer venjulegast eftir slíku. Það getur verið, að slíkir bankastjórar taki stundum einhverja áhættu, en venjulega ganga þessi lögmál þess kapítalíska fjármálalífs einfaldlega svona.

Hér er um annað mál að ræða á Íslandi, og það verða þeir menn að gera sér ljóst, sem ætla að fara að innleiða hér kapítalíska hætti. Bankarnir eru fyrst og fremst ríkisbankar, bankastjórarnir eru settir inn meira eða minna af pólitísku valdi, Þess vegna kemur eðlilega sá grunur upp, þegar ráðstafanir eru gerðar viðvíkjandi einstökum atvinnurekendum, að það séu meira eða minna pólitískar ástæður til þess, hvaða ákvarðanir séu teknar. Og hvernig ætlar hæstv. ríkisstj. að firra sig grun af því, að vald ríkisbanka og bankastjóranna í þjóðfélaginu sé misnotað í pólitísku skyni? Það er ekki auðhlaupið að því að ætla að fara að breyta Íslandi, sem búið er í meira en 30 ár að vera mjög undarlegt kapítalistískt skipulag, svo að ekki sé sterkara að orði komizt, — ætla að fara að breyta því í eftirmynd af Bandaríkjunum. Það er ekkert auðvelt. Og þetta, sem ég hér hef minnzt á, er alvarlegt. Ég vil benda hæstv. ríkisstj. á, að það, sem úr þessu getur komið, er, að ef hún fengi að halda áfram með þá pólitík, sem nú er rekin, þá velji bankastjórar ríkisbankanna úr, hvaða fyrirtæki skuli standa á Íslandi, hver skuli fara á hausinn, og að lokum sé búið að sameina, alls ekki eftir því, hvaða menn hafa verið raunverulega sterkastir fjárhagslega eða rekið fyrirtækin bezt, heldur eftir því, hverjir hafa fundið náð fyrir augum bankastjóranna, — búið að sameina meginið af öllum fyrirtækjum Íslands í hendur einnar eða tveggja pólitískra klíkna. Ég geng út frá því, að hæstv. ríkisstj. hafi gert sér þessa hluti algerlega ljósa, þegar hún lagði út í þá viðskiptapólitík og þá vaxtapólitík og bankapólitík, sem hún rekur.

Hæstv. ríkisstj. hefur með sinni stefnu almennt bannað bönkunum að auka lánin, og bankastjórarnir verið kallaðir hvað eftir annað á fund Seðlabankans og ríkisstj. til þess að hljóta áminningar fyrir of mikil lán. En má ég spyrja hæstv. viðskmrh. um leið: Hefur ekki ríkisstj. sjálf snúið sér til bankanna til að biðja þá um aukin lán eða hlutast til um, að veitt væru sérstök aukin lán, þar sem einstakir atvinnurekendur höfðu sérstaklega óhlýðnazt öllu því, sem bankarnir höfðu reynt að gera viðvíkjandi því að framkvæma viðskiptapólitík ríkisstj., þannig að fyrir utan þá almennu, ljótu stefnu og tilhneigingu, sem í þessu er, þá sýnist mér eftir þeirri litlu þekkingu, sem ég hef á þessu, vera þar að auki tómur ruglingur í þessu hjá hæstv. ríkisstj.? Máske er hún sjálf orðin hrædd við afleiðingarnar af sinni eigin pólitík?

Hæstv. ríkisstj. hefur talað mikið um frelsi í sambandi við þessa hluti. Hvernig stendur á um frelsið viðvíkjandi lánum? Hvernig stendur það hjá hæstv. ríkisstj.? Er frelsi um lántökur? Er frelsi um að fá að taka lán með lágum vöxtum? Eða er Íslendingum bannað — og af hverju — að taka lánin með lágum vöxtum? Mér sýnist pólitík hæstv. ríkisstj. hafa verið framkvæmd á þann hátt, að það sé verið að knýja íslenzku þjóðina til þess að una við vexti, sem séu allt frá 5 og upp í 12%, en hindra hana í því að geta fengið vexti, sem væru frá 2–5%, þannig að það, sem nú sé að gerast, sé svo fjarri því að vera frelsi, að það sé þvert á móti einokun um okurlán.

En hér átti að innleiða almennt kapítalískt skipulag. Hvernig er það þá í almennu kapítalísku skipulagi um arð af fyrirtæki? Ég býst við, að í flestum auðvaldsþjóðfélögum þyki það sómasamlegt, — ég á þar ekki við nýlenduarðrán eða neitt slíkt, — þá þyki það sómasamlegt, þegar atvinnurekandi hefur 10% ágóða af sínu fyrirtæki. Ég býst við, að mörg gróin, góð fyrirtæki muni álíta það vera mjög sæmilegt, þegar menn hugsa sem öruggir atvinnurekendur, en ekki sem braskarar. Af slíku verða menn kannske stundum að greiða eitthvað dálítið í vexti og slíkt, en meginið af slíkum 10% er sem sagt gróði atvinnurekandans og fyrir hans ábyrgð. Hvernig er þetta í því kapítalistíska skipulagi, sem ríkisstj. er að innleiða hér á Íslandi? Hún lætur 12% verða þann almenna vaxtafót í landinu, þannig að það væri raunverulega enginn möguleiki, — og það í landi, sem alltaf lifir að mestu leyti á lánsfé ríkisins, — til þess að reka neitt eðlilegt atvinnulíf. Og ég spyr hæstv. ríkisstj.: Hvernig dettur henni í hug og hvernig hefur henni dottið í hug yfirleitt að hafa slíkt lengi, eins og hún er búin að hafa þetta í hálft ár? Á þetta að vera aðferð til þess að skera niður meginið af atvinnurekendastétt landsins, sérstaklega þeirri smærri, með svona óeðlilegum aðferðum, og síðan væri farið að lækka vextina, þegar aðeins væru enn á lífi, efnahagslega séð, þeir, sem ríkisstj. og hennar bankar hefðu velþóknun á? Á að banna þessum atvinnurekendum að njóta lægri vaxta, ef þeir geta fengið þá? Ég spyr að þessu vegna þess, að ég vil heyra það hjá hæstv. ríkisstj., hvort hún geri sér sjálf grein fyrir afleiðingum þeirrar stefnu, sem hún hefur í frammi, — hvort hæstv. ráðh. gera það vitandi vits að ætla þannig að kverka niður millistéttina í landinu eða hvort þeir ætla að segja á eftir: Ja, mér datt þetta nú aldrei í hug og hagfræðingarnir minntust aldrei á þetta. — Ég verð að segja, að ég lít þannig á þessar aðfarir, að ég skoða þær skipulagðan þjófnað: það að framkvæma annars vegar lánabönn gagnvart öllum þorra af atvinnurekendum í landinu, setja samtímis á okurvexti í þjóðfélaginu, þar sem ríkisbankarnir verða svo að segja að lána allt fé sitt í umferð, velja svo samtímis nokkra menn úr, sem fái að lifa þrátt fyrir þetta og fái að lifa fram yfir þann tíma, sem allir hinir séu drepnir, og vextirnir svo aftur lækkaðir, til þess að réttir menn fái rétt lán. Menn eru að byrja að missa sín hús og íbúðir. Útgerðarmenn eru að byrja að missa sína báta, nema ríkisstj. verði of hrædd við þann missi. Ég sé ekki betur en hraðfrystihúsin fari að sligast líka. Maður heyrir öðru hverju í blöðum um gífurlegar samsteypur, sem sumir bankastjórar séu að hugsa um. Hvað er það, sem þarna er að gerast? Það er verið að beita bönkum ríkisins sem ránsklóm gagnvart atvinnulífinu. Þeir eru látnir sjúga út vexti, sem ná ekki nokkurri átt og ekkert atvinnulíf ber. Og síðan á að kverka niður svo og svo mikið af atvinnurekendunum og láta svo nokkra volduga rísa upp og standa upp úr á eftir. Þetta er pólitík, sem er þveröfug við alla pólitík, sem rekin hefur verið á Íslandi síðustu 30 árin.

Þegar ráðizt var í að reyna að efla íslenzkt atvinnulíf, eins og hæstv. forsrh. var að tala um að hefði verið gert stórt átak til, hvernig voru vextirnir settir þá? 2½%. Af hverju? Af því að það þótti rétt að gera atvinnurekendum mögulegt að reka sín fyrirtæki og kaupa fyrirtæki. Og hvað voru lánin há? 75–80% af kostnaðarverðinu. Þetta var gert, þegar gert var átak hjá þjóðinni til þess að endurskapa sitt atvinnulíf. Nú er verið að gera átak af ríkisstj. til þess að drepa atvinnulíf þjóðarinnar. Þá var verið að gera ráðstafanir til þess að dreifa framleiðslutækjunum á sem flestar hendur, þannig að hér væri bjargálna þjóð og bjargálna menn. Sveitarfélögum, sem voru fátæk, var gert mögulegt að eignast togara, sem þau hafði aldrei dreymt um áður.

Hvað er verið að gera nú? Það er verið að rýja sveitarfélögin að togurunum og henda þeim í braskarana hér í Reykjavík. Það er verið að rýja smáatvinnurekendurna að framleiðslutækjunum og láta þá auðugustu, sem hafa velþóknun bankanna og ríkisstj., gleypa það með þessari vaxtapólitík, — þveröfugt við alla þá stefnu, sem hér hefur verið, þegar eitthvað stórt og mikið hefur verið gert. M.ö.o.: ríkisbankarnir eru gerðir að ránsklóm einokunarauðvaldsins í landinu. Það er það hlutverk, sem þeir eru látnir gegna núna.

Ég þurfti einu sinni að standa í því hér að reyna að sjá um, að ríkisbankarnir hjálpuðu atvinnurekendunum í landinu með lágum vöxtum og góðum lánum, og þurfti að heyja nokkra baráttu við bankana til þess. En það tókst. Alþingi sigraði í þeirri baráttu og þjóðin. Nú aftur á móti er það einokunarauðvald, sem ætlar að fara að stjórna hérna. Það beitir ríkisbönkunum í þessu skyni, sem ég nú hef lýst. Ég vona, að hæstv. viðskmrh. og ríkisstj. sé ljóst, að verið er að gera þetta. Og ég vil ekki a.m.k. eiga sök í því, að hún uppgötvi það ekki fyrr en eftir á. Það, sem gerzt hefur, er, að það hafa verið skekkt öll hlutföllin í þjóðfélaginu. Fjármagnið er látið taka ofsagróða til sín, eins og ég þegar hef sýnt í sambandi við áburðarverksmiðjuna, hve gífurlegt það er, en vinnulaununum haldið niðri með lögum og öðru á sama tíma.

Hæstv. forsrh. sagði, að það væri nauðsynlegt fyrir ríkisstj., að almenningur vildi una þessu enn um skeið. Almenningur er búinn að una þessu lengi, kannske fulllengi. Þessi ríkisstj. er búin að fá betra tækifæri en nokkur önnur ríkisstj. hefur fengið á Íslandi og meiri frið til þess að sýna, hvert hennar pólitík leiðir. Og það er máske ekki verst við hana, að hún sé gjaldþrota og vitlaus, heldur hitt, að hún er svo ranglát, að hún er svo svívirðileg, að hún rænir almenning með þessu móti og flytur ránsfeng með ríkisbönkunum yfir til nokkurra einstakra manna í landinu.

Það hefur verið talað um það hér, að nú væri verið að reyna að framkvæma kapítalismann hér á Íslandi. Og ég veit það, að fyrirmyndin, sem vakir fyrir þeim mönnum, sem ríkisstj. nú tekur tillit til og trúir á, eru Bandaríki Norður-Ameríku. Ég vonast til þess, að þeir menn, sem standa að þessari pólitík, geri sér ljóst, hvert hún hlýtur að leiða í Bandaríkjum Norður-Ameríku eru það raunverulega 8 hringar, sem ráða atvinnulífinu. Það eru 200 stærstu einokunarfélögin þar, sem fá 57% af öllum gróðanum, sem þar er skapaður, og hann er ekki lítill. Þessi sömu 200 stærstu einokunarfélög fá 90% af öllum þeim gróða, sem Bandaríkin hafa af fjárfestingu sinni í öðrum löndum. Við höfum í Bandaríkjunum algert einræði örfárra auðhringa. Ef á að gera tilraun með íslenzka þjóðfélagið, hvort svona búskaparhættir eins og í Bandaríkjunum gætu gengið þar, þá eru þeir gersamlega óhugsandi á kapítalistískan máta nema með tvennu móti: annaðhvort að hér verði það svo að segja eitt fyrirtæki, sem ræður öllu atvinnulífi landsins, og það býst ég við, að meira að segja enginn úr hæstv. ríkisstj., ekki einu sinni þeir, sem stærst fyrirtæki hafa átt hér áður sjálfir, mundi láta sér detta í hug að yrði, — eða þá að Ísland yrði innlimað í það ameríska hagkerfi og þeir amerísku auðhringar hver á sínu sviði stjórnuðu okkar atvinnulífi sem litlum hreppi í sínu stóra landi.

Ef venjuleg frjáls kapítalísk þróun ætti að fá að þróast á Íslandi án afskipta ríkisvaldsins, þá endar það ekki í öðru en hringamyndun, eins og hvert einasta kapítalískt þjóðfélag gerir. Og vegna þess að íslendinga frá upphafi, frá því að þeir kynntust fyrirkomulaginu í Bandaríkjunum strax um 1890, — vegna þess að íslendinga hefur hryllt við þessu skipulagi, þá hefur því aldrei verið komið á hér á Íslandi. Og það er bezt fyrir þá, sem dreymir um að ætla að koma því á núna, að horfast í augu við afleiðingarnar af því.

Hæstv. forsrh. er því miður ekki við. En kannske hæstv. viðskmrh., sem er lærðari en hann í hagfræði, — og ég býst við, að hæstv. forsrh. verði oft að treysta á það, sem hæstv. viðskmrh. segir, enda lýsti hann alveg sérstaklega, forsætisráðherra, trú sinni á hagfræðingum í síðustu ræðu sinni, — hann sé nú kannske til í annaðhvort að segja honum það, sem ég kynni nú að segja út af hans ræðu, eða svara fyrir hann á eftir. Hæstv. forsrh. spurði að því, hvort við héldum, að í ríkisstj. væru fantar eða flón. Það er náttúrlega erfitt að segja um svona hlut. Sannleikurinn er, að ríkisstj., þó að við vitum, að þetta séu allt mjög gáfaðir og ágætir menn, sem í ríkisstj. eru, þá hagar hún sér í efnahagsmálum eins og flón, sem erlendir fantar nota í tilgangi, sem ríkisstj. virðist ekki gera sér ljósan. Hæstv. forsrh. orðaði þetta á þann mjög einfalda máta hér áðan: Maður verður nú alltaf að taka tillit til sérfræðinga. Er ekki bezt að láta hagfræðingana stjórna? — Því er hann þá að bisa við að vera forsrh., ef hagfræðingarnir eiga að stjórna þessu? Það eru ekki hagfræðingarnir, sem eiga að ganga til kosninga á eftir og fá dóminn hjá þjóðinni. Það er hann og aðrir hæstv. ráðh. og þm. Sjálfstfl. og stjórnarinnar, sem eru ekki hagfræðingar. Ég hef spurt hagfræðinga að því, hvort þeir álitu það takmark hagfræðinnar að segja þjóðum, hvaða skipulag eigi að vera í efnahagsmálum, svo að fólkinu líði sem bezt. Ég lagði þessa spurningu einu sinni fyrir núverandi höfuðhagfræðing ríkisstj. Hann sagði, að það væri fjarri lagi, að hagfræðingar ættu að segja þjóðum slíkt. Nei, hagfræðingar ættu að segja: Ef þetta væri gert, hver mundi þá verða afleiðingin. M.ö.o.: ef hæstv. forsrh. hefur haft þá hugmynd, að hagfræðingarnir ætluðu að stjórna fyrir hann, þá er það fjarri lagi. Þeir hafa aðeins þá hugmynd, að ef það sé lagt fyrir þá að reikna eitthvert dæmi, þá eigi þeir að geta reiknað það. Að vísu, eins og við þekkjum allt of vel, þá reikna þeir það oftast nær skakkt. En þó getur stundum verið, ef það er einfalt, að það verði rétt útkoma. Þeir eru því stundum nýtilegir sem reiknivél, en ef eitthvað mikið þarf á að halda, þá þarf að hafa mjög gott eftirlit með þeim. Þess vegna er alger misskilningur hjá hæstv. forsrh., ef hann heldur, að hagfræðingarnir vilji taka að sér að stjórna þjóðfélaginu. Það vilja þeir alls ekki. Þeir hafa aldrei álitið það í sínum verkahring, þessir borgaralegu hagfræðingar, að segja til um, hvernig þjóðfélagsskipulag eigi að vera, til þess að fólkinu líði vel, það eina, sem þeir segjast kunna, er að reikna út: Ef svona er farið að undir svona kringumstæðum, þá verður afleiðingin þessi. Það þýðir t.d., af því að þessir hagfræðingar, sem ríkisstj. hefur sem sérfræðinga, þekkja ekki íslenzkt þjóðfélag, þá framkvæma þeir reikninginn venjulega með tilliti til þess, hvernig viðkomandi hlutur hefði komið út í Ameríku. Þess vegna verður útkoman alltaf vitlaus hér. Þetta er mjög slæmt. Satt að segja fengum við alveg nóg af þessum vitlausu útreikningum 1950, þó að það væri ekki farið að endurtaka þá 1960. En hæstv. ríkisstj., — það eru nú komnir sumir ungir menn þarna inn í, sem voru ekki þá mikið með, — virðist þurfa að reka sig nokkuð oft á til þess að læra.

Þá kom hæstv. forsrh. með þá fyrirspurn, –ég held, að hann hafi beint henni til hv. 1. þm. Austf., hvort honum dytti í hug, að hann, hæstv. forsrh., væri orðinn einhver umskiptingur frá nýsköpunarárunum. Það er vissara fyrir hæstv. forsrh. að tala gætilega um það. Hvað var það, sem gerði það mögulegt, þegar við vorum búnir að kaupa fyrir peninga, sem við áttum erlendis, öll framleiðslutæki þá, að koma þessum framleiðslutækjum inn í landið þrátt fyrir mótspyrnu bankanna? Það var talað um, að við yrðum að beygja bankana undir það að lána 75–80% af kostnaðarverði framleiðslutækjanna með 2½% vöxtum til 15–20 ára. Sú barátta kostaði heilt ár. Það var skynsamleg pólitík, það var nauðsynleg pólitík fyrir Ísland, það er sú pólitík, sem hæstv. forsrh. sagði, að landið byggi við enn í dag. En af hverju er hann orðinn slíkur umskiptingur í þessum málum, að hann setur nú 12% vexti til þessa sama fólks, sem verið var að bjarga með 2½% vöxtum 1945? Er það vegna þess, að nú sé hann á þeirri skoðun, að það eigi að slá þá af, sem hann vildi láta hlífa þá?

Það er vert að athuga þessa hluti. Þarna hafa orðið alger umskipti í pólitík, og það er þá bara vegna þess, að hæstv. forsrh. fylgist ekki vel með í því, sem gerist í þessum efnum.

Hæstv. forsrh. kom inn á það í þriðja lagi, að það hefði verið ljóta ástandið hér á árunum ríkissjóður hefði hirt allt. Má ég spyrja hæstv. ríkisstj., sérstaklega hæstv. viðskmrh.: Hver hirðir núna afraksturinn af atvinnulífi Íslands? Hvað tekur Seðlabankinn sem ríkisbanki og skyldur ríkissjóði? Hvað tekur hann? Hvað er gróðinn orðinn í ár? Getur hann látið það gufa upp, þegar hann tekur 11–12% blóðskatt af almenningi í landinu og atvinnulífinu?

Hæstv. forsrh. sagði: Það, sem fyrir okkur vakir, er, að sem flestir megi eignast framleiðslutæki. Það er okkar hugsjón, að sem flestir megi eignast framleiðslutæki. — Hví í ósköpunum framkvæmir ekki ríkisstj. þessa hugsjón? Öll hennar stefna gengur út á það að rýja menn að framleiðslutækjum, rýja þá bjargálna atvinnurekendur að framleiðslutækjum, eyðileggja það efnahagslega sjálfstæði þessarar millistéttar á Íslandi til þess að skapa hér auðhring.

Svo kom hæstv. forsrh. með fyrirspurn, af hverju Framsókn hafi sagt af sér í des. 1958. Það stendur nú öðrum nær að svara því heldur en mér. En ég vildi a.m.k. frá mínu sjónarmiði gefa eitt svar við því. Hún sagði af sér, af því að hún hafði í efnahagsmálum, — ég veit ekki, hvort ég á að segja idjótíska eða ameríska ráðgjafa um, hvað hún ætti að gera. Hún tók tillit til ráðlegginga manna, sérstaklega tveggja, sem líka hafa í tíð þessarar ríkisstj. verið voldugastir í þessum efnum. Það er svo með þessa menn, þessa undarlegu hagfræðinga, að það er eins og þeir hrópi upp og haldi, að allt sé að farast, ef þjóðin leggur í það að eignast eitthvað verulegt ef framleiðslutækjum, sem gefa af sér. Þá finnst þeim þjóðin sokkin í eitthvert skuldafen og allt sé að fara norður og niður. Og ef það eru til ráðherrar í ríkisstj., sem taka tillit til svona hagfræðinga, þá eiga þeir til með að verða dauðhræddir, þegar þessir hagfræðingar fara að, mála upp myndirnar og reka þá á dyr, þó að það sé engin ástæða til þess, ekki nokkur minnsta, ástæða. Þeir ráðgjafar, sem vinstri stjórnin þannig tók mest tillit til, flæmdu hana þannig frá völdum. Þeir hafa verið enn meira ráðandi. hjá núverandi ríkisstj. og munu áreiðanlega koma henni á kaldan klaka og það illa, ef þeir fá lengi að ráða stefnunni.

Það er nú verið að gera allt okkar þjóðfélagskerfi viklaust, verið að gera það tilraunakerfi, verið að eyðileggja það, verið að brjóta undan því allar stoðir. Það er verið að gera það að vígvelli, þar sem auðmenn, sem eiga náð hjá ríkisbönkunum og ríkisstj., geti saxað niður alla sjálfstæða atvinnurekendur í landinu. Hæstv. forsrh. veit, venjulega sjálfur ekki mikið um efnahagsmálin. Það fer mest eftir því, hvers konar menn það eru, sem hann hefur tekið tillit til, hvað vel hefur tekizt með þeim ríkisstjórnum, þar sem hann hefur setið að völdum. Og ég lái honum það ekki, þótt hann verði að byggja þannig á öðrum. Það er ekki von, að menn, sem hafa í eins mörgu að snúast og form. stærsta stjórnmálaflokksins og forsrh., geti sett sig inn í öll þau mál, sem um er að ræða. En það vil ég segja við hann og mundi segja við hann, ef hann væri hér, að hann hagar sér nú í þessari ríkisstj. eins og ef hann 1954 hefði tekið tillit til þeirra tillagna, sem þá komu fram um að lána Bretum allt það. fé, sem við áttum á vöxtum erlendis, til þess að ávaxta það á skynsaman kapítalískan hátt. Nú fer hann að eins og hann hefði tekið tillit til slíkra ráðlegginga. En hann bar þá gæfu til þess að taka tillit til þeirra ráðlegginga að kaupa fyrir þetta atvinnufyrirtæki, sem gátu verið raunverulegur grundvöllur undir íslenzkt þjóðlíf.

Ég hef síðar, þegar sumir bankastjórar, — og það var bankastjóri, sem ráðlagði honum þetta, — hafa verið að kvarta undan efnahagskreppum á Íslandi á undanförnum árum, spurt þá að því: Hví seljið þið ekki allan togaraflotann eða alla bátana og allar vélarnar, sem við höfum keypt, og fáið gull í staðinn og látið það liggja hér í Landsbankanum og sjáið, hvað þjóðin kemst vel af? En það er sá hugsunarháttur, sem til slíks mundi leiða, sem þeir hagfræðingar, sem ráðleggja ríkisstj., raunverulega ganga út frá.

Efnahagsmálaráðunautur ríkisstj. hefur sýnt hæstv. forsrh. spéspegil og hrætt hann, eins og hann hefur hrætt sumar ríkisstj. áður, og hæstv. forsrh. fór að nefna hér eitt dæmi, eitt einasta dæmi tók hann um, hvernig allt hefði verið að fara á vonarvöl, þjóðfélagið hefði verið að glatast 1958. Hann tók það dæmi, sem einmitt Jónas Haralz hampaði þá allmikið, að það hafi þá verið hvorki meira né minna en 10%, það sem þjóðin hefði orðið að greiða í vexti og afborganir af erlendum skuldum á komandi árum, svona ægilega hefði vinstri stjórnin verið búin að fara með þjóðarhaginn. Það er rétt hjá honum, að Jónas Haralz var með þessar tölur, t.d. í fyrra.

Ég lét í fjhn. Jónas Haralz og hagfræðingana halda áfram að reikna. Þeir reiknuðu þessar tölur þá til, held ég, 1962. Ég lét þá halda áfram að reikna og leggja þann reikning fyrir í fjhn., og ég skýrði frá honum hér við umræðurnar um málið. Og hvað kom í ljós? Ég skýrði frá því í nál., sem ég skilaði 12. febr. í ár. Með leyfi hæstv. forseta, þá setti ég þarna eftirfarandi í það nál:

„Undirstöðurnar að tillögu sérfræðinganna eru veikar. Of mikið er úr því gert, hve erfitt þjóðinni verður að standa undir greiðslu afborgana og vaxta af erlendum skuldum á árunum 1960–62. Og strax eftir þau ár minnkar það hlutfall stórum. Strax eftir 1962 fer „hættulega“ hlutfallið niður í svipað og var fram að 1958 og verður eðlilegt. Og þó ber að gæta þess, að þjóðin er færari um að standa undir greiðslu vaxta og afborgana, er nema 5,7% af gjaldeyristekjunum 1958, en hún var að standa undir 3.2% 1951, sökum þess að lánin, sem aukið hafa afborganir og vexti, fóru að mestu til framleiðsluaukningar.“

Það, sem Jónas Haralz kom með og hæstv. forsrh. segir nú í þessum umræðum hér, var hrakið í þessum umræðum þá. Það var sýnt fram á, að þetta var blekking. Hagfræðitölurnar voru búnar til og stanzað við sérstakt ár, til þess að það væri hægt að blekkja með þessu þá. Og það kvað svo rammt að þessum blekkingum, að meira að segja Benjamín Eiríksson bankastjóri Framkvæmdabankans sá ástæðu til þess að hrekja þetta í Morgunblaðinu. Með því að slá svona tölum fram er verið að reyna að telja mönnum trú um, að þjóðfélagið sé að fara á hausinn. Hvað sýndi hann fram á? Benjamín Eiríksson sýndi fram á, að þjóðfélagið stóð sterkar og betur að vígi með alla þessa vexti en 1951 á eymdarárunum með að greiða 3,2% þá.

Hæstv. forsrh. hefur náttúrlega ekki fylgzt með umræðunum, sem voru, þegar verið var að setja þetta í gegn. Hann hefur ekki fylgzt með starfinu í fjhn. Hann hefur ekki lesið einu sinni nál., sem við höfum flutt þar. Það er nákvæmlega sama sem gerðist 1950, þegar við sýndum fram á, þegar gengið var lækkað þá, hvaða vitleysur voru meira að segja í útreikningum hagfræðinganna, og árið eftir kom það í ljós, þannig að ríkisstj. varð að fallast á það.

En það er barið hausnum við steininn, ekki tekið nokkurt tillit til neinna raka, þægar hendur réttar upp í þingsölunum og málið pískað í gegn, og árið eftir, að búið er að sýna fram á þessar vitleysur, endurtekur hæstv. forsrh. þær.

Svo kom hæstv. forsrh. síðast inn á það, hvað hann væri ánægður yfir, hvað allir útreikningarnir hefðu staðizt, og vitnaði þar sérstaklega til mín um, að ég hefði sýnt fram á, að kaupgjald verkamannanna væri raunverulega lægra nú en það hefði verið 1947, og vildi segja, að þess vegna væri það allt saman unnið fyrir gýg, sem verkamenn hefðu unnið, öll sú barátta, sem þeir hefðu háð á þessum árum, og verðbólgan væri eingöngu kauphækkunum að kenna.

Allar þessar hugleiðingar hæstv. forsrh. sýna, svo að ég orði það mildilega, hve erfitt honum veitist að athuga sjálfstætt fyrirbrigðin í efnahagslífinu, nema honum — og það vil ég alls ekki ætla honum — þyki svo gaman að reyna að rugla þetta, að hann þess vegna vilji ekki látast skilja neitt af þessu sjálfur.

Hvað er það, sem hefur gerzt á þessum tíma? Þegar kaupgjald er hækkað í einu þjóðfélagi, þá er það yfirleitt reglan, að atvinnurekendur grípa þá til þess ráðs að endurbæta sinn atvinnurekstur og skipuleggja hann betur til þess að standa undir þeirri kauphækkun. Ég vil vekja eftirtekt á þessu. Þetta er reglan í venjulegu auðvaldsskipulagi, og þetta er það, sem veldur framförunum í venjulegu auðvaldsskipulagi, að verkafólkið knýr fram kauphækkanir. Atvinnurekendurnir hafa ekki almennt þá möguleika að velta slíku yfir á almenning með hækkuðu verði, það eru önnur öfl, sem ég skal koma inn á, sem hindra það. Þeir eru knúðir til þess vegna þessara kauphækkana að skipuleggja sinn atvinnurekstur betur, framleiða vörurnar þannig ódýrar, og á þennan hátt gerast framfarirnar og lífskjarabætur í þjóðfélaginu.

Hvað er það, sem hindrar erlenda atvinnurekendur í því að geta velt yfir á þjóðfélagið með verðbólgu kauphækkun á verkalýð? Það er það, að bankarnir og fjármagnið er einstakra manna eign. Einkaauðmagnið í hverju landi hefur engan áhuga á verðbólgu, heldur þvert á móti. Einkaauðmagnið í landinu er fyrst og fremst „finance capital“ eins og það mundi vera kallað á útlendu máli, fjármálaauðvaldið eða bankaauðvaldið, eins og það stundum hefur verið kallað. Það eru voldugir auðmenn, sem eiga peningana og lána þá út og vilja fá jafngóða peninga til baka og krefjast þess af atvinnufyrirtækjunum, sem fá þessa peninga lánaða, að þau skili jafngóðum peningum aftur, og þess vegna sér þetta fjármálaauðvald til þess, að peningarnir rýrni ekki óhóflega í verði. Þess vegna er það venjulega svo, skulum við segja í því gamla, gróna kapítalístíska landi, Englandi, að það er ekki sagt verra við menn þar heldur en að sterlingspundið eigi að falla, og allir þjóta upp til handa og fóta til þess að lýsa yfir, að slíkt sé ósennilegt.

M.ö.o.: auðmannastéttin í viðkomandi þjóðfélagi reynir að hindra verðbólgu, vegna þess að hún á sjálf peningana, sem eru í umferð, hún á sjálf fjármagnið og vill ekki láta rýra þetta fjármagn. Hvernig er þetta á Íslandi? Þveröfugt. Og ég veit ekki, hvort hæstv. ríkisstj. gerir sér það ljóst. Á Íslandi er þetta þveröfugt. Féð, sem er í veltu á Íslandi, er ekki eign einkaauðvalds, það er eign annars vegar ríkisins, — lánsfé ríkisins er þorrinn af öllu því fé, sem er í veltu á Íslandi, — og hins vegar sparifé almennings. Mér þætti vænt um að fá útreikning hjá ríkisstj. á því, hve mikið af því fé, sem er í veltu á Íslandi, er eign einstakra auðmanna. Það er ekki stór hluti. Hvað þýðir þetta? Það þýðir, að þegar svokallaður auðmaður hét, atvinnurekandi, kemur og ætlar að fara að reisa fyrirtæki þá fer hann í bankann að fá lán, og 90% af íslenzkum atvinnurekendum reka sín fyrirtæki með fé ríkisins, með sparifé úr bönkunum og með hlutafé úr bönkunum. Hvað þýðir þetta? Það þýðir að þessir sömu skuldunautar, þessir atvinnurekendur hafa hagsmuni af því að fella í sífellu íslenzku krónuna, fella í sífellu gengið, — ekki sömu hagsmuni og einkaauðvald erlendis af því að halda krónunni í gildi.

Hvað þýðir þetta? Það þýðir þess vegna, að þegar verkamenn hækka sitt kaup, notar atvinnurekendastéttin sitt pólitíska vald og hefur gert í 20 ár til þess að koma af stað verðbólgu. Það er verk atvinnurekendastéttarinnar í landinu. Í hennar þágu, á móti hagsmunum verkalýðsins, móti hagsmunum almennings, móti hagsmunum ríkisins, hefur verðbólgan verið aukin allan þennan tíma. Það hefur jafnvel skapað, eins og oft hefur verið talað um, alveg sérstaka stétt, verðbólgubraskarana, og það hefur líka skapað þann áhuga hjá þeim, sem hafa verið í náðinni hjá bönkunum, að skulda sem mest, fá sem mest lán og borga sem seinast.

Þess vegna er það í raun og veru hart, að hæstv. forsrh. skuli koma hér fram og segja. Það er ekki til neins fyrir verkamenn að hækka sitt kaup. Það hefur sýnt sig allan þennan tíma. — Það, sem hann átti að segja, var: Atvinnurekendur hafa í 20 ár gert þá ósvinnu að velta yfir á þjóðfélagið öllu því, sem þeir áttu að bera að mestu leyti með því að reka sinn atvinnurekstur skynsamlega, með því að skipuleggja betur, með því að taka upp nýrri aðferðir og með því að koma atvinnulífinu á hærra tæknilegt stig. Þetta hefur verið gallinn í íslenzku efnahagslífi. Þetta er það, sem verður að horfast í augu við.

Það, sem væri eðlilegt, er, að raunveruleg hækkun hjá verkafólki og raunveruleg kaupgjaldshækkun væri 5–6% á ári. Og ef þessi ríkisstj. hefði ætlað sér að koma hér á heilbrigðu kapítalistísku skipulagi, þá átti hún aðeins að gera eitt, og það var að segja við atvinnurekendur: Þið megið hækka kaup eins og þið getið, en þið veltið því ekki yfir á almenning. — Hvað hefur ríkisstj. gert í staðinn? Hún hefur alltaf verið, frá því að hún byrjaði, með áróður um það, að verkamennirnir ættu ekki að hækka sitt kaup. Hún hefði þvert á móti átt að segja: Gerið þið svo vel, hækkið þið kaupið, þið hafið enga kauphækkun fengið í 15 ár. Nú er kominn tími til að hækka kaupið. — Og hún átti að segja við atvinnurekendurna: Sýnið þið nú, að þið séuð menn til þess að skipuleggja ykkar atvinnurekstur af einhverju viti.

Þess vegna hefur hæstv. ríkisstj., af því að hún hefur svikizt um að gera þetta, ekki aðeins orðið tæki í höndum atvinnurekendanna, heldur hefur hún orðið tæki í höndum stöðnunarinnar og afturhaldsins í þjóðfélaginu. Kaupgjaldshækkun er hverju einasta þjóðfélagi brýn nauðsyn, og það að standa á móti slíkri kaupgjaldshækkun er svívirða gagnvart framförunum í þjóðfélaginu.

Og hvað er svo gert til þess að reyna að dylja þetta? Það eru falsaðar skýrslur, það eru brotin lög, það er reynt að leyna menn upplýsingum, það er gripið til þess að láta Seðlabankann taka tugi, jafnvel hundruð milljóna króna af atvinnurekstrinum og segja síðan: Aumingja, vesalings atvinnureksturinn getur ekki staðið undir hækkuðu kaupgjaldi.

Mér þætti vænt um að fá frá hæstv. viðskmrh. útreikninga um það, hve mikið hefði verið hægt að hækka kaup á Íslandi, ef vextir á Íslandi væru almennt 2½%, eins og þeir gætu verið.

Það er nauðsynlegt, að menn geri sér það ljóst, þegar er verið að ræða þessi mál, að það er ekki verið að ræða neina kalda reikninga. Það er verið að ræða um lífsafkomu og eignir hverrar einustu fjölskyldu á Íslandi. Sá maður, sem er að missa íbúðina sína í dag fyrir aðgerðir hæstv. ráðherra, spyr ekki um einhverjar vitlausar teoríur amerískt hugsandi hagfræðinga. Hann spyr um, af hverju hann megi ekki eignast íbúð yfir höfuðið á sér, þegar hann hefur þrælað myrkranna á milli í 15 ár, lengur en nokkrir aðrir verkamenn í Evrópu hafa unnið, sjáandi á sama tíma t.d. í Danmörku, að út á íbúðir er veitt lán til 80 ára með vöxtum, sem eru sumpart 2%, sumpart 4%, lán, sem nema 85–90% af kostnaðarverði.

Svo ætlar hæstv. ríkisstj. með tilvísun til þess, að við séum í OEEC og ýmislegu slíku, víst að reyna að sætta menn við það hér á Íslandi, að þeir hafa verið rændir eignum sínum, rændir launum sínum, sviptir frjálsum samningum sínum.

Við verðum að gá að því, að hér er enginn gamanleikur á ferðinni, þó að einhverjir hagfræðingar kunni að hafa gaman af því að reyna að leika sér með íslenzka þjóðfélagið eins og eitthvert brúðuleikhús. Ég veit ósköp vel, að það væsir ekki um slíka hagfræðinga. Þeir geta farið til Ameríku á eftir og fengið há laun þar og eignazt sín hús eða þá að það yrðu settir undir þá sérstakir bankar á Íslandi, þegar þeir þykja ekki lengur nothæfir sem ráðunautar ríkisstj. En almenningur á Íslandi getur ekki farið eins að, og það, sem veldur því, að almenningur á Íslandi á ekki að bíða lengur, er, að afleiðingin af þessari pólitík ríkisstj. verður atvinnuleysi og er byrjað á Íslandi nú þegar og vofir meira að segja yfir í vissum iðngreinum í Reykjavík nú þegar fyrir beinar aðgerðir ríkisstj. og ekkert annað.

Að lokum spurði hæstv. forsrh., hvernig ríkisstj. ætti að gera annað, þegar hagfræðingarnir, sem ættu að hafa vit á þessu, væru sammála um þetta. Það er vitleysa, hagfræðingarnir eru ekki sammála um þessa hluti. Hagfræðingar eru á ákaflega ólíkri skoðun um þessa hluti, — alveg gerólíkri skoðun — þannig að það er ekki til nokkurs skapaðs hlutar að benda til þess, þegar um þetta er að ræða. Hitt er annað mál, að það er hægt að fá vissa borgaralega hagfræðinga, sem hafa trú á vissum amerískum hagfræðikenningum, til að vera sammála um þessa pólitík, þ.e.a.s. þá tegund hagfræðinga, sem eru trúmenn á vald peninganna til að stjórna mönnunum. Þeir hagfræðingar, sem ríkisstj. hefur tekið tillit til og farið eftir, trúa á það, að ef peningarnir séu látnir leika lausum hala, þá komi út úr þeim lögmálum, sem peningarnir raunverulega skapa í þjóðfélaginu og þeirra vald, það, sem eðlilegast sé. Þeir vilja láta gamaldags auðvaldsskipulag fá að njóta sín og lofa því að koma út úr því, sem koma vill. Það þýðir m.ö.o., að þessir menn eru trúmenn á það, að mennirnir eigi að gefast upp fyrir valdi peninganna og láta peningana svo að segja stjórna sér. Það er það skipulag, sem verið er að reyna að innleiða hér. Þetta var reynt fyrir hundrað árum. Það leiddi til þess í Bandaríkjunum, að peningarnir söfnuðust á hendur 8 voldugra fyrirtækja, sem ráða Bandaríkjunum, algers einræðis örfárra auðmanna. Það leiddi til þess í öðrum löndum, að þessu skipulagi var bylt og sósíalistískt skipulag tók við. Það leiddi til þess í enn öðrum löndum, sem enn eru borgaraleg, að það var tekin upp önnur hagfræði. Og sú nýtízkuhagfræði, líka borgaraleg, sem reynt hefur verið að beita í ýmsum borgaralegum löndum, á ekkert skylt við þær tilraunir, sem hér er verið að gera. Það, sem við Íslendingar fórum að mestu leyti eftir, t.d. í stríðslokin, til að skapa þjóðfélag, þar sem ekki væri atvinnuleysi, styðst ekki við þær hagfræðikenningar, sem nú er verið að beita hér. Við Íslendingar höfum reynt með mismunandi árangri í 30 ár, eftir að við rákum okkur á kreppuna, — og kreppan var afleiðingin af því þjóðfélagi að láta peningana ráða, þeirra lögmál, og beygja mennina undir þá og láta mennina drepast og svelta í hel og verða atvinnulausa og bændurna flosna upp, allt til þess, að lögmál peninganna fengi að ráða, — við rákum okkur á það þá, 1930 og á árunum á eftir, að þetta þjóðfélag hefði drepið okkur sem þjóð, og þess vegna höfum við verið að baksa við að reyna aðra hluti síðan. Og þó að margt hafi verið misheppnað í því hjá okkur, af því að við höfum aldrei farið þær leiðir, sem heppilegastar hefðu verið, þá höfum við samt þessi ár, sérstaklega eftir 1940 og að sumu leyti líka á vissum sviðum á krepputímabilinu á milli þrátt fyrir erfiðleikana, skapað þær miklu framfarir, sem á Íslandi hafa orðið. Og ekkert af þeim framförum hefur verið skapað eftir þeim hagfræðikenningum, sem nú er farið eftir. Þegar þær hafa verið reyndar að nokkru leyti, eins og eftir 1950, staðnaði allt.

Það, sem er í vændum, ef verkalýðurinn skerst ekki í leikinn og stöðvar þetta, ef ríkisstj. og Alþingi hefur ekki vit á því að stöðva það, er atvinnuleysi og verðfall. Það er ekki til nokkurs skapaðs hlutar að koma hér, eins og hæstv. forsrh. gerði, og vera að afsaka eitthvað með verðfalli úti í heimi. Það er ekki til neins. Hæstv. ríkisstj. er að stefna að verðfalli á öllum afurðum Íslands vitandi vits. Hæstv. ríkisstj. hlýtur að gera sér það ljóst, að þetta skipulag, sem hún hefur innleitt, þýðir að eyðileggja markaðina í sósíalistísku löndunum, þýðir að eyðileggja þá, og hún er þegar búin að fá aðvaranir um það frá sínum sendiherrum í þeim löndum. Það hefur markvisst verið unnið að því að grafa undan viðskiptunum, það sem af er þessu ári. Það þýðir, að ríkisstj. er að kasta meiru og meiru af afurðum Íslands á kreppumarkað auðvaldslandanna. Svo kemur hún og kvartar yfir því, að það verði verðfall þar. Hvert er lögmálið á þeim mörkuðum? Lögmálið er verðsveiflur, lögmálið er kreppur, og lögmálið er hrun, sérstaklega hjá þeim smáu, svo að þeir stóru geti gleypt þá og rekið hlutina hagkvæmar. Hæstv. ríkisstj. verður að gera sér það ljóst, að hún er að fara vísvitandi inn á slíka markaði. Gangur atvinnulífsins í auðvaldsskipulagi er, að þorrinn af atvinnurekendum — sérstaklega hinir smærri — fari á hausinn og þeir stóru gleypi þá. Það er reglan. Og Ísland er frekar smátt í þeim kapítalistíska heimi. Það ætti engan að undra, þótt meginið af okkar atvinnurekstri, þegar það er sett meira og meira inn í þann kapítalistíska heim, fari á hausinn. Hvað skapar atvinnuleysi, og hvað skapar kreppa hér á Íslandi? Hvað skapaði það 1931–32? Öll fyrirtæki á Íslandi hefðu farið á hausinn þá meira að segja Kveldúlfur og Alliance, meira að segja Landsbankinn, svo framarlega sem ríkisstj. hefði ekki gert sérstakar ráðstafanir, en atvinnulíf kapítalismans hefði verið látið ganga sinn gang. Þess vegna dugir engin slík afsökun.

Ríkisstj. afsakar sig með því, að það hafi orðið minni síldveiði í ár. Hvað bar ríkisstj. að gera, ef hún ætlaði að hugsa eitthvað fyrir atvinnulífinu, ef það væri minni síld? Henni bar að sjá til þess, að það yrði gerð dýrmætari vara úr henni. Ég vil segja það við hæstv. ríkisstj., að það þýðir lítið að kvarta, þó að við getum ekki saltað nema 100 eða 150 þús. tunnur af síld. Bara 10–20 þús. tunnur af þessari síld getum við með því að leggja hana niður, sumpart sjóða hana niður kannske, gert að tífalt verðmætari vöru. Og við höfum opna markaði fyrir slíkt. Við gátum fengið margfalt meira í ár fyrir þá síld, sem hér hefur verið framleidd, þó að illa færi með síldarvertíðina, ef það hefði verið einhver hugsun í þessum málum. Það er ekki ársverk að koma hér upp síldarniðursuðu- og niðurlagningarverksmiðju og tífalda verðmæti útflutningsins. En ef það er einhver af hæstv. ráðh., sem heldur, að einhverjir einstaklingar komi þessu upp í stórum stíl hér á Íslandi, þá er það blekking, þá er það tálvon. Ríkið gat gert það og það í einu vetfangi, og það verður ekki gert öðruvísi. Það er engin afsökun, að Íslendingar fái minna fyrir sína síld. Það er hægt að tífalda verðmæti útflutningsins með því að vinna þetta af viti. En það þýðir, að það verður að gera þetta eftir ákveðinni áætlun, með skynsamlegri fjárfestingu, með ráðstöfunum til langs tíma um viðskiptasamninga til þess að tryggja þetta. Allt verðfall, sem hefur verið á þessum hlutum, er hæstv. ríkisstj. sjálfri að kenna fyrir að draga Ísland í svo ríkum mæli inn í kapítalistísku markaðina. Það er ekki til neins að koma á eftir og afsaka sig með þessu. Menn verða að taka afleiðingunum af sínum gerðum.

Ég held þess vegna, að það væri heppilegt í sambandi við þær umr., sem nú fara fram um þetta mál, þó að þær fari vafalaust nokkuð út fyrir efnið, eins og oft er hjá okkur, að hæstv. ríkisstj. gæfi vissar upplýsingar um þessi mál, þannig að við hér í þinginu stæðum ekki frammi fyrir því, eins og við höfum staðið ár eftir ár við allar umr. um efnahagsmálin, að vanta svo og svo mikið af öllum grundvellinum að því, sem um þarf að ræða, af því að okkur er neitað um upplýsingar, af því að þeir menn, sem eru látnir rannsaka þetta og varið til þess stórfé, þeir rannsaka ekki nema vissa þætti og láta hitt liggja hjá. Enn liggur ekki neitt fyrir um, hvernig tekjuskiptingin í íslenzka þjóðfélaginu er. Þetta, sem liggur fyrir í hverju einasta þjóðfélagi, höfum við ekki getað fengið hér. Og svona getur þetta ekki gengið áfram. Það verður aldrei gert að trúarsetningu á Íslandi, að menn eigi að skorta, þegar nóg er til af öllu og nóg er hægt að skapa, að menn eigi að missa sínar eignir, þegar þjóðfélagið er ríkara en það hefur verið nokkru sinni fyrr og þegar eignir safnast fyrir á hendur fárra manna eða stofnana í ríkara mæli en nokkru sinni áður hefur gerzt.