20.10.1960
Neðri deild: 7. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 314 í C-deild Alþingistíðinda. (1961)

31. mál, efnahagsmál

Einar Ágústsson:

Herra forseti. Frv. það, sem hér er til umr., um breyt. á l. nr. 4 1960, um efnahagsmál, fjallar að mínum dómi um stórmál, er snertir hag alls almennings í landinu með þeim hætti, að hin mesta nauðsyn er á, að það nái fram að ganga sem allra fyrst. Frv. er borið fram til lagfæringar á því ástandi, sem nú ríkir í efnahagsmálum þjóðarinnar og er svo alvarlegt, að til hreinna vandræða horfir, ef ekki verður að gert hið bráðasta. Ástand þetta er að miklu leyti afleiðing þeirrar efnahagsmálastefnu, sem upp var tekin fyrra hluta þessa árs og framkvæmd var með margvíslegum ráðstöfunum. Ein þeirra var, sem kunnugt er, sú, að vextir í landinu voru hækkaðir svo gífurlega, að nálgast heimsmet, almennir fasteignalánavextir hækkaðir úr 7 í 11% og aðrir vextir eftir því. Meira að segja þarf að nota 16% vaxtatöflu, sem torvelt var að fá nokkurs staðar í veröldinni, og gott, ef ekki varð að reikna hana út hér heima.

Tilgangurinn með þessu vaxtaokri átti að vera sá að stuðla að aukningu sparifjár í landinu, og nú er sagt frá því af opinberum aðilum, að þeim árangri hafi verið náð að nokkru marki, þar eð sparifjáraukningin sé á þessu ári meiri en hún var á sama tímabili í fyrra. Ekki skal rengt, að slíkt megi í skýrslum finna. En nokkur vafi virðist þó vera á því, hver raunveruleg sparifjáraukning er, og það getur verið allbreytilegt eftir því, við hvað er miðað, t.d. hvort innstæður á ávísanareikningum og hlaupareikningum eru taldar til sparifjár eða ekki.

Mörgum mundi þykja fróðlegt að fá upplýsingar um það, hjá hvaða lánastofnunum sparifjáraukningin hefur aðallega orðið, og eins hitt, hverjir það eru, sem hið aukna sparifé eiga. Hvaða stéttir þjóðfélagsins eru það, sem hin svokallaða viðreisn hefur auðgað svona verulega? Hverjir eru nú svo aflögufærir að geta lagt til hliðar sparifé í miklu ríkara mæli en áður hefur þekkzt? Það vill vefjast fyrir almenningi að átta sig á þessu.

Launamönnum finnst t.d., að kaupið endist þeim ekki betur nú en áður var. E.t.v. er þar um að kenna óráðsíu og eyðslu? Slíkt er nauðsynlegt að athuga og bæta úr, ef svo skyldi reynast. Til glöggvunar á þessu mætti í fyrsta lagi gera samanburð á kaupi í dag og eins og það var t.d. 1. október 1958, þ.e. á síðustu valdadögum hinnar svokölluðu vinstri stjórnar. Kaup Dagsbrúnarverkamanna var hinn 1. okt. 1958 kr. 21.85 á klst. og hélzt þannig óbreytt til 1. des. 1958, en þann dag komu til útborgunar þau vísitölustig, sem samkv. þáverandi efnahagslögum hafði verið frestað að greiða. Við þetta hækkaði kaupið í kr. 23.86 á tímann. Svo kom stjórn Alþfl. til valda og hennar úrræði var að lækka kaupið, þó ekki í kr. 21.85, sem hafði þótt of lágt nokkrum mánuðum fyrr, heldur í kr. 20.67, og þannig hefur það verið síðan. M.ö.o.: kaup Dagsbrúnarverkamanns hefur frá því 1. okt. 1958 lækkað um kr. 1.18 á klst., og kaup annarra launastétta hefur yfirleitt breytzt hlutfallslega við þetta. Það er því alveg augljóst, hvað sem öðru líður, að launafólk hefur ekki getað aukið sparifjársöfnun sína vegna þess, að kaupið hafi hækkað.

Þá mætti e.t.v. hugsa sér, að svo miklu ódýrara væri að lifa núna en haustið 1958, að þess vegna væri kaupið þrátt fyrir lækkunina svo miklu drýgra nú en þá, að meira væri hægt að leggja fyrir. Þessu er þó auðvitað alveg þveröfugt farið og þarf tæpast um að ræða. Þó væri ekki úr vegi að gera sér grein fyrir því, hversu mikið vöruverð yfirleitt hefur hækkað á þessu tímabili, og er þá nærtækast að gera samanburð á útsöluverði nokkurra vörutegunda. Ég hef hér samanburð á örfáum tegundum algengustu lífsnauðsynja. Verðið er miðað við 1. sept. 1958 og 1. sept. s.l., og ég vil undirstrika það alveg sérstaklega, að þessar vörutegundir eru ekki valdar vegna þess, að þær hafi hækkað óeðlilega mikið í hlutfalli við aðrar, heldur eru þær valdar af handahófi. Eru því miklar líkur til þess, að hér sé um raunverulegan þverskurð að ræða af verðhækkun innfluttra neyzluvara og að hækkunin sé almennt eins og hér, þetta frá 35 og upp í 114%. En þessi örstutti sýnishornalisti er svona:

Hinn 1. sept. 1958 kostaði 1 kg af molasykri kr. 6.43, kostar nú 8.45, hækkun kr. 2.02, 1 kg af strásykri 4.28, kostar nú 7.75, hækkun 3.47. 1 kg af flórsykri 5.13, kostar nú 9.70, hækkun 4.57. 1 kg af kartöflumjöli 5.83, kostar nú 11.55, hækkun 5.72. 1 kg af rúgmjöli 2.99, kostar nú 4.50, hækkun 1.51. 1 kg af hveiti 3.36, kostar nú 5.90, hækkun 2.54. 1 kg af hrísgrjónum 4.96, kostar nú 9.40, hækkun 4.44. 1 kg haframjöl 3.08, kostar nú 6.70, hækkun 3.62. — Þannig mætti auðvitað lengi telja, en hér skal staðar numið. Sömu sögu er að segja af öllum sviðum. Alls staðar blasa verðhækkanirnar við. Ég vil þó aðeins bæta því við hér, af því að mig minnir, að ég hafi heyrt talað sérstaklega um verð á skófatnaði sem dæmi upp á það, hvað verðhækkunin yrði nú raunverulega lítil, að 1 par af íslenzkum karlmannaskóm kostaði haustið 1958 305 kr., kostar nú 360 kr. og hefur því hækkað um 55 kr., en það svarar til þess, að verkamaður, sem var tæpar 13 stundir að vinna fyrir einu pari haustið 1958, þarf nú að nota rúmar 16 vinnustundir í sama skyni. Verðhækkun á innfluttum skóm er þó miklu meiri, en samanburðartölur um það efni hef ég ekki.

Af þessu örstutta yfirliti má glögglega sjá, að útilokað er, að um sparifjáraukningu geti verið að ræða hjá almenningi af völdum verðlækkana. Ótalin eru enn stóraukin útgjöld manna vegna vaxtahækkunarinnar, ekki hafa þau getað orsakað sparifjáraukningu, svo mikið er alveg víst. Sú röksemdafærsla, sem væri fólgin í því að halda því fram, að lækkuð laun plús stórfelld verðhækkun af völdum gengislækkunar og söluskatta plús gífurleg vaxtahækkun í landi, þar sem nálega allir skulda, gæfi útkomuna sparifjáraukning, hlýtur hvarvetna að vera talin markleysa.

Nú kann einhver að segja, að í þessa mynd vanti ljósu litina, hér sé ekkert getið um þá lækkun skatta og útsvara, sem framkvæmd hefur verið jafnhliða þessum efnahagsráðstöfunum. Hygg ég þó, að menn komist fljótlega að raun um við athugun, að þeir, sem lægri hafa launin, verða lítið sem ekkert varir við þá búbót, sem til þeirra fellur af þessum sökum, af þeirri einföldu ástæðu, að skattar þessara manna voru alveg hverfandi, áður en viðreisnin sá dagsins ljós. Með margvíslegum lagfæringum á skattakerfinu var þegar búið að jafna svo metin gagnvart þessu fólki, að litlu sem engu var þar við að bæta. Hitt er vafalaust rétt, að tekjuskattur og útsvör hafa lækkað, svo að verulegum fjárhæðum nemur. En það snertir bara ekki almenning. Aðrir hafa notið þeirra kjarabóta. E.t.v. getur það orðið til leiðbeiningar um sparifjáraukninguna, ef til kemur.

Hvort sem menn velta þessu fyrir sér lengur eða skemur, er alveg áreiðanlegt, að niðurstaðan getur ekki orðið nema á einn veg, þ.e. að hagur almennings í landinu hefur stórkostlega versnað á því rúma hálfa ári, sem liðið er, síðan efnahagsráðstafanirnar frá 20. febr. s.l. gengu í gildi, og er þó langt frá því, að öll kurl séu þar komin til grafar.

Þá mætti spyrja, hvernig tekizt hafi að nota þessa óumdeilanlegu kjaraskerðingu til þess að koma atvinnuvegunum á réttan kjöl og tryggja þeim rekstrargrundvöll, eins og lofað var. Hefur ekki hagur bænda blómgazt með afbrigðum síðan í vor? Ekki heyrist manni það nú á þeim. Manni heyrist, að þeir telji afkomu sína ekki hafa batnað við það t.d., að verð á dráttarvélum hefur hækkað úr 53 þús. kr. upp í 88 þús. kr., né við þá stórkostlegu verðhækkun, sem orðið hefur á öllum rekstrarvörum til landbúnaðarins, samfara afskaplegum hækkunum á vaxtagjöldum og öllu, sem til þarf. Þar á móti segir lítið 7% hækkun á verðlagsgrundvellinum, sem þar að auki er ævinlega langt á eftir verðhækkunarflóðinu, enda er ástandið þannig í mörgum sveitum, að efnaminni bændur eru að flosna upp. Þeir grónu þrjózkast eitthvað lengur, en varla nokkur maður getur byrjað búskap við þessar aðstæður.

Um útgerðina er það að segja í stuttu máli, að vitað er, að hún er nú yfirleitt í algeru greiðsluþroti, svo að við borð liggur, að allur rekstur stöðvist, ef ekki verður að gert. Útgerðin stendur ekki undir vaxtabyrðinni. Útgerðin getur ekki borgað veiðarfærin. Útgerðin getur ekki greitt vátryggingariðgjöldin. Til þess verður að koma fé annars staðar frá, eins og komizt er að orði í grein eins vel þekkts útgerðarmanns um þessi mál. Lýsing hans er óglæsileg, en vafalaust alveg rétt, enda mælir þar sá, er til þekkir. Svona hefur þá viðreisnin leikið þann atvinnuveginn, sem allar hennar ráðstafanir voru miðaðar við samkvæmt yfirlýsingum höfundanna. Og þarna sést, þótt ekkert annað kæmi til, hversu gersamlega ráðstafanirnar hafa brugðizt. Þegar svo er komið, að vaxtaútgjöldin leggjast svo þungt á þann atvinnuveg, sem ríkisvaldið telur sér óhjákvæmilegt að hjálpa, þá er hjólið búið að snúast heilan hring.

Verzlunin er í kröggum. Kaupmenn barma sér yfir örðugleikum. Þá vantar rekstrarfé, og vextirnir eru þeim ofviða mörgum hverjum. Mjög er einnig þrengt hag samvinnufélaganna í landinu, og kannske er þar líka að finna þá einu af fyrirætlunum viðreisnarinnar, sem hefur þó ekki alveg brugðizt. Iðnaður berst í bökkum vegna skorts á rekstrarfé, auk þess sem byggingariðnaðurinn sér fram á óhjákvæmilegan verkefnaskort í næstu framtíð vegna samdráttarins, og óseljanlegar birgðir hrúgast upp hjá sementsverksmiðjunni.

Svona mætti halda áfram, og verður ekki annað séð en viðreisninni hafi í stórum dráttum alveg mistekizt það hlutverk, sem henni var ætlað, og að óhjákvæmilegt sé því að gera nú þegar raunhæfar ráðstafanir til bjargar, áður en allt er um seinan.

Er þá útilokað, að nokkur geti hagnazt á þessum ráðstöfunum? Ekki segi ég það nú. Þeim, sem tekizt hefur áður að eignast fjármagn, eru vitaskuld ýmsar leiðir færar til að auka auð sinn, þegar hinir efnaminni verða að láta af hendi eigur sínar fyrir hvaða verð sem býðst, og þannig skapast möguleikar fyrir hina ríku til að verða enn ríkari á kostnað hinna fátæku.

Þetta frv., sem hér er til umr., er flutt sökum þess, að með lögfestingu þeirra ákvæða, sem það hefur að geyma, mundi einn versti agnúi viðreisnarinnar vera burt numinn. Hér er um hentuga og fljótvirka leið að ræða til þess að snúa frá villunni og gera ögn lífvænlegra í landinu en nú er. Fullvíst er, að hin stórkostlega hækkun lánsfjárvaxta er það atriði efnahagsráðstafana hæstv. ríkisstj., sem einna harðast kemur niður á öllum þegnum þjóðfélagsins, snertir flesta og mestri röskun veldur, enda þótt margar aðrar séu mjög tilfinnanlegar. Undan byrðum vaxtahækkunar kemst nálega enginn maður og enginn rekstur í þjóðfélagi hraðrar uppbyggingar, mikilla umbrota og takmarkaðs eigin fjármagns fyrirtækja. Og afleiðinganna gætir á öllum sviðum, ekki hvað sízt þegar vaxtabreytingin er látin fylgja í kjölfar stórkostlegustu verðhækkunaröldu, sem yfir landið hefur gengið. Daglega kemur á fund forráðamanna lánastofnana hópur manna, sem sjá enga möguleika til þess að geta haldið húsum sínum og eignum aðra en þá að taka ný lán, og eftirspurn eftir lánsfé hefur áreiðanlega sizt minnkað nú á síðustu mánuðum. Allir sjá þó, hvert slíkar lántökur leiða með þeim kjörum, sem gilda í dag. En menn standa frammi fyrir því vandamáli að leggja annaðhvort árar í bát og missa eigur sínar nú strax eða reyna að bjarga sér í bili með því að taka lán, ef hægt er, í þeirri von, að betri tímar séu ekki allt of langt undan og þeim takist að þrauka. Sem betur fer, er hægt að segja með fullum rétti, að á undanförnum árum hefur mörgum tekizt að koma sér upp þaki yfir höfuðið. Ekki hefur það þó yfirleitt verið kleift án þess að taka lán í því skyni.

Það segir sig sjálft, að útgjaldaaukning, sem af vaxtabreytingunni leiðir, er ákaflega tilfinnanleg fyrir menn, sem hafa miðað útreikninga sina við lægri vaxtaútgjöld. Af 100 þús. kr. skuld hækkar þessi eini útgjaldaliður t.d. um 4 þús. kr., og það munar um minna, ekki sízt þegar greiðslugetan hefur áður verið skert með stóraukinni dýrtíð og lækkuðu kaupi. Þó er þetta sagan af þeim heppnu, þeim, sem voru búnir að koma íbúðunum upp. Saga hinna, þeirra ungu og þeirra, sem af einhverjum ástæðum hafa tafizt, er þó enn alvarlegri. Tæpast er hugsanlegt, að nokkur einstaklingur geti ráðizt í nýjar byggingarframkvæmdir með því verðlagi, sem nú er á byggingarefni og öðru, sem til bygginga þarf, með þeim lánskjörum, sem nú gilda, og með þeirri lánsfjáreklu, sem hér ríkir. Þessu fólki er því alveg settur stóllinn fyrir dyrnar.

E.t.v. hefur uppbygging undanfarinna ára verið þjóðinni of dýr. En alger stöðvun nauðsynlegustu framkvæmda er ekki það viðbragð, sem leysir vandann. Ör fólksfjölgun í landinu kallar óhjákvæmilega á nýja bústaði, og auk þess höfum við verið og erum enn að vinna upp aldagamla vanrækslu og getuleysi í byggingu varanlegra íveruhúsa. Framleiðslan og atvinnuvegirnir þurfa sína uppbyggingu til að mæta nýjum og auknum verkefnum. Vegna þessa er ekki hægt að nema alveg staðar. En það var hægt og er enn hægt að takmarka fjárfestingu í landinu og halda henni innan viðráðanlegra marka. Leiðin til þess er að halda aðeins áfram þeim framkvæmdum, sem nauðsynlegastar eru, en láta aðrar bíða og dreifa uppbyggingunni þannig á lengra tímabil. Þetta er sú leið, sem nágrannaþjóðir okkar á Norðurlöndum, t.d. Danir, fara nú til þess að hafa hemil á fjárfestingu í landinu. Einnig og ekki síður má ná þessum árangri með því að leita að og finna leiðir til þess að lækka allan byggingarkostnað, sem áreiðanlega er hægt hér í mjög stórum stíl. Er þar um að ræða hið mesta nauðsynjamál, sem þarf að hrinda í framkvæmd hið bráðasta.

Þegar svo er komið, að hvorki atvinnuvegirnir né einstaklingarnir geta með nokkru móti risið undir byrðunum, þá er augljóst, að breyta þarf um stjórnarstefnu. Samþykkt þessa frv. gæti orðið fyrsti vísirinn til lagfæringar á öngþveitinu, sem efnahagsráðstafanirnar hafa leitt þjóðina í. Auðvitað þarf miklu fleira að koma til, áður en jafnvægi er náð, en hér gefst hv. alþm. kostur á heppilegri og fljótvirkri leið til nokkurra úrbóta.

Annað atriði þessa frv. vil ég gera hér að umtalsefni sérstaklega með örfáum orðum. Í 3. gr. frv. er lagt til, að síðasti málsl. 2. mgr. 16. gr. l. nr. 63 frá 1957 verði orðaður þannig, að „stjórnum banka og sparisjóða skuli skylt að veita Seðlabankanum upplýsingar um starfsemi sína, svo sem um innlán og útlán.“ Hér er um það að ræða, að horfið verði frá þeim ákvörðunum frá 23. febr. s.l., að bankar, sparisjóðir, Söfnunarsjóður Íslands og innlánsdeildir kaupfélaga skuli skyldar til að geyma á reikningi í Seðlabankanum helming innstæðuaukningar sinnar. Heimild laga nr. 63 1957 var ekki notuð fyrr en á þessu ári, og með l. nr. 4 1960 var ákveðið, að innlánsdeildir kaupfélaga skyldu lúta sömu reglum, og kom hvort tveggja til framkvæmda frá sama tíma. Ákvæði þessi eru mjög til þess fallin að færa á eina hönd allt vald yfir fjármunum þjóðarinnar, en slíku er alltaf samfara nokkur hætta á misrétti, og eðlilegra virðist, að innlánsstofnunum þessum sé, eins og áður var, falin varðveizla og ráðstöfun innstæðufjár, fyrst þeim á annað borð er sýnt það traust, sem í löggildingu þeirra felst. Í þeirri ráðstöfun að láta fyrrgreind ákvæði ná til innlánsdeilda kaupfélaganna kemur fram annaðhvort óvild í garð samvinnufélaganna og tilraun til að veikja aðstöðu þeirra ellegar grundvallarmisskilningur á eðli innlánsdeildanna og því, hvaða fé velst þangað til geymslu. Ekki legg ég á það dóm, hvor ástæðan megi líklegri teljast.

Í 28. gr. laga um samvinnufélög, nr. 46 1937, segir, að samvinnufélög hafi heimild til að stofna og starfrækja innlánsdeild, er tekur við innlögum frá félagsmönnum til ávöxtunar sem rekstrarfé. Það fer ekkert á milli mála, að með þessu hefur löggjafinn viljað greiða fyrir því, að menn gætu eflt hag samvinnufélags síns með því að fela því til ráðstöfunar sparifé sitt, hliðstætt því, að eigendur hlutafélaga hafa eigið fé í rekstrinum. Lög um samvinnufélög eru upphaflega frá árinu 1921, og hefur þetta ákvæði verið óbreytt alla tíð síðan. Í meðferð Alþingis hlaut þessi grein þá breytingu 1921, að n., sem um það fjallaði, bætti við orðunum „sem rekstrarfé.“ Um þetta fórust framsögumanni, Sigurjóni Friðjónssyni, orð á þessa leið á þinginu 1921, með leyfi hæstv. forseta:

„Breyt. nefndar var í því einu fólgin að bæta við: „Á eftir orðunum „til ávöxtunar“ komi orðin „sem rekstrarfé“, því að n. ætlast til, að það fé sé notað til starfrækslu í félögunum, en ekki til útlána.“

Hér er allt skýrt og greinilegt. Og hvers vegna halda menn, að fólk geymi sparifé sitt í innlánsdeildum kaupfélaganna? Það er ekki fyrir neina nauðung eða vegna þess, að ekki sé hægt að ná til banka eða sparisjóða til viðskipta. Slíkt er alls staðar hægt og öllum frjálst. Ástæðan er sú og sú ein, að með því að geyma sparifé í innlánsdeild eru menn að efla samvinnufélag sitt og þar með eigin hag. Félagarnir eru allir eigendur kaupfélagsins, og þeim er sú staðreynd alveg ljós, að það er kaupfélagið, sem er og hefur verið styrkasta stoð fólksins í mörgum byggðarlögum þessa lands. Það er kaupfélagið, sem hefur haldið uppi verzlunarrekstri, séð um sölu afurðanna og útvegun verzlunarvarnings, oft við hin erfiðustu skilyrði, löngu eftir að kaupmaður staðarins var fluttur burt með allt það, sem honum hafði tekizt að hagnast á viðskiptum sínum á staðnum. Þessa staðreynd þekkir fólkið, bæði í sveit og við sjó, og það er vegna hennar, sem það tekur æ fleira höndum saman undir merkjum samvinnuhreyfingarinnar og vinnur henni eftir getu, m.a. með því að hjálpa félagi sínu um rekstrarfé, eftir því sem ástæður leyfa. Vegna þessa ber að leiðrétta sem fyrst það ranglæti, sem fólgið er í þeirri tilhögun, sem nú gildir og ég hef lýst og ótvírætt er algerlega öndverð efni og anda laganna frá 1921. Einnig hér er því tækifæri til að koma fram sanngjarnri og nauðsynlegri lagfæringu með samþykkt frv. á þskj. 31.