23.10.1960
Neðri deild: 8. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 320 í C-deild Alþingistíðinda. (1963)

31. mál, efnahagsmál

Flm. (Eysteinn Jónason):

Herra forseti. Það eru nokkur orð út af því, sem fram hefur komið hjá hæstv. ráðh. í sambandi við þetta mál.

Mér fannst það mjög eftirtektarvert, að hæstv. forsrh., sem flutti hér langa ræðu, reyndi ekki að sýna fram á, að þessi vaxtapólitík gæti staðizt. Hann reyndi ekki að bera brigður á þá fullyrðingu, sem ég flutti og rökstuddi, að þessir vextir, sem nú hefðu verið ákveðnir, væru miklu hærri en nokkur atvinnurekstur á Íslandi gæti borið. Og hann reyndi ekki heldur að hnekkja því, sem nú liggur brátt fyrir sem staðreynd, að þetta vaxtaokur og lánsfjárkreppan, sem ríkisstj. hefur búið til í landinu með ráðstöfunum sínum, þetta samanlagt ásamt dýrtíðaraukningunni er búið að keyra algerlega föst fjölmörg framleiðslufyrirtæki í landinu. Í stað þess að ræða þessi atriði og hnekkja þeim, ef það var unnt, sneri hæstv. forsrh. sér að allt öðrum efnum. Ég skal nú víkja að því, sem hann ræddi um, í stað þess að endurtaka það, sem ég sagði hér í minni framsöguræðu.

Hæstv. ráðh. hefur nú sýnilega alveg gefizt upp við að mótmæla því, að núv. stjórnarflokkar hafi brugðizt sínum kosningayfirlýsingum. Hann hefur algerlega gefizt upp við það, enda er það auðvitað alveg vonlaust verk, því að það vita allir, að þeir lýstu yfir stöðvun dýrtíðarinnar og bættum lífskjörum, en beittu sér fyrir mögnun dýrtíðarinnar og rýrnandi lífskjörum. Það er því alveg vonlaust fyrir hæstv. ráðh. — og það hefur hann líka fundið — að reyna lengur að bera á móti þessu. En nú hefur hann fundið upp alveg nýja aðferð, og hún er sú, að hann hafi ekki gert sér ljóst, þegar kosningarnar fóru fram, hvernig ástandið í efnahagsmálunum væri. Hina afstöðuna hefur hann alveg gefizt upp við að verja. Þetta er sú nýja. Ekki er nú þessi afstaða stórmannleg hjá hæstv. ráðh., hjá foringja stærsta stjórnmálaflokksins í landinu, enda vitum við ákaflega vel, að hæstv. ráðh. var vel kunnugt um, hvernig ástatt var í efnahagsmálunum. Hann hafði stutt stjórn meira að segja nærri því heilt ár, þegar síðari kosningarnar fóru fram, og haft allan aðgang að því að kynna sér rækilega, hvernig ástatt var, og hafði vafalaust látið sína menn gera það, enda hafði hann látið sérfræðinga Sjálfstfl. í þessum efnum gefa út eins konar úttekt á þjóðarbúinu. Þannig er alveg vonlaust fyrir hæstv. ráðh. að skjóta sér á bak við það, að honum hafi ekki verið fullkunnugt um þetta.

Hvernig gat hann þá fullyrt við þjóðina, að hann og valdasamsteypan nýja gæti haldið dýrtíðinni í skefjum og bætt lífskjörin, ef honum var ekki kunnugt um höfuðþætti efnahagsmálanna? Þá var slík yfirlýsing jafnósvifin og hefði hæstv. ráðh. verið kunnugt um, að það væri ekki hægt að standa við hana.

Þá sagði hæstv. ráðh., að fullyrðingar mínar um, að stjórnarstefnunni væri beint gegn sjálfstæðum atvinnurekendum og þeim framleiðendum, sem hefðu ekki fullar hendur fjár, og því fólki, sem hefði komið sér upp eignum og ekki hefði fullar hendur fjár, — þessar ásakanir mínar væru úr lausu lofti gripnar. En hæstv. ráðh. rökstuddi þetta ekki neitt og hnekkti engu af því, sem ég sagði þessu til sönnunar. Hann lét aðeins við það sitja að flytja hér yfirlýsingu með almennum orðum um, að hæstv. ríkisstj. vildi styðja sem allra flesta landsmenn til þess að vera sjálfstæðir efnalega, og þar fram eftir götunum. Slíkar skrumyfirlýsingar hafa ekkert gildi. Það eru verkin, sem skipta máli í þessu sambandi, og þau liggja alveg ljóst fyrir. Og þau finna menn nú daglega á sér, þeir sem hér eiga hlut að máli, og þarf ekki að fara lengra út í það mál í dag.

Hæstv. ráðh. sagði, að ég hefði haft forustu um gífurlegar skattaálagningar, en nú væri skipt um í því efni, og mættu menn taka það til greina, þegar skoðað væri viðhorfið nú. Í þessu sambandi vil ég rifja upp, að það voru fjármálaráðherrar Sjálfstfl., sem á árunum fyrir 1950 beittu sér fyrir þeirri langþyngstu skattalöggjöf, sem nokkru sinni hefur verið lögleidd á Íslandi. Það voru fjármálaráðherrar Sjálfstfl., sem höfðu forustu um þessa lagasetningu. Og síðan Sjálfstfl. tapaði forustunni í fjármálunum á tímabilinu 1950–58, var sífellt verið að gera lækkanir og lagfæringar á þeirri skattalöggjöf, sem fjármálaráðherrar Sjálfstfl. höfðu beitt sér fyrir.

Í því sambandi vil ég minna á eftirfarandi: Árið 1950 voru sett lög um lækkun skatta á lágtekjum. Árið 1954 var sparifé gert skattfrjálst. Árið 1954 voru sett ný skattalög og tekjuskattur annarra en félaga lækkaður stórkostlega, eða um 29% að meðaltali. Fiskimenn fengu þá ný frádráttarhlunnindi og sömuleiðis giftar konur, sem leggja í kostnað vegna vinnu utan heimilis. 1956 var tekjuskattsviðauki félaga felldur niður. 1957 var enn lækkaður skattur á lágtekjum og aukinn skattfrádráttur til handa skipverjum á fiskiskipum. 1958 var sett ný löggjöf um skattgreiðslur félaga, þar sem stighækkandi skattur á þeim var afnuminn, en lögfest jafnt skattgjald af skattskyldum tekjum félaga. Þá var enn á því ári lækkaður skattur á lágtekjum og aukinn sérstakur frádráttur vegna fiskimanna, enn fremur leyfður meiri frádráttur á lífeyrissjóðsgjöldum en áður var. Loks var á þessu sama ári sett merk löggjöf um skattamál hjóna, þar sem sérákvæði voru lögleidd, þegar svo stendur á, að bæði hjónin vinna fyrir skattskyldum tekjum. Var hér um réttlætismál að ræða, sem vandasamt var að finna heppilega lausn á. En það er þó enginn vafi á því, að þessi ákvæði voru til stórkostlegra réttarbóta, þar sem þannig stóð á, að kona vann fyrir skattskyldum tekjum utan heimilis.

Allir þessir lagabálkar gengu í þá átt að lagfæra og leiðrétta þá skattpíningarlöggjöf, sem fjmrh. Sjálfstfl. höfðu haft forustu um að lögleiða.

Síðan kemur hæstv. forsrh. hér og segir, að ég hafi haft sérstaka forustu um það að setja á óhóflega beina skatta, og talar eins og það hafi orðið hlutskipti annarra að lagfæra þetta. En öll þessi ár, sem verið var að samþykkja þessar lagfæringar og skattalækkunarlöggjöf, sem ég var að lýsa, var ég fjmrh. og beitti mér fyrir þessum ráðstöfunum.

En það, sem aftur á móti sjálfstæðismenn voru að aðhafast á þessum sama tíma, sérstaklega undir forustu núv. fjmrh., var að festa veltuútsvarakerfið í Reykjavík, sem að dómi erlendra sérfræðinga er vitlausasta skattafyrirkomulag, sem þekkist. Og síðasta innlegg í því máli var svo það, að núv. hæstv. fjmrh. tók þetta veltuútsvarafargan úr Reykjavík með sér upp í stjórnarráð og lét lögfesta það hér í fyrra, þannig að það væri tryggt, að þetta gilti einnig fyrir allt landið. Þetta var forusta Sjálfstfl. í skattamálunum og útsvarsmálunum, sem er ein þýðingarmesta grein þeirra mála.

Ég undrast það satt að segja, að hæstv. ráðh. skuli telja sér hagfellt að innleiða í þetta mál umr. um þessi atriði.

Þá ræddi hæstv. forsrh. um viðskilnað vinstri stjórnarinnar að gefnu tilefni frá mér. Hann gat auðvitað alls ekki hnekkt því, að þegar vinstri stjórnin fór frá, var greiðsluafgangur á ríkisbúskapnum, gjaldeyrisstaðan var hagstæð og framleiðsluaukning mjög mikil, bæði orðin og sérstaklega mikil í vændum vegna þeirra mjög miklu tækjakaupa, sem búið var að ráðstafa, og atvinnulíf stóð með blóma. Þessu gat hæstv. ráðh. alls ekki mótmælt. En hann sagði: Ný dýrtíðaralda var skollin yfir. Það þurfti hann ekki að taka fram, því að það tók ég líka fram. Það var ný dýrtíðaralda skollin yfir, einmitt að tilstuðlan Sjálfstfl., stjórnarandstöðunnar. Og því miður náðist ekki samkomulag um, hvaða aðferðir skyldi viðhafa til þess að koma í veg fyrir, að þessi dýrtíðaralda risi hærra. Þó var að okkar dómi hægt að finna í því tiltölulega einföld úrræði og mjög umfangslítil, samanborið við þau ósköp, sem yfir menn hafa dunið síðan. En um þetta náðist ekki samkomulag, og skal ég ekki fara lengra út í það.

Undirrót dýrtíðaröldunnar voru skemmdarverk Sjálfstfl. í stjórnarandstöðunni. En það, sem þá lá fyrir, gaf hæstv. ríkisstj. og valdasamsteypunni, sem nú hefur farið með þessi mál, ekkert skálkaskjól og því síður nokkra raunverulega ástæðu til þess að leggja út í allt það, sem hún hefur gert í efnahagsmálunum. Þar verður ekki að leita neinnar afsökunar fyrir því, sem mönnum hefur verið boðið upp á síðan. Það var hægt að viðhafa allt aðrar aðferðir, eins og þá var þrautrætt og margsinnis hefur verið greint frá og hæstv. forsrh. er kunnugt um.

Þá sagði hæstv. ráðh., að hann hefði uppgötvað það, seint og um síðir skildist manni, að greiðsluhalli hefði orðið yfir þúsund milljónir síðustu fimm árin, áður en þessi valdasamsteypa tók við. Og þegar hann hefði orðið þessa var, þá hefði orðið að leggja út í allt þetta og þverbrjóta öll loforð, sem gefin höfðu verið í kosningunum. Það var margupplýst i fyrravetur, og hæstv. ráðh. er það vel ljóst, að þessar tölur eru hreinar blekkingar. Þegar hann talar um 1050 millj., þá telur hann með í þeirri fjárhæð öll framkvæmdalánin, sem tekin hafa verið á þessum árum og munu nema álíka fjárhæð og þessari samtals. M.ö.o.: hann leyfir sér enn, þrátt fyrir það, sem upplýst var í fyrravetur og síðan, leyfir sér enn þá ósvinnu að kalla það halla á þjóðarbúskapnum, að lán voru tekin til að byggja t.d. Sogsstöðina, sementsverksmiðjuna og önnur hliðstæð fyrirtæki í landinu. Ég efast um, að nokkur forráðamaður nokkurrar þjóðar utan þessa lands mundi leyfa sér að viðhafa málflutning eins og þennan. En þetta var það, sem gert var í fyrravetur, þegar verið var að reyna að tína fram ástæður fyrir þeim „panik“ráðstöfunum, sem þá var lagt í. En það sýnir bezt, hve blekkingarnar hafa gengið langt, að í grg., sem þá var flutt með efnahagslöggjöfinni, var greiðsluhallinn 1958 talinn rúmar 200 millj., með þessari blekkingaraðferð, en nú kemur út hefti af Fjármálatíðindum Landsbankans, og í þessu hefti stendur orðrétt, með leyfi hæstv. forseta: „Á árinu 1958 nam hallinn 42 millj. kr.“ Þannig er ekki glóra i þeirri uppsetningu, sem ríkisstj. gekk frá í fyrravetur í því skyni að gefa þjóðinni villandi upplýsingar um, hvernig mál hennar stæðu. Inn í þetta 42 millj. kr. uppgjör nú vantar svo, að því er mér skilst, alla íhugun á því t.d., hvaða útflutningsbirgðir voru til, og annað þvílíkt. En bara þetta, að þarna er nefnd talan 42 millj., sem ég skal enga ábyrgð bera á, en hún er tekin úr skýrslu Seðlabankans núna, sýnir það, hve glórulaus vitleysa þessi greiðsluhallaáróður í fyrra var.

Það var fenginn hingað, eins og menn vita, norskur hagfræðingur til að gefa eins konar álit um þessi mál. Hann segir, að hann eigi mjög erfitt með það, því að hann sé þeim tiltölulega ókunnugur, þó að hann hafi verið hér örfáa daga — og þá setið með reiknimeisturum ríkisstj. náttúrlega þá daga. Hefur hann allan fyrirvara um, að sér geti meira en lítið skjátlazt. En einn kafli i þessu áliti — eða hvað á að kalla það — fjallar um nauðsyn þess að gera stórkostlegar ráðstafanir, og þá er málið sett upp eins og það hefur verið flutt fyrir honum af ríkisstj., sem sé þannig, að það hafi verið þessi stórkostlegi halli, sem verði að vinna upp. Það sé draugur, sem verði að glíma við. Og ekki nóg með það, heldur verði líka að leggja á þjóðina byrðar til þess að standa undir afborgunum af þessum lánum undanfarinna ára. M.ö.o.: dæmið er sett upp þannig, að erlendar framkvæmdalántökur komi ekki til mála, Íslendingar eigi að gerast útflytjendur að fjármagni á næstu árum. Nú sjá allir, að slíkt er með öllu glórulaust, að land eins og Ísland, svo lítið uppbyggt á allan hátt og jafnfátækt að lausu kapítali, geti gerzt útflytjandi að fjármagni í stórum stíl. Auðvitað er það eðlilega í þessu, að uppbyggingin haldi áfram og erlend lán séu tekin til arðgæfra framkvæmda, a.m.k. sem svarar afborgunum af þeim lánum, sem fyrir eru, þannig að það sé þó a.m.k. ekki flutt út fjármagn. En allri þessari hringavitleysu er stillt þannig upp, auðvitað eftir bendingum íslenzkra yfirvalda, að það sé verið að yfirvinna þennan greiðsluhalladraug, sem er alveg tilbúningur frá rótum, og að flytja verði út fjármagn í stórum stíl og því verði allt þetta að leggja á þjóðina. Þetta eru forsendurnar, sem hagfræðingnum eru gefnar, þegar hann á að bollaleggja um, hvort þessar ráðstafanir hafi verið hyggilegar eða óhyggilegar.

Þá sagði hæstv. ráðh., að það hefði legið fyrir, að Íslendingar gætu ekki fengið meiri lán. Ég hef margsinnis krafizt þess að fá að vita, hverjir það voru, sem lýstu því yfir, að Íslendingar gætu ekki fengið meiri lán, og ég krefst þess enn að fá að vita, hverjir það voru. En ég veit, að þetta er tilbúningur, og það sést bezt á því, að rétt áður en þessir hæstv. ráðh. og ríkisstj. fóru í stólana, var búið að leggja drög að 6 millj. dollara framkvæmdalántöku, sem þeir gengu svo að segja strax frá, þannig að það er augljóst, að þessar fullyrðingar fá ekki með nokkru móti staðizt.

Í framhaldi af þessu sagði svo hæstv. ráðh. þennan sama vísdóm, sem við höfum heyrt svo oft, að kerfi, sem lifir á lánum, sé dautt. Ég veit ekki, hvernig á að skilja þetta. Ber að skilja þetta svo, að íslenzkt þjóðfélag geti ekki staðizt, nema það sé algerlega hætt að taka framkvæmdalán? Það væri náttúrlega í beztu samræmi við þessa kenningu, sem haldið var fram í fyrra, en er vitaskuld alveg út í hött, og þeir munu sízt af öllu geta staðið við, þó að þeir gætu nú haldið eitthvað áfram.

Loks var eitthvað um það talað af hæstv. forsrh., sem fullyrt var í fyrra, að Íslendingar hefðu lifað um efni fram. Hvernig fer fyrir þeim, sem lifir um efni fram? má ég spyrja. Hlýtur hann ekki að verða fátækari? Enginn hefur getað lifað um efni fram, sem verður efnaðri. Á þá að fara að halda því fram, að íslenzka þjóðin hafi verið fátækari í árslok 1958 en hún var nokkrum árum áður? Er það það, sem er átt við með því, að íslenzka þjóðin hafi lifað um efni fram? Vitanlega hefur enginn getað lifað um efni fram án þess að verða fátækari. Ef hann er efnaðri, þá hefur hann ekki lifað um efni fram. Hver vill svo leyfa sér að halda því fram, að íslenzka þjóðin hafi lifað um efni fram? Það hafa þessir menn gert, sem nú hafa tekið að sér stjórnarforustuna á Íslandi. En allir Íslendingar vita, að það er ósatt, og það er hægt að sanna bara á þennan einfalda hátt. Hver vill koma og halda því fram, hver vill leyfa sér að segja, að íslenzka þjóðin hafi orðið fátækari með hverju árinu sem leið á undanförnum árum?

Það er enginn vandi að fá svona niðurstöður með því að telja það til eyðslu og óráðsíu að koma upp fyrirtækjum eins og sementsverksmiðjunni og Sogsvirkjuninni t. d. En af þess háttar hringavitleysu höfum við engin not.

Í þessu sambandi sagði hæstv. ráðh., að grundvallarhugsunin í þessu öllu saman hefði verið sú, að Íslendingar yrðu að hætta að éta 200 millj. kr. árlega af annarra fé. Þetta er þá kenning ráðh., að það fjármagn, sem fengið hefur verið hingað til landsins til framfaranna, hafi Íslendingar étið út og því verði þeir að gera svo vel að hætta, þess vegna verði að leggja á menn allar þessar búsifjar.

Hæstv. ráðh. sagði, að Framsfl. hefði ekki alltaf gætt þess, áður en til kosninga hefði verið gengið, að gera þjóðinni ljóst, hvað mundi verða á eftir, og nefndi í því sambandi gengislækkunina 1950. Þetta var mjög óheppilegt fyrir hæstv. ráðh., vegna þess að málið liggur þannig fyrir, að fyrir kosningarnar 1949 lýsti Framsfl. yfir því, að hann mundi beita sér fyrir því, að þá yrði gert nýtt átak í efnahagsmálunum, annaðhvort með því að lækka gengi krónunnar eða með niðurfærsluleiðinni, sem kölluð var, ef það við útreikning sýndist hagfelldara. Þetta var það, sem Framsfl. sagði þá í kosningunum, svo að það var mjög óheppilegt fyrir hæstv. ráðh. að vitna í þetta. Það er ekki hægt að gera ráð fyrir því, að flokkar geti ætíð sagt nákvæmlega, hvað á að gerast eftir kosningar, þegar kosið er. En þeir geta sagt, hvaða höfuðstefnu þeir ætli að fylgja og hvernig þær úrlausnir séu í megindráttum, sem þeir hugsa sér. Og þeirri reglu hefur Framsfl. reynt að fylgja. Ég man nú sannast að segja ekki eftir því, að það hafi nokkru sinni komið fyrir áður hér, að flokkar hafi farið alveg þveröfugt að við það, sem þeir boðuðu við kosningar. En það varð við síðustu kosningar af hendi þeirrar valdasamsteypu, sem nú hefur tekið við.

Hitt er svo annað mál, að þegar Framsfl. stóð að gengislækkuninni 1950, þá neitaði hann að fallast á samdráttarstefnuna um leið og skildi sig þannig algerlega frá Sjálfstfl., sem hefur sótt á það, en ekki fengið því ráðið fyrr en hann fékk Alþfl. með sér. Og það er þess vegna, sem þeir eru alveg óþreytandi að lýsa því hér yfir, bæði forráðamenn sjálfstæðismanna og Alþfl.-manna, að Framsfl. hafi aldrei haft skilning á því, að samdráttarstefnan þyrfti að fylgja leiðréttingum á genginu. En Framsfl. hefur verið algerlega ófáanlegur til þess að taka upp samdráttarstefnuna og þá stefnu yfirleitt, sem núverandi stjórnarflokkar hafa tekið upp.

Hæstv. ráðh. reyndi í raun og veru ekki að færa ástæður fyrir því, að þessi stefna væri heppileg, sem hefði verið tekin upp, og reyndi ekkert að rökræða efnið: Hann kastaði fram þessum tölum um hið skelfilega ástand, sem verið hefði. En hann sagði annað. Hann sagði, að það væri æskilegt, að ég benti á, hvort það væri hægt að finna nokkra hagfræðinga, sem væru mótfallnir stefnu ríkisstj., og talaði mikið um sérfræðinga, sem yrði að taka til greina í þessu sambandi. Það er nú ekki orðið hærra risið á hæstv. ráðh. en það, að hann vill láta líta á sig, að því er manni skilst, sem eins konar stýrisvél, sem sé stillt af þeim, sem ráði stefnunni, einhverjum öðrum, sérfræðingum, sem geti reiknað stefnuna út eins og stefnu skips, og þá væntanlega, að þeir ákveði um leið, hvert á að fara. Hann sé orðinn aðeins eins konar stýrisvél. Auðvitað er þetta allt saman fjarstæðutal, og undir niðri ber þetta vott um vantrú á það, sem verið er að gera, þetta fjas.

Það er vitað mál, að hagfræðingar eru ekki sammála í pólitík og ekki sammála um það, hvaða leiðir eigi að fara í þjóðfélagsmálum, enda er það alls ekki þeirra verk að ákveða um leiðir í efnahagsmálum. Þráfaldlega heyrir maður yfirlýsingar frá hagfræðingum einmitt um það, að það sé alls ekki þeirra verk. Þeir eigi, eins og hv. 3. þm. Reykv. sagði í gær, að geta svarað ákveðnum spurningum, geta t.d. sagt eitthvað um, hvaða afleiðingar yrðu af þessu eða hinu, sem gert væri.

En að það sé hægt að læra það í hagfræðideild í háskóla, hvernig eigi að stjórna þjóðfélagi, það er auðvitað barnaleg fjarstæða. Það er ætlazt til þess, að hagfræðingarnir þekki það, sem kalla mætti kannske viss lögmál í efnahagslífinu, og geti verið leiðbeinandi, eigi að hafa æfingu í að leita að staðreyndum og upplýsa, hvernig ástatt er, og eins hjálpa til að segja fyrir um það, hvaða áhrif tilteknar ráðstafanir hafi, enda vitum við, að þegar þessu sleppir, sem er hreinlega tæknileg vinna, þá eru hagfræðingar ósammála eins og aðrir menn. Þess er skemmst að minnast, að sumir af hagfræðingum stjórnarinnar sögðu henni, að Ísland hafi verið komið í hinn mesta vanda að standa undir lánum sínum, en einn ef myndarlegustu hagfræðingum landsins, bankastjóri Framkvæmdabankans, lét í ljós þá mjög vel rökstuddu skoðun, að Íslendingar hefðu í raun og veru aldrei verið jafnvel færir um að standa undir lánaskuldbindingum sínum og einmitt um árslokin 1958, vegna þess að áhrifin á gjaldeyrisbúskapinn af þeim framkvæmdum, sem kostaðar voru af erlenda lánsfénu, hefðu verið og mundu verða hagstæð og því væri léttara eftir lántökurnar en áður að ná jöfnuði í þjóðarbúskapnum. Þarna voru hagfræðingarnir alveg ósammála, og þannig mætti endalaust telja.

Ég býst við því, að þessir sérfræðingar eða hagfræðingar, sem þeir ráðgast við þarna í stjórnarráðinu, hafi einhverja sérstaka tröllatrú á því að hafa okurvexti, — það fer víst ekkert leynt, — haldi, að það sé allra meina bót að hafa vextina svo háa, að allur atvinnurekstur í landinu fari hreinlega á höfuðið. En svo er fenginn erlendur hagfræðingur, norskur, sem lætur uppi álit um ýmsa hluti, þó með fyrirvara mjög svo, og það er að heyra á hans áliti, að hann telji, að vaxtahækkun nái alls ekki þeim tilgangi, sem með henni sé hugsaður, í þessu kerfi og að reynslan í Noregi sé sú, að vaxtahækkun hafi alls ekki þau áhrif til að draga úr útlánum, sem sumir virðist halda, og þar fram eftir götunum. Þannig mætti lengi telja ótal þýðingarmikil atriði, sem hagfræðingar eru alveg ósammála um, vegna þess, að það eru ekki tæknileg atriði, það eru ekki atriði, sem eru lærð í háskólum, — það eru atriði, sem menn verða að gera upp hug sinn um án stuðnings af nokkru því, sem menn geta lært í skólum. Það er náttúrlega ekki skemmtilegur vottur um örugga forustu, ef menn fara að reyna að skjóta sér á bak við hina og aðra sérfræðinga, þegar fer að halla undan fæti.

Þá er það um vexti og innistæðueigendur. Hæstv. viðskmrh. sagði, að með þessu frv. væru innistæðueigendur sviptir miklum hagnaði, og nefndi í því sambandi 80 millj. kr. Það er nú alveg nýr flötur á þessu máli, ef nú á að halda því fram, að þetta vaxtaokur hafi verið sett á til ágóða fyrir innistæðueigendur. Það er alveg nýtt sjónarmið og stangast algerlega á við það, sem áður hefur verið haldið fram úr stjórnarherbúðunum. Því var lýst í fyrra með sterkum orðum, að þetta væri fullkomið neyðarúrræði, sem yrði að grípa til til þess að draga úr lánaþenslunni, eins og það var kallað, og mundi standa aðeins til bráðabirgða. Það var ekki flutt þá sem neinn sérstakur búhnykkur fyrir innistæðueigendur. Og hæstv. forsrh. sagði líka hér í gær eða fyrradag, þegar þetta var til umr., að hann yrði þeirri stundu fegnastur, eða eitthvað í þá átt, þegar hægt væri að lækka vextina aftur. Af þessu sjáum við, að þetta vaxtaokur hefur ekki verið innleitt til hagsbóta fyrir innistæðueigendur, enda er sannleikurinn sá, að sú efnahagsmálastefna, sem hæstv. ríkisstj. hefur nú tekið upp og beitt sér fyrir, er stórhættuleg innistæðueigendum, jafnvel þó að þeir fengju um einhvern stuttan tíma auknar vaxtatekjur, og það af þeirri einföldu ástæðu, að hér er svo illa að búið, að þessar ráðstafanir hljóta að hafa í för með sér stóraukna dýrtíð í landinu og stórkostlega rýrnun á innistæðum á næstunni, því er nú verr og miður. Því er þessi stefna mjög hættuleg og óhagstæð fyrir innistæðueigendur.

Í þessu sambandi vil ég taka undir það með hv. 7. þm. Reykv. (EÁ) að spyrja hæstv. viðskmrh.: Hverjir eru þessir innistæðueigendur, sem nú í bili fá þennan hagnað af lánaokrinu? Gæti hæstv. ráðh. upplýst, hvernig þessar innistæður í heild skiptast á milli sjóða og stofnana annars vegar og einstaklinga hins vegar? Ég vil einnig taka undir, að það væri mjög þýðingarmikið að fá upplýsingar um, hvað Seðlabankinn hagnast mikið á þessu vaxtaokri, sem innleitt hefur verið, hvað það skattgjald er hátt, sem lagt er á íslenzkan atvinnurekstur og íslenzkan almenning til þess að leggja það fé dautt í Seðlabankann. Þetta væri mjög fróðlegt að fá upplýst, til þess að sjá betur þessa hlið á málinu.

Annars vil ég að lokum segja, að ég trúi því tæpast, fyrr en ég tek á því, að ekki verði fallizt á að breyta vöxtunum, lækka þá, og draga úr lánasamdrættinum, því að það er alveg augljóst mál, að þetta getur ekki staðizt, eins og nú er. Það er fjöldi einstaklinga og fyrirtækja kominn gersamlega í greiðsluþrot, og það er ekki hugsanlegt, að út úr því verði komizt nema breyta stefnunni, — nema þá ríkisstj. ætli nú strax að láta verða úr því, sem auðvitað er lokatakmarkið, og hún ætli að halda fast við það að koma efnalega öllum þessum sæg einstaklinga og fyrirtækja í strand, láta eignir allra þessara aðila koma til sölu fyrir lítið nú þegar, til þess að þeir, sem meiri fjárráð hafa, geti tekið við þjóðarbúskapnum yfirleitt. Ef hæstv. ríkisstj. ætlar að halda fast við þetta, hlýtur það að vera meiningin að koma á þessari þjóðfélagsbyltingu strax.

Sjái ríkisstj. hins vegar, sem maður verður að vona, að það er ekki fært að framkvæma þessa þjóðfélagsbyltingu eins og hún hefur hugsað sér, og hún getur ekki gert það, vegna þess að hún hefur ekkert umboð til þess, þá er náttúrlega einfaldast að byrja að laga þetta með því að lækka vextina strax og slaka á lánsfjárhöftunum. Og þá er eðlilegast að slaka á lánsfjárhöftunum með því að hætta að draga fé sparisjóðanna og viðskiptabankanna inn í Seðlabankann og enn fremur með því að lána út á afurðirnar úr Seðlabankanum eins og áður hefur verið gert og ekki hefur verið talið verðbólguaukandi,fyrr en þessi nýja speki var fundin upp.

Hitt úrræðið, sem hæstv. ríkisstj. lætur skína í, þó að hæstv. ráðh. gerði það ekki, eða látið er skína í úr stjórnarherbúðunum, að halda sér dauðahaldi í þetta, sem ákveðið hefur verið, en setja upp stóra kreppulánasjóði til þess að lána mönnum eins konar neyðarlán til að greiða okurvextina og bæta þannig upp að einhverju litlu leyti lánsfjárkreppuna, slíkt er auðvitað fullkomið neyðarúrræði. Hvaða vit er í því að vera að heimta af mönnum slíka okurvexti eins og nú er gert, taka svo spariféð og drífa það inn í Seðlabankann og lækka útlánin á afurðirnar, skrapa síðan saman fé með einhverju móti til þess að koma öllum atvinnurekstri í landinu á kreppulán? Það er gersamlega ómögulegt að skilja þennan hugsunarhátt og ég er þess vegna að vonast eftir því, að það verði við nánari íhugun fallizt á að gera þær ráðstafanir til að byrja með, sem þetta frv. gerir ráð fyrir.