23.10.1960
Neðri deild: 8. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 328 í C-deild Alþingistíðinda. (1964)

31. mál, efnahagsmál

Björn Pálsson:

Herra forseti. Ég var ekki hér, þegar umr. hófust um þetta mál, en ég las ræðu hæstv. forsrh. í Morgunblaðinu. Hann segir þar orðrétt: „Það raskar þó ekki því, að til lengdar eru þessir vextir óbærilegir fyrir skulduga menn.“ Á öðrum stað segir hæstv. forsrh.: „Hin mikla fjárfesting“ — í sjávarútveginum á hann vafalaust við — „á sinn þátt í örðugleikum útgerðarinnar.“ Ég er hæstv. forsrh. algerlega sammála um þessi atriði bæði, og ég hygg, að við séum það framsóknarmenn. En mér kom í hug Páll postuli, þegar ég las þetta, en honum varð einu sinni að orði: Hið góða, sem ég vil, geri ég ekki, en hið vonda, sem ég ekki vil, það geri ég. Hæstv. forsrh. gæti raunar breytt þessu þannig, að segja: Það vitlausa, sem ég vil ekki, það geri ég, en það viturlega, sem ég vil, það geri ég ekki. — Þetta er alveg hárrétt. Vextirnir eru óbærilegir fyrir skulduga menn, og það er líka hárrétt, að aðalerfiðleikar ríkisstj. núna eru hin heimskulega fjárfesting í útgerðarmálunum.

Ég skal ekki eyða mörgum orðum um það, sem hæstv. ráðh. deildi á vinstri stjórnina. Það er fáránlegur hlutur, þegar sjálfstæðismenn hafa viljað halda því fram, að kjaraskerðingin hafi numið 1200 millj. í tíð vinstri stjórnarinnar, og þetta er marghrakið. Það er einhver, sem dettur ofan á að segja þetta, og svo éta þeir þetta hver upp eftir öðrum. Það, sem skeður í tíð vinstri stjórnarinnar, er, að gengið smáfellur, en það hefur bara alltaf fallið í tíð allra stjórna síðan 1939, var raunar búið að falla þá sem svarar svona 10% á ári. Og þar var ekki um kjaraskerðingu að ræða, heldur hitt, að það var raunverulega um gengislækkun að ræða. En sú gengislækkun var fólgin í bótum, bæði með vísitölunni og bændum var bætt upp hækkun á áburði og fóðurbæti með hækkuðu afurðaverði. Hér var því ekki um kjaraskerðingu að ræða. Gjöld til ríkisins sjálfs hækkuðu ekki nema litið. Kjaraskerðing kom raunverulega fram í fyrra, því að þá hækkuðu vörurnar til fólksins, án þess að það fengi kauphækkun tilsvarandi. Um hitt er ég ekki sammála flm., að kjaraskerðingin hafi verið 1100 millj. Ég álít, að hún hafi verið um 700 millj. Og það er vafasöm aðferð hjá stjórnmálaflokkum og blöðum að sjá einhverri vitleysu fram og hamra hvað eftir annað á því, sem er bæði rangt og ósanngjarnt. Það bætir ekki úr.

Hæstv. forsrh. hélt því fram, að við hefðum eytt 1500 millj. kr. fram yfir það, sem við hefðum aflað, í tíð vinstri stjórnarinnar. Þetta er líka alrangt. Skuldir uxu í tíð vinstri stjórnarinnar um 430 millj. Það voru tekin lán upp á 480 millj., en það voru líka greiddar niður fastaskuldir. Þetta birtist í Fjármálatíðindum. Heildarskuldir, þegar Framsfl. fer úr ríkisstj., eru um 730 millj., fastaskuldir bæði ríkisins og einstaklinga, en voru 300 millj., þegar þeir slitu sinni ástríku sambúð, sjálfstæðismenn og framsóknarmenn. En á þessu tímabili er varið margfaldri þessari upphæð í fjárfestingu. Það, sem um er að deila, er, hvort átti að framkvæma þessa fjárfestingu eða ekki. En það er ekki hægt að halda því fram með nokkrum einustu rökum, að þarna hafi þeir étið þetta beinlínis upp því að sum árin er fjárfestingin um 1600 millj. Við græðum stórkostlega þessi ár. En það er hægt að deila um það, hversu ör fjárfestingin átti að vera.

Frv. þetta gengur út á það, að fá vextina lækkaða ofan í það, sem þeir voru áður. Það má segja, að það er ekki komin full reynsla á þessar ráðstafanir ríkisstj., en nokkur reynsla, er óhætt að segja, er komin. Og hvað sýnir hún? Það er talað um, að við höfum haft óhagkvæman greiðslujöfnuð. Það er talað um, að erlendar skuldir hafi verið of miklar. En hvað hefur skeð, síðan vinstri stjórnin sagði af sér? Það hefur skeð það, að á árinu 1959 hækka erlendar skuldir — föst lán — um allt að því 200 millj. Og eftir þeim upplýsingum, sem maður getur dregið af Fjármálatíðindum eða Hagtíðindum og hæstv. viðskmrh. hefur skýrt hér frá, þá er sennilegt, að þær hafi aukizt um 600 millj., það sem af er þessu ári. Breytum við þessum 200 millj. í núverandi gengi, þá eru þetta fullar 1000 millj. Breytum við þeim 430 millj., sem erlendar skuldir — föst lán — hækkuðu í tíð vinstri stjórnarinnar, þá er það eitthvað á 10. hundrað. Þá hafa sem sagt föst lán erlendis hækkað meira á rúmlega hálfu öðru ári hjá núverandi ríkisstjórn, jafnaðarmönnum og sjálfstæðismönnum, heldur en í tíð vinstri stjórnarinnar.

Hafa þær umbætur eða sú fjárfesting, sem hefur verið framkvæmd núna, verið hagkvæm í tíð ríkisstj.? Ég hygg ekki. Þá var unnið að því eð reisa verksmiðjur, eins og sementsverksmiðjuna, nokkurn hluta áburðarverksmiðjunnar, rafvæða landið. Þetta er allt gjaldeyrissparnaður. En nú eru flutt inn skip, sem ómögulegt er að reka án rekstrarhalla og við höfum ekki þörf fyrir.

Það er ekki hægt fyrir sjálfstæðismenn, og ég vil ekki halla ranglátlega á þá og raunar engan, — það er ekki hægt fyrir sjálfstæðismenn að segja, að þeir hafi ekki borið ábyrgð á stjórn jafnaðarmanna á tímabilinu frá því að Framsfl. fer úr stjórn í desemberbyrjun 1958 og þar til þeir taka við stjórn í desemberbyrjun 1959. Vitanlega báru þeir ábyrgð á þessari stjórn. Það er í raun og veru ekki sæmandi fyrir þá að segja, að þeir hafi ekki haft hugmynd um, þegar þeir tóku við stjórninni, hvernig ástandið var. Þeir höfðu aðstöðu til þess að kynna sér öll gögn og gátu kynnt sér þau, og áttu vitanlega að byrja á því að kynna sér þetta. Það er ekki hægt fyrir þá að segja, að þeir beri enga ábyrgð á innflutningsleyfum fyrir skipum og þeim ábyrgðum, sem bankarnir urðu að taka á sig út af þeim skipakaupum, sem nú eru. Ég benti á það í fyrra, viðvíkjandi gengislækkuninni, að með því að fella gengið svona mikið kipptu þeir algerlega grundvellinum undan framtíðarrekstri á þeim skipum, sem verið var að kaupa, og þeir gerðu þeim mönnum, sem voru að fara af stað með atvinnufyrirtæki, hvort heldur voru bændur eða aðrir, lífið ómögulegt. Nú er verið að kaupa togara, sem kosta 30–40 millj. Með núverandi vöxtum og tryggingargjöldum eru sennilega vextir og tryggingargjöld af þessum togurum um 6 millj. kr. á ári, en afli lítill. Ímyndið ykkur, hvernig á að reka þetta. Mennirnir eru komnir efnalega flatir, jafnvel þótt þeir væru vel efnaðir fyrir, á 2–3 árum. g er sannfærður um, að rekstrarhalli á þessum togurum, ef búið er að þeim með vaxtakjör og lánsfjárkreppu og annað líkt og nú er, verður 5–6 millj. kr. á ári. Meira að segja maður eins og Haraldur Böðvarsson á Akranesi, einhver allra efnalega sterkasti maður á landinu, sem hefur rekið sinn sjávarútveg af mikilli prýði, þolir þetta ekki. Sennilega sú viturlegasta grein, sem hefur birzt í Morgunblaðinu s.l. ár, og er það blað engan veginn verra en önnur blöð, er grein, sem birtist eftir Harald Böðvarsson um útgerðina. Það er alveg rétt, sem hann segir. Það er í fyrsta lagi, að lánin eru allt of lítil, sem fást, miðað við það, að verðgildi krónunnar hefur lækkað.

Það, sem ríkisstj. hélt fram í fyrra, að hún gæti komizt af með að lána svipaðar fjárhæðir og áður, er eins og hver annar barnaskapur. Útlán bankanna í landinu hafa aukizt um 900 millj. síðan Framsfl. fór úr ríkisstj., og þó vitum við, hversu gífurlegur lánsfjárskorturinn er enn þá. Það er því ekki rétt, sem vissir menn í ríkisstj. héldu fram í umræðum um efnahagsmál í fyrra, að það sé hægt að komast af með svipaða fjárhæð, því að það þarf miklu meira rekstrarfé, ef lag á að vera á hlutunum, en nú er, til þess að hægt sé að starfrækja atvinnulíf í landinu. Og við vitum, að það verður að leggja skipunum hér og þar við land af fjárskorti. Það er verið að flytja inn skip með dýrum tækjum og dýr skip, og það verður til þess, að sjómennirnir vilja frekar fara á þessi nýju skip, því að þeir hafa nokkurn veginn tryggt, að þeir fá kaup sitt borgað, þótt allt strandi, og þá verður bara að leggja gömlu bátunum. Hugsið ykkur þessa hagfræði: Það eru keypt dýr tæki, en tækjum, sem hafa möguleika til þess að bera sig, skipum, sem standa ekki í háu verði, verður að leggja. Við höfum ekki efni á slíkri fjármálapólitík, og ég hygg, að engin þjóð hafi það.

Við öflum miklu meiri fisks en Norðmenn, en það er eftirtektarvert, að Norðmenn, sem afla lítils, fara bara betur með fiskinn, hafa tilkostnaðinn í hófi, þeir fara betur með veiðarfærin og hafa ekki svo dýr skip, að þau geti ekki nokkurn veginn borið sig. Þeir fara ekki inn á það að fella gengið, þó að aflist illa eina og eina vertíð. Hingað er fenginn norskur hagfræðingur til þess að leggja blessun sína yfir hlutina, og þó að hann sé tregur til að fullyrða, að allt sé ágætt, sem gert hafi verið, þá er tilgangurinn sá að fá hann til þess. Hvernig í ósköpunum stendur á því, að norska ríkisstjórnin notar ekki þennan speking sinn og fer að eins og við, fellir krónuna, hækkar vextina? Hvar vita menn þess dæmi, að önnur eins ósköp hafi skeð og hér í fyrra, að vextirnir eru hækkaðir um 4%, — það er 70–80% vaxtahækkun á útgerðinni og 50–60% á almennum útlánum, — samhliða því, að framkvæmd er jafnstórfelld gengislækkun og þetta. Annað hvort hefði átt að nægja.

Ég skal játa, að það er orðinn meiri sparnaður í landinu en var, og það út af fyrir sig er gott. Það má vel vera, að við höfum verið heldur eyðslusamir og ekki kunnað með fé að fara. Ég get vel fallizt á það. Alþýða manna er farin að eyða minna. En þá átti bara ríkisstj. að nota samhliða ráðdeild. Hún átti að draga úr fjárfestingunni. Það er gagnslaust að vera alltaf að fella krónuna. Það er alveg ámóta og þegar kona kemur með mjólk úr fjósinu og til þess að drýgja 6 lítra af mjólk, þá bætir hún í 4 lítrum af vatni. Það bara skemmir mjólkina, en það gerir ekki næringargildið meira.

Hver einasta þjóð, sem vill hafa fjármál sín í lagi, leggur áherzlu á það, að hafa stöðugt gengi. Það, sem örvar sparifjármyndun í hverju landi, er að hafa gengið stöðugt, að fólkið geti treyst því, að sparifé verði ekki verðfellt, en ekki það, þó að eigi að hækka vextina í eitt og eitt ár.

Ríkisstjórnirnar hafa haft þann sið undanfarið að fá hagfræðinga til þess að segja sér, hvað þær ættu að gera. Þetta er hliðstætt því, að bóndi sendi greindan vinnumann, sem hann hefur, til þess að læra að slá með dráttarvélarsláttuvél. Svo kemur vinnumaðurinn og segir, að hann hafi lært þetta bóklega, og segir húsbóndanum, hvernig hann eigi að fara að þessu. Húsbóndinn hlustar á, sezt svo upp á dráttarvélina og fer á stað og mölbrýtur svo náttúrlega allt saman, áður en dagurinn er liðinn. Í staðinn fyrir, að ráðh. ættu að setja sig inn í hlutina sjálfir, skilja þá alveg til botns, læra sem sagt sjálfir það, sem þeir þurfa að gera, þá láta þeir aðra læra það og læra þó aðeins takmarkað, því að við vitum um alla þessa blessaða hagfræðinga, að þeir hafa afar litla raunhæfa þekkingu allir þrír. Það er hægt að læra t.d. bóklega, hvernig maður á að hirða og slá með sláttuvél. En þegar kemur til framkvæmdanna, þá kann maður ekkert og brýtur allt saman. Það er nefnilega allt annar hlutur. Og þessir hagfræðingar hafa takmarkaða hagnýta þekkingu og eru auk þess misjafnir eins og aðrir menn. Ríkisstj. hafa alltaf verið að fá tilsögn hjá þessum mönnum, aldrei hafa þessar kenningar staðizt, og aldrei hefur þó kastað tólfunum jafnmikið og nú, eins og ég mun koma að síðar.

Raunar er ekki hægt að segja, hvort hagfræðingarnir beri fullkomlega ábyrgð á þessu. Við vitum, að það getur öllum yfirsézt, og það er enginn af okkur alvitur í þessu þingi, og þó að við hefðum einhvern, sem væri alvitur, þá fengi hann áreiðanlega ekki að fá sitt fram. Og það er vitanlega eins með hagfræðingana, að þeim er misjafnlega sýnt um þessa hluti, og svo er ótalmargt, sem kemur til greina, sem er ekki hægt að sjá fyrir fram. Ég skal játa, að afkoma bátaútvegsins í fyrravetur var betri í krónutölu, vegna þess að gengið var fellt. En afkoma síldarútvegsins í sumar var mun verri, vegna þess, hvað gengisfellingin er mikil. Meðaltekjur af báti á síldveiðum voru tæpar 400 þús. í sumar. Af því fara um 60% í kaup. Við skulum segja, að þetta hafi verið 400 þús., og þá hefur útgerðin sjálf 160 þús. Nú kostar nótin að meðaltali um 500 þús. Ef það er tekið lán upp á 12% vexti, þá er það 60 þús. Afskriftir af nótinni mundu vera hæfilegar allt að því 100 þús. Þá eru meðalbrúttótekjur bátsins svipaðar og kostar að eiga nótina og borga af henni vexti og afskriftir. Á því getum við séð, hvernig tapið í krónutölu hefur verið miklu meira vegna gengisfellingarinnar, því að næturnar hækkuðu t.d. um 200 þús. vegna gengisbreytingarinnar, þannig að það er ekki einhlítt að fella krónuna. Sjávarútvegurinn þarf að kaupa svo mikið erlendis frá.

Því var haldið fram, að það yrði að hækka vextina, til þess að sparifjáraukning yrði í landinu. Ég vil benda á það, að sparifjáraukningin 1958 var 104 millj., sparifjáraukningin 1959 var 158 millj., en sparifjáraukningin, það sem af er þessu ári, er 165 millj., og er það 57 millj. kr. meira en á sama tíma í fyrra. En við verðum líka að gæta þess, að krónan er 1/3 verðminni eða allt að því. Og sparifjáreign landsmanna nær skemmra nú til að fullnægja lánsfjárþörfinni en var, áður en gengið var fellt svo stórkostlega eins og gert var í fyrra, af því að það þarf alltaf 1/3 fleiri krónur til að geta rekið sama atvinnurekstur nú heldur en þurfti þá. En sparifé hefur aðeins vaxið um 165 millj., það sem af er þessu ári.

Svo er einhliða sparifjármyndun enginn mælikvarði á efnahagsástandið í einu landi, eins og kemur fram glöggt núna, því að skuldir út á við hafa stóraukizt, og þess ber auk þess að gæta, að þau lán, sem tekin ern á þessu ári, eru óhagstæð að því leytí, að þau eru til fárra ára. Núv. ríkisstj. fjasaði mikið um vaxtabyrðina, en vaxtabyrðin hefur allt að því tvöfaldazt, síðan Framsfl. fór úr stjórninni, af því að skuldir okkar hafa allt að því tvöfaldazt. Ég sé því ekki, að það verði læknaðar neinar meinsemdir með þessu.

Því var haldið fram, að allt hefði verið að fara fram af brúninni, steypast fram af og brotna náttúrlega og bramlast hjá vinstri stjórninni. Og ég held, að það hafi verið einn hagfræðingur, sérfræðingur ríkisstj., sem kom með þessa setningu, en þetta glumdi yfirleitt á framboðsfundunum og víðar. Maður skyldi þá ætla, að vagninn hefði ekki verið settur fram af brúninni hjá núv. ríkisstj., að núv. ríkisstj. hefði sett í bakgír, en ekki sett í framgír. En það, sem skeður, er nú bara það, að í staðinn fyrir að bakka, þá er ekið áfram og meira að segja stigið vel á benzínið. Ef við hefðum verið að fara fram af brúninni í árslok 1958, þá værum við áreiðanlega komnir fram af henni núna, og það erum við vitanlega, þó að við deyjum e.t.v. ekki af fallinu, því að nú er ríkisstj. komin í algera sjálfheldu.

Því var lýst yfir í fyrra, að það kæmi ekki til greina að hjálpa sjávarútveginum frekar en gera ætti með þessari gengisfellingu. Því var raunar ekki haldið fram, að það ætti að hjálpa honum með vaxtahækkuninni, en gengisfellingin ætti að nægja. Nú vil ég spyrja: Hvað ætlar hæstv. ríkisstj. að gera? Það er búið að flytja inn skip á árinu 1959 fyrir 159 millj. Það er búið að flytja inn skip á árinu 1960 fyrir 260 millj. Alls eru þetta á 5. hundrað millj. Það eru alltaf að koma skip og ekki nein smáskip. Ég veit ekki, hvað þetta verður endanlega, þegar skipin verða komin, sem búið er að leyfa innflutning á. Ætli það verði ekki 6, 7 eða 8 hundruð millj., eitthvað svoleiðis? Hvað ætlar hæstv. ríkisstj. að gera, ef ekkert af þessum skipum getur borið sig? Það vita þeir, og það viðurkenna þeir, sem eru að kaupa þau. Það er nefnilega ægileg yfirsjón, sem ríkisstj. og bankar hafa gert að ganga í greiðsluábyrgðir og gera mönnunum fært þess vegna að kaupa þetta. Og það er beinlínis komið aftan að mönnunum, því að þegar þeir panta þessi skip, þá gera þeir ekki ráð fyrir þeim ósköpum, sem gerast eftir þetta. Skipin hækka um þriðjung í verði, og vextir eru hækkaðir um 60%, eitthvað svoleiðis. Og menn, sem hafa jafnvel verið vel stæðir og þetta hefði verið vel gerlegt, áður en þessar efnahagsaðgerðir voru gerðar, standa algerlega ráðþrota núna. Nei, þetta er ekki fjármálapólitísk fyrirmynd.

Ég skal játa, að náttúrlega hefur verið hægt að finna eitthvað að öllum stjórnunum og þar á meðal vinstri stjórninni. Og ég skal játa, að ég taldi hana fara fullgeyst í fjárfestingunni. Ég skal líka játa, að það voru gerðar yfirsjónir, t.d. eins og það að kaupa austur-þýzka togara. Þeir voru ekki hentugir. En þetta eru bara smámunir hjá þeim ósköpum, sem hafa skeð síðan. Gjaldeyrisstaða bankanna 1. des. 1959 er óhagstæð um 35.3 millj. Eftir það versnar gjaldeyrisstaða bankanna og verður lökust í febrúar í ár. En 1. sept. nú er hún óhagstæð um 67 millj. Er það verra en þegar vinstri stjórnin skildi við. Ég held því um sjálfstæðismenn, þó að þetta séu ágætir menn, og ég hef aldrei dregið í vafa, að þetta séu drengskaparmenn og vilji vel, það hefur aldrei hvarflað að mér, — þá held ég satt að segja, að nú væri réttara að fara að endurskoða þeirra eigin ráðstafanir og gera það rækilega og reyna að hugsa, hvernig þeir ætla að komast úr þessari sjálfheldu, sem þeir eru komnir í, heldur en að vera alltaf sí og æ að skamma vinstri stjórnina, þó að henni hafi yfirsézt um ýmsa hluti. Það, sem ríkisstj. átti að gera í fyrra, og þá væri hún betur á vegi stödd, var að standa við það, sem hún lofaði fólkinu. Hún átti að stöðva gengið, þar sem það var. Það var í raun og veru loforð hennar við kosningarnar. Og þá væri hún miklu betur á vegi stödd, því að þá væri hún ekki í annarri eins sjálfheldu með nýju skipin og hún er núna. Það er nefnilega ekki neinn smáræðisfloti, sem er að koma inn í landið. Það er ekki borið við að rannsaka, hvaða skipastærð beri sig bezt að reka hér við land. Menn eru látnir ráða þessu sjálfir. Það er bara leyft og leyft, og bankarnir ganga í ábyrgð á ábyrgð ofan. En ef menn vilja gera þetta af einhverju víti, þá þarf að þrautathuga, hvaða skipastærð sé bezt og hentugast að hafa á hverjum stað. Ég skal játa það, að hér fyrir Suðvesturlandinu og Norðurlandi þurfa bátarnir ekki að vera eins stórir og fyrir Austurlandi. Þeim er vorkunn, þó að þeir vilji hafa bátana dálítið stóra. En að kaupa 150 tonna skip, sem kostar núna með veiðarfærum um 7 millj., það er vonlaust. Vextir og tryggingar af þessum skipum eru um 1 millj., og það eru litlar líkur til, að þeir geti borgað nema lítinn hluta af þessari millj., þannig að það er árlegur greiðsluhalli.

Hvað á að gera? Það, sem ríkisstj. átti að gera, í staðinn fyrir að ganga lengra í gengisfellingu og vaxtahækkun en orðið var, þegar hún tók við, var að reyna að reka atvinnuvegina á hagkvæmari hátt. Við getum aldrei rekið okkar síldarútveg sæmilega, nema reyna að koma aflanum í meira verðmæti en nú gerist. Við verðum að reyna að koma síldarafurðunum í betra verð, við verðum að reyna að koma fiskafurðunum í betra verð, og við verðum að reyna að eyða minna í veiðarfæri en við gerum. Ég hygg, að hægt væri að koma að miklu leyti í veg fyrir, að veiðarfæraeyðslan yrði jafnmikil, með því að hásetarnir tækju sinn hluta af veiðarfærakostnaðinum og hlutaskiptunum yrði breytt á þann hátt, að hann yrði dreginn frá óskiptu. Ég hygg, að með því að hagnýta síldina á annan hátt en gert hefur verið væri hægt að koma henni í miklu meira verð. Hvaða vit er í að bræða hana og fá sama og ekkert fyrir það, því að við vitum, að þó að síldin sé misfeit, þá er þetta allt saman næringarmikill og góður matur. Það var þetta, sem átti að vinna að, en ekki að fella krónuna svo að segja athugunarlaust.

Ég skal játa, að útflutningssjóðurinn var gallaður, kerfið var gallað. Það var ákaflega hættulegt að hafa ekki sama gengi á krónunni, hvort sem varan var keypt eða seld, og ég var sammála sjálfstæðismönnum um það. Ég var líka sammála þeim um, að það var betra að hafa heilbrigt gengi heldur en hafa þessar stöðugu uppbætur, sem komu seint og illa. En ég var ekki sammála þeim um það, að þeir ættu að ganga lengra en orðið var.

Þeir þurftu ekki að ganga lengra í því að fella krónuna en gert var, enda hefur niðurstaðan orðið sú, að þeir eru komnir í sjálfheldu með þennan nýja skipastól, sem er sennilega ¼ eða 35 hluti af öllum fiskiskipastóli landsins. Þessar ráðstafanir voru svipaðar því og ef einhverjum hagfræðingi væri falið að áætla, hvað Íslendingar yrðu margir eftir 10 ár, og hann tæki bara dauðsföllin, en athugaði ekki, hvað margir fæddust. Það var alveg hliðstætt hjá ríkisstj, í fyrra. Ríkisstj. athugaði ekki, að það þurfti að halda við skipastólnum, að menn þurftu að reisa sér hús, menn þurftu að koma sér upp bústofni, byggja upp sínar jarðir, sumir áttu það eftir, og mönnum var gert þetta ókleift. Það var ekki hugsað um framtíðina, heldur bara litið til baka. Ég las það í Alþýðublaðinu eftir umræðurnar um þetta mál, að þar voru þeir að tala um, að sparifjáreigendur græddu 80 millj. á þessum háu vöxtum. Já, svo er, nú það. En hvað töpuðu þeir miklu á þessari miklu gengisfellingu? Það var ekki reiknað út. Og hvað ætlar nú ríkisstj. að gera viðvíkjandi þessu að nú er ómögulegt að reka þessi nýju fiskiskip? Mér hafa komið fjórar leiðir í hug og eru þó allar illar. Í raun og veru er aðstaða ríkisstj. svipuð og kindanna, sem lentu í sjálfheldu vestur á Snæfellsnesi. Þær fóru upp á fjallið, þær sáu grastopp á stalli niðri í klettabelti, og þær þyrftu að komast upp aftur. Og svo þegar þær voru búnar að éta upp þessa grastoppa, komust þær kannske á einhvern annan stall og átu þar líka, en fæstar komust upp aftur, flestar hröpuðu. Aðstaða ríkisstj. er í raun og veru hliðstæð í sjávarútvegsmálum. Það er aðeins bráðabirgðalausn. Það er aðeins lítill toppur á syllu, sem er hægt að seðja hungrið með í bili, að fella gengið. Svo rekur að því, að það dugir ekki.

Viðvíkjandi þessum nýju skipum eru fjórar leiðir til í raun og veru. Það er að láta þá verða gjaldþrota, þessa menn, sem hafa keypt skipin, og það er í raun og veru alveg í samræmi við kenningarnar, sem var haldið hér fram í fyrra. En leiðinlegi liðurinn í þessu öllu saman er, að það var komið aftan að þessum vesalings mönnum af sjálfu ríkisvaldinu. Í öðru lagi er að greiða skipin niður, þ.e. að greiða skipin öll fyrir þá erlendis og fella svo gengið þar á eftir til þess að gera þeim mögulegt að reka skipin. Þeir þurfa vitanlega að gera það. Þriðja leiðin er að greiða fyrir þá nokkurn hluta skipsverðsins og freista að halda sama gengi áfram. Fjórða leiðin er að reyna að taka aftur vitleysuna, sem gerð var í fyrra, og má það þó heita ókleift. Það er eins og að komast af stallinum þarna vestur í fjöllunum, það var hér um bil ómögulegt. En það væri þó ef til vill að sumu leyti skásta leiðin.

Nú eru þau kynni, sem ég hef haft af bankastjórum, þannig, að þetta séu velviljaðir og góðir menn, og ég er ekki sammála þeim flokksmönnum mínum, sem halda því fram, að þetta hafi verið beinlínis fyrir fram hugsað allt saman. Það var það ekki, því miður. Og ég er ekki sammála þeim um, að þetta sé fryst í Seðlabankanum, þetta fé, sem þeir eru að narta í frá sparisjóðunum. Og viðvíkjandi innlánsdeildunum er það nú allt í lagi, þeir fá ekkert úr þeim. Það var bara af hreinni heimsku, sem þeir settu þetta lagaákvæði, bara til að gera sig óvinsæla, vegna þess að þeir, sem leggja inn á innlánsdeildirnar, ráða, hvort þeir hafa peningana sína á reikningnum eða í innlánsdeildunum. Þeir fá aldrei neitt úr innlánsdeildunum, það var bara til þess að láta rægja sig fyrir eitthvað að vera að vitleysa þessu í lögin. Og það sýnir sig nú, að þegar Útvegsbankinn getur ekki lánað Haraldi Böðvarssyni, sem er einhver öflugasti útgerðarmaður landsins, þá er þó verkalýðssparisjóðurinn á Akranesi, sem hleypur undir baggann og lánar honum 3 millj., svo að hann kemur bátunum á flot. Það eru þó þessir smábankar heima fyrir, sem skilja það, að með því að stöðva atvinnurekstur Haralds Böðvarssonar á Akranesi, hvað sem honum sjálfum líður og hans fjárhag, þá er verið að gera hálft Akranes atvinnulaust, og það vill sparisjóðurinn vitanlega ekki og þeir, sem honum stjórna. Ég hef ekki trú á, að þeir geymi nú neinn sérstakan seðlabunka þarna uppi í Seðlabankanum. Nei, ónei, það er nú eitthvað annað. Svoleiðis er, að bankastjórarnir við þessa banka hafa reynt að hjálpa atvinnuvegunum eins vel og þeir geta, en þá skortir bara rekstrarfé, vegna þess að það þarf svo mikið, síðan krónurnar voru minnkaðar, og það er enginn leikur fyrir þá að tapa á yfirdráttarlánum. Það er ekki af því að bankastjórar Útvegsbankans hafi ekki viljað lána Haraldi Böðvarssyni, heldur bara að þeir höfðu peningana sennilega ekki til. Það er enginn leikur fyrir viðskiptabankana að lána fyrir 12% og eiga svo að borga Seðlabankanum 16%. Þetta er nefnilega hrein endileysa.

Nú er náttúrlega hægt að halda áfram með þessa vexti áfram. En það, sem skeður, er, að þeir verða ekki borgaðir nema að nokkrum hluta. Því var lýst yfir í fyrra, eins og ég hef talað um, að nú ætti ekki að styðja útgerðina frekar, en hún þyrfti þessa góðu gengislækkun. Nei, ónei. En það, sem skeður núna er það, að það er farið að leggja fé í hlutatryggingasjóð, til þess að hann geti bætt ofur litið úr, mýkt mestu sárin, og er það þó lítið. Og svo er meira. Það á að fara að lána út á næturnar. En haldið þið, að þessar nótaskuldir verði borgaðar? Nei, það verða ekki nema fáir, sem borga þær. Næturnar verða notaðar, þangað til þær verða ónýtar, og þá verður bönkunum boðið að hirða þær. Nú er það, sem skeður viðvíkjandi þeim skipum, sem bera sig ekki, að annaðhvort verður þeim lagt eða bankarnir verða að lána peninga til þeirra, og þá skeður það, að þessar skuldir verða hreinlega ekki borgaðar.

Það er vafalaust mikið um lán í bönkunum, sem aldrei verða borguð, og það á eftir að verða enn meira, ef það verður búið þannig að atvinnuvegunum að hafa vextina jafnháa og þeir eru núna. Það getur skeð, að verzlanirnar flestar geti borgað. Það getur skeð, að millistéttin borgi sína vexti. En ég fullyrði, að stærri atvinnufyrirtækin geta aldrei borgað þau lán, sem stofnað væri til á þessum grundvelli.

Viðvíkjandi bændunum vil ég segja það, — ég þekki til þeirra, því að ég hef starfað með þeim, — að þeim bændum, sem eru núna að gera framkvæmdirnar, er gert gersamlega ómögulegt að halda áfram búskap. Og það verður að gera einhverjar ráðstafanir viðvíkjandi því, ef þeir eiga ekki að guggna. Ég hef sagt við þá, að þeir skyldu ekki missa kjarkinn, þetta lagaðist allt saman, og það er mín skoðun, að það geri það, það verði einhver úrræði höfð. Þetta er kannske ekki stór hópur af bændum. Ég get trúað, að það séu 400–800 bændur á öllu landinu, sem eru í þessari aðstöðu. En ef þeir fá ekki betri lánskjör en þeir hafa núna, þá er gersamlega útilokað fyrir þá að halda áfram búskapnum eða gera þær umbætur, sem nauðsynlegar eru. En þetta á við um alla, allar stéttir. Það er því alveg rétt, sem hæstv. forsrh. sagði, að þessir vextir eru algerlega óbærilegir til lengdar. Það er það, sem við erum að segja, framsóknarmenn. Þess vegna förum við fram á, að þeir séu lækkaðir. Og það er líka rétt hjá hæstv. forsrh., að fjárfesting sjávarútvegsins núna er það, sem kemur honum í mestan vanda, í raun og veru í þá sjálfheldu, að illfært er að komast úr henni.

Það má vel vera, að þetta frv. verði ekki samþykkt og að þessir okurvextir verði látnir gilda áfram, eitthvað fyrst um sinn. En ég er sannfærður um, að það verður ekki lengi. Það getur skeð, að ríkisstj. ætli að hafa þá talsvert lengi, en henni er það bara ekki gerlegt. Ég hef ekki trú á því, að útgerðarmenn sætti sig við þessi lánskjör framvegis.