07.12.1960
Sameinað þing: 22. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 212 í B-deild Alþingistíðinda. (197)

1. mál, fjárlög 1961

Valtýr Guðjónsson:

Herra forseti. Ég leyfi mér að flytja hér á þskj. 184 brtt. við 11. gr. fjárlagafrv. fyrir árið 1961. Það er um hækkun á framlagi til vetrarlöggæzlu í Sandgerði úr 20 þús. kr. samkvæmt frv. í 40 þús. Ástæðan til þess, að brtt. er flutt, er sú, að það liggur fyrir, að nauðsynlegt er samkvæmt dómi sveitarstjórnar í Miðneshreppi að auka verulega löggæzlu í Sandgerði, og þörfin á aukinni vetrarlöggæzlu á þessum stað stafar af því fyrst og fremst, að skipshafnir utan af landi koma þangað á vertíð í sívaxandi mæli. Þar eru og tvær stórar fiskvinnslustöðvar, sem að nokkru eru reknar með aðkomufólki. Þessar aðstæður, sem fyrir hendi eru í Sandgerði, eru að vísu þær sömu og valda því, að hv. fjvn. hefur á þskj. 162 flutt brtt. til hækkunar á framlagi til vetrarlöggæzlu í Vestmannaeyjum á árinu 1961. En báðir þessir staðir hafa notið styrks undanfarið, Sandgerði t.d. 20 þús. Þá má geta þess líka í sambandi við Sandgerði, að þar er á Miðnesheiði nýreist radarstöð, sem hefur í för með sér verulega aukna umferð um hreppinn. Eins og þingmenn vita, er Sandgerði, eins og aðrar verstöðvar syðra, mjög mikilvæg útgerðarstöð, og ég tel mjög eðlilegt, að þessi liður í starfrækslu þessa sveitarfélags sé hækkaður, þótt ekki sé um meira en þetta lítilræði, út frá þeim aðstæðum, sem það á við að búa.