20.03.1961
Neðri deild: 78. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 346 í C-deild Alþingistíðinda. (1973)

35. mál, skólakostnaður

Frsm. (Helgi Bergs):

Herra forseti. Það mál, sem hér er til umr., hefur legið alllengi hjá menntmn., sem ég hef átt sæti í í fjarveru hv. 4. þm. Sunnl. N. hefur orðið sammála um að mæla með frv. með þeim breyt., sem hún flytur á þskj. 527. Hv. 8. þm. Reykv. skrifar þó undir álitið með fyrirvara.

Ég skal ekki lýsa aðdraganda þessa frv., sem er orðinn æði langur. Frv. hefur legið nokkrum sinnum áður fyrir hv. Alþ., en í stórum dráttum er efni þess að auka hlut ríkissjóðs í stofnkostnaði og rekstrarkostnaði heimavistarskóla gagnfræðastigs og húsmæðraskóla úr ¾, á hlutum upp í 9/10 hluta. Vandinn, sem frv. er ætlað leysa, er í rauninni tvíþættur: í fyrsta lagi féleysi sýslusjóðanna og þar af leiðandi vanmáttur þeirra til þess að standa undir þeim skuldbindingum, sem ákvæði núgildandi laga leggja á þá, og í öðru lagi er hin hlið vandans sú, að skipting byrðanna af þessum skólum á sýslufélögin er talin verða mjög ranglát, þar sem sum sýslufélög reka engan skóla af þessu tagi, en önnur reka skóla þar sem allt að 9 af hverjum 10 nemendum eru úr öðrum héruðum.

Það hefur verið leitað umsagnar fræðslumálastjórnarinnar um þetta frv. og eins fjármálaeftirlitsmanns skólanna, Aðalsteins Eiríkssonar. Þetta frv. lá, eins og hv. þm. vita, fyrir seinasta þingi einnig, og þá var þessa álits leitað og hefur það nú verið athugað enn á ný af nefndinni.

Fjármálaeftirlitsmaður skólanna sendi mjög ýtarlega álitsgerð um þetta og mælir með samþykkt frv., telur það þó ganga fullskammi. Hann mælti þess vegna með till., sem lágu fyrir seinasta þingi og gengu öllu lengra, en þær liggja nú ekki fyrir.

Í áliti fjármálaeftirlitsmannsins segir um fyrra atriðið, sem ég nefndi áðan, á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

„Með fræðslulöggjöfinni 1946 voru héraðsskólar og húsmæðraskólar gerðir að sameign ríkis- og einstakra sýslu- og bæjarfélaga og skyldur lagðar þeim á herðar um greiðslu rekstrarkostnaðar: Þetta var gert án þess að kanna vilja þessum aðila og án þess að sjá þeim fyrir auknum tekjumöguleikum. Þess hefði a.m.k. verið þörf hvað sýslufélögin varðar. Sýslunefndir, að undanskildum þeim, sem standa að héraðsskólanum í Skógum, hafa ekki nema að nokkru leyti viðurkennt skyldur sínar í þessu efni, og er óhætt að fullyrða, að sú tregða ásamt fjárhagslegu getuleysi sýslufélaganna kemur mjög hart niður á skólunum. Hálfkaraðar byggingar og mjög takmarkað viðhald bera þess vitni. Hvort tveggja bitnar á ríkissjóði sem óeðlilega hár viðhalds- og jafnvel endurbyggingarkostnaður, þegar í algert óefni er komið.“

Enn fremur fylgja áliti fjármálaeftirlitsmanns ýtarlegar skýrslur um það m.a., hvaðan nemendur við þessa skóla eru, og kemur þar í ljós, að mjög mikill hluti þeirra er úr öðrum héruðum en þeim, sem ásamt ríkissjóði standa undir kostnaði við skólana. Ég skal ekki lengja mál mitt með að rekja þetta, en þetta atriði kemur mjög glögglega í ljós.

Enn fremur er í þessu áliti gerð grein fyrir því, hvern kostnað það muni hafa í för með sér fyrir ríkissjóð, að þetta frv. yrði samþ., og hefur fjármálaeftirlitsmaður skólanna reiknað út, að það væru 384500 kr. á ári, og er þá miðað við rekstrarkostnað ársins 1958 og fjárveitingar á fjárlögum 1960, að því er lýtur að stofnkostnaði. En jafnframt var í þessu áliti bent á nauðsyn þess að gera breyt. á skiptingu tekna af skólunum. Um það segir í áliti fjármálaeftirlitsmanns:

„Með þeirri breyt., sem gerð var á 17. gr. laga nr. 41 1955 með setningu laga nr. 18 1958, þar sem ákveðið var, að tekjur þessara skóla skyldu óskiptar ganga til þess að greiða niður rekstrarhluta sýslu- og bæjarfélaga, þá var raunverulega létt öllum rekstrarkostnaði af sumum sýslufélögunum, en öðrum ekki. Þetta misræmi stafaði af því, hvað tekjumöguleikar skólanna eru mismunandi. Nokkrir skólar eru þegar farnir að mynda rekstrarsjóði af árlegum tekjuafgangi sínum. Það lítur að vísu vel út, að sjóðir geti myndazt, en eins og málum er háttað í þessu efni, þ.e.a.s. að tveir rekstraraðilar eru að hverjum skóla, ríki og sýslufélag, en sjóðsmyndunin kemur aðeins öðrum aðilanum í hag, heimaaðilanum, sem ber þó minni hluta kostnaðarins, þá er þetta ekki einhlítt og ekki heppilegt. Nokkur hætta er á því, að lögð verði áherzla á sjóðsmyndanir, m.a. með því að vanrækja viðhaldið. Það gæti svo síðar sagt til sín sem óeðlilega hár viðhaldskostnaður og endurbyggingarkostnaður.“

Það var fjármálaeftirlitsmaður skóla, sem sagði þetta í áliti sínu. En menntmn. hefur fallizt á þessi sjónarmið, og í samræmi við það flytur hún á þskj. 527, í nál. sínu, brtt., sem ganga í þá átt, að tekjur heimavistarskóla gagnfræðastigsins og húsmæðraskólanna skuli ganga óskiptar til greiðslu rekstrarkostnaðar og jafnframt yrðu þá felld úr gildi lög nr. 18 frá 1958.