14.10.1960
Neðri deild: 5. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 352 í C-deild Alþingistíðinda. (1982)

39. mál, vegalög

Flm. (Garðar Halldórsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér er til 1. umr. og flutt er af okkur hv. 2. og 3. þm. Norðurl. e., er efnislega nálega eins og brtt., er við á s.l. vetri fluttum hér í þessari hv. d. á þskj. 64, 104 og 110 við frv. til l. um breyt. á vegalögum, nr. 34 22. apríl 1947.

Vegalög hafa ekki verið opnuð síðan 1955, svo að tæplega mun verða hægt öllu lengur að komast hjá því að gera á þeim nokkrar breytingar til samræmis við breyttar aðstæður og aukna samgönguþörf. En þróun undanfarandi ára og áratuga hefur óðfluga stefnt í þá átt að gera búsetu óhugsandi, þar sem ekki er sæmilegt vegasamband við umhverfið. Hvort sú þróun er æskileg eða æskileg ekki, er það staðreynd, sem verður að horfast í augu við, að ef ekki er hægt að koma nútímaþægindum til fólksins í hinum dreifðu byggðum, þá kemur fólkið til þægindanna, það flytur búferlum þangað, sem það getur gert sér vonir um að geta lifað við svipuð lífskjör og almennust eru á hverjum tíma, og undirstaða svo til allra framkvæmda og framfara er vegasamband. Það tilheyrir liðnum tíma, sem varla kemur aftur, að allur varningur, jafnvel byggingarefni í hús, sé fluttur á klyfjahestum eða hestakerrum, eins og títt var fyrir ekki ýkjalöngu, og jafnvel steypumöl til bygginga var flutt á klyfjahestum. Það er ekki lengra síðan en það, að ég man vel slíkt. Það er fyrst og fremst vegleysið, sem veldur því, hve ræktun og byggingum er mislangt á veg komið í hinum ýmsu sveitum og sveitahlutum á landi hér, en ræktun og byggingar valda mestu um það, jafnframt samgöngum, hvort lífvænlegt er á einum stað. Vegakerfi hefur stundum verið líkt við æðar mannslíkama, og er það vissulega rétt líking.

Nú er það svo að vísu, að þótt vegur sé tekinn í þjóðvegatölu, verður hann ekki fær af því einu saman, hafi hann verið ófær áður. Það þarf meira til. Það þarf mikið fjármagn til að leggja vegi um allt okkar land og halda þeim við. Það þarf svo mikið fjármagn, að hinir smærri aðilar, sem með vegi hafa að gera, þ.e. sýslur og hreppar, eru næstum máttvana til þeirra átaka að leggja og viðhalda löngum vegum, og því er það, að þar verður ríkið að koma til. Það er aðeins á þess færi að valda þeim verkefnum, enda alveg eðlilegt, að það beri höfuðþungann af slíkum framkvæmdum.

Vegagerð þjóðfélagsins er ekkert sérmál þeirra, er í dreifbýlinu búa. Það er kannske minnst um vert fyrir Pétur eða Pál sjálfan, þótt hann treystist ekki til að búa lengur á einangruðum stað og flytji í þéttbýlið. Slíkt varðar þjóðfélagið í heild meira vegna sameiginlegrar þarfar ört stækkandi þjóðar að nytja landið allt. Og eftir því sem þeim fækkar meir, sem búa við ófullnægjandi samgöngur, verður þeim það erfiðara vegna samanburðarins við hina mörgu, sem þjóðfélagið hefur búið betur að. Þess vegna verður að leitast við að hraða sem mest samgöngubótum til þeirra hlutfallslega fáu, sem enn búa við frumstæðar og lélegar samgöngur.

Vegir þeir, sem hér er lagt til að taka í þjóðvegatölu, eru langflestir sýsluvegir, en mjög misjafnlega langt á veg komnir í uppbyggingu, einstaka vegur nálega eða alveg fullbyggður. En eigi að síður teljum við þörf á að létta þeim af sýsluvegasjóðunum vegna fjárskorts þeirra. Við flm. þessa frv. höfum leitazt við að meta samgöngulegar ástæður í kjördæmi okkar og teljum okkur með þessum tillögum ekki leggja til, að meira sé létt á sýsluvegasjóðunum en nauðsyn ber til, til þess að líkur séu fyrir, að þeir valdi þeim verkefnum, sem þeir hafa samt eftir.

Ég skal þá víkja fáum orðum að brtt. hverri fyrir sig.

Hin fyrsta till. er um Norðurlandsveg. Er þar lagt til, að í stað orðanna „til Akureyrar“ komi: um Akureyri, en núverandi Norðurlandsvegur liggur að bæjarmörkum Akureyrar að norðanverðu og frá þeim aftur að sunnanverðu og þaðan áleiðis austur yfir Vaðlaheiði, en götur Akureyrarbæjar tengja hann saman. Aðalumferðargatan er gömul og fremur þröng íbúðagata, sem er ekki hægt að reikna með að valdi umferðinni í framtíðinni. Hugmyndin er, að þessi samtenging Norðurlandsvegar færist upp fyrir aðalbyggðina og verði þannig til minni óþæginda í bæjarumferðinni.

2. till. er um framlengingu á Hörgárdalsvegi ytri, og er efnislega um það, að álma, sem nú nær inn að Sörlatungu í Hörgárdal framlengist niður á Hörgárdalsveg innri utan við Þúfnavelli. Er þessi vegarspotti ekki nema á annan km að lengd, en hefur allmikla þýðingu fyrir daglegar samgöngur og mjólkurflutning til Akureyrar.

3. till., um Hauganesveg, er flutt samkv. beiðni sveitarstjórnarinnar í Árskógshreppi og er um að fá veg á milli þorpanna Hauganess og Litla-Árskógssands. Er hér um að ræða um 2 km leið, sem nú er veglaus, en aðstaðan er slík, að í báðum þorpunum er nokkur og vaxandi útgerð. Á Hauganesi er verzlun sveitarinnar, og þar er frystihús til beitugeymslu, sem útgerðin á Árskógssandi verður einnig að nota. Auk þessa eru svo tveir bæir í leiðinni, sem fengju gott vegarsamband, en eru veglausir nú. Vegarstæði er þarna eins og það getur bezt verið og ofaníburðurinn nærtækur.

4. till. er um Svarfaðardalsveg, að hann framlengist frá Urðum og fram að Skallá. Þessi leið er um 8 km, og þar er þéttbýli mikið og góðar bújarðir. Vegurinn er undirbyggður og að nokkru mölborinn, nema um 1 km, sem er að heita má ógerður.

5. till. er um nýjan veg, sem mundi nefnast Skíðadalsvegur. Það er um 7½ km og helmingurinn nýlega gerður, góður vegur, og hinn hlutinn nokkuð gamall vegur og að nokkru aðeins sumarfær ruðningur. Á þessari leið er einnig þéttbýlt, og framkvæmdamöguleikar eru þar góðir.

6. till. er um nýjan veg, sem nefndur yrði Ósvegur og liggur af Hjalteyrarvegi og um nokkra bæi á Dalvíkurveg norðan við Hof. Á þessari leið, sem vegurinn mundi liggja um, er frábært og mikið ræktunarland og hann tengir nokkra bæi við þjóðvegakerfið. Vegurinn er núna í því ástandi að hann er fullgerður að undirbyggingu, en malarlítill.

7. till. er um framlengingu á Dagverðareyrarvegi, sem liggur af Norðurlandsvegi fyrir innan Moldhauga. Það er um 7 km leið og kæmi til með að liggja. um nokkra bæi, sem þarna eru úti á skaganum, ef hafa mætti svo stórt orð um það land, sem þar er, og þessi vegur er mjög nauðsynlegur vegna daglegra samgangna og mjólkurflutninga, sem nú er ekki hægt að koma fyrir á hagfelldasta hátt, af því að þessi vegur er ekki kominn alla leið. En meiri hluti hans er þó nú þegar fullbyggður.

8. till. er um nýjan veg, svonefndan Efribyggðaveg, af Eyjafjarðarbraut utan við Hólshús og um nokkra bæi og liggur á Djúpadalsveg við Litla-Garð. Þetta er fullbyggður vegur, mikill umferðarvegur og því eðlilegt, að hann sé gerður að þjóðvegi.

9. till. er um örstutta framlengingu á Vatnsendavegi í Eyjafirði, þ.e. að tengja hann vestur yfir Eyjafjarðará við Eyjafjarðarbraut. Það er hvort tveggja, að með þessari framlengingu fengist þarna hringkeyrsla, sem er nauðsynleg vegna daglegs mjólkurflutnings, og jafnframt, sem raunar er enn meira virði, að þannig hagar þarna til, að Eyjafjarðarbraut liggur á nokkrum kafla norðan við þessa fyrirhuguðu samtengingu í gegnum eða yfir klif, sem er langtímum saman ófært vegna snjóalaga á vetrum, þótt ekki séu torfærur annars staðar, og mundi því með þessari umbót fást mjög aukið öryggi í samgöngum fyrir alla þá bæi og íbúa sem innar eru í Eyjafirðinum. (Forseti: Ég vildi spyrja hv. þm., hvort hann hefði nokkuð að athuga við það, þótt við frestuðum núna umr., svo að við þyrftum ekki að halda fundinum lengur áfram.) Ég á eftir um 3 mínútur.

10. till. er um Sölvadalsveg, sem yrði nýr þjóðvegur. Það er nálega 9 km leið. Hann er að nokkru leyti uppbyggður, en að sumu leyti lítið meira en sumarfær. Hann liggur um ágæta sveit, og þar eru stórar jarðir með mikla framtíðarmöguleika. Og við það bætist svo, að nú er byrjað að vinna við veg fram úr Sölvadalnum og upp á öræfin. Eftir þeim athugunum, sem gerðar hafa verið, er þarna um tiltölulega létta og auðvelda leið að ræða til þess að komast upp á hálendið. Þarna uppi er að sumrinu hægt að keyra á bílum langs og þvers endilangt um hálendið, og þarna yrði eflaust mikil ferðamannaleið í framtíðinni allt til Suðurlands.

11. till. er um nýjan veg, Vaglaskógarveg, sem er að mestu akfær, en þarfnast talsverðra um bóta til þess að vera fær, þegar ekki er sumartíð, en það er inn Fnjóskadalinn að austanverðu.

12. till. er um nýjan veg, Fremstafellsveg, sem liggur af Kinnarvegi hjá Landamóti og um nokkra bæi á Norðurlandsveg við Kvíslarbrú við Skjálfandafljót. Þessi vegur liggur um nýbýlahverfi og meðfram bæjum, sem nú hafa ófullkomið vegasamband, einnig mundi vegurinn stytta mjög leiðir. Vegurinn er undirbyggður að talsverðu leyti og búið að brúa þarna Djúpá, sem hefur lengi verið farartálmi á þessari leið.

13. till. er um tvo nýja vegi, og er sá fyrri Hvammavegur, sem er að meiri hluta byggður. Honum er nú ætlað að enda við Laxá, en í framtíðinni mundi hún væntanlega verða brúuð nálægt þessum vegarenda og þá stytta mjög vegalengdir fyrir marga bæi þarna í Aðaldalnum. Sandsbæjavegur er að talsverðu leyti undirbyggður vegur. Honum er ætlað að enda hjá Sandsbæjum í Aðaldal.

14. till. er um Bárðardalsveg vestri. Þar er um að ræða að framlengja núverandi þjóðveg um nokkra km inn Bárðardalinn, eða frá Stóruvöllum að Halldórsstöðum. Þessi vegur er að nokkru leyti byggður, en þarfnast meiri umbóta, þar sem þetta er eina samgönguleið þeirra, sem búa í framanverðum Bárðardal, vestan Skjálfandafljóts.

15. till. er um tvo nýja vegarspotta. Uppsveitarvegur í Norður-Þingeyjarsýslu má heita akfær. Hann liggur um ofanvert Kelduhverfi, en þar hefur undanfari,ð átt sér stað mikil ræktun og stofnun nýbýla, og er því mikil þörf þarna að bæta um samgöngur. Og í öðru lagi er það Vestur-Sandsvegur í Kelduhverfi, sem liggur af Þingeyjarbraut hjá Lindarbrekku um Vestursand að Bakkahlaupi. Þessi vegur má heita akfær.

16. till. er svokallaður Austur-Sandsvegur. Hér er að nokkru leyti um nafnbreytingu að ræða. Hann er nú nefndur Sandsvegur. Jafnframt er þar einnig um framlengingu að ræða. Hann á að enda við Bakkahlaup á móti veginum, sem ég nefndi áðan, en Bakkahlaup er aðalafrennsli Jökulsár til sjávar. Á því er þarna ferjustaður og ferja, og mundu vegirnir tengjast saman með ferjunni og verða mikil og nauðsynleg samgöngubót.

17. till. er um nýjan lið, Frambæjaveg í Þistilfirði. Hann er að nokkru akfær, en þarna er mikil þörf úr að bæta um samgöngur, því að þessi hluti sveitarinnar hefur sérstaklega dregizt aftur úr með umbætur vegna vegleysis og langræðis. En þarna er víðlendi mikið og sauðfjárland með ágætum, og væri illa farið, ef ekki tekst að halda þarna við byggð.

18. og síðasta tillagan er Tunguselsvegur. Hann er að miklu leyti uppbyggður og akfær, en nokkurs er þó ávant, að nægilega greið leið sé að Tunguseli, sem er næsti bær við afrétt, og mikil umferð þar á haustum vegna gangna.

Ég skal svo ekki hafa þessi orð öllu fleiri, en legg til, að þessu máli verði að lokinni þessari umr. vísað til hv. samgmn.