04.11.1960
Neðri deild: 16. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 382 í C-deild Alþingistíðinda. (2007)

88. mál, áburðarverksmiðja

Flm. (Einar Olgeirsson):

Herra forseti. Ég hef áður flutt þetta frv. í sama formi og það nú liggur fyrir á þskj. 97 og þarf ekki að fara mörgum orðum um frv. sjálft, því að ég ætla, að flestum hv. þm. sé orðið það kunnugt, sérstaklega þó þeim, sem lengi hafa þegar setið á þingi.

Á síðasta Alþ. var þessu frv. af meiri hl. fjhn. vísað til hæstv. ríkisstj. til athugunar, og var grg. með nál., sem sýndi, að þeir hv. þm., sem sæti eiga í n. ásamt mér, viðurkenna mjög greinilega, að þetta mál þurfi að fá afgreiðslu. Þeirra nál. var stutt, en hljóðaði svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Sams konar frv. eða svipað hefur verið áður flutt á þingi, en ekki hlotið afgreiðslu. Verður að viðurkenna, að hér er um mjög veigamikið mál að ræða, þar sem eigi er talið ótvírætt um eignarrétt áburðarverksmiðjunnar samkv. 3. og 13. gr. áburðarverksmiðjulaganna. Í 3. gr. er svo ákveðið, að verksmiðjan skuli vera sjálfseignarstofnun, í 13. gr. er hins vegar ákvæði um, að ríkisstj. sé heimilt að leita eftir þátttöku félaga eða einstaklinga um hlutafjárframlög og að verksmiðjan skuli þá rekin sem hlutafélag. Eftir að þessi heimild var notuð, hafa komið fram á Alþ. nokkuð skiptar skoðanir um eignarréttinn að verksmiðjunni. Meiri hl. fjhn. telur rétt, að málið fái afgreiðslu á þinginu, og leggur til, að því sé vísað til ríkisstjórnarinnar til athugunar.“

Þetta var 2. maí í vor. Undir þetta skrifuðu allir þeir sömu menn, sem nú eru aftur með mér í fjhn., Birgir Kjaran, formaður, Sigurður Ingimundarson, fundaskrifari, Jóhann Hafstein, hæstv. forseti þessarar deildar, frsm., og Skúli Guðmundsson, sem skrifaði undir með fyrirvara.

M.ö.o.: það er viðurkennt af öllum þingflokkum og öllum þeim þm., sem um þetta mál hafa fjallað, að hér sé um mjög veigamikið mál að ræða og að það séu skiptar skoðanir á Alþ. um eignarréttinn að verksmiðjunni. Það liggur í augum uppi, að svona mál er ekki hægt að láta vera óafgreitt þing eftir þing, án þess að ákvörðun sé tekin um það.

Nú var þessu máli vísað til ríkisstj. til athugunar, og ég held ekki, að það hafi a.m.k. áður á Alþ. veríð samþ. að gera það undir svo ákveðnum forsendum eins og þeim, sem meiri hl. fjhn. þarna setti fram. Ég hef nú þegar í sambandi við það stjórnarfrv., sem hér liggur fyrir um breyt. á lögunum um áburðarverksmiðju, spurt hæstv. ríkisstj. að því, hvort hún hafi nokkuð í þessu máli gert. Og það er þegar upplýst, að hæstv. ríkisstj. hefur ekkert í málinu gert, þannig að hv. alþm. verða að gera sér ljóst, að það er Alþ. sjálft, sem verður að láta til sín taka um þetta mál og taka ákvarðanir í því. Það er verkefni Alþ. að bjarga þessari almenningseign, sem hér er um að ræða, stærsta fyrirtækinu, a.m.k. stærsta einstakra fyrirtækinu, sem til er á Íslandi, bjarga því, þannig að það verði áfram örugg almenningseign, en lendi ekki í annarra höndum. Það hefur þegar komið fram, að þetta fyrirtæki, sem þegar það var byggt kostaði 130 millj. kr., er nú talið 245 millj. kr. virði, þannig að það er ekki um neitt smáræði að ræða í sambandi við þetta. Tveir flokkar þingsins hafa allan þann tíma, sem þessi mál hafa verið til umr., staðið alveg saman um þetta, og ég held, að það hafi ekki verið tekin ákveðin flokksafstaða í neinum flokki á móti þessu máli, þannig að það muni vera mjög skiptar skoðanir, eins og meiri hl. hv. fjhn. komst að orði, um þetta. En það þarf að skera úr. Það verður því hættulegra og því verra með hverju árinu, sem líður.

Ég skal til viðbótar við þær upplýsingar, sem ég áður hef gefið um, hvernig á stóð, þegar þetta mál var samþ., án þess að ég fari að rifja nokkuð upp af því, aðeins bæta því við, að þessi hv.d. afgreiddi 1949 áburðarverksmiðjulögin, eins og þau líta út, án 13. greinarinnar, m.ö.o. svipað og ég legg til að þau verði, og í öðru lagi, að sú n. í Ed., — ég man ekki, hvort það var fjhn. eða landbn. þá, sem hafði með málið að gera, — hún afgreiddi líka málið á sama hátt, sem algera ríkiseign, án núverandi 13. gr. Báðar n. þingsins, sem um málið fjölluðu, þegar lögin voru sett, afgreiddu þetta frv., sem var stjórnarfrv., eins og það var lagt fyrir, ákveðið sem ríkiseign og án allrar heimildar til að mynda hlutafélag til að reka það. Það er fyrst undir 3. umr. í Ed., 6. umr. í þinginu, sem þessari undarlegu brtt. er skotið þarna inn og hún af einhverjum undarlegum ástæðum þá samþykkt.

Í sambandi við 3. gr. í því frv., sem ég legg hér fram um heimild til þess að innleysa hlutabréfin í rekstrarfélaginu Áburðarverksmiðjunni h/f, skal ég taka það fram, að ég er reiðubúinn til hverra þeirra samninga um öll þessi atriði, sem hægt væri að gera til þess að tryggja það, að úr því fáist skorið að áburðarverksmiðjan sé ótvíræð ríkiseign. Ég geng út frá því, að það sé eðlilegt að bæta þeim hluthöfum, sem þarna hafa lagt sitt fé fram, sem nú hefur rýrnað í verði, kannske hafa gert það undir forsendum, sem ekki reynast réttar, — ég álít, að það sé rétt að bæta þeim almennilega upp, og legg þess vegna þarna til, að það sé sett sérstök þingnefnd, sem allir þingfl. tilnefni menn í, sem megi fallast á það ásamt ríkisstj. að greiða þarna hærra verð fyrir, ef hluthafarnir krefjast, sem sé að semja við hluthafana um að kaupa þessi hlutabréf af þeim, þannig að engin vandkvæði verði við það. Hins vegar skal ég viðurkenna, að það er auðvitað til sá möguleiki, svo framarlega sem engir samningar yrðu hugsanlegir við hluthafa, sem mér þykir nú satt að segja ólíklegt, því að flestir, sem eiga nú í svona hlutafélögum, sem gefa ekki nú sem stendur neinn stóran arð, eru í þeim lánsfjárskorti, sem nú ríkir, venjulega reiðubúnir til sæmilegra samninga um slíkt. Ég skal viðurkenna hins vegar, að svo framarlega sem engir samningar fengjust og 13. gr. er fallin niður, þá stendur málið þannig, að það eru hluthafarnir, sem verða að sækja þetta. Þá er búið að kippa öllum rekstrargrundvelli undan rekstrarhlutafélaginu Áburðarverksmiðjunni h/f, og það er eingöngu sú ríkisrekna ríkisverksmiðja, sem starfar, þannig að aðstaða ríkisins, ríkisstj., gagnvart hluthöfunum ætti að vera mjög sæmileg þannig. En hins vegar ætlast ég alls ekki til þess, að það sé á nokkurn hátt á þeim níðzt.

Ég vil aðeins taka þetta fram, um leið og ég legg það til, að þetta frv. fari til hv. fjhn., og ég vil eindregið leyfa mér að óska þess, að sú n. afgreiði nú þetta mál þannig, að það þurfi ekki að verða hér á fleiri þingum.