07.12.1960
Sameinað þing: 22. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 223 í B-deild Alþingistíðinda. (201)

1. mál, fjárlög 1961

Frsm. 1. minni hl. (Halldór E. Sigurðason):

Herra forseti. Ég ætla að byrja á því að svara hér nokkrum atriðum úr ræðu hv. frsm. meiri hl. fjvn., 6. þm. Norðurl. e.

Hann talaði um það, að brtt. okkar væru smávægilegar, og, mér skildist helzt, að hann liti svo á, að með því móti féllumst við á þau grundvallarsjónarmið, sem væru við. afgreiðslu fjárl. Bæði í nál. okkar og í framsöguræðu minni í dag gerði ég grein fyrir því, hvers vegna tillögugerð okkar væri með þeim hætti, sem hún er. Það er af því, að við treystum ekki á fjárhag ríkissjóðs undir forustu þessarar hæstv. ríkisstj. Þess vegna töldum við þýðingarlaust að bera fram brtt., sem kostuðu veruleg útgjöld. Það var skoðun okkar við afgreiðslu fjárl. 1960, að þá yrði verulegur greiðsluafgangur, en eftir því sem hæstv. ríkisstj. telur nú, ætlar henni að takast að keyra fjármál þjóðarinnar þegar í kútinn á fyrsta ári, svo að þá er þess að vænta, að hún nái meiri árangri í samdráttarstefnunni, þegar lengra líður.

Þá talaði hv. þm. um, að það væri næsta broslegt að sjá það í nál. okkar, að Framsfl. vildi stilla álögum á þjóðina í hóf og fara með varfærni, en ekki eyðslu. Ég ætla ekki að fara langt út í þetta mál, en vil minna á það, að þegar Framsfl. fór með fjármál ríkissjóðs, þá var af þeim sjálfstæðismönnum því haldið mjög á lofti, og einnig við fjárlagaafgreiðslu 1959 var því haldið á lofti af þeim Alþfl.- mönnum, að það mætti mikið spara í ríkisbákninu, eins og þeir orðuðu það. Þeir hafa farið með fjármál ríkisins í tvö ár, og þið sjáið árangurinn af sparnaðarviðleitninni. Trúi svo þeir, sem trúa vilja, ef þessir flokkar hefðu fundið sérstaka eyðslu frá hendi framsóknarmanna, að það væri ekki komið fram. Við getum þess vegna endurtekið þessi orð og að Framsfl. vilji hafa hófsemi í álögum á þjóðina, enda sýndi ég fram á það í dag, að hann lækkaði skattana frá því, sem Sjálfstæðisfl. hafði lagt þá á.

Þá sagði hv. þm. frá þeirri reynslu, sem hann fékk af ameríska sérfræðingnum, sem var látinn athuga fjármál ríkissjóðs eftir 1950. Það er ein sönnun þess, hvað það er haldlítið fyrir okkur að vera að leita að erlendum sérfræðingum til þess að ráða fram úr fjármálum. okkar. Hans till. hefðu verið notaðar þá, ef þær hefðu komið þjóðinni að haldi að áliti ráðamanna. En það hefur bara komið í ljós, sem einnig kemur fram núna, að erlenda sérfræðinga skortir þá þekkingu, sem íslenzkir þegnar hafa, og þess vegna verður okkur bezt að reyna á okkar eigin þekkingu og skilning á þessum málum.

Hv. þm. sagði, að meiri alvara væri nú sýnd í því að koma við sparsemi og hagkvæmni í ríkisrekstri en áður hefði verið. Ég verð nú að endurtaka það, sem ég hef sagt áður, að mér finnst harla lítill árangurinn af sparnaðarviðleitninni, og skal ég þó ekki vera að gera lítið úr þessari viðleitni hans og annarra. En ég hygg bara, að hann sé kunnugri ríkisrekstrinum núna en áður og þess vegna sé þetta álit hans fram komið. Það hefur verið sýnt fram á það, að árangurinn af sparnaðarviðleitninni er svo hverfandi lítill, að ég sé ekki, að hann sé meiri en hann hefur verið hjá fyrri ríkisstjórnum.

Þá gat hv. þm. þess, að upplýsingar þær, sem við hefðum fengið um tekjuáætlunina, væru þær sömu og þeir hefðu haft í höndum. Og það var einmitt þetta, sem ég gat mér líka til í ræðu minni, en taldi, að hv. meiri hluti hefði verið að gera meira úr þessum upplýsingum en efni stóðu til með því orðalagi, sem notað er í nál. Og það er einmitt þetta, sem hv. þm. staðfesti, og var það líka að mínu skapi að vita það og trúa því, að hann hefði ekki leynt okkur neinum upplýsingum. Þær voru bara ekki haldbetri, þó að hann reyndi að gera meiri mat úr þeim en efni er til. — Frekar held ég, að ég þurfi ekki að taka fram í sambandi við ræðu hv. þm.

Þá ætla ég að svara nokkru því, sem fram kom í ræðu hæstv. fjmrh., að því leyti sem það varðar þá ræðu, sem ég flutti hér í dag.

Fyrstu þættina í ræðu hæstv. ráðherra, um undirbúning fjárl., um væntanlega löggjöf um greiðslujöfnuð, um að skipuleggja betri og hagkvæmari vinnubrögð, um þetta ætla ég ekki sérstaklega að ræða. Fjórði þáttur í ræðu hans var að þakka meiri hlutanum fyrir sparnaðarábendingarnar, og hygg ég, að það verði það mesta, sem út úr þessum sparnaðarábendingum kann að koma, bæði þeim, sem áður hafa fram komið, og þeim, sem er verið að benda á hér nú, að það verði þakklæti frá meiri hluta fjvn. og hæstv. ráðherra á víxl, og verður þá að segja, að þær séu ekki alveg til einskis fram bornar.

Hæstv. ráðherra gat þess, að ekki væri gerlegt að vera með sparnaðartill., nema þær væru vel undirbúnar og búið væri að rannsaka það mál nokkuð áður. Þess vegna taldi hann, að þær sparnaðartill., sem við framsóknarmenn værum með, a.m.k. sumar þeirra, væru ekki nógu vel undirbúnar, og nefndi í því sambandi till. okkar um sameiningu sendiráða á Norðurlöndum. Ég vil minna á það, að þetta mál, um sameiningu sendiráðanna á Norðurlöndum, hefur verið til umr. við afgreiðslu fjárl. fyrir 1959, fyrir 1960 og nú í þriðja sinn fyrir 1961. Hæstv. núv. utanrrh., Guðmundur Í. Guðmundsson, þáv. fjmrh., lýsti því yfir við afgreiðslu fjárl. fyrir árið 1959, að unnið væri að víðtækum sparnaði í ríkisrekstrinum og m.a. í sendiráðum. Ríkisstj. mundi síðar gera till. um það. Og við afgreiðslu fjárl. í fyrra var því haldið fram, að þessi mál væru til athugunar og árangurs væri að vænta við afgreiðslu fjárl. nú. Það er því fullkomin ástæða til að ætla, að þetta mál sé komið af tilraunastigi, sé orðið svo vel undirbúið, að þess vegna sé hægt að framkvæma það. Auk þess er till. okkar með þeim hætti, að það er ekki ætlazt til þess, að sendiráðsmönnum sé sagt upp frá 1. janúar. Þessi sendiráð kosta í heild tæpar 4 millj., en við ætlumst til, að sparnaðurinn verði 1 millj. Það er miðað við, að það sé sex mánaða uppsagnarfrestur, fastir starfsmenn haldi þó launum sínum allt árið. Staðaruppbót fellur að sjálfsögðu niður og annar kostnaður eftir 6 mánuði. Er svo ætlazt til, að eitt sendiráðið sé starfrækt allt árið. Ég held því fram, að till., sem þannig er úr garði gerð, sé hvorki óraunhæf né illa undirbúin, ekki sízt þegar það er haft í huga, að búið er að vera að tala um þetta hér við tveggja ára fjárlagaafgreiðslu áður. Það er því fullkomin ástæða til að gera nú till. um að framkvæma það, sem hefur verið rætt um hér við tveggja ára afgreiðslu fjárl. Það, sem gerðist í sendiráðinu í París, var ekkert annað en það, að sendiherranum er kippt úr starfí hjá NATO, staðaruppbótin fellur niður, laun hans eru hins vegar tekin hér upp í ráðuneyti, en annar kostnaður við NATO-sendiráðið er áætlaður áfram á fjárl. frv. Það, sem við hins vegar leggjum til, er að leggja sendiráðið niður og hafa eitt sendiráð í París. Og það, sem á að gera í utanríkisþjónustunni, er að samþykkja þáltill., sem við fluttum í fyrra og munum flytja aftur um að endurskoða utanríkisþjónustuna með sparnað fyrir augum og á þann hátt, að það henti bezt okkar atvinnuháttum. Það er það, sem á að gera. Við þurfum að framkvæma þessa hluti. Það er nóg búið að tala um framkvæmdina. Það verður enginn samdráttur í utanríkisþjónustunni á þessu árí, því að það litla, sem sparast í París, er meira en étið upp við kostnað hjá öðrum sendiráðum.

Þá er það Kvíabryggja. Hæstv. ráðherra talaði um, að það ætti ekki að meta þetta eftir því, hvað margir vistmenn væru á staðnum. Það er nú það. Eftir hverju á þá að meta það? Það var allhá fjárhæð, sem hvert barnsmeðlag kostaði, þegar við reiknuðum það út 1958, mig minnir, að það væri eitthvað á annað hundrað þúsund, miðað við þá vistmenn, sem þá höfðu verið á Kvíabryggju. Ég held því fram enn á ný, að betur sé varið þeirri tæpri millj., sem þarna á að verja, til fiskileitar en í starfsemina á Kvíabryggju.

Þá var hæstv. ráðherra mjög undrandi yfir því, hvað sparnaðartill. hans fengju slæmar undirtektir hjá okkur stjórnarandstæðingum, það væru bara kuldalegar undirtektir, sem þær fengju, og við gerðum lítið með þær. En hvernig undirtektir fengu sparnaðartill. okkar hjá hæstv. ráðherra? Ég var að lýsa þessu um sendiráðin. Ég hef ekki heyrt enn þá, þó að það eigi kannske eftir að koma fram síðar, að hann hafi fagnað sérstaklega þeim till., sem við gerum um sparnað. Þær eru þó sumar þannig, að það þarf engan undirbúning, eins og ég hef þegar lýst, svo sem með samdrátt veizluhalds og annað því um líkt.

Hæstv. ráðherra sagði, að við töluðum um eyðslu, og talaði m.a. í því sambandi um eyðslu, bruðl, óhóf og sukk. Nú vil ég taka það fram, að ég hef ekki rætt hér um bruðl, óhóf og sukk. Hins vegar, ef það er sparnaður að fresta greiðslu á varðskipinu Óðni, ef það á að færast undir sparnað, þá eiga útgjöld líka að færast undir eyðslu. Og ég get tekið það fram,. að ég hef áður lýst því yfir á hv. Alþingi, að það eru útgjöld á fjárl., þar sem ég tel að miklu betur mætti verja fénu en þar er gert, og það háir liðir. Við lýstum því yfir, framsóknarmenn, við afgreiðslu fjárlaga 1959, að við teldum það varhugaverða leið að fara inn á niðurgreiðslurnar, eins og þá var gert. Það er að koma fram, að nú eru menn að viðurkenna það. Fleira mætti benda á af slíku tagi, þó að það verði ekki gert hér nú.

Þá talaði hæstv. ráðherra um það, að samanburður framsóknarmanna á ríkisútgjöldum nú og áður væri eitthvað skrýtinn og þeir hefðu fundið upp það lag, framsóknarmenn, að skipta ríkissjóðnum og þess vegna væri þessi samanburður ekki hliðstæður. Vitnaði hann þá í það, þegar við í grg. okkar vitnum til þess, hvað fjárlög hækkuðu á árinu 1960 frá því, sem var 1959, með hliðstæðum samanburði, og segjum, að það hafi verið 356 millj. kr. Hæstv. ríkisstj. var svo rausnarleg við þegna þessa lands, að hún sendi þeim hvíta bók í byrjun þessa árs. Þessi bók heitir Viðreisn, og fékk ég þessa bók eins og aðrir þegnar, og ég á hana. Þar stendur m.a., með leyfi hæstv. forseta: „Hrein útgjaldaaukning ríkissjóðs vegna afnáms útflutningssjóðs nemur 113 millj. kr.“ Hvernig eru þessar 113 millj. kr. til orðnar? Það er mismunurinn á niðurgreiðslunum, það sem útflutningssjóður greiddi umfram það, sem hann fékk í tekjur frá ríkissjóði vegna þeirra. Þetta er sett hér upp í fjárlagafrv. hæstv. ráðh. fyrir árið 1960. Þar er þetta tekið fram. Mismunurinn er nákvæmlega 112.9 millj. kr. Þeir bæta þarna einu hundraði við í Viðreisninni. Það hefði nú ekki þótt mikið, ef ekki hefði verið meira. Og þannig er dæmið gert upp, sem við höfum sett upp hér í okkar nál. Fjárlögin 1958 sýndu niðurstöðutölur upp á 807 millj. kr. Því til viðbótar voru niðurgreiðslurnar á því ári, sem voru um 115.4 millj. kr. En á fjárlagafrv. fyrir 1958 voru 40 millj., sem var varið til niðurgreiðslna. Þegar búið er að gera þetta dæmi upp, þá er niðurstaða á fjárlögum 1958, þegar útgjöld fjárlaganna eru tekin saman og niðurgreiðslurnar, 882.5 millj. kr., og ef þið dragið 882.5 millj. kr. frá útgjöldum fjárlaganna nú, eins og þau eru við 2. umr., þá er mismunur 706 millj. Því segi ég: Þetta er hliðstæður samanburður, og það er ómögulegt að véfengja hann. Niðurgreiðslurnar eru þau einu gjöld, sem ríkissjóður hefur tekið við af útflutningssjóði, og dæmið er gert upp með niðurgreiðslunum öll árin. Þess vegna er hér hvorki verið að lenda í flækja né fara með blekkingar, þegar þannig er gert upp. Hér er heiðarlega að farið og eins og á að gera hluti upp.

Þá talaði hæstv. ráðh, um, að það væru barnaleg ummæli að vera að tala um, að fjárlögin væru alltaf að hækka. Jú, það er nú það. Þjóðinni fjölgar, sagði ráðh. Það er rétt. Ég man eftir því í fjárlagaafgreiðslunni í fyrra, að við vildum halda því fram, framsóknarmenn, í sambandi við væntanlegan innflutning, að það væri eðlilegt að taka tillit til þess, að þjóðinni væri að fjölga, og þess vegna væri óeðlilegur samdráttur, sem gert væri ráð fyrir. Það var ekki talið eins hyggilegt þá. En það hafa fleiri lent í því að tala um þessa þróun, að fjárlög hækkuðu ár frá ári. Það hafa fleiri gert það en við framsóknarmenn og það miklu meira og með miklu sterkari orðum. Ég ætla að vitna í einn, sem ég vona að hæstv. ráðh. taki nokkurt mark á og virði okkur þó til vorkunnar, þó að við lentum inn á svipuðum barnaskap. Þetta er hæstv. núverandi sjútvmrh. Hann talaði við 1. umr. fjárlaga 1958 fyrir hönd síns flokks. Þá sagði hann m.a., með leyfi hæstv. forseta:

„Fjárlög hvers árs hafa sífellt verið hærri en ársins á undan. Þessi þróun er uggvænleg og stefnir greinilega í fullkomið óefni.“

Þessi hv. þm., sem þá var, gerðist ráðh. eftir 2 mánuði og hefur verið í ríkisstj. síðan, en fjárlög hafa hækkað yfir 80% á þeim tíma. Þess vegna er það engin goðgá, þó að talað sé um hækkun fjárlaga, þegar hún gerist með þeim hraða, eins og í kappakstri væri, eins og hefur gerzt með hækkun fjárlaga á yfirstandandi ári.

Hæstv. ráðh. gat um það, að ég hefði ekki í ræðu minni í dag getið um hækkun fjárlaganna á hinu glæsilega tímabili á árunum 1950–58, þau hefðu hækkað þá. En það gerðist fleira á árunum 1950–58. Það, sem ég gat um í dag í sambandi við þau, var það, að afkoma þjóðarinnar í heild hefði batnað á þessu tímabili, og á þessu tímabili hefur kaup verkamannsins meira en tvöfaldazt. En á árunum 1958–60 hefur kaup verkamannsins verið lækkað með lögum og kjaraskerðingin þó mun meiri. Það er þessi breyt. og þessi samanburður, sem er óhagstæður fyrir hæstv. núverandi ríkisstj. Það var einmitt það, sem gerðist á árunum 1950–58, að afkoma þjóðarinnar í heild fór batnandi, en á árunum 1958–60 hefur hún farið versnandi. Það var mergur málsins. Þess vegna er hækkun fjárlaga á því tímabili með öðrum hætti en nú, þar sem hækkun þeirra stendur ekki í sambandi við launahækkun, eins og upplýst hefur verið hér í umræðunum.

Hæstv. ráðh. taldi að það væri hverfandi lítið, þó að tekjuáætlun væri hækkuð um 36 millj. kr. Ég ætla ekki að fara að deila við hann um það, því að slíkt er matsatriði út af fyrir sig, og má segja, að það muni ekki um keppinn í sláturtíðinni, þegar fjárlögin eru orðin svo há sem raun ber vitni um.

Þá sagði hæstv. ráðh., að það væri með öllu rangt, að hæstv. ríkisstj, hefði tekið að sér að sjá um tryggingagjöld til fiskiskipaflotans. Ég verð að segja það, að ég hef ekki annað fyrir mér í því en ráðuneytisstjórann í efnahagsmrn. Hann lýsti því yfir inni í fjvn., og ég skrifaði það upp eftir honum, að ríkisstj. væri búin að taka að sér að greiða þau. Hann skýrði frá því, að það væri búizt við, að það væri hægt að leysa þetta með útflutningssjóði, en engin víssa eða trygging væri fyrir því, en ríkisstj. hefði samið við útgerðarmenn um að gera þetta.

Þá var hæstv. ráðh. að tala um útfluttar landbúnaðarafurðir og taldi, að það væri allt nokkuð á reiki um það. Ég skýrði frá því í ræðu minni í dag, að hér er ekkert á reiki. Það liggur ljóst fyrir, að það, sem þarf til þess að greiða útflutningsuppbæturnar, eru 19.8 millj. kr. Það er búið að flytja 6/7 hluta af þeim vörum úr landi, sem þessi greiðsla á að ganga til, og vitað um, að hitt fer. Þess vegna er það mál eins ljóst og eitt mál getur verið. Ég sé ekki, að það sé neitt við það að athuga, þó að framleiðsluráðið hafi endurskoðað þessa áætlun sína, og hún lækkar við endurskoðun um 1.4 millj. kr., vegna þess að það vildi gefa upp þá einu réttu tölu, sem mun verða gildandi. Þess vegna var þessi endurskoðun þeirra gerð. Við þetta er ekkert óljóst. Hins vegar verður hæstv. ríkisstj. að gera það upp við sig, hvort hún vill taka þessa tölu til greina eða ætla sér einhverja aðra tölu.

Ég held, að það hafi ekki verið fleira í ræðu hæstv. ráðh., sem ég þarf að svara. Hann leiddi hjá sér að tala um frekari sparnað, sem var uppistaðan í ræðu hans í haust. Ég geri ekki ráð fyrir því að taka þátt í þessari umr. meir, nema eitthvert sérstakt tilefni gefist til.