10.11.1960
Neðri deild: 19. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 385 í C-deild Alþingistíðinda. (2012)

89. mál, lífeyrissjóður togarasjómanna

Flm. (Geir Gunnarsson):

Herra forseti. Frv. til laga um stofnun sérstaks sjóðs til þess að tryggja togarasjómönnum, ekkjum þeirra og börnum lífeyri var borið fram á hv. Alþingi árin 1955, 1956, 1957 og síðan 1958, er það var að lokum samþykkt sem lög. Setning þessara laga hafði í rauninni tvenns konar tilgang. Í fyrsta lagi var um að ræða sanngirnissjónarmið gagnvart sjómönnunum sjálfum og fjölskyldum þeirra. Eftir að margar stéttir manna, sem unnu hæg störf í landi og stuttan vinnutíma, höfðu fengið tryggð lífeyrisréttindi, var í rauninni óafsakanlegt, að þannig skyldi vera búið að þeim, sem erfiðustu og áhættusömustu störfin vinna og lengstan vinnutíma búa við og slitna því fyrr og verða að hverfa frá störfum á undan öðrum, að þeir urðu að afloknu ævistarfi að ganga í land án nokkurrar tryggingar fyrir lífsframfæri, eftir að heilsa og starfsorka hafði bilað við afkastamestu, erfiðustu og lífshættulegustu störfin, sem unnin eru í þjóðfélaginu. Og færi svo, að þeir féllu í valinn við þessi störf, hafði ekki verið svo um hnútana búið, að fjölskyldum þeirra væri tryggður lífeyrir til framfærslu, þótt ýmsar aðrar stéttir hefðu þá þegar tryggt sér hvers konar lífeyri. Það var því löngu kominn tími til, að úr þessu yrði bætt, þegar lögin um lífeyrissjóð togarasjómanna loks voru sett árið 1958, svo skammt sem liðið er síðan. Störf togarasjómanna, sem þjóðinni er lífsnauðsyn að unnin séu og eru ein aðalundirstaðan undir þjóðarbúskap landsmanna, gera þær kröfur til þeirra, sem þau stunda, að þeir afsali sér að miklu leyti heimilislífi og samvistum við fjölskylduna, séu nánast gestir á sinum eigin heimilum, og bitnar það vitaskuld á togarasjómönnunum sjálfum, konum þeirra og börnum. Fyrir afraksturinn af starfi togarasjómanna, meðal annarra, rekur þjóðin margháttaða félags- og menningarstarfsemi, sem togarasjómenn fara svo til alveg á mis við. Allt þetta veldur því, að togarasjómenn eiga nokkra kröfu til þjóðfélagsins umfram aðra, þar sem allt leggst á eitt: Þeir vinna langan vinnudag, hin erfiðustu og lífshættulegustu störf, sem um er að ræða í þjóðfélaginu, afkasta líklega mestu, en fara á mis við það, sem flestir telja ómissandi, enda er það ekki að ófyrirsynju, að iðulega, þegar rætt er um refsivist sakamanna, kemur til tals, að sú refsing væri þyngri að láta þá taka út sinn dóm með skylduvinnu á togara en láta þá vinna af sér sektir á vinnuhæli í landi.

Eins og ég tók fram áðan, hafði lagasetningin um lífeyrissjóð togarasjómanna tvenns konar tilgang, þann, sem snýr að togarasjómönnum sjálfum og heimilum þeirra, að tryggja framgang sanngirnismáls, og hins vegar þann, sem varðar þjóðarbúskapinn, að tryggja það, sem þjóðfélaginu er hagkvæmt. Lífsafkoma þjóðarinnar er öll háð sjávaraflanum, störfum sjómanna á fiskiflotanum, og togararnir eru afkastamestu veiðitækin. Á togurunum eru afköst hvers sjómanns að jafnaði mest. Hver þau afköst eru hverju sinni, verður þó jafnan mjög undir því komið, hversu hæfum og vönum togarasjómönnum þjóðin hefur á að skipa. Jafnvel þegar fiskigengd er lítil, ræður það ekki síður úrslitum, að togararnir séu mannaðir vönum togarasjómönnum, sem eru fljótir að koma út trolli, taka inn troll, gera að fiski, koma fiski í lest, og síðast, en ekki sízt, fljótir að gera við veiðarfæri. Þegar fiskigengd er lítil og óvíða fæst fiskur, þarf ekki annað en togari lendi í hrotu einn eða tvo daga, þá nýtist sú hrota að fullu fyrir togara með vönum mönnum, en tapast eð miklu leyti með óvönum mönnum og þar með sú veiðiferð, sem annars væri borgið. Undir öllum kringumstæðum, hvort sem um er að ræða fiskigengd eða ekki, varðar það því mjög miklu fyrir þjóðarbúið, að til sé stétt manna, sem gerir það að lífsstarfi sínu að stunda sjómennsku á togurum, svo ógirnileg sem þau störf eru að ýmsu leyti. Þessi stétt manna var til, en nú blasir sú hætta við, að hún sé að hverfa og meir verði um hitt að ræða, að menn hlaupi í þessi störf stund og stund, sem bezt sést á því, að ekki er óvanalegt, að á sama togara séu skráðir svo margir menn samtals á ári hverju, að nemur mörgum áhöfnum.

Annað lítið dæmi sýnir þá breytingu, sem er að verða. Til er talsvert af ljósmyndum, hópmyndum af áhöfnum togara frá fyrri árum, en mér er til efs, að slíkar myndir hafi verið teknar um talsvert skeið, vegna þess einfaldlega, að á flestum togurum er ekki ein áhöfn að staðaldri, heldur margar áhafnir á ári hverju. Það, sem veldur, er einfaldlega það, að miðað við kjör annarra stétta, sem búa við styttri vinnutíma, áhættulaus störf og njóta frítíma síns í landi, hafa kjör togarasjómanna stórversnað.

Það var því stefnt að því með setningu laga um lífeyrissjóð togarasjómanna að gera ráðstafanir til þess, að sjómenn fengjust frekar en áður til þess að starfa á togurunum að staðaldri. Auk þess, að setning laganna var sanngirnismál gagnvart togarasjómönnum og fjölskyldum þeirra, var hún hagsmunamál þjóðarinnar allrar, og er nauðsyn, að lögin séu þannig úr garði gerð, að þau nái þessum tvíþætta tilgangi sínum. En það spor, sem stigið var 1958 með setningu l., eftir breyt. á frv. sjómönnum í óhag, var þó of stutt til þess, að það hefði úrslitaáhrif í þá átt, að togarasjómenn héldu sig að staðaldri við togarana.

Til úrbóta í þessu efni höfum við hv. 11. landsk. þm. flutt nokkrar brtt. við lögin á þskj. 98.

Í 11. gr. núgildandi laga eru togarasjómönnum, sem starfað hafa 10 ár á togurum, tryggð lífeyrisréttindi, ef þeir hafa náð 65 ára aldri. Þetta aldursmark teljum við of hátt. Það er að vísu látið gilda um opinbera starfsmenn, en aðstæður þessara stétta eru á engan hátt sambærilegar og svo gerólíkar, að óeðlilegt er að miða við sama aldursmark. Það ætti öllum að vera ljóst.

Ég minntist áðan á, að tilgangur l. væri tvenns konar, annars vegar sanngirni gagnvart sjómönnum og fjölskyldum þeirra og hins vegar viðleitni þjóðfélagsins til að örva unga menn til þess að gerast togarasjómenn og stunda það starf að staðaldri. Sanngirni mælir með því, að aldursmarkið verði lækkað, sé lægra hjá togarasjómönnum en skrifstofumönnum. Um það ættu allir að geta verið sammála, hversu mikið sem þeir vilja svo lækka það. Við, sem þetta frv. flytjum, teljum ekki óeðlilegt, að það sé lækkað í 55 úr 65, svo mjög sem störf togarasjómanna eru erfiðari, vossamari og hættulegri en störf opinberra starfsmanna. Og jafnvel þótt vinnutími togarasjómanna hafi verið styttur í 12 klst. á sólarhring, þá endast þeir, sem gera togarasjómennsku að ævistarfi, svo miklum mun skemur en skrifstofumenn, sem vinna hægari störf miklum mun styttri vinnutíma, að ekki getur talizt óeðlilegt, að eftirlaun komi til 10 árum fyrr en hjá opinberum starfsmönnum.

Upphæð eftirlauna er ákveðinn hundraðshluti af meðallaunum sjóðsfélaga síðustu 10 ár, sem hann hefur starfað, og leggjum við til, að sá hundraðshluti, sem er lægri en hjá opinberum starfsmönnum, hækki til jafns við það, sem um er að ræða hjá þeim. Verður að teljast óeðlilegt, að hundraðshluti þessi sé ekki a.m.k. jafnhár hjá togarasjómönnum, enda eiga þeir án efa erfiðara með að fá vinnu við sitt hæfi, er þeir ná aldursmarkinu og vildu þá hætta til sjós, og eiga í færri hús að venda en opinberir starfsmenn, sem vilja vinna áfram, eftir að þeir hafa náð aldursmarkinu.

Þá leggjum við til, að ótvírætt sé tekið fram í lögunum, að sá hluti launa togarasjómanna, sem felst í hlunnindum, svo sem fæði og skattfríðindum, verði með talinn við ákvörðun meðallauna.

Við teljum, að sanngirni mæli með samþykkt þessara tillagna. Varðandi þann tilgang núgildandi laga að örva unga menn til sjómennsku á togurum, þá held ég, að lögin nái naumast þeim tilgangi sínum, að bætt verði úr þeim vanköntum, sem ég hef minnzt á. Með samþykkt þessara brtt. yrðu þau hlunnindi, sem lögin veita, raunverulegri og nærtækara mark hinum ungu mönnum, sem þjóðinni ríður á að fáist til þess að stunda störf á togurum.

Fjölmargar aðrar úrbætur þarf að vísu að gera í kjaramálum sjómanna, en þau lög, sem hv. Alþ. hefur sett varðandi þeirra lífeyrismál, er skylt að bæta. Lífeyrissjóður fyrir alla sjómenn er takmarkið. En við flm. lítum svo á, að með því að lagfæra lífeyrissjóð togarasjómanna, þann eina lífeyrissjóð sjómanna, sem til er, og gera hann að einhverju leyti að fyrirmynd lífeyrissjóðs sjómanna, styttist leiðin að því takmarki.

Þær breytingar, sem lagt er til að gerðar verði á lögunum, velda vitaskuld útgjöldum, þegar frá líður, og leggjum við flm. til, að ríkissjóður ábyrgist greiðslu lífeyris samkv. lögunum.

Leitað hefur verið álits Guðjóns Hansens tryggingafræðings um aukin útgjöld sjóðsins vegna brtt. Telur hann, að iðgjöld til sjóðsins þyrftu að hækka úr 10% í 20% eða meir, en tekur fram, að ekki hafi farið fram athugun á hag sjóðsins, skiptingu sjóðsfélaga eftir aldri, hagnaði af úrgöngu o.fl.

Þjóðinni er slík höfuðnauðsyn á því, að afkastamestu framleiðslutækin, sem hún á, séu fullnýtt og skili hámarksafköstum, að frá beinu hagsmunasjónarmiði er eðlilegt, að nokkuð sé lagt af mörkum til að tryggja, að í næstu framtíð hafi togararnir jafnan á að skipa vönum mönnum og kjör togarasjómanna gerð svo viðunanleg, að ungir menn fáist til að gera togarasjómennsku að lífsstarfi. Aflaverðmæti togaranna upp úr sjó nemur a.m.k. 300–400 millj. kr. á ári. Talið er, að afköst með óvana skipshöfn séu nær helmingi minni en ef vanir menn eru um borð. Þótt ekki munaði nema 10%, þá er um 30–40 millj. kr. að ræða, miðað við óunninn fisk. Hér veltur því á miklum fjárhæðum, sem tiltölulega fáir menn vinna þjóðarbúinu. Það er því bæði sanngjarnt og hagkvæmt að búa þeim sem bezt kjör.

Herra forseti. Ég leyfi mér að leggja til, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og félmn.