10.11.1960
Neðri deild: 19. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 391 í C-deild Alþingistíðinda. (2014)

89. mál, lífeyrissjóður togarasjómanna

Flm. (Geir Gunnarsson):

Herra forseti. Hv. 12. þm. Reykv. minntist á, að aðalatriðið í lífeyrismálum sjómanna væri sameiginlegur sjóður fyrir alla sjómenn, og það er alveg rétt, enda tók ég fram í minni ræðu, að það væri takmarkið. Eins og hann benti á, telja ýmsir aðilar, að það þurfi gagngerrar athugunar við, áður en lögfest verði, að lífeyrissjóður togarasjómanna, sem nú er til, nái til allra sjómanna. Og ég tel, að það sé ekki rétt að láta þær athuganir, sem fram þurfa að fara, tefja það, að lagfærður sé sá eini lífeyrissjóður, sem sjómenn eiga nú, heldur verði hann gerður þannig úr garði, að hann geti, þegar til kemur, verið fyrirmyndin að lífeyrissjóði allra sjómanna. Og togarasjómenn munu án efa vera óþolinmóðir að bíða eftir þeim athugunum, sem hafðar eru sem rök fyrir því, að ekki verði bætt úr þeirra eigin lífeyrissjóði og hann gerður þannig, að þeir geti við hann unað, og sú rannsókn á ekki að torvelda umbætur á lífeyrissjóði togarasjómanna, sem samkv. þessum tillögum eru ekki smávægilegar, eins og hv. þm. minntist á, heldur allstórvægilegar.