07.12.1960
Sameinað þing: 22. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 228 í B-deild Alþingistíðinda. (202)

1. mál, fjárlög 1961

Björn Pálsson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að halda langa ræðu. Menn eru syfjaðir og þreyttir, og ef talað er um fjármál yfirleitt, tekur það langan tíma. En ég hef leyft mér að leggja fram eina brtt., og þó að við vitum það, sem ekki erum stuðningsmenn stjórnarinnar, að það gengur illa að fá brtt. samþ., sem ef til vill er eðlilegt, þá vona ég, að þeir, sem völdin hafa, taki a.m.k. til athugunar þessa brtt., sem ég kem hér með.

Á síðasta þingi voru samþ. á Alþ. lög um breyt. á lögum nr. 48 28. maí 1957, um landnám, ræktun og byggingar í sveitum. Þetta er ein lagagrein og er þess efnis, að nýbýlastjórn sé heimilt að veita þeim bændum, sem hafa örðugan fjárhag, styrk til íbúðarhúsabygginga á sama veg og nýbýlastofnendum. Þessi lög voru samþ. af stuðningsliði ríkisstj., og ég leit svo á, að með þessu lagaákvæði vildi ríkisstj. og flokksmenn hennar að nokkru leyti bæta fyrir þá erfiðleika, sem efnahagslöggjöfin bakaði þeim, sem voru í framkvæmdum. Við vitum um þá, sem voru að kaupa skip og byggja íbúðarhús, að það var aukið ákaflega mikið á fjárhagslega erfiðleika þeirra með þessari löggjöf. Skip munu hafa hækkað um 50% í verði. Byggingarefni hefur hækkað um 50–70%. Sú hlið, sem að bændum snýr, er þannig, að allur rekstrarkostnaður þeirra hefur aukizt til muna. Auk þess þrengdu þessar ráðstafanir mjög að öllum fyrirtækjum í landinu, þannig að verzlunarfyrirtækin, hvort heldur það voru kaupmenn eða kaupfélög, urðu að ganga miklu ríkara eftir skuldum og staðgreiðslum en áður var. Vextir voru einnig stórhækkaðir. Allt þetta orsakar það, að kjör þeirra, sem voru að fást við einhverjar framkvæmdir, urðu mjög erfið. Það var komið þannig aftan að mönnum, að þeir, sem voru t.d. búnir að panta skip, reiknuðu alls ekki með þessu. Þeir, sem voru að hefja byggingar, höfðu ekki heldur búizt við þessu. Þannig ber ríkisvaldið að nokkru leyti ábyrgð á þeim örðugleikum, sem þessir menn lentu i.

Nú er það svo með bændur, sem eru að byggja, að þeir eiga ekki eins þægilegt með það og útgerðarmennirnir að koma saman á fund, gera sínar kröfur og hóta að gera verkfall, ef ekki er gengið að þeim kröfum. Aðstaða þeirra er önnur og erfiðari. Þeir eru dreifðir og hafa ekki neinn sérstakan félagsskap með sér. Á landssambandsfundinum gerðu útgerðarmenn sínar kröfur og fóru fram á ýmsar kjarabætur hjá ríkisstj. Ég hygg, að ríkisstj. hafi í mörgum tilfellum tekið vel undir það að greiða úr erfiðleikum þeirra, og t.d. þóttust þeir hafa fengið vilyrði fyrir því, að þeim yrði hjálpað um rekstrarfé. Og það er vitað, að þeir eru að fá fyrirgreiðslu á ýmsan hátt, enda var ekki annað hægt. Ég er ekki að deila á ríkisstj. fyrir það, því að ekki var annað hægt. En ég álít, að ríkisstj, sé siðferðilega skyldug að veita þeim mönnum aðstoð, sem landbúnað stunda eða standa í framkvæmdum þar, ekki síður en þeim, sem stunda sjávarútveg. Ég hygg, að það séu ekki neinar ýkjur og að ég sé ekki að færa neitt til verri vegar fyrir ríkisstj., þó að ég segi, að þessar ráðstafanir hennar hafi aukið kostnað við byggingu íbúðarhúss um 100 þús. kr. í flestum tilfellum. Ég hygg, að það sé ákaflega örðugt að koma upp íbúðarhúsum nú fyrir minna en 300 þús. kr. eða jafnvel meira, þannig að þótt þeir fengju 25 þús. kr. framlag, eins og gert er ráð fyrir, því að þeir, sem reisa nýbýli, fá það, þá er það ekki nema um 25% af því, sem kostnaður við að reisa íbúðarhúsið hefur aukizt. Auk þess hefur kostnaður þessara manna við búreksturinn á margan hátt aukizt. Það er til dæmis að verða mjög örðugt fyrir menn að kaupa dráttarvélar vegna þess, hvað þær hafa hækkað í verði, og önnur jarðvinnslu- og heyskapartæki.

Við höfum lagt hér nokkrir fram frv. þess efnis, að þessi styrkur yrði hækkaður upp í 40 þús., og það er alls ekki of mikið. Ég veit ekki, hvernig því frv. reiðir af, en við gerum okkur nú ekki miklar vonir um það, sem styðjum ekki ríkisstj., að fá samþ. frumvörp. Annars skal ég engu spá um það. En þó að þetta frv. yrði samþ., er engin fjárveiting fyrir hendi á þessum fjárlögum til að styrkja þessa menn.

Ég hef talað um þetta við Pálma Einarsson, og hann sagði mér, að hann gæti í mesta lagi lagt fram 750 þús. í ár til stuðnings mönnum, sem eru að byggja, og það er handa 30 mönnum, en að ári mundi hann ekkert fé hafa nema fá sérstaka fjárveitingu til þess, og hún er ekki fyrir hendi. Ég bjóst við, að ef til vill yrði fjárveiting samkv. þessari lagagrein aukin, en það hefur ekki orðið enn sem komið er. Nú veit ég, að margir, sem eru að byggja, gera sér vonir um að fá þarna stuðning. Og þó að þetta sé ekki mikið, þá munar það, þegar um óafturkræft framlag er að ræða. Þeir, sem eru að byggja, eiga margir ákaflega örðugt eins og nú standa sakir, og jafnvel lítill stuðningur getur bjargað því, að þeir gefist ekki upp.

Það eru ekki mörg býli, sem eftir er að byggja upp á, nokkur hundruð býli sennilega á öllu landinu. Það er því alls ekki tilfinnanlegur hlutur fyrir ríkisvaldið, þó að það bæti bændum þá kjaraskerðingu og þá erfiðleika, sem þeir verða fyrir vegna þessara ráðstafana, og þeir fái sömu kjör og þeir, sem eru að reisa nýbýli. Ég hygg, að þeirra hlutur sé alls ekki of góður fyrir því, því að allar þær ráðstafanir, sem gerðar hafa verið nú síðustu árin, hafa miðað að því að auka erfiðleika og kostnað þessara manna við að gera nauðsynlegar framkvæmdir á jörðum sínum. Það dregur ríkissjóð ekki langt, þó að hann veiti eitthvert óafturkræft framlag til þeirra bænda, sem eftir eiga að byggja.

Það er oft verið að tala um það, að landbúnaðurinn njóti ákaflega mikilla styrkja, og á fjárlögum eru eitthvað á milli 70 og 80 millj., sem taldar eru til landbúnaðarmála. Það er miklu meira en til sjávarútvegsmála. Ég vil ekki fara í meting milli atvinnuvega, en ég vil aðeins leyfa mér að benda á það, að undir 16. gr. eru færðir ýmsir liðir, sem hreint ekkert koma bændum við. Þar eru m.a. taldir 11 skólar, 8 húsmæðraskólar, 2 bændaskólar og einn garðyrkjuskóli. Þetta er alls ekki hliðstætt hjá sjávarútveginum. Þar er t.d. sjómannaskólinn ekki einu sinni talinn með. Það er talið framlag til kvenfélagasambanda, og það eru talin framlög til skógræktar og sandgræðslu. Náttúrlega snertir skógrækt og sandgræðsla út af fyrir sig ekkert einstaka bændur frekar en aðra landsmenn og ætti því að færast í sérliðum. Það er talið framlag til jarðræktartilrauna og ótal margt fleira. Það, sem bændurnir fá í sinn vasa, er framlagið til jarðræktar og framræslu. Þeir eru að byggja og rækta landið. Og þeir vita það, bændurnir, að þó að þeir leggi fram lífsstarf sitt og fjármuni, þá geta þeir ekki selt þessi mannvirki, þegar þeir fara frá þeim. Þetta er því unnið fyrst og fremst fyrir þjóðfélagið.

Ég er ekki að segja, að ekki séu erfiðleikar fyrir þá, sem byggja í kaupstað. En sá er munurinn, að þeir geta í allflestum tilfellum selt það fyrir fullt verð, en bóndinn, sem leggur í húsabætur og jarðrækt, veit, að hann getur ekki selt þessi verðmæti eins og þau kosta, heldur venjulega fyrir sáralitið. Svo ber á það að lita, að landbúnaðarframleiðslan er alls ekki of mikil, og með vaxandi fólksfjölda þarf hún að aukast. Við eigum því að fara varlega í það að láta býlunum fækka, en við þurfum að stækka búin á þeim jörðum, sem þegar eru til. Það getur í einstaka tilfellum verið réttlætanlegt, að jörð leggist í eyði, ef hún er illa sett með samgöngur og möguleika til rafvirkjunar, en í flestum tilfellum er það óhyggilegt að láta býlunum fækka, því að landbúnaðarframleiðslan þarf að stóraukast á næstu árum. Og í framtíðinni hygg ég, að það verði ekkert óarðvænlegra að framleiða sauðfjárafurðir til útflutnings heldur en hverja aðra vöru.

Ég vil ekki vera að telja neitt eftir af því, sem sjávarútvegurinn fær. En ég skal aðeins benda á það, að hér um bil allar þær ábyrgðir, sem ríkissjóður borgar, eru vegna sjávarútvegsins, beint eða óbeint. Ímyndið þið ykkur, að öll þau lán verði borguð, sem sjávarútvegurinn fær í bönkunum nú? Nei, þau verða ekki borguð. Ríkissjóður gengur t.d. í ábyrgð fyrir togara, sem er verið að kaupa nú fyrir um 40 millj. 90% af verðinu ábyrgist ríkissjóður, og þið þurfið ekki að ímynda ykkur, að þeir verði allir borgaðir. Það er þess vegna óbeinn stuðningur við sjávarútveginn á svo mörgum sviðum. En bændur hafa yfirleitt staðið í skilum með sín lán, hvað sem í framtíðinni verður.

Ég ætla ekki að fara í meting út af þessu, en ég vildi aðeins leyfa mér að benda á það, að þó að þessi 16. gr. sé dálítið há, þá eru þar framlög til menntamála og almennra þarfa og til að prýða og græða landið, en það er ekki styrkur til einstakra bænda, nema lítið brot af því, og þá eingöngu fyrir framkvæmdir, sem eiga að vera til varanlegra umbóta fyrir þjóðfélagið í framtíðinni.

Ég veit, að meðal þeirra manna, sem styðja ríkisstj., er fullkominn skilningur á þessu máli, og ég er viss um, að margir þeirra vildu styðja þá, sem standa í byggingum núna og eru við það að guggna af fjárhagserfiðleikum. Ég vildi bara benda þeim á, að það er ekki til neins að samþ. lög, — ég efast ekkí um, að það hafi verið gert í góðri meiningu að samþ. þau, — en það er bara ekki nema skrípaleikur að samþ. þau, ef ekki er nein fjárveiting fyrir hendi til að fullnægja tilgangi þeirra.

Ég ætlast ekki til, að þessi brtt. verði borin upp við 2. umr. á morgun. En hún mun hins vegar koma til atkvgr. við 3. umr.. nema fjvn. vilji á einhvern hátt taka hana til greina, sem ég vona að hún geri, nú á milli umr.

Skal ég svo ekki fjölyrða meira um þetta að sinni.