14.11.1960
Neðri deild: 21. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 395 í C-deild Alþingistíðinda. (2020)

99. mál, ríkisútgáfa námsbóka

Flm. (Geir Gunnarsson):

Herra forseti. Fyrir því frv. á þskj. 110, sem hér er til umr., þarf naumast langa framsögu. Lagt er til, að úr lögum um ríkisútgáfu námsbóka verði felld þau atriði, sem gera ráð fyrir álagningu námsbókagjalds. Samkvæmt núgildandi lögum um ríkisútgáfu námsbóka er hún kostuð með innheimtu námsbókagjalds af hverju heimili, þar sem er skólaskylt barn, eitt eða fleiri.

Þegar lagt var fram í hv. Alþingi frv. til laga um að fela ríkinu að annast um útgáfu á þeim námsbókum, sem þörf er á fyrir börn á skólaskyldualdri, hefur sjálfsagt verið talið ólíklegt, að lögin fengjust samþykkt, ef ekki væri gert ráð fyrir sérstöku námsbókagjaldi, þar sem lagasetningin var að öðru leyti ágreiningsmál þá. Nú horfir málið nokkuð öðruvísi við, og úrelt er og óeðlilegt að gera ráð fyrir því, að lagt sé sérstakt gjald á barnafjölskyldur til þess að kosta þennan einstaka lið af mörgum kostnaðarliðum í ríkisrekstrinum. Bæði álagning skattsins og innheimta veldur óþarfri skriffinnsku og kostnaði.

Síðastliðinn vetur hét hæstv. ríkisstjórn því við afgreiðslu efnahagsmála að fella niður þetta gjald og reiknaði út í sinni hvítu bók, hversu miklu það munaði vísitölufjölskylduna frægu að losna við námsbókagjaldið. Vísitölufjölskyldan margfræga hefur, frá því að það loforð var gefið, mátt bæta margs kyns nýjum gjöldum í búreikninga sína, en enn hefur hún ekki getað sett núll í dálkinn fyrir námsbókagjald. Efndirnar á loforði ríkisstjórnarflokkanna hafa á hinn bóginn orðið þær, að vísitölufjölskyldan, sem árið 1959 greiddi 95 kr. í námsbókagjald, greiðir nú á þessu ári 160 kr., eða rúmlega 68% meir. Auk þess var árið 1959 greitt námsbókagjald fyrir sjö aldursflokka barna, en á þessu ári fyrir átta. Í stað þess að enginn greiði námsbókagjald, svo sem heitið var, greiða það nú fleiri en áður og hærra gjald en nokkru sinni fyrr. Þar sem svo virðist sem við þessar efndir eigi að sitja, hef ég leyft mér að flytja þetta frv., til þess að úr því fáist hreinlega skorið, hvort ríkisstjórnarflokkarnir fást til þess að standa við loforð sitt um afnám námsbókagjalds.

Ég leyfi mér, herra forseti, að leggja til, að frv. verði að lokinni 1. umr. vísað til 2. umr, og hv. menntmn.