07.12.1960
Sameinað þing: 22. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 235 í B-deild Alþingistíðinda. (204)

1. mál, fjárlög 1961

Björn Fr. Björnsson:

Herra forseti. Ég skal ekki vera langorður, enda langt liðið á nótt og verulegt ósamræmi í því að láta meginþorra þm. sofa sætum svefni, en okkur tiltölulega fáa vaka hér miklu lengur.

Ég ber fram 4 brtt. við fjárlögin, ásamt tveim öðrum þm. úr Suðurlandskjördæmi, og ætla ég að rifja þær upp og renna yfir þær, eins og röð þeirra er á þskj. 185.

Þá er fyrst til að taka, að við gerum till. um, að nýr liður komi við 11. gr. A. 9. k., til löggæzlu á Selfossi, 60 þús. kr. Í fyrra lá fyrir fjvn. beiðni um styrk í þessu skyni, til löggæzlu á Selfossi, sem fékk ekki nauðsynlega fyrirgreiðslu af hálfu nefndarinnar og var ekki afgreidd þá. Mér er sagt, að beiðni hafi engin legið fyrir frá sýsluyfirvöldum í Árnessýslu varðandi löggæzlukostnað á Selfossi nú í þetta sinn, og er það miður. En mér og öðrum flm. er mál þetta kunnugt og vitum, að mikil er þörf þess, að hér hlaupi ríkissjóður undir bagga og styrki svolitið þá viðleitni, sem átt hefur sér stað á Selfossi, að halda uppi löggæzlu. Það er kunnara en frá þurfi að segja, að Selfoss er mikil samgöngumiðstöð og sú mesta á Suðurlandi. Þar eru straumamót og meiri umferð en víðast annars staðar utan Reykjavíkur og nágrennis. Þetta gerir að sjálfsögðu nauðsynlegt, að haldið sé uppi nokkuð sterkri löggæzlu einmitt á Selfossi og þar í grennd. Og svo njóta að sjálfsögðu sveitirnar í kring góðs af, en þar er einnig mikil umferð, samkomuhald mikið og hvers konar umsvif. Nú hygg ég megi segja, að á Selfossi starfi tveir lögregluþjónar í fullu starfi og jafnvel þriðji af og til, þegar mest er að gera. Og þar er líka rekinn lögreglubíll, sem er jafnframt ætlaður til sjúkraflutninga. Kostnaður af þessu mun vera eitthvað á þriðja hundrað þúsund krónur og er ætíð að færast í aukana. Þessi kostnaður er að verulegu leyti og ég held að öllu leyti greiddur af Selfosshreppi og Árnessýslu.

Ég sé það, að á frv. til fjárlaga fyrir 1961 er styrkur af þessu tagi, löggæzlustyrkur, veittur ýmsum byggðarlögum og kaupstöðum, þar sem líkt stendur á. Og víst er það, að þetta mál snertir ekki aðeins Sunnlendinga eina, heldur og fjölmarga aðra landsmenn, sem fara um á þessum slóðum. Og ég sé ekki, að það sé í raun og veru nein ástæða til þess að synja um þennan styrk, og ég vil vænta þess, að fjvn. taki vel á þessu máli, ef til þess kemur, að hún um það fjalli, sem ég vil gera mitt til að verði, og hún sjái sér fært að taka þessa till. okkar þremenninganna allra vinsamlegast til greina.

Önnur till. frá okkur sömu þm. er á þá lund, að hækkaður verði liðurinn, sem fjallar um styrk til byggingar sjúkrahúsa, annarra en ríkissjúkrahúsa. Þar gerum við tillögu um, að sá liður hækki um 500 þús. kr., úr 5 millj. 275 þús. upp í 5 millj. 775 þús., og að þessi hækkun verði tengd byggingu tveggja sjúkrahúsa í Suðurlandskjördæmi, sjúkrahúsanna á Selfossi og í Vestmannaeyjum, 250 þús. kr. til hvors sjúkrahúss.

Það er alveg óhætt að slá því föstu, að í Suðurlandskjördæmi hefur þessi liður fjárlaga, þ.e.a.s. að því er varðar sjúkrahús og sjúkrahúsabyggingar og rekstur þeirra, ekki legið mjög þungt á ríkissjóði fram að þessu. En nú er svo komið, að í annan stað þarf að efla mjög sjúkrahúsið á Selfossi, en það verður væntanlega fjórðungssjúkrahús, en í sjúkrahúsalögum er fram tekið um fjórðungssjúkrahús á Suðurlandsundirlendinu.

Árnesingar hafa af mikill rausn og fyrirhyggju átt þátt í því að reisa sjúkrahús á Selfossi með, að ég hygg, einum 30 sjúkrarúmum. Það er rekið, að því er ég bezt veit, með miklum myndarbrag, og þar hafa starfað ágætir læknar, og svo er enn. Rangæingar og Vestur-Skaftfellingar njóta góðs að sjálfsögðu af þessu sjúkrahúsi og munu gera í framtíðinni. En til þess að sem bezt verði um búið og þetta sjúkrahús notist sem bezt, þarf að sjálfsögðu að stækka það að miklum mun, bæta við það hvers konar lækningatækjum og bæta um allan umbúnað. Þess vegna er þessi till. okkar þremenninganna fram komin, að við viljum með henni fyrst og fremst vekja athygli á því, sem gerist í sjúkrahúsmálum á Suðurlandsundirlendinu, jafnframt sem við strikum undir það, að þess er mikil þörf að vinna þar betur og meira að en gert hefur verið, þótt sæmilegt hafi verið. Og við væntum þess fastlega, að hv. Alþingi sjái sér fært að samþykkja þessa till. okkar.

Ég vil bæta við nokkrum orðum um sjúkrahúsið í Vestmannaeyjum. Það kemur að sjálfsögðu ekki til mála, að Vestmanneyingar hafi nein tök á því né aðstöðu að nota væntanlegt fjórðungssjúkrahús á Selfossi. Þess vegna er það í raun og veru ekki út í hött, heldur afar eðlilegt, að það komi fram till. hér á hv. Alþingi um það, að bæjarsjúkrahúsið í Vestmannaeyjum njóti stuðnings um stofnun og rekstur sem fjórðungssjúkrahús væri, og næstu daga mun koma tillaga um það frá okkur fjórum þm. Suðurlandskjördæmis í Nd., að sjúkrahúsið í Vestmannaeyjum njóti sömu kjara eða hlunninda og fjórðungssjúkrahús væri. Í samræmi við það leggjum við til í okkar till. á þskj. 185, að nú í fjárlögum fyrir árið 1961 verði veittar 250 þús. til byggingar á nýju sjúkrahúsi í Vestmannaeyjum. Það, sem fyrir er, er byggt fyrir röskum 30 árum, þá af tiltölulega miklum myndarbrag, en nú orðið er það talið úrelt og mjög um hönd að reka það miklu lengur. Þess vegna hafa Vestmanneyingar ákveðið að hefjast handa, strax og þeim er fengin sæmileg aðstaða í hendur, að reisa nýtt sjúkrahús, bæjarsjúkrahús í Vestmannaeyjum. Og þeir hafa í því skyni aflað fjár heima fyrir, og ég held, að ég megi segja, að í byggingarsjóði sjúkrahússins þar sé nú um 1 millj. kr. Og það var svo sem auðvitað og eftir Vestmanneyingum, að þeir létu athafnir eftir fylgja þessu sínu áhugamáli. Og þegar þetta er upplýst, þá vænti ég þess, að enn frekar verði vilji meiri hluta þm. fyrir því að koma á móti þeim áhuga, sem Vestmanneyingar sýna í þessu mikilvæga málefni sínu.

Þá er það þriðja till. okkar. Hún er á sama þskj., 185, IX. Hún fjallar um það, að nýr liður bætist við 22. gr. XVI. á þessa leið að ríkisstj. hafi heimild til þess að verja allt að 200 þús. kr. til smíði dragferju á Tungnaá í Rangárvallasýslu. Þessi tillaga er fram komin vegna þess, að hreppsnefndir í Ásahreppi og Djúpárhreppi í Rangárvallasýslu óskuðu eftir því á sínum tíma, eða í maí 1960, að gerðar yrðu áætlanir um dragferjusmiði á Tungnaá, í því skyni, að þessar tvær sveitir gætu hagnýtt sér sem bezt Holtamannaafrétt, sem er talinn með beztu afréttum. Ég hef átt tal við vegamálastjóra, og hann hefur tjáð mér, að áætlun liggi enn ekki að fullu fyrir, en muni gera það innan tíðar, þannig að vafalaust kemur til kasta ríkisstj. þegar á næsta ári að sinna þessu máli, og til að létta henni allan róður er þessi till. fram komin, heimild til handa henni að verja allt að 200 þús. kr. í þessu skyni. Það er ekki vafi á því, að þessi hjálp, dragferjusmíðin, mundi orka í þá átt, að þessar tvær sveitir, sem eru með hinum blómlegri á Suðurlandi og eiga mikla framtíð fyrir sér sem ræktunarhéruð, mundu færast mjög í aukana, ef þær gætu komið af höndum sér og til afréttar því sauðfé, sem nú er heima fyrir, milli 12 og 14 þúsund fjár, og er sífellt að fjölga og er nú sem stendur í fullkominni örtröð heima fyrir. Þetta er stórkostlegt mál, ekki aðeins fyrir þessa tvo hreppa og búendur þeirra, heldur og fjölda landsmanna, sem gjarnan vildu fara upp á hálendið, eins og það er líka girnilegt til fróðleiks og þægilegt til hvildar fyrir fólk úr þéttbýlinu. Þessi ferja þyrfti náttúrlega að vera svo sterk og vel á sig komin, að á henni mætti flytja minni bila, svo sem eins og jeppa og fólksbíla. En þegar komið er yfir Tungnaá, er vegur góður og e.t.v. óvíða betri í voru landi en einmitt á þessum slóðum.

Ég vildi vænta þess, að hv. Alþingi gæti séð sér fært að koma til móts við okkur flm. um þessa till. og samþykkja hana.

Þá er það fjórða till. frá okkur hinum sömu.

Fyrsti flm. þeirrar till. hefur rætt um hana nokkuð. Hún er á þskj. 185, XI. brtt, eða viðbótartill. við 22. gr. XIII, nýr liður, heimild að taka allt að 25 millj. kr. lán til að ljúka undirbúningi og hefja brúargerð yfir Ölfusá hjá Óseyrarnesi. Að sjálfsögðu er sú mikla framkvæmd, sem fyrirhuguð er, brúargerð við Öseyrarnes, í samræmi við þá áætlun að fullgera höfn, örugga og góða bátahöfn í Þorlákshöfn. Og ekki sízt er þessi till. af okkur upp tekin fyrir það, að stjórnarliðar hafa látið í skina með framburði tillagna, að þeir hefðu sérlegan áhuga fyrir þessari framkvæmd, brúargerð hjá Óseyrarnesi. Og til þess að þeir megi fá stuðning líka frá stjórnarandstöðunni, er þessi till. fram komin, og tel ég alveg vafalaust, að henni verði af mörgum þeirra vel tekið og hún rækilega studd, og á ég enda von þess.

Vil ég svo ljúka máli mínu, en vænti þess, að á þessum till. verði vel og vinsamlega tekið og að þær fái helzt allar, en þó þær veigamestu, fullnaðarafgreiðslu á þessu þingi.