14.12.1960
Neðri deild: 38. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 406 í C-deild Alþingistíðinda. (2042)

135. mál, menntaskóli Vestfirðinga

Flm. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Frv. þetta um menntaskóla á Ísafirði var flutt á seinasta þingi, og fylgdi því þá grg. samhljóða þeirri grg., sem nú fylgir því. Flutningi þess er nú hagað á sama hátt og í fyrra, þ.e.a.s. á þann veg, að allir Vestfjarðaþm. standa að flutningi þess, en samkomulag var gert um, að þm. þeir fyrir Vestfirði, sem sæti eiga í Nd., tækju að sér flutninginn.

Það hefur einkum gerzt í málinu síðan í fyrra, að starfrækt er í vetur með heimild menntmrn. í sambandi við gagnfræðaskólann á Ísafirði framhaldsdeild, sem samsvarar fyrsta bekk menntaskóla. Menntaskólinn á Akureyri hefur lýst því yfir, að hann muni taka gilt próf úr þessari deild sem árspróf upp í 2. bekk hjá sér. Raunar ætti helzt ekki til þess að koma, að þetta unga fólk, sem nú hefur hafið menntaskólanám í framhaldsdeild gagnfræðaskólans á Ísafirði, þurfi að fara þaðan í annan skóla. Miklu æskilegra væri, að það gæti haldið áfram annars bekkjar námi næsta haust á Ísafirði og síðan næstu tvö árin, þar til stúdentsprófi væri lokið. En það gæti því aðeins orðið, að þetta frv. yrði samþ. á þessu þingi og þannig stofnað með löggjöf til menntaskóla Vestfirðinga á Ísafirði.

Í frv. eru að öllu leyti gerðar jafnstrangar kröfur til nemenda og kennara og til kennslu og prófa og gerðar eru við menntaskóla þá, sem nú starfa í landinu.

Að öðru leyti sé ég ekki ástæðu til að rekja nákvæmlega efni frv. Það gerði ég í fyrra við frumflutning þess f.h. okkar flutningsmannanna.

Það er skoðun okkar, sem að flutningi þessa frv. stöndum, að þjóðfélaginu beri skylda til að sjá um, að ungu hæfileikafólki sé tryggð sem allra jöfnust aðstaða til að afla sér stúdentsmenntunar, alveg án tillits til þess, hvar það er búsett á landinu, og einnig án tillits til efnahags, aðeins ef hugur þess stendur til mennta. Þessi aðstaða til æðra náms er ekki svo jöfn sem skyldi og hún ætti og þyrfti að vera. Æska Reykjavíkur á, sem betur fer, greiðan aðgang að menntaskólanámi. Hún getur valið um tvo skóla, sem rétt hafa til að brautskrá stúdenta. Norðlendingar eiga sinn menntaskóla og Sunnlendingar sinn. En vestfirzkur æskulýður og austfirzkur er stórum verr settur í þessu tilliti. Gáfaður unglingur úr þessum landshlutum getur því aðeins ráðizt í langskólanámið, að hann hafi efni á að kosta sig að heiman — norður eða suður. Algengast hefur það raunar orðið, að foreldrar slíkra unglinga, ef þeir hafa þá ekki lagt árar í bát af efnahagsástæðum, hafa tekið sig upp og flutzt búferlum til Reykjavíkur, þegar að því kom, að börnin voru komin á framhaldsskólaaldur.

Þetta hefur oft orðið vestfirzkum byggðum alltilfinnanleg blóðtaka, og svo mun enn verða, þar til Alþingi viðurkennir í verki, að það er hin mesta óhæfa, að nokkur aðstöðumunur sé á menningar- og menntunaraðstöðu æskulýðsins eftir landshlutum. Þess vegna er það tvímælalaust rétt stefna, að menntaskólar séu starfandi í öllum landsfjórðungum.

Hugmynd Jóns Sigurðssonar forseta um þjóðskóla var merkileg hugmynd á sinni tíð, og mun hún hafa leitt síðar til stofnunar Háskóla Íslands. En Jón forseti kom víðar við í till. sínum um skólamál. Skólunum vildi hann dreifa um landið víðs vegar, einkum ræddi hann þar um bænda- og sjómannaskólana, og vissulega voru skólamál almennt meðal allra fremstu áhugamála Jóns Sigurðssonar. Í ritgerð hans í „Nýjum félagsritum“ um skóla á Íslandi segir hann t.d.:

„Það eru einkum þrjú efni, sem oss Íslendingum standa á mestu að útkljáð verði bæði fljótt og vel. Það er alþingismálið, skólamálið og verzlunarmálið. Undir því, hvernig þessi mál verða útkljáð, hvernig þetta þrennt kemst á fót, er að miklu leyti komin framför vor og að vísu það, hve bráðgjör hún verður. Alþingi á að vekja og glæða þjóðlífið og þjóðarandann. Skólinn á að tendra hið andlega ljós og hið andlega afl og veita alla þá þekkingu, sem gera má menn hæfilega til framkvæmda öllu góðu, sem auðið má verða.“

Af þessu sést, að Jón Sigurðsson setti skóla- og menntamálin næst sjálfu alþingismálinu.

„Vér eigum að hefja hugann hátt,“ segir hann. „Engum peningum er varið heppilegar en þeim, sem keypt er fyrir andleg og líkamleg framför. Ef vér gerum oss það að reglu að hefja aldrei hugann hátt, þá snýst það bráðum til þess, að vér virðum fyrir oss hvað eina með lítilsigldu geði, hugarvíli og kvíða. Og meðan því fer fram, er engin von, að vér lifnum nokkurn tíma til þjóðlífs eða að velgengni vor vaxi, nema eftir því sem náttúran kann að leika við oss eitt og eitt ár í bili. En reynslan hefur sýnt, að slíkar framfarir eru byggðar á völtum fæti.“

Þetta voru ummæli Jóns Sigurðssonar forseta um skólamál, og í þessum orðum hans felst stefnuskrá hans í skóla- og menningarmálum þjóðarinnar um miðja nítjándu öldina.

Ég vil leyfa mér að minna hv. alþm. á, að á vori komanda á Jón Sigurðsson 150 ára afmæli, og ég varpa nú fram þeirri spurningu: Væri það ekki verðug athöfn af Alþingi Íslendinga að minnast 150 ára afmælis Jóns forseta Sigurðssonar einmitt með því að afgreiða lög um menntaskóla Vestfirðinga, sem staðsettur skyldi í miðju kjördæmi hans, Ísafjarðarkaupstað?

Við flm. þessa frv. viljum vona, að sú verði einmitt reisn Alþingis, sú rækt þess við minningu síns mesta manns.

Herra forseti. Ég legg til, að málinu verði að umr. lokinni vísað til 2. umr. og hv. menntmn.