03.02.1961
Neðri deild: 55. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 409 í C-deild Alþingistíðinda. (2049)

144. mál, áfengislög

Flm. (Pétur Sigurðsson):

Herra forseti. Þetta frv., sem ég hef leyft mér að flytja á þskj. 238 um heimild ríkisstj. til að leyfa bruggun og sölu á áfengu öli og nú er til umr., hefur þegar verið allmikið rætt manna á meðal nú að undanförnu, margar greinar birzt um málið í dagblöðum, fundir haldnir um málið og það jafnvel lítillega rætt í ríkisútvarpinu. Allt það, sem fram hefur komið um málið, hefur meira verið áberandi fyrir ofstækisfullar öfgar heldur en raunhæft mat á fyrirliggjandi staðreyndum, og vegna þess að málið hefur verið rætt á svo breiðum grundvelli sem raun ber vitni um, hef ég ákveðið að gera það líka nú hér strax við framsögu málsins.

Eins og sjá má í grg. fyrir frv., bendi ég á það, að í gildandi íslenzkum lögum sé áfengi skilgreint sem vökvi, er hafi meiri vínanda en nemi 2¼% að rúmmáli, jafnframt séu sterkir drykkir talin þau vin, er hafi meira en 21% af vinanda að rúmmáli, en létt vín teljast þau hins vegar, er hafi minna en 21% af vínanda að rúmmáli. Ef frv. þetta verður samþ., veitist ríkisstj. heimild til að leyfa tilbúning og sölu öls á innlendum markaði og til útflutnings, sem hefur inni að halda allt að 3½% af vínanda að rúmmáli. Í reglugerð skal setja reglur um meðferð og sölu þess, og um þær reglur verða að sjálfsögðu skiptar skoðanir. En ég hef talið og tel að athuguðu máli, að heppilegast sé, að sala áfengs öls fari aðeins fram á stöðum, sem vinveitingaleyfi hafa, og á vegum Áfengisverzlunar ríkisins.

Öl með þessum styrkleika, 3½%, er talið mjög veikt meðal þjóða, er hafa öl á boðstólum. Þetta öl nýtur hins vegar mikilla vinsælda meðal flestra menningarþjóða, sem telja, að sterkt teljist öl ekki, fyrr en styrkleiki þess er orðinn 4½–6% og þar yfir. Það hefur lengi verið mín skoðun, eins og ég bendi á í grg. með frv., að litið samræmi virtist vera í þeirri ákvörðun hv. Alþingis að leyfa sölu á sterku áfengi og fela ríkisvaldinu dreifingu þess, en banna framleiðslu og sölu á öli, sem er veikasta stig áfengra drykkja eftir skilgreiningu íslenzkra laga. Með íslenzku áfengislöggjöfinni er því slegið föstu, að það sé ekki framkvæmanlegt að banna algerlega sölu sterkra áfengra drykkja, og um leið undirstrikað, að óheppilegt og hættulegt sé að hafa á boðstólum fyrir Íslendinga áfengt öl, þótt jafnframt sé í umræddri löggjöf heimild ríkisstj. að leyfa bruggun og sölu á áfengu öli til varnarliðsins og til útflutnings. Ég bendi enn fremur á það í grg., að ég telji, að í áfengislöggjöfinni verði að vera samræmi, eins og í öðrum lögum, og ég telji það jafnframt vera meira en lítið misræmi að leyfa sölu á eldsterku brennivíni, en banna sölu 9 veiku öli á þeirri forsendu, að verið sé að vinna gegn áfengisbölinu.

Við þessar röksemdir hlýtur sú spurning að vakna, hvort þeir fulltrúar, sem eru á löggjafarþinginu og fylgja núverandi framkvæmd mála, séu sjálfum sér samkvæmir, ef þeir láta hjá líða að beita sér fyrir algeru banni á sölu sterkra vína, fyrst bruggun og sala á öli, veikasta stigi áfengis, er sá bölvaldur, er sömu aðilar telja vera. Ástæða þess hlýtur að vera sú skoðun þessara sömu aðila, að slíkt sé með öllu óframkvæmanlegt í nútímaþjóðfélagi sem okkar, er býr ekki aðeins við þær fullkomnu samgöngur, sem við búum við, heldur og þekkingu, vilja og getu almennings til bruggunar áfengra drykkja, auk þess atriðis, sem er ekki sízt, en það eru tekjur ríkissjóðs af sölu áfengis, er renna til margs konar menningar- og framfaramála.

Það mun mála sannast, að við núverandi aðstæður sé mjög mikið um leynibruggun öls, sem hlýtur að skapast í þjóðfélagi, sem viðurkennir sölu og neyzlu sterkra áfengra drykkja og þar sem tiltölulega mjög auðvelt er að ná í efni þau, sem til ölgerðar og annarrar bruggunar þarf. Ég hef leyft mér að draga þessa ályktun af nokkuð mörgum hlutum. Þannig er mér t.d. kunnugt um, að undanfarin ár hafa flutzt og flytjast inn til landsins, svo að ég nefni eitt dæmi, glerkútar undir sýrur ýmiss konar í þúsundatali. Það hefur verið mjög lítið af þessum ílátum, sem hefur flutzt úr landi aftur að undanförnu, en hins vegar er mér tjáð, að svo sé mikil eftirspurn eftir þessum ílátum, að um biðlista kaupenda sé að ræða. Nú má vera, að einhverjir dragi þá ályktun af þessu, að 50 og 60 lítra glerkútar séu svo eftirsóttir til þess að geyma t.d. mjólk í þeim. En mínar ályktanir af þessu eru allt aðrar. Eins og ég segi, þá er það líka mála sannast, að almenningur mun hafa það almennt á tilfinningunni, að sá einstaklingur sé ekki afbrotamaður, sem bruggi öl fyrir sjálfan sig eða sitt heimili, eingöngu vegna þess, að bannið á bruggun öls sé alls ekki í samræmi við réttarvitund fólks almennt.

Ég bendi á það í grg., að auk þess mikla magns, sem þannig fari ótollað fram hjá ríkissjóði, megi benda á, að mikið magn hljóti að koma af tilbúnu öli til landsins í hendur þeirra, sem til þess hafa aðstöðu, og því til sönnunar má benda á þá staðreynd, að ölgerð sú, er framleiðir megnið af öllum bjór og pilsner í landinu, hefur ekki flutt inn eina einustu tóma flösku síðan 1956, og var þó tappað á yfir 4 milljónir flaskna á síðasta ári, og notar hún þó aðeins flöskur frá einu landi í Evrópu eða nánar tiltekið frá tveimur fyrirtækjum. Þetta skeður á sama tíma og þessi átöppun hefur á tiltölulega fáum árum aukizt um milljón flöskur og þrátt fyrir mjög mikla rýrnun slíkra umbúða.

Það er enginn vafi, að á næstu árum muni heimsóknir erlendra ferðamanna stóraukast, og það munu fáir efa, að það sé nauðsyn fyrir okkur að hafa á boðstólum þjóðlegan og frambærilegan drykk annan en „svartadauða“, og það er enginn vafi á því, að slíkur drykkur getur orðið stór tekjulind af innanlandssölu einni saman. Auglýsingagildi fyrir væntanlegan útflutning á erlenda markaði gæti orðið mjög mikið. Og ég er ekki í nokkrum vafa um, að þar gætum við orðið vel samkeppnisfærir, þegar þess er gætt, að niðurstöður liggja fyrir, sem byggðar eru eingöngu á vísindalegum rannsóknum, og þær hafa sannað það, að vatnið okkar er það bezta, sem fáanlegt er til ölgerðar, enda má segja, að það sé nærtækt dæmi því til sönnunar, þegar hægt er að benda á, að erlend sendiráð hér á landi, sem hafa heimsfræga ölframleiðslu í sínum heimalöndum, vilja heldur það íslenzka öl, sem framleitt hefur verið hér fyrir varnarliðið, heldur en sinn heimabjór. Það má benda á í þessu sambandi, að þau lönd, sem hafa stórkostlegar gjaldeyristekjur af sinni ölframleiðslu, eins og t.d. Danir, þurfa mjög mikla efnafræðilega og kostnaðarsama hreinsun á sínu vatni, áður en það er hæft til ölgerðar.

Ég hef hér nokkuð minnzt á tekjumöguleika, sem gætu orðið af framleiðslu öls hér á landi. Það hafa komið fram fleiri skoðanir um þessa hlið málsins, bæði þá atvinnulegu og tekjulegu, þótt ég sjái ekki ástæðu til þess að minnast á þær að sinni.

En meginröksemdir þeirra, sem vilja leyfa bruggun og sölu á áfengu öli, og þeirra, sem því eru andvígir, eru varðandi þau áhrif, er slíkt muni hafa á drykkjuskap þjóðarinnar í heild. Þeir, sem öl vilja, telja, að sala á áfengu öli geti að nokkru leyti bætt úr því öngþveiti, sem hér ríkir í áfengismálum, og breytt á ýmsan hátt til hins betra drykkjuósiðum, sem hér ríkja. Hinir telja, að sala á öli skapi hér hömlulaust áfengisflóð og muni stórauka drykkjuskap, sérstaklega meðal unglinga, og enn fremur, eftir því sem ákveðinn hópur manna heldur fram, meðal verkamanna og jafnvel iðnaðarmanna. Ég vil sérstaklega benda á þann þráláta misskilning, sem fram hefur komið að undanförnu hjá ýmsum þeim, sem látíð hafa skoðanir sínar í ljós um þetta mál, að þeir telja, að ef frv. þetta verði samþ., skapist hér hömlulaust áfengisflóð.

Þegar talað er um stefnur eða leiðir í áfengismálum okkar eða annarra, er oft talað um þrjár leiðir. Ein er sú að banna allan aðflutning og sölu á áfengi, hin svokallaða bannstefna. Hin gagnstæða er frjálsa leiðin eða hömlulítil sala áfengra drykkja. Og svo sú þriðja, sem hér hefur verið fylgt um nokkur ár, sem má segja, að sé bil beggja.

Ég tók það einmitt fram hér áðan og enn fremur skýrt í grg. með frv., að mín skoðun væri sú, að heppilegast væri og jafnframt rökrétt, ef heimild fengist til bruggunar og sölu á áfengu öli, þá yrði meðferð þess og sala að fara fram eins og á hverju öðru áfengi, og þannig fylgt skoðunum þeirra í hvívetna, sem telja, að slík meðferð áfengis vinni gegn misnotkun þess. Ef um hömlulaust áfengisflóð yrði að ræða, eftir að þetta frv. yrði samþykkt með slíkum reglugerðarákvæðum, er ég hef getið um, þá er slíkt áfengisflóð fyrir hendi í dag, og Alþingi ber þá að gera eitthvað til úrbóta, ef fylgja á þeim anda, sem áfengislögin eru mótuð í. Ég tel, að fjarstæða sé að tala um, að samþykkt þessa frv. skapi slíkt hömlulaust áfengisflóð, tel hins vegar, að meginbreytingin sé sú, að þessi tegund áfengis, veikasta stig þess, 3½%, mundi bætast við þær 200 tegundir af áfengi, sem nú þegar eru til sölu hér á landi í dag með styrkleikanum frá 11% og upp í 50%.

Ég mun nú víkja nokkru nánar að þeirri fullyrðingu, að aukinn drykkjuskapur muni skapast meðal verkamanna og jafnvel iðnaðarmanna, en í þeim efnum tel ég að dregnar hafi verið mjög hæpnar og vafasamar ályktanir frá ákveðnum stöðum í nágrannalöndum okkar, sem, eins og ég segi í grg., frekar styðjast við óskhyggju bannmanna heldur en raunveruleikann sjálfan. Og eins og ég segi þar, þá ber að mótmæla því harðlega, að íslenzkum mönnum í þessum stéttum sé búin frekari hætta á freistingum þessa heims en öðrum. Ég hef nú nokkuð á annan áratug átt þess kost að koma nokkuð oft í fjórar af heimsálfunum fimm og þar á meðal í margar af stærstu hafnarborgum heims, auk mikils fjölda smáborga, sérstaklega þó í nágrannalöndum okkar, þar sem ég hef bæði unnið með og kynnzt fólki úr öllum stéttum. Þegar vitnað er til þeirrar þjóðar, sem ég þekki einna bezt til og alls staðar er viðurkennt að standi með fremstu þjóðum á sviði vísinda, lista, menntunar, mannúðarhugsjóna og efnahagslegrar velmegunar, og sú þjóð talin búa við þjóðarböl og voða vegna ölflóðs, er drepi frelsi, menntun og framtak, og þessi ályktun er dregin af tiltölulega — ég segi tiltölulega fáum sjúklingum, er neyta áfengra drykkja í óhófi, þá tel ég, að rangar ályktanir hafi verið dregnar. Í umrætt land, Danmörku, er tíðast vitnað, þegar bent er á óhóflega áfengisneyzlu meðal okkur skyldra og nálægra þjóða, sem vera ber, enda að miklu leyti út í hött að miða við aðrar þjóðir en þær, sem búa við svipuð skilyrði, bæði landfræðileg, menningarleg og efnahagsleg, og eru skyldar okkur og líkar í öllum háttum.

Þessar tilvitnanir byggjast, að ég held, á þremur aðalatriðum. Í fyrsta lagi eru litlar hömlur á sölu áfengis í þessu landi og þess vegna allt ástand þar gagnstæða þess, sem bannmenn mundu kalla óskaástand í sínu landi. Í öðru lagi eru hagfræðilegar tölur um áfengisneyzlu, þ.e. hreinir alkóhóllítrar á mann á ári, hagstæðar ölfjendum í samanburði við t.d. okkar tölu, eða svo er talið af þeim, sem eru á móti öli, og mun ég víkja nánar að þessum tölum síðar. Að síðustu má benda á það, að allflestir þeirra, sem koma til erlendra þjóða af hinum tiltölulega mikla hóp íslenzkra ferðamanna, koma til Danmerkur. Þar sjá þeir á ákveðnum skemmtistöðum mikla áfengisneyzlu, og frá Kaupmannahöfn heyri ég oftast vitnað í ákveðinn hóp hafnarverkamanna, sem vinna að lestun og losun íslenzkra farþega- og vöruflutningaskipa, og það eru ferlegar sögur sagðar frá þeim, sem ég get allar tekið undir og jafnvel bætt við, svo að ef sagt væri frá, mundu það vera kallaðar ýkjusögur. Þetta ástand er í flestum tilfellum kennt öli, sem ég tel rangt, því að ef satt væri, því er þá ekki sama ástand ríkjandi meðal annarra hafnarverkamanna í Kaupmannahöfn, sem ég veit af reynslu að er ekki? Af hverju sést t.d. aldrei ölvaður hafnarverkamaður eða a.m.k. sárasjaldan t.d. í fríhöfn Kaupmannahafnar, þar sem flestir hafnarverkamenn vinna og áfengt öl er á næsta leiti fyrir þá, eins og annars staðar í Kaupmannahöfn? Af hverju er þetta ástand ekki ríkjandi á öðrum stöðum en þessum eina? Í öðrum hafnarborgum Danmerkur er mjög sjaldgæft að sjá ölvaða menn við vinnu, það er álíka sjaldséð og við höfnina hér í Reykjavík. Ég tel, að þessi ástæða sé nokkuð auðskýrð. Það er staðreynd, að í hverju einasta þjóðfélagi og þar á meðal okkar eru til einstaklingar, sem standa ekki undir sinni samfélagslegu ábyrgð. Þeir valda ekki óhjákvæmilegum þunga lífsbaráttunnar. Orsakir þessa geta verið jafnmargar og einstaklingarnir sjálfir, en afleiðingin verður oft ofneyzla áfengis í einni eða annarri mynd ásamt öllum þeim hörmungum, sem því fylgja. Þessir menn, sem eru burtrækir á flestum vinnustöðum Kaupmannahafnar, hafa haft höfnina til að leita til vegna mikillar fólkseklu þar. Þeir fá ekki vinnu, sem stöðug er, t.d. í fríhöfninni, þar sem óreglusemi þekkist ekki. En íhlaupavinnu fá þeir vegna skorts á fólki, eins og ég gat um, og þannig stendur á því, að á stað þeim, sem flestir íslenzkir menn eiga leið sína um, sjá þeir það langversta, sem til er á vinnumarkaði Danmerkur. Og það er staðreynd líka, að þessir menn drekka sig ekki ölvaða í öli, heldur sterkum vínum, sem eru jafnt ölinu fáanleg á næsta leiti við þessa vinnustaði. Ef vinnuveitandi vildi losa sig við þetta fólk og ekki taka það í vinnu, þá er ekki nema um eitt að ræða, að tefja skipin. Þau mundu ekki stöðvast, því að þess ber auðvitað að geta, að á þessum stað, þrátt fyrir þennan mikla annmarka, þá er þar mikið um gott verkafólk.

En nú væri sjálfsagt að gera samanburð, ef slíkt væri hægt, og það er einmitt hægt. Sá samanburður er frá Gautaborg, þar sem mikil ölvun er oft sýnileg á ákveðnum stöðum við höfnina þar. En mismunurinn er bara sá, að samanburðurinn er frá þeim tíma, þegar enginn sterkur bjór var seldur í Svíþjóð á frjálsum markaði og allt áfengi var skammtað. En þessir hafnarverkamenn t.d. í Gautaborg drukku sig fulla í vinnunni af sænsku brennivíni eða ákavíti, sem þeir höfðu getað fengið hömlulítið eða hömlulaust, og þeir voru sízt betri starfsbræðrum sínum á hinum fyrrnefnda stað í Kaupmannahöfn. Og nú er mér spurn: hvaða öli á að kenna um í þessu tilfelli?

Ef farið er til annarra landa, sem öl hafa á frjálsum markaði, við getum t.d. byrjað á Englandi, þá fullyrði ég, að þar er ekki drukkið meira við hafnarvinnu heldur en hér í Reykjavík, og ég þykist töluvert dómbær um það. Í Bandaríkjunum sér maður aldrei drukkinn mann við lestun eða losun skipa, og ef einn slíkur sést, þá á hann ekki afturkvæmt í sína vinnu, því að hvað sem segja má um siðferðisstig vinnandi fólks í Bandaríkjunum að öðru leyti, þá er slíkt ekki liðið, enda sá vinnumarkaður Bandaríkjanna með þeim betri, sem leitað er til. Í Frakklandi aftur á móti hef ég oft séð vinnandi menn undir áhrifum áfengis, sárasjaldan í Belgíu, næstum aldrei í Hollandi. Slíkt þekkist ekki heldur í höfnum við Miðjarðarhafið. Það þekkist ekki í Rússlandi eða Póllandi eða Austur-Þýzkalandi, þótt hins vegar sé í þessum löndum um mjög mikla og áberandi áfengisneyzlu að ræða í landi.

Ég minnist þess að hafa heyrt talað um það síðast, er bjórmálið var á dagskrá þingsins, fyrir um það bil fimm árum, að vitnað hefði verið til eins stærsta atvinnurekandans í Danmörku, Burmeister & Wain skipasmiðastöðvarinnar, og þar bent á hámark mannlegrar niðurlægingar, vegna þess að verkamenn þar höfðu samningsbundinn rétt til öls með mat sínum, en þeir hafa frían mat í skipasmíðastöðinni. Ég er svolítið kunnugur á þessum stað. Ég vann þar t.d. í þrjá mánuði fyrir aðeins tveimur árum, vorið 1959. Að mikið veikt öl á okkar mælikvarða er drukkið á þessum stað, það skal ég viðurkenna, og ef hv. þm. hefðu önnur dönsk drykkjarföng frá vatni og upp úr til samanburðar, þá mundu þeir kannske skilja, hvers vegna slíkt þorstameðal er notað. En að halda því fram, að hjá þessu fyrirtæki, þar sem ég fullyrði að 99% af öllum starfsmönnum drekki öl, séu menn bæði skjálfhentir, þreyttir og sljóir af öldrykkju, á sama tíma og þar eru fundin upp tæki og vélar og smíðaðar, sem eru eftirsóttastar allra slíkra, hvar sem er í heiminum, það finnst mér vera alveg fráleit kenning, og ég fullyrði, að vinnubrögð á þessum stað, í Burmeister & Wain skipasmíðastöðinni, séu sízt lakari en í sömu greinum hér hjá okkur á Íslandi, öllausa Íslandi.

Ég get ekki varizt því í þessu sambandi að minnast á bæði verkstjóra og vinnuveitendur, sem hafa stigið nýlega fram á hinn vota völl ölmálsins og látið í ljós mikinn ótta um öldrykkju í vinnutíma og slappleika og jafnvel gluggaútstillingar tómra og hálftæmdra ölflaskna. Þessir menn virðast aldrei hafa séð menn daginn eftir ærlega brennivínsdrykkju og kynnzt slappleika og sljóleika þeirra vígstöðva, og ég leyfi mér að segja það, að þeir vinnustjórnendur hér á landi, sem hafa ekki kynnzt þessari hlið okkar áfengismála, þurfa sannarlega ekki að óttast drykkju á áfengu öli í vinnutímanum, öli, sem þyrfti að ná í til áfengisverzlunarinnar. Ef þeir hins vegar láta undan þessari eða annarri áfengisneyzlu eða öðrum vinnusvikum í vinnutímanum, sem undir öllum framkvæmdaformum áfengismála gæti verið reynt að fremja, þá eru þessir menn miklu sekari en neytandinn sjálfur og alls óhæfir til vinnustjórnar. Slík rök gegn áfengu öli tel ég alveg fráleit.

Því hefur verið haldið fram, að 40% allra slysa í byggingariðnaðinum hjá Dönum, held ég, að það hafi verið, yrðu undir áfengisáhrifum viðkomanda og af öldrykkju þeirra. Þessi tala er auðvitað algerlega út í hött, nema með fylgi tala allra slysa, fjöldi manna í iðnaðinum og síðan samanburður, t.d. við öllaust land eins og okkar, en jafnvel þá getur slíkur samanburður verið mjög vafasamur. Ég minnist þess frá fyrri árum, að það var talað sérstaklega um eina stétt byggingariðnaðarmanna, að þeir drykkju mikið öl. Nú heyrist ekki nefnt, að þeir séu öðrum fremri í því. En við þetta hljóta þær spurningar að vakna, hvort þeir hefðu drukkið sterkt vín, ef öl hefði ekki verið fyrir hendi, og ef svo væri, var það betra fyrir þá af tvennu illu, og að síðustu, þegar er um stéttir, hópa innan þeirra eða jafnvel heilar þjóðir að ræða í sambandi við ofneyzlu áfengis, þá hefur oftast nær skýringin verið hér á landi, að áfenginu og nú ölinu væri um að kenna. En má ekki vera, þegar um stéttir hefur verið að ræða í þessu sambandi, að þá hafi þar verið um að ræða bæði kvíða og vonleysi um atvinnulegt og efnahagslegt öryggi, sem réð ofneyzlu áfengis? Geta t.d. hörmungar stríðsins og stöðugur stríðsótti, spilling og öryggisleysi í stjórnarfari, efnahagsleg vandamál nokkuð haft um það að segja, þegar þjóðarheildir eru kenndar við ofneyzlu áfengis? Geta ekki félagsleg vandamál, t.d. hörmulegt húsnæði o.fl., o.fl., verið sá neisti, sem orsaki ofneyzlu áfengis á meðal ákveðinna hópa, hópa, sem kannske sjá aldrei fram undan neina glætu í sinni samfélagslegu vellíðan þrátt fyrir stöðugt og sífellt brauðstrit? Ég hygg, að allir þessir þættir geti stuðlað að því og eigi sinn stóra þátt í því, þótt ég telji hins vegar, að slík ofneyzla sé í stærra mæli bundin persónulegum orsökum, og mun koma nánar að þeim þætti síðar.

Ég hef hér í höndum tölulegar upplýsingar frá ekki ómerkari stofnun en áfengisvarnaráði um áfengisneyzlu norrænu þjóðanna miðað við 100% alkóhóllítra á hvert mannsbarn á ári. Ég mun ræða Finnland sérstaklega síðar í ræðu minni, en ræða nokkru nánar þessar tölur frá hinum löndunum. Nú vil ég strax undirstrika þá skoðun mína, að þessar tölur gefi alls ekki rétta hugmynd um ástand áfengismála í viðkomandi löndum, en ég mun samt sem áður, jafnvel burtséð frá þeirri staðreynd, gera þennan samanburð. Það ber að hafa í huga, að tvær flöskur af við skulum segja 4½% sterku öli á dag, t.d. ein flaska með hvorri máltíð, það svarar til 12 lítra af hreinum vínanda á ári eða rúmlega sexfaldri neyzlu okkar Íslendinga. Þegar neyzlan er svona reiknuð, þá er það enginn mælikvarði á skaðsemdir áfengisneyzlu eða þá hlið hennar, sem varhugaverð er, en það er ofneyzlan. Ég er ekki trúaður á, að það væri nokkurs staðar í heiminum talið, að slík neyzla, jafnvel þótt um 12 lítra ársneyzlu væri að ræða, væri skaðsamleg fyrir einn eða neinn. Eftir þeirri kenningu ætti ekki síður að vera hættulegur t.d. sá bruggdrykkur, sem drukkinn er úr hinum frægu Malto-pökkum, en bindindismönnum á Akureyri þykir sá mjöður góður eftir upplýsingum framleiðandans þar í einu dagblaði Reykjavíkur fyrir stuttu. Ef rétt er, að mjöðurinn verði ekki sterkari en 1½%, þá getur sá, sem drekkur tvö glös með hvorri máltíð á dag allt árið, hæglega komizt í 4–5 lítra af hreinu alkóhóli á ári, en samt talizt baráttumaður bindindis á Íslandi.

Ég vil leyfa mér, með leyfi hæstv. forseta, að lesa hér kafla úr bréfi, sem einu dagblaði bæjarins barst fyrir skömmu og undirstrikar einmitt, hve varasamt sé að byggja málflutning sinn í sambandi við þetta mál á köldum tölum einum saman, en í þessu bréfi segir, með leyfi forseta:

„Í málgagni vestur-þýzka frjálsíþróttasambandsins var fyrir rúmu ári viðtal við þekktasta þrístökkvara Vestur-Þjóðverja þá, Hermann Strauss. Hann hefur verið þekktur og vel metinn íþróttamaður í sínu landi og hefur stokkið langt á 16. m og mun því flokkast undir það að vera afreksmaður. En Strauss er líka ölgerðarmaður. Í þessu viðtali lýsti hann því yfir, að hann drykki daglega tvær flöskur af öli því, sem hér um ræðir. Þetta jafngildir, að hann neyti um 12 lítra af hreinum vínanda á ári, eða um sexfalt meðalmagn hér á landi. Engum mun þó hafa komið til hugar að brigzla þessum manni um áfengissýki eða ofdrykkju. Mýmörg dæmi eru til svipaðs. En það, sem athyglisverðara er í þessu sambandi, er sú fullyrðing, að Íslendingar búi við almennt áfengisböl þrátt fyrir meðalneyzluna 1.9 lítra af hreinum vínanda. Miðað við, að meðalneyzla hér á landi umreiknuð í hreinan vínanda sé 1.9 lítrar, þá mundi öll áfengisneyzla hér á landi svara til þess, að sjötti hver maður hér á landi drykki tvær flöskur af öli á dag á sama hátt og áðurnefndur maður, en engin önnur drykkja ætti sér stað.“

En bréfritari segir: „Hins vegar mætti einnig neyta 12 lítra af hreinum vínanda á annan hátt en sem tvær flöskur af öli daglega. Það mætti láta blanda brennivín úr þeim, og á þann hátt fengjust rúmlega 30 flöskur, 3 pela, af venjulegu brennivíni, sem mun vera rúmlega 40% að styrkleika. Ef neyzlu þess væri hagað þannig, sem nú mun tíðkast, þá mundu að meðaltali koma rúmar tvær flöskur á hvern mánuð ársins. Þannig mætti neyta sama áfengismagns og áður var umrætt, þannig að a.m.k. þrisvar í mánuði drykki viðkomandi hálfa eða ¾ úr flösku á einu kvöldi, en flestir þekkja áhrifin af slíku magni, þegar þess er neytt á einni kvöldstund. Þetta mætti gjarnan taka til athugunar, þegar menn koma fram fyrir alþjóð og reyna að telja henni trú um, að frv. um áfenga ölið sé lævísleg tilraun til þess að steypa þjóðinni í glötun. Hvora tegund drykkjunnar mundu menn telja æskilegri?“

Bréfritari heldur áfram og segir: „Ölið kemur aldrei til að útrýma drykkju hinna sterkari drykkja, þótt leyft verði. En gæti það ekki hins vegar aukið á skynsamlegri meðferð þeirra drykkja, sem innihalda áfengi, umfram það, sem nú er? Ef mark væri takandi á þeirri fullyrðingu, sem að framan er drepið á, að hér ríki almennt áfengisböl, þá er það böl sennilega frekar fólgið í neyzluvenjum en neyzlumagni.“

Þetta sagði umræddur bréfritari.

Það er athyglisvert í þeim áfengistölum um neyzlumagn, sem koma frá Noregi, að þar má segja, að neyzlan sé óbreytt frá ári til árs, þannig að þar hafi engin aukning orðið þrátt fyrir það, að þar er á boðstólum sterkt öl, að vísu með nokkrum hömlum. Árið 1955 var þessi neyzla í Danmörku 3.35 lítrar, en árið 1959 var neyzlan þar komin upp í 3.70 lítra. Aukningin er 0.35 lítrar á þessum tíma. Á sama tíma voru tölurnar hér á Íslandi, 1955 voru þær 1.45 lítrar, en 1959 1.90 lítrar, eða 0.45 lítra aukning af sterkum drykkjum hjá okkur, á sama tíma og aukningin í Danmörku var 0.35, með öllum bjórnum og frelsinu í áfengismálum og með því, sem ég tel eiga sinn stóra þátt í hærri tölu í Danmörku, miðað við okkur, en það er hin gífurlega aukning ferðamanna til Danmerkur á síðustu árum. Ég tel t.d., að þeir þumalputta-ferðamenn, sem hafa komið til okkar, verði ekki sakaðir um aukninguna hér, en mér hefur verið tjáð, þó að ég geti ekki upplýst það, vegna þess að tölurnar lágu ekki fyrir, að ferðamenn, sem komu til Danmerkur á s.l. ári, hafi verið um milljón að tölu, en íbúatala Danmerkur er hins vegar tæpar 6 milljónir. Tekjurnar af þessum ferðamönnum voru 7–8 hundruð millj. danskra króna. Nú hefur Kaupmannahöfn oft verið kölluð París Norðurlanda og það með réttu. Skemmtistaðir hennar draga til borgarinnar ótölulegan fjölda fólks langt fram yfir aðrar borgir. Þá er hún og mikil siglingaborg, og það er mikið af skipum, sem kemur til Kaupmannahafnar og Danmerkur. Kaupmannahöfn er jafnframt mikil loftsiglingaborg. Og ég tel því alls ekki rétt að slá því föstu vegna fyrrgreindra talna, sem ég hef hér rakið, að halda því fram, að Danir séu helmingi verri en við, og það sé tekið eftir fullyrðingum þeirra, sem halda því fram, að við búum við almennt áfengisböl.

Ég hef því miður ekki hlutfall sterkra drykkja í þessum tölum frá Danmörku, en það hef ég hins vegar frá Svíþjóð. Og þar koma athyglisverðar staðreyndir í ljós. Áður en ég bendi á þessar tölur, sem eru frá áfengisvarnaráði, eins og ég benti á, langar mig til að vitna í grein, sem birtist í einu dagblaði bæjarins fyrir skömmu og sýnir bezt, með hvaða vopnum er barizt í þessu máli. Ég læt nafns höfundar ógetið, þótt ekki sé nema vegna afkomenda hans. Þessi spekingur segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Meðan vínveitingar voru takmarkaðar í Svíþjóð og sala áfengs öls bönnuð þar, bar mjög lítið á drykkjuskap og unglingar undir áhrifum áfengis töldust til furðulegra fyrirbæra. En hvað hefur skeð þar, síðan bjórinn var boðinn frjáls um landið? Drykkjuskapur eldri sem yngri hefur stóraukizt, afbrotum fjölgað ískyggilega, vinnuafköstum hrakað, svo að til vandræða horfir í mörgum iðngreinum. Það eru óneitanlega sterkar líkur til þess, að afleiðing bjórsölu hér yrði svipuð eða sízt betri.“

Þetta segir þessi bréfritari. Fljótt á litið mundi ég segja, að hvert orð af þessum fullyrðingum væri rangt, en ég skal þó undanskilja afbrotafjölda. Afbrot t.d. unglinga hafa aukizt um allan heim á síðustu árum, bæði þar sem ekkert öl er, eins og hjá okkur, og eins þar, sem áfengisneyzla hefur minnkað eða staðið í stað eða aukizt. Það er sameiginleg staðreynd. Þessi maður, sem skrifaði þessi orð, sem margir hafa tekið sér í munn síðan, hrósar mikið skömmtun. En hver er svo reynslan hér á landi af skömmtun? Jú, það var talið, að skömmtun sú, sem áður gilti, hefði reynzt einna verst af öllu því, sem gert hefur verið til þess að draga úr vínnautn almennings. Þessi sama reynsla fékkst í öllum löndum, þar sem henni var komið á, þar á meðal í Svíþjóð.

Ástandið í áfengismálum, áður en skömmtun var afnumin og bjór var leyfður, var orðið svo ískyggilegt, að það voru vandaðir og ábyrgir bindindismenn í Svíþjóð, sem sæti áttu í sænska þinginu, sem mæltu með því, að skömmtuninni yrði hætt. En hver er svo sannleikurinn um drykkjuskaparaukninguna í Svíþjóð, eftir að ölið kom á markaðinn? Árið 1952, meðan bannið á öli og skömmtunin var í gildi, var alkóhólneyzla Svía á mann á ári 3.71 lítri, og það er ekkert öl í þessari tölu. Síðan er verstu hömlunum aflétt og bjór leyfður. Hámarkið hækkar og nær árið 1956 4.40 lítrum. En hvað skeður svo? Neyzlan fer minnkandi, og árið 1959 er neyzlan komin niður í 3.76 lítra, eða hér um bil það sama og var, áður en hömlurnar voru afnumdar, og það, sem er enn þá eftirtektarverðara, er það, að af þessari neyzlu eru aðeins 2.90 lítrar sterkt áfengi. Neyzlan á sterku áfengi hefur því minnkað um tæpan lítra á mann á þessum stutta tíma og heildarneyzlan samt sem áður sú sama 1959 og hún var 1952.

Ég hef líka þær upplýsingar, hafðar eftir manni, sem hér var á ferð fyrir stuttu frá bindindisfélagi sænskra ökumanna, að ástand áfengismála hafi stórbatnað í Svíþjóð á síðustu árum, og það virðist mikið bera á milli þessarar fullyrðingar hjá þessum manni og bréfritaranum, sem ég vitnaði í áðan. Þá baráttuaðferð þeirra, sem eru á móti öli, að draga fram ákveðnar tölur, þegar þær henta áróðri þeirra, en fullyrða það gagnstæða við hinar sömu tölfræðilegu staðreyndir, ef samanburðurinn er óhentugur, tel ég engum til gagns, heldur þveröfugt.

Áður en ég vík orðum mínum að Þýzkalandi, sem mun vera talið einkennandi bjórdrykkjuland, vil ég harma, hversu langt við eigum í land með að geta gert tölfræðilegan samanburð við önnur lönd. Ég reyndi t.d. að fá sundurliðaðar afbrotaskýrslur og dóma fyrir líkamsárásir og aðra glæpi, tölur um afbrot unglinga, til að gera samanburð á okkar landi og öðrum. Þær gat ég ekki fengið, en var hins vegar vísað frá Heródesi til Pílatusar. Og það var eftirtektarvert svarið, sem ég fékk hjá áhrifamiklum einstaklingi í læknastétt okkar, þegar ég bað hann um upplýsingar um, hve margir drykkjusjúklingar væru hér á landi. Jú, hann vísaði í heilbrigðisskýrslurnar, en hann bætti því við, að þótt þessar tölur lægju fyrir þar, þá væri ekkert að marka þær, svo að í því tilliti verð ég að fara eftir fullyrðingum þeirra, sem ég nú í seinni tíð tel mjög varasamt að taka trúanlega, en verð nú samt að gera.

Það var upplýst fyrir skömmu af einum af þeim baráttumönnum, sem hafa barizt á almennum vettvangi gegn öli, að tala drykkjusjúklinga væri í Þýzkalandi 250 þús. manns. Honum þótti þetta, sem von var, stórkostleg tala, og það efar enginn, að þarna hafi ekki verið tíundað sem skyldi. Nú býst ég við, að þessar upplýsingar hafi aðeins átt að gilda um Vestur-Þýzkaland, og ég mun ganga út frá, að svo sé. Ef þessi tala er rétt, þá er tala áfengissjúklinga í Vestur-Þýzkalandi tæpt ½% af heildaríbúatölu landsins. Ef þessi prósenttala er yfirfærð á Ísland, þá mætti búast við, að hér væru um það bil 900 drykkjusjúklingar. En hvað segir umræddur gegn-öli-í-landi-maður um það? Hann fullyrti, að hér væru a.m.k. 2000 drykkjusjúklingar. Þegar þessar upplýsingar komu fram í ríkisútvarpinu fyrir skömmu, var enn fastar kveðið að orði og fullyrt, að einn af hverjum tíu, sem smökkuðu áfengi, yrði drykkjusjúklingur. Hér á landi hefur því verið haldið fram, og ég tel, að það sé með nokkrum sanni gert, að 4 af hverjum 5 Íslendingum smökkuðu áfengi í einni eða annarri mynd. Ef við aðeins tökum kosningabæra menn á Íslandi og segjum þá 100 þús., þá eru 4/5 af þeirri tölu 80 þús. manns. Eftir áðurnefndri fullyrðingu ættu að vera hér á landi um það bil 8000 drykkjusjúklingar eða 4.4% af þjóðarheildinni á móti ½% í Vestur-Þýzkalandi.

Hér er því haldið fram, að okkar ástand sé betra, um leið og því er haldið einnig fram, að hér muni skapast ómögulegt ástand í áfengismálum, ef áfengt öl verði leyft. En á sama tíma eru dregnar fram tölur um áfengissjúklinga í Þýzkalandi og hér, eins og ég hef þegar bent á.

Þessar háu tölur, sem koma sem alkohólneyzla á mann í þeim löndum, sem mikils öls neyta, eru ekki hærri en raun ber vitni um í Þýzkalandi, með tilliti til þess, sem ég hef áður sagt um neyzluvenjur, en sem nemur á fjárhagsárinu 1960–61 7.2 lítrum af hreinu alkohóli á mann, eða sama og ca. hálf ölflaska af meðalsterku öli á hvern íbúa á dag. Þetta skeður á sama tíma og í landinu, Vestur-Þýzkalandi, dveljast hartnær 3 millj. útlendinga, hermenn og skyldulið þeirra, hverra neyzla kemur í stórum mælikvarða inn í innanlandsneyzluna, t.d. mestöll bjórneyzla þeirra. Á sama tíma og þetta skeður, þ.e. á þessu sama fjárhagsári, sem ég vitnaði í, komu yfir 10 millj. erlendra ferðamanna til landsins eða sami fjöldi og fimmtungur þjóðarinnar. Það vita allir um þorsta ferðamanna, a.m.k. íslenzkra, þegar þeir koma á erlenda grund. Þetta skeður á sömu árum og kaupmáttur launa í þessu landi, miðaður við vinnumínútur, eykst um tæp 40%, en vinnutími vísitölubúsins þar var árið 1950 8 tímar og 6 mín., en 1956 var hann orðinn 5 tímar 56 mín., sem ásamt mörgu öðru hefur skapað alveg nýja lifnaðarhætti í Þýzkalandi síðustu árin, og þrátt fyrir síaukið sparifé almennings hefur þessi öra velmegun aukið eyðslu manna í mat og drykk, fatnað, bíla og heimilistæki alls konar. Það hefur þannig verið reiknað út, að eyðsla verkamannafjölskyldu með fjóra meðlimi hafi verið árið 1950 285 vestur-þýzk mörk, en 1957 er hún orðin 538 mörk, og eyðsluaukningin stafar aðeins að litlu leyti af verðhækkunum, en að langmestu leyti af auknum kröfum um að njóta þeirra gæða, sem lífið hefur að bjóða, og það er staðreynd, að einn þáttur í þeim gæðum er, að Vestur-Þjóðverjar vilja hafa möguleika til að geta drukkið áfengt öl.

Ég segi í grg. með frv., að fullyrðingin um áhrif öls á unglingana virðist haldlítil, þegar á það sé bent, að hvorki peningaleysi né hömlur virðist forða frá því, að unglingar komist yfir eldsterkt, óhollt og hrátt brennivín eða aðra slíka drykki, allt að 60% sterka, sem þeir síðan blanda með sætum og kolsýrðum vökva, sem feli áfengisbragðið algerlega, en flytji áfengisáhrifin svo að segja á svipstundu út um allan líkamann, enda liggi sú staðreynd fyrir, að á sama tíma og öl sé forboðinn ávöxtur á Íslandi, aukist vínneyzlan með hverju ári, bæði sú, sem sjáist í skýrslum, og einnig hin, sem aldrei sjáist öðruvísi en í raun. Glæpir vaxi, afbrotum fjölgi, sívaxandi drykkja meðal unglinga valdi stórauknum glæpafaraldri, meðal þeirra slysum og jafnvel manndrápum. Á s.l. ári minnkaði að vísu nokkuð lítrafjöldi sá á mann, sem ég hef áður nokkuð um rætt, en ég hef þegar getið um það, sem ég tel vera meginástæðuna til þess. Ég tel, að neyzlan sjálf hafi ekki minnkað, eða a.m.k. má fullyrða, að ómenningarblærinn á neyzluvenjunum sé sá sami og verið hefur.

Mér finnst rétt að bæta því við í þessu sambandi, að sú staðreynd er vel kunn, að áfengur bjór á ekki við bragðsmekk unglinga. Þeir vilja heldur áfengisblöndu í sykruðu kolsýruvatni, eins og dæmi sanna hér á landi eins og alls staðar annars staðar, og um frekari hættur unglinga vegna þessarar tegundar áfengis, miðað við sama sölufyrirkomulag, vísa ég til þess, sem ég hef þegar sagt um skoðanir mínar á sölumeðferð allra áfengra drykkja.

Ég hef í þessu máli mínu leitazt við að mótmæla ýmsum hugmyndum manna, sem hefur verið haldið á lofti um áhrif öls á einstaklinga, hópa og jafnvel þjóðir, og draga fram staðreyndir um hið gagnstæða, sem ég mun koma að síðar.

Þegar rætt er um áfengi og ofnautn þess, má segja, að þar hafi margir um fjallað, sem hafi það eitt sammerkt, að þeir virðist vita, að þeir viti bezt. Það má vel vera, að ég verði flokkaður í þeim hópi. En hins vegar má flokka efnislega skoðanir manna niður nokkuð nákvæmt og segja þannig, að til sé hópur manna, sem telji, að öll neyzla áfengis sé hættuleg, og annar fjölmennari hópur, sem telji, að ofneyzla áfengis sé það, sem hættulegt sé, og lifi samkvæmt þessari skoðun sinni og virðist ekki síður vera nýtir þjóðfélagsborgarar en hinir. Ég skal í þessu sambandi fúslega viðurkenna, að það væri æskilegast fyrir allar þjóðir heims og þar á meðal okkur Íslendinga, að þær þekktu ekki áfengi og hefðu það þar af leiðandi aldrei um hönd, en svo ætti þá að vera um marga aðra hluti. Ég hef hins vegar bent á þá skoðun mína, og ég tel, að sú skoðun hljóti að vera ríkjandi hjá mörgum hv. þm., að við getum ekki sniðgengið þá staðreynd, að neyzla áfengis muni eiga sér stað hér á landi um mörg ókomin ár, og í samræmi við þá staðreynd og það, sem ég hef áður sagt, tel ég, að bann á öli sé byggt á úreltum skoðunum um varnir gegn ofneyzlu áfengis.

Ég hef haldið því fram opinberlega áður og geri það hér, — ég held því hiklaust fram, að þegar rætt sé um áfengissjúkdóma og áfengissjúklinga, þá sé allt of oft gripið til hinna nærtæku og handhægu skýringa að telja áfengið orsökina, en ekki afleiðinguna af ýmiss konar hugsýki, eins og ég hef orðað það áður, sálrænum kvillum og jafnvel félagslegum vandamálum. Ég skal strax taka það fram, að þetta er alls ekki einhlítt, heldur getur ofneyzla áfengis bæði verið orsök og afleiðing, og þegar svo sé, þá skapist vítahringur, sem hafi í för með sér endurteknar gagnverkanir, og það er einmitt þess vegna, sem ég er fylgjandi því, að hér sé haldið við vissum hömlum, bæði í sölu og dreifingu og meðferð áfengis hér á landi. Ég mun nú fara nokkrum orðum um þessa skoðun mína og leitast við að finna rök fyrir henni.

Það er ekki lengra síðan en um það bil 20 ár, að heilsa manna var einkum miðuð við líkamlega heilsu. Þá voru talin algild sannindi, að heilbrigð sál fylgdi hraustum líkama. Það var í síðustu heimsstyrjöld, að augu manna opnuðust fyrir því, að þetta væri langt frá því að vera algild sannindi og alls ekki að treysta, og sú staðreynd var fljótlega viðurkennd, að sár og ígerðir, sem hlutust af morðtólum styrjaldarinnar, væru ekki það hættulegasta, heldur það stríð, sem háð var í hugum manna, alls konar hugsýki, og eftir að síðustu heimsstyrjöld lauk, var hugtakið heilbrigði endurskoðað. Það voru 64 þjóðir innan Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar, sem álitu þá, að heilbrigði fæli í sér fullkomna líkamlega, andlega og félagslega vellíðan. Með þessari stefnuyfirlýsingu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar var viðurkennd sú hætta, sem einstaklingum og þjóðfélögum stafar af sjúkdómum, sem rekja má til sálarlífsins, og sannanirnar hafa ekki látið standa á sér. Bæði sál- og geðlæknar halda því fram, að af hverjum 100 sjúklingum, sem til læknis leita, þjáist a.m.k. 30–40 þeirra að einhverju eða öllu leyti af huglægum kvillum, t.d. kvíðni eða líkamlegum þjáningum, sem stafa eða eiga sér sálræna orsök, og það eru margir læknar, sem telja, að þessi hundraðshluti sé miklu hærri. Þegar hefur verið talað um slíka sjúkdóma, sálarlífssjúkdóma, hefur þeim venjulega verið skipt í tvo aðalflokka, hugsýki og geðveiki, og það er kannske vegna nafnanna eða af öðrum orsökum, sem mikil andúð hefur stafað, bæði hjá lærðum og leikum, gegn því að viðurkenna sjúkdóma af slíkum orsökum. Það er í nýútkominni mjög aðgengilegri bók fyrir almenning eftir Karl Strand lækni fjallað um ýmis vandamál sálsjúklinga og þó einkum þeirra, sem þjást af hugsýki, og leyfi ég mér að vitna til orða hans um það efni. Hann segir m.a., með leyfi forseta:

„Sálfræðingar og geðlæknar hafa skilgreint sjúkdómsmynd hugsýkinnar sem afleiðingu ákveðinna tilrauna einstaklingsins til að komast hjá sérstökum tilfinningalegum vandamálum, ná á þeim tökum eða vega á móti þeim. Hún er tilraun til málamyndunar og verndunar persónuleikans.

Sameiginlegt þessum fyrirbærum er vanmætti eða mistök á að ráða við þá hugkreppu, sem til grundvallar liggur, ótti við vandamálið og kvíði fyrir afleiðingum þess.

Þetta sambland af ótta og kvíða, sem á rót sína að rekja í dulvitund sjúklingsins, nefnist kvíðni, og talið er, að hún sé sá möndull, sem hugsýkin snýst aðallega um. Sjúklingurinn grípur til ýmissa örþrifaráða gegn kvíðni sinni, því að í sjúkdómsmyndinni fléttast oft saman andleg og líkamleg einkenni, og því fylgir oft í kjölfarið ýmiss konar hátternisbreyting og þ. á m. ofneyzla áfengis.“

Þar sem ég hef tekið hér upp ákveðinn kafla úr þessari bók og þar er minnzt á þessa kvíðni, vil ég leyfa mér að benda jafnframt á það, hvernig þessi umræddi höfundur skilgreinir það hugtak. Hann segir:

„Kvíðni er hræðslukennt þensluástand, sem gefur til kynna, að einstaklingnum sé hætta búin. Í venjulegum ótta er tíðast óttavaldur,“ segir hann, „t.d. óvinur eða refsing, en í kvíðni er óttavaldurinn oft ímyndaður eða óraunverulegur og oftast dulvitaður.“

Hann heldur áfram og segir: „Kvíðni er höfuðþáttur í flestum huglægum vandamálum og kvillum og hefur víðtæk áhrif á hátterni manna og getur skapazt á hvaða aldursskeiði sem er. Sálfræðingar hafa dregið saman einkenni hugsýkinnar í sex flokka eða kerfi eftir athuganir á hátterni sjúklinganna. Þessir flokkar nefnast: 1) kvíðni, 2) fælni, 3) árátta og þráhyggja, 4) hugþreyta, 5) sút og þunglyndi og 6) sefasýki. Sálfræðingar sjálfir viðurkenna þó ósamræmi í flokkunaraðferðinni, þegar horft er á önnur og einangruð hugsýkisfyrirbæri, sem hafa afmarkað viðbragðssvið, eins og t.d. sjúkleg neyzla áfengis eða kynvilla. Í báðum þessum tilfellum er um hátterni að ræða, sem vafalítið má í flestöllum tilfellum rekja til huglægs uppruna. Og það sama má bæði segja um það, sem kallað hefur verið sadismi og exhibitionismi.

Viðbragðsform í þessum sjúkdómsfyrirbærum,“ heldur þessi geðlæknir áfram, „mælir með, að þau séu talin sérstakur flokkur hugsýki, en huglæga sjúkdómsmyndin er hins vegar oft samkynja þeim, sem finnast í öðrum fyrirbærum, eins og dulkvíðni.

Gott dæmi upp á þetta,“ segir þessi læknir, „telja sálfræðingar sjúklega neyzlu áfengis, þar sem kvíðni er meginaflið í framvindu sjúkdómsins.“

Þegar við lítum á þær læknisfræðilegu kenningar, sem nú hefur nokkuð verið drepið á, mun sú staðhæfing koma fljótt fram, er bendir á, að sjúkleg ofneyzla þurfi ekki endilega að vera bundin við áfengt öl eða sterk vín, hún geti komið fram á miklu víðara sviði. Þetta er öldungis rétt, enda bent á það af læknum, að slíkt geti einnig komið fram í ofneyzlu lyfja og matar. Ég hef hér hjá mér annars vegar frétt úr dagblaði um misnotkun lyfja, hins vegar grein í vikuritinu Time um ofneyzlu matar og mataræði. Í Þjóðviljanum segir þann 6. jan., með leyfi hæstv. forsetu :

„Misnotkun lyfja er ein af helztu sjúkdómsorsökum í Danmörku, eftir því sem sagt er í grein í danska læknablaðinu. Greinina skrifa tveir læknar, prófessor Krarup og Harvald. Athuganir, sem þeir hafa gert, leiddu í ljós, að um 6% af sjúklingum, sem lagðir eru á lyflækningadeildir sjúkrahúsa í Kaupmannahöfn, hafi veikzt vegna misnotkunar á lyfjum. Slík misnotkun er næstalgengasta sjúkdómsorsök hjá sjúklingum, sem á lyflækningadeildum liggja.

Það eru ekki hvað sízt nýrnasjúkdómar ýmsir, sem orsakast af misnotkun lyfja, og bendir margt til, að þeir stafi oft af ofnotkun kvalastillandi lyfja, eins og t.d. fenacetins og skyldra lyfja. Hingað til hafa þessi lyf fengizt í Danmörku sem reyndar einnig hér á landi án lyfseðils, en nýlega var þar ákveðið, að þau megi aðeins selja gegn lyfseðli.

Þá er talin ástæða til að ætla, að magablæðingar stafi a.m.k. stundum af ofnotkun lyfja, sem innihalda salicylsýru, eins og t.d. aspirín. Almenn vanlíðan, höfuðverkur, blóðleysi, þreyta stafar oft af mikilli notkun bæði kvalastillandi og róandi lyfja, en notkun síðarnefndu lyfjanna hefur farið mjög vaxandi á seinni árum.

Í forustugrein hins danska læknablaðs er einnig fjallað um þetta mál, og segir þar m.a.: „Læknar hljóta að veita þessu máli athygli og maður verður að vona, að landsmenn almennt geri sér grein fyrir því, að dagleg notkun kvalastillandi og róandi lyfja er ekkert hégómamál. Það lítur út fyrir, að þessi lyf séu að verða ein af helztu sjúkdómsorsökum hér á landi.“

Þetta var úr hinu danska læknablaði.

Svo heldur áfram þessi frétt í Þjóðviljanum 6. jan.:

„Einnig í Svíþjóð hefur verið varað við ofnotkun fenacetinslyfja. Í læknablaðinu hafa læknarnir Gunnar Melin og dr. Hariet Sandring birt niðurstöður rannsóknar á sjúkdómum af völdum misnotkunar fenacetins. Þeir segja, að á árunum 1957–1959 hafi á Mölndals-sjúkrahúsi verið 28 sjúklingar, sem veikzt höfðu af of mikilli neyzlu fenacetins. Allir höfðu þeir fengið nýrnasjúkdóma, fjórir þeirra svo hættulegan, að hann varð þeim að bana.“

Þetta var fréttin úr Þjóðviljanum.

Í áðurnefndu eintaki af tímaritinu Time frá 13. jan. segir í mjög fróðlegri grein um lífeðlisfræðing og rannsóknir hans, en þar eru einmitt birtar niðurstöður af rannsóknunum, en þær eru í stórum dráttum þær, að Bandaríkjamenn bæði éti of mikið og þeir éti of mikið af fitu. Í grein þessari segir, með leyfi forseta:

„Oftast stafar of mikil neyzla matar frá sálrænum þvingunum. Ofneyzlan getur m.a. orðið til vegna vonleysis, þunglyndis og öryggisskorts.“ Og nokkru síðar segir í grein þessari: „Matur getur verkað eins og deyfilyf, sem gefur huglægum kvillum stundarró, alveg eins og áfengi gerir fyrir suma.“

Í þessari grein segist lífeðlisfræðingurinn telja ofát Bandaríkjamanna í heild aukaatriði í samanburði við það, sem valdi honum áhyggjum, en það er sá skyldleiki, sem sé milli ýmissa fæðutegunda og þess sjúkdóms, sem þar er kallaður þjóðarmorðingi nr. 1, en það mun vera sú tegund hjartasjúkdóma, sem nefnd hefur verið kransæðastífla og veldur nú helming allra dauðsfalla, sem verða af hjartasjúkdómum í Bandaríkjunum, og drepur a.m.k. hálfa milljón Bandaríkjamanna árlega, eða tvisvar sinnum fleiri en deyja af öllum tegundum krabbameins þar og fimm sinnum fleiri en dauðaslysin, sem bílar valda. Þessi lífeðlisfræðingur telur sig hafa sannað með þrotlausum rannsóknum og hagfræðilegum staðreyndum, að ofneyzla vissra matartegunda sé hinn ógnarlegi bölvaldur.

Hvaða ályktanir má nú draga af þessum dæmum, sem ég hef hér dregið fram? munu margir spyrja. Ef líking væri dregin af afstöðu sumra ofstækismanna til áfengs öls, þá ætti að banna allan mat og öll lyf. En þótt svo djúpt sé ekki tekið í árinni, heldur t.d. bannið aðeins bundið við ákveðnar fæðutegundir, t.d. þær, sem þessi vísindamaður telur að valdi kransæðastíflu, áður lýstum bölvaldi, skyldi þá ekki sumum hér inni í hv. þd. stökkva froða um vit, þegar bent er á, að þessar fæðutegundir eru að langmestu leyti kjötmeti, mjólk og mjólkurafurðir?

Slík bönn eins og bann á öli tel ég auðvitað með öllu óraunhæf. Ég hef þegar lýst skoðunum mínum á því, hvers vegna ég vilji ekki bann á neinni tegund áfengis, heldur aðeins vissar hömlur á sölu allra tegunda þess. Og í framhaldi af því og öðru máli mínu finnst mér ég vera að nokkru leyti skyldugur til þess að benda á þau úrræði, sem ég telji, að til varna megi verða til þess að fyrirbyggja ofneyzlu áfengis og einnig til þess að lækna þá einstaklinga, sem sjúkdóminn hafa tekið og munu taka. Kannske skyldugur vegna utanaðkomandi áskorana og vegna fráleitra fullyrðinga um ímyndaða þjónustu við ímyndað áfengisauðmagn og aðra þess háttar vitleysu, sem aðeins getur orðið til í hugarórum sálsjúklinga, og skyldugur vegna þess, að heimild sú til bruggunar á áfengu öli, sem þetta frv. felur í sér, hefur verið nátengd áfengismálunum í heild í öllum umræðum manna á meðal og jafnvel haldið fram af sumum, að samþykkt þess muni jafnast á við pest svartadauða á sínum tíma, þá hef ég nú sjálfur við framsögu málsins kosið að ræða það frá sem flestum hliðum, eins og ég tók fram í upphafi máls míns. Ég vil þó taka það strax fram, að ég er ekki að benda á nein ný sannindi, heldur staðreyndir, sem hafa verið kunnar um langt skeið, og staðreyndir, sem hefur verið unnið eftir og það með góðum árangri.

Ég tel, að verkefni slíkra varna yrði að vera tvíþætt, til að fyrirbyggja orsökina annars vegar og til þess að létta og lækna þjáningar afleiðinganna hins vegar. Ég tel, að grundvöllinn eigi að leggja og byggja á strax í æsku barnsins, eða strax við þessa persónuleikasköpun á að móta afstöðu barnsins til áfengis, alveg eins og við gerum t.d. um trúmál. Þessu ætti auðvitað að halda áfram með aðild foreldra og skóla, sem sjá um hina þjóðfélagslegu aðlöðun barnsins, og þegar kemur fram á unglingsárin, sem eru oft og tíðum erfiðasta tímabilið í lífi mannsins, ber að hafa það í huga, að í kringum 15 ára aldur eru unglingar oftast búnir að taka eða yfirleitt búnir að taka út fullan greindarþroska. Tilfinningalífið heldur áfram að breytast og breytist að vísu alla ævi, en sálfræðingar hafa bent á þá staðreynd, að unglingurinn sé þrátt fyrir kunnáttu sína í ýmsum fræðigreinum bæði barn að reynslu og tilfinningaþroska, sem bæði langar til þess að sanna manndóm sinn, kunnáttu og sjálfstæði, en er samt sem áður uggandi um hæfni sína. Þeir benda einnig á, að það sé táknrænn háttur í allri lífsviðleitni unglinga að skoða og prófa og þreifa sig áfram og velja og hafna, og kannske þess vegna, eins og margir benda á, er það, sem höft og bönn, leyndardómurinn mikli í sambandi við áfengismál, séu svo hættuleg sem þau eru fyrir unglingana. Ég tel, að tómstunda- og félagsheimili ýmiss konar og íþróttastarfsemi undir stjórn vandaðra og fórnfúsra leiðbeinenda sé það þýðingarmesta, sem þjóðfélagið geti gert fyrir þegna sína á þessu tímabili ævinnar. Og það skal tekið fram hér, að á þessu sviði er þegar unnið mikið starf af fórnfýsi og góðum hug, sem því miður verður minna úr en skyldi vegna fjárskorts, sem ég tel þó vafasama ástæðu og allhjárænulega, ef samanburður er gerður annars vegar á togarakaupum og skurðgrefti í sveit, en hins vegar uppeldi æskunnar með það að höfuðmarkmiði að skapa henni, sem og öðrum þegnum þjóðfélagsins, líkamlega, andlega og félagslega vellíðan. Ég tel happasælast meðal fólks, sem hefur náð fullorðinsaldri, ef skapa mætti meðal þess þá almennu skoðun, að ofneyzla áfengis væri vanvirðingarathöfn jafnt fyrir einstaklinga sem fyrir hópa. Það þarf, eins og raunar svo oft hefur verið bent á, að byggja upp sterkt almenningsálit, sem fordæmi siðleysi, sem samfara er ofnautn áfengis og því miður er nú ekki talið ámælisvert í huga þjóðarinnar, en á samt sem áður eina stærstu sök á því ástandi, sem nú ríkir í áfengismálum. Skynsamleg og ofstækislaus áfengislöggjöf, ásamt aðgerðum þess opinbera í sama anda, er nauðsynleg til þess að ná þessu marki, og munu flestir mér sammála um það. Um hitt má deila, hversu mikil skerðingin á frelsi manna skuli vera vegna lagaákvæða, sem nauðsynlegt hefur verið talið að setja til þess að ná þessu setta marki. Ef það kemur í ljós hins vegar, að slík ákvæði vinni í beinni andstöðu við þann tilgang, sem ætlaður var með áfengislöggjöfinni, eins og ég held fram að ölbannið geri, þá ber tafarlaust að nema slíka þjónustu við ofstækið úr gildi. Ég tel einnig, að það opinbera, ríki og bær, ásamt áhrifamiklum einstaklingum í slíkri þjónustu og helzt utan eigi að ganga á undan með góðu fordæmi, verandi síminnugir máltækisins: Hvað höfðingjarnir hafast að, hinir ætla sér leyfist það.

Ég hef nokkuð minnzt á skoðanir mínar um, hvað ég telji heppilegustu leiðir til að vinna gegn ofneyzlu áfengis. Hvað þeim viðvíkur, sem eru eða kunna að verða sjúklingar og neyta áfengis í óhófi, þá tel ég, að skilyrðislaust eigi þeir sjúklingar að eiga kost á spítala- eða hælisvist, meðan lækning fer fram. Í þeim málum eru ýmsar nútímaaðferðir á lofti, og það er sammerkt með öllum þeim aðferðum, sem ná árangri, að þá liggur til grundvallar viðurkenning þeirrar staðreyndar, að áfengi sé fyrir hendi í einni eða annarri mynd og það sé hægt að ná í það, ef vilji sé fyrir hendi, þótt hömlur séu á. Allar læknisaðferðir þessar eru byggðar á einhvers konar sállækningu, en hún er, eins og sálfræðingar hafa skilgreint hana, fólgin í endurheimt og endurskipulagningu á eigindum persónuleikans, nýrri tilraun til aðlögunar í stað þeirrar, sem mistókst, nýrri hagnýtingu gáfna og persónuþátta, sem sjúklingurinn verður að leggja til sjálfur. Það eru ýmsar stefnur uppi um það, hvaða leiðir séu heppilegastar til sállækninga, og ég mun ekki fara nánar út í það, en ég minni á það, að allsherjarlausn til lækninga þeim, sem þjást af sjúklegri ofneyzlu áfengis, er ekki til, því að orsakir og afleiðingar geta verið jafnbreytilegar og einstaklingarnir sjálfir, og það þyrfti hjá hverjum einum að finna það sandkorn, sem fyllti hans mæli.

Í framhaldi af þessu vil ég að lokum benda á tvö atriði, sem sameiginlega geta gert meira en nokkuð annað til að finna og fyrirbyggja þær orsakir, sem leiða til sjúklegrar neyzlu áfengis eða sjúklegrar ofneyzlu bæði fastra og fljótandi efna, og þær hættur, sem því eru samfara, en það eru stöðugar, hlutlausar vísindalegar rannsóknir og þrotlaus fræðsla um niðurstöður þeirra. Ég vil undirstrika sérstaklega þessi orð mín: hlutlausar vísindalegar rannsóknir, — ekki ofstækislegar fullyrðingar eða rangar ályktanir og jafnvel vísvitandi rangar fullyrðingar. Allur áróður, sem er byggður á slíkum forsendum, verður engum til góðs.

Ég minntist á það fyrr í ræðu minni, að ég mundi ræða um Finnland sérstaklega síðar. Ég geri það af því tilefni, að einn af þeim, sem hafa látið til sín heyra að undanförnu sem andstæðingar áfengs öls, fullyrti eða lét liggja að því í orðum sínum, að í Finnlandi hefði verið komizt að þeirri niðurstöðu, að öl væri miklu óheppilegra til drykkjar en brennivín. Að því sem ég hef næst komizt, hefur ályktun þessa manns verið dregin af minni háttar rannsóknaratriði, sem kom í ljós eins og svo margt fleira í víðtækum, vísindalegum rannsóknum, sem miðuðu að því að fá úr því skorið, hvaða áfengispólitík væri skynsamlegust fyrir Finna. Ég hef haft í höndum útdrátt úr því helzta, sem skeði á þriðja Norðurlandaþingi sálfræðinga í Helsingfors 1953. Á þessu þingi flutti dr. phil. Marti Takkala, sem nú er prófessor við háskólann í Helsingfors og er talinn meðal fremstu í sinni röð af þeim, sem nú eru uppi, fyrirlestur um rannsóknir þessar, sem voru gerðar undir hans stjórn að nokkru leyti á árunum eftir 1950. Einn íslenzkan sálfræðing þekki ég, sem fylgdist náið með þessum rannsóknum og sat umrætt þing og átti þá viðtöl bæði við umræddan prófessor og einnig Fagerholm, kunnan finnskan stjórnmálamann og forstjóra áfengisverzlunarinnar í Finnlandi, og raunar fleiri, sem höfðu unnið að þessum rannsóknum. Þegar bjórmálið svokallaða var síðast fyrir Alþingi, bauð þessi sálfræðingur ríkisútvarpinu erindi um þessar hlutlausu vísindarannsóknir, hélt kannske, að ríkisútvarpið íslenzka mundi vilja styðja að hleypidómalausu mati manna á þessum málum og til þess gæti þessi vísindafróðleikur stuðlað. Svar útvarpsins var hins vegar: Nei, við getum ekki tekið þetta erindi, því að þá verða templarar snarvitlausir. — Hvort þetta hefur verið rétt hjá umræddum starfsmanni útvarpsins, það læt ég alveg ósagt um, legg engan dóm á það. En mér var lánað handrit af þessu erindi, og vil ég leyfa mér, með leyfi hæstv. forseta, að fara nokkuð í þetta erindi nú, þegar ég fer að ljúka máli mínu, vegna þess að þar eru merkilegar staðreyndir, sem fram eiga að koma.

Höfundurinn byrjar á því að benda á erfiðleika þá, sem Finnar áttu í, eftir að síðustu heimsstyrjöld lauk, og þau grettistök, sem þeir lyftu á sínum uppbyggingarárum. Síðan segir hann orðrétt, með leyfi forseta:

„Fyrstu árin, eftir að heimsstyrjöldinni lauk, var mikið um verkföll í Finnlandi. Óánægja var almenn, og kom það einnig í ljós, þegar athugaðar voru útflytjendaskýrslurnar. Á þeim árum hurfu margir til Svíþjóðar og settust þar að. Ekkert gat verið Finnum hættulegra, eins og á stóð, en innbyrðis ósamkomulag. Viðfangsefnin kröfðust sameiginlegra átaka, en ekki sundurþykkju. Eitt af því fyrsta, sem gert var til þess að bæta samlyndið á vinnumarkaðnum, var að koma á fót stofnun, sem sjá skyldi um menntun verkstjóra. Iðnaðarmenn áttu forgöngu að þessari umbót, enda kreppti skórinn mest, hvað gott samkomulag snerti, innan ýmissa iðnaðarfyrirtækja. Er það eðlileg afleiðing þess, að á slíkum vinnustöðvum verður fjöldinn jafnan mestur og persónulegt samband yfir- og undirmanna minnst.

Um sömu mundir var komið á fót stofnun, sem kalla mætti á íslenzku vinnuheilbrigðisstofnun. Við stofnun þessa, sem er hin fullkomnasta í sinni röð í Evrópu, vinnur fjöldi vísindamanna. Þar eru verkfræðingar, læknar, sálfræðingar, félagsfræðingar, efnafræðingar og hagfræðingar, auk fjölda aðstoðarmanna. Segja má, að þessari stofnun sé ekkert mannlegt óviðkomandi. Meðal rannsókna, sem þegar hafa verið gerðar, eru rannsóknir á áhrifum alls konar starfa á heilbrigði manna, athuganir á vinnustöðunum sjálfum, alls konar vinnuskilyrðum, t.d. sæti, ljós og loft, rannsóknir á atvinnusjúkdómum hafa verið gerðar, hæfniprófanir framkvæmdar, vinnufatlað fólk hefur verið rannsakað og því kennt í samræmi við hæfileika og starfshreysti. Slysni bílstjóra hefur verið rannsökuð og fundnar ýmsar orsakir til umferðarslysa. Loks hafa nokkrir af sérfræðingum stofnunarinnar ráðizt í það í samráði við stofnun, sem hefur það hlutverk eitt, að rannsaka á vísindalegan hátt, hvaða áhrif áfengi hefur á fólk. Stjórn stofnunarinnar er skipuð þjóðkunnum vísindamönnum og auk þess aðalforstjóra áfengisverzlunarinnar, K. A. Fagerholm, forseta finnska þingsins. Í starfsáætlun þeirri, sem samin var, áður en stofnunin tók til starfa, stendur m.a.:

„Áfengisvandamálið er, eins og kunnugt er, eitt hinna erfiðustu og mest aðkallandi allra félagslegra og mannlegra vandamála í Finnlandi. Ákvarðanir, sem teknar verða í þessu máli, má ekki byggja á tilfinningasemi og ekki heldur á pólitískri valdaaðstöðu, en aðeins á hlutlægum, vísindalegum sannleika. Margar vísindagreinar, og þó einkum læknisfræðin, sálfræðin, félagsfræðin, líffærafræðin og lögfræðin, verða að gera sitt bezta til þess að varpa ljósi yfir hinar ýmsu hliðar þessa mikla, mannlega vandamáls.“

Hinn 28. des. 1949 var rannsóknastofnun áfengisvandamála stofnuð, og stofnun hennar var staðfest af dómsmálaráðuneytinu 20. jan. 1950. Síðan hefur verið unnið af kappi að alls konar rannsóknum í þessu sambandi.“

Og nokkru síðar er sagt um þessar rannsóknir:

„Rannsóknir hafa verið gerðar á aukningu alkohólmagnsins í blóði og mænuvökva, eftir því sem drykkja eykst. Blóð áfengissjúklinga hefur verið rannsakað með ýmsum aðferðum, enn fremur blóð manna, sem látnir eru drekka ýmsar tegundir áfengis. Rannsókn á eiturlyfjanotkun hefur verið gerð, rannsókn á áfengisneyzlu og kynsjúkdómum, rannsókn á áfengisnautn og afbrotum, rannsókn á áhrifum antabus, áhrif leynisölu á heilsu manna og félagslega sviðið, áhrif opnunar nýrra vínbúða á áfengisnautn og loks hegðun fjöldans undir áhrifum áfengis.

Skoðanir höfðu verið allskiptar um það, hvort heppilegra væri að gera fólki sem erfiðast fyrir við að afla áfengis eða hvort rétt væri að gera aðganginn að því sem greiðastan, bæði til þess að koma í veg fyrir brugg og leynisölu og eins til þess að æra ekki upp í þeim tilhneigingu manna að vilja helzt ná í það, sem erfiðast er að afla.“

Síðan segir höfundur þessa erindis frá ýmsum rannsóknum, sem fóru fram í þessu sambandi, og það voru þrír sérfræðingar, sem sérstaklega unnu að því að finna út, hver mundi verða heppilegasta lausnin í áfengismálum. Þeir athuguðu bara vísindalegu hliðina, og svo var það fyrrnefnd áfengisvarnanefnd, sem dró ályktanir af þeirra starfi, og þeir fundu það út, að heppilegasta lausnin á áfengismálunum væri sú að hafa létt vín og öl sem allra víðast til sölu, enda hafa bæði blóðrannsóknir og rannsóknir á hegðun fjöldans undir áhrifum áfengis staðfest þá skoðun. Rannsóknir á hegðun manna undir áhrifum áfengis gerði hinn áður nefndi dr. Takkala, sem er starfsmaður vinnuheilbrigðisstofnunarinnar, ásamt öðrum lækni. Síðan kemur löng frásögn af þessum rannsóknum, og vil ég að síðustu lesa niðurlag þessa erindis, sem ég hef vitnað í:

„Hegðun mannanna flokkuðu vísindamennirnir eftir svo nefndu Bales-kerfi, en einnig eftir kerfi, sem þeir höfðu fundið upp sjálfir. Bæði kerfin fela í sér mat á orðum og gerðum manna. Sem dæmi má nefna, að því var veitt athygli, hvort menn töluðu um sjálfa sig og mæltu í játningartón, prédikuðu siðferði, ræddu kynferðismál, voru ádeilugjarnir, hrósuðu sjálfum sér, gerðust háværir, misstu tök á efninu, endurtóku oft hið sama, komust í mótsagnir við sjálfa sig, töluðu ógreinilega eða sýndu beina árásarhneigð.

Neikvæð viðbrögð manna jukust, eftir því sem þeir drukku meira. Þó var hin neikvæða afstaða alleinstaklingsbundin. Munur á viðbrögðum þeirra, sem drukku brennivínsblöndu og öl, var mikill, þótt vínandaprósenturnar væru alltaf þær sömu í því, sem neytt var. Þeir, sem drukku brennivínsblönduna, sýndu meiri tilfinningar, og einkum bar meira á árásarhneigð hjá þeim heldur en hinum, sem drukku ölið. Þeir, sem drukku brennivínsblöndu, gagnrýndu mjög marga hluti í þjóðfélaginu og ekki alltaf á sérstaklega hæverskan hátt.

Til samanburðar voru menn, sem ekki fengu neitt áfengi, látnir ræða sömu málin, og málsmeðferð þeirra var allt önnur og mun mildari en hinna, sem höfðu drukkið. Þó vissu vísindamennirnir, áður en rannsóknin hófst, að um svipaða menn var að ræða, enda gafst öllum kostur á að ræða mál, bæði án áhrifa áfengis, undir áhrifum öls og undir áhrifum brennivínsblöndu. Endurtekning á því sama kom meira fram hjá þeim, sem drukku öl en brennivínsblöndu, en gagnrýni þeirra var aldrei sérlega hvassyrt. Var því líkast sem ölið kæmi mönnum ekki eins mikið úr jafnvægi og sterku drykkirnir, en deyfði hins vegar alla andlega starfsemi, eins og allt áfengi gerir, þegar þess er neytt, svo að nokkru nemur. Ættu menn við einhverja persónulega erfiðleika að stríða, kom það greinilega fram í orðum þeirra og gerðum, þegar þeir höfðu drukkið brennivínsblönduna.“

Tilgangurinn með öllum þessum rannsóknum er vitanlega sá að fá úr því skorið á hlutlægan hátt, hvaða áfengispólitík muni vera skynsamlegust. Ég hef áður getið um, hver starfsáætlunin var. Síðan heldur höfundur áfram og segir:

„Þegar ég spurði Fagerholm, einn þekktasta stjórnmálamann Finna, hvaða afleiðingar þessar rannsóknir, sem senn var þá lokið, mundu hafa á áfengispólitík Finna, þá sagði Fagerholm, að á því væri enginn efi, Finnar mundu reyna að draga úr neyzlu sterkra drykkja, eftir því sem við væri komið, en það yrði ekki reynt að gera það með banni og höftum, því að slíkt hefði sýnt sig eð vera algerlega þýðingarlaust. Finnar mundu reyna að hafa á boðstólum sem víðast létt vín og öl og væri nú unnið að því að gera tilraunir með ölframleiðslu í því skyni að gera ölið sem allra bragðbezt og aðgengilegast. Ofneyzla áfengis og óhappaverk þau, sem unnin væru í ölæði, væru svo mikið þjóðarböl, að sjálfsagt væri að hlíta niðurstöðum vísindanna og gera það, sem skynsamlegast hefði reynzt í slíku máli.“

Þetta var útdráttur úr erindi því, sem ríkisútvarpið hafnaði til flutnings á áðurnefndri forsendu.

Ég efa ekki, að Finnar hafa farið að ráðum þeirra manna, sem drógu sömu skoðanir og Fagerholm af þessari rannsókn. Mér þykir það líklegt eftir þeim tölum, sem fyrir liggja. Árið 1952, en þá var fyrir skömmu leyft sterkt öl í Finnlandi, var neyzlan 1.87 alkohóllítrar á hvern íbúa, nær hámarki 1955, verður 1.97 lítri, sama og var hér 1959, en árið 1956 fer talan að lækka og fer þá í 1.80, 1957 lækkar hún enn og kemst í 1.72, 1958 í 1.62 og svo loks 1959 í 1.72. Þarna kemur nákvæmlega sama staðreyndin í ljós og í Svíþjóð, þegar hömlur eru losaðar og leyfður sterkur bjór. Neyzla sterkra drykkja minnkar og einnig heildarneyzla alkohóls, eftir að óhjákvæmilegu hámarki er náð.

Ég hef því miður ekki tölur frá Tékkóslóvakíu né upplýsingar um þær forsendur, sem ráðamenn þar lögðu til grundvallar þeirri ákvörðun sinni að stórhækka verð á sterkum drykkjum til að gera fólk fráhverfara þeirri tegund áfengis, en fá það hins vegar til að snúa sér frekar að léttum vínum og góðu og heilsusamlegu öli.

Ég læt nú máli mínu lokið, og ég legg til, að málinu verði vísað að lokinni þessari umr. til hv. allshn. og 2. umr. Ég óska eindregið eftir því, að hv. n., sem fær málið til meðferðar, kynni sér til hlítar, hvaða skoðanir séu uppi um þessi mál hjá nágrannaþjóðum okkar, sem láta stjórnast af raunhæfu mati vísindanna eða vísindamanna, sem starfa á ári kjarnorku og tunglferða, en ekki á skoðunum, sem hafa til orðið fyrir síðustu aldamót. Ég teldi einnig nauðsynlegt, að hér væri gerður ýmiss konar samanburður á ýmsum þáttum okkar mannlega lífs, sem hefur verið talinn standa í beinu sambandi við áfengisneyzlu, ekki aðeins okkar, heldur og annarra þjóða.

Ég vona, að í þessum málflutningi mínum hafi komið fram skoðanir mínar á þessum málum. Ég geng út frá þeirri staðreynd, að hér verði áfengi um ókomin ár á boðstólum. Við getum kallað áfengi eitur, bölvald eða sáluhjálparmeðal, eftir því sem hver vill. En tilvist þess er staðreynd, og okkur ber að aðhæfa okkur á sem beztan hátt þeirri staðreynd. Við þurfum að forða ungum sem öldnum frá því að neyta þess í óhófi, en skapa aftur á móti þær umgengisvenjur, að þær séu sem við getum kallað vitrænar og menningarlegar og geti orðið bæði þeim, sem neyta þess, og öðrum að skaðlausu.