07.02.1961
Neðri deild: 57. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 441 í C-deild Alþingistíðinda. (2053)

144. mál, áfengislög

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Efni þess frv., sem hér er til umr. á þskj. 238, er einungis það að heimila ríkisstj. að leyfa tilbúning og sölu innanlands á öli, sem inniheldur 3½% af vínanda að rúmmáli, í stað þess að nú er leyft aðeins 2¼% af öli, sem búa má til og selja hér á innlendum markaði. í gildandi lögum frá 1954 hefur ríkisstj. heimild til þess að leyfa að framleiða öl, sem inniheldur meira en 2¼% af vínanda til útflutnings. Á því yrði þá engin breyting, hvort sem þetta frv., sem hér er til umr., yrði samþykkt eða fellt, það ákvæði stendur þá óhaggað. Efnisbreytingin er því engin önnur en sú, að leyft verði að framleiða hér og selja öl með 3½% vinanda innihaldi í stað 2¼%, sem nú er leyft.

Öll ummæli hv. flm. um auknar útflutningstekjur af öli, ef frv. yrði samþykkt, eru staðlausir stafir, því að samkv. gildandi lögum eru hér engar hömlur settar á framleiðslu og sölu á öli til útflutnings, hversu mikið sem það kynni að innihalda af vínanda. Það er því beinlínis villandi, sem sagt er í grg. frv., að ef frv. þetta yrði samþykkt, veittist ríkisstj. heimild til þess að leyfa tilbúning og sölu öls á innlendum markaði og til útflutnings, sem hefur inni að halda 3½% af vínanda að rúmmáli, því að þetta leyfi er þegar fyrir hendi. Með þessu er verið að reyna að telja almenningi trú um, að nú sé fyrst verið að leyfa að búa til sterkara öl til útflutningsins og að það út af fyrir sig skapi þjóðinni svo og svo mikinn gjaldeyri, sem henni er sannarlega þörf á. Mér þykir rétt að benda á þetta atriði, og þá jafnframt á hitt, að breytingin, sem borin er fram í þessu frv., er sú ein að hækka vínandainnihald þess öls, sem leyfa skal sölu á innanlands, úr 2¼ upp í 3½%. Og breytingin á lögunum er engin önnur, ef frv. er samþykkt óbreytt.

Þó að menn greini mjög á um það, hvaða leið sé heppilegust til þess að draga úr neyzlu áfengra drykkja og jafnframt að milda þær afleiðingar, sem því eru samfara að neyta vínanda í óhófi, þá virðist þó lítill eða enginn ágreiningur vera um það, að of mikil áfengisnautn er böl. Hve mikið það böl er, fer svo allt eftir því, á hvaða stigi ofdrykkjan er. Ég tel, og ég er áreiðanlega ekki einn um þá skoðun, að áfengisnautn íslendinga í dag sé svo stórkostlegt böl, að það sé eitt stærsta böl þjóðarinnar, miklu meira böl og miklu meira vandamál en nokkurt annað eitt vandamál, sem þjóðin á við að stríða. Ég veit ekki, hvort hv. flm. er sömu skoðunar, en ég vil þó benda á, að síðasti málsliður í 5. mgr. grg. á bls. 2 gefur fullt tilefni til að halda, að ástand það, sem hér ríkir í áfengismálunum, eftir því sem hann sjálfur lýsir því, sanni að verulegu leyti ummæli mín um þetta atriði, en þar stendur orðrétt, með leyfi hæstv. forseta: „Glæpir vaxa, afbrotum fjölgar, sívaxandi drykkja meðal unglinga veldur stórkostlegum glæpafaraldri meðal þeirra, slysum og jafnvel manndrápum.“ Þetta eru ekki mín orð, þetta eru orð hv. flm. í lýsingunni á ástandinu, eins og það er í dag, eftir að búið er að gefa þjóðinni það frjálsræði, sem sótzt var eftir 1954, sem ég mun koma að síðar.

Er unnt að benda á nokkurt annað böl, sem við eigum við að stríða, sem skapar landi og þjóð jafnmargþættar hörmungar? Ég fullyrði, að svo sé ekki. Ég hygg, að hv. flm. sé mér þar sammála. Og þetta ástand í áfengismálum okkar ríkir nú hér með vaxandi glæpum og afbrotum, sívaxandi drykkju meðal unglinga, stórauknum glæpaferli þeirra, stórauknum slysum og jafnvel manndrápum, þrátt fyrir breytingarnar, sem gerðar voru á áfengislögunum 1954 til mikils frelsis í sölu áfengis, — þótt ölið væri að vísu ekki leyft þá, — sem allt átti að bæta þáverandi ástand, en því miður hefur versnað á þann hátt, sem hv. flm. lýsir svo greinilega í grg. Mun þessi sorglega reynsla af því frelsisspori, sem þá var stigið, vera orðin þjóðinni æði dýrkeypt, úr því að árangurinn er orðinn svo sem hér segir og sjálfur hv. flm. hefur lýst svo raunalega í sinni grg.

Þegar það er viðurkennd staðreynd, að áfengismál okkar séu eitt mesta eða jafnvel allra mesta bölið, sem við eigum við að stríða, þá ber okkur skylda til að taka höndum saman og beita okkur fyrir því að leysa þann vanda, og það er alveg sérstaklega skylda hv. alþm. Fjöldi manna mælir svo, að þeir vilji það af heilum huga. En mjög stór hópur þeirra manna mælir hér af engum heilindum. Þeir meta langflestir meira gleði hins sterka við glasaglaum og nautn, sem veitir ákveðinn unað, á meðan henni er haldið innan takmarka skynsemi og velsæmis, en sorgir hinna veiku, sem falla fyrir freistingunum, sjálfum sér, fjölskyldu sinni og þjóðinni til ómetanlegs tjóns og armæðu, og í krafti þessa mats á málinu krefjast þeir meira frelsis fyrir þann sterka og meiri sorga fyrir þann veika, þótt það samtímis færi miklu meira böl yfir alla þjóðina í heild.

Þegar ég sat hér á Alþingi um allmörg ár sem formaður hv. fjvn., taldi ég það eina af skyldum mínum að kynna mér nokkuð ástandið í áfengismálum þjóðarinnar, engu síður en ástand í ýmsum öðrum málum, til þess að geta myndað mér skoðun á því máli sem öðrum, er Alþingi lagði framlög til. Ég vissi áður, að hér mundi vera margt, sem þyrfti að umbæta, en mig dreymdi þó aldrei um það, að ég ætti eftir að sjá ég kynnast því hyldýpi af ömurleika og sorg, sem ofdrykkjan hafði steypt ýmsum mætum þjóðfélagsþegnum í. Sé nokkur sá maður, sem ber á það brigður, að hér sé um mikið vandamál að ræða, þá er það vegna þess og þess eins, að hann hefur ekki lagt á sig að kynnast ástandinu, eins og það er raunverulega.

Þess er ekki að vænta, þó að við séum allir á einu máli um það, að hér séum við að glíma við eitt mesta vandamál þjóðarinnar og brýna nauðsyn beri til þess að ráða á því skjóta og góða bót, þá séum við jafnsammála um það, hvernig vandann skuli leysa. Og um það atriði eitt stendur deilan og torveldar allar viturlegar umbætur. Þessi afstaða til hins mikla vanda er mannleg, en hún er eigi að síður skaðleg fyrir alla þjóðarheildina. Það ber því ekki að harma það eða vita, að málið er flutt hér á Alþingi í því formi, sem það hefur verið flutt hér, þótt það sé á annan hátt en margir óska. Það gefur a.m.k. tilefni til umræðna. Og ég tel þeim tíma ekki illa varið, sem varið er til umræðu um þetta mikla vandamál hér á Alþingi. Vera mætti, að eitthvað gott mætti af því leiða.

Nú liggur hér fyrir hv. deild ein till. á þskj. 238, og ætlast hv. flm. til þess, að hún bæti að verulegu leyti úr því böli, sem áfengisnautnin leiðir yfir þjóðina.

Þótt till. þessi um tilbúning og sölu á öli innanlands, sem inniheldur meira en 2¼ % af vínanda, sé ekki ný, því að hún er borin fram í frv. bæði 1947 og 1954 og felld í bæði skiptin, þá eru þó meginrökin fyrir flutningi hennar alveg spánný og hafa aldrei komið fram fyrr. En þau eru sem hér segir, orðrétt, með leyfi hæstv. forseta: „En meginröksemdir sínar telur hv. flm. vera þær, að slíkt bann sem nú er á áfengu öli sé móðgun við menningarþroska og frelsiskennd íslenzkra þegna.“ — Þetta er meginástæðan fyrir því að bera tillöguna fram — og einnig að með slíku banni sé ekkert samræmi í framkvæmd áfengismála, þegar leyfð sé sala og neyzla sterkra drykkja, en fordæmd neyzla á veikustu tegund áfengis.

Önnur rök, sem hv. flm. leggur þó ekki eins mikla áherzlu á, eru, að frv., ef að lögum verður, mundi draga úr leynibruggi öls, gefa ríkissjóði drjúgum meiri tekjur og breyta á ýmsan hátt til hins betra drykkjuósiðum. En allt eru þetta rök, sem áður hafa verið færð fram af öðrum aðilum og eru ekki ný. Og í sambandi við það þykir mér rétt að skýra nokkuð frá þeim átökum, sem urðu hér á hv. Alþingi um þessi atriði, er núv. áfengislöggjöf var til umr. og endanlega .samþykkt árið 1954. Ég þykist vera nokkuð kunnugur þeim málum, vegna þess að ég átti mjög mikinn þátt í því, hvernig gengið var frá þeim lögum á þeim tíma.

Á Alþingi 1950 var flutt þáltill. af Sigurði Bjarnasyni, þar sem skorað er á ríkisstj. að láta fara . fram fyrir næsta Alþingi endurskoðun á áfengislöggjöfinni í þeim tilgangi að stuðla að hóflegri og skynsamlegri meðferð áfengra drykkja, eins og segir í tillögunni. Þessi till. fékk þó ekki afgreiðslu, en í umr. um hana tók þáv. og núv. hæstv. dómsmrh., Bjarni Benediktsson, fram, „að áfengislöggjöfina verði að endurskoða, svo að skynsamleg og hófleg notkun áfengis geti átt sér stað.“ Þetta eru hans óbreytt orð. Hann segir enn fremur: „Ég þarf ekki að taka það fram, að ég vil láta þá skipun verða á þessum málum, að drykkjuskapur geti minnkað og orðið sem hneykslisminnstur.“

Hæstv. dómsmrh. skipaði síðan fimm manna nefnd, þann 28. apríl 1951, til þess að endurskoða áfengislöggjöfina og færa hana í það form, að unnt verði að ná þessum höfuðtilgangi, sem hann lýsti hér í sinni ræðu. Og ráðherra skipar nefndina þannig, að sem flest sjónarmið komi fram frá öllum þeim, sem um þessi mál höfðu rætt og töldu, að breytingar á löggjöfinni væru mjög aðkallandi fyrir þjóðina.

Á Alþingi 1952 leggur ráðherra fram frv. til áfengislaga á þskj. 33 ásamt ýtarlegri grg. frá þeirri n., sem hafði unnið að þessum málum og m.a. samið frv. og grg. Mesti ágreiningurinn í n. varð um 1. gr. frv., hvernig hún skyldi orðuð, enda skyldi sú grein marka þá stefnu, sem ætlazt var til að yrði ríkjandi í áfengismálum hér að lögunum óbreyttum. Fjórir af fimm nm. urðu sammála um, að greinin skyldi orðast þannig:

„Tilgangur þessara laga er sá að stuðla að hóflegri meðferð áfengis og vinna gegn misnotkun þess.“

Einn nefndarmannanna, Brynleifur sál. Tobíasson, vildi hins vegar orða greinina þannig: „Tilgangur þessara laga er sá að stuðla að því, að meðferð áfengis verði með þeim hætti, að neyzla þess verði takmörkuð sem mest má verða og komið verði í veg fyrir drykkjuskap og hinar hættulegu afleiðingar hans.“

Um þessa orðun var raunverulega höfuðágreiningur í n. og raunverulega ekki um neitt annað. Á þinginu 1952 fékk frv. ýtarlega athugun.

Voru bornar fram eigi færri en 50 brtt. við frv., sem langflestar miða að því að tryggja sem bezt megintilgang frv., eins og hann var markaður í ummælum hæstv. ráðh. og af nefnd þeirri, sem undirbjó frv. M.a. kom fram till. um að fella niður heimild til þess að framleiða sterkt öl til sölu innanlands, því að það var upphaflega í frv. Frv. náði ekki fram að ganga á þessu þingi, en var flutt á ný á þinginu 1953 og þá óbreytt að öðru leyti en því, að heimildin til að leyfa framleiðslu á sterku öli til sölu innanlands hafði verið felld niður úr frv., og það var vegna umr. á Alþingi árið áður, er hæstv. ráðh., sem þá lagði frv. fram, vissi, að fyrir frv. óbreyttu fengist ekki nægjanlegt þingfylgi. Á því þingi komu fram flestar þær brtt., sem áður höfðu verið fram bornar, og voru ýmsar þeirra, sem miðuðu að því að tryggja meginstefnu frv., samþ., en aðrar felldar. Var þar m.a. samkomulag um að breytu 1. gr. laganna svo sem hér segir:

„Tilgangur laga þessara er sá að vinna gegn misnotkun áfengis í landinu og útrýma því böli, sem henni er samfara.“

Með samþykkt þessarar tillögu fellir Alþingi það ákvæði í frv. að stuðla að hóflegri meðferð áfengis í landinu, en tekur upp í greinina í staðinn ákvæði um að útrýma því böli, sem samfara er misnotkun áfengis í landinu. Og á þessu er reginmunur. Varð frv. að lögum á þessu þingi og 1. gr. þess samþ. þannig, og hafa lögin engum breytingum tekið síðan.

Það er engum vafa bundið, að það, að till. Brynleifs heitins Tobíassonar, að neyzla áfengis verði takmörkuð sem mest má verða, er felld í nefndinni og fæst ekki síðar tekin upp í þinginu, stafar beinlínis af því, að ekki þótti rétt að setja slíkt ákvæði inn í lögin, svo lengi sem ríkissjóður byggði afkomu síná á sölu áfengis og þeim gróða, sem af henni fékkst. Ef það hefði ekki verið, hefði engin fyrirstaða verið að fá greinina samþykkta eins og hún var orðuð af minni hl. nefndarinnar. En sé þetta athugað í ljósi þessara staðreynda, sést bezt á orðalagi 1. gr., hversu sterkur vilji er fyrir því í þinginu að takmarka svo sem unnt er áfengisneyzluna. Að gengið var inn á margvíslega rýmkun á sölu áfengis og meira frelsi, var beinlínis vegna þess, að sett voru ný ákvæði samtímis í löggjöfina um miklu meiri og víðtækari fræðslu í þessum málum og enn fremur ákvæði um miklu meira eftirlit með framkvæmd l., sem hvort tveggja átti að miða að því að skapa hér betri umgengnissiði í sambandi við vínnautn og meira frjálsræði, en það töldu andstæðingar allra hafta um notkun áfengis þá eins og nú höfuðnauðsyn, til þess að unnt væri að skapa hér drykkjumenningu á borð við þá menningu, sem komin væri á meðal flestra menningarþjóða utan Íslands. Hér tókst samkomulag á milli þeirra tveggja aðila, sem voru með og móti því að reyna þetta frelsi, gegn miklu viðtækara eftirliti og miklu víðtækari fræðslu í þessum málum.

Þau ákvæði l., sem gáfu meira frelsi, voru öll og eru öll enn notuð til hins ýtrasta. Hin, sem áttu að tryggja umbæturnar, hafa verið og eru enn meira og minna vanrækt, enda er árangurinn sá, sem sjálfur hv. flm. hefur lýst og ég hef hér bent á á öðrum stað í ræðu minni.

Hvernig hefur t.d. verið um framkvæmd 31. gr. l., en hún mælir fyrir um, hvernig haga skuli fræðslu um þessi mál í skólum landsins? Samkvæmt ákvörðun laganna hefur ráðuneytið gefið út reglugerð um, að eigi skuli varið minni tíma til kennslu í hverjum skóla en sem svarar tveimur klukkustundum á mánuði hverjum, og mörg önnur ákvæði til tryggingar fræðslunni. En ég spyr: Er framkvæmdin þannig í öllum skólum landsins? Mér er ljóst, að í sumum skólum þekkist hún ekki, í öðrum skólum er hún veitt sem svarar 45 mínútum á öllu skólaárinu — og alls staðar í meiri og minni molum og hvergi svo sem lög og reglur mæla fyrir um. Er þetta ærið íhugunarefni, og má ekki við svo búið standa lengur, því að það er vitanlegt, að einmitt fyrir það, að þessi þátturinn var ekki uppfylltur, er ástandið í málunum eins og hv. flm. lýsir í grg.

Þau skilyrði voru sett fyrir leyfi til vínsölu, að veitingahús hefðu á boðstólum mat og fjölbreytta óáfenga drykki við hóflegu verði og væru enn fremur fyrsta flokks að því er snerti húsakynni og þjónustu. Hefur þessum ákvæðum verið fylgt? Er það t.d. hóflegt verð að selja gosdrykkjarflösku því verði, að ódýrara sé að drekka þar vín en gosdrykki? Eða selja þeir staðir, sem hvorki hafa á boðstólum óáfenga drykki við hóflegu verði né mat, áfengi ólöglega, og þeir eru alls ekki fáir hér í þessum bæ og kannske víðar á landinu? Og ef svo er, hvers vegna er þeim þá ekki lokað? Hve mikið böl leiða ekki þessir staðir, sem safna til sín stórum hópum manna og hafa allar dyr sínar opnar fyrir viðskiptavinum langt fram á nætur, yfir þegna þjóðfélagsins? Og hve oft er það ákvæði 16. gr. brotið, að áfengi má ekki afhenda né veita mönnum, sem bersýnilega eru ölvaðir? Ef þetta ákvæði eitt væri haldið, mundi áfengisbölið minnka stórkostlega og verða allt miklu auðveldara viðfangs. En í hvaða húsum hér er hætt að selja manni eða afhenda manni áfengi, þegar sér á honum? Hér er langt frá því, að sé staðar numið, og þarf eigi lengi ,að staldra við á veitingastöðunum til að sannfærast um það. Og ég vildi nú gjarnan mælast til þess, að hv. flm. gæfi sér tíma til þess að rölta á þessa staði til þess að sjá, hvort þessi ákvæði laganna hafi verið uppfyllt. Hann kynni þá að vilja a.m.k. taka inn í frv. einhver frekari ákvæði um viðurlög, t.d. að taka veitingaleyfi af þeim húsum, sem gerbrjóta ekki einu sinni, heldur daglega þetta ákvæði laganna.

Þegar þær tilslakanir voru gerðar að leyfa fleiri útsölustaði en áður var, voru þau rök þung á metaskálunum, að þetta mundi bæta úr þeim vanda, sem gistihússkorturinn skapaði. Þetta voru ein af þeim sterku rökum, sem voru færð fram fyrir því. En hafa menn þotið í það að koma hér upp gistihúsum vegna þeirra ákvæða? Nei, þessi fríðindi notuðu menn miklu fremur til þess að koma upp matstofum og samfara þeim einnig drykkjustofum og alls konar gleðikrám, sem mjög vafasamur menningarauki er að, þegar öll kurl eru komin til grafar. Það voru þeir aðilar, sem notuðu sér öll fríðindin.

Ég gæti rakið þessi mál miklu nánar, en skal þó ekki fara frekar út í þau atriði að sinni. Þá þykir mér rétt að snúa máli mínu beint til hv. flm. frv. Telur hv. flm. raunverulega, að verði frv. að lögum óbreytt, þá bæti það verulega úr þeim vanda, sem hér er til staðar? Er það hans óraskanlega skoðun, að þá fækki glæpum, þá fækki afbrotum, þá dragi úr drykkju meðal unglinga, þá fækki slysum og manndrápum, þá minnki drykkjuósiðir og þá sé hreinþvegin af móðgun við menningarþroska og frelsiskennd íslenzkra þegna? Þetta skilst mér að hafi verið hans skoðun, þegar hann flytur þetta frv. Eða er hv. flm. að mæla öll þessi stóru orð bara til að blekkja hv. alþm., sem eiga hér að gera upp huga sinn á undan atkvgr.? Heldur hv. flm. virkilega, að enginn hv. alþm. hafi á sinni löngu þinggöngu kafað dýpra en svo í sambandi við þennan þjóðarvoða, að hann við að hlusta á þessi rök finni þar allan sannleikann? Það getur vel verið, að hann, sem setið hefur svo skamman tíma á þingi, haldi, að þetta sé mögulegt. Ég get fullvissað hann um, að þingmenn þurfa miklu meira til þess að skipta um skoðun í þessu máli heldur en það. Ef till. fylgdi einhver till., sem tryggði, að sala hinna sterku drykkja færi minnkandi með ölsölunni, eða einhverjar raunhæfar till. til þess að skapa drykkjumenningu, sem menn svo kalla, þá væri hægt að ræða um þessi atriði. En hér er aðeins um það eitt að ræða að bæta við áfengisneyzluna í landinu og síðan fullyrt, að allt hitt komi af sjálfu sér. En svo einfalt er málið því miður ekki. Heldur til dæmis hv. flm., að það yrði framvegis einhver þriggja og hálfs prósents ölblær á rússagildunum í háskólanum, burtfarargleðigildum menntaskólamanna eða árshátíðargildum skólamanna yfirleitt, ef frv. yrði samþykkt, svo að nefnd séu aðeins nokkur dæmi, þar sem menningarþroskinn og frelsiskenndin hafa jafnan verið í hávegum höfð, því að ekki verður það sagt um þessa staði, að þetta hafi þar verið útilokað? Mætti nokkurt mark taka á grg. frv., trúir hv. flm. þessu ekki. Hann telur þar að athuguðu máli, að heppilegast sé, að sala áfengs öls fari fram aðeins á þeim stöðum, sem veitingaleyfi hafa, og á vegum áfengisverzlunar ríkisins. Hann vill m.ö.o. ekki, að þetta ágæta meðal, sem örugglega á að draga úr eða stöðva ofnautn enn sterkari drykkja, fáist almennt og haftalaust. Er sýnilegt á þessu, að hann trúir ekki sjálfur á boðskap sinn. Svo örugglega treystir hann ekki á mátt ölsins til að bæta úr hinum þekktu drykkjuósiðum.

Ég hlustaði með athygli á öll þau rök, sem hv. flm. færði fyrir máli sínu í sinni löngu og ýtarlegu framsöguræðu, og þó að hún væri í alla staði mjög fróðleg og bæri vitni um þrautseigju og dugnað hv. flm. að afla margvíslegra gagna, verð ég, samt að segja, að mér fannst meginið af ræðunni ekkert koma þessu frv. við og samanburður allur gerður af handahófi og engan veginn byggður á rökréttum athugunum, heldur teknar fullyrðingar, sem í fyrstu virtust styðja málstað hv. flm., en féllu sem spilaborg, ef andað var á þær jafnvel veikasta andblæ raunveruleikans. Skal ég taka hér nokkur dæmi.

Hv. flm. kvaðst aldrei t.d. hafa séð ölvaðan verkamann í Englandi, þótt þar væri mikil öldrykkja. Veit ekki hv. flm., að Bretar urðu að grípa til þess ráðs að loka ölstofunum frá kl. 12 til 6 eftir hádegi og opna þær aðeins á milli 10 og 12 árdegis, einmitt vegna þess, hversu sterk ásóknin var frá verkamönnum í ölið í vinnutímanum? Er honum alveg ókunnugt um það, að allar verksmiðjur og skipasmíðastöðvar í Bretlandi loka verkafólkið inni um vinnutímann og gæta þess alveg sérstaklega að hleypa engum. út, fyrr en ölkrárnar eru allar komnar örugglega undir lás og loku? Þetta er ástandið þar. Eða treystir hv. flm. sér til þess að halda því fram, að þetta hafi engin áhrif á öldrykkju verkamanna í vinnutímanum, þegar er búið algerlega að útiloka þá frá möguleikum til þess að ná í það? Ég hef einnig, engu síður en hv. flm., átt þess kost að ferðast töluvert erlendis og setið m.a. allmörg hóf á flestum Norðurlöndum og víðar og viðurkenni fúslega, að þar ríkja allt aðrir og betri drykkjusiðir en hér á landi. En ég mótmæli því harðlega, að það sé vegna þess, að þar hafi ríkt sums staðar og ríki nú víðast frjáls drykkja á sterku öli, gagnstætt því, sem hér á sér stað. Ástæðurnar eru allt aðrar. Mun hér ekki ráða meiru um aldalöng og þrotlaus kennsla í umgengni, einnig þá er vín er haft um hönd, og að þess vegna hafi þessir siðir skapazt þar þrátt fyrir frjálsa sölu á sterku öli? Það er einmitt þessi fræðsla, sem ég hef hafið baráttu fyrir hér á þingi og vil, svo lengi sem ég á sæti hér halda þeirri baráttu uppi.

Ég veit ekki heldur, að hve miklu leyti því megi treysta, sem hv. flm. fullyrti í ræðu sinni, að danskir verkamenn sæjust aldrei ölvaðir, gagnstætt verkamönnum Gautaborgar, sem ávallt hefðu verið augafullir, á meðan ölbannið var þar í landi. Þó að satt væri, sem ég skal engan dóm á leggja, gæti þetta átt sér aðrar orsakir en þær, að í Danmörku væri frjáls ölsala, en fjötruð í Svíþjóð. Það gæti eins vel stafað af hinu, að í Danmörku gilti sú regla og henni stranglega fylgt að leyfa engum að vera ölvaður á almannafæri, heldur væri hann samstundis fjarlægður af lögreglunni, svo sem vera ber, en í Gautaborg væri þessu öfugt farið. Vilji hins vegar hv. flm. halda fast við þá fullyrðingu, að aldrei sjáist ölvun á dönskum verkamönnum, hvorki úti né inni, vildi ég mega benda honum á að kynna sér nokkrar ölstofur í Nýhöfninni í Kaupmannahöfn, þar sem einkum og sér í lagi er selt öl og lítið af öðrum sterkum drykkjum, og sjá, hvernig ástandið er þar. Hann kynni þá að skipta um skoðun, ef hann legði leið sína um þessar ölkrár, og ekki vera þeirrar skoðunar, að danskir verkamenn geti ekki einnig fallið fyrir þessari freistingu og það á nærri því hvaða tíma dagsins sem væri, og er þó á flestum þeirra aðeins veittur sá drykkur, sem nefndur er danskur bjór. Enginn samanburður gefur rétta hugmynd, þegar dæmin eru valin þannig, að það bezta er tekið úr einu landi, en hið lakasta úr öðru, og það sýnist hv. flm. hafa gert, þegar hann ber saman ástandið í Danmörku og í Svíþjóð. Ég veit heldur ekkert um það, hversu vel má treysta því, að hér séu örugglega 2000 drykkjusjúklingar á Íslandi og ef til vill væri nær að færa þá tölu upp í 8000 eða rúmlega 1% til nærri 5% af allri þjóðinni, eins og mér skildist á ræðu hv. flm., en aðeins ½% í Þýzkalandi, þar sem öldrykkja væri þó hvað mest. Hitt er ljóst, að sé þetta svo, þarf áreiðanlega önnur og sterkari tök á þessu vandamáli en þau, sem felast í frv. hv. flm., enda játaði hann hreinskilnislega, að ölið gæti aldrei útrýmt ofdrykkju, í hæsta lagi gæti það dregið eitthvað úr henni.

Þá ræddi hv. flm. lengi um það, að samkv. nýjustu uppfinningum lækna og sálfræðinga væri nú ljóst, að það væri einkum kvíðni, sem orsakaði ofneyzlu áfengis og eiturlyfja. Ég hélt nú satt að segja, að þetta væru ekki nein ný sannindi, sem hér er um að ræða. Hefur það ekki verið venja öldum saman að gefa mönnum stríðsöl, áður en lagt væri til orrustu, og þá sjálfsagt til þess að auka eitthvað kjarkinn í göngunni á móti öruggum dauða? Mundu ekki tillögur okkar, sem andvígir erum vinnautn almennt, vera þessum mönnum hollari en ölið, eða heldur hv. flm., að ölið sé nokkur lækning á þeim kvilla, eins og hann hélt fram í ræðu sinni?

Þá gaf hv. flm. í ræðu sinni mjög fróðlega skýrslu yfir vísindalegar rannsóknir, sem fram hefðu farið í Finnlandi á mönnum, sem neytt höfðu öls, léttara víns og sterkra drykkja. Fannst mér sú skýrsla öll sanna berlega, að ekki ætti að bæta öldrykkju við til frekari neyzlu, því að þar kom svo skýrt fram, að eigi verður um deilt, að öldrykkjan ein getur haft hin skaðlegustu áhrif. Og ummæli þau, sem hv. flm. hafði eftir herra Fagerholm um áfengismál Finna, voru svo almenn, að þau styðja á engan hátt tillögu þá, sem fram er borin á þskj. 238. Annars vill nú svo vel til, að ég þekki persónulega mjög vel herra Fagerholm, ég hef setið með honum mörg hóf og átt við hann samræður um ýmis þjóðfélagsvandamál, og mætti draga nokkra ályktun af þeim samræðum, þá yrði hún sízt af öllu til stuðnings því frv., sem hér er til umræðu.

Þótt ég hafi varið hér alllöngum tíma til þess að andmæla ýmsu því, sem fram kom í framsöguræðu hv. flm. og í grg. frv., skal þó viðurkennt, að ég er sammála hv. flm. um önnur atriði, sem fram komu í ræðu hans, og þó einkum eftirfarandi:

Í fyrsta lagi, að rétt sé að vinna að vernd barna gegn áfengisnautn allt frá upphafi og halda því síðan stöðugt áfram fram á fullorðinsþroska. Um þetta er ég honum sammála. En hvernig verður þetta bezt gert? Veitir frv. þetta slíka vernd? Ég held, að hvernig svo sem komið yrði fyrir tilbúningi og sölu 3½% öls, sé gersamlega útilokað, að það geti veitt þá vernd, sem hér um ræðir og er afar nauðsynlegt að unnt sé að veita. Alger afneitun öls og annars vínanda um meðgöngutímann og fram yfir þann tíma, er móðir hættir að næra barnið með brjóstmjólkinni, er áreiðanlega miklu sterkari vernd en dagleg neyzla öls, sem inniheldur 3½%. Sívakandi fræðsla um hættur og tjón af áfengisnautn, á meðan barnið er á þroskastigi og allt upp í fullorðinsárin, er áreiðanlega miklu farsælli vernd en daglegur drykkur þess öls, sem hér um ræðir, þótt ekkert annað sterkara kæmi til.

Hann sagði enn fremur, að skapa eigi þá skoðun, að ofneyzla áfengis sé siðleysi. Þessu er ég alveg sammála. Þessi skoðun verður ekki að mínu áliti sköpuð með þeirri viðbótarneyzlu, sem flm. leggur til að lögfest verði. Hér verður að taka upp aðra hætti, fallast meira á tillögur okkar, sem viljum skapa þetta með fræðslu og skynsamlegum áróðri. Við eigum skóla, við eigum kirkjur, blöð, kvikmyndahús, útvarp og væntanlega innan skamms einnig sjónvarp. Ef allir þessir aðilar vildu taka saman höndum og halda uppi fræðslu um þessi mál og sýna þjóðinni látlaust fram á þá þjóðfélagslegu nauðsyn að útrýma því böli, sem áfengisnautnin skapar og viðheldur, þá er enginn vafi á því, að mikill árangur næðist á skömmum tíma, og þegar þjóðin hefði brynjað sig þannig gegn voðanum, skapað sér sjálf öruggari varnir, þá og þá fyrst þolir hún að umgangast þá hættu, sem vínnautn ávallt býður heim.

Hann sagði enn fremur: Hvað höfðingjarnir hafast að, hinir meina sér leyfist það. — Ég er honum sammála einnig um það atriði. Hér grípur hv. flm. í ræðu sinni á einum hinum raunverulegasta vanda í sambandi við baráttuna gegn vínnautn og misnotkun áfengis. Það hefur jafnan verið svo og mun jafnan verða svo, að múgnum þykir að því sómi að líkjast sem mest höfðingjunum í hvívetna, og þegar um það er að ræða, að hvatir hins almenna borgara falla í sama farveg og siðir höfðingjanna, þykir jafnvel ekkert við það að athuga, þótt undan þeim sé látið. Annaðhvort þykir það þá mjög fínt eða mjög afsakanlegt. Og hverjir eru hér hinir eiginlegu höfðingjar? Það eru allir þeir, sem aðrir líta upp til, hvort sem þeir eru settir hátt eða lágt í mannvirðingastiganum, leiðtogarnir, á hvaða sviði sem er, og þá ekki hvað sízt höfðingjar heimilanna, sem börnin líta upp til og keppast við að læra af allt, sem þau sjá fyrir sér, þar til þeim hefur vaxið svo skilningur, að þau fara að hugsa sjálfstætt og álykta sjálfstætt.

Sá boðskapur hæstv. ríkisstj., að fellt yrði niður vínblönduhóf á nýársdag, sem venja hafði verið að halda um mörg undanfarin ár, vakti óhemju fögnuð um allt land. Hér eygðu menn vísi að því, að skilningur á vandamálum, sem þjóðin á við að stríða, væri að koma ofan frá. Þjóðin mun því fagna því í vaxandi mæli, að þaðan komi úrbæturnar gegn bölinu. En verði frv. það, sem hér er til umr., samþykkt óbreytt, styrkir það ekki þá von, að umbæturnar séu væntanlegar ofan frá.

Í grg. segir hv. flm., að í áfengislöggjöfinni verði að vera samræmi eins og í öðrum lögum. Telur hv. flm., að samþykkt þessa frv. sé í fullu samræmi við 1. gr. áfengislaganna, eins og hún er í dag óbreytt? Telur hann, að takmarkalaus sala á sterku öli útrými því böli, sem samfara er misnotkun áfengis? Er það hans raunverulega skoðun? Ef ekki, er hann að reyna að skapa ósamræmi í löggjöfinni í stað þess að samræma ákvæði hennar.

Þeir háttvirtu þingmenn, sem líta svo á, að þetta frv. útrými áfengisbölinu, ljá því fylgi. Hinir samþykkja þá breytingu, sem ég ber fram á þskj. 277 og ég skal hér gera nokkra grein fyrir.

Í brtt. minni legg ég til, að 1. gr. frv. verði orðuð um. Þykir mér rétt að vekja sérstaka athygli á því, að verði till. samþ., er jafnframt heimildin til innanlandssölu á öli með 3½% vínanda innihaldi felld, þar sem mín tillaga kæmi þá í stað 1. gr. frv., eins og hún er. Að ég tek þetta fram hér svo skýrt, stafar af því m.a., að hv. flm. sjálfum var það ekki alveg ljóst, þegar ég ræddi þetta mál við hann fyrst, og hélt hann þá, að hér væri aðeins um viðbótartillögu að ræða, er hann kvaðst vera mjög fylgjandi. Verði till. hins vegar felld og frv. samþykkt, vil ég á síðara stigi málsins freista þess að fá till. samþykkta sem viðbótarákvæði við frv. En ákvæðum þeim, sem í till. felast, er jafnnauðsynlegt að koma inn í löggjöfina, hvort sem 1. gr. frv. verður samþykkt eða felld. Og ég vil einmitt beina því til þeirrar hv. n., sem hér fær þetta mál til afgreiðslu, að afgreiða málið, því að till. mín er jafnnauðsynleg brtt. við lögin, eins og þau eru nú, og þarf þar af leiðandi að koma til atkv. hér í d., hvað sem líður skoðun manna á því, hvort eigi að leyfa öl eða ekki. Skal ég nú bera till. saman við gildandi lög, eins og þau eru nú.

Í brtt. er lagt til, að 2. mgr. 31. gr. l. orðist um. Til þess að fá fullt samhengi er rétt, að ég, með leyfi hæstv. forseta, lesi 31. gr., eins og hún er nú:

„Í öllum skólum, er opinbers styrks njóta, skal fara fram fræðsla um áhrif áfengisnautnar. Sérstaka áherzlu skal leggja á að upplýsa, hvaða áhrif ofnautn áfengis hefur á líkama mannsins, vinnuþrek, siðferðisþroska hans og sálarlíf, á heimili manna, umgengnisvenjur og almenna siðfágun, á fjárhag einstaklinga og þjóðarinnar, á öryggi í vandasömu starfi og atvinnu manna almennt. Enn fremur skal veita fræðslu um það, hver sé öruggasta leiðin til að forðast ofnautn áfengis.“

Þessu ákvæði var komið inn í lögin, eftir að hæstv. ráðh. hafði lagt frv. fram hér 1953. Sú gr., sem ég óska að verði breytt, hljóðar í dag þannig:

„Fræðslumálastjóra skal skylt að sjá svo um, að skólarnir eigi þess jafnan kost að fá hentugar kennslubækur og kennslukvikmyndir til fræðslu um áhrif áfengisnautnar, eftir því sem við á á hverju skólastigi.“

Verði mín brtt. samþykkt, verður niðurlag gr. þannig:

„Áfengisvarnaráð lætur gera kvikmyndir um öll þau atriði, sem talin eru upp í 1. málsgr. þessarar greinar. Skal fræðslumálastjórninni skylt að sjá um, að skólarnir eigi jafnan kost á að sýna kvikmyndir þessar í heild eða kafla úr þeim, eftir því sem við á á hverju skólastigi, og að þeir eigi enn fremur aðgang að hentugum kennslubókum og öðrum kennslukvikmyndum til fræðslu um áhrif áfengisnautnar, enda sé haft fullt eftirlit með því, að haldið sé uppi slíkri fræðslu í skólum landsins. Kostnaður við kvikmyndagerðina greiðist úr gæzluvistarsjóði.“

Ég legg því hér til, að samfara bóklegri kennslu sé einnig hafin kennsla með kvikmyndum. Mér er það fullkomlega ljóst, að kvikmyndakennsla er miklu áhrifaríkari en bókleg kennsla, og það er þess vegna, sem ég legg þetta til, svo og af öðrum ástæðum, er ég skal aðeins ofur lítið skýra frá.

Ég hef alveg nýlega átt þess kost að horfa á kvikmynd, sem tekin hefur verið hér í bæ af einstökum þáttum þess mikla böls, sem ofnautn og misnotkun áfengis leiða yfir þjóðina. Þar voru einnig áhorfendur ýmsir leiðandi menn þjóðarinnar, ýmsir höfðingjar, bæði úr prestastétt með biskup landsins í fararbroddi, ýmsir úr kennarastétt, útvarpsstjóri og margir aðrir menntamenn. Ég held, að ég megi fullyrða, að engum viðstöddum hafi dulizt, að hér var mikið vandamál skráð í myndum, sem eru óhrekjanlegar og sumar allhrollvekjandi, og þó veit ég af eigin sjón, að hér var aðeins um að ræða brot af þeirri sorg og þeirri kvöl og þeim kvíða, sem umlykur þegna þessa fagra og góða lands, sem við byggjum. Hér var aðeins tekinn til meðferðar einn þáttur og hann engan veginn til fulls, hin almennasta ástæða fyrir fjarvistum barna og unglinga í skólum og vanræksla á uppeldi þeirra og vernd á heimilum, sem leiða til afbrota og villu, svo að börn, sem annars gátu orðið góðir og nytsamir borgarar, urðu þjóð sinni til ævarandi byrði og sjálfum sér til armæðu.

Með skipulagsbundnum myndum, teknum úr lífinu, ekki einasta af því, sem miður fer, heldur engu síður af hinu, sem vel fer, og sýna þá lífshamingju, sem fólgin er í því að berjast gegn hinu illa, — með skipulagsbundnum sýningum á slíkum myndum úr lífi og baráttu þjóðarinnar má m.a. ná stórkostlegum árangri í uppeldi þeirrar kynslóðar, sem jafnan tekur við til þess að færa þjóðina á sífellt hærra menningar- og þroskastig.

Á síðustu öld eignuðust frændur okkar, Norðmenn, tvo af sínum mestu andans mönnum, sem undirbjuggu sjálfstæði þjóðarinnar, svo að hún væri betur undir það búin að mæta þeim vanda að vera sjálfstæð þjóð. Þessir menn voru þeir Björnstjerne Björnson og Ibsen. Björnson dró jafnan fram það bezta, sem þjóðin átti í skapgerð, listum, menningu og athöfnum, og hvatti æskuna til að hafa það jafnan að leiðarvísi í lífinu, lifa og starfa eftir því lögmáli. Verk hans voru eins og ljós, sem logar í byggðinni og lýsir og hrópar til vegfarandans, sem ráfar í myrkrinu: Hér er ylur, hér er skjól. Hingað skaltu koma. — Ibsen dró hins vegar fram skuggahliðarnar, benti óvægt á veilurnar, sem þjóðin yrði að laga, ætti hún að halda velli. Verk hans voru eins og vitar á hinum stórbrimótta skerjagarði Noregs, sem að vísu skinu eins skært og oftast skærara en ljós Björnsons, en þetta ljós hrópaði til þjóðarinnar: Hér eru hættur. Hingað máttu ekki fara. — Það var lengi um það deilt, hvort ljósið væri þjóðinni farsælla, en nú, þegar bæði þessi stórmenni andans eru gengin og ævi þeirra öll, ber flestum saman um það, að hvor í sínu lagi hafi gefið þjóð sinni það, sem hún mátti ekki án vera, ef hún átti að vera sjálfstæð þjóð. Ber ekki að sama brunni hér? Verðum við ekki, ef vel á að fara, að láta bæði ljósin brenna, það, sem vísar veginn úr myrkri og villu í skjól og yl, og það, sem hrópar frá brimóttri strönd ofnautna og villu: Hér eru hættur. Hingað máttu ekki koma.

Till. mín á þskj. 277 miðar að því, að þjóðin viðhaldi báðum þessum leiðarljósum.

Ég heyrði, að hv. flm. óskaði eftir því, að þessari till. yrði vísað til hv. allshn. Mun hafa ráðið þar nokkru um, að málið var á sínum tíma í þeirri nefnd. Ég vil hins vegar gera það að till. minni, að málinu verði vísað til hv. menntmn. Mér er það ljóst, að mín till. fjallar um atriði, sem menntmn. á að fjalla um. Menntmrn. hefur m.a. allar framkvæmdir á vörn þeirri, sem veitt er unglingum, sem leiðast yfir á afbrotabrautir og langsamlega mest fyrir óreglu á heimilunum, og ég vil vænta þess, að hv. d. fallist á það, að þar eigi till. frekast heima. Er það því till. mín, að málinu verði vísað til hv. menntmn. og að hv. menntmn. eða hvaða nefnd sem annars kann að fá málið svæfi ekki þetta mál, heldur láti ganga um það hér atkv., hvort hv. Nd. vill láta brugga og selja hér innanlands sterkari bjór og þá hvort hún einnig samfara því vill láta gera þær umbætur á fræðslunni, sem í minni till. felast, eða hvort hún vill fella till. um ölið og samþykkja mína till. um viðbótarfræðslu í þessum málum til þess að reyna að draga úr því stórkostlega böli, sem hér er á ferðinni.