09.02.1961
Neðri deild: 58. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 480 í C-deild Alþingistíðinda. (2057)

144. mál, áfengislög

Flm. (Pétur Sigurðsson) [frh.] :

Herra forseti. Þegar hæstv. forseti frestaði umr. um mál þetta s.l. þriðjudag, hafði ég nokkuð rætt um ýmsar þær fullyrðingar, sem komið höfðu fram hjá þeim þrem ræðumönnum, sem talað höfðu þann dag um frv. það, er hér liggur fyrir til umr. Ég hafði t.d. þakkað hv. 3. þm. Vesturl. fyrir meðferð hans á málinu. Hann er að vísu andstæðingur þess, en hann ræddi það málefnalega, hafði að nokkru leyti dregið afstöðu sína af dómum annarra, að vísu merkra manna, en þó einstaklinga, sem telja, að öll neyzla áfengis, í hvaða mæli sem er og hvaða mynd sem er, sé hættuleg. Ég hafði svarað nokkru af því, sem þessi hv. þm. hafði sagt og ég taldi mig sem flm. að þessu frv. þurfa að svara. Ég mun ekki tefja störf þingsins við að endurtaka meira en nauðsynlegt er til að sýna fram á, að mistúlkun annarra á orðum mínum hafi átt sér stað. Ég vil þó undirstrika enn á ný svör mín við ýmsu því, sem þessi hv. þm. sagði og reyndar fleiri hafa gert af þeim hv. þm., sem rætt hafa um þetta mál og móti því talað.

Sú fullyrðing þeirra, sem hafa andmælt þessu frv., um það, að ég hafi átt að telja, að sterkum drykkjum yrði útrýmt með samþykkt þessa frv., er alröng. Ég benti hins vegar á þær staðreyndir, sem fyrir lægju í ýmsum nágrannalöndum okkar um það, að úr drykkju sterkra drykkja mundi draga, ef samþykkt slíks frv. yrði gerð hér á hv. Alþ. Ég benti á tölur frá Svíþjóð og Finnlandi, sem sýndu bæði, að heildarneyzlan hafði minnkað við tilkomu ölsins þar, jafnframt því sem neyzlumagn sterku drykkjanna hafði stórlega minnkað. Ég benti á, að hjá sumum þjóðum hefði beinlínis verið af opinberum aðilum, af þeirra löggjafarþingum, hvatt til neyzlu öls frekar en neyzlu sterkra drykkja, í fullri vitund um það, að tala alkohóllítranna pr. mann pr. ár mundi hækka. Þeir gerðu sér þetta fyllilega ljóst, og þetta var einfaldlega gert vegna þeirrar staðreyndar, að neyzla sterkra vína er hættulegri fyrir einstaklinginn, sem neytir áfengis í þessari eða hinni myndinni, heldur en ölneyzlan, bæði á því stigi áfengisneyzlu, sem má kalla ofneyzlu, og eins á öðrum stigum. Það má líka geta þess einmitt í þessu sambandi, enda held ég, að einn af andmælendum hafi nokkuð komið inn á það, fyrir þá, sem halda því fram, að glæpir og lögbrot haldist í hendur við áfengisneyzlu, að í Þýzkalandi, sem er talið „typískt“ bjórneyzluland, er kostnaður hins opinbera vegna löggæzlu eða vegna baráttu við glæpi og afbrot, getum við kallað það, aðeins helmingur sama kostnaðar í Bandaríkjunum, sem verða ekki talin vera bjórneyzluland í neinum líkum mæli og Þýzkaland er.

Ég minntist einnig í svarræðu minni hér á þriðjudaginn á fullyrðingar þessara andmælenda um það, að ég hefði sagt, að áfengisneyzla væri menningaratriði og jafnvel að aukin menning væri fólgin í þeirri breytingu áfengislaganna, sem hér er til umræðu. Þessum fullyrðingum mótmælti ég auðvitað, og ég benti á þá skoðun, sem ég held fram og hef alltaf haldið fram, að það hefði ábyggilega verið betra, ekki aðeins fyrir íslenzku þjóðina, heldur og fyrir allar þjóðir, að þær hefðu aldrei þekkt áfengið i einni eða annarri mynd. Hins vegar væri tilvist þess staðreynd, sem við yrðum að sætta okkur við og reyna að aðhæfa okkur þeirri staðreynd á sem beztan hátt. Ég hef sagt og ég segi enn, að við þurfum að forða ungum sem öldnum frá því að neyta áfengis í óhófi, en skapa aftur á móti þær umgengnisvenjur, að þær séu það, sem við getum kallað vitrænar og menningarlegar og geti orðið bæði þeim, sem neyta þess, og öðrum að skaðlausu. Þegar ég hef rætt um menninguna og áfengisneyzlu, hefur það eingöngu verið í sambandi við menningarlegar neyzluvenjur og menningarlegar umgengnisvenjur. Öllum öðrum orðum, sem mér hafa verið lögð í munn í sambandi við áfengi og menningu, vísa ég heim til föðurhúsanna.

Þeirri spurningu hefur verið varpað til mín, hvort ég teldi heppilega leið, þegar rætt væri um ólöglega bruggun, að lögleiða lögleysuna, og jafnframt, hvort lögleiða ætti stuld, ef einhver mundi stela. Þessi spurning gæti orðið tilefni mikilla umræðna, sem ég skal ekki stuðla að, en ég vil hins vegar benda á, að margir mundu nú telja, að skynsamlegt væri að ryðja þeim hindrunum úr vegi, sem gera margan einstaklinginn að lögbrjót. Ég hef áður bent á þá skoðun mína, að almenningur hefði það alls ekki á tilfinningunni, að sá einstaklingur væri að brjóta lög eða væri afbrotamaður, sem bruggaði öl fyrir sig eða sitt heimili, og eingöngu vegna þess, að bruggun á öli er alls ekki í ósamræmi við réttarvitund fólks né siðferðisvitund. Er þar alveg ólíkt um að segja og þegar verið er að gera samanburð á þessu atriði og þjófnaði. Í Biblíunni segir t.d., að menn eigi ekki að stela. En ég man ekki eftir því, að neins staðar standi i Biblíunni, að það eigi ekki að brugga öl eða neyta víns. Hins vegar bendir Biblían oft á, að það eigi að umgangast þessa hluti af hófsemi. En mig langar í þessu sambandi að varpa fram þeirri spurningu til þeirra, sem þetta hafa dregið fram, einmitt þetta atriði, hvaða ráð þeir sjái til þess að fyrirbyggja þessa bruggun, sem ég hef haldið fram og það með nokkrum rétti að eigi sér stað hjá einstaklingum, ekki aðeins hér í Reykjavík, heldur og um allt land. Hvernig ætla þeir að sjá fyrir því, að þau lög, sem við búum við, áfengislög, séu ekki brotin á þessu sviði? Á að senda réttargæzlumenn inn á heimili manna og gera leit þar? Ég á við í þessu tilfelli þá einstaklinga, sem brugga öl til sinnar eigin neyzlu, til sinnar heimilisneyzlu, ekki til þess að selja eða njóta ágóða af. Það væri gaman að fá svar við þessari spurningu frá þeim, sem hafa dregið þetta atriði fram.

Ég svaraði í minni fyrri ræðu af ásettu ráði ekki ræðu fyrsta andmælanda þessa frv., hv. 2 þm. Austf., Halldórs Ásgrímssonar, enda mun hann hafa verið veikur að undanförnu. En það er þó sumt í þessari ræðu, sem verður ekki komizt hjá að minnast á, en að sjálfsögðu mun ekki verða eins ýtarlega farið út í það og hún gefur tilefni til vegna fjarvistar hans.

Það er margt af því, sem kom fram í ræðu hans, sem ég hef þegar minnzt á og sé enga ástæðu til þess að endurtaka, og hinar almennu hugleiðingar hans ræði ég ekki, þó að mér finnist að mörgu leyti vera hlálegt af þessum hv. þm. að nota mikinn hluta af ræðutíma sínum til þess að sýna fram á, hve frv. sé illa undirbúið og að það hefði þurft að vera ýtarlegra á mörgum sviðum, en þegar hann er búinn að nota megnið af sínum ræðutíma til þess að sýna fram á þetta, leggur hann til, að það sé fellt við 1. umr. Þetta kallar maður nú að fara sparlega með tíma þingsins.

Þessi hv. þm. lagði fyrir mig allmargar spurningar, og eins og ég sagði, eru margar þeirra spurningar, sem ég hef þegar svarað. En það er þó eitt auðsætt á þessum spurningum hans, að hann hefur ekki minnstu hugmynd um, að hér á landi er bruggað áfengt öl í dag. Hann hefur ekki gert sér neina grein fyrir þeirri staðreynd. Ég veit ekki til þess, og hann a. m. k. gat þess ekki og ég hef aldrei heyrt talað um, að það hafi orðið nein misbrúkun á þeirri heimild, sem einmitt leyfir þá bruggun. Þessum hv. ræðumanni virðist líka algerlega ókunnugt um ákvæði áfengislaganna um áfengisvarnaráð og skyldur ríkisstjórna, allra ríkisstjórna, um að leita álits þessa áfengisvarnaráðs, áður en reglugerðir samkvæmt áfengislögunum eru gefnar út.

Þessi hv. þm. dró það út úr minni grg. með frv. og jafnframt af minni framsöguræðu, að ég hefði verið að tala um ölsmygl, þegar ég var að tala um þann mikla fjölda af bjórflöskum, sem hér væru í umferð á Íslandi í dag. Þetta er alrangt hjá þessum hv. þm. Ég hef aldrei nokkurn tíma minnzt á neitt ölsmygl, enda kom þessi hv. þm. með skýringuna á þessum bjórflöskum í sínu máli. Það er einkennilegur hugsunarháttur, sem hefur gripið þennan þm. að draga ölsmygl inn í þetta mál. Það er hvergi minnzt á það, hvorki i grg. né mínu máli. Hins vegar benti ég á, að það væru hér þegnar á Íslandi, sem ættu þess kost að fá áfengan bjór. Ég geri ráð fyrir fljótt á litið, að þeir séu um 1000–1200 að tölu, og þeir hafa aðstöðu til þess að fá þetta áfenga öl til sinnar neyzlu. Þessi skipan mála gagnvart þessum mönnum hefur verið viðurkennd, ekki aðeins af þessari núv. hæstv. ríkisstj., heldur af öllum ríkisstj., svo langt sem ég man, eftir að ég fór að fara á milli landa. Ég man ekki betur en það hafi einmitt verið sú ríkisstj., sem þessi hv. þm. studdi, sem kom þeirri skipan á þessi mál, sem við búum við í dag. Framkvæmd þessarar skipunar hefur verið í höndum ekki aðeins flokksbróður, heldur og náfrænda þess ráðherra, sem hafði með þessi mál að gera. Eftir þessum orðum þessa hv. þm. mætti helzt skilja eftir því að dæma, hve bjórinn sé hættulegur nú í dag fyrir allan landslýð, að þessi ráðh. og þessi umræddi tollgæzlustjóri hafi viljað þessum 1000–1200 Íslendingum allt annað en vel, sem ég leyfi mér þó að mótmæla. Ef ég á að vera slíkt illmenni með flutningi þessa frv., sem hér hefur komið fram hjá sumum mönnum, mætti alveg eins halda því fram, að þessir ráðamenn væru ekki síðri mér í illmennskunni, svo að ég segi ekki meira.

Hann kom inn á það í sinni ræðu, að hann hefði lesið í huga mér um ein og önnur atriði, bæði úr grg. og eins úr framsöguræðu. Ég vil leyfa mér að vísa þessu heim til föðurhúsanna, og það er leiðinlegt að þurfa að verða til þess hér á hv. Alþ. að lýsa því yfir, að maður, sem nýtur þeirrar trúnaðarstöðu, sem hann er nýbúinn áð taka við, að vera bankastjóri á Austurlandi, að þessi maður sé algerlega ólæs, en það liggur beinast við að gefa þá yfirlýsingu eftir þessi ummæli hans.

Það var mjög merkilegt líka, sem þessi hv. þm. kom inn á, þegar hann fór að draga fram nafn hins virðulega þingskörungs, Péturs Ottesens, og vitna í hann. Ég segi nú bara: Fyrr mátti vera, að þessi hv. þm. viðurkenndi kosti þessa þm. En hann athugar það ekki, að um leið og hann er að bera mig og þennan nafna minn saman og mér til ófrægðar, vegna þess að við erum ekki og hefðum ekki verið, hefðum við átt hér sæti báðir, sammála um þetta mál og erum ábyggilega ekki enn þá, þá er hann um leið að níða niður og ófrægja sína eigin flokksbræður. Og mér finnst það vera lítil og léleg laun fyrir góða og dygga þjónustu, ekki aðeins hans málstað, heldur og þingsins, að á slíkan máta skuli vera farið með menn eins og t. d. Bernharð Stefánsson, núv. búnaðarmálastjóra, Bjarna Ásgeirsson og jafnvel hv. annan skrifara þessarar deildar, sem allir hafa átt einhvern tíma aðild að flutningi ölfrv. og það jafnvel ölfrv., sem fór fram á sterkari heimild en ég geri í dag. Og ég man ekki betur en nú fyrir skömmu hafi formaður Sambands ungra framsóknarmanna gefið út þá yfirlýsingu á prenti í blaði, sem nýfarið er að gefa hér út, að hann væri fylgjandi því, að hér væri leyfður áfengur bjór eða áfengt öl. Eru allir þessir menn slík illmenni, sem hefur komið fram í ræðum eða sérstaklega ræðu þessa hv. þm. að ég væri? Ég leyfi mér að mótmæla því. Ég skal alls ekki kveða upp neinn dóm um þeirra innra hugarfar, en hins vegar þori ég að taka það á mig að lýsa því yfir, að þeir séu ekki illmenni af því að hafa tekið þessa afstöðu til áfengs öls.

Þá vitnaði þessi hv. þm. og reyndar 3. þm. Vesturl. líka í tvo alkunna og glæsilega lækna, Vilmund landlækni og Helga Ingvarsson yfirlækni á Vífilsstöðum. Ég tók það einmitt fram í minni framsöguræðu, að jafnvel þótt kenningar, sem Vilmundur hélt á lofti fyrir 20–30 árum eða svo, hefðu verið taldar góðar og gildar þá, væru þær það alls ekki í dag, það væru komnar allt aðrar kenningar upp, bæði hjá læknum og öðrum vísindamönnum, sem hafa rannsakað þessi mál, sem eru byggðar á allt öðrum grundvelli. Ekki ætla ég mér hér á Alþingi að fara að tæta neitt utan af þessum góðu mönnum, því að þeir eiga það sízt skilið. En ég er ótrúaður á, að Helgi Ingvarsson yfirlæknir á Vífilsstöðum hefði látið sér það nægja i baráttunni við berklana, að það yrði sett í lög ákvæði um, að berklar væru bannaðir. Ég er anzi hræddur um, að hann hefði ekki látið þar við sitja, heldur hefði hann snúið sér að því, sem hlýtur að vera mál málanna, og það er lækning þess sjúkdóms, sem leiðir til ofneyzlu áfengis.

Þessi hv. þm., 2. þm. Austf., minntist á það snemma í sinni ræðu, að flutningur frv. væri óþurftarverk við Reykvíkinga. Og hann kom með þá furðulegu staðreynd, sem kom líka fram hjá hv. 1. þm. Vestf., að þetta mundi leiða til þess, sagði hv. 2. þm. Austf., að öl yrði gefið skólabörnum hér á morgnana í stað mjólkur og hafragrauts, og 1. þm. Vestf. betrumbætti þetta, mig minnir, að hann hafi minnzt á, að öl mundi koma í stað móðurmjólkur. Svona ofstæki gengur of langt. En það er rétt að draga einmitt fram þessar yfirlýsingar þessara manna hér á þingi til þess að undirstrika það ofstæki, sem er á bak við hjá sumum mönnum, sem hafa rætt um málið.

Ég hafði að nokkru svarað hv. 1. þm. Vestf. í minni síðustu ræðu. En það voru þó nokkur atriði, sem ég átti eftir ósvarað. Hann varpaði þeirri spurningu til mín, hvort ég teldi, að þetta frv. væri i samræmi við 1. gr. áfengislaganna, ef takmarkalaus sala á öli yrði leyfð. Nú hef ég þegar tekið fram og margundirstrikað þá skoðun mína, að ég einmitt vil ekki takmarkalausa sölu, hvorki á þessari tegund áfengis né öðrum tegundum. En ef við lítum á 1. gr. áfengislaganna, þá segir í henni, að tilgangur þessara laga sé sá að vinna gegn misnotkun áfengis í landinu. Þar sé ég hvergi, að eigi að vinna gegn notkun þess, heldur misnotkun, eða eins og ég mundi túlka það, gegn ofnotkun, og greinin heldur áfram: „og útrýma því böli, sem henni er samfara,“ sem sagt bölinu, sem er samfara misnotkuninni. En hins vegar er staðreynd, að þegar við lítum á ástandið í dag, þá má segja sem svo, að þessi 1. gr. hafi ekki verkað betur þrátt fyrir góðan vilja þeirra, sem áttu hlut í að setja hana inn í áfengislögin, en að bölinu hafi ekki verið útrýmt, en ölinu hafi verið útrýmt.

Ég var að nokkru leyti búinn að svara þeim orðum þessa þm. áðan, þegar hann hélt því fram, að ég hefði sagt, að þetta frv. mundi útrýma áfengisbölinu. Það hef ég aldrei sagt, enda geri ég mér fulla grein fyrir því, að þessi tegund áfengis eins og aðrar getur skapað áfengisböl, ef um misnotkun er að ræða. En það er athyglisverð staðreynd, og ég hef reyndar bent á þá staðreynd áður, að um leið og við hér á Íslandi höfum ekkert öl, þá telja fróðustu menn, að tala drykkjusjúklinga okkar sé 1.3% af heildaríbúatölu þjóðarinnar, en á sama tíma er tala drykkjusjúklinga í landi eins og Vestur-Þýzkalandi, sem er, eins og ég sagði líka áðan, „týpískt“ bjórneyzluland, aðeins ½%, og samt má segja, að vínneyzlan þar eftir þessum kjánalegu alkohóllítrum, sem hafa alltaf verið lagðir til grundvallar í öllum dómum um áfengismál, ekki aðeins þessarar þjóðar, heldur og annarra, sé meira en þrisvar sinnum meiri en okkar. Mér finnst þetta vera eftirtektarverð staðreynd, sem við ættum að líta kannske með meiri íhygli á en við höfum gert.

Ég held, að ég hafi nú minnzt á flest þau atriði, sem ég tel máli skipta. Ég sé ekki ástæðu til þess að hafa þessi orð lengri að sinni. Ég vil aðeins taka það fram, að ég sé ekki ástæðu til þess að efna til langra umræðna um þetta úr þessu og mun þess vegna ekki svara, nema gefist sérstakt tilefni til. Mér finnst, að málið hafi verið nógu lengi hér til umr. Hér hefur ekkert nýtt komið fram, frá því að 3. þm. Vesturl. hélt sína ræðu hér. Hún var a.m.k. laus við það ofstæki, sem hér ríkir hjá mörgum, sem um þetta mál vilja ræða.