09.02.1961
Neðri deild: 58. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 485 í C-deild Alþingistíðinda. (2058)

144. mál, áfengislög

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Hér hefur farmaður, hv. 12. þm. Reykv., ýtt skipi sínu úr vör, frv. um breyt. á áfengislögum, sem hér liggur fyrir. Á siglingu þess í fyrradag gerðist sá óvenjulegi atburður, að vélameistarinn, hv. 1. þm. Vestf., neitaði að hlýða hringingu af stjórnpalli frá stýrimanni, hv. 12. þm. Reykv. Þegar stýrimaður gaf fyrirmæli um fulla ferð áfram, setti vélstjórinn aftur á bak. Hvernig verður nú með framhald ferðarinnar? Mér sýnist ríkja um það fullkomin óvissa eftir þessa uppreisn í vélarúminu, engu minni óvissa en var hér á dögunum um það, hvernig hinni ævintýralegu ferð portúgalska skipsins Santa Maria mundi ljúka, eftir að ráðin höfðu þar verið tekin af skipstjórnarmönnum. Skyldi hv. 12. þm. Reykv. nokkuð geta bjargað sér á seglum? Ætli hann hafi nokkra háseta, sem kunna að hagræða seglum? Ég efast um það. Þau eru heldur lítið notuð nú á seinni tímum á þessari öld vélvæðingarinnar.

Ég hef hlýtt á þessar umr. frá byrjun með vakandi eftirtekt. Ég hef m.a. heyrt hér ræður þeirra tveggja farmanna, sem ég nefndi, hv. flm. og hv. 1. þm. Vestf. Það er oft gaman að, hlusta á frásagnir farmanna, sem víða hafa farið um önnur lönd, því að þeir kunna frá mörgu að segja. Þessir hv. þm. hafa komið til margra landa og skoðað lífið þar, eru kunnugir m.a. í hafnarborgum, hafa komið þar á öldrykkjustofur m.a., kynnzt drykkjusiðum þar og framferði manna. Það var fróðlegt á þetta að hlýða.

En það kom fram í þessum umr., að hv. 1. þm. Vestf. er reynslu ríkari en hinn, og er það reyndar eðlilegt, því að það, er eldri maður. Hann sagði okkur ekki aðeins frá því, sem hann hefur séð á ölstofum í hafnarborgum, heldur sagði hann okkur frá því, sem reyndar er nú vitað áður, að hann hefur oft á liðnum árum mætt erlendis í fínum veizlum með stjórnmálaforingjum annarra þjóða og öðru heldra fólki, og það kom fram hjá honum, eins og reyndar vænta mátti, að í þeim samkvæmum fer allt siðsamlega fram. Í þeim veizlum ræðast menn við persónulega og kynnast persónulega, og m.a. sagði hv. 1. þm. Vestf. okkur frá því, að í þeim veizlum hefði hann komizt í kunningsskap við einn frægan Finnlending, sem heitir Fagerholm. Menn ræða sem sagt í þessum veizlum um ýmis vandamál mannkyns, og hv. þm. lét þess getið, að hann hefði rætt við þennan finnska Fagerholm m.a. um áfengisvandamálin og þeir skipzt á skoðunum um þau efni. Þegar ég hlýddi á þennan þátt í ræðu hv. 1. þm. Vestf., kom mér í hug vísa, sem er um það bil 60 ára gömul. Hún er í Alþingisrímunum. Þar er sagt frá því, að frambjóðandi einn — á Vesturlandi — var að tala við háttvirta kjósendur fyrir kosningar. Hann tíundaði ýmislegt sér til framdráttar og m.a. þetta:

Hef ég og með höfðingjum

heldur verið talinn

og í nefnd í útlöndum

öðrum fremur valinn.

Það kom hins vegar ekki fram í ræðum hv. 12. þm. Reykv., að hann hefði setið veizlur margar með fyrirmönnum í öðrum löndum. Má þó vel vera, að hann hafi einhvern tíma komið í slíkt samkvæmi. En hv. 12. þm. Reykv. hafði samt nokkuð hér til mótvægis, því að hann hafði í höndunum ritsmíð eina, einmitt eftir hinn sama finnska Fagerholm, og vitnaði óspart til hennar í ræðum sínum. En þrátt fyrir upplýsingar þeirra beggja er það enn langt frá því að vera nógu skýrt fyrir mér, hver afstaða Finnans Fagerholms er í þessu bjórmáli. Mér skildist á ummælum hv. 1. þm. Vestf., að sá finnski maður mundi hafa heldur andúð á bjór. En aftur á móti virtist mér flm. frv, vitna í ritverk Fagerholms til stuðnings sínu máli, því, sem hér liggur fyrir. Þetta væri mikils um vert að fá að vita greinilega, hvernig þessi merki maður þar austur í Finnlandi lítur á málið, og nú held ég, að einmitt bjóðist tækifæri til þess. Fundur Norðurlandaráðs mun eiga að verða núna seinna í þessum mánuði, að ég held í Kaupmannahöfn, og hv. 1. þm. Vestf. mun fara þangað. Ég held, að hann sé formaður íslenzku sendinefndarinnar, sem þangað fer. Nú tel ég eiginlega alveg víst, að Fagerholm hinn finnski verði líka á þessu móti. Og þá hittast þeir í veizlu. Því hefur nefnilega verið útvarpað yfir heimsbyggðina nú nýlega, að það eigi að halda þeim veizlu í Kaupmannahöfn, og þar er sagt frá því, að aðalrétturinn þar verði heitar pylsur. Þetta er nú eitt dæmi um ágæta fréttaþjónustu nú á tímum, að menn skuli fá vitneskju um þetta löngu fyrir fram. En þarna gefst einmitt ágætt tækifæri fyrir hv. 1. þm. Vestf. að taka nú Fagerholm tali, endurnýja gamlan kunningsskap við hann og fá alveg hrein svör hans um það, hver afstaða hans sé í þessu bjórmáli. Það gæti verið ákaflega gott fyrir þá nefnd, sem fær þetta frv., að vita það, hvort sem það verður nú heldur allshn. d. samkv. till. flm. eða hv. menntmn. samkv. till. 1. þm. Vestf. Ég held, að það borgaði sig fyrir n. að fresta afgreiðslu málsins, þangað til þeir kæmu heim af Norðurlandaráðsfundi og þetta fengist greinilegar upplýst.

Ég hef ekki aðeins hlýtt með athygli á þær umr., sem hér hafa farið fram. Ég hef að sjálfsögðu einnig lesið frv. og grg., sem því fylgir, og satt að segja kemur mér sumt þar dálitið einkennilega fyrir sjónir. Hv. flm. segir t.d. í grg., að um þetta mál, sem hér er á ferð, hafi verið og séu mjög skiptar skoðanir. Og í framhaldi af því segir hann: „Því er þetta frv. komið fram.“ Sem sagt, hann flytur málið vegna þess, að það hafa verið um það skiptar skoðanir. Mér finnst það nú ekki sterk röksemd eða veigamikið atriði í þessu. Ég fæ ekki séð nauðsyn á því að flytja frumvörp hér á Alþ. um ákveðin mál eingöngu vegna þess að það séu um þau mál skiptar skoðanir. Ég hefði haldið, að menn ættu að flytja frumvörp fyrst og fremst vegna þess, að þeir sæju brýna þörf fyrir að koma fram með mál, sem einhverjum mætti verða til gagns og heilla. En ég hef ekki séð í grg. og ekki heldur heyrt í ræðum manna því haldið fram, að þetta væri neitt nytsemdarmál, nauðsynlegt fyrir þjóðina eða mundi verða landsmönnum til gagns.

Eitt af því, sem hv. flm. talaði um í framsöguræðu sinni, var það, að hér væri til mikið af glerkútum eða glerbrúsum. Þeir hefðu komið til landsins utan um einhverja sýru, skildist mér, og þeir væru eftirsóttir, þessir brúsar, — og hann taldi, að þetta væru hentug ílát fyrir bjór. Nú get ég ekki fallizt á, að það út af fyrir sig sé þýðingarmikið atriði í málinu eða sterk meðmæli með því að fara að brugga hér sterkan bjór, þó að það kunni að vera til einhver ílát hér, sem vel mætti geyma hann í, og sé ég ekki, að það skipti máli, hvort þau ílát eru úr gleri eða gamlir trékútar, eins og notaðir voru hér áður fyrr.

Á einum stað í grg. segir hv. þm., að vínneyzla aukist hér með hverju ári, bæði sú, sem sést í skýrslum, og einnig hin, sem aldrei sést öðruvísi en í raun. En þetta er nú ekki rétt hjá hv. flm., þetta hlýtur hann að hafa sett þarna af vangá, því að skýrslur, sem birtar hafa verið nú í vetur, sýna það, að árið 1960 var áfengisneyzla hér á landi 10% minni en 1959.

En í niðurlagi grg. teflir hv. þm. fram því, sem hann kallar meginröksemdir í þessu máli. Hann segir, að meginröksemdirnar séu þær, að slíkt bann sem nú er á áfengu öli sé móðgun við menningarþroska og frelsiskennd íslenzkra þegna. Ég skal viðurkenna það með hv. flm., að það getur verið hættulegt að móðga menningarþroskann. Við skulum segja, ef hann væri nú svo stórkostlega móðgaður, að hann þyti af landi burt, vegna þess að hann fengi ekki hér drykk við sitt hæfi. Þetta væri náttúrlega mjög slæmt. En ég er ekki eins hræddur við þetta og hv. flm. Ég held, að það sé engin hætta á því, að menningarþroskinn yfirgefi okkur, þó að hann fái ekki sterkt öl. Það eru ýmsar tegundir af drykk hér fyrir, sem hann ætti að geta bjargazt við.

Eins og ég sagði áðan, hef ég ekki séð í grg. eða heyrt í ræðum manna, að það mundi verða neinum til gagns eða heilla, þó að hér væri farið að brugga og drekka sterkan bjór. En ég tel ákaflega sterkar líkur fyrir því, að samþykkt frv. og ef eftir því væri farið mundi leiða til þess, að hér yrði meiri áfengisneyzla eftir en áður. En ef þjóðin eykur áfengisneyzluna, mun henni verr farnast en áður. Þess vegna tel ég rétt af hv. þd. að fella þetta frumvarp.