19.01.1961
Neðri deild: 46. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 495 í C-deild Alþingistíðinda. (2068)

150. mál, ferðaskrifstofa ríkisins

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Ég vil aðeins með örfáum orðum láta í ljós andstöðu mína við þetta frv. Ég tel, að samþykkt þess mundi hafa illt eitt í för með sér, og vil undirstrika, að það er ekki sögð öll sagan varðandi efni málsins í þeim orðum, sem hv. frsm. mælti fyrir frv. Ferðaskrifstofan hefur verulegar tekjur af því að annast fyrirgreiðslu fyrir útlendinga. Ef hún yrði svipt einkarétti sínum til þess og þessi þjónusta flyttist á margar hendur, er enginn vafi á því, að tekjur ferðaskrifstofunnar, hennar almennu rekstrartekjur, mundu stórminnka. Það hefði á hinn bóginn í för með sér, að veita þyrfti stóraukið fé til ferðaskrifstofunnar á fjárlögum. Nú innir hún af hendi kostnaðarsama landkynningu erlendis og aflar sér að mjög verulegu leyti tekna til þess sjálf, fyrst og fremst með þessari starfsemi sinni. Það liggur því í augum uppi, að ef ekki á að draga verulega úr þessari landkynningarstarfsemi erlendis, sem engum mun þykja hyggilegt, þá mundi þurfa að stórauka framlög til ferðaskrifstofunnar á fjárlögum, ef frv. sem þetta næði fram að ganga. Þetta vildi ég láta koma fram þegar við 1. umr. málsins, af því að þetta veigamikla atriði kom ekki fram í ræðu hv. flm. fyrir frv.