26.01.1961
Neðri deild: 50. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 499 í C-deild Alþingistíðinda. (2077)

157. mál, sjómannalög

Frsm. (Birgir Finnsson):

Herra forseti. Frv. til laga um breyt. á sjómannalögum á þskj. 275 er samið að beiðni hæstv. sjútvmrh. af sömu nefnd og samdi frv. um breytingar á siglingalögunum. Er eðlilegt, að þetta tvennt fylgist að, því að upphaflega voru sjómannalögin sérstakur kafli í siglingalögunum, þ.e.a.s. kaflinn um skipshöfn, en með lögum nr. 41 19. maí 1930 var þessi kafli endurskoðaður og gerður að sérstökum lögum, sem nefnast sjómannalög. Við þessa breyt. var fylgt fordæmi hinna Norðurlandaþjóðanna. Sjómannalögunum frá 1930 hefur síðan verið breytt með l. nr. 36 frá 1941. Lutu þær breytingar, sem þá voru gerðar, aðallega að réttarstöðu loftskeytamanna, og eru breytingarnar frá 1941 felldar inn í þetta frv. Sjútvn. flytur frv. að beiðni hæstv. sjútvmrh. og áskilja einstakir nm. sér rétt til að flytja eða fylgja brtt., sem fram kunna að koma.

Ég leyfi mér að vísa til grg. með frv. varð-andi þau sjónarmið, sem fylgt hefur verið við samningu þess, en þar segir svo m.a., með leyfi hæstv. forseta:

„Með því að ljóst er, að breytingar þær, sem aðrar Norðurlandaþjóðir hafa gert á sjómannalögum sínum, horfa yfirleitt til bóta og eru í betra samræmi við siglingastarfsemi nútíðarinnar en hinar eldri reglur, þá hafa gildandi sjómannalög þeirra verið höfð til fyrirmyndar við samningu frumvarps þessa. Það er og mikilsvert að rjúfa ekki samræmi það, sem um langt skeiða hefur verið milli siglingalöggjafar Íslendinga og annarra Norðurlandaþjóða. Í nokkrum atriðum hefur þó verið vikið frá ákvæðum hinna norrænu sjómannalaga, þar sem annað þótti betur fara vegna íslenzkra atvinnuhátta og annarra ástæðna.

Með frv. þessu eru ekki gerðar neinar veigamiklar breytingar á réttarstöðu skipshafna. Hér er fremur um að ræða lagfæringar, ýmist til að nema burt úrelt ákvæði og setja önnur viðeigandi í staðinn eða til að fella fyrirmæli laganna betur að reglum almennrar atvinnulöggjafar.“

Óþarft er að bæta miklu við þessa grg. nefndar þeirrar, sem frv. samdi. Sjómannalögin eru talsvert yngri en siglingalögin og þess vegna minni þörf breytinga á þeim.

Nýmæli er það í 4. gr. frv., að skipstjóri skuli ráðfæra sig við bryta og stýrimenn, þegar undirmenn þeirra eru ráðnir, hliðstætt þeim ákvæðum, sem nú gilda um það, að skipstjóri skuli ráðgast við yfirvélstjóra um ráðningu annarra vélgæzlumanna.

Tekin eru upp í 5. gr. ákvæði núgildandi barnaverndarlaga um það, að því er pilta varðar, að bannað sé að hafa við vinnu á skipi yngri börn en 15 ára, en gagnvart stúlkum er aldursmarkið hækkað í 18 ár. Er þar farið eftir dönskum og sænskum sjómannalögum, en norsku lögin banna að ráða yngri stúlkur en 20 ára til vinnu á skipi. Nýmæli er það einnig í sömu grein, að skipverjar skuli ganga undir læknisskoðun, áður en þeir hefja störf sín á skipi, og verður að telja þetta sjálfsagða heilbrigðisráðstöfun.

Tillögur frumvarpsins í 7. gr. um lengingu á uppsagnarfresti skipverja eru til mikilla bóta, en þar er lagt til, að uppsagnarfrestur á skiprúmssamningum stýrimanna, vélstjóra, bryta og loftskeytamanna lengist úr einum mánuði í þrjá mánuði, sé eigi annað ákveðið um ráðningartíma. Á öðrum skiprúmssamningum skal uppsagnarfrestur samkv. frv. vera einn mánuður nema á íslenzkum fiskiskipum 7 dagar. Gilda í þessum tilfellum 7 dagar um aðra skipverja, nema á íslenzkum fiskiskipum aðeins einn dagur. Það síðastnefnda hefur einkum reynzt bagalegt, þegar fyrir hefur komið, að skipverjar á fiskibátum hafa notað sér þennan stutta uppsagnarfrest á miðri vertíð og valdið með því tjóni bæði útgerð og skipsfélögum sínum, þegar ekki hefur tekizt að ráða menn í þeirra stað samstundis, en oft hefur það orðið torvelt vegna hinnar miklu eftirspurnar eftir vinnuafli hin síðari ár. Að mínum dómi kæmi til álita, að frestur til uppsagnar á ráðningarsamningum á fiskiskipum yrði einnig einn mánuður. Það er ekki ósanngjarnt með tilliti til þess, að skipverjar hafa nú allir kauptryggingu, sem jafngildir sæmilegu kaupi hjá fastráðnu fólki. Tillöguna um sjö daga tel ég þó spor í rétta átt.

Í 10. gr. frv. eru ákvæði, sem miða að því að kveða skýrar á um réttindi skipverja til launa í veikindum.

Ég tel svo ekki ástæðu til að rekja frekar efni frv., en legg til, herra forseti, að því verði vísað til 2. umr. og að það hljóti afgreiðslu á þessu þingi. Þó vildi ég mega vænta þess, að samráð verði haft við sjútvn. um það, hvenær frv. verður tekið á dagskrá til 2. umr., þannig að n. fái frekara tækifæri til að athuga frv.